Hæstiréttur íslands

Mál nr. 667/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Þriðjudaginn 6. október 2015.

Nr. 667/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. og d. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 30. október 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

               

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur fellur í máli hans þó eigi lengur en til föstudagsins 30. október 2015 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði hafi hinn 10. júlí sl. verið úrskurðaður við Héraðsdóm Reykjavíkur í gæsluvarðhald til 7. ágúst sl., sbr. úrskurð nr.  [..]/2015, sem framlengt var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]/2015 7. ágúst sl. og aftur 4. september [..]/2015  til dagsins í dag.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi gefið út ákæru 31. ágúst sl. á hendur ákærða fyrir neðangreind brot, en málið hafi verið þingfest sama dag, sbr. héraðsdómsmálið S-452/2015, en mál  Ríkissaksóknara S-1073/2014 hafi verið sameinað undir S-452/2015 og séu málin nú rekin saman. Í ákæruskjali Ríkissaksóknara hafi kærði verið ákærður fyrir valdstjórnarbrot, sbr. ákæruskjal frá 14. desember 2014 og hann hafi neitaði sök við fyrirtöku 31. ágúst sl. Kærði neiti sök í öllum ákæruliðum lögreglustjóra. Kærði sæti nú geðrannsókn og hafi [...] geðlæknir verið dómkvaddur til að meta sakhæfi kærða, sbr. 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga. Hann muni ljúka sinni rannsókn á næstu dögum samkvæmt upplýsingum sem liggi fyrir í málinu. Aðalmeðferð málsins fari því fram á næstu vikum, sbr. bókun úr þingbók frá 4. september sl. eða þegar niðurstaða geðrannsóknar liggi fyrir.

Kærði hafi nú verið ákærður af lögreglustjóra fyrir eftirtalin brot gegn fyrrum sambýliskonu:

Mál lögreglu númer. 007-2015-[...]. Líkamsárás, brot á nálgunarbanni og hótun.

          Hinn 9. júlí sl. hafi lögreglu borist tilkynning um að kærði hefði gengið í skrokk á fyrrum sambýliskonu sinni, A, á heimili hennar að [...] í Reykjavík. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi brotaþoli tekið á móti þeim en kærði hafi þá verið farinn af vettvangi. Brotaþoli hafi verið í miklu uppnámi og með sýnilega áverka á andliti og munni. Kvaðst hún hafa orðið fyrir árás, en hún hafi kveðið kærða hafa haft samband við sig þrátt fyrir nálgunarbann og hann hafi komið til hennar, en verið undir áhrifum fíkniefna. Kærði hafi í fyrstu verið rólegur en skyndilega æst sig, rifið í hana og lamið ítrekað í andlitið. Kærði hafi einnig ógnað henni með sprautunál. Vinkona brotaþola hafi einnig verið á vettvangi og hafi hún verið vitni að árásinni, sem og hún hafi var kýld í magann. Kvaðst hún einnig hafa verið hrædd og haldið að kærði myndi drepa brotaþola. Hún hafi farið af vettvangi og hringt í lögreglu. Kærði hafi verið handtekinn skömmu síðar í grennd við vettvang og hafi hann verið í mjög annarlegu ástandi. Kærði sé því undir sterkum grun að hafa brotið gegn nálgunarbanni sem hann hafi sætt frá 13. júní sl. um að hann megi ekki nálgast A eða hafa nokkur önnur samskipti við hana. Jafnframt þessu sé hann undir sterkum grun um líkamsárás og hótanir, með því að hafa veist að A og slegið í hana margsinnis í andlitið og hótað að stinga hana og sýkja með sprautunál. Í gögnum liggi myndir af brotaþola sem teknar hafi verið skömmu eftir atvikið sem sýni áverka. Vitni sem hafi verið á vettvangi kvað kærða hafa veist að brotaþola og lamið hana. Kærði neiti að tjá sig. Teljist brotið varða við 217., gr., 233. gr. og 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Auk þessa máls sé kærði sterklega grunaður um eftirfarandi brot gegn lífi, líkama, frelsi og velferð fyrrverandi sambýliskonu, A, framin á undanförnum vikum og ákæra verði gefin út á næstu dögum:

Mál nr. 007-2015-[...] – líkamsárás og brot gegn nálgunarbanni.

