Hæstiréttur íslands

Mál nr. 649/2011


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 24. maí 2012.

Nr. 649/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

(Óskar Sigurðsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa ítrekað lagst upp í rúm við hlið A, sem þá var 14 ára, og strokið henni innan klæða og utan, ítrekað litið undir sæng hennar, og kysst hana. Brot X þóttu sönnuð og var hann sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var X fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998, sbr. 27. gr. sömu laga, með því að hafa veitt A og B áfengi. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að X brást gróflega trúnaðarskyldum sínum gagnvart A, hann hefði sýnt einbeittan brotavilja og að vanlíðan A vegna brotanna væri mikil. Var refsing X ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Þá var honum gert að greiða A 600.000 krónur ásamt vöxtum í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. nóvember 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð. Þá er þess aðallega krafist að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hún verði lækkuð.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Með vísan til forsendna héraðsdóms er hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 609.449 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 31. október 2011.

Mál þetta, sem þingfest var þann 1. júlí 2011, var tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð þann 6. október sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 15. júní 2011., á hendur ákærða, X kennitala [...], [...], [...]; fyrir eftirtalin brot framin sunnudaginn 30. maí 2010:

1.       Áfengis- og barnaverndarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins á veitingastaðnum [...], og að [...], [...], veitt A, kt.[...], þá 14 ára, og B, kt. [...], þá 16 ára, áfengi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 18. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998, og 3. mgr. 99. gr.  barnaverndarlaga nr. 80/2002.

2.       Kynferðisbrot, með því að hafa árla morguns að[...], [...], ítrekað lagst upp í rúm við hlið A, þar sem hún lá ásamt B, og strokið handleggi hennar, maga utan klæða og brjóst innan klæða og tvisvar kysst hana tungukossi.

3.       Kynferðisbrot, með því að hafa síðla morguns að [...], [...], lagst upp í rúm við hlið A, þar sem hún lá í nærbuxum einum fata, og strokið maga hennar, brjóst og læri, ítrekað litið undir sæng hennar á líkama hennar og ítrekað reynt að kyssa hana.

Teljast brot samkvæmt 2. og 3. ákærulið varða við 2. mgr. 202. gr. og brot samkvæmt 3. ákærulið auk þess við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í ákæru er tekin upp einkaréttarkrafa C, f.h. ólögráða dóttur hans A, en krafan er svohljóðandi:

„Einkaréttarkröfur:

Af hálfu C, kt. [...], f.h. ólögráða dóttur hans, A, kt. [...] [sic], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 1.000.000,- með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi til 10. mars 2011 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.“

Ákæruvaldið gerir þær kröfur sem í ákæru greinir.  

Af hálfu bótakrefjanda eru gerðar sömu kröfur og í bótakröfu greinir. 

Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu en til vara að hann verði eingöngu dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa, verði hann sakfelldur. Krafist er frávísunar bótakröfu. Verði ekki fallist á þá kröfu er krafist sýknu af bótakröfunni. Komi til sakfellingar er þess krafist að dæmdar skaðabætur verði lækkaðar verulega. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna úr ríkissjóði sér til handa.

Málsatvik 

Þann 26. júlí 2010 kærði C ákærða í máli þessu fyrir  kynferðisbrot gegn A, dóttur kæranda. Í skýrslutöku af C þann sama dag kemur fram að kvöldinu áður hafi brotaþoli greint honum frá því að heimilisvinur, ákærði í máli þessu, hafi leitað á hana nótt eina um páskana 2010. Einnig kom fram að brotaþoli hafi greint móður sinni og fósturforeldrum frá atvikinu.  

Í skýrslutöku af brotaþola fyrir dómi, sem fram fór í Barnahúsi 28. júlí 2010, kom fram að brotaþoli hafi þekkt ákærða í nokkur ár og litið á hann eins og föður, en ákærði sé besti vinur móður hennar og hafi alltaf verið til staðar ef hún eða móðir hennar  þurftu hjálp eða stuðning. Brotaþoli kvað ákærða vera kunnugt um aldur hennar, það viti allir vinir móður hennar að hún sé 14 ára.

Brotaþoli kvaðst hafa verið að skemmta sér með ákærða, vini ákærða, vinkonu sinni og vini á kosninganóttinni 2010. Þau hafi öll, að undanskildum vini hennar, farið inn á veitingastaðinn [...] og þar hafi ákærði og vinur hans keypt áfengi fyrir hana og vinkonu hennar, þ.e. svokallað skot. Þá hafi hún einnig drukkið tvo bjóra og fundið til áfengisáhrifa. Ákærði hafi drukkið heila viskýflösku auk bjóra. Undir morgun kvaðst brotaþoli hafa farið að sofa í gestaherbergi á heimili vinar ákærða á [...]. Hún hafi legið í miðju rúminu á milli B vinkonu sinnar og ákærða. Þá hafi ákærði verið mjög drukkinn. Þegar vinkona hennar hafi farið fram til að fá sér að borða hafi ákærði farið að strjúka henni á óþægilegan hátt á  handleggjum, maga og brjóstum, bæði innan og utan klæða, en hún hafi verið í síðum hlýrabol og nærbuxum. Nánar aðspurð sagði brotaþoli að ákærði hafi strokið henni innan klæða um brjóstin, en utan klæða á magann. Þá hafi ákærði kysst hana tungukossi á munninn en þegar hann kyssti hana í annað skiptið hafi hún farið fram að fá sér sígarettu. Brotaþoli sagðist hafa orðið hrædd.

Um morguninn hafi hún farið ásamt ákærða og vinkonu sinni með leigubifreið heim til sín á [...] en vinkona hennar hafi farið heim til sín. Þegar heim kom hafi móðir hennar og kærasti hennar verið þar ásamt syni kærastans. Brotaþoli kvaðst strax hafa farið niður í herbergi systur sinnar, sem þá bjó ekki á [...], og ætlað að fara að sofa en ákærði hafi elt hana niður og sagt að hann ætlaði að sofa þar. Þá hafi hún sagt að hún ætlaði að fá sér sígarettu og farið upp aftur og inn í sitt herbergi á efri hæðinni og lagst til svefns í nærbuxum einum fata. Þá hafi ákærði komið inn í herbergið, lagst við hliðina á henni fullklæddur þar sem hún lá undir sæng og farið að strjúka líkama hennar og strokið óþægilega um maga hennar og brjóst og einnig komið smá við læri hennar. Þá lýsti brotaþoli því að ákærði hafi alltaf verið að líta undir sængina og lyft höfði hennar upp eins og hann vildi kyssa hana á munninn en hún alltaf fært höfuðið frá. Þetta hafi staðið yfir alla vega í klukkustund en hún síðan sagt að hún ætlaði fram að fá sér sígarettu. Fram kom að brotaþola hafi liðið illa meðan á þessu stóð. Hún hafi verið ringluð og aldrei trúað að svona lagað myndi gerast og þá hafi hún verið hrædd um að særa móður sína. Þá kom fram hjá brotaþola að ákærði hafi gefið henni peysu sumarið eftir þennan atburð.

Á tímabilinu 25. ágúst til 7. október 2010 tók lögregla skýrslu af ákærða og vitnum. Greinargerð D, uppeldis- og afbrotafræðings í Barnahúsi er dagsett 7. desember 2010. Einkaréttarkrafa, dagsett 10. febrúar sl., var birt ákærða þann 22. júní 2011 þegar ákæra ríkissaksóknara var birt.

