Hæstiréttur íslands

Mál nr. 273/2004


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Kröfuréttur
  • Matsgerð


Dómsatkvæði

 

Fimmtudaginn 27. janúar 2005.

Nr. 273/2004.

VSÓ ráðgjöf ehf.

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

gegn

Umhverfisrannsóknum ehf.

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Verksamningur. Kröfuréttur. Matsgerð.

Aðilar deildu um skyldu V ehf. til greiðslu á fimm reikningum U ehf. vegna vinnu við að fara yfir og endurbæta texta einstakra kafla í matsskýrslu um umhverfisáhrif á árinu 2002. Gerði U ehf. kröfu um 5.000 króna tímagjald fyrir vinnu í samtals 415.5 klukkustundir auk greiðslu fyrir akstur. Hélt V ehf. því fram að U ehf. krefðist greiðslu fyrir óeðlilega marga tíma og að fjárhæð tímagjaldsins væri of há. Voru kröfur V ehf. reistar á niðurstöðum matsmanns sem dómkvaddur var að beiðni þess. Í málinu lá fyrir að aðilar höfðu samið um endurgjald að fjárhæð 3.300 krónur á klukkustund og gert með sér drög að verksamningi vegna vinnu í tengslum við fyrrnefnda matsskýrslu. Samningurinn var aldrei undirritaður en aðilar voru sammála um að sá texti hefði að öðru leyti en varðandi höfundarrétt að geyma efni þess munnlega samnings sem komst á. Í Hæstarétti var talið með vísan til þeirra gagna sem fyrir lágu í málinu að V ehf. hefði borið að greiða U ehf. 3.500 krónur á tímann fyrir fyrrnefnda vinnu í 27.5 klukkustundir og 4.500 krónur á tímann fyrir vinnu í 227 klukkustundir auk 11.492 króna í greiðslu fyrir akstur eða samtals 1.405.906 krónur. Þar sem V ehf. hafði þegar greitt 1.540.000 krónur með fyrirvara var U ehf. gert að greiða fyrrnefnda félaginu 134.094 krónur að frádregnum dráttarvöxtum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. júní 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 534.748 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. apríl 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Á árinu 2000 mun áfrýjandi hafa tekið að sér að vinna fyrir Landsvirkjun matsskýrslu um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu sbr. 9. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Haustið 2000 komst á samningur milli áfrýjanda og Ragnhildar Sigurðardóttur, sem er doktor í vistfræði og með þrjár meistaragráður í náttúruvísindum, um að hún tæki að sér sem ráðgjafi að gera samantekt á niðurstöðum úr rannsóknum sem unnar höfðu verið á svæði fyrirhugaðrar Norðlingaölduveitu og að vinna við önnur verkefni eftir nánara samkomulagi. Var umsamið endurgjald fyrir vinnu hennar 3.300 krónur á klukkustund. Um þetta voru gerð skrifleg drög að verksamningi, sem tekinn eru í heild upp í hinum áfrýjaða dómi, en samningur var aldrei undirritaður. Stefndi segir ástæðu þess vera að ekki hafi náðst samkomulag um 5. lið samningsdraganna um höfundarrétt og fleira. Aðilar eru sammála um að texti þessara draga hafi að öðru leyti að geyma efni þess munnlega samnings sem á komst. Ekki er ágreiningur um að stefndi, sem er einkahlutafélag í eigu Ragnhildar, sé formlegur samningsaðili í hennar stað enda munu reikningar vegna verksins hafa verið gefnir út af honum. Í samningsdrögunum var gert ráð fyrir að verkinu yrði lokið 30. apríl 2001 og að vinna Ragnhildar yrði að hámarki 500 klukkustundir.

 Verkið reyndist bæði umfangsmeira og tímafrekara en ráð hafði verið fyrir gert. Ragnhildur skilaði drögum að köflum um einstök atriði í matsskýrslunni til áfrýjanda á tímabilinu frá nóvember 2001 til 7. janúar 2002. Hún vann eftir það að frágangi einstakra kafla og yfirlestri skýrslunnar fram í mars 2002. Stefndi gerði  áfrýjanda í febrúar og mars 2002 fimm reikninga fyrir vinnu Ragnhildar á árinu 2002 þar sem krafist var 5.000 króna tímagjalds fyrir vinnu í samtals 415.5 klukkustundir, auk greiðslu fyrir akstur. Mál þetta er risið af ágreiningi aðila um skyldu áfrýjanda til greiðslu þessara reikninga.

 Áfrýjandi gerir ekki athugasemdir við þann tímafjölda, 27,5 klukkustundir, sem stefndi gerir kröfu um vegna vinnu fyrstu sjö daga janúarmánaðar 2002, eða fram til þess tíma að Ragnhildur skilaði drögum að síðasta kaflanum sem hún vann að vegna matsskýrslunnar. Áfrýjandi telur hins vegar að honum beri ekki skylda til að greiða fyrir nema hluta þeirra vinnustunda sem stefndi krefur um fyrir vinnu eftir þennan tíma. Telur hann að stefndi krefjist greiðslu fyrir óeðlilega marga tíma vegna vinnu Ragnhildar við að fara yfir og endurbæta texta einstakra kafla, annarra en kafla um gróðurfar, í þeim drögum að matsskýrslu, sem skilað var til Skipulagsstofnunar síðari hluta janúar 2000, en ekki er deilt um að Ragnhildur hafi átt að inna af hendi vinnu við þessa yfirferð. Þá telur áfrýjandi að stefndi eigi ekki kröfu til greiðslu vegna meginhluta vinnu Ragnhildar við gróðurfarskafla skýrslunnar, við að meta stærð og gerð gróðursvæðis, enda hafi Ragnhildur í þeim efnum ekki fylgt fyrirmælum og áfrýjandi ekki beðið um þessa vinnu. Þá telur áfrýjandi sér ekki skylt að greiða fyrir 40 klukkustunda vinnu Ragnhildar í mars 2002 við yfirlestur matsskýrslunnar. Loks greinir aðila á um fjárhæð tímagjalds og miðar áfrýjandi kröfugerð sína við að greiddar verði 3.500 krónur fyrir hvern þeirra 27,5 tíma sem Ragnhildur vann fyrstu sjö daga janúarmánaðar 2002 en 4.500 krónur fyrir hverja vinnustund eftir það.

Meðal gagna málsins eru tvær fundargerðir, 18. janúar 2002 og 11. febrúar sama ár, vegna vinnu við matsskýrsluna og allmörg tölvubréf er gengu milli aðila fyrstu mánuði ársins 2002. Áðurnefndum reikningum stefnda fylgdu vinnuskýrslur þar sem tilgreint var hversu marga tíma Ragnhildur vann á degi hverjum í janúar til mars 2002, en aðeins var tilgreint að takmörkuðu leyti við hvað var unnið hvern dag. Hefur áfrýjandi ekki mótmælt þeirri fullyrðingu stefnda að vinnuskýrslum hafi verið skilað í svipuðu formi vegna vinnu Ragnhildar á árunum 2000 og 2001. Þann 27. mars 2002 gerðu aðilar samkomulag, sem tekið er í heild upp í hinum áfrýjaða dómi, en samkvæmt því greiddi áfrýjandi stefnda 1.540.000 krónur með fyrirvara 3. apríl 2002.

 Eins og nánar greinir í héraðsdómi var að beiðni áfrýjanda dómkvaddur matsmaður 21. apríl 2003 til að meta hver væri „eðlilegur og sanngjarn klukkustundafjöldi vinnuframlags“ Ragnhildar vegna endurbóta á textum annarra kafla matsskýrsludraganna en gróðurfarskaflans. Þá skyldi matsmaður framkvæma sambærilegt mat á vinnu Ragnhildar við gróðurfarskaflann, en í því tilviki út frá tvennum forsendum. Annars vegar miðað við að vinnan hefði verið unnin með þeim hætti sem áfrýjandi taldi sig hafa óskað eftir og nánar var lýst í matsbeiðninni, en hins vegar miðað við vinnu á þann hátt sem Ragnhildur innti af hendi. Í matsgerðinni, 29. október 2003, var niðurstaðan sú að eðlilegur og sanngjarn vinnustundafjöldi vegna endurbóta á öðrum köflum skýrsludraganna en gróðurfarskaflanum væri 146,5 klukkustundir en vegna vinnu við gróðurfarskaflann 9 klukkustundir miðað við forsendur áfrýjanda en 170 klukkustundir miðað við vinnu Ragnhildar. Var matsgerðin lögð fram í héraði 9. desember 2003 og breytti áfrýjandi þá kröfum sínum í málinu. Eru þær nú reistar á niðurstöðu matsgerðarinnar um aðra kafla en gróðurfarskaflann og 9 klukkustunda vinnu Ragnhildar við endurbætur á texta hans.

 Þann 12. febrúar 2004 lagði stefndi fram í héraði nýjar vinnuskýrslur um störf Ragnhildar í janúar, febrúar og mars 2002 er stefndi kveður reistar á samtímagögnum hennar. Er fjöldi vinnustunda á hverjum degi í samræmi við þær vinnuskýrslur er fylgdu reikningum stefnda og fyrr er lýst, en tilgreining á því sem unnið var við mun nákvæmari. Samkvæmt þessum skýrslum hefur Ragnhildur unnið í tæpar 160 klukkustundir við gróðurfarskaflann ef eingöngu eru taldir þeir tímar, sem unnt er af texta skýrslnanna með vissu að heimfæra undir hann. Að auki tilgreinir Ragnhildur vinnu við gróðurfarskaflann meðal annarra verkefna nokkurra daga.

II.

Stefndi telur að fyrrgreind matsgerð verði ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Telur hann að matsmaðurinn, sem sé efnaverkfræðingur, hafi ekki verið hæfur til að meta vinnuframlag Ragnhildar, en hún sé hámenntuð á sviði náttúruvísinda. Bendir hann á að hann hafi látið bóka athugasemdir við hæfi matsmanns bæði við dómkvaðningu hans 21. febrúar 2003 og á matsfundi 13. júní sama ár. Hann krafðist hins vegar ekki úrskurðar vegna dómkvaðningarinnar, svo sem unnt hefði verið samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í matsgerðinni gerir matsmaður grein fyrir umfangsmikilli reynslu sinni af vinnu við mat á umhverfisáhrifum síðustu fjögur ár fyrir matið. Réttmæti þessara upplýsinga hefur ekki verið hnekkt. Í ljósi þess verður ekki fallist á með stefnda að matsmann skorti hæfi til matsins. Í annan stað bendir stefndi á að matsmaður hafi ekki haft undir höndum öll þau gögn er máli gátu skipt við matið og að matið hafi ekki tekið til allra þátta í vinnu Ragnhildar við endurbætur á texta matsskýrslunnar. Ekki er annað í ljós leitt en að stefndi hafi á matsfundi og við framkvæmd matsins ella átt þess kost að leggja fyrir matsmann öll þau gögn er hann taldi máli skipta við matið og gæta þar hagsmuna sinna að öðru leyti. Rýrir það ekki gildi matsins að hann haldi því nú fram að tiltekin skjöl málsins hefðu veitt matsmanni fyllri forsendur við framkvæmd þess. Með skýrslu matsmanns fyrir héraðsdómi er hins vegar í ljós leitt að matsmaður tók ekki við matið tillit til vinnu Ragnhildar við endurbætur á þeim texta matsskýrslunnar er varðaði jarðmyndanir. Nær matið því ekki til þessa þáttar og rýrir það gildi þess að því er hann varðar. Af vinnuskýrslum Ragnhildar eða öðrum gögnum verður ekki með vissu ráðið hversu margar vinnustundir stefndi telur hana hafa unnið við þennan þátt.

Eins og að framan er rakið komst matsmaður að þeirri niðurstöðu að 170 tímar hafi farið í vinnu Ragnhildar við gróðurfarskaflann. Lætur nærri að álíka langur tími hafi verið skráður til þessa verkþáttar í tímaskýrslum Ragnhildar. Verður niðurstaða matsgerðarinnar lögð til grundvallar um þetta enda hefur henni ekki verið hnekkt. Samkvæmt því gerir hún kröfu um greiðslu fyrir 178 stunda vinnu við endurskoðun á textum annarra kafla matsskýrslunnar. Í niðurstöðu framangreindrar matsgerðar er sanngjarn vinnustundafjöldi vegna þessarar vinnu talinn vera 146.5 klukkustundir. Þegar litið er til þess sem að framan er rakið um að matið tók ekki til allra þátta í vinnu Ragnhildar að þessum textum og hliðsjón höfð af ákvæðum 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup verður ekki talið að áfrýjanda hafi tekist að sýna fram á að krafa stefnda vegna þessa verkþáttar sé reist á óeðlilegum eða ósanngjörnum fjölda vinnustunda. Verður því lagt til grundvallar að áfrýjanda beri að greiða stefnda fyrir 178 stundir vegna þessa verkþáttar.

