Hæstiréttur íslands

Mál nr. 115/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Eignardómsmál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. apríl 2003.

Nr. 115/2003.

Kristinn Jón Jónsson

(Kjartan Reynir Ólafsson hrl.)

gegn

Snævari Guðmundssyni

(Óttar Örn Petersen hrl.)

 

Kærumál. Eignardómsmál. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem eignardómsmáli, sem K höfðaði og S tók til varna í, var vísað frá dómi. Talið var að ekki hafi verið heimilt að höfða málið sem eignardómsmál, heldur hafi K borið að beina kröfum sínum að S, sem eiganda jarðarinnar M. K, sem ekki naut þinglýsts eignarréttar yfir býlinu V, reisti kröfu sína um eignardóm yfir býlinu á því að slíkur réttur hafi stofnast fyrir hefð, auk þess sem gjafabréf hafi verið gert fyrir landinu. Talið var að krafa K gæti varðað hagsmuni annarra nafngreindra manna, eða þeirra sem leitt gætu rétt frá þeim vegna arfs. K hafi ekki sýnt fram á að nein tormerki væru á að komast að raun um hverjir þeir gætu verið. Brast því skilyrði til að höfða málið sem eignardómsmál og var hinn kærði úrskurður staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. apríl sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 12. mars 2003, þar sem eignardómsmáli, sem sóknaraðili höfðaði og varnaraðili tók til varna í, var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdómara verði hrundið og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta til að afla sér eignardóms fyrir Vonarlandi í Hólmavíkurhreppi, en nýbýli með því heiti mun hafa verið komið á fót á grundvelli leigusamnings 20. apríl 1936, þar sem Jón H. Fjalldal, eigandi jarðarinnar Melgraseyrar, seldi Jens Kristjánssyni á erfðafestu landskika úr henni. Þeim samningi var þinglýst. Jón seldi Guðmundi Magnússyni eignarhluta sinn í Melgraseyri, 10/16 hluta jarðarinnar, með afsali 31. júlí 1955. Þar var í engu getið um fyrrgreinda ráðstöfun lands til Jens Kristjánssonar, en við þinglýsingu afsalsins 30. september 1955 var gerð athugasemd um hana. Þá fékk Guðmundur á leigu 6/16 hluta Melgraseyrar með byggingarbréfi 4. september 1955 frá eigendum þess hluta jarðarinnar, Halldóri Fjalldal og Þorgerði Fjalldal. Samkvæmt skiptayfirlýsingu 27. október 1971 tók sóknaraðili býlið Vonarland að arfi við einkaskipti á dánarbúi Jens Kristjánssonar. Guðmundur Magnússon, Þorgerður Fjalldal og Sigríður Skúladóttir seldu Jarðasjóði ríkisins jörðina Melgraseyri með afsali 21. febrúar 1988, en Sigríður sat í óskiptu búi eftir lát Halldórs Fjalldal. Varnaraðili keypti síðan jörðina af jarðasjóði með afsali 28. ágúst 2001. Í báðum þessum afsölum var tekið fram að eyðibýlið Vonarland væri undanskilið í kaupunum.

Sóknaraðili, sem nýtur ekki þinglýsts eignarréttar yfir býlinu Vonarlandi, reisir kröfu sína um eignardóm á því að slíkur réttur hafi stofnast fyrir hefð, auk þess sem Jón H. Fjalldal hafi gert gjafabréf fyrir landinu til Jens Kristjánssonar, en það hafi glatast. Af því sem að framan er rakið er ljóst að þessi krafa sóknaraðila getur ekki varðað hagsmuni annarra en varnaraðila, verði litið svo á að réttindi leigusala að landi Vonarlands hafi færst í hendur hans með afsölunum fyrir Melgraseyri frá 31. júlí 1955, 21. febrúar 1988 og 28. ágúst 2001, en ella hagsmuni Guðmundar Magnússonar, Sigríðar Skúladóttur og Þorgerðar Fjalldal eða þeirra, sem leitt geta rétt frá þeim vegna arfs. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að nein tormerki séu á að komast að raun um hverjir þeir síðastnefndu gætu verið. Að því athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsenda úrskurðar héraðsdómara brestur skilyrði til að höfða mál þetta sem eignardómsmál. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kristinn Jón Jónsson, greiði varnaraðila, Snævari Guðmundssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 12. mars 2003.

Krafa stefnda um frávísun þessa máls var tekin til úrskurðar 4. febrúar sl.  Það höfðaði Kristinn Jón Jónsson, Brautarholti 13, Ísafirði, með birtingu stefnu í Lögbirtingablaðinu 30. september 2002, gegn hverjum þeim sem kann að telja til réttar yfir jörðinni Vonarlandi, Hólmavíkurhreppi, áður í Naut­eyrar­hreppi, N-Ísafjarðarsýslu.