Í greinargerð D, uppeldis- og afbrotafræðings í Barnahúsi,  kemur fram að barnavernd [...] hafi þann 29. júlí 2010 óskað eftir greiningu og meðferð fyrir brotaþola í framhaldi af skýrslutöku í Barnahúsi deginum áður þar sem stúlkan hafi m.a. greint frá því að vinur móður hennar, ákærði í máli þessu, hafi áreitt hana kynferðislega á kosninganóttina 2010. Brotaþoli hafi komið í sjö viðtöl á tímabilinu 31. ágúst til 3. desember 2010. Upplýsinga um líðan stúlkunnar hafi verið aflað í ofangreindum viðtölum, viðtölum við starfsmann barnaverndar, föður og fósturforeldra stúlkunnar. Þá hafi meðferðarkerfi, áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð, verið notuð en kerfið byggi á fræðslu, hugsanaleiðréttingum, atferlismótandi hugsunum, vinnu með tilfinningar, líðan og framtíðarsýn. Í greinargerðinni kemur fram að brotaþoli hafi búið við gríðarlega vanlíðan alla barnæsku og gerð er grein fyrir heimilisaðstæðum stúlkunnar. Fram kemur að togstreita hafi einkennt viðhorf brotaþola til ákærða þar sem hún hafi getað leitað til hans þegar henni leið illa og fram kemur að hún hafi litið á hann sem ákveðna föðurímynd og því treyst honum. Í niðurstöðu mats á líðan brotaþola kemur fram að þunglyndi hennar mælist alvarlegt, kvíði á mörkum mjög alvarlegs kvíða og streitu hafi mælst í meðallagi. Þá er greint frá niðurstöðu sjálfsmatslista um líðan og hegðunarþætti. Í niðurstöðu og áliti D kemur m.a. fram. „A nýtir sér viðtölin vel og sér undirrituð örlitlar breytingar til bættrar líðunar hjá henni eftir því sem tíminn líður. Hins vegar er sú togstreita sem stúlkan glímir við að valda henni mikilli vanlíðan eins og títt er um börn og unglinga sem sætt hafa kynferðislegu áreiti/ofbeldi af hendi einhvers sem þau hafa myndað traust til. Svikin eru því mikil við stúlkuna sem hún tekur mjög nærri sér. Mjög erfitt getur verið að vinna á slíkri vanlíðan þar sem A fer beint yfir í hugsanir sem hún þekkir svo vel að vilja bara láta sem ekkert sé því hún eigi hvort eð er ekkert betra skilið.“ Þá kemur fram í lok greinargerðar að meðferðarvinna með brotaþola muni taka langan tíma.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi

Ákærði, X, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Í framburði ákærða kom fram að umrætt kvöld hafi hann farið með vini sínum, brotaþola og vitninu B og frænda sínum, sem hafi verið bílstjóri, upp í sveit og meðal annars stoppað á veitingastaðnum [...] í [...] þar sem þeir félagar hafi drukkið eitt glas, en brotaþoli og B hafi verið fyrir utan með bílstjóranum. Hann hafi hvorki  keypt áfengi handa brotaþola né vitninu B á barnum.

Þegar á [...] kom hafi þau, ákærði, vinur hans, brotaþoli og B, farið heim til vinar ákærða að [...] á [...] en bílstjórinn hafi farið eftir að hafa keyrt þau þangað. Þegar þangað kom hafi þau spjallað saman. Ákærði kvað ölvunarástand sitt hafi verið nokkuð gott, hann hafi verið með allt á hreinu, en hann hafi drukkið 5-6 glös af blöndu af wiský eða koníaki. Ákærði kvaðst muna vel eftir atvikum um kvöldið og nóttina en ekki eins vel þegar leið á sunnudaginn eftir að hann kom á heimili brotaþola á [...]. Aðspurður kvaðst ákærði hvorki hafa orðið var við að brotaþoli né B hafi verið að drekka eftir að á [...] kom og ákærði neitaði því alfarið að hafa gefið eða otað að þeim áfengi.

Ákærða minnti að hann hafi farið að sofa í sófa í stofunni milli klukkan 04 og 05 um nóttina en vinur hans hafi sofnað á undan honum.  Brotaþoli og B hafi hins vegar sofið í barnaherberginu. Ákærði kvaðst hafa farið tvisvar inn í herbergið til þeirra til að þagga niður í þeim því þær hafi verið með læti. Hann hafi verið pabbalegur, þóst vera grimmur og hafa sagt þeim að fara að sofa annars myndi hann taka herbergið og þær yrðu að sofa í stofunni. Nánar aðspurður kvaðst ákærði hafa sest á rúmið og hallað sér aftur í rúmið með fætur niðri og legið þar örskamma stund, í mesta lagi eina mínútu, sagt nokkur orð og síðan staðið upp. Þá hafi báðar stelpurnar verið í rúminu en ekkert hafi gerst. 

Fyrir hádegi á sunnudeginum hafi hann, brotaþoli og vitnið B farið með leigubifreið að heimili brotaþola á [...]. Hann kvaðst hafa sagt „hér er barnið þitt“ við móður brotaþola en síðan setið inn í stofu og spjallað við hana. Ákærði kvaðst hafa drukkið aðeins eftir að þangað kom og síðan dottið útaf og sofnað í stofunni. Aðspurður sagði ákærði að brotaþoli hafi farið inn í herbergi að sofa. Þangað hafi hann hins vegar ekki farið fyrr en þegar hann kvaddi brotaþola þegar hann fór heim seinni part dagsins, annað hafi hann ekki gert.

Ákærði sagði framburð brotaþola í Barnahúsi og vitnisins B hjá lögreglu um umrædd atvik rangan, hann myndi hundrað prósent eftir atvikum og tók fram að hann hefði aldrei farið innan klæða á brotaþola og neitaði að hafa kysst hana tungukossi. Brotaþola hafi hann í mesta lagi kysst á kinnina hingað til. Ákærði kvaðst ekki geta ímyndað sér af hverju brotaþoli væri að bera á hann sakir í þessu máli en alltaf hafi verið gott þeirra í milli. Þau hafi verið mjög góðir vinir frá því hún flutti á[...] tíu til ellefu ára gömul. Ákærði vildi ekki tjá sig um þann framburð vitnisins B fyrir lögreglu að ákærði hafi lagst upp í rúmið, haldið utan um brotaþola og að vitnið hafi séð hönd ákærða hreyfast undir sænginni. 

Brotaþoli, A, kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og gaf skýrslu. Aðspurð um tengsl hennar og ákærða kom fram hjá brotaþola að ákærði hafi verið besti vinur mömmu hennar og gamall félagi pabba hennar og að hún hafi þekkt ákærða frá því 2004 eða 2005. Umrætt kvöld hafi hún verið ásamt ákærða, vini ákærða og B vinkonu sinni í bíltúr á bifreið sem vinur brotaþola hafi ekið. Þau, að undanskildum bílstjóranum, hafi m.a. farið inn á veitingastaðinn [...] og þar hafi ákærði keypt svokallað skot handa henni og vinkonu hennar. Þegar á [...] kom hafi þau farið heim til vinar ákærða að [...]. Brotaþoli kvaðst ekki hafa átt áfengi en hún og vinkona hennar hafi gengið í það vín sem þar var, en vitnið mundi ekki hver hafi boðið þeim upp á það. Brotaþoli kvaðst hafa verið ölvuð fyrri hluta kvöldsins en ekki verið drukkin þegar þau komu í [...]. Ákærði hafi verið frekar drukkinn en tók fram að hann væri alltaf fullur og kvaðst hún hafa séð hann drukknari.

