Hæstiréttur íslands

Mál nr. 235/2005


Lykilorð

  • Samningur
  • Höfundarréttur
  • Kröfugerð
  • Gagnsök


Þriðjudaginn 20

 

Þriðjudaginn 20. desember 2005.

Nr. 235/2005.

Dagur Group ehf.

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Gunnlaugi Briem

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

og gagnsök

 

Samningur. Höfundarréttur. Kröfugerð. Gagnsök.

Aðalágreiningur málsaðila laut að því, hvort túlka bæri samninga þeirra um tónlistarflutning G á þann veg að D hafi mátt endurútgefa tónlistina óbreytta á svonefndum safndiskum þar sem einnig væri tónlist sem ekki hefði fylgt með upprunalegri útgáfu tónlistarinnar. Óumdeilt var að G hafði um langa hríð tekið þátt í að leika tónlist inn á hljómdiska sem D hafði gefið út, án þess að sérstakir skriflegir samningar hafi verið gerðir um slíkt hverju sinni. Hafði G þá skrifað reikninga á hendur D fyrir hvert tilvik fyrir sig, en ekki gert frekari reikninga né fengið frekari greiðslur þó að D hafi í einhverjum tilvikum endurútgefið tónlistina á svonefndum safndiskum síðar. Fyrir dómi kvaðst G aldrei hafa kvartað við D yfir þessu eða krafið hann um greiðslu. Með hliðsjón af þessu var fallist á það með D, að G hafi borið, þegar hann tók að sér hljóðfæraleik þann sem málið varðaði, að greina D frá því að hann vildi áskilja sér sérstaka greiðslu fyrir endurútgáfu tónlistarinnar á nýjum hljómdiski síðar. Þá var ekki fallist á sjónarmið G um að brotið hafi verið gegn þeim sæmdarrétti sem honum bæri sem listflytjanda samkvæmt höfundalögum, með útgáfu á fyrrgreindum hljómdiski. Var því tekin til greina aðalkrafa D um sýknu af kröfum G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 2005 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Þá krefst hann þess að varakröfu gagnáfrýjanda verði vísað frá héraðsdómi.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 16. ágúst 2005. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur en til vara að aðaláfrýjandi verði dæmdur til þess að greiða sér skaða- og miskabætur að mati Hæstaréttar með dráttarvöxtum frá 15. apríl 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti og „eftir atvikum“ héraðsdómi. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti skýrði gagnáfrýjandi varakröfu sína svo, að með henni væri í reynd einungis krafist lægri fjárhæðar en með aðalkröfunni. Þá skýrði hann kröfuna um málskostnað eftir atvikum í héraðsdómi svo, að með henni væri ekki krafist hækkunar á tildæmdum málskostnaði heldur einungis staðfestingar hans. Að fengnum þessum skýringum gagnáfrýjanda verður litið svo á að með gagnsökinni sé hann aðeins að krefjast staðfestingar á hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjun í þessu skyni er heimil samkvæmt 3. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Krafa aðaláfrýjanda um að varakröfu gagnáfrýjanda verði vísað frá héraðsdómi kom fyrst fram við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti. Hún er því of seint fram komin. Er þá aðeins til athugunar, hvort krafa þessi sætir frávísun án kröfu. Með vísan til þeirrar skýringar á henni sem að framan var getið eru ekki efni til að vísa henni frá dómi.

Skilja verður málatilbúnað gagnáfrýjanda í héraði á þann veg, að hann hafi aðallega reist kröfu sína um fégjald úr hendi aðaláfrýjanda á túlkun samnings aðila um að gagnáfrýjandi léki tónlist inn á hljómdiska hjá aðaláfrýjanda, en til vara á því að með endurútgáfu tónlistarinnar á hljómdiskinum „Eurovision 1986-2003“ hafi aðaláfrýjandi brotið á honum rétt sem honum beri sem listflytjanda samkvæmt V. kafla höfundalaga nr. 73/1972. Vísar hann um þetta til 56. gr. laganna, og telur að brotið hafi verið gegn 4. tl. 1. mgr. 45. gr. og 3. mgr. sömu greinar, sbr. 4. gr., en í síðastnefndu ákvæði er verndaður svonefndur sæmdarréttur.

