Hæstiréttur íslands

Mál nr. 92/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti


                                                         

Þriðjudaginn 8. mars 2011.

Nr. 92/2011.

IceProperties ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Glitni banka hf.

(Hákon Árnason hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu G hf. um að bú I ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. G hf. hafði látið birta áskorun, samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., fyrir I ehf. og tók hún til tveggja lánssamninga sem kröfur G hf. byggðu á. I ehf. sinnti ekki þessari áskorun og var í Hæstarétti fallist á með G hf. að hann gæti reist kröfur sína um gjaldþrotaskipti á búi I ehf. á því að sá síðarnefndi hefði ekki sinnt áskoruninni á þann hátt sem gert væri ráð fyrir í lagaákvæðinu. Var því fallist á kröfu G hf.  um gjaldþrotaskipti á búi I ehf.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem stimpluð er um móttöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. febrúar 2011 og barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 14. febrúar 2011. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2011, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og að varnaraðila verði dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði lét varnaraðili hinn 21. september 2010 birta fyrir sóknaraðila áskorun samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 en ákvæðið kom inn sem nýmæli með lögum nr. 95/2010. Tók áskorunin til beggja lánssamninganna 13. mars og 2. júlí 2008 sem kröfur varnaraðila eru byggðar á og grein er gerð fyrir í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðili sinnti ekki þessari áskorun, hvorki varðandi lánssamninginn 13. mars 2008, sem hann telur sig ekki skuldbundinn til að efna, né samninginn 2. júlí 2008, sem hann þó viðurkennir að hafi inni að halda gilda skuldbindingu sína. Verður því fallist á með varnaraðila að hann geti reist kröfu sína um gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila á því að hann hafi ekki sinnt áskoruninni á þann hátt sem ráð er fyrir gert í lagaákvæðinu. Varnaraðili hefur ekki fært fram sönnur á að önnur ákvæði í 65. gr. laga nr. 21/1991 standi í vegi fyrir kröfu varnaraðila.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og getur því ekki gert kröfu um breytingu á ákvæði úrskurðarins um málskostnað. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, IceProperties ehf., greiði varnaraðila, Glitni banka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2011.

Með beiðni sem barst dóminum 15. október 2010 krafðist sóknaraðili, Glitnir banki hf., kt. 550500-3530, Sóltúni 26, Reykjavík, þess að bú varnaraðila, Iceproperties ehf., kt. 460204-2670, Kringlunni 4, Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrota­skipta.  Við munnlegan málflutning krafðist sóknaraðili einnig málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.  Þá krefst hann málskostnaðar. 

Sóknaraðili lýsir í beiðni sinni tveimur lánasamningum er hann og varnaraðili gerðu 13. mars og 2. júlí 2008.  Fyrri samningurinn var um jafnvirði 4.600.000.000 króna í íslenskum krónum og erlendum myntum.  Skuldina skyldi endurgreiða með einni greiðslu 19. febrúar 2011.  Hún hafi hins vegar verið gjaldfelld 20. september 2010 vegna vanefnda á skyldum varnaraðila samkvæmt lánasamningnum.  Síðari samningurinn hljóðaði um 54.800.000 krónur.  Þá skuld hafi borið að endurgreiða að fullu 1. júlí 2009.  Ekkert hafi verið greitt af skuldunum. 

Sóknaraðili skoraði á varnaraðila að lýsa því yfir að félagið væri fært um að greiða þessar skuldir við sóknaraðila innan skamms tíma.  Áskorun þessi var birt 21. september 2010.  Henni var ekki svarað. 

