Hæstiréttur íslands
Mál nr. 323/2010
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 4. nóvember 2010. |
|
Nr. 323/2010. |
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn X(Guðmundur Ágústsson hrl.) (Grímur Sigurðarson hdl.) (Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur.
X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa með ólögmætri nauðung og ofbeldi þröngvað fyrrverandi eiginkonu sína B til samræðis í bifreið í kjölfar ökuferðar sem þau höfðu farið í. Þrátt fyrir eindregna neitun X var talið afar ótrúverðugt að B hafi fallist á að hafa kynmök við X umrætt sitt. Framburður B var talin nákvæmur og greinargóður og fullt samræmi á öllum stigum málsins. Þá væri hann jafnframt studdur því sem fram hefði komið við læknisskoðun. Var brot X talið varða við 1. mgr. 194 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að um var að ræða gróft brot gegn kynfrelsi B. Þótti refsing X hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Þá var X gert að greiða B 1.000.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. maí 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd, auk þess sem krafist er endurskoðunar á niðurstöðu héraðsdóms um fjárhæð sakarkostnaðar.
B krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst aðallega sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að refsing verði milduð og hann sýknaður af kröfunni, en hún ella lækkuð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 597.957 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 7. apríl 2010.
Mál þetta höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 18. desember 2009 á hendur ákærða, X, kt. [...], [...], [...] í [...]. Málið var dómtekið 12. mars 2009.
Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir nauðgun, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 28. febrúar 2009, í bifreiðinni [...], í nágrenni við [...]veg, á vegarkafla vestan [...] og austan bæjarmarka A, [...]sveit, með ólögmætri nauðung og ofbeldi þröngvað B, kennitala [...], til samræðis með því að fara með hana nauðuga á afvikinn stað og notfæra sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni vegna aflsmunar og það að hún var ein með honum í bifreiðinni fjarri öðrum og með því að ýta henni aftur í bifreiðina og halda henni þar í tökum, meðal annars með því að halda um báða handleggi hennar og liggja ofan á henni, og með því að beita fótafli til að komast inn á milli fótleggja hennar, á meðan hann kom fram vilja sínum.“ Er þetta talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einnig er í ákæru tekin upp einkaréttarkrafa B, en hún krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 28. febrúar 2009 til 12. apríl 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður, bótakröfu vísað frá dómi og sakarkostnaður felldur á ríkissjóð.
I.
Ákærði og B gengu í hjúskap árið 2003 og eiga þau þrjú börn saman fædd á árunum [...] til [...]. Fyrir áttu þau bæði börn frá fyrri samböndum. Hjónin bjuggu á C þar til í febrúar 2009, en þá lauk sambúðinni. Flutti konan af heimilinu með börnin til A þar sem hún tók saman við mann að nafni D.
Laugardaginn 28. febrúar 2009 kom ákærði akandi frá C til A til að ræða við B. Mun ákærði hafa komið að heimili hennar og D að [...] þar í bæ og dvalið þar um stund. Ákærði og B fóru síðan akandi á bifreið hennar og ók ákærði bifreiðinni, sem er af gerðinni [...], en um er að ræða stóra bifreið með þremur sætaröðum. Ákærði mun hafa ekið út fyrir A og stöðvað bifreiðina við afleggjara nærri [...]. B hefur greint frá því að ákærði hafi gegn vilja hennar haft við hana samræði í bifreiðinni. Ákærði hefur kannast við að þau hafi haft kynmök en það hafi verið með hennar samþykki.
II.