Aðalágreiningur málsaðila lýtur að því, hvort túlka beri samninga þeirra um tónlistarflutning gagnáfrýjanda á þann veg að aðaláfrýjandi hafi mátt endurútgefa tónlistina óbreytta á svonefndum safndiskum þar sem einnig væri tónlist sem ekki hefði fylgt með upprunalegri útgáfu tónlistarinnar. Óumdeilt er að gagnáfrýjandi hefur um langa hríð tekið þátt í að leika tónlist inn á hljómdiska, sem aðaláfrýjandi hefur gefið út, án þess að sérstakir skriflegir samningar hafi verið gerðir um slíkt hverju sinni. Hefur gagnáfrýjandi þá skrifað reikninga á hendur aðaláfrýjanda fyrir hvert tilvik fyrir sig. Reikningarnir hafa verið gerðir að lokinni upptöku á efninu en gagnáfrýjandi hvorki gert frekari reikninga né fengið frekari greiðslur, þó að aðaláfrýjandi hafi í einhverjum tilvikum endurútgefið tónlistina á svonefndum safndiskum síðar. Sagði gagnáfrýjandi fyrir dómi að í honum hefði lengi blundað að láta reyna á rétt sinn til sérstakra greiðslna fyrir endurútgáfu tónlistarinnar. Hann og aðrir tónlistarmenn hafi horft upp á þetta árum saman og mikið rætt um réttmæti þessa, en enginn samt tekið af skarið fyrr en hann höfðaði mál þetta. Svaraði hann neitandi spurningu um hvort hann hefði „á þessum ferli“ kvartað við aðaláfrýjanda yfir þessu eða krafið hann um greiðslu.

Með hliðsjón af framansögðu verður fallist á það með aðaláfrýjanda, að gagnáfrýjanda hafi borið, þegar hann tók að sér hljóðfæraleik þann sem málið varðar, að greina aðaláfrýjanda frá því ef hann vildi áskilja sér sérstaka greiðslu fyrir endurútgáfu tónlistarinnar á nýjum hljómdiski síðar. Mátti aðaláfrýjandi gera ráð fyrir að án slíks áskilnaðar af hálfu gagnáfrýjanda ætti að gilda sama fyrirkomulag á þessu og áður hafði gilt í viðskiptum aðila.

Ekki verður fallist á sjónarmið gagnáfrýjanda um að brotið hafi verið gegn sæmdarrétti hans með útgáfu á fyrrgreindum hljómdiski.

Með vísan til þessa verður aðaláfrýjandi sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda.

Aðaláfrýjanda, sem hefur atvinnu af útgáfu á tónlist, var í lófa lagið að haga samningsgerð við gagnáfrýjanda á þann veg að tekin væru af tvímæli um rétt til endurútgáfu tónlistarinnar. Málsókn gagnáfrýjanda á rót að rekja til þess að aðaláfrýjandi sinnti þessu ekki. Með hliðsjón af því er rétt að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Dagur Group ehf., skal vera sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Gunnlaugs Briem.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2005.

I

             Mál þetta, sem dómtekið var hinn 14. janúar sl. að loknum munnlegum málflutningi var höfðað fyrir dómþinginu af Gunnlaugi Briem, Hellulundi 19, Reykjavík,  á hendur Skífunni ehf., Lynghálsi 5, Reykjavík, með stefnu þingfestri hinn 15. apríl 2004.

             Dómkröfur stefnanda voru þær aðallega, að stefndi yrði dæmdur til þess að greiða honum 97.500 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001 frá 15. apríl 2004 til greiðsludags, en til vara að stefndi yrði dæmdur til þess að greiða stefnanda skaðabætur, að mati réttarins, er beri dráttarvexti samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001 frá 15. apríl 2004 til greiðsludags.  Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að mati réttarins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

             Dómkröfur stefnda voru þær, að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til þess að greiða honum málskostnað, að mati dómsins.

II

             Stefnandi hefur starfað sem tónlistarmaður í um tvo áratugi.  Hefur hann m.a. oftsinnis tekið að sér einstök verkefni sem svokallaður „sessionmaður”.  Kveður stefnandi að í því felist að taka að sér, gegn gjaldi, tónlistarflutning inn á útgefna hljómdiska. 

