Hæstiréttur íslands

Mál nr. 522/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Unnsteinn Örn Elvarsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann

Reifun

X var gert að sæta farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. júlí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni til „föstudagsins 13. ágúst 2016“ klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann veg sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti farbanni til föstudagsins 12. ágúst 2016 klukkan 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2016

Lögrelgustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gerir þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, fd. [...], skuli sæti farbanni, allt til föstudagsins 13. ágúst 2016, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglustjórinn hafi til rannsóknar meinta nauðgun. Brotaþoli, sem sé 15 ára gömul stúlka, hafi komið í fylgd vina sinna á lögreglustöð um klukkan sex í morgun og tjáð lögreglu að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti. Brotaþoli hafi farið á neyðarmóttöku í framhaldinu ásamt móður sinni og síðan hafi þær komið á lögreglustöð til að leggja fram kæru. Brotaþoli telji brotið hafa átt sér stað að [...] eða [...] og hafi lýst herberginu sem brotið á að hafa átt sér stað í. Lögreglan hafi farið á vettvang og hafi komið í ljós að á [...] til hægri að [...] væri herbergi sem hafi komið saman við lýsingu brotaþola og hafi kærði verið þar sofandi í herberginu. Hafi hann verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð.

            Brotaþoli lýsi atvikum þannig að hún hafi farið að heiman um klukkan 2 – 3 síðastliðna nótt og ætlað að taka strætó til vinkonu sinnar og gista þar. Hún kveðst hafa farið ein niður í bæ og hitt tvo menn við [...], annar þeirra hafi sagst heita X. Hann hafi sagst vera í fríi á Íslandi en að hann byggi í [...] og hafi hann sagt brotaþola að hann væri 22 ára. Brotaþoli kveðst hafa sagt kærða X að hún væri 15 ára. Hann hafi verið að drekka bjór og hafi boðið henni sopa og að koma með sér á skemmtistað til að fá meiri bjór. Þau hafi þrjú farið saman á skemmtistað við hliðina á [...] og að sögn brotaþola hafi kærði gefið henni þrjá bjóra. Brotaþoli kveðst hafa orðið verulega ölvuð og þegar síminn hennar hafi orðið batteríslaus hafi kærði boðið henni heim til sín til að hlaða símann, en hann hafi sagt henni að þau gætu svo farið aftur á skemmtistaðinn. Þau tvö hafi gengið heim til hans en hitt engan á leiðinni að sögn brotaþola. Þegar þangað hafi verið komið hafi brotaþoli sett símann sinn í hleðslu og heyrt þá smell þegar kærði hafi læst herberginu og slökkt ljósið. Hún kveðst hafa verið orðin mjög þreytt og dofin. Að sögn brotaþola hafi kærði sest við hlið hennar í rúminu og byrjað að kyssa hana. Hann hafi farið með hendina inn á hana og komið við brjóst hennar og kynfæri. Þá hafi hann klætt hana úr buxum og nærbuxum og farið sjálfur úr sínum buxum. Hann hafi síðan sett getnaðarlim sinn í leggöng hennar og kveðst hún hafa fundið fyrir sársauka. Hún telji að hann hafi fengið sáðlát en hann hafi ekki notað getnaðarvörn. Brotaþoli kveðst ekki hafa viljað hafa samfarir við kærða. Hún hafi frosið og ekki tekið neinn þátt. Hún segir þau ekki hafa rætt þetta sérstaklega áður að hafa samfarir og að hann hafi ekki spurt hana um vilja hennar.

            Að þessu loknu hafi brotaþoli klætt sig í fötin en ekki fundið nærbuxurnar. Kærði hafi þá fylgt henni þá út og sagt við hana “you can’t tell”. Hann kvaðst ætla að heyra í henni í vikunni og hafi sett símanúmerið sitt í símann hennar. Brotaþoli hafi farið úr íbúðinni og hringt í vinkonu sína sem hafi komið og sótt hana og þau farið strax í kjölfarið til lögreglu.

            Kærði neiti sök. Hann játi að hafa hitt brotaþola í nótt og farið með henni að [...] en hann segir  hana hafa samþykkt að hafa samfarir við hann. Þá kveðst hann ekki hafa vitað að hún væri aðeins 15 ára gömul, heldur hafi talið hana vera á aldrinum 22-25 ára. Hann segist þó ekkert hafa spurt hana um aldur hennar. Hann kveðst eiga barn og barnsmóður hér á landi en að hann sé búsettur í [...]. Hann eigi bókað flug út þann 27. júlí n.k.

            Sé farið fram á að kærði verði úrskurðaður í farbann á grundvelli 100. gr. laga nr. 88/2008.  Sé á því byggt að skilyrði b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Kærði sé undir rökstuddum grun um háttsemi sem varði fangelsisrefsingu. Kærði sé erlendur ríkisborgari og þó hann eigi hér barn og barnsmóður þá hafi hann engin önnur tengsl við landið. Hann sé staddur hér á landi í fríi en sé búsettur og starfandi í [...]. Sæti hann ekki farbanni megi ætla að hann reyni að komast úr landi til að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar. Að mati lögreglu sé brýnt að tryggja nærveru kærða á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir yfirvöldum hér á landi og því nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans sé til lykta leitt.

            Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Um heimild til að úrskurða kærða í  farbann er vísað til b. liðar 1. mgr. 95. gr. sbr. 100 gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með vísan til alls framangreinds og framlagðra gagna málsins sé þess beiðst að krafa lögreglustjóra um farbann nái fram að ganga.

 

Niðurstaða:

         Kærði er undir rökstuddum grum um að hafa gerst sekur um ætlað brot geng 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi ef sök er sönnuð. Um heimild til að úrskurða kærða í  farbann er vísað til b. liðar 1. mgr. 95. gr. sbr. 100 gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Kærði er erlendur ríkisborgari og þó hann eigi hér barn og barnsmóður þá hafi hann engin önnur tengsl við landið. Hann sé staddur hér á landi í fríi en er búsettur og starfandi í [...]. Sæti hann ekki farbanni megi ætla að hann reyni að komast úr landi til að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar. Að mati lögreglu sé brýnt að tryggja nærveru kærða á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir yfirvöldum hér á landi og því nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans sé til lykta leitt. Kærði fellst á farbannið að öðru leyti en því að hann krefst þess að því verði markaður skemmri tími þar sem að það hefur áhrif á starf sitt erlendis. Aðstoðarsaksóknari gerði grein fyrir því að rannsókn málsins sé enn á frumstigi, en farbanni verði aflétt um leið og ekki er lengur þörf á því. Dómari telur að ekki hafi verið færð fram haldbær rök fyrir því að farbanni verði markaður skemmri tími en krafist er.

          Samkvæmt framanrituðu og með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 verður að telja að enn séu uppfyllt skilyrði til þess að banna kærðu brottför af landinu. Er því fallist á kröfu héraðssaksóknara, eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

            Varnaraðili X, fd. [...], skal sæta farbanni, allt til föstudagsins 13. ágúst 2016, kl. 16:00.