Fram kom hjá brotaþola að hún, ákærði og vitnið B hafi farið að sofa í gestaherberginu milli klukkan sjö og níu um morguninn. Þá hafi vinur ákærða verið farinn að sofa. Hún kvaðst hafa sofnað strax eftir að hún kom upp í rúm en alltaf verið að vakna við að ákærði var á ferðinni inn og út úr gestaherberginu en líklega hafi B eitthvað sofnað. Brotaþoli kvaðst hafa legið í fanginu á ákærða en tók fram að henni hafi ekkert fundist athugavert eða ljótt við það enda hafi henni þótt vænt um hann. Ákærði hafi byrjað að strjúka á henni handleggina þar sem hún var dottandi í rúminu. Eftir að B vinkona hennar hafi farið fram að borða hafi ákærði haldið áfram að strjúka henni og þá hafi hann einnig kysst hana. Á þessum tíma hafi hann strokið einu sinni rétt yfir brjóstin á henni innan klæða, haldið utan um hana og strokið henni um magann utan klæða sem og um handleggi og axlir en hún hafi verið í hvítum hlýrabol og nærbuxum. Síðan hafi ákærði kysst hana tvisvar og um hafi verið að ræða tungukoss sem brotaþoli sagði að hefði verið ógeðslegt. Nánar aðspurð kom fram hjá brotaþola að ákærði hafi ekki mikið komið við brjóstin á henni. Á þessum tíma hafi ákærði ekki getað sofið og farið nokkrum sinnum fram að fá sér bjór og sígarettu en alltaf komið aftur upp í rúm til hennar. Ákærði hafi á tímabili legið á milli hennar og B en hann hafi einnig legið fyrir framan brotaþola og þegar B var farin fram hafi hann legið fyrir ofan brotaþola í rúminu. Brotaþoli kvaðst hafa verið ringluð meðan á þessu stóð. Þegar hann hafi strokið henni um brjóstin hafi hún ekki áttað sig á því sem var að gerast því henni hafi þótt mjög vænt um ákærða sem í raun hafi verið hluti af fjölskyldu hennar. Nánar aðspurð hvað hún ætti við með þessu sagði brotaþoli að ákærði hafi verið hluti af lífi hennar undanfarin ár, verið henni góður vinur, hjálpað henni í gegnum allt og hún litið á hann sem hálfgerðan pabba enda hafi hann alltaf verið til staðar þegar hún hafi þurft á því að halda. Þegar hún hafi legið í fangi ákærða í rúminu í gestaherberginu hafi henni fundist þetta vera pabbalegt, eins og hún orðaði það, en það hafi breyst þegar ákærði fór að tala um tímann þegar þau voru saman í Portúgal fyrir tveimur árum og í framhaldi af því sagt við sig að hún hafi litið svo flott út í litla bikiníinu sínu og síðan strokið sér um brjóstin. Þetta hafi henni fundist mjög óþægilegt. 

Um klukkan ellefu hafi þau, brotaþoli, ákærði og B farið með leigubifreið niður á [...]. Brotaþoli kvaðst hafa farið heim til sín að [...] en B farið heim til sín. Brotaþoli kvaðst strax hafa farið inn í herbergi sitt, sem sé á efri hæð hússins, háttað sig og farið beint upp í rúm. Herbergi hennar sé beint á móti herbergi mömmu hennar og við hliðina á baðherberginu. Fram kom að ekki væri hægt að loka herberginu alveg vegna skemmda sem orðið hafi á dyrabúnaði eftir jarðskjálfta. Ákærði hafi komið á eftir henni  og lagst upp í rúm við hliðina á henni, strokið henni á lærunum og handleggjum en þá hafi hún verið í nærbuxum einum fata. Brotaþoli kvaðst ekki muna meira. Eftir að brotaþola hafði verið kynntur framburður hennar í Barnahúsi um að ákærði hafi strokið henni á maga og brjóstum  sagðist brotaþoli ekki muna hvort hann strauk henni um magann en hún muni eftir að hann hafi strokið henni um brjóstin, en það hafi ekki verið mikið. Fram kom að hann hafi oft strokið henni og líklega hafi þetta staðið yfir í hálftíma. Brotaþoli greindi frá því að ákærði hafi, þar sem hann lá í rúminu aðeins fyrir ofan brotaþola, alltaf verið að lyfta upp höfði hennar til reyna að kyssa hana en hún hafi þá fært höfuðið niður aftur. Aðspurð hvort ákærði hafði gert eitthvað annað svaraði brotaþoli neitandi en þegar hún var spurð hvort hann hefði litið undir sængina kom fram hjá brotaþola að ákærði hafi ítrekað lyft sænginni upp og verið að skoða líkama hennar. Á meðan á þessu stóð kvaðst brotaþola hafa liðið mjög illa, verið flökurt, titrað og verið hrædd enda hafi þetta ekki verið sá maður sem hún þekkti. Móðir hennar hafi verið vakandi á þessum tíma og hún kvaðst hafa heyrt í þeim sem voru heima. Brotaþoli kvaðst hafa sagt ákærða að hún ætlaði að fá sér sígarettu og farið inn í þvottahús á neðri hæðinni og verið hrædd um að hann myndi elta hana. Um fimmtán mínútum síðar hafi hún farið upp aftur og rætt við móður sína og þá sem voru heima. Sérstaklega aðspurð kvaðst brotaþoli ekki hafa farið inn í herbergi systur sinnar á neðri hæðinni. Þegar hún kom upp hafi ákærði verið að spjalla við móður hennar. Eftir það hafi hann lagt sig í smá tíma í herbergi systur brotaþola á neðri hæðinni áður en hann fór heim. Fram kom hjá brotaþola að þegar ákærði var að fara hafi hann sagt við hana frammi í forstofunni „sorry ég hleypti þér inn á alltof stórt leyndarmál“. Brotaþoli kvaðst ekki vita hvað ákærði hafi átt við og ekki vilja vita það. Eftir þennan atburð kvaðst brotaþoli aðeins einu sinni hafa hitt ákærða. Það hafi verið fyrir viku síðan heima hjá fyrrverandi fósturföður sínum en ákærði og hann séu vinir.  Fram kom hjá brotaþola að hún hafi fyrst sagt bestu vinkonu sinni, E, frá þessum atvikum og líklega hafi það verið helgina eftir umrædda atburði. Þá hafi hún einnig sagt fósturmóður sinni frá atvikinu. Aðspurð um líðan sagði brotaþoli að sér liði vel, nú búi hún hjá föður sínum og viðtöl við sálfræðing hafi gengið vel og hjálpað henni mikið.

Vitnið B, vinkona brotaþola, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst hafa þekkt brotaþola frá þrettán ára aldri og ákærða hafi hún kynnst á heimili brotaþola. Ákærði og vinur hans hafi farið inn á veitingastaðinn [...] og vinur ákærða hafi keypt handa sér skot en ákærði gefið brotaþola bjór. Síðar í yfirheyrslu kom fram hjá vitninu að hún og brotaþoli hafi farið inn á veitingastaðinn en verið fljótlega vísað út. Nánar lýsti hún því þannig að hún og brotaþoli hafi farið inn og tekið sitt hvort skotið á barnum sem ákærði og vinur hans hafi keypt handa þeim. Stuttu síðar hafi þeim verið vísað út. Fram kom hjá vitninu að sá sem ók bifreiðinni í umrætt sinn hafi ekki farið inn á veitingastaðinn. Síðan hafi þau ekið á [...] og haldið áfram að drekka á heimili vinar ákærða. Hún og brotaþoli hafi ekki átt áfengi umrætt kvöld en ákærði hafi verið með bjór og vinur hans með koníak og gefið þeim áfengi. Vitnið sagðist hafa átt erfitt með að standa í fæturna vegna áfengisáhrifa. Ákærði hafi verið blindfullur eins og alltaf.