Í öðru lagi lýtur ágreiningur aðila að vinnu Ragnhildar að endurbótum á texta þess kafla matsskýrslunnar er fjallaði um gróðurfar, en drögum að texta þess kafla virðist Ragnhildur hafa skilað í desember 2001. Sú vinna sem umdeild er lýtur fyrst og fremst að nákvæmri flokkun gróðurlenda og gróðurhverfa og mati á flatarmáli þeirra og hlutfallslegri skerðingu út frá þremur viðmiðunum. Samkvæmt framansögðu verður lagt til grundvallar að 170 vinnustundir séu sanngjarn og eðlilegur vinnustundafjöldi vegna þeirrar vinnu er Ragnhildur innti af hendi við þennan verkþátt. Verður þá að leysa úr því hvort krafa stefnda lúti að mestum hluta að endurgjaldi fyrir vinnu sem fellur utan verkefnis Ragnhildar og áfrýjandi óskaði aldrei eftir að unnin yrði eða hvort líta beri svo á að henni hafi borið skylda til að skýra áfrýjanda frá umfangi þessarar vinnu áður en í hana var ráðist.

Á nokkrum stöðum í gögnum málsins er vikið að vinnu við endurskoðun á texta gróðurfarskaflans. Eins og áður er rakið eru meðal þessara gagna tvær fundargerðir um vinnu við matsskýrsluna vegna funda sem Ragnhildur var viðstödd. Sú fyrri þeirra, frá 18. janúar 2002, varðar eingöngu vinnu við endurbætur á gróðurfarskaflanum. Kemur fram í fundargerðinni að til séu tveir kortagrunnar vegna kortlagningar á gróðri í og við fyrirhugað lónstæði. Séu grunnarnir það ólíkir að ekki sé hægt að bera beint saman svæði þau er þeir ná til. Komið hafi fram sú skoðun að flokka þurfi gróðurhverfin upp og í sumum tilvikum í undirflokka til að gera sér grein fyrir skerðingu einstakra svæða. Þá var bókað að til væru í gögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands yfirlit yfir gróður á afrétti Gnúpverjahrepps og Holtamanna. Varð niðurstaðan að Guðmundur Guðjónsson hjá Náttúrufræðistofnun Íslands tæki að sér að kanna hvort upplýsingar um gróður á framangreindum afréttum væru aðgengilegar, en eðlilegast væri að nota þær upplýsingar þegar metin væri heildarrýrnun gróðursamfélaga í lónstæðinu. Í tölvupósti Ragnhildar til áfrýjanda 6. febrúar 2002 kemur fram að gróðurkaflinn sé „því nær tilbúinn“. Í fundargerð 11. sama mánaðar kemur fram að Ragnhildur sé að ljúka við einstaka kafla skýrslunnar meðal annars kaflann um gróður. Var áætlað að þessi gögn myndu liggja fyrir miðvikudaginn 20. febrúar 2002. Ragnhildur skuldbatt sig ekki til að skila gögnunum á þessum degi, en vænti þess að það yrði í þeirri viku. Ragnhildur kvaðst hafa unnið þrjár tillögur um afmörkun gróins svæðis í nágrenni Norðlingaölduveitu. Þá hafi Guðmundur Guðjónsson bent á fjórðu tillöguna. Lagði Guðjón Jónsson, starfsmaður áfrýjanda, til að ekki yrði tekin ákvörðun um hvaða leið yrði farin fyrr en Guðmundur hefði farið yfir þær allar í samráði við Landsvirkjun.

 Þegar þessi gögn eru virt verður ekki betur séð en áfrýjandi hafi mátt ætla að vinna við gróðurfarskaflann væri á lokastigi í fyrri hluta febrúarmánaðar 2002. Á fyrrgreindum vinnuskýrslum Ragnhildar sést hins vegar að langstærstur hluti vinnu hennar við þennan kafla fór fram eftir 18. þess mánaðar. Þegar litið er til þess hversu mikil þessi vinna var verður að telja að stefnda hafi borið skylda til að gera áfrýjanda viðvart um umfang hennar áður en í hana var ráðist. Það gerði stefndi ekki og getur því ekki krafið áfrýjanda um endurgjald vegna þeirrar vinnu. Samkvæmt niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns verður stefnda ákveðin greiðsla fyrir 9 klukkustundir vegna þessa verkþáttar.

Í þriðja lagi telur áfrýjandi að honum beri ekki að greiða stefnda fyrir 40 stunda vinnu Ragnhildar við yfirlestur á lokatexta matsskýrslunnar, sem hún vann frá 22. til 26. mars 2002 samkvæmt vinnuskýrslum sínum. Í lok fyrrnefndrar fundargerðar frá 11. febrúar 2002 er svofelld bókun: „Þegar RS hefur lokið vinnu við ofangreind verkefni mun hún fara yfir matsskýrsluna með VSÓ. Farið verður yfir skýrsluna hjá VSÓ og RS mun koma með allar skýrslur og heimildir sem hún hefur fengið hjá VSÓ eða á kostnað VSÓ. RS gerir ráð fyrir að yfirlesturinn taki 1 viku.“ Af þessari bókun verður ráðið að aðilar hafi gert ráð fyrir að Ragnhildur læsi skýrsluna yfir. Þá er ljóst að yfirlesturinn tók ekki lengri tíma en ráð hafði verið fyrir gert. Hefur áfrýjandi ekki fært fram nein haldbær rök fyrir því að honum beri ekki að greiða fyrir þessa vinnu.

Loks lýtur ágreiningur aðila að því hversu hátt endurgjald stefnda beri fyrir hverja unna stund. Eins og að framan er rakið komst í upphafi samstarfs aðila á samningur um 3.300 króna endurgjald á klukkustund. Ber þeim saman um að í lok ársins 2001 hafi hafist umræður um breytingu á því gjaldi til hækkunar. Á fyrrgreindum fundi 11. febrúar var bókað að Ragnhildur hafi farið fram á hækkun taxtans í 5.000 krónur en fulltrúi áfrýjanda ekki fallist á það. Þá er bókað að samið verði um hækkunina síðar. Í tölvupósti daginn eftir bauð áfrýjandi án skilyrða hækkun taxtans í 3.500 krónur fyrir vinnu í janúar og 4.500 krónur eftir það. Þann 13. sama mánaðar féllst Ragnhildur á 4.500 króna tímagjald frá og með febrúarmánuði en sætti sig ekki við lægra gjald en 4000 krónur fyrir vinnu í janúar. Þessu svaraði áfrýjandi með tölvupósti samdægurs þar sem hann féllst á kröfu Ragnhildar en tók það fram að áfrýjandi þyrfti „þá að fá nákvæmari tímaskýrslu frá þér, þ. e. sundurliðun varðandi einstaka verkþætti matsskýrslunnar þannig að við getum séð hvaða tími fer í einstaka kafla.“ Eftir þetta gengu milli aðila tillögur að texta samnings er tæki til allra þátta í ágreiningi þeirra þar sem meðal annars var gert ráð fyrir 5.000 króna endurgjaldi á klukkustund. Ekki tókust samningar á þeim grundvelli.

Samkvæmt framansögðu verður talið að með tölvupóstsamskiptum aðila 12. febrúar 2002 og 13. sama mánaðar hafi komist á samningur um að tímagjaldið skyldi vera 4.000 krónur fyrir vinnu í janúar 2002 en 4.500 fyrir vinnu eftir það. Varðandi vinnu fyrir janúar 2002 var hækkun gjalds úr 3.500 krónum þó háð því skilyrði að stefndi sundurliðaði nánar vinnu sína niður í einstaka verkþætti. Það gerði hann ekki fyrr en 12. febrúar 2004, er hann lagði fyrrgreindar vinnuskýrslur fram í héraði. Verður ekki talið að svo síðbúin sundurliðun fullnægi nefndu skilyrði. Samkvæmt því verður að telja að 3.500 króna tímagjald hafi gilt um vinnu Ragnhildar í janúar 2002 en 4.500 krónur fyrir vinnu hennar eftir það. Kröfugerð áfrýjanda varðandi tímagjaldið, sem miðast við 3.500 króna greiðslu fyrir hverja þeirra 27.5 stunda sem Ragnhildur vann  frá 1. til 7. janúar 2002 en 4.500 fyrir hverja vinnustund eftir það er hagfelldari stefnda en þetta og verður því lögð til grundvallar dómi í málinu.

Samkvæmt framansögðu bar áfrýjanda að greiða stefnda vegna fyrrgreindra reikninga 3.500 krónur á tímann fyrir vinnu í 27.5 klukkustundir og 4.500 krónur á tímann fyrir vinnu í 227 klukkustundir auk 11.492 króna greiðslu fyrir akstur eða samtals 1.405.906 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Af þeirri fjárhæð bera  776.208 krónur dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2002 til 1. apríl sama ár en fjárhæðin öll frá 1. til 3. apríl 2002. Síðastnefndan dag greiddi áfrýjandi eins og framan er rakið 1.540.000 krónur með fyrirvara. Verður stefnda samkvæmt þessu gert að greiða áfrýjanda 1.540.000 krónur að frádregnum 1.405.906 krónum og að frádregnum framangreindum vöxtum af kröfu stefnda fram til 3. apríl 2002 en frá þeim degi  með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Stefndi, Umhverfisrannsóknir ehf., greiði áfrýjanda, VSÓ ráðgjöf ehf., 134.094 krónur að frádregnum dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 776.208 krónum frá 1. mars 2002 til 1. apríl sama ár og af 1.405.906 krónum frá þeim degi til 3. sama mánaðar, en með dráttarvöxtum samkvæmt sama ákvæði af mismuninum frá 3. apríl 2002 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                                                                 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2004.

          Mál þetta, sem dómtekið var 9. mars 2004, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Umhverfisrannsóknum ehf. kt. 610301-2070, Krókabyggð 10, Mosfellsbæ, gegn VSÓ ráðgjöf ehf., kt. 681272-0979, Borgartúni 20, Reykjavík, með stefnu sem birt var 8. apríl 2002.

          Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði gert að greiða til stefnanda 1.060.796 kr. auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá 1. mars 2002 til 1. apríl 2002 en af 2.600.796 kr. frá 1. apríl 2002 til 3. apríl 2002 en af 1.060.796 kr. frá 3. apríl 2002 til greiðsludags.  Einnig er þess krafist að dráttarvextir leggist við höf­uðstól dómkrafa á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 1. mars 2003, 12 mánuðum eftir upp­hafsdag dráttarvaxta, skv. 12. gr. 1. nr. 38/2001.  Jafnframt er gerð krafa um máls­kostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

          Dómkröfur stefnda eru að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum máls­kostnaðarreikningi.

          Með framlagningu stefnu í dómi 20. júní 2002 höfðaði stefndi gagnsök á hendur stefnanda í aðalsök.

          Dómkröfur stefnanda í gagnsök eru:

1. Að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda 534.748 kr. ásamt dráttar­vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu frá 3. apríl 2002 til greiðsludags.

2. Að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda málskostnað samkvæmt fram­lögðum málskostnaðarreikningi.

          Dómkröfur gagnstefnda eru að gagnstefndi verði sýknaður af öllum kröfum gagn­stefnanda og að gagnstefnandi verði dæmdur til að greiða gagnstefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

 

Helstu málavextir eru að samkomulag var með aðilum haustið 2000 að dr. Ragnhildur Sigurðardóttir tæki að sér að vinna að verkefni fyrir stefnda.  Ekki var gerður skrif­legur samningur en fyrir liggur uppkast af samningi frá stefnda, dags. 1. nóvember 2000,  sem af hálfu stefnanda segir að ekki hafi verið undirritaður, þar sem dr. Ragnhildur hafi ekki verið fyllilega sátt með ákvæði hans um höfundarrétt, þagn­ar­skyldu og samkeppnishömlur.  Í þessu uppkasti segir að stefndi sem verkkaupi og Ragnhildur Sigurðardóttir sem ráðgjafi geri með sér eftirfarandi samning:

 

1.  Verkefni

Ráðgjafi tekur að sér að gera samantekt á rannsóknarniðurstöðum úr rannsóknum sem unnar hafa verið á svæði Norðlingaölduveitu.  Einnig getur komið til vinna við önnur verk­efni samkvæmt nánara samkomulagi.  Verkefnin verða unnin í nafni VSÓ Ráðgjafar og með þátttöku starfsmann VSÓ.

