Hæstiréttur íslands
Mál nr. 487/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Fimmtudaginn 30. ágúst 2012. |
|
Nr. 487/2012.
|
Karl Emil Wernersson (Ólafur Eiríksson hrl.) gegn þrotabúi Milestone ehf. (Grímur Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni þrotabús M ehf. um um dómkvaðningu tveggja matsmanna til að svara nánar tilteknum spurningum er vörðuðu atriði tengd dómsmáli sem þrotabúið hafði höfðað gegn K, annars vegar um riftun á tilteknum greiðslum til K, sbr. XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og hins vegar að K yrði gert að greiða þrotabúinu tiltekna fjárhæð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júlí 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2012, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um dómkvaðningu tveggja matsmanna í máli sem hann rekur á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í til c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreindri beiðni varnaraðila verði hafnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Varnaraðili höfðaði mál þetta 8. nóvember 2010 á hendur sóknaraðila til riftunar eftir reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. á nánar tilgreindum greiðslum, samtals að fjárhæð 504.244.324 krónur, sem munu hafa verið inntar af hendi í aðdraganda þess að bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt er gerð sú krafa að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila 418.793.766 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Sóknaraðili tók til varna og krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að hann yrði sýknaður af kröfum varnaraðila. Með dómi réttarins 7. desember 2011 í máli nr. 614/2011 var hrundið úrskurði héraðsdóms um frávísun málsins og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Á dómþingi 16. maí 2012 lagði varnaraðili fram beiðni um að dómkvaddir yrðu tveir menn „til að meta ógjaldfærni Milestone ehf. í aðdraganda gjaldþrots félagsins“. Matsatriðin voru afmörkuð með tveimur matsspurningum og skiptist sú síðari í fjóra töluliði. Í sama þinghaldi lagði sóknaraðili fram bókun þar sem því var andmælt að matsmenn yrðu dómkvaddir. Úr þessum ágreining var leyst með hinum kærða úrskurði, en þar er að finna matsspurningar varnaraðila eins og þær koma fyrir í matsbeiðni.
II
Sóknaraðili heldur því fram að matsbeiðni sé reist á upplýsingum sem aflað hafi verið með ólögmætum og refsiverðum hætti. Felist þetta í því að tveir nafngreindir starfsmenn sérstaks saksóknara hafi án heimildar afhent varnaraðila gögn og upplýsingar sem aflað hafi verið við rannsókn sakamáls hjá embættinu. Á þessum grundvelli sem lagður er í matsbeiðni geti dómkvaðning ekki farið fram og því beri að hafna beiðninni.
Jafnvel þótt fallist yrði á það með sóknaraðila að upplýsingum hafi verið miðlað til varnaraðila án viðhlítandi heimildar er þess að gæta að skýrsla frá fyrirtæki umræddra starfsmanna, sem störfuðu hjá embætti sérstaks saksóknara, hefur þegar verið lögð fram í málinu. Þótt í umfjöllun um málefni varnaraðila í matsbeiðni kunni að vera upplýsingar, sem aflað hefur verið með þessu móti, getur það ekki komið í veg fyrir að varnaraðili geti fengið dómkvadda menn til að taka saman matsgerð um þær matsspurningar sem settar eru fram í matsbeiðni og lúta að ógjaldfærni varnaraðila í aðdraganda gjaldþrotaskipta.
Sóknaraðili telur einnig að með matsbeiðni sé óskað álits á lagaatriðum sem eru á valdi dómara að leysa úr, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, auk þess sem matsmönnum séu gefin sú forsenda við matið að aðeins verði tekið mið af fjármunum sem aflað varð með lögmætum hætti. Tekur þetta meðal annars til fullyrðinga í matsbeiðni um að lánveitingar Glitnis banka hf. hafi farið í bága við þágildandi reglur um stórar áhættuskuldbindingar, sbr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 130/2004 og nr. 170/2006.
