Hæstiréttur íslands
Mál nr. 398/2012
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
|
|
Miðvikudaginn 24. apríl 2013. |
|
Nr. 398/2012.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn X (Oddgeir Einarsson hrl.) (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Börn.
X var ákærður fyrir að hafa áreitt A, sem þá var 11 ára, kynferðislega með því að leggjast við hlið hennar, snerta beran fótlegg hennar með tá á fæti sínum og síðan strjúka henni með hendi, utan klæða, á síðu, maga, nára og fara með höndina að minnsta kosti þrisvar inn á klof hennar. Var hann sakfelldur í héraði og dæmdur til að sæta fangelsi í 7 mánuði. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að fjölskipaður héraðsdómur hefði metið framburð A trúverðugan og yrði ekki haggað við því mati. Hins vegar hefði framburður A ekki þá stoð í öðrum gögnum málsins að nægði, gegn neitun X, til þess að ákæruvaldið hefði axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíldi samkvæmt 108. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var X því sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfest, en refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að héraðsdómur verði ómerktur, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér miskabætur að fjárhæð 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2010 til 2. mars 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
I
Með bréfi [...] og [...]skrifstofu C 28. október 2010 til lögreglunnar á C var óskað opinberrar rannsóknar á ætluðu kynferðislegu ofbeldi gegn A, fæddri [...]. Í bréfinu kom fram að barnaverndarnefnd á [...] hafi 30. september sama ár borist tilkynning samkvæmt 16. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um áðurnefnt kynferðisofbeldi. Hafi tilkynnandi sagst eiga dóttur á sama aldri, sem hafi skýrt tilkynnandanum frá því að brotaþoli hafi trúað sér fyrir því að hún hafi verið að gæta barns um nótt sumarið á undan hjá vinafólki foreldra sinna er „maðurinn hafi komið óvænt heim og káfað á henni innan klæða.“ Við könnun málsins af hálfu barnaverndarnefndar hafi verið rætt við foreldra brotaþola og tilkynningin komið þeim algjörlega á óvart. Hafi þau í upphafi viðtals sagt að þau sæju engin merki hjá brotaþola um að hún hafi „orðið fyrir einhverju.“ Við nánari umhugsun sögðust þau þó merkja breytingar á henni, sem þau hafi tengt unglingsárunum. Í viðtalinu hafi verið ákveðið að móðir brotaþola ræddi við hana, en ítrekað hafi verið við móðurina að spyrja brotaþola ekki í þaula um atburðarás heldur einungis hvort eitthvað hafi átt sér stað. Stuttu síðar hafi móðirin hringt á [...]- og [...]skrifstofu og greint frá því að hún hafi spurt brotaþola um hvort einhver hafi áreitt hana. Hafi brotaþoli játað því og sagt það hafa gerst um áramótin þar á undan og hafi ákærði verið þar að verki. Í framhaldinu voru teknar lögregluskýrslur af ákærða og vitnum í nóvember og desember 2010. Skýrsla var tekin af brotaþola fyrir dómi 10. nóvember sama ár. Í framhaldinu var frekari gagna aflað og málið sent ríkissaksóknara sem gaf út ákæru 1. desember 2011. Aðalmeðferð hófst 6. mars 2012 og lauk 29. sama mánaðar. Dómur var kveðinn upp 4. maí 2012.
II
Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, á ákæruvaldinu. Þá metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn, sbr. 1. mgr. 109. gr. sömu laga. Enn fremur metur dómari, ef þörf krefur, hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktanir má leiða af um það, sbr. 2. mgr. sömu greinar.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi eru ákærði og brotaþoli ein til frásagnar um það sem gerðist í herbergi ákærða að morgni 1. janúar 2010. Ber þeim um margt saman um atburðarás þar að öðru leyti en því er lýtur að broti því sem ákærða er gefið að sök í máli þessu. Fjölskipaður héraðsdómur mat framburð brotaþola trúverðugan og verður ekki haggað við því mati, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Kemur þá til skoðunar hvort önnur gögn málsins styðji framburð brotaþola, sbr. 2. mgr. 109. laganna.
Samkvæmt vætti sundkennara brotaþola og umsjónarkennara hennar merktu þau að líðan hennar hefði greinilega versnað á árinu 2010. Í framburði brotaþola kom fram að hún hafi skýrt tveimur vinkonum sínum frá umræddum atburði skömmu eftir að hann átti sér stað, en þær voru hvorki yfirheyrðar hjá lögreglu né fyrir dómi.
Brotaþoli gekkst undir sálfræðipróf hjá Barnahúsi í þágu rannsóknar málsins. Í vottorði sálfræðings 3. júní 2011 eru raktar niðurstöður sjálfsmatskvarða. Með sjálfsmatskvörðum er samkvæmt vottorðinu átt við þar til gerða spurningalista þar sem svör og afstaða svarenda við einstökum spurningum eru notuð til að meta líðan yfir ákveðið tímabil. Samkvæmt niðurstöðum slíks kvarða til að kanna sjálfsmat, depurð, kvíða, reiði og truflandi hegðun (Becks listi) mældist brotaþoli með ágætis sjálfsmat, en var langt undir meðaltali á öllum öðrum þáttum. Þá var brotaþoli undir meðaltali á flestum þáttum sem ætlað er að mæla kvíðaeinkenni hjá börnum og unglingum (MASC listi). Jafnframt var farið yfir svonefndan viðbragðalista með brotaþola, en það er listi þar sem tilgreint er 21 atriði eða viðbrögð sem algengt er að þolendur kynferðisbrota á unglingsaldri upplifi. Sem dæmi eru þar nefnd viðbrögð/upplifanir eins og „finn fyrir verkjum í maga, höfði eða annars staðar, finnst þetta vera þeim að kenna, eiga erfitt með svefn, dreymir illa eða fær martraðir, finnst aðrir sjá á þeim hvað kom fyrir þau, upplifa miklar skapsveiflur, skammast sín.“ Kannaðist brotaþoli ekki við neitt af þeim atriðum sem nefnd eru á listanum.