Umfang starfsins er áætlað að hámarki 500 klst. sem þarf að vinna á tímabilinu 1. nóv 2000 - 30 apríl 2001.  Ef samkomulag verður um vinnu við önnur verkefni verður samið sérstaklega um vinnuframlag í þeim.

 

2.  Vinnutími og aðstaða

Reiknað er með að stærsti hluti þessa verks verði unnin á tímabilinu nóvember 2000 - febrúar 2001.

Verkkaupi leggur ráðgjafa til fasta vinnuaðstöðu en ráðgjafa er þó heimilt að vinna við verkefnið annars staðar eftir samkomulagi.  Gert er ráð fyrir föstum vikulegum fundum meðan vinnan stendur.

 

3.  Þóknun

Verkkaupi greiðir ráðgjafa þóknun fyrir störf hans skv. mánaðarlegum reikningum.  Þóknun verður 3.300 kr/klst án VSK.  Auk þess verður greiddur annar sannanlegur út­lagður kostnaður sem ráðgjafi þarf að leggja út fyrir, í tengslum við verkefnið.

 

4.  Gildistími

Samningur þessi gildir frá 1. nóvember 2000 til 31. maí 2001.  Samningurinn er upp­segjan­legur með gagnkvæmum eins mánaðar fyrirvara.

 

5.  Höfundarréttur, þagnarskylda og samkeppnishömlur

Höfundarréttur á verkum ráðgjafa sem unnin eru undir þessum samningi er eign verk­kaupa nema um annað sé samið.

Ráðgjafa er óheimilt að birta eða opinbera á annan hátt upplýsingar um verkkaupa eða verkefni sem unnin eru undir samningi þessum, nema sérstaklega verði samið um slíkt.  Þagnarskyldan helst þó samningi sé rift eða sagt upp eða hann útrunninn.

Ráðgjafi tekur ekki að sér verkefni hjá verkfræðifyrirtækjum í tengdri starfsemi án sam­ráðs við verkkaupa.

 

6.  Málarekstur

Rísi mál útaf samningi þessum skal reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

 

Aðila gerðu með sér eftirfarandi samkomulag 27. mars 2002:

 

Dr. Ragnhildur Sigurðardóttir, kt. 260466-4299, Umhverfisrannsóknir ehf., kt. 61031-2070, annars vegar, og VSÓ ráðgjöf ehf., kt. 681272-0979, hins vegar, gera með sér svo­fellt samkomulag vegna loka á samningssambandi aðila um vinnu Ragnhildar og Um­hverfisrannsókna ehf. við rannsóknir, samantekt og skýrslur í tengslum við mat á um­hverfisáhrifum Norðlingaölduveitu.

 

Umhverfisrannsóknir ehf. hafa gert VSÓ ráðgjöf ehf. reikninga nr. 12, 13, 14 og nr. 15, samtals að fjárhæð kr. 2.351.796.-.  Þá hefur Ragnhildur að auki lagt fram 40 klst. vinnu við yfirlestur matsskýrslu fyrir VSÓ ráðgjöf ehf. en athugsemdir við mats­skýrsl­una í samræmi við yfirlesturinn hafa nú verið afhentar VSÓ ráðgjöf ehf.  Ragnhildur krefur VSÓ ráðgjöf ehf. um kr. 200.000 vegna yfirlestursins auk virðis­auka­skatts, og verður sá reikningur lagður fram við undirritun samkomulags þessa.

 

Ágreiningur er með aðilum um reikninga þessa, m.a. að því er varaðar umbeðið vinnu­framlag, umkrafið tímagjald og tímafjölda.  Varðandi reikning vegna yfirlesturs hefur VSÓ alfarið hafnað greiðsluskyldu vegna hans. VSÓ ráðgjöf ehf. greiði Um­hverf­isrannsóknum ehf. við undirritun samkomulags þessa kr. 1.540.000 með fyrir­vara um greiðsluskyldu sbr. framangreint en fjárhæðin samsvarar greiðslu fyrir 375 stundir á kr. 3.300 auk virðisaukaskatts. Umhverfisrannsóknir ehf. móttaka á sama hátt greiðsluna með fyrirvara um að félagið muni krefja VSÓ ráðgjöf ehf. um fulla greiðslu á framangreindum reikningum auk dráttarvaxta frá gjalddaga þeirra.  Aðilar munu leitast við eftir fremsta megni að leysa þennan ágreining með samkomulagi.  Fari svo að aðilum takist ekki að leysa ágreininginn fyrir 15. apríl nk. skal hvorum aðila um sig heimilt að höfða dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til úrlausnar því eftir atvikum hvort um frekari greiðslur verði að ræða frá VSÓ ráðgjöf ehf. til Umhverfis­rannsókna ehf. eða hvort Umhverfisrannsóknir ehf. skuli endurgreiða VSÓ ráðgjöf ehf.

 

Komi til þess að rekið verði dómsmál um ágreining aðila vegna verkefnis þess er sam­komu­lag þetta fjallar um lýsa aðilar yfir að þeim er ljóst að ákvæði samkomulags þess um trúnað gilda einnig við þær aðstæður nema ófrávíkjanleg ákvæði réttar­farslega kveði á um að víkja beri frá ákvæðum samkomulagsins.  Aðilar munu þannig ekki tjá sig við þriðja aðila í tengslum við rekstur hugsanlegs dómsmáls, hvorki að eigin frumkvæði eða eftir beiðni þar um, um þau atriði er trúnaðarskylda nær til.

 

Höfundaréttur að skýrslu dr. Ragnhildar "Áhrif Norðlingaölduveitu á náttúrufar Þjórsár­vera" er framseldur til VSÓ ráðgjafar ehf. en VSÓ ráðgjöf ehf. skal í hvívetna virða höfundarheiður Dr. Ragnhildar Sigurðardóttur.

 

Umhverfisrannsóknir ehf., dr. Ragnhildur Sigurðardóttir og aðrir starfsmenn Um­hverf­isrannsókna ehf. heita VSÓ ráðgjöf ehf. fyllsta trúnaði um allar upplýsingar sem fram koma í samskiptum aðila og tengjast hlutverki og starfsemi VSÓ ráðgjafar ehf. fyrir Landsvirkjun og Norðlingaölduveitu og vinnu Umhverfisrannsókna ehf. og dr. Ragnhildar Sigurðardóttur að verkefni því sem samkomulagið tekur til.

 

Umhverfisrannsóknir ehf., dr. Ragnhildur Sigurðardóttir og aðrir starfsmenn félagsins skulu gæta þess að trúnaðarupplýsingar berist ekki frá félaginu til annarra sem þær eru ekki ætlaðar.  Trúnaðarskylda þessi helst þó öllum samningum aðila verði rift eða sagt upp eða þó samningar aðila séu útrunnir.

 

Umhverfisrannsóknum ehf., dr. Ragnhildi Sigurðardóttur og öðrum starfsmönnum félags­ins er óheimilt að birta eða að opinbera á annan hátt almennar upplýsingar um VSÓ ráðgjöf ehf., verkefni það er samkomulag þetta tekur til eða önnur verkefni sem tengjast Norðlingaölduveitu og sem unnin eru hjá VSÓ ráðgjöf ehf. nema sérstaklega verði samið um slíkt.  Þagnarskyldan helst þó samningum aðila sé rift eða sagt upp eða þó samningar aðila séu útrunnir.

 

Umhverfisrannsóknir ehf. og aðrir starfsmenn félagsins taka ekki að sér verkefni hjá ráðgjafafyrirtækjum á Íslandi við mat á umhverfisáhrifum fyrir stór raforkumannvirki á samráðs við VSÓ ráðgjöf ehf. fyrr en sex mánuðir eru liðnir frá því að matsskýrsla vegna Norðlingaölduveitu hefur verið auglýst af hálfu Skipulagsstofnunar enda verði mats­skýrslan lögð fyrir Skipulagsstofnun í samræmi við þær áætlanir sem nú liggja fyrir og matsskýrslan auglýst af hálfu Skipulagsstofnunarinnar innan hæfilegs og lög­mælts tíma.

 

Allar tilvitnanir, nafngreiningar og túlkanir á rannsóknarniðurstöðum í framlagðri skýrslu dr. Ragnhildar Sigurðardóttur og Umhverfisrannsókna ehf. skulu vera í sam­ræmi við viðurkenndar aðferðir og lög.

 

Áður en VSÓ ráðgjöf ehf. gengur endanlega frá matsskýrslu um umhverfisáhrif Norðl­ingaölduveitu til Landsvirkjunar vegna fyrirhugaðrar framlagningar Lands­virkjunar á matsskýrslunni til Skipulagsstofnunar skal Umhverfisrannsóknum ehf., og Ragnhildi Sigurðardóttur veittur réttur til að fara yfir matsskýrsluna með tilliti til þess að dr. Ragnhildi Sigurðardóttur séu ekki ranglega tileinkaðar skoðanir eða mat á ein­stökum efnisatriðum matsskýrslunnar.

 

Umhverfisrannsóknum ehf., og dr. Ragnhildi Sigurðardóttur skal heimilt að nota þær rann­sóknarniðurstöður sem fram koma í framangreindri skýrslu dr. Ragnhildar sem grunn að vísindagreinum, t.d. til birtingar í fagtímaritum hér á landi eða erlendis.  Notkun Umhverfisrannsókna ehf. og dr. Ragnhildar Sigurðardóttur á rann­sókn­ar­nið­urstöðum í þessum vísindalega tilgangi skal þó eigi fara fram, án samþykkis VSÓ ráð­gjafar ehf., fyrr en endanleg stjórnsýsluákvörðun um umhverfisáhrif Norðl­inga­öldu­veitu liggur fyrir.  Frá 1. janúar 2003 skal Umhverfisrannsóknum ehf., og dr. Ragnhildi þó heimilt, án samþykkis VSÓ ráðgjafar ehf., að nota rann­sókn­arnið­ur­stöður í skýrslunni í framangreindum tilgangi þrátt fyrir að endanleg stjórn­sýslu­ákvörðun liggi ekki fyrir.  Ef ljóst er fyrir þennan tíma að stjórnsýsluákvörðun verður ekki tekin, t.d. vegna þess að framkvæmdaaðili fellur frá framkvæmdinni, þá eru Umhverfisrannsóknir ehf., og dr. Ragnhildur Sigurðardóttir, óbundin af samþykki VSÓ ehf. að þessu leyti.

 

Umhverfisrannsóknum ehf., og dr. Ragnhildi Sigurðardóttur skal heimilt að vísa til þess að framangreind skýrsla dr. Ragnhildar hafi verið unnin fyrir VSÓ ráðgjöf ehf. í feril­skrám Umhverfisrannsókna ehf. og/ eða dr. Ragnhildar Sigurðardóttur.

 

          Þann 21. febrúar 2003 var Teitur Gunnarsson efnaverkfræðingur dómkvaddur að beiðni stefnda til að meta svo sem í matsbeiðni segir:

 

1.        Hver sé eðlilegur og sanngjarn klukkustundafjöldi vinnuframlags dr. Ragnhildar Sigurðar­dóttur fyrir matsbeiðanda á tímabilinu 9. janúar 2002 til 7. mars 2002 vegna endurbóta á textum frá því sem var í fylgiskjölum 2 til 7 og til þess sem er í fylgi­skjali 12, þó að frátaldri þeirri vinnu sem fram kemur í fylgiskjali 14, efnis­atriði 8.

2.        a)  Hver sé eðlilegur og sanngjarn klukkustundafjöldi vinnuframlags dr. Ragnhildar Sigurðardóttur við endurbætur á texta varðandi efnisatriði 8 á fylgiskjali 14 frá því sem var í fylgiskjali 2 og til þess sem er í kafla 2 í fylgiskjali 12.  Miða skal við að vinnan hefði verið unnin með þeim hætti sem lýst er í beiðni þessari að matsbeiðandi hafi óskað eftir, m.a. ekki flokkun eftir gróðurhverfum.

b)  Hver sé eðlilegur og sanngjarn klukkustundafjöldi vinnuframlags dr. Ragnhildar Sigurðardóttur við endurbætur á texta varðandi efnisatriði 8 á fylgi­skjali 14 frá því sem var í fylgiskjali 2 og til þess sem er í kafla 2 í fylgiskjali 12.  Miðað skal við vinnu með þeim hætti sem gert var, þ.e. flokkun eftir gróð­ur­hverfum.