Um kl. 4 aðfaranótt sunnudagsins 1. mars 2009 mætti B á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota á Landspítalanum í Fossvogi í Reykjavík. Í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun kemur fram að B hafi í byrjun verið dauf, niðurlút og svipbrigðalítil og nokkurn tíma hafi tekið að vinna trúnað hennar. Hún hafi svo farið að greina frá atburðum nokkuð slitrótt en aldrei orðið tvísaga. Um áverka kemur fram að B hafi á brjóstkassa verið með punktblæðingu, til dæmis eftir þrýsting eða sog. Einnig segir að á úlnliðum beggja handa hafi verið mar, til dæmis eftir þrýsting eða þungan hlut. Þá segir að mar hafi verið á fótleggjum og er sérstaklega nefnt 3,5 cm djúpur marblettur utanvert á hægra læri, grynnri en dreifður marblettur á um 7−8 cm svæði utanvert ofarlega á hægra læri og nokkrir marblettir 1−2 cm á vinstra læri. Um skoðun ytri kynfæra segir að storknað blóð hafi verið á spöng og áverki hægra megin innanvert á labia minora, um 1,5 cm frá vaginalopi og hymenkanti. Einnig segir að þarna séu u-laga sprungur um 4−5 mm með 1 mm sári eða sprungu í miðjunni. Þá kemur fram að í sprungubotninum sé aðeins nýtt blóð, en áverkinn líti út eins og sár eftir skarpan hlut. Í niðurstöðu Óskar Ingvarsdóttur, læknis á neyðarmóttökunni, segir að B hafi verið með nýlega marbletti víða á fótleggjum og nýja sprungu á vinstri burðarbarmi, sem hafi sérstaka lögun og gæti til dæmis verið eftir skarpan hlut. Í skýrslu sinni fyrir dómi taldi læknirinn að áverkar B yrðu ekki skýrðir með því að hún fengi marbletti af litlu tilefni. Aðrir marblettir hefðu ekki rennt stoðum undir þetta, auk þess sem áverkar B hefðu verið í samræmi við sögu hennar.
Þegar B kom á neyðarmóttökuna hafði hún meðferðis kjól og nærbuxur sem hún hafði klæðst þegar hún var í bifreiðinni með ákærða. Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var rifa hægra megin í hálsmáli kjólsins sem náði 7,9 cm til hægri lárétt út frá hálsmálinu. Einnig kemur fram að brúnir rifunnar hafi verið tættar og er það talið benda til að efni kjólsins hafi verið rifið frekar en skorið. Þá segir að niðurstaða rannsóknar á kjólnum og nærbuxunum hafi gefið jákvæða svörun við for- og staðfestingarprófum sem sæði. Jafnframt gáfu lífsýni tekin af kynfærum B sömu svörun.
B var í viðtölum hjá Sjöfn Evertsdóttur, sálfræðingi neyðarmóttöku, á tímabilinu frá 3. september til 4. nóvember 2009. Í vottorði sálfræðingsins 21. febrúar 2010 kemur fram að B hafi gengið í gegnum mörg áföll og búið við langvarandi bágbornar félagslegar aðstæður. Einnig segir í vottorðinu að viðbrögð B við atburðinum uppfylli viðmið um alvarlegt áfall (fyrsta viðmið í greiningu áfallastreituröskunar).
III.
1.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglunni á A 13. mars 2009 og lýsti hann atvikum þannig að umræddan dag hefði hann um kl. 15.30 komið til A í því skyni að hitta eiginkonu sína að hennar beiðni. Þegar komið var þangað sem B dvaldi sagði ákærði að hún hefði spurt sig hvort hann vildi að hún kæmi aftur þannig að deila þeirra um forsjá barnanna félli niður. Þessu sagðist ákærði hafa svarað neitandi og tekið fram að hann vildi fá börnin til sín. Þau hefðu svo rætt nánar saman og grátið til skiptis. Ákærði kvaðst síðan hafa lagt til að þau færu í bíltúr til að börnin væru ekki viðstödd þegar þau ræddu saman. Ákærði sagðist hafa ekið bifreiðinni og farið frá A að [...] og áfram eftir veginum til vesturs. Á þeirri leið kvaðst ákærði hafa spurt B hvort hann mætti ekki fá „einn stuttan“ áður en hann færi heim. Því hefði B játað og sagt að þau skyldu bara stoppa. Ákærði kvaðst hafa stöðvað bifreiðina á afleggjara frá veginum skammt frá gryfju. B hefði síðan farið í miðsætaröð bifreiðarinnar, klætt sig úr og þar hefðu þau haft samfarir. Að því loknu hefðu þau farið aftur til A með viðkomu í söluturni til að kaupa samlokur fyrir þau. Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta lýst fatnaði B og neitaði að hafa rifið sokkabuxur hennar. Einnig kvaðst ákærði hafa haft sáðlát en B hefði þurrkað sér með teppi sem var í bifreiðinni. Nánar aðspurður kannaðist ákærði ekki við að B hefði hlotið áverka af sínum völdum í umrætt sinn. Um samskipti þeirra í framhaldinu sagði ákærði að þau hefðu verið takmörkuð. B hefði viljað fá samþykki hans fyrir því að hún fengi forsjá barnanna til að færa lögheimili þeirra svo þau kæmust í skóla á A. Einnig hefði hún viljað byrja aftur með ákærða. Nánar aðspurður um skilnað þeirra sagði ákærði að upphaflega hefði staðið til að þau myndu flytja saman frá C en síðan hefði komið í ljós að annar maður var í spilinu.