Þegar liðið var á nóttu hafi hún og brotaþoli farið inn í gestaherbergi og lagst upp í rúmið. Fimm til tíu mínútum síðar hafi ákærði komið inn í herbergið og troðið sér á milli þeirra í rúminu. Vitnið kvaðst hafa snúið sér frá ákærða því það hafi verið svo vond lykt af honum. Ákærði hafi síðan ítrekað farið inn og út úr herberginu. Þegar hún hafi legið þarna, eiginlega áfengisdauð, kvaðst hún hafa tekið eftir að ákærði hafi haldið um brotaþola, sem þá hafi verið í langermabol, og hafi ákærði nánast verið kominn inn á brotaþola. Vitnið kvaðst hafa snúið sér frá ákærða og brotaþola enda alveg að drepast og lítið getað gert, rétt náð að opna augun og ekki getað talað. Svona hafi þetta gengið, ákærði verið á ferðinni inn og út úr herberginu. Þegar ákærði hafi reynt að fara innan klæða á brotaþola að neðan hafi brotaþoli  gefið frá sér hljóð og sagt „X, X“ og við það hafi ákærði staðið upp og farið fram. Loks hafi ákærði farið inn í sófa þar sem hann hafi sofnað áfengisdauða. Nánar aðspurð um atvik í gestaherberginu sagði vitnið að ákærði hafi legið í miðju rúminu og haldið utan um brotaþola eins og þegar maður kúrir. Síðan hafi hún tekið eftir að ákærði hafi verið að gera eitthvað sem hann ætti ekki að vera að gera. Þegar vitnið greindi frá þessu tók hún fram að hún væri ímyndunarveik og hafi verið nær áfengisdauð. Brotaþoli hafi ýtt ákærða frá sér þegar hann hafi tekið um handleggi hennar. Þegar ákærði kom til baka hafi hann verið búinn að hneppa frá skyrtunni og þá hafi hann sett hönd brotaþola á brjóstkassa sinn. Vitnið ítrekaði að ákærði hafi verið undir sæng ásamt brotaþola og þá hafi hann reynt að fara inn á brotaþola að neðan, en brotaþoli, sem hafi verið drukkin, hafi sagt „Æ X ekki gera þetta, æ X mig langar að fara að sofa“. Vitnið tók þó fram að þar sem þau hafi bæði verið undir sæng hafi hún ekki séð hvað um var að vera en brotaþoli hafi alltaf verið að æpa á ákærða þegar hann var undir sænginni með henni. Hann hafi komið aftur og aftur inn í herbergið og brotaþoli alltaf æpt á hann þegar hann reyndi að gera eitthvað. Aðspurð sagðist vitnið hafa séð ákærða strjúka brjóstin á brotaþola sem hafi þá verið í síðerma bol úr þunnu efni og líklega í „leggings“ eða gallabuxum. Þegar þær fóru að sofa hafi brotaþoli líklega verið í hlýrabol og þannig hafi brotaþoli verið klædd þegar ákærði kom inn í herbergið síðar. Sér hafi ekki liðið vel því þarna hafi hún séð ákærða í öðru ljósi en hún hafi litið á hann sem stóra frænda sinn þegar hún var heimagangur á heimili brotaþola. Aðspurð hvort hún hafi farið fram að fá sér að borða sagði vitnið að hún hafi farið fram í stuttan tíma að fá sér að borða þegar brotaþoli lá í rúminu í gestaherberginu. Síðan hafi hún aftur farið inn í gestaherbergið. Vitnið sagði að ákærði hafi alltaf lagst upp í rúmið á milli þeirra. Líklega hafi brotaþoli á einhverju tímamarki sofnað því vitnið kvaðst hafa heyrt hana hrjóta.

Vitnið kvaðst halda að þau hafi farið frá [...] með leigubifreið á [...] um níuleytið um morguninn og hafi hún kvatt brotaþola fyrir utan heimili brotaþola á [...]. Sama dag eða daginn eftir hafi brotaþoli sagt sér að ákærði hafi farið inn á brjóst hennar, reynt að koma við hana að neðan og sett hendur hennar á bera bringu hans. Aðspurð um líðan brotaþola eftir þetta sagði vitnið það vera auðséð að brotaþola hafi liðið hræðilega illa.  Aðspurð um það sem fram kom í yfirheyrslu hjá lögreglu þar sem haft er eftir vitninu að brotaþoli hafi aðeins verið í nærbuxunum, sagði vitnið að hún myndi þetta ekki vel en það geti vel verið að þannig hafi hún verið klædd eftir að þær háttuðu sig.

 Vitnið E, góð vinkona brotaþola, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst þekkja ákærða enda hafi hann verið mjög mikið á heimili brotaþola. Vitnið greindi frá því að brotaþoli hafi sagt sér frá umræddri nótt líklega helgina á eftir þegar vitnið kom á [...] en á þeim tíma hafi hún búið í Reykjavík. Brotaþoli hafi sagt sér að hún hafi farið á rúntinn með ákærða, vini hans og B vinkonu sinni og verið að drekka. Þegar hún og vinkona hennar hafi ætlað að fara að sofa hafi ákærði alltaf verið að rápa inn í herbergi þar sem þær voru. Ákærði hafi farið undir sængina og káfað á henni. Vitnið sagði að þegar brotaþoli sagði henni frá þessu hafi hún átt mjög erfitt með að segja frá atvikum, verið grátandi og varla náð andanum og skolfið af hræðslu, en ekki lýst atvikum nánar. Aðspurð um líðan brotaþola sagði vitnið að nú gangi allt vel hjá henni en hún viti að brotaþola líði mjög illa vegna þessa máls því hún hafi þekkt ákærða mög vel. Vitnið var spurt um  framburð þess hjá lögreglu þess efnis að brotaþoli hafi sagt vitninu að ákærði hafi eitthvað verið að strjúka henni og eitthvað að káfa á henni, sagði vitnið að hún hefði rætt um atburðinn við brotaþola síðar enda hafi brotaþoli átt mjög erfitt með að segja sér frá þessu hina umræddu helgi. 

Vitnið C, faðir brotaþola, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst þekkja ákærða frá fornu fari en samskipti þeirra hafi verið lítil síðustu fimmtán árin nema þá í tengslum við heimili móður brotaþola. Vitnið kvað brotaþola hafa sagt sér frá atburði þeim sem mál þetta fjallar um degi áður en hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Brotaþoli hafi þá verið í fóstri og hringt í vitnið grátandi seint um kvöld og beðið hann um að koma og tala við sig. Hún hafi ekki lýst atvikum í smáatriðum að öðru leyti en því að hún hafi sagt honum að ákærði hefði leitað mjög ákveðið á hana og að hún hefði verið mjög hrædd. Vitnið kvaðst hafa orðið svo reiður þegar hún sagði honum þetta að hann treysti sér ekki til að rifja atvik upp nánar. Vitnið kvað brotaþola hafa búið hjá sér síðan í ágúst sl. Henni líði betur í dag, hún sé í betra jafnvægi og meiri ró yfir henni. Fram undir þetta hafi hún ekki viljað ræða umrædd atvik en hún sé aðeins að opna á það núna.

Vitnið F, fyrrverandi fósturmóðir brotaþola, greindi frá því fyrir dómi að þremur til fjórum dögum eftir að brotaþoli flutti til vitnisins í júnílok eða byrjun júlí 2010 hafi hún greint frá atvikum þessa máls. Brotaþoli hafi brotnað niður og greint frá því að hafa lent í heimilisvini, ákærða í máli þessu, sem hún hafi alltaf treyst. Hann hafi strokið henni,  káfað á henni og farið með tunguna ofan í kok á henni. Þegar vitnið spurði hana af hverju hún hafi ekki veitt mótspyrnu hafi brotaþoli sagt vitninu að hún hafi frosið, orðið stíf og reynt að koma sér út úr þessum aðstæðum með því að afsaka sig með því að hún þyrfti að fá sér sígarettu. Vitnið sagði að atburðurinn hafi verið mikið áfall fyrir brotaþola því hún hafi treyst ákærða algjörlega og hann hafi vitað um aðstæður hennar. Brotaþoli hafi einnig greint frá því að eftir að hún var komin heim til sín hafi ákærði aftur leitað á hana þegar hún lagðist til svefns. Þá hafi hann káfað á henni og tekið af henni sængina og horft á hana en hún hafi komist undan og falið sig inni í búri. Nánar aðspurð sagði vitnið að brotaþoli hafi greint sér frá því að ákærði hafi farið með hönd undir föt brotaþola, strokið henni allri og lagst ofan á hana. Vitnið lýsti mikilli vanlíðan hjá brotaþola sem hafi oft þurft að ræða við vitnið seint á kvöldin og þá grátið mikið. Fyrsti skóladagurinn hafi verið brotaþola mjög erfiður, hún hafi kastað upp og þau þurft að sækja hana. Vitnið kvaðst hafa upplifað aðstæður brotaþola á þann veg að allir sem að henni stóðu og áttu að vaka yfir velferð hennar hafi brugðist.