             Stefndi er stærsti útgefandi hljómdiska á Íslandi og meðal útgefinna diska er geisladiskurinn „Eurovision 1986-2003”, sem útgefinn var árið 2003.  Af 41 lagi sem er á disknum er stefnandi slagverksleikari í 13 lögum.  Fékk stefnandi greitt fyrir þá vinnu sína frá stefnda, en enginn skriflegur samningur var gerður við stefnanda er hann tók að sér þetta verkefni. 

III

             Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi hafi aðeins greitt honum fyrir að leika á slagverk í áðurgreindum 13 lögum, en stefndi hafi hvorki leitað eftir samþykki hans til að gefa lögin út á greindum safndiski né boðið honum greiðslu vegna útgáfu á tónlistarflutningi stefnanda á nýjum hljómdiski.  Stefnandi kveðst hafa gengið út frá því að greiðsla stefnda til hans hafi verið fyrir þetta eina verkefni og fjárhæð greiðslunnar, sem sé mjög lág, bendi og ekki til annars.

             Stefndandi kveðst undanfarin ár hafa orðið var við að tónlistarflutingur hans á ýmsum útgefnum lögum hafi verið notaður til framleiðslu á nýjum hljómföngum.  Ýmsir safndiskar hafi verið gefnir út á undanförnum árum sem stefndi hafi staðið fyrir útgáfu á.

             Stefnandi mótmælir því, að hann hafi þegið eingreiðslu á sínum tíma fyrir tónlistarflutning sinn og að það sé almennur skilningur.  Kveður hann tónlistarflytjendur almennt líta svo á, þegar þeir séu ráðnir í hljóðver (session), að þeir séu eingöngu ráðnir til að spila á viðkomandi útgáfu, enda taki gjaldskrá þeirra mið af því.  Ef til annarrar notkunar komi, svo sem safndiskaútgáfu, myndbandaútgáfu og mynddiskaútgáfu, þurfi að semja um það sérstaklega.  Enginn slíkur samningur hafi verið gerður við stefnanda.  Telur stefnandi, að sönnunarbyrði fyrir svo víðtækum ráðstöfunarrétti á tónlistarflutningi stefnanda, hvíli á stefnda.

             Telur stefnandi að með slíkri endurútgáfu sé verið að brjóta sæmdarrétt flytjenda.  Með þátttöku stefnanda í einstaka útgáfu liggi fyrir með hvaða listamönnum viðkomandi spili og í hvaða listræna umhverfi tónlistin sé.  Þetta hafi áhrif á túlkun hans og tónlistarsköpun.  Um leið og hugverk, tónlistin, sé tekin úr upprunalegu samhengi veiki það þá listsköpun sem upprunalega hafi átt sér stað.  Þá hafi borið á því undanfarið að útgefnir safndiskar hafi verið notaðir sem fylgihlutir með pylsupökkum og sé þá tónlistin orðið aukaatriði og sæmdarrétti listamannsins með því freklega misboðið.

             Stefnufjárhæð sína hefur stefnandi sundurliðað með eftirgreindum hætti:

             Vegna notkunar á tónlistarflutningi kr. 7.500 x 13 = 97.500 krónur.

             Kveður stefnandi að hann krefji nú stefnda um lægri þóknun en almennt sé greitt fyrir „sessionvinnu” í dag.

             Til vara krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda, að mati réttarins og byggir á því, að stefndi hafi með endurútgáfu á tónlistarflutningi stefnanda brotið gegn sæmdarrétti stefnanda.  Stefnandi hafi upphaflega verið ráðinn til að flytja tónlist sína út frá ákveðnum forsendum og hafi þá ekki verið rætt um endurútgáfu verksins eða útgáfu þess á safndiski síðar meir.  Stefnandi eigi rétt til að ákveða um nýtingu tónlistar hans umfram það sem hann hafi sannanlega skuldbundið sig gagnvart stefnda.

             Einnig byggir stefnandi varakröfu sína á því, að með ólögmætri notkun stefnda á tónlistarflutningi stefnanda með útgáfu á safndiski, hafi stefndi komist hjá greiðslum til stefnda og e.t.v. fleiri listamanna.  Stefndi sé því að hagnast á ólögmætan hátt á listflutningi stefnda.  Samkvæmt 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972 beri stefnda að greiða stefnanda skaðabætur.

             Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttar.  Einnig vísar stefnandi til samnings FÍH og SHF sem og höfundalaga nr. 73/1972.

             Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

             Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  

IV

             Stefndi byggir kröfu sína á því, að stefnandi hafi ávallt fengið greidda eina ákveðna upphæð fyrir sessionleik sinn inn á plötur sem stefndi hefur gefið út, án tillits til hugsanlegrar endurútgáfu eða útgáfu tiltekinna laga á safnplötum.  Stefnanda sé því fullljóst hvernig viðskiptunum sé háttað og hafi verið um langt skeið, en hann hafi starfað á þessu sviði í mörg ár og átt viðskipti við stefnda.  Stefndi kveðst ávallt hafa greitt stefnanda eingreiðslu fyrir „sessionleik” þegar stefndi hafi fengið stefnanda til að spila inná tilteknar upptökur.  Hafi alltaf verið litið svo á að um eingreiðslu sé að ræða fyrir slíka vinnu stefnanda fyrir stefnda og hafi stefnandi aldrei áður krafist þessa fyrir aðrar plötur sem hann hafi spilað inná fyrir stefnda.  Ávallt hafi verið litið svo á að stefndi hefði fullan rétt til að gefa út lög sem stefnandi hafi spilað inná á safndiskum eða í endurútgáfu og jafnframt að láta tilteknar plötur fylgja með ýmsum tilboðum.

             Þar sem aðilar hafi ávallt hagað viðskiptum sínum á þennan hátt sé komin á venja milli aðila í viðskiptum þeirra.  Vísar stefndi til þeirrar viðskiptavenju milli aðila og byggir á því að ef stefnandi vilji nú fara að haga viðskiptum sínum öðruvísi en verið hafi þurfi hann að taka það sérstaklega fram.  Það hafi stefnandi aldrei gert og hafi ekki gert í þessu tilviki.

V

             Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu fyrir endurútgáfu á lögum sem stefnandi hefur leikið inná áður útgefna hljómdiska.  Krefur stefnandi stefnda um greiðslu fyrir flutning í 13 lögum á hljómdisknum Eurovision 1986-2003.  Byggir stefnandi á því, að stefndi sé með þessari endurútgáfu að nota vinnu stefnanda umfram það sem samið hafi verið um og það sé móðgandi fyrir listamann að svo sé farið með list hans, eins og stefndi hafi gert án nokkurs samráðs við stefnanda.  Stefndi byggir á því að stefnandi hafi þegar fengið greitt fyrir vinnuframlag sitt með eingreiðslu, sem miðast hafi við það að stefndi gæti m.a. endurútgefið lögin.  Slíkt fyrirkomulag á greiðslu fyrir „sessionleik” hafi viðgengist í um áratug.

Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins.  Kvaðst hann hafa leikið inná yfir 200 hljómdiska í tímans rás.  Nú sé hins vegar verið að taka þessa tónlist og setja hana inná nýja diska með öðrum nöfnum.  Hafi hann horft upp á þessa endurútgáfu árum saman, en ekki tekið af skarið fyrr en nú, þar sem engar skýrar reglur séu til um rétt flytjanda annars vegar og útgefanda hins vegar til þess konar endurútgáfu. Það sem fyllt hafi mælinn sé sala á pylsupökkum með hljómdiski, sem heitir Eurovisionpartýbomba, þar sem séu 5 lög sem hann hafi leikið inná.  Kvaðst hann aldrei hafa samþykkt að tónlistin yrði seld með matvörum og særi það sæmd hans.  Kvað stefnandi gæta mikillar óánægju í hópi flytjenda vegna þess að upprunaleg verk sem þeir vinna við og séu eign stefnda, séu tekin úr samhengi og sett yfir á diska með nýjum nöfnum.  Með því sé verið að búa til nýja vöru úr þeim án samráðs við flytjendur.  Sé óánægja meðal flytjenda með að fá ekki greitt fyrir þetta. Stefnandi kvaðst einnig starfa erlendis, sem „sessionspilari”.  Þar sé sá háttur hafður á að samningur sé gerður við tónlistarmanninn fyrir ákveðna vinnu og kveðið á um það í þeim samningi að ef  til annarrar útgáfu komi hjá fyrirtækinu verði samið um það sérstaklega.  Kvast stefnandi aldrei hafa fengið greitt fyrir endurútgáfu.  Kvaðst hann hafa hafið feril sinn árið 1977 og haft þetta að aðalatvinnu frá 1980 og þá mest við að spila inná hljómplötur.  Áður en Skífan varð til hafi hann átt viðskipti við forvera þess fyrirtækis.  Upptökur á þeim lögum sem höfnuðu á þessum hljómdiskum sem liggja frammi, fóru fram alveg frá því að fyrsta Eurovisionkeppnin fór fram.  Á síðustu 8-10 árum hafi farið að bera á safndiskum af þessu tagi eftir samruna Spors og Steinars við Skífuna.  Kvað stefnandi stefnufjárhæðina fundna út með áætlun þ.e. miðað sé við helming af launum fyrir upprunalega verkið.

