Hæstiréttur íslands

Mál nr. 1/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


Föstudaginn 18. febrúar 2011.

Nr. 1/2011.

Þorsteinn Helgi Ingason

(Lúðvík Bergvinsson hdl.)

gegn

Arion banka hf.

(enginn)

Kaupþingi banka hf.

(enginn)

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

Eglu hf.

(enginn)

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(enginn)

Eignarhaldsfélaginu

Samvinnutryggingum svf. og

(enginn)

Stöfum lífeyrissjóði

(enginn)

Kærumál. Vitni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni Þ um að fá að leiða sextán nafngreind vitni í máli á grundvelli 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til öflunar sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað. Talið var að tilgangurinn með vitnaleiðslunni væri ekki sá að varpa ljósi á þau atvik sem Þ taldi grundvöll skaðabótakröfu sinnar og þótti Þ því ekki hafa lögvarða hagsmuni af því að hún færi fram. Var hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. janúar 2011. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að fá að afla sönnunargagna fyrir dómi án þess að mál hafi verið höfðað með því að leiða sextán nafngreind vitni til skýrslugjafar. Kæruheimild er í f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimilað að leiða þessi vitni fyrir dóm. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn íslenska ríkið krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2010.

Með beiðni, móttekinni í héraðsdómi Reykjavíkur 7. september sl., óskaði Þorsteinn Ingason þess að Héraðsdómur Reykjavíkur heimilaði rekstur vitnamáls samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991. Vitnastefnandi óskaði að fá að leiða 16 einstaklinga sem allir hafi, með beinum hætti, komið að söluferli 45,8 % hlutar Búnaðarbankans árin 2002 og 2003 en þeir voru Ólafur Davíðsson, Baldur Guðlaugs­son, Sævar Þór Sigurgeirsson, Jón Sveinsson, Guðmundur Ólason, Benedikt Árnason, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Finnur Ingólfsson, Ólafur Ólafsson, Margeir Daníelsson, Axel Gíslason, Kristján Loftsson, Kristinn Hallgrímsson, Knútur Þórhallsson, Sigurður Jónsson og Hildur Árnadóttir.

Í beiðni sinni greinir vitnastefnandi frá því að hann hafi í desember 2001 höfðað mál á hendur Búnaðarbanka Íslands hf. þar sem hann hafi krafist skaðabóta að fjárhæð 500 milljónir króna, vegna falsana á víxlum sem hafi leitt til þess að bankinn hafi gengið að eignum hans. Málavextir og málsástæður eru ekki rakin frekar en tekið fram að málið hafi verið fellt niður í janúar 2004 sökum ónógra sönnunargagna. Vitnastefnandi kveðst hafa lagt málið á nýjan leik fyrir héraðsdóm en það hafi jafnan verið fellt niður af fyrrgreindum ástæðum, síðast í október 2008. Skaðabótakrafa hans hafi því aldrei hlotið efnislega meðferð fyrir dómi.

Vitnastefnandi telur, með tilvísun til gagna, að þessi krafa hans á hendur Búnaðarbanka Íslands hf. kunni að hafa haft áhrif á söluverð bankans, þegar íslenska ríkið seldi hann hópi fjárfesta þann 16. janúar 2003. Bendir hann meðal annars á að kaupverð bankans hafi lækkað um rúmar 530 milljónir króna frá samnings­drögum í nóvember 2002 þar til endanlegur samningur var gerður í janúar 2003.

Þar sem vitnastefnandi hafi ekki beinar sönnur fyrir því að krafa hans hafi haft áhrif á endanlegt kaupverð bankans, og þá hversu mikil áhrif, óskar hann eftir að fá að taka vitnaskýrslu af þeim sem komu að sölunni, bæði fyrir hönd kaupenda og seljenda, til þess að inna þá eftir því hvaða meðferð skaðabótakrafa hans hlaut við sölu bankans og hvort og að hve miklu leyti hún hafði áhrif til lækkunar á endanlegu kaupverði bankans.

Fáist staðfest, með vitnisburði þeirra sem óskað er að gefi vitnaskýrslu, að skaða­bótakrafa vitnastefnanda hafi haft þau áhrif að kaupendum bankans hafi verið veittur afsláttur af áður umsömdu kaupverði bankans telur vitnastefnandi að í því gæti falist viðurkenning á réttmæti kröfunnar, einkum hafi hún ekki verið færð inn á afskriftar­reikning bankans eða tilgreind sem möguleg skuld utan efnahags í bókhaldi félagsins eftir sölu hlutar­ins, eins og áður hafði verið gert.

Vitnastefnandi tekur einnig fram að á grundvelli vitnisburðar allra þessara aðila gæti eftir atvikum skapast ástæða fyrir hann til að höfða mál til innheimtu viður­kenndrar kröfu. Þá kunni umbeðnar vitnaskýrslur að leiða í ljós málsatvik og álitaefni sem geti leitt til þess að hann teldi sig eiga kröfu á seljanda, eiganda hluta­bréfanna eða kaupendur hlutarins, svo sem vegna ólögmæts ávinnings kaupenda.

Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991 ber vitnastefnanda í beiðni sinni til héraðs­dóms um öflun sönnunargagna að greina skýrt frá því atviki sem aðili vill leita sönnunar um, hvernig hann vill að það verði gert, hver réttindi eru í húfi og hverja aðra sönnunin varðar að lögum.