Þótt með matsbeiðni sé leitað eftir áliti á einhverju sem öðrum þræði snertir lagaleg atriði myndi niðurstaða þar að lútandi í matsgerð ekki binda hendur dómara eða þrengja svigrúm hans og skyldu til að meta þau endanlega sjálfur. Þá geta staðhæfingar í matsbeiðni um atriði sem varnaraðili telur hafa áhrif við matið ekki skert frelsi matsmanna til að leggja á þau sjálfstætt mat. Er þess jafnframt að gæta að varnaraðili yrði að bera halla af því ef sönnunargildi matsgerðar verður rýrara en ella vegna þess að lögð hefur verið til grundvallar í mati forsenda varnaraðila sem reynist ekki eiga við rök að styðjast. Loks verður því ekki slegið föstu að útilokað sé fyrir dómkvadda menn að taka saman matsgerð um þær spurningar sem greinir í matsbeiðni þótt fallast megi á það með sóknaraðila að sumar þeirra séu að nokkru leyti óljósar og matskenndar. Verður varnaraðila ekki meinað að afla matsgerðar um þessar spurningar, enda ber hann sjálfur kostnað af matsgerðinni og áhættu af því hvort hún komi honum að notum. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Karl Emil Wernersson, greiði varnaraðila, þrotabúi Milestone ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2012.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 14. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þb. Milestone ehf., Borgartúni 26, Reykjavík á hendur Karli Emil Wernerssyni, Engihlíð 9, Reykjavík, til staðfestingar á riftunum greiðslna og ráðstafana, og til endurgreiðslu verðmæta og greiðslu skaðabóta, auk vaxta og málskostnaðar. Stefna málsins var birt 9. nóvember 2010.
Í þessum þætti málsins eru tekin fyrir mótmæli stefnda við því að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir menn til að meta og gefa álit á eftirfarandi:
„Matsspurning I
Hvenær var markaðsvirði eigna Milestone ehf. orðið minna en skuldir félagsins?
Matsspurning II
- Þess er óskað að matsmenn skoði og lýsi í matsgerð með hvaða hætti Milestone ehf. fjármagnaði skuldbindingar félagsins frá september 2007 og fram að gjaldþroti félagsins. Matsmenn skulu einkum leitast við að lýsa á hvern hátt afborganir og uppgreiðslur lána fóru fram við kröfuhafa Milestone ehf., hvenær þær áttu sér stað og með hvaða hætti Milestone ehf. aflaði fjármuna til að greiða umræddar skuldbindingar. Þess er sérstaklega óskað að matsmenn geri m.a. grein fyrir eftirfarandi atriðum í tengslum við framangreinda lýsingu:
- Matsmenn lýsi og leggi mat á hvort Milestone ehf. hafi fjármagnað greiðslur skuldbindinga félagsins með lánum frá Glitni banka hf., með beinum eða óbeinum hætti.
- Matsmenn lýsi og leggi mat á hvort Milestone ehf. hafi fjármagnað greiðslur skuldbindinga félagsins með lánum frá dótturfélögum Milestone ehf., eða félögum tengdum Milestone ehf., með beinum eða óbeinum hætti.
- Þess er óskað að matsmenn lýsi og leggi mat á hversu stór áhættuskuldbinding Milestone ehf. og tengd félög, ásamt félögunum Svartháfi ehf., kt. 680108-1020, og Vafningi ehf. (nú Földungur ehf.), kt. 470208-0580, voru hjá Glitni banka hf. á framangreindu tímabili, sbr. þágildandi 30. gr. laga nr. 161/2002. Óskað er eftir því að matsmenn sundurliði í matsgerð svar við matsspurningunni, þannig að hlutur hvers félags sem metið er verði tilgreindur.
- Þess er óskað að matsmenn lýsi og leggi mat á hvenær Milestone ehf. gat ekki staðið að fullu í skilum við lánardrottna sína, með öðrum hætti en beinum eða óbeinum lánveitingum frá Glitni banka hf. eða félögum tengdum Milestone ehf., þegar kröfur lánardrottnanna féllu í gjalddaga, og ekki var talið sennilegt að greiðsluerfiðleikar félagsins myndu hjá líða innan skamms tíma?
- Þess er óskað að matsmenn lýsi og leggi mat á hvenær Milestone ehf. gat ekki staðið að fullu í skilum við lánardrottna sína, þegar kröfur lánardrottnanna féllu í gjalddaga, og ekki var talið sennilegt að greiðsluerfiðleikar félagsins myndu hjá líða innan skamms tíma?“
Stefndi, þ.e. matsþoli, krefst þess að dómari hafni þeirri kröfu stefnanda að dómkvaddir verði tveir matsmenn til þess að svara spurningum sem stefnandi lagði fram í matsbeiðni í þinghaldi 16. maí sl.
Stefnandi, þ.e. matsbeiðandi, krefst þess að kröfu stefnda verði hafnað og að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til að meta ógjaldfærni Milestone ehf. í aðdraganda gjaldþrots félagsins og gefa um það skriflegt og rökstutt álit, sbr. nánar framangreinda matsbeiðni, dagsetta 16. maí sl.