 

          Í matsbeiðninni segir að með mati á ofangreindu hyggist matsbeiðandi sanna að stunda­fjöldi tilgreindur á reikningum á fylgiskjölum 15 - 18 [reikningar stefnanda 1. febrúar, 1. mars (tveir) og 7. mars 2002] sé langt úr hófi fram miðað við það verk er Ragnhildi Sigurðardóttur var falið að vinna og þann tilgang sem það átti að þjóna.  Stefnt sé að því að færa sönnur á hver hafi verið eðlilegur og sanngjarn klukku­stunda­fjöldi vinnu við verkið.

          Í kafla í matsgerðinni sem ber fyrirsögnina Ályktanir segir:

 

Jarðmyndanir.  Fyrsti kaflinn í skýrslunni (fylgiskjali 12) [þ.e. dskj. 29, skýrslur stefnanda og dr. Ragnhildar Sigurðardóttur til stefnda vegna mats á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu], fjallar um jarðmyndanir, virðist ekki snerta deilurnar og verður ekki meira fjallað um hann.

Gróðurfar.  Annar kafli skýrslunnar (fylgiskjal 12), fjallar um áhrif Norðlinga­ölduveitu á gróðurfar Þjórsárvera.  Talsverð vinna hefur verið lögð í umskrif þessa kafla miðað við fyrri útgáfu (fylgiskjal 2) og fer langmest fyrir nýrri og ítarlegri skiptingu gróðurlendis og túlkun þeirra mælinga.  Þessi þáttur vinnunnar er ekki metinn samkvæmt matsbeiðni 1, en sérstaklega samkvæmt matsbeiðni 2.a) og b).  Af kafla 2 er um yfirlestur og endurskoðun að ræða á um það bil 18 bls af 35, en nýtt efni vegna nýrrar og ítarlegri skiptingu gróðurlendis á 17 bls.  Þetta nýja efni kemur í stað um­fjöllunar á 3 bls. í eldri útgáfu.

Freðmýrarrústir.  Þriðji kafli skýrslunnar (fylgiskjal 12) fjallar um áhrif Norðlinga­öldu­veitu á freðmýrarrústir í Þjórsárverum.  Kaflinn er 7 bls að lengd og er nokkuð um­skrifaður frá fyrri útgáfu (fylgiskjal 3).  Ekki er talið óeðlilegt að svo sé í ljósi þess að höfundur var á sama tíma að ganga frá rannsóknarskýrslu um áhrif Norðlinga­ölduveitu á freðmýrarrústirnar.  Talsvert af breytingum er sótt óbreytt í þá skýrslu, eða um 3 bls.

Heiðagæs og tegundafjölbreytileiki fugla.  Fjórði kafli skýrslunnar (fylgiskjal 12) fjallar um áhrif Norðlingaöldu á heiðagæs og fjölbreytileika fugla í Þjórsárverum.  Kaflinn er 14 bls að lengd og nokkuð endurskoðaður frá fyrri útgáfu (fylgiskjal 4).

Vatnalíf.  Fimmti kafli skýrslunnar (fylgiskjal 12) fjallar um áhrif Norðlingaölduveitu á vatnalíf Þjórsárvera.  Kaflinn er 8 bls að lengd, hefur verið yfirfarinn en nær ekkert endur­skoðaður frá fyrri útgáfu (fylgiskjal 5).

Vistfræði.  Sjötti og síðasti kafli skýrslunnar (fylgiskjal 12) fjallar um ályktanir um vistfræðileg áhrif Norðlingaölduveitu á Þjórsárver.  Kaflinn er 11 bls að lengd og talsvert breyttur og aukinn frá fyrri útgáfu (fylgiskjal 6).  Aukið efni er að mestu leyti beint afritaðar ályktanir frá fyrri köflum (um 6 bls.), en annað efni (um 5 bls) yfirfarið og endurskoðað.

Samtals er yfirfarið og endurskoðað efni í köflum 2 til 6 á um 58 bls. fyrir utan breytingar í kafla 2 er falla undir efnisatriði 8 í fylgiskjali 14.  Af þessum 58 bls. er beint afritað efni á um 9 bls., lítið endurskoðað efni á um 5 bls., en nokkuð endur­skoðað efni á 44 bls.  Samtals er efni sem fellur undir breytingar samkvæmt efnis­atriði 8 í fylgiskjali 14 á 17 bls. í öðrum kafla skýrslunnar (fylgiskjal 12) en á 3 bls. í eldri útgáfu (fylgiskjal 2).

Samkvæmt upplýsingum Ragnhildar Sigurðardóttur til VSÓ í tölvuskeytum 14. desember, 16. desember 2001 og 7. janúar 2002 (fylgiskjal 1) hafa kaflar um gróð­ur­far, smádýr, jarðfræði, sífrera og rústir, fugla, vistfræði og vatnalíf þegar verið yfir­farnir 7. janúar.  Frekari upplýsingar Ragnhildar í tölvuskeytum 1. febrúar, 6. febrúar og 8. febrúar 2002 (fylgiskjöl 22, 23 og 24) benda til að VSÓ hafi mátt ætla að yfir­ferðin væri mun umfangsminni en raun varð, samkvæmt framlögðum reikningum og vinnu­skýrslum (fylgiskjöl 15-21).

          Í kafla í matsgerðinni sem ber fyrirsögnina Ályktanir segir:

 

Matsmaður hefur unnið við mat á umhverfisáhrifum undanfarin 4 ár, bæði sem verk­efn­isstjóri og ritstjóri.  Vegna þeirra matsverkefna hefur matsmaðurinn samið við nokkrar rannsókna­stofnanir um rannsóknir ýmissa þátta náttúrufars og jafnframt annast alla þætti við gerð matsskýrslu, svo sem skýrsluskrif, gerð úrdrátta úr rann­sóknaniðurstöðum, yfirferð og endur­skoðun matskýrsludraga, útgáfu, yfirferð og gerð svara við athugsemdum og fyrirspurnum frá stofnunum og einstaklingum.  Reynsla af slíkum verkum hefur verið notuð sem forsenda við mat á vinnuframlagi vegna ofangreindra verkefna.

Matsmaður hefur borið saman annars vegar áætlað vinnuframlag og hins vegar lengd rann­sóknaskýrslna í þeim samningum sem gerðir hafa verið í þeim verkefnum sem mats­maður hefur unnið að og gögn liggja fyrir um.  Í öllum tilvikum hefur vinnu­framlag verið áætlað milli 8 og 10 klst. fyrir hverja síðu í rannsóknaskýrslu.  Í þessu vinnuframlagi er þá allt innifalið, undirbúningur verks, rannsóknavinna á staðnum, úrvinnsla gagna, skýrslugerð, yfirlestur og nauðsynlegir undirbúnings- og skilafundir.

Við vinnu við matsskýrslur má ætla að við vandaða matsskýrslu sé vinnuframlag um 16-20 klst. fyrir hverja síðu.  Af þessum tíma fara um 8-10 klst. á síða til að skrifa og yfirfara skýrsluna, um 8-10 klst í málfarsyfirlestur, kynningu og samráð við hags­munaaðila, breytingar, leiðréttingar, umbrot og útgáfu skýrslu, svör við fyrirspurnum og athugasemdum o.þ.h.  Við vinnu við matsskýrslur má áætla að vinna við efnislega yfirferð taki um 2-3 klst. á síðu.

Mat á vinnu er af ýmsum ástæðum nokkurri óvissu háð.  Fólk er misjafnlega fljótt að átta sig á aðalatriðum máls, misjafnlega fljótt að setja fram hugmyndir sínar skriflega og ganga frá læsilegum texta.  Þá eru fólk misjafnlega vel inni í málum, misjafnlega menntað og þjálfað til að leysa viðkomandi verkefni.  Í ljósi þess hefur matsmaður valið að meta umrætt vinnu­framlag með þeim hætti að miða frekar við efri mörk reynslu­talna en neðri mörk:

§         Vinnuframlag vegna beinna afritana um 0,5 klst. á síðu

§         Vinnuframlag vegna lítið endurskoðaðs efnis um 2 klst. á síðu

§         Vinnuframlag vegna nokkuð endurskoðaðs efnis um 3 klst. á síðu

§         Vinnuframlag vegna nýs efnis um 10 klst á síðu.

Undir yfirskriftinni Niðurstaða mats á vinnu segir:

 

1.  Eðlilegur og sanngjarn vinnustundafjöldi vegna endurbóta á textum frá því sem var í fylgi­skjölum 2 til 7 og til þess sem er í fylgiskjali 12, þó að frátaldri þeirri vinnu sem fram kemur í fylgiskjali 14, efnisatriði 8 (samkvæmt matsbeiðni 1).

Flokkur

Lengd

Vinna á síðu

Samtals vinna

Bein afritun

9 bls.

0,5 klst.

4,5 klst.

Lítið endurskoðað efni

5 bls.

2 klst.

10 klst.

Nokkuð endurskoðað efni

44 bls.

3 klst.

132 klst.

Alls

58 bls.

 

146,5 klst.

2.a)           Eðlilegur og sanngjarn vinnustundafjöldi við endurbætur á texta varðandi efnisatriði 8 á fylgiskjali 14 frá því sem það var í fylgiskjali 2 og til þess sem er í kafla 2 í fylgiskjali 12.  Miðað skal við að vinnan hefði verið unnin með þeim hætti sem lýst er í beiðni þessari að matsbeiðandi hafi óskað eftir, m.a. ekki flokkun eftir gróðurhverfum.

Flokkur

Lengd

Vinna á síðu

Samtals vinna

Nokkuð endurskoðað efni

3 bls.

3 klst.

9 klst.

Alls

3 bls.

 

9 klst.

2.b)           Eðlilegur og sanngjarn vinnustundafjöldi við endurbætur á texta varðandi efnisatriði 8 á fylgiskjali 14 frá því sem var í fylgiskjali 2 og til þess sem er í kafla 2 í fylgiskjali 12.  Miðað skal við vinnu með þeim hætti sem gert var, þ.e. flokkun eftir gróðurhverfum.

Flokkur

Lengd

Vinna á síðu

Samtals vinna

Nýtt efni

17 bls.

10 klst.

170 klst.

Alls

17 bls.

 

170 klst.

 

Af hálfu stefnanda segir að Umhverfisrannsóknir ehf. sinni rannsóknum og veiti ráð­gjöf varðandi vistfræði og umhverfisáhrif.  Félagið selji þjónustu dr. Ragnhildar Sigurðar­dóttur, sem sé eigandi allra hluta í félaginu. Dr. Ragnhildur hafi doktors­gráðu í vistfræði, þrjár mastersgráður í skógarvísindum og almennri vistfræði og BS gráður í jarðfæði og líffræði.

          Haustið 2000 hafi stefndi, VSÓ ráðgjöf ehf., leitaði til dr. Ragnhildar Sigurðar­dóttur sem sérfræðings vegna matsskýrslu um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu er félagið tók að sér að vinna fyrir Landsvirkjun.  Stefndi hafi boðið dr. Ragnhildi að taka að sér sem verktaki ákveðna þætti í sérfræðivinnu vegna matsskýrslunnar.  Í nóvember 2000 hafi stefndi sent dr. Ragnhildi skriflegan samning til undirritunar.  Samningurinn hafi ekki verið undirritaður af aðilum þar sem dr. Ragnhildur hafi ekki verið fyllilega sátt við ákvæði hans um höfundarrétt, þagnarskyldu og sam­keppn­ishömlur.  Aðilar hafi þó verið sammála um að hefja samstarf með ákveðnum hætti á grund­velli munnlegs samkomulags.  Samið hafi verið um að dr. Ragnhildur tæki að sér sem sérfræðingur að gera samantekt á rannsóknarniðurstöðum úr rannsóknum sem unnar höfðu verið á svæði Norðlingaölduveitu og að veita stefnda ráðgjöf.  Þegar í upp­hafi hafi einnig verið gert ráð fyrir að vinna við önnur verkefni gæti komið til samkvæmt nánara samkomulagi.  Af hálfu stefnda hafi verið lofað að leggja til fasta vinnu­aðstöðu en dr. Ragnhildi hafi þó verið heimilt að vinna við verkefnið annars staðar eftir samkomulagi.  Munnlegt samkomulag hafi verið um að stefndi greiddi dr. Ragnhildi 3.300 kr. á klst. fyrir utan virðisaukaskatt en að auki yrði greiddur annar sannan­legur útlagður kostnaður í tengslum við verkefnið en dr. Ragnhildur skyldi leggja fram mánaðarlega reikninga.  Samkomulagið skyldi gilda frá 1. nóvember 2000 til 31. maí 2001.