Að virtu því, sem rakið hefur verið, hefur framburður brotaþola ekki þá stoð í öðrum gögnum málsins að nægi, gegn neitun ákærða, til þess að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir samkvæmt 108. gr., sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Verður ákærði því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Af því leiðir að skaðabótakröfu á hendur honum verður vísað frá héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. sömu laga.
Eftir úrslitum málsins verður allur sakarkostnaður í héraði, eins og hann var þar ákveðinn, felldur á ríkissjóð. Sama gildir um sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru til hvors um sig með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um fjárhæð málsvarnarlauna og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola skulu vera óröskuð.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 4. maí 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 29. mars sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 1. desember 2011 á hendur ákærða, X, kt.[...], [...], [...];
fyrir kynferðisbrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 1. janúar 2010, að [...], [...], áreitt kynferðislega A, fædda [...], sem þá var ellefu ára, með því að leggjast við hlið hennar, snerta beran fótlegg hennar með tá á fæti sínum og síðan strjúka henni með hendi, utan klæða, á síðu, maga, nára og fara með hendina að minnsta kosti þrisvar inn á klof hennar.
Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu B, kt. [...], fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, A, kt. [...], er krafist miskabóta úr hendi X, kt. [...], að fjárhæð kr. 600.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. janúar 2010 þar til mánuður er liðinn frá því sakborningi var kynnt bótakrafa þessi, en dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags., sbr. 9. gr. sömu laga.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds í málinu og að bótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi. Til vara krefst ákærði vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakrafan verði lækkuð.
I.
Með bréfi til lögreglunnar á [...], dagsettu 28. október 2010, óskaði [...] og [...]skrifstofa C eftir því að fram færi opinber rannsókn á meintu kynferðisbroti ákærða gegn stúlkunni A, brotaþola í máli þessu. Í bréfinu er til þess vísað að 30. september 2010 hafi barnaverndarnefndinni á [...] borist tilkynning skv. 16. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um kynferðislegt ofbeldi gagnvart stúlkunni. Mun tilkynnandi hafa óskað nafnleyndar skv. 19. gr. nefndra laga. Er tilkynnandi sagður eiga dóttur á sama aldri og brotaþoli og hafi sú stúlka heyrt af málinu frá sameiginlegri vinkonu hennar og brotaþola.
Í kjölfar tilkynningarinnar ræddu barnaverndaryfirvöld við foreldra brotaþola. Í því viðtali mun hafa verið tekin um það ákvörðun að móðir stúlkunnar ræddi við hana og kannaði hvort fótur væri fyrir tilkynningunni. Henni var hins vegar ekki ætlað að spyrja brotaþola í þaula um atburðarásina. Skömmu síðar mun móðirin hafa hringt og upplýst barnaverndaryfirvöld um að stúlkan hefði staðfest að hún hefði verið áreitt af ákærða um áramótin 2009/2010.
Undir rekstri málsins tók lögregla skýrslur af ákærða og nokkrum fjölda vitna, þ.m.t. brotaþola, en skýrsla af henni var tekin fyrir dómi í Barnahúsi. Einnig var aflað vottorða frá sálfræðingi Barnahúss vegna stúlkunnar og þá aflaði lögregla gagna frá barnaverndaryfirvöldum varðandi greiningar sem brotaþoli hafði undirgengist. Ennfremur kallaði lögregla eftir matsgerð um áhrif ætlaðrar lyfja- og áfengisneyslu ákærða.
Rannsókn málsins lauk í nóvember 2011 og gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur ákærða 1. desember það ár samkvæmt áðursögðu.
II.
Ákærði kom fyrir dóm 18. janúar 2012 og neitaði sök í málinu. Þá hafnaði hann bótakröfu þeirri sem tekin er upp í ákæru.
Við aðalmeðferð málsins sagði ákærði framangreinda afstöðu sína óbreytta. Ákærði skýrði að öðru leyti svo frá að áramótin 2009/2010 hefði hann verið í gleðskap á heimili móður sinnar að [...] í C. Samkvæmið hefði hafist með málsverði um kvöldmatarleytið. Síðan hefði verið horft á sjónvarp og því næst skotið upp flugeldum. Kvað ákærði áfengi hafa verið haft um hönd í gleðskapnum.
Um klukkustund eftir að flugeldunum hefði verið skotið upp sagðist ákærði hafa yfirgefið samkvæmið ásamt þremur mönnum, þ.m.t. D og E, og hefðu þeir allir gengið saman áleiðis niður í bæ. Áður hefði ákærði verið búinn að svæfa F, son sinn, inni í herbergi bróður síns, G, og þá hefðu H, dóttir ákærða, og brotaþoli einnig verið farnar að sofa, en þær hefðu sofið í svefnherbergi móður ákærða. Við [...] hefðu leiðir skilið og ákærði einn haldið áfram að [...]. Hvað gerðist eftir það kvaðst ákærði ekki muna vel. Hann ræki þó minni til þess að hafa verið að þvælast um með strák, I að nafni, sem og einhverjum Pólverjum. Ákærði hefði síðan endað í samkvæmi inni í [...]. Að samkvæminu loknu hefði hann tekið leigubíl ásamt öðrum manni, sem farið hefði úr leigubifreiðinni við bensínstöð [...], en ákærði farið með bifreiðinni alla leið að heimili móður sinnar í C. Klukkan hefði þá verið um sjö að morgni.