Sóknaraðili sundurliðar fjárkröfur sínar svo: 

Lánssamningur dags. 2. júlí 2008

Höfuðstóll                                                          Kr.     54.800.000,00

Vextir                                                                   Kr.     12.943.565,00

Dráttarvextir                                                      Kr.     15.265.656,00

Kostnaður                                                           Kr.          1.745,00              

Alls:                                                            Kr.     83.010.966,00

Lánssamningur dags. 13. mars 2008 lánshl. 311779 ISK

Höfuðstóll                                                          Kr.    790.020.117,00

Vextir                                                                   Kr.    340.926.406,00

Samtals:                                                    Kr.  1.130.946.523,00

Lánssamningur dags. 13. mars 2008 lánshl. 311780 JPY

Höfuðstóll                                                          JPY   265.923.842,21

Vextir                                                                   JPY     28.972.957,41

Samtals:                                                    JPY    294.896.799,62

Samtals umreiknað í ISK                        kr.    402.946.988,00

Lánssamningur dags. 13. mars 2008 lánshl. 311781 CHF

Höfuðstóll                                                          CHF     4.455.905,48

Vextir                                                                   CHF       557.056,31

Samtals:                                                    CHF     5.012.961,79

Samtals umreiknað í ISK                        kr.    578.044.624,00

Lánssamningur dags. 13. mars 2008 lánshl. 311781 EUR

Höfuðstóll                                                          EUR     6.766.428,78

Vextir                                                                   EUR     1.079.505,36

Samtals:                                                    EUR     7.845.934,14

Samtals umreiknað í ISK                        kr. 1.204.155.512,00

Lánssamningur dags. 13. mars 2008 lánshl. 312101 CHF

Höfuðstóll                                                          CHF     9.360.698,93

Vextir                                                                   CHF     1.055.002,38

Samtals:                                                    CHF    10.415.701,31

Samtals umreiknað í ISK                        kr. 1.201.034.518,00

Lánssamningur dags. 13. mars 2008 lánshl. 312102 JPY

Höfuðstóll                                                          JPY   557.083.906,46

Vextir                                                                   JPY    55.891.071,43

Samtals:                                                    JPY   612.974.977,89

Samtals umreiknað í ISK                        kr.   837.569.010,00

Lánssamningur dags. 13. mars 2008 lánshl. 312103 EUR

Höfuðstóll                                                          EUR    13.743.955,20

Vextir                                                                   EUR     1.969.781,68

Samtals:                                                    EUR    15.713.736,88

Samtals umreiknað í ISK                        kr.  2.411.587.200,00

      Alls umreiknað í ISK:                                  kr.  7.766.284.375,00

Alls samtals umreiknað í ISK:                         Kr. 7.849.295.341,00

auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001 frá 21. september 2010 til greiðsludags og kostnaðar við gerðina.

Sóknaraðili hefur einnig lagt fram sundurliðun skuldarinnar eins og hann telur að bæri að reikna hana yrði talið að samningur aðila feli í sér ólögmæta gengistryggingu.  Er krafan þá þessi:

Lánssamningur dags. 2. júlí 2008

Höfuðstóll                                                          Kr.      54.800.000,00

Vextir                                                                   Kr.      12.943.565,00

Dráttarvextir                                                      Kr.      15.265.656,00

Kostnaður                                                           Kr.           1.745,00             

Alls:                                                            Kr.      83.010.966,00

Lánssamningur dags. 13. mars 2008

Höfuðstóll                                                          Kr.  4.738.269.495,00

--------------------------------------------------------------------------------------

Alls samtals:                                                       Kr.  4.821.280.461,00

auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001 frá 21. september 2010 til greiðsludags og kostnaðar við gerðina.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 17. gr. laga nr. 95/2010.  Segir hann ekkert benda til þess að varnaraðili sé fær um að standa í skilum við sig nú þegar eða innan skamms.  Þá kveðst hann einnig vísa til 4. tl. 2. mgr. 65. gr. laganna. 