          Fljótlega eftir aðkomu dr. Ragnhildar og stefnanda að umbeðinni sérfræðivinnu kveður stefnandi að ljóst hefði verið að verkefnið var mun umfangsmeira en hún og stefnandi höfðu ráð fyrir gert.  Telja megi að stefndi hafi ekki í öndverðu gert sér grein fyrir eðli þess verkefnis sem farið var fram á að dr. Ragnhildur innti af hendi.  Sem mikils­virtur sérfræðingur á sviði vistfræði og umhverfisrannsókna hafi dr. Ragnhildur verið að leggja út í mikla og tímafreka rannsóknar- og samræmingarvinnu til að verk­efninu mætti skila með sóma.  Þetta hafi ekki síst verið mikilvægt með tilliti til þess að ráð­gjöf og rannsóknir dr. Ragnhildar hafi verið ætlaðar sem gögn í matsskýrslu sem opin­berir aðilar þurfa að reiða sig á til að taka mætti skynsamlegar ákvarðanir um meiri háttar virkjanaframkvæmdir.  Helstu verkefni dr. Ragnhildar og Umhverfis­rann­sókna ehf. hafi verið að rannsaka eftirfarandi þætti og taka saman fyrir stefnda greinar­gerðir vegna mats á áhrifum Norðlingaölduveitu.

 

          1.      Áhrif Norðlingaölduveitu á jarðmyndanir í Þjórsárverum.

          2.      Áhrif Norðlingaölduveitu á gróðurfar Þjórsárvera.

          3.      Áhrif Norðlingaölduveitu á freðmýrarrústir í Þjórsárverum.

          4.      Áhrif Norðlingaölduveitu á heiðargæs og tegundafjölbreytileika fugla í Þjórsárverum.

          5.      Áhrif Norðlingaölduveitu á vatnalíf Þjórsárvera.

          6.      Ályktanir um vistfræðileg áhrif Norðlingaölduveitu á Þjórsárver.

 

          Í endanlegri mynd kveður stefnandi að skýrsla hafi verið afhent stefnda 7. mars 2002.  Sama dag hafi stefndi verið krafinn um greiðslu reikninga samtals að fjárhæð 2.351.796 kr.  Sérstakur reikningur að fjárhæð 249.000 kr. hafi komið síðar vegna vinnu við yfirlestur og ráðgjöf vegna athugsemda við matsskýrslu Norðlingaölduveitu.  Reikn­ingarnir séu allir vegna vinnu dr. Ragnhildar og stefnanda á árinu 2002.

          Vísað er til þess að vorið 2001 hafi legið fyrir að meta umhverfisáhrif Norðlinga­öldu­veitu með lóni upp að 575 m yfir sjávarmáli.  Til þess tíma hafi náttúru­fars­skýrslur sérfræðinga nær einvörðungu miðast við hærri lónhæðir.  Fyrir ábendingu dr. Ragnhildar Sigurðardóttur hafi aðilar gert sér grein fyrir því að veigamiklar upp­lýs­ingar vantaði um náttúrufar lónstæðisins.  Þegar Landsvirkjun hafði tekið þá ákvörðun að einbeita sér að 575 m lónhæð hafi dr. Ragnhildur veitt ráðgjöf um þær lág­marks­rann­sóknir og lágmarksupplýsingar sem liggja þyrftu fyrir til að ljúka mætti mati á um­hverfisáhrifum Norðlingaölduveitu á viðunandi hátt.  Samkvæmt ráðgjöf dr. Ragnhildar hafi sumarið 2001 verið lagt í frekari rannsóknir á heiðagæs, freð­mýr­ar­rústum og vatnalífi, og samkvæmt tillögum dr. Ragnhildar hafi dr. Gísli Már Gíslason verið fenginn til að stýra rannsóknum á vatnalífi, Arnþór Garðarsson, til að stýra rann­sóknum á heiðagæs, og Hörður Kristinsson til að stýra rannsóknum á freð­mýrar­rústum.  Þar sem dr. Hörður Kristinsson hafi ekki séð sér fært að taka að sér rústa­verk­efnið nema með aðstoð dr. Ragnhildar, hafi hún fallist á að taka verkefnið að sér til að það mætti ná fram að ganga.

Þá er vísað til þess að dr. Ragnhildur hafi haft milligöngu um að koma kostn­að­ar­áætlun heiðagæsaverkefnis og rústaverkefnis til skila frá viðkomandi sérfræðingum til stefnda.  Kostnaðaráætlanirnar hafi verið samkvæmt útreikningum Náttúrufræði­stofn­unar og Líffræðistofnunar, eftir því sem við átti.  Að öðru leyti hafi dr. Ragnhildur ekki skipt sér af samningum milli stefnda og framangreindra verk­efnis­stjóra enda málið á ábyrgð stefnda.  Því er mótmælt sem röngu að hún hafi komið fram sem samningsaðili fyrir hönd Náttúrufræðistofnunar vegna vinnu við rústa­verk­efni.  Hún hafi hins vegar komið á framfæri við stefnda kostnaðaráætlunum.  Hvorki dr. Ragnhildur né stefnandi beri ábyrgð á að skriflegir samningar voru ekki undir­ritaðir varðandi rústaverkefni af hálfu stefnda.  Því er mótmælt að dr. Ragnhildi hafi verið kunnugt um að munnlegt samkomulag hafi verið um að skila ætti stafrænu korti, þar sem rústasvæði væru merkt inn á yfirlitskort yfir áhrifasvæði Norðlingaöldu og Þjórsár­vera.  Í kostnaðaráætlun verkefnisins, sem dr. Ragnhildur hafði milligöngu um að koma á framfæri, hafi ekki verið tekið tillit til kostnaðar vegna stafræns korts.  Þá er því mótmælt að dr. Ragnhildur hafi ekki leitað samráðs við Náttúrufræðistofnun um þá kostnaðaráætlun sem lögð var fram.  Hvorki dr. Ragnhildur né stefnandi hafi haft með fjárhagsleg samskipti stefnda og Náttúrufræðistofnunar að gera og hvorugt um­boð til þess að semja við stefnda fyrir hönd stofnunarinnar.  Að því er varði kostn­að­ar­áætlanir varðandi rústaverkefni og fjárhagsleg málefni því tengd, þá hafi dr. Ragnhildur vitað það eitt að sú áætlun og það tímagjald, sem hún hafði sett fram um þátttöku sína í verkefninu, var samþykkt munnlega af stefnda.  Hún hafi gert stefnda reikn­inga vegna þessarar sérstöku rústaskýrslu sem byggðu á þessu munnlega sam­komu­lagi aðila. Reikningunum, sem gerðir voru í samræmi við fyrirframgerða tíma­áætlun í tvennu lagi 22. nóvember 2001 og 5. mars 2002, hafi ekki verið mótmælt og verið greiddir án athugasemda.  Samkvæmt almennu samkomulagi aðila hafi dr. Ragnhildi og stefnanda verið ætlað að gera samantekt úr rannsóknarniðurstöðum um áhrif Norðlingaölduveitu á freðmýrarrústir í Þjórsárverum.  Í samræmi við samkomu­lagið hafi verið krafist greiðslu fyrir þá vinnu með mánaðarlegum reikningum.

Áréttað er að sérstakri vinnu dr. Ragnhildar í rannsóknum á rústum í samstarfi við dr. Hörð Kristinsson hafi algjörlega verið haldið aðgreindri í samræmi við áðurgreint munn­legt samkomulag sem byggt var á kostnaðaráætlun er fram hafði komið.  Stefndi byggi kröfur sínar m.a. á því að dr. Ragnhildur og stefnandi hafi 7. janúar 2002 að mestu afhent stefnda það verk er stefndi hafði óskað eftir.  Stefndi kjósi að gera minna úr vinnuframlagi dr. Ragnhildar og stefnanda við matsskýrsluna en efni standa til.  Raunin hafi verið sú að stefndi hafi fylgst náið með vinnuframlagi dr. Ragnhildar og stefnanda 2002 og hafi hvorki gert athugasemdir um vinnulag né tak­markað tímafjölda er leggja skyldi til verkefna.

          Í samræmi við samkomulag aðila um að dr. Ragnhildur og stefnandi hefðu rétt til þess að yfirfara og gera athugasemdir við matsskýrslu vegna Norðlingaölduveitu, áður en hún yrði endanlega lögð inn til Skipulagsstofnunar, hafi stefnandi gert stefnda reikn­ing vegna 40 klst. vinnu við það verkefni.

          Dr. Ragnhildur og stefnandi hafi unnið að því að vinna upplýsingar um náttúrufar úr frumgögnum sem tengjast svæði Norðlingaölduveitu og gera samantekt á rann­sókn­arniðurstöðum úr fyrirliggjandi rannsóknum sem unnar höfðu verið á svæði Norðlinga­ölduveitu allt fram til 6. mars 2002.  Í samræmi við hefðbundin og eðlileg vinnu­brögð um slíka sérfræðivinnu hafi stefnandi og dr. Ragnhildur skilað vinnu sinni í skýrsluformi 7. mars 2002.  Raunverulega ástæðu fyrir ágreiningi aðila á þessu ári megi rekja til þess að aðilar voru ósammála um meðhöndlun þeirrar sérfræðivinnu og skýrslna sem dr. Ragnhildur og stefnandi höfðu unnið fyrir stefnda.  Sem einum helsta sérfræðingi á sviði vistfræði hafi dr. Ragnhildi og stefnanda verið mjög mikil­vægt að sérfræðilegar rannsóknarskýrslur hennar og stefnanda, sem unnar voru fyrir stefnda í verktöku, yrðu ekki notaðar í matsskýrsluna með breyttum efnislegum hætti að því er varðaði niðurstöður rannsókna.  Í framhaldi af framlagningu skýrslu dr. Ragnhildar og stefnanda 7. mars 2002 hafi lögmaður stefnda bréflega boðist til að greiða stefnanda 3.300 kr. fyrir tilgreindan vinnustundafjölda á ákveðnum reikningum stefnanda.  Það hafi verið sett fram gegn því skilyrði að stefnandi og Ragnhildur myndu fallast á þann texta sem fram komi í 5. kafla í tilgreindum samningsdrögum aðila.  Engar athugasemdir höfðu verið gerðar af hálfu stefnda fram til 7. mars 2002 um óumbeðið vinnuframlag eða óhóflegan tímafjölda að baki vinnuframlagi.  Í bréfi frá lögmanni stefnda 7. mars 2002 komi hins vegar fram ætlun stefnda að fá óskertan rétt til þess að meðhöndla sérfræðiskýrslur stefnanda og dr. Ragnhildar.  Stefndi hafi þar boðist til þess að greiða með skilyrðum tímagjald sem var lægra en hann hafði áður boðið.  Þessi ágreiningur aðila hafi að lokum leitt til samkomulags 27. mars 2002 sem áður var getið.  Við gerð þessa samkomulags hafi reikningum stefnanda fyrst verið mótmælt að því er varðar umbeðið vinnuframlag.  Skýrsla dr. Ragnhildar og stefn­anda hafi hins vegar verið móttekin athugasemdalaust og þess sérstaklega getið að stefnanda og dr. Ragnhildi væri heimilt að vísa til þess að skýrslan hefði verið unnin fyrir stefnda í ferilskrám dr. Ragnhildar og stefnanda.

             Af hálfu stefnanda er vísað til þess að samningar milli aðila að því er varðar tíma­gjald o.fl. voru aldrei undirritaðir.  Upphaflegur munnlegur samningur hafi átt að gilda til 31. maí 2001.  Í febrúar 2002 hafi aðilar átt nokkrar viðræður vegna samninga um tíma­gjald fyrir vinnuframlag stefnanda.  Þann 13. febrúar hafi stefndi fallist á kröfu um 4.000 kr. á tímann fyrir janúar en 4.500 kr. fyrir febrúar og það sem eftir lifði verks.  Samkomulag hafi ekki tekist á þessum grunni.  Þann 18. febrúar hafi stefndi lagt fyrir stefnanda og dr. Ragnhildi samning um ráðgjafar og sérfræðistörf þar sem kveðið var á um að stefndi greiði stefnanda samkvæmt mánaðarlegum reikningum.  Þóknun yrði 5.000 kr á klst. án virðisaukaskatts frá 1. janúar 2002 þar til matsskýrsla vegna Norðlingaölduveitu yrði auglýst af hálfu Skipulagsstofnunar.  Auk þess yrði greiddur annar sannanlegur útlagður kostnaður sem stefnandi þyrfti að leggja út fyrir í tengslum við verkefnið.