Inni í húsinu sagði ákærði móður sína eina hafa verið á fótum, en hún hefði verið inni í eldhúsi. Hefði hún sagt ákærða, sem enn hefði verið að drekka, að fara að sofa. Kvaðst ákærði hafa beðið fólk um að vakna með syni sínum þar sem ljóst hefði verið að það myndi hann ekki geta gert. Hann hefði fyrst beðið bróður sinn, G, sem hefði neitað, en G kvað ákærði hafa verið sofandi í sínu herbergi ásamt syni ákærða er hann kom heim um morguninn. Ákærði hefði síðan beðið systur sína, J, hins sama en hún hefði einnig neitað. Að lokum hefði ákærði borið bón sína fram við brotaþola, sem legið hefði á dýnu í herberginu hjá J, og hefði brotaþoli strax svarað játandi. Tók ákærði sérstaklega fram í þessu sambandi að hann myndi ekki betur en að það hefði verið hann sjálfur sem bað stúlkuna þessa, ekki bróðir hans G. Þá kannaðist ákærði aðspurður ekki við að hafa nefnt að drengurinn hefði þörf fyrir að vakna með kvenmann við hlið sér. Út í hött væri að hann hefði gefið þessa skýringu fyrir bón sinni, enda hefði drengurinn allt frá fæðingu sofið hjá ákærða.
Ákærði kvaðst hafa verið mjög blautur, og væntanlega kaldur einnig, þegar hann kom heim um nóttina, enda mikill snjór úti, og því hefði hann tínt til á sig nærföt og sokka í herberginu þar sem sonur hans og brotaþoli lágu. Sagði ákærði aðspurður vel geta passað að hann hefði sest í lítinn uppsettan svefnsófa, sem sé í herberginu, til að fara úr buxum og peysu. Þegar hann hefði farið fram aftur hefði hann haft fataskipti og síðan tekið eina eða tvær svefntöflur, líklega tvær. Er ákærði hefði komið til baka í herbergið hefði brotaþoli verið sofnaður. Ákærði hefði síðan lagst niður við vegginn sem snúi að ganginum og hefði drengurinn verið á milli þeirra brotaþola. Hann hefði síðan sofnað og myndi í raun ekkert meira eftir sér fyrr en hann vaknaði einn í „rúminu“, tveimur gömlum samansaumuðum dýnum, daginn eftir. Kom fram hjá ákærða að hann hefði verið mjög ringlaður er hann vaknaði og fyrst ekki áttað sig á því hvar hann var staddur.
Áfengisneyslu sinni umrædda nótt lýsti ákærði svo að hann hefði verið við drykkju í um tólf klukkustundir. Kvaðst ákærði hafa drukkið vodka, lungann úr einum bjórkassa, landa í áðurnefndu samkvæmi inni í [...], og eitthvað meira til. Þá hefði hann tekið lyf ofan í þessa áfengisneyslu, meðal annars Ritalin og Tafil. Um áfengisneyslu sína almennt á þeim tíma sem atvik máls gerðust bar ákærði hann hefði drukkið svolítið mikið og tók fram að hann hefði verið nýkominn úr sambandi á þessum tíma.
Aðspurður um þann framburð brotaþola að hann hefði, eftir að hann var lagstur niður, fært son sinn og síðan lagst sjálfur niður við hlið stúlkunnar kvað ákærði framburðinn fjarstæðukenndan. Fullyrti ákærði að drengurinn myndi hafa vaknað hefði hann eitthvað hreyft við honum. Spurður út í lýsingar brotaþola á þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru svaraði ákærði því til að hann gæti „... ekkert tjáð mig um það vegna þess að eftir að ég sofnaði þá er eiginlega ekki séns að ég gæti hafa verið vakandi.“ Lýsti ákærði þeirri skoðun sinni að umræddur framburður stúlkunnar væri fjarstæðukenndur.
Fram kom hjá ákærða að brotaþoli hefði oft komið á heimilið eftir umrædd áramót. Kvaðst ákærði ekki hafa tekið eftir neinum breytingum á stúlkunni. Tók ákærði fram að hann hefði aldrei veitt stúlkunni neina sérstaka athygli og var á honum að skilja að samskipti þeirra hefðu verið mjög lítil gegnum tíðina.
III.
Brotaþoli, A, bar fyrir dómi í Barnahúsi 10. nóvember 2010 að um áramótin 2009/2010 hefði hún gist á heimili vinkonu móður sinnar, K, þar sem foreldrar hennar hefðu verið að fara út að skemmta sér ásamt K. Fyrst kvaðst vitnið hafa sofið í stutta stund inni í herbergi hjá H, ungri dóttur ákærða, en síðan hefði systir ákærða, J, fært vitnið yfir í herbergið til sín.
Síðar um nóttina hefði yngri bróðir ákærða, G, komið og beðið vitnið um að sofa við hlið sonar ákærða þar sem drengurinn gæti illa vaknað nema kvenmaður lægi við hlið hans. Áður hefði G verið búinn að biðja J þess sama, en hún neitað. Var á vitninu að skilja að þetta hefði G gert að beiðni ákærða.
Skömmu eftir að vitnið var lagst á dýnu hjá drengnum hefði ákærði, sem í fyrstu hefði setið í stól eða sófa í herberginu, lagst sjálfur á dýnuna. Vitnið lýsti hvernig ákærði hefði komið með ískalda tá á hægri fótlegg vitnisins og kalda fingur á síðu þess. Hann hefði síðan fært son sinn til á dýnunni og sjálfur lagst á milli drengsins og vitnisins. Lýsti vitnið, bæði með orðum en þó aðallega látbragði, hvernig ákærði hefði í kjölfarið tekið um hægri síðu stúlkunnar og síðan strokið að maga hennar. Hann hefði einnig nokkrum sinnum „örugglega svona þrisvar“ strokið frá maga og inn á klof stúlkunnar, allt utan klæða. Spurt um hvort ákærði hefði sagt eitthvað meðan á þessu stóð svaraði vitnið því til að ákærði hefði sagt eitthvað í þá veru að „... þú verður að láta mig vita ef þér líður illa.“. Kom fram hjá vitninu að því hefði fundist þessar snertingar ákærða frekar óþægilegar en það hins vegar ekki þorað að segja neitt við hann.