Í upphaflegu beiðninni tilgreindi vitnastefnandi ekki hverja aðra þessi gagna­öflun gæti varðað að lögum, það er að segja hver eða hverjir gætu orðið gagnaðilar hans í dómsmáli sem kynni að verða höfðað á grundvelli þeirra sönnunargagna sem kynni að verða aflað í slíku vitnamáli. Með bókun sem var lögð fram 15. október sl. var bætt úr þessu og í henni tilgreindir allir þeir sem vitnastefnandi telur að hann kynni að eiga kröfu á að gagnaöflun lokinni.

Vitnastefndu voru boðaðir til fyrirtöku 10. nóvember sl. Lagði vitnastefndi, Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, fram mótmæli við því að sönnunarfærslan næði fram að ganga og vitnastefndi, íslenska ríkið, bókaði einnig mótmæli. Við fyrirtöku málsins 17. nóvember féll íslenska ríkið frá mótmælum sínum en málið var þá lagt í úrskurð um kröfu vitnastefnda, Samvinnutrygginga, án sérstaks málflutnings.

Vitnastefndi, Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, mótmælir framkominni beiðni einkum með þeim rökum að unnt hefði verið að afla upplýsinga um það, hvort krafa vitnastefnanda á hendur Búnaðarbanka Íslands hf. hefði komið sérstaklega til skoðunar við sölu bankans 2003, með öðrum hætti en vitnaleiðslu fyrir dómi.

Samkvæmt 3. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991 skal dómari meta af sjálfsdáðum hvort skilyrði séu til að fallast á beiðni. Telji hann að svo sé ekki eða rísi ágreiningur um það ber honum að kveða upp úrskurð.

Lagaheimild fyrir öflun sönnunargagna án þess að dómsmál hafi verið höfðað er í XII. kafla laga nr. 91/1991. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 eru heimildir XII. kafla laganna til að afla sönnunargagna án málshöfðunar bundnar við öflun matsgerða dómkvaddra manna, framburðar vitna, skjala og annarra sýnilegra sönnunar­gagna. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að aðila sé með þessum hætti heimilt að leita sönnunar fyrir dómi um atvik sem varða lögvarða hagsmuni hans og geta ráðið niðurstöðu um það hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra.

Sú skaðabótakrafa á hendur Búnaðarbankanum sem vitnastefnandi hyggst færa sönnur fyrir, með umbeðnum vitnaleiðslum, á að hafa stofnast við það að víxlar hafi verið falsaðir. Sú fölsun á að hafa leitt til tjóns fyrir vitnastefnanda, sem hann vill fá bætt. Ekki er getið um hvenær þetta á að hafa gerst en mál var höfðað af þessum sökum í desember 2001 sem, eins og áður greinir, var fellt niður í janúar 2004.

                Vitnastefnandi hefur ekki haldið því fram að vitnin sem hann óskar að leiða þekki þau atvik sem leiddu til þess að hann varð fyrir meintu tjóni. Vitnin eiga að bera um það hvort seljendur bankans, hafi í samningaviðræðum við kaupendur hans, veturinn 2002 – 2003 gert ráð fyrir að meint skaðabótakrafa kynni að falla á bankann, sem aftur hefði haft þau áhrif að bankinn hafi verið seldur við lægra verði en ella.

                Þar sem tilgangurinn með vitnaleiðslunni er ekki sá að varpa ljósi á þau atvik sem vitnastefnandi telur grundvöll skaðabótakröfu sinnar þykir hann ekki hafa lögvarða hagsmuni af því að hún fari fram. Þótt menn kunni að hafa rætt síðar meir um möguleg afdrif kröfunnar í dómsmáli, sem kynni að verða rekið, og hafi hugsanlega látið þær vangaveltur hafa áhrif á gerðir sínar og ákvarðanir færir það ekki neinar sönnur fyrir því að krafan hafi í upphafi stofnast.

Af þessum sökum er það mat dómsins að hafna verði því af sjálfsdáðum, sbr. 3. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991, að fram nái að ganga sú beiðni vitnastefnanda að fá að leiða 16 nafngreinda einstaklinga til að gefa vitnaskýrslu samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Málið var tekið til úrskurðar 17. nóvember sl. og því eru liðnir tveir dagar fram yfir lögboðinn fjögurra vikna frest, skv. 115. gr. laga nr. 91/1991, til að kveða upp úrskurð. Tafir á uppkvaðningu úrskurðar skýrast af mjög miklum önnum dómara. Áréttað er að lögmenn lögðu málið í úrskurð með vísan til málsástæðna og lagaraka í framkomnum gögnum en án sérstaks málflutnings um kröfur vitnastefnda, Eignar­halds­félagsins Samvinnu­trygginga.

Úrskurðarorð:

Hafnað er beiðni vitnastefnanda, Þorsteins Ingasonar, að fá að leiða sem vitni Ólaf Davíðsson, Baldur Guðlaugsson, Sævar Þór Sigurgeirsson, Jón Sveinsson, Guðmund Ólason, Benedikt Árnason, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Finn Ingólfsson, Ólaf Ólafsson, Margeir Daníelsson, Axel Gíslason, Kristján Loftsson, Kristin Hallgrímsson, Knút Þórhallsson, Sigurð Jónsson og Hildi Árnadóttir í máli samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 til öflunar sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað.