Hæstiréttur íslands

Mál nr. 90/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Tryggingarbréf
  • Aðfararheimild
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Fimmtudaginn 11

Fimmtudaginn 11. mars 1999.

Nr. 90/1999.

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Sigríði Guðmundsdóttur.

(enginn)

                                                             

Kærumál. Tryggingarbréf. Aðfararheimild. Lögvarðir hagsmunir. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

V höfðaði mál á hendur S til viðurkenningar veðrétti, á grundvelli tryggingarbréfs,  í fasteign S, vegna skuldar H. Málsókn V var gerð í þeim tilgangi að afla aðfararhæfs dóms á hendur S. Talið var að dómur um viðurkenningu á veðrétti V í fasteign S gæti ekki veitt V heimild til aðfarar enda fæli slíkur dómur ekki í sér fyrirmæli um skyldu sem framfylgt yrði með slíkri gerð. V hefði því ekki hagað kröfugerð sinni með þeim hætti að markmiði hans með málsókninni yrði náð, en til þess hefðu honum verið aðrar leiðir tiltækar. Þar sem í málinu væri hins vegar til staðar ágreiningur um hvort V ætti kröfu sem fallið gæti undir veðrétt samkvæmt tryggingarbréfinu, hefði hann lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr þeim ágreiningi. Var úrskurður héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. febrúar 1999, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að máli sóknaraðila á hendur henni yrði vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gaf Híbýli hf. út tryggingarbréf 10. júní 1988 til Brunabótafélags Íslands til tryggingar greiðslu á skuld, sem fyrrnefnda félagið kynni að komast í við það síðarnefnda vegna ábyrgða þess gagnvart verkkaupum fyrir réttum efndum Híbýlis hf. á verksamningum. Með tryggingarbréfinu var Brunabótafélagi Íslands sett að veði með 5. veðrétti fasteign að Klettagerði 5 á Akureyri með samþykki þinglýstra eigenda hennar, Páls Alfreðssonar og varnaraðila. Með yfirlýsingu 7. desember 1988 gekkst Brunabótafélag Íslands í ábyrgð gagnvart Akureyrarbæ vegna verksamnings hans við Híbýli hf. Tók ábyrgðin til krafna, sem bærinn kynni að eignast sem verkkaupi á hendur verktakanum, að fjárhæð allt að 4.913.190 krónur.

Fasteignin að Klettagerði 5 er nú í eigu varnaraðila og hvílir fyrrnefnt tryggingarbréf þar á 2. veðrétti. Sóknaraðili tók við réttindum og skyldum Brunabótafélags Íslands 1. janúar 1989. Bú Híbýlis hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 12. október 1989. Af gögnum málsins virðist mega ráða að skiptum á þrotabúinu hafi verið lokið 25. nóvember 1994.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 1995 var sóknaraðili dæmdur í skjóli fyrrgreindrar yfirlýsingar 7. desember 1988 til að greiða Akureyrarbæ 4.336.379 krónur ásamt dráttarvöxtum frá uppsögu dómsins og 500.000 krónum í málskostnað. Má ætla af málatilbúnaði sóknaraðila að hann hafi greitt kröfu samkvæmt dóminum.

Hinn 23. mars 1998 krafðist sóknaraðili þess með bréfi til sýslumannsins á Akureyri að fasteignin að Klettagerði 5 yrði seld nauðungarsölu til fullnustu á þeim hluta kröfu hans vegna fyrrnefnds dóms 19. september 1995, sem rúmist innan veðréttar samkvæmt tryggingarbréfi Híbýlis hf. frá 10. júní 1988. Um heimild til að leita nauðungarsölu vísaði sóknaraðili til svohljóðandi ákvæðis í tryggingarbréfinu: „Verði skuldin virk samkvæmt öllu framangreindu getur veðhafi látið selja hina veðsettu eign á opinberu uppboði án undangengins dóms eða aðfarar skv. 1. gr. l. nr. 57/1949 sbr. 3. gr. veðlaga frá 4. nóv. 1887.“ Sýslumaður hafnaði kröfu sóknaraðila um nauðungarsölu 26. júní 1998 og var sú ákvörðun staðfest með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. september sama árs.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur varnaraðila með stefnu 6. nóvember 1998 og gerði þar svofellda kröfu: „Þess er krafist að viðurkenndur verði með dómi 2. veðréttur stefnanda í húseigninni Klettagerði 5, Akureyri, ásamt tilheyrandi lóðarréttindum, fyrir kr. 1.300.000,- skv. tryggingabréfi útgefnu 10.06.1988, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 ... frá 19. september 1995 til greiðsludags og málskostnaðar að mati dómsins ...“. Í stefnunni eru framangreind atvik rakin, en í lok þeirrar frásagnar segir: „Þar sem niðurstaðan er sú að umrætt tryggingabréf telst ekki bein uppboðsheimild er stefnanda nauðsynlegt að fá aðfararhæfan dóm fyrir kröfu sinni, til þess að unnt reynist að gera fjárnám í eigninni, þar sem að öðrum kosti er ekki unnt að krefjast nauðungarsölu á henni sbr. 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 sbr. 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Því er þessi málshöfðun nauðsynleg.“ Málið var þingfest 19. nóvember 1998.

Varnaraðili höfðaði gagnsök í málinu með stefnu 17. desember 1998. Í stefnunni gerir hún þær kröfur að viðurkennt verði með dómi að engin skuld standi að baki fyrrnefndu tryggingarbréfi frá 10. júní 1988, svo og að það verði ógilt með dómi.

Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá dómi. Gagnsakar varnaraðila er þar ekki sérstaklega getið, en ætla verður að með úrskurðinum hafi málinu verið vísað í heild frá dómi og þar með gagnsök ásamt aðalsök.

II.

Dómur á hendur varnaraðila um viðurkenningu á veðrétti samkvæmt tryggingarbréfinu 10. júní 1988 í fasteigninni að Klettagerði 5 getur ekki veitt sóknaraðila heimild til aðfarar samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, enda fæli dómur um þetta efni ekki í sér fyrirmæli um skyldu, sem framfylgt yrði með slíkri gerð. Sóknaraðili hefur því ekki gert kröfu sína í málinu á þann hátt að fyrrgreindu markmiði hans með málsókninni verði náð, en til þess hefðu aðrar leiðir getað orðið tækar, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1943, bls. 4. Af gögnum málsins er hins vegar ljóst, þar á meðal af gagnsök varnaraðila, að ágreiningur er á milli aðilanna um hvort sóknaraðili eigi kröfu, sem geti fallið undir veðrétt samkvæmt fyrrnefndu tryggingarbréfi. Verður að telja sóknaraðila hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr þeim ágreiningi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, þótt dómur í málinu geti ekki veitt honum heimild til aðfarar. Þá eru engir þeir gallar á gagnsök varnaraðila, sem varðað geta frávísun hennar frá dómi án kröfu. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. febrúar 1999.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 25. f.m., er til komið vegna kröfu stefndu um að máli þessu verði vísað frá dómi með vísan til d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem krafa stefnanda sé svo óljós að hún sé ekki dómtæk. Beri því að vísa henni frá dómi.

Þessu mótmælir stefnandi og telur kröfu sína dómtæka.

Krafa stefnanda hljóðar upp á það að með dómi verði viðurkenndur 2. veðréttur hans í húseigninni Klettagerði 5, Akureyri, ásamt tilheyrandi lóðarréttindum fyrir kr. 1.300.000,- samkvæmt tryggingabréfi, útgefnu 10.06.1998, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989, frá 19. september 1995 til greiðsludags og málskostnaðar að mati dómsins og til greiðslu virðisaukaskatts á málskostnað og að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 19. desember 1996.