Vitnið G, móðir brotaþola, kom fyrir dóm og gaf skýrslu. Vitnið kvað ákærða hafa verið fjölskylduvin og kvaðst hún hafa þekkt hann í mörg ár. Hann hafi orðið mikill fjölskylduvinur meðan vitnið bjó með fyrrverandi kærasta sínum og hafi hann farið með þeim í ferðalög, bæði innanlands og utan. Umrætt sumar og umræddan dag kvaðst vitnið aldrei þessu vant ekki hafa neytt áfengis. Hún hafi gefið brotaþola leyfi til að fara með vini sínum sem hafi verið bílstjóri fyrir ákærða umrætt kvöld. Fljótlega eftir miðnætti hafi hún byrjað að hringja og leita að brotaþola og þá hafi komið í ljós að bílstjórinn var farinn til Reykjavíkur en brotaþoli og B vinkona hennar verið með ákærða. Hún kvaðst hafa óskað eftir að brotaþoli kæmi heim í leigubíl og verið að hringja alla nóttina. Þegar brotaþoli hafi komið loks heim, milli klukkan sex og sjö, með ákærða, sem hafi verið ofurölvi, kvaðst vitnið hafa reiðst og skipað brotaþola strax í rúmið og hún hafi strax farið inn í sitt svefnherbergi á efri hæðinni. Hálftíma eða klukkutíma síðar  hafi hún rokið niður og kvaðst vitnið hafa haldið að það hafi hún gert af því vitnið skammaði hana. Fram kom að á neðri hæð hússins séu tvö herbergi, þvottahús og baðherbergi. Vitnið kvaðst hafa verið vakandi meðan brotaþoli var í sínu svefnherbergi og þegar hún var inni í eldhúsi hafi  hún séð ákærða fara inn í svefnherbergi til brotaþola. Aðspurð hvort það sé vanalegt að ákærði fari inn í svefnherbergi brotaþola sagði vitnið það ekki vera en sér hafi fundist þetta vera stuttur tími. Nánar aðspurð sagðist vitnið halda að ákærði hafi verið inni í herberginu í tíu mínútur en tók fram að atvik séu í svolítilli móðu fyrir sér. Vitnið kvaðst ekki vita hvað gerðist þar inni annað en það sem brotaþoli hafi síðar sagt henni. Vitnið kvaðst hafa verið algjörlega grunlaus því þetta hafi verið heimilisvinur þeirra. Eftir að brotaþoli fór niður kvaðst vitnið hafa farið að sofa. Þegar hún vaknaði hafi ákærði verið inn í stofu sofandi. Vitnið kvað brotaþola hafa sagt sér frá þessu þegar hún var flutt til fósturfjölskyldu sinnar. Brotaþoli hafi sagt sér að ákærði hafi káfað á sér umrædda nótt og grátið. Vitnið kvaðst hafa frosið og síðar hafi komið í ljós að brotaþoli hafi reiðst henni vegna þessara viðbragða. Aðspurð um líðan brotaþola sagðist vitnið telja að líðan hennar hafi ekki verið góð.

Vitnið D, uppeldis- og afbrotafræðingur í Barnahúsi, staðfesti vottorð sitt fyrir dómi. Fram kom að brotaþoli hafi komið í sextán viðtöl til vitnisins. Síðasta viðtal hafi verið 23. september sl. og vitnið kvaðst reikna með allt að tuttugu og fimm viðtölum. Vitnið lýsti meðferðinni sem hafi beinst að því að brotaþoli gæti tekist á við líðan og daglegt líf. Brotaþoli sé bæði að takast á við þann atburð sem mál þetta fjallar um sem og erfiða barnæsku. Vitnið greindi frá því að brotaþoli hafi grátið mikið í viðtölum, sem staðið hafi allt upp í einn og hálfan klukkutíma, yfir lífi sínu almennt. Upplifun brotaþola af hinu ætlaða broti snúi fyrst og fremst að því að um hafi verið að ræða trúnaðarbrot. Hún hafi upplifað ákærða sem ákveðna föðurímynd og þótt mjög vænt um hann. Ákærði hafi stutt hana vel í gegnum árin í erfiðum aðstæðum og því hafi hún upplifað það sem gerðist sem gríðarlegt brot gegn sér og að ákærði hafi brugðist sér. Önnur viðbrögð hennar séu hefðbundin viðbrögð þolenda kynferðisofbrota, s.s. sektarkennd og skömm. Þá eigi hún í mikilli togstreitu. Vitnið greindi frá því að brotaþoli hugsaði um mál þetta á hverjum degi og það hafi komið fram í viðtali í byrjun september. Líðan brotaþola sé nú að batna og kvaðst vitnið vera bjartsýn á  framhaldið. Aðspurð um hvort hægt sé að greina á milli áhrifa ætlaðs brots annars vegar og hins vegar annarra kynferðisbrota gegn brotaþola sem og erfiðra uppeldisskilyrða sagði vitnið að ekki sé hægt að greina á milli af hverju kvíði og streita og þunglyndi sem hún greinist með, stafi. Áhrif hins ætlaða brots ákærða á líðan brotaþola og tilfinningar sé hins vegar hægt að greina þegar hún lýsir atvikum og ræði um þau í meðferðarviðtölunum.  

Niðurstaða

Fyrsti töluliður ákæru

Ákærða er gefið að sök áfengis- og barnaverndarlagabrot með því að hafa veitt brotaþola, sem þá var 14 ára, og vitninu B, sem þá var 16 ára, áfengi aðfaranótt sunnudagsins 30. maí 2010 annars vegar á veitingastaðnum [...] og hins vegar að [...].

Ákærði neitar sök og bar fyrir dómi að hann hafi ekki keypt áfengi fyrir stúlkurnar á veitingastaðnum og að þær hafi beðið fyrir utan veitingastaðinn ástamt bílstjóranum meðan hann og vinur hans fóru inn og drukku eitt glas. Um áfengisneyslu að [...] kvaðst ákærði hvorki hafa orðið var við að brotaþoli né B hafi neytt áfengis og neitaði því alfarið að hafa gefið eða otað að þeim áfengi.

Í skýrslutöku í Barnahúsi greindi brotaþoli frá því að ákærði og vinur hans hafi keypt áfengi, svokallað skot, handa sér og vitninu B inni á veitingastaðnum [...].  Brotaþoli bar á sama veg fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Aðspurð fyrir dómi um áfengisneyslu að [...] kvaðst brotaþoli ekki hafa átt áfengi umrædda nótt og því hafi þær vinkonurnar gengið í það vín sem þar var, en brotaþoli mundi ekki hver hafi boðið þeim upp á það.

Í framburði vitnisins B hjá lögreglu um ætlaðar áfengisveitingar ákærða  umrædda nótt sagði vitnið orðrétt. „Og svo þarna þeir voru bara að reyna að hella okkur fullar, bara að láta okkur fá bjór eða eitthvað dót og voru líka að reyna að splæsa á okkur á barnum… „ Fyrir dómi greindi vitnið í fyrstu frá því að ákærði og vinur hans hafi farið inn á veitingastaðinn [...] og vinur ákærða hafi keypt handa sér skot en ákærði gefið brotaþola bjór. Síðar í yfirheyrslu kom fram hjá vitninu að hún og brotaþoli hafi farið inn á veitingastaðinn og drukkið sitt hvort skotið á barnum sem ákærði og vinur hans hafi keypt handa þeim. Stuttu síðar hafi þeim verið vísað út. Aðspurð um áfengisneyslu að [...] kom fram hjá vitninu að hvorki hún né brotaþoli hafi átt áfengi umrætt kvöld en ákærði, sem hafi verið með bjór, og vinur hans, sem hafi verið með koníak, hafi gefið þeim áfengi.  