Eftir þetta hefði vitnið hlaupið út úr herberginu og ákærði þá spurt hvert það væri að fara. Hefði vitnið ekki þorað að svara neinu. Það hefði síðan farið inn til systur ákærða og beðið um að fá að sofa uppi í hjá henni. Stúlkan hefði í fyrstu svarað neitandi en eftir að vitnið hefði ítrekað beiðni sína hefði hún hleypt því upp í rúmið.
Vitnið nefndi að það hefði grátið um nóttina en ekki þorað að hlaupa heim, enda óttast að rekast aftur á ákærða. Þá hefðu föt vitnisins verið annars staðar í húsinu.
Stúlkan sagðist hafa sagt tveimur vinkonum sínum frá því sem gerðist nokkrum dögum eftir atvikið. Áleit vitnið að önnur þeirra hefði síðar sagt móður sinni frá og þannig hefði málið komist upp. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa þorað að segja móður sinni að fyrra bragði frá því sem gerðist.
IV.
K, móðir ákærða, bar fyrir dómi að áramótin 2009/2010 hefði hún haldið fjölmenna veislu á heimili sínu. Um nóttina hefði eldra fólkið farið út að skemmta sér, en eftir hefðu orðið á heimilinu börn ákærða, F og H, sonur vitnisins, G, og brotaþoli.
Vitnið kvaðst hafa komið heim til sín aftur á milli kl. 05:00 og 06:00 um morguninn. Eftir að vitnið kom heim sagði það brotaþola hafa verið færðan úr rúmi vitnisins og yfir í rúm dóttur þess, J, annaðhvort af vitninu sjálfu eða J. Aðspurt kvað vitnið líklegt að föt brotaþola hefðu orðið eftir í herbergi þess.
Þegar ákærði kom heim, mjög drukkinn, kvaðst vitnið hafa bent honum á að koma sér í rúmið. Vitnið hefði enn fremur gert athugasemdir við ástand ákærða og bent honum á að hann þyrfti að vakna með börnum sínum um morguninn. Vitnið kvaðst þess fullvisst að ákærði hefði farið að sofa á undan því. Áður hefði ákærði nefnt að hann ætlaði að fá einhvern af heimilisfólkinu til að vera til taks þegar F vaknaði.
Morguninn eftir sagðist vitnið hafa rætt við brotaþola og þær einnig horft á sjónvarp saman. Kvað vitnið brotaþola ekkert hafa legið á heim og hefði stúlkan setið hjá því í 2-3 klukkustundir áður en hún hélt heimleiðis.
Vitnið sagðist ekki hafa merkt breytingu á brotaþola eftir áramótin eða um sumarið 2010 og tók fram að mikil samskipti hefðu verið á milli fjölskyldnanna það sumar. Brotaþoli og móðir stúlkunnar hefðu oft borðað hjá vitninu og dvalið heilu og hálfu kvöldin og dagana á heimili þess. Þá hefðu fjölskyldurnar farið saman í eitt ferðalag um sumarið sem bæði brotaþoli og ákærði hefðu farið með í.
Aðspurt kvaðst vitnið aldrei hafa orðið vart við að ákærði sækti í börn eða unglinga.
G, bróðir ákærða, sagði fjölskyldu brotaþola hafa borðað heima hjá vitninu á gamlárskvöld 2009. Síðar um kvöldið hefði flugeldum verið skotið upp. Flestir hinna fullorðnu, mögulega allir, hefðu síðan farið út að skemmta sér, en vitnið og brotaþoli orðið eftir heima og gætt barna ákærða, F og H. Um nóttina kvaðst vitnið hafa lagst til hvílu inni í sínu herbergi, gegnt herbergi því sem börnin hefðu sofið í.
Vitnið sagðist ekki hafa orðið vart við það er ákærði kom heim um nóttina. Sérstaklega aðspurt kvaðst vitnið ekki geta staðfest að ákærði hefði vakið vitnið og farið fram á að það vaknaði með F um morguninn. Rámaði vitnið þó í að eitthvað í þá veru hefði gerst. Vitnið sagðist hins vegar minnast þess að F hefði vakið það undir morgun og hefði vitnið þá farið til systur sinnar, J, og beðið hana um að vera með drengnum. Hefði J tekið vitninu illa, enda hún ekki sérlega morgunhress. Kom fram hjá vitninu að þá hefði brotaþoli verið inni í herberginu hjá J. Vitnið hefði síðan farið aftur að sofa. Gat vitnið ekki borið um það með vissu hvað orðið hefði af drengnum, sagði hann þó mögulega hafa farið inn til J.
Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hefði oft komið á heimili þess eftir áramótin 2009/2010. Þá hefðu fjölskyldur brotaþola og vitnisins farið í útilegu um sumarið sem bæði brotaþoli og ákærði hefðu farið í.
Að lokum kom fram hjá vitninu að það hefði ekki orðið vart við að ákærði sýndi brotaþola áhuga áður en atvik máls gerðust.