Ágreiningsefni
Milestone ehf. var stofnað í mars 1988 og hét þá Deiglan-Áman. Í upphafi ársins 2004 var félagið sameinað Apóteki Austurbæjar ehf., Vesturbæjarapóteki ehf. og Ísrann ehf. Nafninu var í kjölfarið breytt í Milestone. Umsvif félagsins jukust mikið á árunum 2005-2007. Félagið átti meðal annars stóra hluti í Glitni banka hf., Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Lyfjum og heilsu, auk þess sem félagið keypti, á fyrri hluta ársins 2007, sænska félagið Moderna Finance AB.
Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2009. Frestdagur við skiptin er 22. júní 2009.
Stefndi var stjórnarformaður og stærsti hluthafi Milestone ehf. á árunum 2005-2009, bæði sjálfur og gegnum félög í hans eigu.
Skiptastjóri lét fara fram rannsókn á fjárreiðum þrotabúsins. Rannsóknin var framkvæmd af Ernst & Young. Í skýrslu Ernst & Young kemur fram að stefndi fékk á síðustu 24 mánuðum fyrir gjaldþrot Milestone ehf. fjölmörg lán frá félaginu.
Stefnandi telur að nánar tilteknar ráðstafanir sem framkvæmdar hafi verið til að lækka skuld stefnda við Milestone ehf. séu riftanlegar í skilningi XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Enn fremur telur stefnandi lán til stefnda vera ólögmæt samkvæmt 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og að stefnda beri að greiða þau til baka. Stefnandi krefst því endurgreiðslu úr hendi stefnda og að stefndi greiði stefnanda skaðabætur.
Málsástæður stefnda fyrir höfnun dómkvaðningarinnar
Stefndi byggir kröfu sína um að hafnað verði dómkvaðningu tveggja matsmanna í samræmi við matsbeiðni stefnanda, á því að gagna og upplýsinga, sem liggi til grundvallar og komi fram í matsbeiðninni, hafi verið aflað með ólögmætum og refsiverðum hætti. Matsbeiðnin byggist á skýrslu P3, sem lögð var fram í málinu 7. febrúar sl. Skýrslan hafi verið unnin fyrir stefnanda af aðilum sem hafi unnið við rannsókn embættis Sérstaks saksóknara á málefnum tengdum Milestone ehf. og tengdra félaga. Embætti Sérstaks saksóknara hafi nú kært þá aðila til Ríkissaksóknara með kæru, dagsettri 24. apríl 2011, vegna brota á 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa afhent stefnanda þessa máls gögn og upplýsingar. Vinna framangreindra aðila hafi skilað stefnanda gögnum um rekstur Milestone ehf. og áður nefndri skýrslu P3, sem byggist á þeim gögnum. Skiptastjóri stefnanda sé opinber sýslunarmaður, sbr. 3. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og frekari notkun og miðlun þessara gagna sé ólögmæt í samræmi við 229. gr. og 230. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Gögn frá Glitni banka hf. virðist falla undir 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og þagnarskylda hvíli á hverjum þeim sem veiti þeim viðtöku, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Þá hafi gögnin verið haldlögð við húsleit, að hluta hjá öðrum lögaðilum. Slík gögn megi aðeins nota við rannsókn þess máls sem er grundvöllur húsleitar. Ella beri að skila gögnum og eyða afritum, sbr. 68. gr. og 72. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Öll miðlun upplýsinga og gagna, sem fengist hafi með framangreindum hætti, þar með talið til dómkvaddra matsmanna á grundvelli matsbeiðni, sé þar með ólögmæt.
Stefndi vísar einnig til þess að skýrsla P3 byggist á gögnum sem stefnandi hefði ekki haft aðgang að hefði hann ekki greitt framangreindum aðilum fyrir vinnu við öflun og rannsókn gagna og upplýsinga frá Sérstökum saksóknara. Heimildir laga nr. 21/1991 taki aðeins til gagna hjá þrotabúinu sjálfu en feli ekki í sér heimild til gagnaöflunar.
Stefndi byggir jafnframt á því að matsspurningarnar sem lagðar séu fram í matsbeiðninni varði lagaleg atriði sem dómara beri að meta, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Matsspurningarnar, einkum matsspurning II, séu settar þannig fram að matsmenn geti ekki tekið afstöðu til þeirra án þess að taka afstöðu til þess hvort einstakar afborganir hafi verið greiddar með ólögmætum hætti. Það sé lagaatriði sem matsmönnum verði ekki falið að meta. Matsspurning II 2 lúti að því lagaatriði hver áhættuskuldbinding Glitnis banka hf. hafi verið samkvæmt 30. gr. laga nr. 161/2002. Svar við því velti á túlkun lögfræðilegra hugtaka. Spurningar II 3-4 feli það í sér að matsmenn eigi að meta hvenær talið hafi verið að greiðsluerfiðleikar Milestone ehf. hafi ekki liðið hjá innan skamms tíma. Það sé mat á hugtaksskilyrði 1. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991. Þetta séu lagaleg atriði sem matsmönnum verði ekki falið að meta.