Brotaþoli og vitnið B hafa greint frá því að hafa ekki átt áfengi umrædda nótt en að hafa verið undir áhrifum áfengis. Með vísan til þess, framburðar  brotaþola og vitnisins B um að ákærði hafi keypt svokallað skot handa þeim á veitingastaðnum [...], þykir ekki óvarlegt að telja sannað, gegn neitun ákærða, að ákærði hafi veitt stúlkunum áfengi á veitingastaðnum [...] eins og lýst er í ákæru. Hins vegar þykir ekki eins og framburði stúlknanna er háttað fram komin fullnægjandi sönnun þess að ákærði hafi veitt brotaþola og vitninu B áfengi að [...]. Með því að veita stúlkunum áfengi á veitingastaðnum [...] braut ákærði gegn 1. mgr. 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998, sbr. 27. gr. sömu laga. Vegna heimfærslu til 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 í ákæru vísaði sækjandi til þess að ákærði hafi sýnt stúlkunum yfirgang og ósiðlegt athæfi með tilliti til aðstæðna þegar hann veitti stúlkunum áfengi umrædda nótt. Að mati dómsins þykir verknaður ákærða ekki varða við áðurnefnt ákvæði barnaverndarlaga eins og ákvæðið hefur verið túlkað í dómaframkvæmd og verður ákærði því ekki jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga eins og krafist er í ákæru.

Annar töluliður ákæru

Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot, með því að hafa árla morguns sunnudaginn 30. maí 2010, ítrekað lagst upp í rúm við hlið brotaþola, A, þar sem hún lá ásamt B, og strokið handleggi brotaþola, maga utan klæða og brjóst innan klæða og tvisvar kysst hana tungukossi.

Ákærði bar fyrir dómi að hafa farið tvisvar inn í herbergið þar sem brotaþoli og vitnið B sváfu. Stúlkurnar hafi verið með læti og hann farið inn til að þagga niður í þeim og þóst vera grimmur. Ákærði kvaðst hafa verið pabbalegur, sagt þeim að fara að sofa annars myndi hann taka herbergið og þær yrðu að sofa í stofunni. Hann hafi sest á rúmið og hallað sér aftur í rúmið með fætur niðri og legið þannig örskamma stund, í mesta lagi eina mínútu, sagt nokkur orð og síðan staðið upp. Þegar þetta átti sér stað hafi báðar stelpurnar verið í rúminu en ekkert hafi gerst. 

Í skýrslutöku fyrir dómi í Barnahúsi greindi brotaþoli frá því að hún hafi undir morgun farið að sofa í gestaherbergi að [...] og legið í miðju rúminu á milli B vinkonu sinnar og ákærða sem hafi verið mjög drukkinn. Þegar vinkona hennar hafi farið fram til að fá sér að borða hafi ákærði farið að strjúka henni á óþægilegan hátt á  handleggjum,  maga og brjóstum, bæði innan og utan klæða, en hún hafi verið í síðum hlýrabol og nærbuxum. Nánar aðspurð sagði brotaþoli að ákærði hafi strokið henni innan klæða um brjóstin, en utan klæða á magann. Þá hafi ákærði kysst hana tungukossi á munninn en þegar hann kyssti hana í annað skiptið hafi hún farið fram að fá sér sígarettu. Brotaþoli sagðist hafa orðið hrædd.

Við aðalmeðferð málsins lýsti brotaþoli atvikum í [...] þannig að þegar hún og vitnið B hafi farið að sofa undir morgun í gestaherberginu hafi vinur ákærða verið farinn að sofa. Ákærði hafi hins vegar alltaf verið á ferðinni inn og út úr gestaherberginu. Á tímabili hafi hann legið á milli hennar og B í rúminu en hann hafi einnig legið fyrir framan brotaþola og þegar B fór fram til að fá sér að borða hafi hann legið fyrir ofan brotaþola. Brotaþoli lýsti því hvernig hún hafi legið í fanginu á ákærða. Fyrst hafi henni fundist þetta pabbalegt, hvorki athugavert né ljótt enda hafi henni þótt vænt um ákærða. Ákærði hafi síðan byrjað að strjúka henni um handleggina þar sem hún var dottandi í rúminu en eftir að B vinkona hennar fór fram hafi  ákærði haldið áfram að strjúka henni og þá hafi hann einnig kysst hana. Hann hafi strokið einu sinni rétt yfir brjóstin innan klæða, haldið utan um hana og strokið henni um magann utan klæða sem og um handleggi og axlir. Þá hafi hún verið í hvítum hlýrabol og nærbuxum. Brotaþoli kvað ákærða hafa kysst sig tvisvar og um hafi verið að ræða tungukossa sem henni hafi fundist ógeðslegir. Á þessum tíma hafi ákærði ekki getað sofið og farið nokkrum sinnum fram að fá sér bjór og sígarettu en alltaf komið aftur upp í rúm til hennar. Brotaþoli kvaðst hafa verið ringluð meðan á þessu stóð. Þegar hann hafi strokið henni um brjóstin hafi hún ekki áttað sig á því sem var að gerast því henni hafi þótt mjög vænt um ákærða sem í raun hafi verið hluti af fjölskyldu hennar og hún litið á hann sem hálfgerðan pabba enda hafi hann alltaf verið til staðar þegar hún hafi þurft á því að halda. Brotaþoli greindi frá því að breyting hafi orðið á líðan sinni þegar ákærði hafi farið að tala um það þegar þau voru saman í Portúgal fyrir tveimur árum og í framhaldi af því sagt við sig að hún hafi litið svo flott út í litla bikiníinu sínu og síðan strokið henni um brjóstin. Þetta hafi henni fundist mjög óþægilegt. 

Vitnið B greindi frá því fyrir dómi að þegar liðið var á nóttu hafi hún og brotaþoli farið inn í gestaherbergi í [...] og lagst upp í rúmið. Fimm til tíu mínútum síðar hafi ákærði komið inn í herbergið og troðið sér á milli þeirra í rúminu og haldið utan um brotaþola eins og þegar maður kúrir. Vitnið kvaðst hafa snúið sér frá ákærða því það hafi verið svo vond lykt af honum. Ákærði hafi síðan ítrekað farið inn og út úr herberginu. Þegar hún hafi legið þarna, eiginlega áfengisdauð, kvaðst hún hafa tekið eftir að ákærði hafi haldið um brotaþola, sem þá hafi verið í langermabol, og hafi ákærði nánast verið kominn inn á brotaþola, en vitnið tók fram að hún væri ímyndunarveik. Hún hafi lítið getað gert, rétt náð að opna augun og ekki getað talað. Svona hafi þetta gengið, ákærði verið á ferðinni inn og út úr herberginu. Þegar ákærði, sem hafi verið undir sæng hjá brotaþola, hafi reynt að fara innan klæða á brotaþola að neðan hafi brotaþoli gefið frá sér hljóð og sagt „X, X og æ, X ekki gera þetta, æ X mig langar að fara að sofa“. Við það hafi ákærði staðið upp og farið fram. Vitnið staðfesti fyrir dómi að hafa yfirgefið herbergið og farið fram að fá sér að borða.

Fyrir liggur að ákærði kynntist brotaþola þegar hún flutti á [...] tíu eða ellefu ára gömul. Einnig er upplýst í málinu að ákærði, sem var góður vinur móður brotaþola, hafi oft dvalið á heimili brotaþola og ferðast með fjölskyldunni innanlands og utan. Þá hefur brotaþoli lýst því hvernig ákærði hafi í gegnum árin stutt bæði hana og móður hennar og fram er komið að brotaþoli hafi litið á ákærða eins og föður. Ágreiningslaust er í máli þessu að ákærða var kunnugt um aldur brotaþola.  