Snævar Guðmundsson, Melgraseyri, Hólmavíkurhreppi, hefur tekið til varna.

Stefndi krefst þess að málinu verði vísað frá dómi og sér úr­skurðaður málskostnaður úr hendi stefnanda.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið.

I.

Með landsleigubréfi dagsettu 20. apríl 1936 byggði Jón H. Fjalldal Jens Kristjánssyni land úr Melgraseyri.  Þar segir að Jón leigi og láti að erfðafestu til handa Jens land af eignarjörð sinni Melgraseyri, til nýbýlaræktunar. Nýbýlið heiti Vonarland og sé ræktanlegt land 5 hektarar.  Hafi Jens hið leigða til lífstíðar ábúðar og á erfðafestu, enda séu girðingar, byggingar og önnur mannvirki sem hann geri þar hans eign. Kveðið er á um að beitiland sé óskipt fyrir búpening sem hið ræktaða land beri. Þá er kveðið á um að samtals 400 fm. garðstæði til rófna- og kartöfluræktunar á tilteknum stöðum fylgi nýbýlinu, hvort tveggja eftir tilvísun landeigandans á Melgraseyri.  Í bréfinu segir jafnframt að fyrstu 15 árin, frá 1927 að telja, skuli Jens hafa landið leigufrítt, en að þeim tíma liðnum greiði hann árlega eina á loðna og lembda á fardögum til eiganda Melgraseyrar. Jens skuli greiða öll lögboðin gjöld og skatta af nýbýlinu. Að öðru leyti fari samningurinn eftir gildandi nýbýla­löggjöf hvers tíma.

Í kjölfarið sótti Jens um styrk og lán til Nýbýlastjórnar ríkisins.  Í svarbréfi hennar kemur fram að land nýbýlisins sé of lítið og megi ekki vera minna en 10 ha. af ræktanlegu landi og beitiland að auki. Sendi Jens nýja umsókn, sem stefnandi kveður Jón hafa ritað, þar sem kemur fram að nú sé stærð landsins ákveðin allt að 12 hektarar. Samningur Jens og Nýbýlastjórnar ríkisins um stofnun nýbýlisins Vonarlands var svo gerður 17. september 1936. Jens fékk lán frá Nýbýlasjóði og setti Vonarland að veði.  Veðsetningin var afmáð úr veð­málabókum Ísafjarðarsýslu hinn 12. október 1944.

 Í skýrslu vegna stofnkostnaðar Vonarlands, undirritaðri af Jens Kristjáns­syni 5. ágúst 1937, segir að landið sé 10 hektarar að stærð. Árið 1941 fékk Jens leyfi menntamálaráðuneytisins til að taka upp nafnið Vonarland á nýbýlinu.

Hinn 31. júlí 1955 seldi Jón H. Fjalldal hlut sinn í jörðinni Melgraseyri, sem var 10/16 hluti jarðarinnar, til Guðmundar Magnússonar ásamt öllu sem henni tilheyrði. Var rituð eftirfarandi athugasemd á afsalið, „Selt hefir verið á erfðafestu 5 ha. land („Vonarland“) skv. bréfi.“  Á sama tíma voru Guðmundi byggðir 6/16 hlutar jarðarinnar til ábúðar.

 Hinn 27. október 1971 var þinglýst yfirlýsingu skiptaráðandans í Ísafjarðarsýslu dagsettri sama dag. Samkvæmt henni varð fasteign dánarbús Jens Kristjánssonar, Vonarland, Nauteyrarhreppi, eign stefnanda við einkaskipti á dánarbúinu.

Hinn 26. júní 1979 var þinglýst yfirlýsingu þar sem segir að undirrituðum eigendum jarðarinnar Melgraseyrar sé kunnugt um það að Vonarland hafi verið eign Jens Kristjánssonar. Þessi yfirlýsing er aðeins undirrituð af börnum Jóns H. Fjalldal, þeim Þorgerði Fjalldal og Halldóri Fjalldal. Á yfirlýsingunni er gert ráð fyrir undirskriftum Guðmundar Magnússonar og Kristínar Þórðardóttur en þær vantar.