Málsástæður stefnanda fyrir dómkvaðningunni
Stefnandi kveður matsbeiðnina skýra, þannig að ekki fari milli mála hvað það sé sem eigi að meta og hvað það sé sem stefnandi hyggist sanna með matinu. Ekki séu gerðar frekari kröfur um form matsbeiðna í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá hafi Hæstiréttur Íslands lagt áherslu á að matsbeiðnir séu á forræði matsbeiðenda.
Matsbeiðnin byggist á gögnum sem hafi verið lögð fram í málinu, meðal annars skýrslu P3. Skýrslan byggist á gögnum sem hafi verið lögð fram í málinu og sem þrotabússtjóri hafi aðgang að. Ekki hafi öll gögnin verið lögð fram í öllum þeim átta málum, þar með talið þessu máli, sem rekin séu samhliða. Þá mótmælir stefnandi þeirri lagatúlkun stefnda að þrotabú geti aðeins stuðst við þau gögn sem það eigi. Þrotabúið geti aflað gagna með lögmætum hætti, sem það og hafi gert.
Spurningar matsbeiðninnar séu ekki spurningar um lagaleg álitaefni, þó að lagaþekkingu þurfi til að meta tiltekin atriði, en víðtækari þekkingu þurfi til. Í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands geti dómkvaddir matsmenn aflað sér gagna við matið og matsþoli eigi kost á því að koma að sjónarmiðum og gögnum á matsfundi. Matsmenn svari svo þeim matsspurningum sem þeim sé unnt að svara. Það sé dómarans að meta lagaleg álitaefni eins og þau hvort svör við matsspurningum varpi ljósi á fjárhagslega stöðu Milestone ehf. í aðdraganda gjaldþrots félagsins.
Niðurstaða
Fallist er á það með stefnanda að lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. takmarki ekki heimildir þrotabús til þess að afla sér gagna með lögmætum hætti, en þurfi ekki eingöngu að styðjast við þau gögn sem það eigi. Það er fyrir utan úrskurðarefni í þessum þætti málsins, að taka afstöðu til skýrslu P3.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, afla aðilar sönnunargagna sem þeir telja máli sínu til framdráttar. Í dómum Hæstaréttar Íslands hefur það ekki verið talið á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka rétt aðila þar að lútandi umfram það sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar. Í matsbeiðninni, sem deilt er um í þessum þætti málsins, kemur fram með skýrum hætti hvað eigi að meta og hvað aðili hyggist sanna með mati og uppfyllir hún því skilyrði 1. mgr. 61. gr. laganna. Ekki verður séð að það sé bersýnilegt að matsgerð samkvæmt beiðninni komi ekki til með að skipta máli eða verði tilgangslaus. Önnur skilyrði eða takmarkanir fyrir framlagningu matsbeiðni er ekki að finna í lögunum. Þá á stefndi kost á að koma athugasemdum og sjónarmiðum sínum á framfæri við matið. Við efnismeðferð málsins kemur matsgerðin til skoðunar og það er matsbeiðandi, stefnandi þessa máls, sem ber áhættuna af notagildi matsgerðar til sönnunar í málinu. Matsbeiðandi ber enn fremur kostnað af öflun matsgerðarinnar.
Ákvæði 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 kveður á um að dómari leggi sjálfur mat á atriði sem krefjist almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Hæstiréttur Íslands hefur litið svo á, sbr. dóm í málinu nr. 292/2000, að sé í matsbeiðni leitað eftir áliti matsmanna á atriðum sem varði lagalega þætti máls þá bindi niðurstaða matsgerðar um þau atriði ekki dómara né takmarki svigrúm hans og skyldu til að meta þau endanlega sjálfur. Þar af leiðandi verður dómkvaðningu matsmanna ekki hafnað á grundvelli þess að í matsbeiðni séu lagðar fram spurningar sem varði lagaleg atriði enda verður fallist á það með stefnanda að spurningarnar varði jafnframt önnur sérfræðileg álitaefni en lögfræðileg.
Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu stefnda um að hafna dómkvaðningu matsmanna.
Sigrún Guðmundsdóttir kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Umbeðin dómkvaðning skal fara fram.