Brotaþoli greindi í öllum meginatriðum frá atvikum sem varða annan töluðið ákæru með sama hætti fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og í yfirheyrslu í Barnahúsi eins og rakið hefur verið. Brotaþoli lýsti því hvernig hún í upphafi hafi legið í fangi ákærða í trausti langrar vináttu og þeirrar föðurímyndar sem hann var henni. Hún lýsti hvernig sú tilfinning hafi breyst þegar ákærði fór að ræða við hana um útlit hennar í bikiní nokkrum árum áður í sólarlandaferð og þegar hann, í framhaldi af því, hafi strokið henni um brjóstin. Af framburði vitnisins B um það hvernig ákærði hafi reynt að fara innan klæða á brotaþola verður þó ekki byggt enda kvaðst vitnið hafa verið nær áfengisdauð, snúið baki í ákærða og vera ímyndunarveik. Hins vegar þykir ekki óvarlegt að byggja á framburði vitnisins um að ákærði hafi farið upp í rúm til þeirra og legið undir sæng við hlið brotaþola.

Dómurinn horfði á myndbandsupptöku af skýrslutöku af brotaþola í Barnahúsi en skýrslan var tekin þann 28. júlí 2010, tveimur dögum eftir að faðir brotaþola kærði málið til lögreglu og um tveimur mánuðum eftir hinn ætlaða atburð. Brotaþoli greindi af einlægni frá því hvernig hún taldi sig örugga með ákærða sem hún bar mikið traust til. Framburður brotaþola var ýkjulaus og yfirvegaður en sjá mátti að brotaþola var sérstalega þungbært að greina frá háttsemi ákærða gagnvart henni og er framburður hennar trúverðugur að mati dómsins. Þá styður framburður vitnisins D um mikla vanlíðan brotaþola og tilfinningalega togstreitu sem brotaþoli glímdi við í kjölfar atburðarins eindregið framburð brotaþola. Það gerir einnig framburður vitnanna E, vinkonu brotaþola, og F, fyrrverandi fósturmóður brotaþola, sem báru fyrir dómi um slæma líðan brotaþola þegar brotaþoli greindi þeim frá atvikum málsins, E viku eftir umræddan atburð þegar vitnið kom á [...], og F í lok júní eða byrjun júlí 2010. Að mati dómsins er ekkert fram komið í málinu sem rýrt geti trúverðugleika framburðar brotaþola.  

 Ákærði lýsti ástandi sínu umrædda nótt þannig að hann myndi hundrað prósent eftir atvikum. Á þeim framburði ákærða verður ekki byggt enda lýsa brotaþoli og vitnið B ástandi ákærða á annan veg. Brotaþoli kvað ákærða hafa verið frekar fullan og vitnið B sagði ákærða hafa verið blindfullan. Fær framburður þeirra stoð í framburði vitnisins G sem kvað ákærða hafa verið ofurölvi þegar hann kom á heimili brotaþola á [...] um morguninn. Að mati dómsins er framburður ákærða, um margt tortryggilegur og skýringar hans á ferðum hans inn í gestaherbergið til stúlknanna ekki trúverðugar.  

Þegar allt framangreint er virt þykir, gegn neitun ákærða, fram komin sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, að ákærði hafi haft í frammi kynferðislega áreitni gagnvart brotaþola eins og nánar er lýst í öðrum tölulið ákæru og með þeirri háttsemi brotið gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.   

Þriðji töluliður

Í þriðja tölulið ákæruskjals er ákærða gefið að sök kynferðis- og barnaverndarlagabrot síðla morguns þann sama dag á heimili brotaþola að [...], þar sem brotaþoli lá uppi í rúmi í nærbuxum einum fata, með því að hafa strokið maga hennar, brjóst og læri, ítrekað litið undir sæng hennar á líkama hennar og ítrekað reynt að kyssa hana.

Ákærði lýsti atvikum eftir að hann og brotaþoli komu á heimili hennar á [...] þannig að hann hafi sest inn í stofu og spjallað við móður brotaþola og síðan sofnað þar. Hann neitaði að hafa farið inn í herbergi brotaþola fyrr en seinni part dagsins í þeim tilgangi að kveðja hana.  

Í skýrslutöku í Barnahúsi lýsti brotaþoli atburðarásinni eftir að hún kom heim til sín þannig að hún hafi strax hafa farið niður í herbergi systur sinnar þar sem hún ætlaði að sofa en þar sem ákærði hafi elt hana þangað hafi  hún sagt honum að hún ætlaði að fá sér sígarettu og farið upp aftur og þá lagst til svefns í nærbuxunum einum klæða í herbergi sínu á efri hæðinni. Þá hafi ákærði komið inn í herbergið, lagst við hliðina á henni fullklæddur þar sem hún lá undir sæng og farið að strjúka líkama hennar og strokið óþægilega um maga hennar og brjóst og einnig komið smá við læri hennar. Þá lýsti brotaþoli því að ákærði hafi alltaf verið að líta undir sængina og lyft höfði hennar upp eins og hann vildi kyssa hana á munninn en hún alltaf fært höfuðið frá. Þetta hafi staðið yfir í um klukkustund þar til hún fór fram og fékk sér sígarettu. Brotaþoli greindi frá því að henni hafi liðið illa meðan á þessu stóð, verið ringluð og ekki trúað að svona lagað gæti átt sér stað. 

Í skýrslutöku við aðalmeðferð málsins lýsti brotaþoli atvikum á [...] á þann veg   hún hafi  strax farið inn í herbergi sitt á efri hæð hússins, háttað sig og farið beint upp í rúm. Í sjálfstæðri frásögn greindi brotaþoli frá því að ákærði hafi komið á eftir henni og lagst upp í rúm við hliðina á henni, strokið henni ítrekað á lærunum og handleggjum en þá hafi hún verið í nærbuxum einum fata. Þá greindi brotaþoli einnig frá því að ákærði hafi, þar sem hann lá í rúminu aðeins fyrir ofan brotaþola, alltaf verið að lyfta upp höfði hennar til reyna að kyssa hana en hún hafi þá fært höfuðið niður aftur. Meira kvaðst brotaþoli ekki muna. Sérstaklega aðspurð hvort ákærði hafi strokið henni um brjóst og ítrekað litið undir sæng hennar á líkama hennar, sagðist brotaþoli muna eftir því en hins vegar ekki muna eftir að ákærði hafi strokið maga hennar. Brotaþoli greindi frá því að meðan á þessu stóð hafi henni liðið mjög illa, verið flökurt, titrað og fundið til hræðslu enda hafi þetta ekki verið sá maður sem hún þekkti. Móðir hennar hafi verið vakandi á þessum tíma og hún kvaðst hafa heyrt í þeim sem voru heima. Brotaþoli kvaðst hafa sagt ákærða að hún ætlaði að fá sér sígarettu og farið inn í þvottahús á neðri hæðinni og verið hrædd um að hann myndi elta hana. Þegar ákærði var að fara hafi hann sagt við hana, þar sem þau voru í forstofunni „sorry ég hleypti þér inn á alltof stórt leyndarmál“. Brotaþoli kvaðst ekki vita hvað hann hafi átt við og ekki vilja vita það. Brotaþoli greindi frá því að hafa sagt bestu vinkonu sinni, E, frá atburðunum, líklega helgina eftir, þegar hún vitnið kom í heimsókn á [...], og einnig hafi hún sagt fósturmóður sinni frá þessu.   

 Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um atvik þau sem lýst er í þriðja tölulið ákæru og ber mikið í milli í framburði þeirra. Ákærði neitar sök og neitaði að hafa farið inn í svefnherbergi brotaþola fyrr en hann kvaddi hana síðari hluta dagsins. Brotaþoli og vitnið G, móðir brotaþola, greindu frá því fyrir dómi að brotaþoli hafi strax farið inn í svefnherbergi sitt til að sofa þegar hún kom með ákærða, sem hafi verið ofurölvi, á [...]. Móðir brotaþola bar fyrir dómi að hafa séð ákærða fara inn í svefnherbergi brotaþola og taldi vitnið að ákærði hafi dvalið þar í um tíu mínútur, en meta verður þann framburð vitnisins með tilliti til tengsla hennar við brotaþola. Brotaþoli lýsti því bæði í skýrslutöku í Barnahúsi og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að ákærði hafi komið inn í svefnherbergi hennar á efri hæð hússins og lagst upp í rúm hjá henni. Á þeim tíma hafi móðir hennar verið vakandi og brotaþoli heyrt í þeim sem voru heima. Með vísan til alls þessa þykir gegn neitun ákærða hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi farið inn í svefnherbergi brotaþola stuttu eftir að þau komu á [...].

 Eins og áður er rakið greindi brotaþoli við aðalmeðferð málsins frá atvikum þegar hún lá í rúmi sínu í meginatriðum með sama hætti og í skýrslutöku í Barnahúsi að því undanskildu að í sjálfstæðri frásögn við aðalmeðferð málsins gat hún þess ekki að ákærði hafi strokið maga hennar og brjóst og ítrekað litið undir sæng hennar á líkama hennar, eins og hún gerði í yfirheyrslu í Barnahúsi. Brotaþoli lýsti slæmri líðan meðan á þessu stóð sem og kveðjuorðum ákærða, „sorry ég hleypti þér inn á alltof stórt leyndarmál“, áður en hann fór heim síðar um daginn. Að mati dómsins rýrir það ekki trúverðugleika framburðar brotaþola í heild þó hún hafi ekki lýst háttsemi ákærða gagnvart henni með nákvæmlega sama hætti í sjálfstæðri frásögn við aðalmeðferð málsins og hún gerði í skýrslutöku í Barnahúsi, þegar haft er í huga að þá voru tæpir sautján mánuðir liðnir frá umræddum atburði. Þá styður framburður vitnisins D um mikla vanlíðan brotaþola og tilfinningalega togstreitu sem brotaþoli glími við í kjölfar atburðarins eindregið framburð brotaþola. Það gerir einnig framburður vitnanna E, vinkonu brotaþola, og F sem báru fyrir dómi um líðan brotaþola þegar hún greindi þeim frá atvikum málsins, E viku eftir umræddan atburð og F í lok júní eða byrjun júlí 2010.

Þegar allt framangreint er virt þykir, gegn neitun ákærða, fram komin sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, að ákærði hafi haft í frammi kynferðislega áreitni gagnvart brotaþola eins og nánar er lýst í þriðja tölulið ákæru. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og á háttsemin undir 2. mgr.  202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem hér tæmir sök gagnvart 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2000.

Ákvörðun refsingar 

Ákærði, sem er 47 ára gamall, var samkvæmt framlögðu sakavottorði dæmdur í sekt og sviptingu ökuréttar árið 2007 fyrir brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga og árið 2008 fyrir brot gegn 45. gr. sömu laga auk þess að hafa ekið án þess að hafa ökuskírteini meðferðis. Á árinu 2009 gekkst ákærði undir sekt vegna aksturs sviptur ökurétti. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði veitti brotaþola, sem þá var ung að árum og tengd ákærða sterkum vinaböndum, áfengi áður en hann braut gegn henni við aðstæður þar sem hún var í reynd undir hans verndarvæng. Einnig er til þess að líta að ákærði sýndi einbeittan brotavilja þegar hann stuttu síðar braut aftur gegn brotaþola inni á heimili hennar. Með brotum sínum brást ákærði gróflega trúnaðarskyldum sínum gagnvart brotaþola og liggur fyrir að vanlíðan hennar er mikil vegna brota hans. Ákærði á sér engar málsbætur. Að öllu þessu virtu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Ekki eru efni til að binda refsingu ákærða skilorði að neinu leyti.

Einkaréttarkrafa

Í málinu liggur fyrir skaðabótakrafa brotaþola, A, að fjárhæð 1.000.000 krónur ásamt kröfu um vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. maí 2010 til 10. mars 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst réttargæslumaður brotaþola hæfilegrar þóknunar sér til handa úr ríkissjóði, sbr. 48. gr. laga nr. 88/2008 og sætti sú krafa ekki andmælum. Í kröfunni segir að ljóst sé að atferli ákærða hafi haft umtalsverð andleg áhrif á brotaþola og raskað lífi hennar og högum verulega. Ákærði, sem sé röskum þrjátíu árum eldri en brotaþoli, hafi beitt yfirburðum sínum vegna aldurs- og þroskamunar gagnvart brotaþola sem hafi ekki sökum ungs aldurs burði til að veita mótspyrnu. Þá hafi ákærði gróflega misnotað það traust sem brotaþoli bar til hans sem náins vinar móður tjónþola og fjölskylduvinur til magra ára. Brotaþoli hafi átt nokkuð erfitt uppdráttar félagslega undanfarin ár og hafi brot ákærða aukið verulega á vanlíðan brotaþola og ekki sé hægt að útiloka að þau kunni að hafa varanlegar afleiðingar í för með sér fyrir hana í framtíðinni. 

Í greinargerð D, uppeldis- og afbrotafræðings, frá 7. desember 2010, kemur fram að sú togstreita sem brotaþoli glími við vegna ákærða valdi henni mikilli vanlíðan sem og þau svik sem hún upplifi en hún hafi borið fullt traust til ákærða. Lífskraftur brotaþola og lífsneisti hafi verið nánast enginn í fyrstu viðtölum og sorg, reiði og vonleysi hafi einkennt daglegt líf brotaþola. Í vitnisburði D fyrir dómi kom fram að greina megi áhrif brots ákærða gegn henni á líðan hennar og tilfinningar þegar hún ræði um atvikin í viðtölum og hún sýni einkenni eins og skömm og sektarkennd eins og þolendur kynferðisbrota geri alla jafna. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið hefur ólögmæt meingerð ákærða gegn persónu brotaþola haft umtalsverð áhrif á hana að mati dómsins. Að því sögðu og þar sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot á brotaþoli rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Þykja bætur A hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Vextir af kröfunni skulu reiknast samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 30. maí 2010 til 22. júlí 2011, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, frá 22. júlí 2011, en þann dag var liðin mánuður frá birtingu bótakröfunnar, til greiðsludags.

Sakarkostnaður 

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Torfa Ragnars Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, sem ákvarðast 439.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærða ber einnig að greiða útlagðan sakarkostnað samkvæmt yfirliti sækjanda, 223.483 krónur. Þóknun réttar­gæslu­manns, Gríms Hergeirssonar héraðsdómslögmanns, að teknu tilliti til vinnu á rannsóknarstigi, sem ákærða ber einnig að greiða, þykir hæfilega ákveðin 276.100 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti og ferðakostnaður 12.480 krónur. Um þóknun réttargæslumanns vísast til 48. gr., 216. gr. og 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  

Af hálfu ákæruvaldsins flutti Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir, aðstoðarsaksóknari, málið.

Ragnheiður Thorlacius, Hjörtur O. Aðalsteinsson og Sigurður G. Gíslason héraðsdómarar kváðu upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tíu mánuði.

Ákærði greiði A 600.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. maí 2010 til 22. júlí 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. sömu laga, frá 22. júlí 2011 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Torfa Ragnars Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, 439.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, útlagðan sakarkostnað, 223.483 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gríms Hergeirssonar, héraðsdómslögmanns 276.100 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti og ferðakostnað 12.480 krónur.