J, systir ákærða, bar fyrir dómi að hún hefði farið út að skemmta sér um kl. 01:00 umrædda nýársnótt. Taldi vitnið að það hefði komið heim aftur um kl. 07:00 um morguninn. Vitnið kvaðst hafa fært brotaþola úr herbergi móður sinnar og inn til sín, í samræmi við það sem rætt hefði verið milli vitnisins og móður þess fyrr um kvöldið. Inni í herbergi vitnisins hefði mögulega einnig verið H, dóttir ákærða. Kvaðst vitnið ekki hafa orðið vart við ákærða eða móður sína. Þá kannaðist vitnið ekki við að hafa verið vakið síðar og beðið um að fara inn í herbergi þar sem sonur ákærða, F, svaf. Vitnið kannaðist heldur ekki við að brotaþoli hefði farið út úr herberginu.
Aðspurt taldi vitnið sig hafa heyrt að F þætti betra að vakna með kvenmann við hlið sér. Skýringu á því kvaðst vitnið ekki þekkja.
Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hefði komið á heimili þess eftir áramótin 2009/2010. Hefði vitnið ekki merkt neina breytingu á stúlkunni eftir það tímamark.
D, stjúpfaðir ákærða, greindi svo frá að umrædda nýársnótt hefði hann farið ásamt konu sinni og foreldrum brotaþola „niður í bæ“. Vitnið kvaðst hafa verið lengur að skemmta sér en þau hin og ekki komið heim fyrr en um kl. 07:00 að morgni. Spurt um hverjir þá hefðu verið heima gat vitnið ekki öðru svarað en því að það hefði kona hans verið. Um aðra vissi hann ekki.
Aðspurt sagðist vitnið ekki hafa orðið vart við óeðlilegan áhuga hjá ákærða á börnum eða unglingum. „Þá væri ég löngu búinn að henda honum út.“
B, móðir brotaþola, sagðist fyrst hafa frétt af málinu þegar hún hefði 28. október 2010 fengið símtal frá starfsmanni barnaverndarnefndar, L. Fram hefði komið í símtalinu að grunur léki á að dóttir vitnisins, brotaþoli í máli þessu, hefði orðið fyrir kynferðisbroti. Einnig hefði komið fram að hinn grunaði væri tengdur starfskonu í versluninni [...].
Síðar þennan sama dag kvaðst vitnið hafa rætt við brotaþola og spurt stúlkuna þess hvort einhver hefði snert hana með þeim hætti sem ekki mætti gera. Brotaþoli hefði strax farið í vörn en stúlkan síðan greint frá því að um áramótin 2009/2010 hefði ákærði snert hana á hægri síðu og í klofi í herbergi á heimili fjölskyldu ákærða, vinafólks fjölskyldu vitnisins, þar sem hún hefði verið ásamt ungum syni ákærða. Stúlkan hefði sagt viðbrögð sín hafa verið þau að standa upp og fara út úr herberginu. Brotaþoli hefði síðan farið inn í herbergi til J, vakið hana og beðið um að fá að koma upp í til hennar. Hefði J með semingi fallist á það.
Eftir á að hyggja kvaðst vitnið hafa merkt breytingar á brotaþola eftir áramótin 2009/2010. Áður en málið kom upp hefði vitnið hins vegar tengt breytingarnar því að stúlkan væri að komast á unglingsár. Breytingunum lýsti vitnið svo að stúlkan hefði sótt í að vera heima. Nefndi vitnið sérstaklega að stúlkan hefði ekki viljað koma með því á heimili ákærða og þegar hún hefði komið með hefði hún strax viljað fara. Þá nefndi vitnið einnig að breytingar hefðu orðið á námsárangri brotaþola til hins verra vorið 2010. Hefði umsjónarkennari stúlkunnar rætt þessa þróun við vitnið og lýst grunsemdum í þá veru að stúlkan væri með athyglisbrest. Þá hefði sundþjálfari brotaþola komið að máli við vitnið fljótlega eftir áramótin og innt það eftir því hvort eitthvað væri að þjaka stúlkuna.
Spurt um líðan brotaþola í dag svaraði vitnið því til að stúlkunni liði ágætlega. Var á vitninu að skilja að viðtöl brotaþola við sálfræðing hefðu bætt líðan stúlkunnar. Þá hefði vitnið skynjað að brotaþola hefði verið létt eftir að upp komst um málið haustið 2010.
M, systir ákærða, bar að sumarið 2010 hefði brotaþoli oft komið á heimili fjölskyldunnar ásamt móður sinni. Einnig nefndi vitnið að fjölskyldur þess og brotaþola hefðu farið í ferðalag um sumarið þar sem bæði stúlkan og ákærði hefðu verið með.
Sérstaklega spurt kvaðst vitnið aldrei nokkurn tímann hafa orðið vart við að ákærði sýndi börnum eða unglingum óeðlilegan áhuga.
L, deildarstjóri hjá barnavernd C, kvaðst hafa tekið við tilkynningu frá móður vinkonu brotaþola um meint kynferðisbrot gegn brotaþola og í kjölfarið hefði hún kallað foreldra stúlkunnar í viðtal til að greina þeim frá tilkynningunni. Vitnið sagði foreldrunum hafa verið mjög brugðið. Niðurstaða viðtalsins hefði verið að móðir brotaþola ræddi við stúlkuna og kannaði hjá henni hvort tilkynningin ætti við rök að styðjast, og eftir atvikum hvenær meint atvik hefði átt sér stað, en ræddi málið ekki að öðru leyti við stúlkuna. Stuttu síðar hefði móðir brotaþola hringt í vitnið og staðfest réttmæti tilkynningarinnar og upplýst að ákærði væri meintur gerandi. Í kjölfarið hefði lögreglu verið gert viðvart um málið og tilvísun send í Barnahús.