Með afsali útgefnu 21. febrúar 1988 afsöluðu Guðmundur Magnússon, Sigríður Skúladóttir og Þorgerður Jónsdóttir Fjalldal jörðinni Melgraseyri, Naut­eyrarhreppi, N-Ísafjarðarsýslu, til landbúnaðarráðherra, f.h. Jarðasjóðs ríkisins. Við söluna undanskildu seljendur nánar greind fjárhús. Einnig var undanskilið við söluna „...eyðibýlið Vonarland, upphaflega byggt úr landi Melgraseyrar.“

Stefndi Snævar keypti síðan jörðina Melgraseyri af jarðadeild ríkisins 28. ágúst 2001. Var þá tekið fram að undanskilið sölunni væri eyðibýlið Vonarland sem og matshluti nr. 03, fjárhús og var vísað um það til afsalsins frá 21. febrúar 1988. Afsal til Snævars var móttekið til þinglýsingar 24. september 2001 og innfært í þinglýsingabók 26. september 2001. Gerði þinglýsingastjóri tvær athugasemdir, aðra um að engar þinglýstar eigna­skipta­yfirlýsingar né landamerkjalýsingar væri að finna milli Melgraseyrar og Vonarlands og hina um að yfirlýsingu stefnanda um ágreining um landamerki milli Vonarlands og Melgraseyrar, dagsettri 18. september 2001 hafi verið þinglýst þann 19. september s.á.

 Lögmenn stefnanda og stefnda skiptust í framhaldi af þessu á bréfum um eðli eignarhalds stefnanda á Vonarlandi og stærð þess.

II.

Efniskröfur stefnanda í þessu máli eru þær að að honum verði dæmdur eignarréttur að jörðinni Vonarlandi, Hólmavíkurhreppi, allt að 12 hektarar að stærð ásamt beitilandi og öllu því sem þeirri fasteign fylgir og fylgja ber, að engu undan­skildu.

Stefndi Snævar styður frávísunarkröfu sína við það að ekki hafi verið skilyrði fyrir útgáfu eignardómsstefnu þar sem stefnanda hafi mátt vera kunnugt um það að hverjum hann gæti beint kröfu sinni. Í málinu liggi fyrir afsal er sýni að stefndi hafi keypt jörðina Melgraseyri auk þess sem fyrir liggi bréfaskrif milli lögmanna aðila þar sem afstöðu stefnda til krafna stefnanda um afmörkun Vonarlands sé lýst. Í þeim bréfaskrifum hafi einnig komið fram afstaða stefnda til kröfu stefnanda um viðurkenningu á eignarrétti að landinu.  Telur stefndi að ágreiningur aðila standi ekki aðeins um landamerki Vonarlands og Melgraseyrar heldur og um viðurkenningu á eignarrétti að Vonarlandi. Að mati stefnda hefði stefnandi átt að beina kröfu um viðurkenningu eignarréttarins að honum.

Stefndi tekur einnig fram að í stefnu sé á engan hátt gerð grein fyrir mörkum þess landsvæðis sem krafist er eignardóms um. Í stefnu vanti rökstuðning fyrir kröfugerð stefnanda og ekki sé gerð grein fyrir hvers vegna málið sé höfðað sem eignardómsmál eða gerð grein fyrir hver sé nauðsyn þess að það sé rekið sem eignardómsmál samkvæmt XVIII. kafla laga nr. 91/1991. Í stefnu sé aðeins að finna lýsingu á málsatvikum og öðrum atvikum frá sjónarhóli stefnanda en engin grein sé gerð fyrir þeim málsástæðum sem hann byggi kröfur sínar á. Séu skilyrði einkamálalaga um skýran og ljósan málatilbúnað ekki uppfyllt og beri af þeim sökum að vísa málinu frá dómi, með skírskotun til d- og e- liða 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.

III.

Ekki er deilt um í málinu að stefnandi hafi erft réttindi Jens Kristjánssonar að nýbýlinu Vonarlandi.  Af málavaxtalýsingu stefnanda og vísunar hans til meginreglna samningaréttarins um yfirfærslu og stofnun eignarréttinda fyrir bind­andi samning verður ráðið að hann telur að Jón H. Fjalldal hafi gefið Jens allt að 12 hektara úr Melgraseyri, en gjafabréfinu hafi aldrei verið þinglýst og ekki sé vitað hvar það sé niður komið.  Þá vísar stefnandi til 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 og laga um skráningu og mat fasteigna.  Verður ráðið af þessu að hann byggir kröfu sína einnig á hefð.  Segir í stefnu að Jens Kristjánsson hafi frá 17. maí 1940 verið talinn eigandi jarðarinnar Vonarlands í fasteignamati og hann hafi greitt öll lögboðin gjöld af eigninni og nýtt að öllu leyti uns hann féll frá 3. maí 1967, en við erfðafall hafi stefnandi tekið við eigninni án þess að nokkur hafi mótmælt lögmæti eignarréttar hans að fasteigninni, uns bréfaskipti lögmanna aðila byrjuðu um haustið 2001. 