 

Af hálfu stefnda segir að haustið 2000 hafi stefndi gert munnlegt samkomulag við dr. Ragnhildi Sigurðardóttur um að gera samantekt úr rannsóknarniðurstöðum rannsókna sem unnar höfðu verið á svæði Norðlingaölduveitu.  Skyldi Ragnhildur fá greitt tíma­gjald að fjárhæð 3.300 kr. auk virðisaukaskatts og reikningar fyrir vinnu hvers mán­aðar greiddir þegar greiðsla frá verkkaupa stefnda hefði borist, sem gert var ráð fyrir að væri á tímabilinu 20. til 25. næsta mánaða, en tímaskýrslur skyldu fylgja reikn­ingum.  Höfundaréttur að verkum sem unnin yrðu skyldi vera eign stefnda nema um annað væri samið.

Þá segir að eftir að vinna Ragnhildar hófst hafi hún bent á að gögn skorti varð­andi rústir í lónsstæði Norðlingaölduveitu, og tjáð, að besti aðilinn til þess að útvega þessi gögn væri Hörður Kristinsson fléttufræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.  Hafi hún tekið að sér að hafa samskipti við Hörð og vinna með honum áætlun um rústa­rannsóknir í Þjórsárverum.  Í samráði við verkkaupa stefnda, Landsvirkjun, hafi stefndi fallist á tilboð Ragnhildar um að rannsaka rústir í lónsstæði væntanlegrar Norðlinga­ölduveitu, gefa skýrslu um niðurstöður rannsóknanna og skila stafrænu korti þar sem rústasvæði væru merkt inn á yfirlitskort yfir áhrifasvæði Norðlingaöldu og Þjórsárver.  Ekki hafi  verið undirritaður skriflegur samningur en samkomulag orðið milli annars vegar stefnda og hins vegar stefnanda og - að því er stefndi taldi - einnig Náttúrufræðistofnunar, um að stefndi greiddi tilboðsfjárhæð Ragnhildar fyrir fram­an­greint verk.  Öll samskipti stefnda vegna þessa verksamnings um rústa­rann­sóknir í Þjórsárverum hefðu verið í gegnum Ragnhildi þar til í janúarmánuði 2002 þegar Kristinn J. Albertsson, forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar á Akureyri -  þar sem Hörður Kristinsson starfar - hafði samband við stefnda vegna útskrifta reikninga fyrir hönd Náttúrufræðistofnunar á Akureyri.  Hafi þá komið í ljós að stefnandi hafði ekki leitað samráðs við stofnunina um tilboðsverðið.  Stofnunin hafi þó tekið við greiðslu í janúar 2002 í samræmi við áðurnefnt tilboð.

Reikningur stefnanda vegna rústaskýrslunnar, sem dagsettur er 31. júlí 2001, hafi verið greiddur í tvennu lagi, 22. nóvember 2001 og eftirstöðvar 5. mars 2002, eftir að Hörður Kristinsson hafði afhent skýrsluna.

Á tímabilinu 15. nóvember 2001 til 7. janúar 2002 hafi Ragnhildur sent stefnda í nokkrum útgáfum texta, þar sem fjallað er um hin ýmsu efnisatriði matsskýrslunnar, kafla um sífrera og rústir - sem byggir á fyrrnefndri rústaskýrslu - fugla, gróðurfar, vatna­líf, smádýr og jarðfræði, einnig vistfræðikafla og heimildaskrá, en Ragnhildur hefði 17. maí 2001 sent eldri drög að þessum köflum.

Á fundi 15. janúar 2002 hafi stefndi farið yfir stöðu verksins með Ragnhildi og hvaða verk væru eftir.  Það sem þá hafi verið óunnið hafi verið frágangur á kaflanum um fuglalíf, þar sem einungis vantaði upplýsingar frá einum aðila um geldgæsir, vinna við að taka saman gögn og meta stærð gróðursvæðis (gróðurkafli) og að lokum að koma þessum atriðum til skila í vistfræðikafla.  Um vinnu vegna stærðar gróðursvæðis hafi verið ákveðið að hafa samband við Guðmund Guðjónsson, sérfræðing hjá Náttúru­fræðistofnun.

Þann 18. janúar hafi verið haldinn fundur um niðurstöður vegna stærðar gróður­svæða.  Fundinn hafi setið m.a. Ragnhildur og frá Náttúrufræðistofnun Guðmundur Guðjónsson gróðurkortasérfræðingur og Kristbjörn Egilsson grasasérfræðingur.  Á fund­inum hafi Guðmundi verið falið að athuga hvort tilteknar upplýsingar væru aðgengi­legar og að útbúa töflu, þar sem fram kæmi stærð einstakra gróðursvæða, sem yrði notuð við útreikninga á rýrnun á svæðinu.  Gögn sem þannig voru afhent Ragnhildi hafi hún átt að nota til að komast að niðurstöðum í samráði Guðmund.  Niður­stöður hennar hafi verið bornar undir Guðmund, sem ekki hefði talið þær not­hæfar.  Stefndi hafi þá falið Guðmundi að endurvinna þessi atriði og hafi Nátt­úru­fræði­stofnun greitt fyrir það.

Þann l. febrúar 2002 hafi stefndi óskað eftir því að Ragnhildur setti fram áætlun um hvernig hún sæi aðkomu sína að verkinu á næstunni, en stefnda hafi á þessum tíma ekki borist reikningur stefnanda fyrir janúarmánuð.  Ragnhildur hafi ekki svarað þessu erindi.  Þann 12. sama mánaðar hafi stefndi enn fundað með Ragnhildi.  Hafi þá verið bókað í fundargerð að hún væri að ljúka við kafla um gróður, fugla og vistfræði í mats­skýrslu, búið væri að bæta inn í fuglakafla umræðu um geldgæs.  Áætlað hafði verið að endanleg gögn lægju fyrir hinn 20. sama mánaðar og áætlaði stefndi að vinna, við þá þætti sem Ragnhildi hafi verið falið að vinna samkvæmt framansögðu, næmi að há­marki 30 til 60 tímum.

Þrátt fyrir framangreindar ákvarðanir og eftirrekstur af hálfu stefnda hafi Ragnhildur ekki afhent stefnda þau atriði, sem samið hafði verið um á fundum 14. janúar, 18. janúar og 12. febrúar, fyrr en hún afhenti stefnda alla kaflana í pappírs­formi 7. mars.  Sama skjal hafi verið afhent á PDF formi 3. apríl.  Ragnhildur hafi ekki virst gera sér grein fyrir eðli þess verkefnis er hún hafði tekið að sér fyrir stefnda með munnlegum samningi aðila í september 2000.  Eðli málsins samkvæmt hafi Ragnhildur verið undirverktaki stefnda, sem hafði tekið að sér gerð áðurnefndrar mats­skýrslu fyrir Landsvirkjun.  Það hafi því verið forsenda stefnda að hann ætti öll höf­undarréttindi að þeim texta er stefndi léti honum í té og jafnframt að hann hefði einn ákvörðunarvald um það hvernig textinn yrði nýttur í matsskýrslunni.  Ragnhildur hafi hins vegar viljað að matsskýrslunni fylgdi sérstök greinargerð, unnin af henni, en hún hafi í ýmsum atriðum verið ósammála framsetningu stefnda í matsskýrslunni.  Hennar ósk hafi því verið að afhenda afrakstur sinnar vinnu í greinargerðarformi.  Stefndi hafi gert Ragnhildi grein fyrir því 6. febrúar að óskað væri eftir því að köflum yrði skilað á sama formi og verið hafði fram að því.  Ekki væri gert ráð fyrir að gefa þá út sem sérstaka greinargerð eða sem sér skýrslu.  Þegar stefndi hafi móttekið texta Ragnhildar 7. mars 2002 hafi orðið ljóst að hún hafði að hluta innt af hendi vinnu er stefndi hafði ekki óskað eftir, þ.e. að skrifa sérstaka samantekt í stað þess að láta upp­kast að viðkomandi kafla í matsskýrslu duga.  Stefndi hafi lagt inn 20. janúar 2002 drög að matsskýrslu án þess að hafa undir höndum annað en þá kafla sem Ragnhildur hafði þegar afhent á síðari hluta árs 2001 og 7. janúar 2002.  Við þann texta, sem Ragnhildur hafði látið í té, hafi Skipulagsstofnun ekki gert neinar athugsemdir sem kölluðu á frekari vinnu af hennar hálfu vegna matsskýrslunnar.  Þau atriði sem óskað hafi verið vinnu við af hálfu hennar hafi verið ákveðin á fundunum í janúar og febrúar.  Hafi því reikningum stefnanda verið sérstaklega mótmælt hvað varðaði umbeðið vinnu­framlag.

Ragnhildur hafi óskað eftir hækkun á umsömdum taxta.  Á fundinum 12. febrúar hafi verið bókað að engir samningar hefðu tekist um hækkun taxta.  Hafi stefndi fallist á það í tölvupósti síðar þennan dag að taxti fyrir janúarmánuð hækkaði í 3.500 kr. og frá og með febrúarmánuði í 4.500 kr.  Næsta dag hafi stefndi veitt vilyrði fyrir því að taxti janúarmánaðar væri einnig 4.500 kr., en með því skilyrði að Ragnhildur afhenti nákvæmari tímaskýrslur en hún hefði gert, þ.e. sundurliðaði vinnu á einstaka þætti mats­skýrslu.  Ragnhildur hafi engar slíkar sundurliðanir afhent með reikningum sem um sé krafið í málinu og hafi því ekki komist á samningur um frekari hækkanir frá upp­haflegum taxta en 3.500 kr. fyrir janúarmánuð og 4.500 kr. eftir það að því leyti sem reikningar fyrir þessi tímabil kunni yfirleitt að eiga rétt á sér.

Þegar stefnda hafi orðið ljós þessi misskilningur Ragnhildar varðandi aðkomu sína að verkefninu, hafi hann sent henni samning til undirritunar - sama efnis og munn­lega hafði verið gerður haustið áður - í þeim tilgangi að tryggja með óyggjandi hætti framsal höfundarréttarins og trúnað Ragnhildar gagnvart stefnda.  Hafi Ragnhildur í upphafi verið ósátt við samningstextann.  Í febrúar hafi stefndi reynt að fá Ragnhildi til fundar, sem loks hafi verið haldinn 4. mars.  Fundinn hafi sótt m.a. lög­menn beggja aðila.  Á fundinum hafi stefndi krafið Ragnhildi skýringa á afhend­ing­ardrætti og fjárhæð reikninga.  Svo hafi virst sem hún væri að vinna að atriðum sem ekki hafði verið samið um.  Hafi stefndi gert Ragnhildi ljóst að ekki væri óskað vinnu­framlags umfram það sem um áður hafði verið rætt um á fundum.  Aðilar hefðu undir­ritað samkomulag hinn 27. mars 2002 en hefðu komist að munnlegu sam­komu­lagi um efni þess nokkrum dögum fyrr.  Vegna vinnu við matsskýrsluna og þeirra sjón­armiða sem stefnandi hefði haft uppi hafi stefnda verið brýn nauðsyn að ná skrif­legu samkomulagi um trúnað og afsal höfundarréttinda að textunum í hendur stefnda.  Um þetta hafi náðst samkomulag.  Ragnhildur hafi hins vegar sett sem skilyrði fyrir undir­ritun samkomulagsins að stefndi greiddi útgefna reikninga.  Samkomulag hafi orðið um að stefndi greiddi tiltekna fjárhæð við undirritun samkomulagsins en báðir aðilar áskildu sér hins vegar rétt til annars vegar að endurkrefja og hins vegar að krefja um frekari greiðslu.  Tiltekið sé í samkomulaginu að ágreiningur sé með aðilum um greiðslu­skyldu reikninga, m.a. hvað varðar umbeðið vinnuframlag, tímagjald og tíma­fjölda.  Tekið hafi verið fram að aðilar skyldu leitast við að leysa útistandandi ágreining um greiðslu með samkomulagi.  Ef það tækist ekki fyrir 15. apríl væri hvorum um sig heimil málshöfðun.