N skýrði svo frá fyrir dómi að tilkynning hefði borist á [...] og [...]skrifstofu C um að brotaþoli hefði greint frá því að hún hefði orðið fyrir áreitni. Vitnið kvað ákvörðun hafa verið tekna um það, að virtum þeim upplýsingum sem fyrir hefðu legið um brotaþola, að móðir stúlkunnar myndi kanna hvort eitthvað hefði átt sér stað. Hún hefði hins vegar ekki átt að fara neitt nánar út í málsatvik við stúlkuna. Þegar staðfesting hefði legið fyrir frá brotaþola hefði verið tekin ákvörðun um að kæra málið til lögreglu.
O greindi svo frá fyrir dómi að brotaþoli hefði æft sund undir hans stjórn frá haustinu 2004 og fram að áramótum 2010/2011. Vorið 2010 kvaðst vitnið hafa orðið vart við breytingar á stúlkunni sem það hefði séð ástæðu til að nefna við foreldra hennar. Þessar breytingar sagði vitnið hafa lýst sér þannig að svo hefði virst „... sem einhver neisti hefði slokknað ...“ og stúlkan verið utangátta. Taldi vitnið að þetta ástand hefði síðar breyst að nokkru leyti til batnaðar.
P bar fyrir dómi að hún hefði verið umsjónarkennari brotaþola í þrjá vetur, frá því stúlkan var 10 ára gömul. Veturinn 2010-2011 kvað vitnið stúlkuna hafa breyst í fasi og vitnið haft af henni áhyggjur. Áður hefði brotaþoli verið glaðvær en þennan vetur hefði yfirbragð stúlkunnar þyngst og henni varla stokkið bros. Hefði vitnið haft af því áhyggjur að brotaþoli væri mögulega kominn með athyglisbrest og hefði vitnið rætt þessar áhyggjur sínar af stúlkunni við móður hennar á fundi í febrúar 2011. Í kjölfarið hefði brotaþoli gengist undir prófanir, að ósk vitnisins, sem skilað hefðu þeim niðurstöðum að athyglisbrestur hrjáði stúlkuna í skólanum en ekki heima.
Q sálfræðingur sagðist hafa framkvæmt athugun á brotaþola í maí 2010 vegna gruns um athyglisbrest og samkvæmt tilvísun frá skóla stúlkunnar. Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hefði sýnt einkenni athyglisbrests í skóla en ekki heima. Þar hefðu hins vegar komið fram einkenni kvíða og depurðar.
Gunnlaugur Sigurjónsson læknir kom fyrir dóm og staðfesti framlagt vottorð frá 2010 um að ákærða hefði verið ávísað lyfjum af Heilsugæslunni í [...] í desember 2009. Fram kom hjá vitninu að áfengi magnaði upp slævandi áhrif lyfjanna Tafil og Stilnoct.
Þá gáfu einnig skýrslu við aðalmeðferð málsins R lögreglufulltrúi og S en ekki þykir þörf á að rekja framburð þeirra sérstaklega.
V.
A.
Í málinu liggja frammi tvö vottorð Margrétar K. Magnúsdóttur, sálfræðings í Barnahúsi, vegna stúlkunnar A. Í vottorði, dagsettu 1. febrúar 2011, segir meðal annars svo:
Hún (A) kveðst ekki vera hrædd við meintan geranda en segir að henni finnist óþægilegt að hitta og/eða sjá hann. A á þó erfitt með að útskýra það nánar hvernig það sé „óþægilegt“. ...
A hefur aldrei kennt sjálfri sér um að meint atvik gerðist og segir meintan geranda bera 100% ábyrgð á því. En það er einmitt algengt meðal þolenda kynferðisbrota að finnast sem þau eigi einhverja sök á því sem gerðist ... og berjast við sektarkennd og skömm vegna þess. Viðbrögð A, sem var að standa upp og fara, þegar meint atvik átti sér stað, á vafalaust sinn þátt í því.
Frásögn A verður að teljast trúverðug og ekkert sem bendir til þess að hún sé ekki að segja satt. Sjálfri finnst henni „gert of mikið mál úr þessu“ og hún var vinkonu sinni reið í byrjun fyrir að hafa sagt frá því sem A sagði henni í trúnaði, en það varð til þess að málið komst upp.
Þá segir meðal annars í vottorði sálfræðingsins frá 3. júní 2011:
A er orðin 13 ára gömul og hefur sótt ... fimm viðtöl á tímabilinu frá 18. nóvember 2012 og þar til nú. ...
[---]
Becks listinn var lagður fyrir A þann 13. apríl sl., en listinn er sjálfsmatskvarði til að kanna sjálfsmat, depurð, kvíða, reiði og truflandi hegðun. Samkvæmt niðurstöðum listans mælist A með ágætis sjálfsmat en er langt undir meðaltali á öllum öðrum mældum þáttum.
MASC listinn var lagður fyrir A þann 2. mars sl. Spurningalistinn er sjálfsmatskvarði sem ætlað er að mæla kvíðaeinkenni hjá börnum og unglingum. Samkvæmt niðurstöðum listans mælist A undir meðaltali á flestum mældum þáttum.
[---]
A kemur fyrir sem róleg og frekar hlédræg unglingsstúlka. Hún er mjög lokuð og á erfitt með að ræða um tilfinningar sínar og líðan og svarar flestum spurningum með „ég veit það ekki“. Það er því frekar erfitt að fá fram svör og/eða viðbrögð frá henni við því sem verið er vinna með eða tala um. Hún á einnig erfitt með að segja frá hversdagslegum hlutum í frjálsri frásögn og segist ekki vita hvað hún á að segja. Hún hefur aldrei átt frumkvæði að umræðum og/eða umræðuefni í viðtölum.