Þegar ákærði var yfirheyrður á ný hjá lögreglu 2. júní 2009 kvaðst hann ekki muna greinilega eftir atvikum. Aðspurður neitaði ákærði að hafa rifið kjól B eða veitt henni áverka. Einnig tók ákærði fram að B fengi mjög auðveldlega marbletti. Um samskipti þeirra í kjölfarið sagði ákærði að þau hefðu í fyrstu verið treg en þau hefðu síðan orðið nokkur vegna barnanna. Einnig kannaðist ákærði við að B hefði boðist til að draga kæruna til baka ef ákærði samþykkti að hún fengi forsjá barnanna. Nánar aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa þrýst á hana í þeim efnum.
2.
Fyrir dómi sagði ákærði að hann hefði umræddan dag farið til A í þeim tilgangi að ræða við B. Taldi ákærði að hann hefði komið þangað laust fyrir hádegi og dvalið fram eftir degi. Þegar komið var undir kvöld sagði ákærði að hann og B hefðu verið að ræða saman en ónæði hefði verið af börnunum og því hefðu þau ákveðið að fara í bíltúr. Taldi ákærði að þetta hefði verið ákvörðun þeirra beggja án þess þó að ákærði vildi draga til baka fyrri framburð hjá lögreglu um að hann hefði átt frumkvæði að bílferðinni. Ákærði sagði að B hefði sagt sér að aka bifreiðinni og kvaðst ákærði hafa ekið frá A að [...] og þaðan áfram fyrir [...]. Á leiðinni sagði ákærði að þau hefði rætt um að taka saman aftur en vilji þeirra beggja hefði staðið til þess. Tók ákærði fram að hann hefði viljað hafa börnin hjá sér auk þess sem hann hefði verið reiðubúinn til að afsaka framhjáhald konu sinnar. Aðspurður sagði ákærði að B hefði ekki gert neinar athugasemdir við hvert förinni var heitið.
Á leiðinni sagði ákærði að hann hefði spurt B hvort hann mætti „fá einn stuttan“ og á það hefði hún fallist. Ákærði kvaðst þá hafa stöðvað bifreiðina ekki langt frá sveitabæ og lagt henni á afleggjara nokkra metra frá veginum. Framhaldinu lýsti ákærði þannig að B hefði farið út úr bifreiðinni og inn um hliðarhurð þar sem hún hefði klætt sig úr að neðan. Ákærði kvaðst síðan hafa girt niður um sig og hefðu þau haft samfarir í sætaröðinni fyrir aftan framsætin þannig að ákærði hefði verið ofan á. Ákærði kvaðst hafa haft sáðlát og hefði B þurrkað sér í teppi sem var í bifreiðinni. Nánar aðspurður sagði ákærði að ekki hefði komið til neinna átaka milli þeirra og kvaðst ákærði ekki hafa tekið eftir að B hefði meitt sig. Einnig sagði ákærði að B hefði ekki af sínum völdum fengið neina áverka, en tók fram að hann vissi til að henni hætti til að fá marbletti af litlu eða engu tilefni.
Að þessu loknu sagði ákærði að þau hefðu haldið af stað til A með viðkomu í söluturni, en B hefði verið nokkuð órótt þegar hér var komið vegna afstöðu skyldmenna ákærða í sinn garð í ljósi þess sem á undan var gengið. Ákærði sagði að B hefði spurt hvort hann ætlaði að gista, en ákærði sagði að hann hefði ekki verið reiðubúinn til þess vegna nærveru D sem B hefði átt í samskiptum við. Ákærði sagði að B hefði grátið þegar hún fór úr bifreiðinni þar sem hún vildi ekki að ákærði færi.
Nokkru eftir þetta sagðist ákærði hafa hitt B á A og þá hefði hún farið á lögreglustöðina í því skyni að draga til baka kæru á hendur ákærða. Tók ákærði fram að hann hefði ekki beitt hana neinum þrýstingi í þeim efnum. Á þessum tíma hefðu þau einnig verið með áform um að taka aftur saman. Úr því hefði hins vegar ekki orðið, en ákærði sagði að hann hefði verið búinn að gefa frá sér vinnu í E sem hann átti kost á. Að lokum hefði B sagt að hún gæti ekki tekið aftur saman við ákærða.