 

Stefnandi byggir á því að stefndi skuldi honum fyrir störf og akstur í janúar 2002 annars vegar 776.208 kr., sbr. reikning sem gefinn var út l. febrúar 2002, og hins vegar 192.353 kr., sbr. reikning sem gefinn var út 1. mars 2002.  Þá skuldi hann honum fyrir fyrir störf og akstur í febrúar 2002 1.059.535 kr., sbr. reikning sem gefinn var út 1. mars 2002, og vegna vinnu í mars 2002 323.700 kr., sbr. reikning sem gefinn var út 7. mars 2002, og fyrir yfirlestur og vinnu við athugasemdir við matsskýrslu Norðlinga­ölduveitu í mars 2002 249.000 kr., sbr. reikning sem gefinn var út 30. mars 2002.  Framantaldir reikningar séu samtals að höfuðstólsfjárhæð 2.600.796 kr. en höfuð­stóll stefnukröfunnar taki mið af því að stefnda greiddi 1.540.000 kr. til stefn­anda vegna reikninganna þann 3. apríl 2002.  Byggt er á því að reikningarnir séu að öllu leyti í samræmi við samkomulag aðila og séu auk þess í alla staði sanngjarnir og eðli­legir með tilliti til þeirrar sérþekkingar og sérfræðivinnu sem stefnandi hafi lagt fram sem verksali til stefnda.

          Byggt er á því að samkomulag hafi verið með aðilum um að stefndi greiddi stefn­anda án sérstakra skilyrða í samræmi við mánaðarlega reikninga og skyldi þóknun stefnanda vera 5.000 kr. á klst. auk virðisaukaskatts og annars sannanlegs útlagðs kostnaðar.

          Fari svo að samkomulag um tímagjald að fjárhæð 5.000 kr. verði ekki talið hafa orðið milli aðila eða óvíst talið hvert samkomulag um tímagjaldið var, þá verði að telja, að tímagjald sem fram kemur á umræddum reikningum, sé eðlilegt og sanngjarnt miðað við þau sérfræðistörf sem innt voru af hendi af hálfu stefnanda.  Beri því að taka það til greina nema stefndi sýni fram á að umkrafið tímagjald sé ósanngjarnt með tilliti til þeirrar sérfræðivinnu sem innt var af hendi.

          Byggt er á því að stefndi hafi fylgst rækilega með vinnuframlagi stefnanda í janúar og febrúar 2002, og ekki óskað eftir að stefnandi héldi að sér höndum og minnk­aði vinnuframlag.  Því er mótmælt að dr. Ragnhildur og stefnandi hafi innt af hendi umfangsmeiri vinnu en óskað hafi verið eftir.

 

Stefndi byggir á því að hafa þegar ofgreitt stefnanda fyrir verkið.  Greiðsla stefnda til stefn­anda 27. mars 2002 hafi verið með fyrirvara vegna nauðsynjar á að undirrita sam­komulag um önnur atriði, en stefndi krefji stefnanda um ofgreiddan mismun í gagnsök.

          Vísað er til þess að Ragnhildur Sigurðardóttir hafi 7. janúar 2002 að mestu afhent stefnda það verk er óskað hafi verið eftir.  En á fundum 15. janúar, 18. janúar og 12. febrúar 2002 hafi staða verksins verið yfirfarin og ákveðið hvað vinna skyldi til við­bótar.  Frá og með 8. janúar 2002 hafi stefnandi krafið stefnda um greiðslur fyrir 348 klukku­stunda vinnu, sem Ragnhildur hafi að mjög takmörkuðu leyti gert grein fyrir, þrátt fyrir kröfur stefnda um að það yrði gert með ítarlegri hætti en fram að því hefði verið hirt um.  Reikningur frá 31. júlí 2001 sé órökstuddur og allt of hár og vinnu­skýrslur fyrir febrúar og mars 2002 séu órökstuddar.

          Þá er vísað til þess að vinna Ragnhildar við gróðurkafla á árinu 2002 hafi verið um­fangsmeiri en óskað hafi verið eftir.  Stefnda beri einungis að greiða fyrir þá vinnu er hann hefði beðið um á fundunum 15. janúar, 18. janúar og 12. febrúar 2002, en þar að auki hafi hluta verksins verið hafnað sökum þess að Ragnhildur hafi ekki fylgt fyrir­mælum stefnda.  Áætlaðir hafi verið að hámarki 60 tímar í vinnu við þau verk­efni sem Ragnhildi hafi verið falið af stefnda, en stefndi hafi einnig samþykkt að greiða fyrir 27,5 tíma, er hún vann við gerð vistfræðikaflans, sem hún afhenti 7. janúar 2002.

          Byggt er á því að stefnandi hafi ekki sundurliðað reikninga á einstaka þætti sem hann krefst greiðslu fyrir.  Hækkun á tímagjaldi, sem skilyrt vilyrði hafi verið fyrir, hafi því ekki tekið gildi.  Stefnda beri því einungis að greiða 3.500 kr. á tímann fyrir vinnu stefnanda í janúar 2002 og 4.500 kr. á tímann fyrir vinnu í febrúar 2002 en áhöld séu um það hvort stefnda sé skylt að greiða fyrir vinnu stefnanda í febrúar og mars 2002.

          Byggt er á því að í samkomulagi aðila frá 27. mars 2002 hafi m.a. verið kveðið á um að Ragnhildur ætti rétt á að fara yfir matsskýrsluna með tilliti til þess að henni væru ekki ranglega tileinkaðar skoðanir eða mat á einstökum efnisatriðum skýrsl­unnar.  Hafnað sé því að stefnandi eigi rétt á greiðslu vegna yfirlestrar og vinnu við at­hugasemdir við matsskýrslu svo sem hann krefur stefnda um með reikningi 30. mars 2002, að fjárhæð 249.000 kr. með virðisaukaskatti.

          Þá er byggt á því að 6. febrúar 2002 hafi Ragnhildur í tölvupósti tjáð Lands­virkjun að hún og Hörður Kristinsson væru önnum kafin við að ganga frá rústa­skýrsl­unni og væri henni lokið að mestu en hún muni að lokinni rústaskýrslu snúa sér að því að ganga frá vistfræðikaflanum.  Ljóst sé að Ragnhildur hafi á vinnuskýrslu tilgreint 32 klukkustundir við rústakafla matsskýrslu á þeim tíma sem hún var að vinna með Herði að rústaskýrslunni, sem unnin var samkvæmt tilboði.  Hafnað sé því að stefnandi eigi rétt á greiðslu sem hann krefur stefnda um með reikningi 1. mars 2002, að fjárhæð 1.059.535 kr. með virðisaukaskatti.

 

Dr. Ragnhildur Sigurðardóttir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að henni hafi verið falið að skrifa flesta kafla um umhverfisáhrif í skýrslunni um Norðlinga­öldu­veitu og stýra rannsóknum fyrir hluta af henni.  Hún kvaðst ekki hafa gert skriflegan samning við stefnda varðandi vinnuna en samningsdrög hefðu legið fyrir, sem aldrei voru undirrituð, og í raun hefði í byrjun verið unnið eftir þeim. 

          Hún staðhæfði að ekkert samkomulag hafi verið með aðilum um tímagjald frá og með desember 2001 en samkomulag hafi orðið um 5.000 kr. á tímann fyrir vinnu stefnanda er innt var af hendi frá 1. janúar 2002.  Hún mótmælti þeirri staðhæfingu stefnda að stefnandi hafi að mestu afhent það verk, sem óskað var eftir, þann 7. janúar 2002.  Kvaðst hún hafa fengið verkefni frá stefnda eftir þann tíma.

          Hún staðhæfði að hafa unnið í samráði við Guðmund Guðjónsson hjá Náttúru­fræði­stofnun að köflunum í skýrslunni um rýrnun á gróðurlöndum og gróðurhverfum.  Hún kvaðst hafa lokið köflum um jarðmyndanir í mars 2002 en unnið að þeim tvisvar í febrúar 2002.

          Hún staðfesti að hafa fengið greitt sérstaklega fyrir rústaskýrslu.  Hún játaði að hafa fengið tölvupóst 1. febrúar 2002, sbr. dskj. nr. 20, og átt í tölvupóstssamskiptum við Guðjón Jónsson, sbr. dskj. nr. 21, og tölvupóstssamskipti við Hugrúnu Gunnars­dóttur hjá Landsvirkjun og Guðjón Jónsson, sbr. dskj. nr. 22, og tölvupóstssamskipti við Guðjón Jónsson, sbr. dskj. nr. 36.

 

Guðjón Jónsson verkfræðingur hjá stefnda gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann væri sviðsstjóri á markaðssviði hjá stefnda og starf hans væri fólgið í markaðs­setningu á orkusviði og stóriðju.  Einnig hafi hann verið verkefnastjóri í mati á umhverfisáhrifum, en sérsvið hans sé umhverfismál og umhverfisráðgjöf.

          Guðjón sagði að Ragnhildur hefði sótt um starf hjá stefnda sem auglýst hefði verið.  Hún hefði komið í viðtal.  Hafi honum virst hún of menntuð til að sinna því starfi sem stefndi var að vinna að, þ.e. hennar menntun tengdist meira rannsóknum og há­skólaumhverfinu en vinnu á verkfræðistofu.  Hafi annar verið ráðinn í stöðuna. 

Hann sagði að stefndi hafi byrjað á árinu 1996 að vinna að umhverfismati á um­hverfis­áhrifum Norðlingaölduveitu.  Sem verkefnastjóri hjá stefnda í þessu verkefni hefði hann séð hættu á tortryggni frá náttúrufræðingum við gerð matsskýrslna vegna þess að verkfræðingar geri útdrátt úr skýrslum sem þessir sérfræðingar búi til.  Hann sagði að náttúrufræðingunum hafi oft fundist þeir, og þó sérstaklega verkfræðingarnir, ansi „kantaðir" og orðuðu þannig að þeir ættu erfitt með að skilja það.  Hafi sumir þá haldið að þeir væru að hliðra til staðreyndum, sem reyndar sé alls ekki rétt.  Þegar hann hafi staðið frammi fyrir því að vera með mjög umdeilda og viðamikla fram­kvæmd, sem margir náttúrufræðingar hefðu komið að, hafi hann talið að þarna væri tæki­færi til þess að nálgast eða slá aðeins á þessa „krítik" náttúrufræðinganna með því að fá þarna inn fagaðila.  Ragnhildur væri mjög menntuð í þessu fagi, og hafi hann fengið hana í hópinn sem fagaðila til að gera þessa samantekt sem „við gerum af því að við tökum bara samantekt en vinnum ekki rannsóknir, tökum samantektir úr rann­sóknum sem við setjum í matsskýrslur og fá hana til að vera með okkur í hópnum til þess að vinna þennan náttúrufræðihluta í þessar skýrslu."  Hafi þetta verið verkefnið sem hann hafi falið henni.

Hann sagði að Ragnhildur hefði, er hún sótti um vinnu hjá stefnda, verið ný­út­skrifaður doktor og hefði ekki unnið hérna nema í verkefnavinnu.

          Hann sagði að Ragnhildur hafi átt að athuga viðmiðun við skerðingu gróðurs utan friðlands Þjórsárvera í fullri samvinnu við Guðmund Guðjónsson hjá Nátt­úru­fræði­stofnun og Hans H. Hansen hjá Hnit.  Hann kvaðst fyrst hafa komist að því 7. mars 2002, er Ragnhildur afhenti honum skýrsluna, að hún hafði ekki verið að vinna úr gögn­unum frá Guðmundi, enda hafi Guðmundur aldrei afhent henni viðkomandi gögn.

          Hann sagði að ekki væri neinu um að kenna nema klaufaskap sínum að ekki var skrifað undir samning milli aðila en oft væri af hálfu stefnda þannig að farið ef um tiltölu­lega lítil verkefni væri að ræða.           

          Hann staðfesti að hafa sent tölvupóst til Ragnhildar 1. febrúar 2002, sbr. dskj. nr. 20.  Hann kvaðst hafa álitið, á þeim tíma er hann sendi þennan tölvupóst, að hann fengi reikningi frá henni fyrir 20 til 30 tíma vinnu í janúar 2002.  Sama dag og hann hafi skrifað þennan póst hafi hann hins vegar fengið reikning frá Ragnhildi fyrir 154 tíma vinnu í janúar.  Hann staðfesti að hafa fengið afrit af tölvupósti til Ragnhildar frá starfs­manni stefnda 6. janúar 2002, sbr. dskj. nr. 35.  Þá staðfesti hann að hafa sent Ragnhildi tölvupóst 15. desember 2001, sbr. dskj. nr. 90.