[---]
... hún kveðst ekki vera hrædd við hann og kennir honum alfarið um meint atvik. Hún forðast enn að rekast á hann eða hitta hann úti á götu eða annarsstaðar og myndi forða sér ef hún myndi sjá hann. Þegar gengið er á A varðandi hvað nákvæmlega hún óttast, kom í ljós að hún óttast að meintur gerandi sé henni reiður fyrir að hafa sagt frá. A sá hann fyrir skemmstu ... Þegar gengið var á A varðandi hvernig líðan hennar hafi þá verið segir hún að hjartað hafi hamast og hún orðið andstutt. Slíkt er greinilega lýsing á líkamlegum streitueinkennum sem gjarnan fylgir forðunarhegðun og því að vera stöðugt á varðbergi. A hafði ekki tengt það við hugarástand sitt sem hún virðist vera nokkuð ómeðvituð um. ... Þetta getur komið út af tvennu; annars vegar því, að reynt sé að gefa af sér aðra mynd en raunin er og hins vegar því, að um „undirreporter“ sé að ræða, sem er líklegri skýring í þessu tilfelli og skýrir reyndar einnig margt annað. Niðurstöðurnar gefa þá til kynna að svarandinn hafi lítinn skilning á og sé í engum eða litlum tengslum við tilfinningar sínar. Tilfinningaþroski er lítill og ekki í samræmi við lífaldur, enn sem komið er. Það skýrir vissulega hversu erfiðlega hefur gengið að fá A til að tjá sig um tilfinningar sínar og hvers vegna hún „veit ekki“ svörin við mörgu sem tengist tilfinningum og líðan.
... Fyrri tengsl A við meintan geranda, þ.e. að hún hefur alltaf þekkt hann og hélt að hún gæti treyst honum, er erfitt fyrir hana og er einmitt eitt af þeim atriðum sem getur veitt forspá um alvarleika afleiðinga slíkra brota.
Margrét K. Magnúsdóttir kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði tilvitnuð vottorð sín. Sagði vitnið erfitt að leggja mat á afleiðingar meints kynferðisbrots á brotaþola, fyrir utan það er í vottorðinu frá 3. júní 2011 segi um traust það sem stúlkan hefði áður borið til ákærða, en slíkt hefði forspárgildi varðandi langtímaafleiðingar.
B.
Fyrir liggur í málinu matsgerð Jakobs Líndal Kristinssonar prófessors frá 31. ágúst 2011. Þar leggur hann mat á áhrif þeirrar áfengis- og lyfjaneyslu sem höfð var eftir ákærða við skýrslutöku hjá lögreglu. Niðurstaða matsgerðarinnar er sú að út frá gefnum forsendum hefðu 1028 g af hreinu etanóli átt að vera í líkama ákærða um kl. 07:00 að morgni nýársdags 2010. Það væri meira en fjórfaldur bannvænn skammtur og því augljóst að frásögn ákærða fyrir lögreglu af áfengisneyslu sinni fengi ekki staðist.
Um mat á neyslu lyfja og áfengis segir meðal annars svo í niðurlagi matsgerðarinnar: „Lyfin Tafil retard ® og Stilnoct ® hafa eins og áfengi slævandi verkun á miðtaugakerfið og auka þar með á banvæna verkun þess.“
Jakob Líndal Kristinsson kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og skýrði og staðfesti tilvitnaða matsgerð sína. Kvað vitnið greinilegt, miðað við þær upplýsingar sem því hefðu verið gefnar, að ákærði hefði ofáætlað mjög það magn áfengis sem hann hefði drukkið. Þá kom fram hjá vitninu að lyfin Tafil og Stilnoct ykju á verkun áfengis og að ekki þyrfti mjög mikið magn lyfjanna til að um verulega aukin áhrif yrði að ræða.
VI.
Upplýst er í málinu að A, þá ellefu ára gömul, gisti á heimili fjölskyldu ákærða að [...], C, aðfaranótt 1. janúar 2010. Þegar stúlkan gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi greindi hún svo frá að fyrst hefði hún sofið stutta stund inni í herbergi hjá H, ungri dóttur ákærða, en síðan hefði systir ákærða, J, fært hana yfir í herbergið til sín. Er vætti J fyrir dómi í samræmi við þennan framburð brotaþola og þá er vætti móður ákærða honum einnig til stuðnings.
Þá bar brotaþoli að síðar um nóttina hefði yngri bróðir ákærða, G, komið og beðið vitnið um að sofa við hlið sonar ákærða, og hefði brotaþoli gefið jákvætt svar. Áður hefði G verið búinn að biðja J þess sama, en hún neitað. Var á vitninu að skilja að þetta hefði G gert að beiðni ákærða. Fyrir dómi var framburður G óljós um þetta atriði, en fram kom hjá honum að hann myndi atvik máls illa, enda rúm tvö ár síðan þau gerðust. Frásögn ákærða um þetta var hins vegar greinargóð og í aðalatriðum í samræmi við framburð brotaþola. Ákærði kvaðst þó ekki muna betur en að það hefði verið hann sjálfur sem bað brotaþola um að vakna með syni sínum, þar sem ljóst hefði verið að það myndi hann ekki geta gert, en ekki bróðir hans G. Allt að einu staðfestir framburður ákærða vætti brotaþola þess efnis að brotaþoli hafi undir morgun farið inn í herbergi til ungs sonar ákærða, að tilhlutan ákærða, eftir að systkini ákærða höfðu synjað ósk hans þar um.
A greindi síðan svo frá að skömmu eftir að hún var lögst á dýnu hjá syni ákærða hefði ákærði, sem í fyrstu hefði setið í stól eða sófa í herberginu, lagst sjálfur á dýnuna. Lýsti brotaþoli því hvernig ákærði hefði komið með ískalda tá á hægri fótlegg hennar og kalda fingur á síðu hennar. Ákærði hefði síðan fært son sinn til á dýnunni og sjálfur lagst á milli drengsins og brotaþola. Lýsti stúlkan, bæði með orðum en þó aðallega látbragði, hvernig ákærði hefði í kjölfarið tekið um hægri síðu hennar og síðan strokið að maga hennar. Hann hefði einnig nokkrum sinnum „örugglega svona þrisvar“ strokið frá maga og inn á klof brotaþola, allt utan klæða.