Um samskipti þeirra eftir þá atburði sem eru tilefni sakargifta sagði ákærði að hann hefði komið og fengið að gista hjá B um helgar þegar hann hafði umgengni við börnin. Einnig sagði ákærði að hann hefði aldrei beitt B ofbeldi ef frá er talið að hann hefði myndast til að rassskella hana í eitt sinn þegar hún missti stjórn á sér. Ákærði tók fram að hann hefði aðeins unnið en B hefði í þeirra hjúskapartíð farið með öll fjármál þeirra.
IV.
1.
B mætti fyrst hjá lögreglu 9. mars 2009 og lagði fram kæru og lýsti málsatvikum. Hún kom síðan aftur 11. sama mánaðar og gaf ítarlegri skýrslu. Aðdragandann sagði B vera að hún hefði fyrir skömmu flutt með börnin frá C til A. Upphaflega hefði ákærði verið með í þeim áformum, en í raun og veru sagðist B aldrei hafa ætlað að flytja með honum. Um hádegi umræddan dag hefði ákærði hringt og sagst vera lagður af stað til A. Þegar ákærði var kominn kvaðst B hafa sest niður með honum og sagt ákærða að sambandi þeirra væri lokið. Þessu hefði ákærði tekið illa og brostið í grát auk þess sem hann hefði gefið til kynna að sér mislíkaði nærvera D. Vegna þessara knýjandi aðstæðna kvaðst B hafa fallist á þá tillögu ákærða að þau færu á matsölustað til að ræða málin nánar. Þegar út var komið sagði B að ákærði hefði sagt að sín bifreið væri full af drasli og því hefði orðið úr að þau fóru akandi á bifreið B. Ákærði hefði síðan ekið sem leið lá út úr bænum og kvaðst B hafa óttast um stund að hann væri á leið með hana til C. Loks hefði ákærði numið staðar og lagt bifreiðinni á afleggjara nokkra metra frá veginum. Þar hefðu þau rætt saman í stutta stund en síðan hafi ákærði spurt hvort hann gæti fengið síðasta dráttinn. Þessari ósk kvaðst B eindregið hafa neitað. Eftir að þau höfðu rætt þetta nánar sagði B að ákærði hefði tekið fast um úlnlið á henni og fært hana milli framsæta í sætaröðina fyrir aftan þannig að hún lá aftur í miðsætinu. Þar hefði hann haldið henni og hún reynt eftir mætti að streitast á móti. Ákærði hefði síðan haldið henni með annarri hendi þannig að olnbogi hans hvíldi á bringu hennar en með hinni hendinni hefði hann rifið hana úr sokkabuxunum og fært nærbuxurnar til hliðar og þröngvað sér inn í hana. B sagðist hafa reynt að veita viðnám en síðan gefist upp. Þegar ákærði hafði lokið sér af hefði hann girt sig og fært sig fram í. B kvaðst þá hafa fundið að eitthvað lak á gólfið. Hún hefði síðan fært sig fram í og á leiðinni aftur til A kvaðst hún hafa fengið mikið grátkast. Við því hefði ákærði brugðist með að segja að þetta yrði allt í lagi hjá þeim, eins og hann skildi ekki af hverju hún væri að gráta. Á leiðinni til baka hefði ákærði stoppað í söluturni til að fá sér að borða og taldi B að þá hefði klukkan verið um 20.30. Þessu næst sagði B að ákærði hefði ekið sér heim aftur og síðan hefði ákærði farið. Tók B fram að viðmót ákærða hefði á þessum tíma verið eins og þau væru byrjuð saman aftur.