             Hann staðhæfði að hann hefði aldrei samþykkt að stefnandi fengi 5.000 kr. á tím­ann í þóknun fyrir störf fyrir stefnda frá 1. janúar 2002.

 

Teitur Gunnarsson verkfræðingur gaf skýrslu fyrir rétti.  Lagt var fyrir hann dskj. nr. 44, sem er matsgerð frá 29. október 2002.  Hann staðfesti að hafa unnið þessa mats­gerð.  Hann sagði að innsláttarvilla væri á bl. 3, þar sem segir í lið merktum  k.  Ný umfjöllun og túlkun gagna í töflum á lið h., þar eigi að standa í töflum á lið j, þ.e. stafurinn j eigi að koma í stað stafsins h.  Þá sagði hann að í kafla matsgerðarinnar undir fyrirsögninni Fyrirliggjandi gögn í a. tl. 5, þar sem stendur texti um vatnalíf og fugla, þar eigi að standa orðið fiskar í stað orðsins fuglar.

          Lagt var fyrir Teit dskj. nr. 86, sem er myndrit af skjali frá stefnda er ber yfirskriftina LESTUR SAMANTEKTAR RS OG EFNIS SEM SKILAÐ VAR INN FYRIR SAMANTEKT.  Aðspurður, hvort hann hefði byggt á þessu skjali við matið, kvaðst hann hafa kynnt sér þetta skjal en ekki notað það.  Kvaðst hann hafa sjálfstætt skoðað málið.  Hann viðurkenndi að á matsfundi með aðilum hafi verið bókuð mótmæli gegn forsendum matsins.  Aðspurður kvaðst hann ekki sérstaklega hafa kynnt sér dag­setn­ingar á fylgiskjölum matsgerðarinnar [tölus. 2-8], og hvort kaflar, sem Ragnhildur hafði unnið með, væru rétt dagsettir í desember 2001 og janúar 2002.

          Lagt var fyrir Teit dskj. nr. 23, sem er fundargerð aðila frá 11. febrúar 2002.  Kvað hann þessa fundargerð ekki hafa legið fyrir við matið.  Aðspurður, hvort hann hefði við framkvæmd matsins haft upplýsingar um að dr. Ragnhildur hefði einnig þurft að vinna með þau drög, sem stefndi hafði unnið og hugðist leggja inn til Skipu­lags­stofnunar, þ.e. þriðja textann, sem hún var að meðhöndla í samræmingar-vinnu sinni og samantekt, kvað hann svo ekki hafa verið.

          Lögð voru fyrir Teit dskj. nr. 58 og 59, sem eru drög að mati á umhverfisáhrifum Norðl­ingaölduveita sunnan Hofsjökuls, annars vegar frá 14. janúar 2002 og hins vegar frá 23. janúar 2002.  Aðspurður kvaðst hann ekki hafa haft til hliðsjónar við matið að dr. Ragnhildur hefði yfirfarið texta fyrir stefnda í þessum skjölum.  Þá kvaðst hann við matið ekki hafa tekið tillit til vinnu dr. Ragnhildar við umfjöllun á áhrifum Norðlinga­ölduveitu á jarðmyndanir í Þjórsárverum, er fram kemur á dskj. nr. 29, sem er skýrsla hennar til stefnda vegna mats á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu, dags. í mars 2002, en það er sama skjal og merkt er nr. 12 í gögnum, sem lögð voru fyrir Teit sem dómkvadds matsmanns af stefnda sem matsbeiðanda.

          Aðspurður kvaðst Teitur ekki hafa reiknað með vinnu Ragnhildar í kaflanum um smá­dýr í mati sínu að öðru leyti en því sem kemur fram í kaflanum um vistfræði.

 

Aðalheiður Jóhannsdóttir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að hún hefði setið fund í desember 2001 með dr. Ragnhildi og forsvarsmönnum stefnda.  Ragnhildur hefði beðið hana um að koma með sér á fundinn.  Á fundinum hefði ýmislegt verið rætt, t.a.m. skipulag vinnunnar sem var framundan, í desember og janúar og eitthvað fram á næsta ár.  Einnig hafi verið rætt um meðferð texta Ragnhildar í matsskýrslu sem verkkaupi var að undirbúa.  Þá hafi verið rætt um að gera nýjan verksamning.

          Aðalheiður kvaðst aðspurð muna eftir fundi hjá lögmanni stefnda í febrúar 2002, en ekki sérstaklega eftir því að rætt hefði verið um ágreining með aðilum málsins um tíma­gjald á fundinum.

 

Kristinn Haukur Skarphéðinsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Lagt var fyrir hann dskj. nr. 89, sem er myndrit af bréfi frá Náttúrufræðistofnun Íslands til Félags íslenskra náttúru­fræðinga, dags. 13. febrúar 2004.  Hann staðfesti að hafa ritað nafn sitt undir bréfið til að votta hvað eftir honum er haft í bréfinu, en bréfið er undirritað af for­stjór­anum, Jóni Gunnari Ottóssyni.

          Kristinn kvaðst vera sviðsstjóri dýravistfræðisviðs hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.  Hann kvaðst hafa komið að vinnu sem tengdist því mati sem stefndi var að vinna við vegna framkvæmda við Norðlingaölduveitu sem einn af starfsmönnum Náttúru­fræðistofnunar Íslands.  Persónulega kvaðst hann hafa unnið við samantekt á upplýsingum um heiðargæsastofninn og hugsanleg áhrif miðlunar á hann.  Ragnhildur hafi síðan leitað nokkrum sinnum til hans veturinn 2001 til 2002 vegna ýmissa atriða varðandi það sem hún var að vinna fyrir stefnda.  Þá hafi Náttúrufræðistofnun Íslands unnið að skýrslu um rústir á Þjórsárverasvæðinu ásamt Ragnhildi.  Enn fremur hafi korta­gerðarmaður og gróðurfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands haft samskipti við Ragnhildi.

          Bréfið frá 13. febrúar 2004 kvað hann fjalla um samskipti Ragnhildar við Náttúrufræðistofnun Íslands á tímabilinu janúar til mars 2002.

 

Þóra Ellen Þórhallsdóttir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að aðkoma hennar að mati umhverfisáhrifa Norðlingaölduveitu hafi verið að Ragnhildur hefði haft samband við hana og tjáð henni að hún væri að vinna að matsskýrslu.  Hafi hún fyrst óskað eftir upp­lýsingum frá henni af því að hún hafði unnið matsskýrslu um Þjórsárver áður.  Hafi þær átt saman nokkra fundi vegna þessa.  Hefði hún síðan fengið til yfirlestrar frá Ragnhildi drög að matsskýrslunni.

          Hún sagði að vinna Ragnhildar hafi sýnt faglega þekkingu er full þörf hafi verið á.  Hér hafi ekki verið um að ræða venjulega umritun á texta.

 

Gísli Már Gíslason gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að aðkoma hans að mati um­hverfisáhrifa Norðlingaölduveitu hafi verið sú að hann hefði verið við rannsóknir í Þjórsár­verum fyrri hluta áttunda áratugar og skrifað um þær.  Beiðni hefði komið frá stefnda um að hann tæki saman þær upplýsingar sem lágu fyrir eftir þann tíma um vatna­líf í Þjórsárverum almennt og síðan hafi komið seinna, eftir ábendingu frá Ragnhildi, að skrifa um Hnífá, sem sé stærsta lindáin í Þjórsárverum. 

           Gísli kvað þau hafa farið í ágúst 2001 upp í Þjórsárver og skilað síðan skýrslu um áramótin 2001/2002.  Hann sagði að Ragnhildur hafi komið til hans með texta sem varð­aði þeirri vinnu og borið undir hann eftir áramótin 2002 áður en endanleg mats­skýrsla var lögð fram.  Hann sagði að Ragnhildur hefði byggt á rannsóknum frá honum og öðrum við sérfræðilegt mat á umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu og til þess hefði þurft sérfræðilega þekkingu.

 

Ályktunarorð:  Samkvæmt uppkasti stefnda af verksamningi við dr. Ragnhildi Sigurðar­dóttur frá 1. nóvember 2000 var ráð fyrir því gert að vinna hennar tæki 500 klukku­stundir að hámarki á tímabilinu 1. nóvember til 30. apríl 2001.  Reiknað var með að stærsti hluti þess verks yrði unninn á tímabilinu nóvember 2000 til febrúar 2001.  Þá var mælt fyrir um að gildistími samningsins væri frá 1. nóvember 2000 til 31. maí 2001. 

          Af þessu má ráða hvað forráðamenn stefnda - í byrjun nóvember 2000 - töldu hæfi­legan tíma fyrir dr. Ragnhildi til að taka saman rannsóknarniðurstöður úr rann­sóknum, sem unnar höfðu verið á svæði Norðlingaölduveitu.  Jafnframt er ljóst að skoðun eða mat þeirra að þessu leyti stóðst engan veginn, enda létu þeir það gott heita að dr. Ragnhildur héldi áfram þessum störfum fyrir stefnda eftir 31. maí 2001, og greiddu raunar einkahlutafélagi hennar, stefnanda í máli þessu, mánaðarlega án fyrir­vara fyrir störfin, allt þar til ágreiningur varð með aðilum þessa máls 7. mars 2002.

          Nú byggir stefndi á því að stefnandi krefji hann um greiðslu fyrir fleiri vinnu­stundir en munnlegur samningur aðila gefi tilefni til, og raunar hafi verið unnar af stefnanda til hagsbóta fyrir stefnda, auk þess sem stefnandi krefjist hærri greiðslu fyrir hverja vinnustund en um var samið.

          Ekki kemur ótvírætt fram í gögnum málsins að stefndi hafi mælt fyrir um af­mark­aðan fjölda vinnustunda, er hann var tilbúinn að greiða stefnanda fyrir, eftir að áætlun stefnda frá 1. nóvember 2000 stóðst ekki.  Engin verkáætlun liggur fyrir frá stefnda til stefnanda, sem tilgreinir fjölda tíma, sem ætlað er að einstakir verkþættir taki og jafnvel ekki einu sinni verkið í heild.  Þá segir ekki frá skilatíma verkþátta, loka verks og gæðakröfum.  Og þó að í samningsuppkastinu frá 1. nóvember 2000 - sem aðilar eru sammála um að lagt hafi verið til grundvallar í samskiptum aðila lengst af verktímanum - hafi verið gert ráð fyrir föstum vikulegum fundum á meðan vinnan stæði, liggi ekki fyrir í málinu afrit fundargerða nema að mjög takmörkuðu leyti.  Af þessu verður stefndi að bera hallann.

          Framlögð matsgerð í málinu telst ekki sanna með óyggjandi hætti hver hafi verið eðli­legur og sanngjarn klukkustundafjöldi vinnuframlags dr. Ragnhildar Sigurðar­dóttur fyrir stefnda á tímabilinu 9. janúar 2002 til 7. mars 2002.  Ljóst þykir af gögnum málsins í heild og framburði matsmanns fyrir rétti, að matsmaðurinn fékk ekki tæmandi gögn eða upplýsingar í hendur til að geta metið með réttum hætti það sem fyrir hann var lagt.

          Þar sem stefndi hefur ekki hnekkt því að stefnandi hafi unnið fyrir hann þær vinnu­stundir, sem stefnandi krefst greiðslu fyrir, og ekki tekist að sýna fram á að öðru leyti að umkrafin fjárhæð sé ósanngjörn, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda svo sem í dómsorði greinir.  Jafnframt verður gagnstefndi sýknaður af öllum kröfum gagn­stefnanda.

          Rétt er að stefndi/gagnstefnandi greiði stefnanda/gagnstefnda 400.000 kr. í máls­kostnað.

          Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

          Stefndi, VSÓ ráðgjöf ehf., greiði stefnanda, Umhverfisrannsóknum ehf., 1.060.796 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af sömu fjár­hæð frá 1. mars 2002 til 1. apríl 2002 en af 2.600.796 krónum frá 1. apríl 2002 til 3. apríl 2002 en af 1.060.796 krónum frá 3. apríl 2002 til greiðsludags.

          Gagnstefndi, Umhverfisrannsóknir ehf., skal sýkn af kröfum gagnstefnanda, VSÓ ráðgjöf ehf.

          Stefndi/gagnstefnandi greiði stefnanda/gagnstefnda 400.000 kr. í málskostnað.