Ákærði lýsti því sem gerðist inni herberginu hins vegar svo fyrir dómi að hann hefði verið mjög blautur, og væntanlega kaldur einnig, þegar hann kom heim um nóttina og því hefði hann tínt til á sig nærföt og sokka í herberginu. Sagði ákærði vel geta passað, sbr. framburð brotaþola, að hann hefði sest í lítinn uppsettan svefnsófa, sem sé í herberginu, til að fara úr buxum og peysu. Þegar hann hefði farið fram aftur hefði hann haft fataskipti og síðan tekið svefnlyf, líklega tvær töflur. Er hann hefði komið til baka í herbergið hefði brotaþoli verið sofnaður. Hefði ákærði lagst í rúmið og hefði sonur hans verið á milli þeirra brotaþola. Ákærði hefði síðan sofnað og myndi í raun ekkert meira eftir sér fyrr en hann vaknaði einn í rúminu daginn eftir.
Fyrir liggur að ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um hvað gerðist eftir að stúlkan lagðist til hvílu hjá ungum syni ákærða umrædda nótt. Svo sem að framan hefur verið rakið fær vætti stúlkunnar fyrir dómi um aðdraganda þess að hún fór inn í fyrrnefnt herbergi um margt stoð í framburði annarra vitna. Þá er framburður hennar og ákærða vel samrýmanlegur um flest annað en það sem beinlínis lýtur að sökum þeim sem ákærði er borinn í málinu. Til að mynda kannaðist ákærði við lýsingar stúlkunnar á því að hvernig hann hefði sest niður í herberginu og þá bendir framburður ákærða eindregið til þess að hann hafi verið kaldur viðkomu eins og stúlkan lýsti. Að mati hins fjölskipaða dóms, sem horft hefur á myndbandsupptöku af skýrslu stúlkunnar í Barnahúsi, var framburður stúlkunnar og látbragð fyrir dómi ákveðið og fumlaust. Fyrir liggur að það var stúlkunni ekki auðvelt að skýra frá umræddum atvikum og þá bendir framburður vitnanna O og P, sundþjálfara og umsjónarkennara stúlkunnar, eindregið til þess að eftir áramótin 2009/2010 hafi líðan stúlkunnar versnað áberandi frá því sem áður var. Hvað vætti P varðar skal sérstaklega tekið fram að augljóst er af framlögðum gögnum, sem og vætti Q og S, að hún var fyrir dómi að lýsa líðan stúlkunnar á þeim tíma.
Gegn framburði brotaþola fer í raun einungis neitun ákærða. Ekki verður hins vegar fram hjá því litið að ákærði var undir talsverðum áfengisáhrifum þegar atvik máls gerðust. Þá þykir mega leggja til grundvallar frásögn hans af því að hann hafi tekið svefnlyf áður en hann lagðist til hvílu. Ástand það sem ákærði var í vegna eigin athafna leysir hann ekki undan refsiábyrgð, sbr. 1. málslið 17. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Líklegt verður hins vegar að telja að vegna þess muni hann lítt eða illa eftir þeirri háttsemi sem hann viðhafði gagnvart brotaþola samkvæmt framburði stúlkunnar.
Að öllu framangreindu virtu þykir sannað með trúverðugum framburði brotaþola, þ.m.t. látbragði hennar, og þeim vitnaframburði sem honum eru til stuðnings samkvæmt framansögðu, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi strokið stúlkunni með hendi, utan klæða, á síðu, maga og nára og farið að minnsta kosti þrisvar inn á klof hennar, svo sem honum er gefið að sök í ákæru. Með þeirri háttsemi braut ákærði gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
VII.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki verið gerð refsing sem áhrif hefur á ákvörðun refsingar í máli þessu. Að broti ákærða virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin sjö mánaða fangelsi. Ekki þykir fært að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.
VIII.
Í málinu gerir B, fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, A, kröfu þess efnis að ákærði verði dæmdur til að greiða stúlkunni miskabætur að fjárhæð 600.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2010 til 2. mars 2011, en þann dag var liðinn mánuður frá því ákærða var kynnt bótakrafan, en dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. sömu laga.
Brotaþoli á rétt til miskabóta úr hendi ákærða vegna þeirrar ólögmætu meingerðar sem í broti ákærða fólst, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og þykja bæturnar í samræmi við dómvenju hæfilega ákvarðaðar 300.000 krónur. Um vexti og dráttarvexti af kröfunni fer svo sem í dómsorði greinir.
IX.
Í samræmi við niðurstöðu málsins verður ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærða verður því gert að greiða samtals 171.241 krónu í sakarkostnað samkvæmt framlögðu sakarkostnaðaryfirliti ákæruvalds. Hann greiði einnig þóknun skipaðs verjanda er hæfilega þykir ákveðin 627.500 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, sem og útlagðan ferðakostnað verjanda, 28.500 krónur. Að endingu verður ákærði dæmdur til að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., bæði á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi, en sú þóknun þykir hæfilega ákveðin 219.762 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sem og útlagðan kostnað réttargæslumanns vegna ferða, 19.600 krónur.
Samkvæmt öllu framangreindu dæmist ákærði til að greiða samtals 1.066.603 krónur í sakarkostnað.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Kristinn Halldórsson, sem dómsformaður, Hervör Þorvaldsdóttir og Símon Sigvaldason. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í sjö mánuði.
Ákærði greiði 1.066.603 krónur í sakarkostnað.
Ákærði greiði A 300.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2010 til 2. mars 2011, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.