Þegar B var komin heim sagði hún að D hefði tekið á móti sér og séð að hún hefði verið að gráta. B kvaðst hafa látið renna í bað og þvegið sér. Kvaðst B hafa óttast að greina D frá þessu þar sem hann kynni að fá óbeit á sér. Að lokum hefði hún greint D frá þessu og þau farið á neyðarmóttökuna eftir að D hafði rætt við vakthafandi lækni. B tók fram að skömmu áður en hún flutti frá C hefði ákærði haft við hana kynmök gegn hennar samþykki á heimili þeirra eftir að hún greindi ákærða frá því að hún hefði verið honum ótrú. Þegar hún ræddi það tilvik við D hefði hann sagt henni að hún hefði ekki átt að fara í bað heldur upp á spítala og leggja fram kæru. Eftir umræddan atburð í bifreiðinni sagðist B hafa rætt símleiðis við ákærða og sagt honum að hún myndi greina lögreglu frá ef hann samþykkti ekki að hún fengi forræði barnanna. Við þessu hefði ákærði brugðist með því að segja að það væri allt í lagi þótt hún kærði hann því enginn myndi trúa henni. Einnig sagði B að hún hefði daginn eftir atburði greint móður sinni frá atvikum og einhverju síðar vinkonu sinni, F, systur D.
B gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 28. maí 2009 og dró hún þá til baka kæru sína. Ástæðuna sagði hún vera forræðisdeiluna við ákærða en hann hefði fallist á að gefa eftir forræðið ef hún félli frá kæru. Auk þess hefði sonur hennar orðið fyrir aðkasti vegna málsins og einnig hún sjálf. Þá sagði B að hún hefði áhyggjur af því að það gæti haft skaðleg áhrif á börnin ef faðir þeirra yrði dæmdur nauðgari. Aftur á móti sagði B að kæra sín og allt það sem hún hefði áður greint lögreglu frá væri efnislega rétt. Því hefði kæran ekki snert skilnaðarmálið eða ágreining þeirra um forsjá barnanna með neinu móti. Aðspurð sagði B að hún hefði ekki rætt atburðinn við ákærða en taldi á honum að skilja að hann liti ekki á þetta sem nauðgun.
2.
Fyrir dómi greindi B frá því að ákærði hefði hringt um hádegi umræddan dag og sagt að hann væri á leiðinni suður. Þegar ákærði kom síðdegis sagði B að D hefði farið með krakkana á neðri hæðina en hún kvaðst hafa rætt við ákærða í eldhúsinu. Þau hefðu rætt um börnin en B tók fram að hún hefði verið í erfiðri aðstöðu þar sem atbeina ákærða þyrfti til svo lögheimili barnanna yrði flutt þannig að þau gætu sótt skóla á A. Í fyrstu sagði B að ákærði hefði komið vel fyrir en síðan hefði hann farið að gráta. B kvaðst hafa reynt að vera góð við hann en tekið fram að sambandi þeirra væri lokið, enda annar maður kominn í spilið. B sagði að ákærði hefði síðan orðið pirraður og komið hefði fram að honum mislíkaði nærvera D. Til að afstýra vandræðum kvaðst B hafa fallist á tillögu ákærða að þau færu saman á matsölustað.
Fram kom hjá B að þau hefðu farið á hennar bifreið þar sem ákærði bar því við að hans bifreið hefði verið full af drasli. Ákærði hefði ekið sem leið lá út úr bænum og kvaðst B hafa óttast að hann væri að fara með hana vestur. Eftir nokkurn spöl hefði ákærði ekið inn á afleggjara og lagt bifreiðinni nokkrum metrum frá veginum. Þar hefðu þau rætt eitthvað saman en síðan hefði ákærði spurt hvort hann gæti fengið síðasta dráttinn. Þeirri beiðni kvaðst B hafa neitað afdráttarlaust. Framhaldinu lýsti B þannig að ákærði hefði tekið um úlnliðinn á sér og ýtt sér milli framsæta yfir í sætaröðina fyrir aftan ökumanns- og farþegasætið. Til vinstri í sætaröðinni hefði verið barnastóll og kvaðst B hafa rekið hnakkann í hann í atganginum. B kvaðst hafa bögglast í sætinu og þar hefði ákærði haldið höndum hennar í kross yfir bringuna með hægri hendi en við það hefði hún marist á bringu. Ákærði hefði síðan ýtt fótleggjum hennar í sundur og með vinstri hendi rifið gat í klofið á sokkabuxur hennar. Þessu næst hefði hann fært nærbuxurnar til hliðar og nauðgað henni. Þetta hefði ekki staðið lengi og taldi B að ákærði hefði haft sáðlát inn í sig. Að þessu loknu hefði ákærði girt sig og farið fram í bifreiðina, en þangað kvaðst B einnig hafa farið skömmu síðar.