          Hinn 22. júní sl. Kærði sé grunaður um líkamsárás með því  að hafa aðfaranótt mánudagsins 22. júní að [...] í Reykjavík veist að fyrrverandi sambýliskonu sinni A, á heimili hennar, með því að halda henni og slá hana í höfuðið, ógnað henni eftir atvikum hótað henni og skemmt eigur hennar. Jafnframt að hafa brotið gegn ofangreindu nálgunarbanni, sem kærði sætti frá 13. júní. Lögregla hafi verið kölluð á vettvang og handtekið kærða. Brotaþoli kvæðist hafa orðið fyrir ofbeldi og hafi kallað til vini sína til að láta fjarlægja kærða. Kærði neiti að tjá sig um árásina. Teljist þetta varða við 217. gr. og 232. gr. almennra hegningarlaga. nr. 19/1940.

Mál nr. 318-2015-[...] – Brot gegn nálgunarbanni.

          Hinn 19. júní sl. Kærði sé grunaður um að hafa brotið gegn nálgunarbanni með því að hafa samskipti við A í gegnum samskiptaforritið Facebook, sbr. gögn sem liggi fyrir í málinu. Kærði neiti að tjá sig. Teljist þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga.

Mál nr. 318-2015-[...] – Líkamsárás og hótanir.

          Á tímabilinu frá föstudeginum 5. júní til föstudagsins 12. júní 2015 innandyra í bústað númer [..] í [...] og í bifreiðinni [...] veist að fyrrverandi sambýliskonu sinni A, kt. [...] með ofbeldi og hótunum svo sem að neðan greinir;

i. föstudaginn 5. júní, innandyra í bústað nr. [...] i [...], veist að A með því að hrinda henni í gólfið, haldið henni niðri og slegið hana hnefahöggum í andlitið,

ii. að kvöldi fimmtudagsins 11. júní, innandyra í bústað nr. [...] í [...] veist að A með því að slá hana hnefahöggum í andlitið og haldið henni niðri í gólfinu, og klórað og kreist, allt með þeim afleiðingum að A hafi hlotið ýmsa yfirborðsáverka á líkamanum,

iii. föstudaginn 12. júní, inn í bifreiðinni [...] við [...] veist með ofbeldi að A, með því að slá A og jafnframt hótað henni með sígarettu og sagst ætla að brenna hana og hafi þetta verið til þess fallið að vekja hjá A ótta um líf sitt og velferð, en afleiðingar framangreindra árása hafi verið sár á neðri vör, mar á hægra augnloki, mjúkvefjabólga á hægri kjálka og eymsli yfir henni, kúla á hvirfli vinstra megin og hægra megin ofarlega á enni, talsverð eymsli yfir þeim, klórför vinstra megin við háls, á vinstri upphandlegg og hægri öxl og mar á vinstri fótlegg við hné. Teljist þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998 og er varði ákærulið og við 233. gr. almennra hegningarlaga. Kærði hafi verið úrskurðaður í nálgunarbann í kjölfar þessa máls, sbr. ákvörðun lögreglustjóra frá 13. júní sl., sem staðfest hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands nr. [..]/2015 frá 30. júní 2015.

Mál nr. 007-2015-[..] – Hótanir.

Hinn 8. maí sl. Kærði sé grunaður um að hafa hótað A að klippa af henni fingurinn með töng sem hann hafi otaði að henni í bifreið við [...] í Reykjavík, en þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi brotaþoli verið farinn úr bifreiðinni og komin inn í verslun [...] að [...] í Reykjavík og hafi hún verið í miklu uppnámi og grátið. Vitni, verslunarstjórinn kvæði brotaþola hafa komið hlaupandi inn í búðina og beðið um aðstoð lögreglu. Kærði neiti að tjá sig um atvikið. Teljist þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga.