Í stefnunni á dskj. nr. 1 þar sem raktar eru málsástæður og önnur atvik segir, að þann 10. júní 1988 hafi Híbýli hf., gefið út tryggingabréf til Brunabótafélags Íslands. Hafi tryggingabréfið verið gefið út til tryggingar á hugsanlegum skuldum Híbýlis hf. við Brunabótafélagið vegna ábyrgða, sem það hafi tekið að sér að gefa út til hinna ýmsu verkkaupa til tryggingar á réttum efndum Híbýla hf. sem verktaka við framkvæmd verksamninga fyrir allt að fjárhæð kr. 1.300.000.-. Bréfið hafi verið tryggt með 5. veðrétti í Klettagerði 5 á Akureyri og uppfærslurétti. Undir tryggingabréfið hafi ritað þinglýstir eigendur, Páll Alfreðsson og Sigríður Guðmundsdóttir. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu E-7848/1994 Akureyrarbær gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., hafi Vátryggingafélag Íslands hf. verið dæmt til að greiða Akureyrarbæ kr. 4.333.379,- með dráttarvöxtum frá dómsuppsögu 19. september 1995 auk kr. 500.000,- í málskostnað. Hafi Híbýli hf. verið tekið til gjaldþrotaskipta 12. október 1989 og félagið afskráð 25. nóvember 1994. Hafi dómur þessi verið vegna verkábyrgða, sem gefnar voru út af Brunabótafélagi Íslands hf. vegna Híbýla hf., en stefnandi hafi undirgengist skuldbindingar þess við upphaf starfsemi sinnar, en Brunabótafélag Íslands og Samvinnutryggingar g.t. hafi sameinast 1. janúar 1989 í Vátryggingafélag Íslands hf. Hafi stefnandi óskað eftir við sýslumannsembættið á Akureyri að húseignin Klettagerði 5 yrði seld á nauðungaruppboði til fullnustu vangreiddrar verkábyrgða fyrir allt að kr. 1.300.000,- en við fyrirtöku beiðninnar hafi stefndi mótmælt því að tryggingabréfið væri nægjanleg uppboðsheimild og hafi sýslumaður fallist á það og málið lagt til úrskurðar fyrir Héraðsdóm Norðurlands eystra sem með úrskurði 15. september 1998 staðfesti synjun sýslumanns.

Þar sem niðurstaðan hafi verið sú að umrætt tryggingabréf teldist ekki bein uppboðsheimild sé stefnanda nauðsynlegt að fá aðfararhæfan dóm fyrir kröfu sinni til þess að unnt reynist að gera fjárnám í eigninni þar sem að öðrum kosti sé ekki unnt að krefjast nauðungarsölu á henni, sbr. 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Því sé þessi málshöfðun nauðsynleg.

Stefndi bendir réttilega á að tryggingabréf þetta njóti þegar 2. veðréttar í fasteigninni Klettagerði 5 og tryggingabréf þetta sé ekki sett til tryggingar tiltekinn kröfu, en ágreiningur sé um það hvort krafa að baki tryggingabréfinu sé fyrir hendi. Þar af leiðandi hljóti stefnandi að þurfa að afla dóms fyrir staðhæfingu sinni.

Það er álit dómsins að eins og kröfugerð stefnanda er háttað og hann reifar í málatilbúnaði sínum, þá hyggst hann fá aðfararhæfan dóm fyrir kröfu sinni. Almennt þarf kröfugerð stefnanda að vera það skýr og ljós í stefnu að hægt sé að taka hana óbreytta sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu, ef efnisleg skilyrði eru á annað borð fyrir þeim málalokum. Eins og stefnandi býr mál þetta úr garði er ekki ágreiningur um veðrétt hans heldur er undirliggjandi ágreiningur um þá kröfu er hann telur standa að baki réttinum og hann krefst ekki viðurkenningar á að veðið standi fyrir.

Eins og kröfu stefnanda er háttað er því fallist á kröfu stefnda um frávísun hennar og ber stefnanda að greiða stefnda kr. 50.000,- í málskostnað.

Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ágeirsson, héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Vátryggingafélag Íslands h.f., greiði stefnda, Sigríði Guðmunds-dóttur, kr. 50.000,- í málskostnað.