Á leiðinni aftur til A kvaðst B hafa grátið og kvaðst hún ekki gera sér grein fyrir af hvaða ástæðu ákærði teldi hana hafa grátið. Þegar heim var komið og ákærði var farinn sagðist B hafa látið renna í bað og þvegið sér. Upphaflega sagðist hún ekki hafa ætlað að greina neinum frá atburðum, en hún hefði verið með áverka og því útilokað að hún gæti þagað yfir þessu gagnvart D. Um nóttina hefði hún og D síðan farið á neyðarmóttökuna.
Til skýringar á því af hverju B féll frá kæru sinni sagðist hún fyrst og fremst hafa verið að hugsa um börnin. Færa hefði þurft lögheimili þeirra til að þau fengju að sækja skóla og því hefði hún dregið kæruna til baka svo ákærði samþykkti að hún fengi forsjá barnanna.
Aðspurð sagðist B ekki vita af hverju sokkabuxur hennar voru ekki teknar með og afhentar á neyðarmóttökunni. Við nánari umhugsun taldi hún að nærbuxur og kjóll hefði verið með óhreinu taui en sokkabuxunum verið hent í ruslið. Þegar hún og D fóru á neyðarmóttökuna hefði D sótt kjólinn og nærbuxurnar en sokkabuxurnar orðið eftir. Um kjólinn sagði B að hann hefði rifnað í átökunum í bifreiðinni.
B kannaðist við að ákærði hefði eftir þetta dvalið á heimili hennar en hún sagðist hafa fallist á það til að koma í veg fyrir að hann færi út með börnin. Þetta hafi verið gert til að tryggja friðinn. Aðspurð sagði B að eftir að hún flutti suður hefði með öllu verið útilokað að hún tæki aftur saman við ákærða. Hins vegar hefði hann rætt það og hún látið að því liggja að það kæmi til greina í því skyni að fá hann til að samþykkja að hún fengi forsjána og að lögheimili barnanna yrði flutt.
V.
Vitnið D bar fyrir dómi að ákærði hefði komið á heimili hans og B um kl. 16 umræddan dag. Þar hefðu ákærði og B verið að ræða skilnað þeirra en síðan hefði B sagt að ákærði ætlaði með hana á matsölustað þar sem óþægindi væru af nærveru vitnisins. Þau hefðu svo komið aftur um þremur klukkustundum síðar og kvaðst vitnið hafa tekið eftir að B leið ekki vel, en hún hefði verið kvíðin auk þess sem henni hefði stafað ógn af ákærða. Um einum og hálfum tíma síðar hefði hún sagt vitninu frá því að ákærði hefði nauðgað sér. Vitnið kvaðst þá hafa haft samband við lækni og farið með B á neyðarmóttöku. Aðspurður kvaðst D muna eftir að hafa séð rifnar sokkabuxur á baðinu auk þess sem hann hefði séð áverka á B. Um kvöldið hefði hún fyrst ekkert viljað gera, en farið á neyðarmóttökuna fyrir orð vitnisins. Vitnið kvaðst vita að B hefði dregið til baka kæru gegn því að ákærði gæfi eftir forsjá barna þeirra, auk þess sem hún hefði í sama skyni látið liggja að því við ákærða að þau tækju aftur saman. Einnig kannaðist vitnið við að ákærði hefði gist á heimilinu í nokkur skipti, auk þess sem ákærði og B hefðu verið saman í bifreið eftir þann atburð sem er tilefni saksóknarinnar.
Vitnin G, dóttir ákærða, og H, systir ákærða, greindu frá því fyrir dómi að ákærði hefði verið mjög glaður þegar hann kom frá A í umrætt sinn. Hann hefði tilkynnt að þau væru að byrja aftur saman og að fjölskyldan yrði að taka B í sátt. Bæði vitnin sögðust hafa varað ákærða við að fara til A að hitta B. Kom fram hjá G að hún hafi óttast að B kæmi í bakið á föður sínum, en hún hefði fyrir þennan atburð heyrt ásakanir í þessa veru frá móður B. Einnig sagði H að í sínum augum væri framganga B gagnvart ákærða sviðsleikur.
Vitnið I greindi frá því fyrir dómi að dóttir sín B hefði sagt sér frá atvikinu daginn eftir. Einnig sagði F fyrir dómi að hún hefði rætt við B og D, bróður sinn, næsta mánudag eftir atburðinn og þá hefði D greint sér frá þessu.