Samkvæmt bréfi Bændasamtaka Íslands, dagsettu 2. september 2002, er túnstærð á Vonarlandi 7,0 ha.  Ekki liggur fyrir að landi þess hafi verið skipt út úr landi Melgraseyrar, umfram það sem hefur þurft til ræktunar.

Í 1. mgr. 122. gr. laga nr. 91/1991 segir að sanni maður eða geri sennilegt að hann hafi öðlast réttindi yfir fasteign með samningi eða hefð geti hann leitað eignardóms, sem veiti dómhafa heimild til að ráða yfir og ráðstafa eigninni eins og hann hefði afsalsbréf fyrir henni eða annað viðeigandi skjal.  Samkvæmt 1.-3. mgr. 121. gr., sbr. 2. mgr. 122. gr. sömu laga skal, er dómara er afhent stefna til útgáfu, jafnframt afhenda endurrit af skjalinu eða nákvæma lýsingu á efni þess.  Skal í stefnunni greint frá því sem vitað er um afdrif skjalsins og rökstutt hvernig hlutaðeigandi telji til réttar samkvæmt því.  Skal dómari ekki gefa út stefnu, telji hann skilyrðum fyrir ógildingardómi ekki vera fullnægt, en hann er ekki bundinn af ákvörðun sinni um að gefa hana út, sbr. dóm Hæstaréttar upp kveðinn 17. febrúar 2000 í máli nr. 368/1999.

Afsali frá Jóni H. Fjalldal fyrir hluta í Melgraseyri var þinglýst með athugasemd um að 5 ha. land (Vonarland) hefði verið selt á erfðafestu.  Tekið er fram í síðari afsölum að undanskilið sölu sé „eyðibýlið Vonarland.“  Stefnandi telur að vegna þessa hafi sér ekki verið unnt að beina þessari málsókn að ákveðnum manni, þar sem ljóst sé að stefndi geti ekki talið til réttar yfir Vonarlandi vegna þessa undanskilnaðar.

IV.

Eins og rakið hefur verið hér að framan er ekki um það deilt að stefnandi erfði Vonarland eftir Jens Kristjánsson, en hann og stefnda greinir á um inntak eignarréttar hans og landstærð.  Telur stefnandi að Jón H. Fjalldal hafi gefið Jens Kristjánssyni land úr Melgraseyri, allt að 12 ha. eða að hann hafi eignast það fyrir hefð, en stefndi telur að aldrei hafi stofnast frekari réttur en leiðir af ofangreindu landsleigubréfi um 5 ha. á erfðafestu. 

Þótt tekið sé fram í afsölum að eyðibýlið Vonarland sé undanskilið sölu verður því ekki jafnað til yfirlýsingar afsalsgjafa um stofnun ótakmarkaðs eignarréttar að Vonarlandi eða viðurkenningar á að til slíks réttar hafi verið stofnað.  Er nærtækt að skilja þessa undantekningu í þá veru að með henni sé vakin athygli afsalshafa á tilvist Vonarlands og réttindum sem tilheyra því.  Deilt er um inntak þeirra réttinda og verður að fallast á að stefndi, sem eigandi Melgraseyrar eigi þar hagsmuna að gæta.  Hefur ekki verið sýnt fram á að aðrir en eigendur Melgraseyrar og Vonarlands eigi hugsanlega aðild að dómsmáli til úrlausnar ágreiningi um stærð og afmörkun lands sem var á sínum tíma ráðstafað til Jens Kristjánssonar úr landi Melgraseyrar til stofnunar nýbýlis og hvort Jens og stefnandi sem  réttartaki hans hafi þá eða síðar öðlast beinan eignarrétt að því með gjöf eða fyrir hefð.

 Að þessu athuguðu verður að fallast á það með stefnda að ekki hafi verið heimilt að höfða þetta mál sem eignardómsmál, heldur hafi stefnanda borið að beina kröfum sínum að stefnda, sem eiganda Melgraseyrar.  Með skírskotun til þessa verður fallist á kröfu stefnda um frávísun málsins.  Kemur þá ekki sér­staklega til athugunar hvort skilyrði d- og e- liða 1. mgr 80. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber eftir þessum málsúrslitum að gera stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst 200.000 krónur.

Úrskurð þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Uppkvaðning úrskurðarins dróst umfram þann tíma sem kveðið er á um í 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.  Lögmenn aðila hafa lýst því skriflega yfir að þeir telji óþarft að flytja það á ný og er dómari sammála því.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Kristinn Jón Jónsson, greiði stefnda, Snævari Guðmundssyni, 200.000 krónur í málskostnað.