             Árni Gíslason, rekstrarstjóri hjá Skífunni, gaf skýrslu fyrir dómi.  Kvað hann stefnanda hafa unnið fyrir stefnda frá 1983 og viðskiptin verið framkvæmd á sama hátt  þennan tíma.  Greitt hafi verið vel fyrir ofan taxta FÍH og miðað við eingreiðslu.  Aldrei hafi verið greitt fyrir endurútgáfu, án þess að semja um það sérstaklega.  Stundum hafi verið greitt fyrir ef um væri að ræða aðalsöngvara og honum þá greiddur ágóðahlur vegna sölunnar.    Þegar samið sé við „sessionleikara” vegna vinnuframlags, sé aldrei samið um að nota lagið á ákveðinn hátt. 

             Ellen Rósalind Kristjánsdóttir gaf og skýrslu fyrir dómi.  Kvaðst hún hafa fengið greitt fyrir lag sem hún söng í Eurovisionkeppni en hafi ekki sungið það til þess að gefa lagið út á hljómdiski.  Eftir að lagið kom út á hljómdiski kvaðst hún hafa óskað eftir greiðslu frá stefnda. Hún kvaðst nú gera þannig samninga fyrir flutning að hún krefðist hárrar eingreiðslu.  Með því sé hún að leyfa notkun á laginu síðar.  Áður, er hún var að byrja feril sinn, hafi ekki verið mikið um  hljómdiska og þar með endurútgáfu þeirra og því hafi hún ekki gert slíka samninga þá.

             Eins og að framan hefur verið rakið hafa viðskipti aðila átt sér stað í áravís.  Ekki hefur verið gerður sérstakur samningur milli aðila um þessa vinnu, hvorki í upphafi viðskipta þeirra eða síðar. Hafa greiðslur og verið með þeim hætti að stefnandi fær svokallaða eingreiðslu fyrir tónlistarflutning sinn inná hljómdiska fyrir stefnda.  Hins vegar liggur ekki fyrir að með því hafi stefnandi gefið stefnda heimild til þess að nota umræddan tónlistarflutning stefnanda að eigin vild.    Verður að telja að stefnda beri að sýna fram á að notkunarheimild hans sé svo víðtæk, sem hann heldur fram.    Þegar það er virt og þar sem ekki liggur fyrir samningur þessa efnis ber að fallast á kröfu stefnanda í máli þessu.  Þar sem ekki liggur fyrir að stefnandi hafi fengið greitt fyrir vinnuframlag sitt á umdeildum hljómdiski ber að fallast á að hann eigi ógreidda þóknun vegna þeirrar vinnu sinnar, eins og aðalkrafa hans hljóðar um, enda hefur stefndi ekki sýnt fram á að hún sé úr hófi.  Þá ber stefnda að greiða stefnanda dráttarvexti, eins og krafist er, en dráttarvaxtakröfu hefur ekki verið mótmælt sérstaklega.   

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 125.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.    

             Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

             Stefndi, Skífan ehf., greiði stefnanda, Gunnlaugi Briem, 97.500 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá 15. apríl 2004 til greiðsludags.

             Stefndi greiði stefnanda 125.000 í málskostnað.