VI.
Ákærða er gefið að sök að hafa nauðgað B í bifreið í nágrenni við [...], á vegarkafla vestan [...] og austan bæjarmarka A. Við aðalmeðferð málsins var farið á vettvang og vísaði ákærði á þann stað þar sem hann lagði bifreiðinni áður en hann hafði kynmök við B. Er um að ræða afleggjara frá [...]vegi skammt frá vegamótunum við [...]veg norðan [...]. Á vettvangi taldi B að þessi staðsetning væri sennilega rétt. Þótt þessi vettvangur sé nokkra vegalengd frá þeim stað sem tilgreindur er í ákæru kemur það ekki í veg fyrir sakfellingu, enda hefur vörn málsins ekki verið áfátt af þessum sökum, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
Ákærði hefur fyrir dómi og hjá lögreglu staðfastlega neitað að hafa nauðgað B í bifreiðinni í umrætt sinn að kvöldi laugardagsins 28. febrúar 2009. Í frásögn sinni hefur ákærði lýst því að þann dag hafi hann komið akandi til A frá C í því skyni að hitta B, eiginkonu sína, en hún hafði þá skömmu áður flutt með börnin af sameiginlegu heimili þeirra og tekið saman við D. Eftir að hafa rætt um stund við B á heimili hennar fóru þau tvö í bifreið B og ók ákærði bifreiðinni. Við yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa lagt til að þau færu í bíltúr til að börnin væru ekki viðstödd þegar þau ræddu saman. Fyrir dómi sagði ákærði hins vegar að þetta hefði verið ákvörðun þeirra beggja án þess þó að hann vildi draga til baka fyrri framburð hjá lögreglu um að hann hefði átt frumkvæði að bílferðinni. Ákærði hefur bæði fyrir dómi og hjá lögreglu sagt svo frá að þegar komið var á vettvang hafi hann spurt B hvort hann mætti ekki fá „einn stuttan“ og hafi hún fallist á það. Þá kom fram í frásögn ákærða fyrir dómi að vilji þeirra beggja á þessum tíma hafi staðið til að taka saman aftur og hafi B grátið þegar hún fór úr bifreiðinni við heimili sitt vegna þess að hún vildi ekki að ákærði færi.
Fyrir dómi og hjá lögreglu hefur B í öllum megindráttum lýst aðdragandanum á sama veg. Hún hafi fallist á tillögu ákærða að þau færu á matsölustað til að ræða saman einslega. Tók B fram að gætt hafi gremju hjá ákærða vegna nærveru D og hún hafi viljað forða því að uppákoma yrði á heimilinu að viðstöddum börnum. Þegar komið var á vettvang þar sem ákærði lagði bifreiðinni hefði hann síðan haft við hana samræði með ofbeldi í miðsætaröð bifreiðarinnar.
Þegar lagt er mat á frásögn ákærða er þess að gæta að hann hefur ekki vefengt að þau hafi að hans tillögu farið saman í ökuferðina. Einnig liggur fyrir að ákærði, sem ók bifreiðinni, réð hvert förinni var heitið og fór hann með B á afvikinn stað að kvöldi til þar sem hann gat alls kostar átt við hana. Fyrst þegar þau voru um það bil að koma þangað kveðst ákærði hafa fært það í tal að þau hefðu kynmök. Að virtum aðdraganda ökuferðarinnar og því að B hafði nýlega yfirgefið ákærða og tekið saman við annan mann verður að telja afar ótrúverðugt að hún hafi formálalaust fallist á að hafa kynmök við ákærða í bifreiðinni út á víðavangi í kjölfar umræðu þeirra um atriði sem lutu að skilnaði hjónanna.
Framburður B hefur á hinn bóginn, bæði hér fyrir dómi og hjá lögreglu, verið nákvæmur og greinargóður og er fullt innra samræmi í vætti hennar á öllum stigum málsins. Einnig er framburður hennar studdur því sem fram kom við læknisskoðun, sem hún gekkst undir síðar um nóttina á neyðarmóttöku Landspítalans. Samkvæmt þeirri rannsókn var B með punktblæðingar á bringu en það kemur heim og saman við lýsingu hennar á því hvernig ákærði á að hafa haldið höndum hennar. Jafnframt reyndist hún með mar á úlnliðum sem er í samræmi við lýsingu hennar á átökum þeirra. Það sama á við um áverka á fótleggjum B. Þegar þessir áverkar eru metnir heildstætt og að virtu vætti Óskar Ingvarsdóttur, læknis, verður ekki talið að þeir verði skýrðir með því að B sé gjörn á að fá marbletti, eins og hreift var við vörn málsins. Þá styðst framburður B við rannsókn tæknideildar á kjól B en á honum var 7,9 cm rifa með tættum brúnum sem talið er benda til þess að efni kjólsins hafi verið rifið frekar en skorið.
