Hæstiréttur íslands

Mál nr. 76/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 12

 

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002.

Nr. 76/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grund­velli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 28. febrúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 28. febrúar 2002, klukkan 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að [...].

Rannsókn lögreglu beinist að innflutningi fíkniefna sem varðað getur fangelsis­refsingu samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga. Aðild kærða að hinum meintu brotum er óupplýst en hann hefur neitað að eiga nokkra aðild að þeim. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins þykir vera fyrir hendi rökstuddur grunur um aðild kærða að meintum brotum. Með vísan til þess að rannsókn málsins er skammt á veg komin og að ætla má að kærði muni torvelda hana, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða samseka, verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi, þykja skilyrði a liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála til að beita gæsluvarðhaldi vera fyrir hendi. Þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort ákvæði b liðar sömu lagagreinar geti átt hér við. Ætla verður lögreglunni nokkurn tíma til að vinna að rannsókn málsins og þykir tími gæsluvarðhaldsins hæfilegur eins og hann er í beiðninni. Ber með vísan til þessa að taka til greina kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er.

Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 28. febrúar 2002, klukkan 16:00.