Kærði er einnig undir grun um eftirgreind brot:

          Fíkniefnabrot, mál  nr. 007-2015-[...], vörslur á 0,31 g af amfetamíni 26. júní sl. Teljist þetta varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974. Umferðarlagabrot, mál nr. 007-2015-[...], akstur undir áhrifum fíkniefna 12. júní á Suðurlandsvegi, í blóði hafi mælst metýlfenídat 20 ng. Teljist þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1 mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Kærði sé nú undir rökstuddum grun um að hann hafi á undaförnum vikum veist ítrekað að fyrrum sambýliskonu sinni, A, með ofbeldi og hótunum, þrátt fyrir að hann hafi verið úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart henni hinn 13. júní sl. í kjölfar meintrar hótunar og líkamsárásar. Við rannsókn mála þessara hafi komið í ljós að kærði sé í mikilli neyslu fíkniefna, þ.á m. sprautuefna. Þá hafi komið í ljós við rannsókn málanna að kærði hafi haft samskipti við A á því tímabili er nálgunarbannið hafi staðið yfir í því skyni að dvelja á heimili hennar. Er það því mat lögreglu að ekki sé unnt að verja A gegn frekari árásum af hálfu kærða með öðrum og vægari hætti en að kærði sæti gæsluvarðahaldi, enda hafi kærði nú ítrekað sýnt vilja sinn í verki að brjóta gegn umræddu nálgunarbanni þannig að heilsu og velferð A sé stefnt í verulega hættu. Sé það því jafnframt mat lögreglu að í ljósi þessa séu yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda áfram þessu brotamynstri fari hann frjáls ferða sinna. Það sé því brýnt fyrir lögreglu að kærði sæti gæsluvarðhaldi uns málum hans sé lokið, en ákæruvaldið muni hraða málum eins og kostur sé fyrir dómi.

Kærði hafi hlotið ítrekaða refsidóma vegna hegningarlagabrota og því ljóst að hann muni hljóta óskilorðsbundna fangelsisrefsingu fyrir þau brot sem reifuð séu í kröfugerð.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c- og d-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.

Niðurstaða.

         Samkvæmt gögnum málsins er ákærði undir rökstuddum grun um að hafa ítrekað ráðist á fyrrverandi sambúðarkonu sína. Hinn 8. maí sl. hafi hann otað töng að konunni og hótað að klippa fingurna af henni. Hinn 5. og 11. júní 2015 ráðist að konunni með ofbeldi og líkamsmeiðingum, þannig að áverkar hlutust að, þar sem hún var stödd innandyra í [...] og sömuleiðis hinn 12. júní ráðist á konuna þar sem hún var við [...] með ofbeldi og hótunum og barsmíðum þannig að áverkar hlutust af.

         Þá er ákærði undir rökstuddum grun um líkamsárás, hótanir og brot á nálgunarbanni gegn sömu konu 19. júní, 22. júní og 9. júlí. Varðar háttsemi af þessum toga við 217. gr., 232., og 233. gr. almennra hegningarlaga, laga um ávana og fíkniefni nr. 65, 1974 og umferðarlaga nr. 50, 1987. Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 10. júlí sl. til dagsins í dag. Ákæra var gefin út 31. ágúst sl.

         Samkvæmt þessu er fullnægt því grunnskilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að uppi sé rökstuddur grunur um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Þá er um ítrekuð brot að ræða gegn sömu konunni, þar sem ákærði brýtur að auki endurtekið gegn nálgunarbanni sem ákveðið var 13. júní sl. og staðfest var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. sama mánaðar. Ljóst er að ákærði neyti örvandi fíkniefna sem veldur hömluleysi í hegðun sem bitnar á konunni. Í ljósi þessa er á það fallist með lögreglustjóra að ætla megi að ákærði muni halda áfram brotum meðan máli hans er ólokið sem og að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að verja fyrrum sambýliskonu hans fyrir árásum af hans hálfu. Því er skilyrðum c- og d-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, fullnægt og ekki efni til þess að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma. Því ber að fallast á kröfu sóknaraðila eins og í dómsorði greinir.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til föstudagsins 30. október 2015 kl. 16:00.