Hinn 28. maí 2009 mætti B á lögreglustöðina á A og féll frá kæru sinni á hendur ákærða. Hún dró þó í engu til baka fyrri framburð sinn sem hún hefur haldið fast við hér fyrir dómi. Þessu til skýringar hefur B sagt að hún hafi gert þetta gegn því að ákærði samþykkti að hún færi með forsjá barna þeirra. Að sínu leyti er vel skiljanlegt að B hafi lagt meira upp úr málefnum barna hennar en afdrifum kærunnar. Þykir þetta því ekki rýra svo neinu nemi sönnunargildi vitnisburðarins og gildir þá einu þótt B hafi að þessu leyti leikið tveimur skjöldum gagnvart ákærða.
Að öllu því virtu sem hér hefur verið rakið er sannað gegn eindreginni neitun ákærða að hann hafi með ofbeldi þröngvað B gegn vilja hennar til samræðis við sig eins og honum er gefið að sök. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brotið sem varðar við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga með síðari breytingum.
VII.
Ákærði er [...] ára að aldri. Hann er með hreint sakavottorð. Undir rannsókn málsins gekkst ákærði undir greindarfarslegt mat hjá Jóhanni Thoroddsen, sálfræðingi. Í bréfi sálfræðingsins 23. september 2009 kemur fram að ákærði hafi búið við málhömlun fyrstu 10−14 ár ævinnar. Hann hafi svo til enga skólagöngu að baki og sé nánast hvorki læs né skrifandi. Greind hans mælist rétt undir meðalgreind, en mikill misstyrkur komi fram milli munnlegrar og verklegrar getu. Í bréfi félagsmálastjóra C 12. nóvember sama ár er því lýst að ákærði hafi átt erfitt í ýmsu tilliti, en honum hafi gengið illa að setja fólki stólinn fyrir dyrnar og oft farið flatt á því tilfinningalega og fjárhagslega. Það sem hér hefur verið rakið ber að hafa í huga þegar aðstæður ákærða eru virtar. Á hinn bóginn er þess að gæta að hann hefur gerst sekur um gróft brot gegn kynfrelsi brotaþola. Að öllu því gættu sem hér hefur verið rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.
Brotaþoli krefst miskabóta úr hendi ákærða. Til stuðnings þeirri kröfu er vísað til þess að um sé að ræða gróft kynferðisbrot sem valdið hafi brotaþola miklum miska. Brotið hafi valdið henni mikilli vanlíðan og megi reikna með að áhrifin séu langvarandi. Um lagarök fyrir kröfunni er vísað til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993.
Með broti því sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hefur hann fellt á sig miskabótaábyrgð gagnvart brotaþola. Að virtu brotinu og afleiðingum þess þykja bætur hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna og ber fjárhæðin vexti eins og greinir í dómsorði.
Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, verður ákærða gert að greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti ákæruvalds að frátöldum kostnaði við öflun sálfræðivottorðs frá Landspítalanum, en sá kostnaður, að fjárhæð 111.000 krónur, er langt úr hófi fram. Jafnframt verður ákærða gert eftir ákvörðun dómsins að greiða málsvarnarlaun verjanda og þóknun réttargæslumanns brotaþola, en þær fjárhæðir eru tilgreindar í dómsorði að meðtöldum virðisaukaskatti. Að auki verður ákærða gert að greiða útlagðan kostnað verjanda, réttargæslumanns og vitnis.
Mál þetta dæma héraðsdómararnir Benedikt Bogason, dómsformaður, og Arnfríður Einarsdóttir og Halldór Björnsson.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.
Ákærði greiði B 1.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 28. febrúar 2009 til 12. apríl 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 1.176.087 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns Guðmundar Ágústssonar, hæstaréttarlögmanns, 564.750 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola Gunnhildar Pétursdóttur, héraðsdómslögmanns, 394.963 krónur.