Varnaraðili segir að starfsmenn sóknaraðila hafi á fyrra hluta árs 2008 reynt að selja sér hlutabréf í sóknaraðila.  Þeir hafi kallað forsvarmann varnaraðila á fund í höfuðstöðvum sóknaraðila og kynnt starfsemina og að félagið væri góður fjárfestingarkostur.  Hafi þeir haft góð orð um afkomuna og sagt að bankinn væri eðlilega fjármagnaður og þyrfti að endurfjármagna minna af lánum sínum á næstu 21 mánuði en hinir íslensku bankarnir.  Kveðst varnaraðili hafa treyst þessum upplýsingum um fjárhagsstöðu félagsins.  Hafi hann því ákveðið að fjárfesta í hluta­bréfum, enda hefði sóknaraðili verið reiðubúinn að lána fé til kaupanna. 

Varnaraðili lýsir nákvæmlega framkvæmd kaupanna, sem hann telur sýna ótvírætt að bankanum hafi verið mikið í mun að ná samningum.  Hafi tilboð verið sent skömmu fyrir miðnætti og Verðbréfaþingi tilkynnt um kaupin snemma næsta dag.  Hafi þetta verið einn liður í þeirri viðleitni sóknaraðila að halda uppi verði hlutabréfa í bankanum.  Tekur varnaraðili tvö dæmi úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis máli sínu til stuðnings.  Kveðst hann telja að aðilar í bankanum hafi gerst sekir um markaðsmisnotkun.  Hafi yfirvöld enda hafið rannsókn. 

Varnaraðili byggir bæði á því að forsendur hafi brostið fyrir kaupum hans á hlutabréfum, þar sem upplýsingar um stöðu bankans hafi í meginatriðum verið rangar.  Þá hafi viðskipti bankans við sig verið liður í markaðsmisnotkun og samningarnar því ógildir.  Telur hann að rannsókn á markaðsmisnotkun skipti verulegu máli um skuld­bindingargildi lánasamningsins frá 13. mars 2008.  Því beri dóminum að fresta málinu þar til séð verði fyrir enda rannsóknarinnar.  Vísar hann til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. 

Nánar segir varnaraðili um brostnar forsendur fyrir kaupum sínum að lántakan 13. mars 2008 hafi verið bundin því skilyrði af hálfu bankans að féð færi til kaupa á hlut í bankanum.  Þessar forsendur hafi brostið þegar bankinn komst í greiðsluþrot í október 2008.  Kaupin hafi verið byggð á upplýsingum sem bankinn veitti.  Segir varnaraðili að það hafi verið ákvörðunarástæða fyrir kaupunum og tökunni að verðmæti hlutabréfanna héldist.  Þetta hafi bankinn vitað.  Allar upp­lýsingar sem veittar voru hafi verið rangar.  Því sé hann óbundinn af lána­samningnum. 

Varnaraðili segir að sjónarmið sem búi að baki 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti eigi ekki við hér.  Vegna laga nr. 129/2008 hafi sér ekki verið heimilt að höfða mál til að fá viðurkennt að lánasamningurinn frá 13. mars 2008 væri ógildur.  Hann eigi rétt samkvæmt stjórnarskrá til þess að dómstóll taki afstöðu til þess hvort hann sé bundinn af samningnum.  Með því að verjast heimtu sé hann ekki að tefja gjaldþrotaskipti heldur að fá úr því skorið hvort hann skuldi aðila 83.010.966 krónur eða kr. 7.849.295.341.  Hafi hann ítrekað boðist til að leggja fram tryggingar fyrir lægri fjárhæðinni, auk þess sem þriðji maður sé í ábyrgð fyrir henni. 

Varnaraðili telur að vegna óvissu um kröfu sóknaraðila verði hann ekki krafinn um neinar yfirlýsingar um hvort hann geti greitt skuldir sínar. Slíkar yfir­lýsingar séu hrein markleysa áður en fyrir liggi hverjar skuldirnar séu. 

Varnaraðili segir að áskorun sóknaraðila hafi verið birt fyrir Jóni Þórissyni, starfsmanni varnaraðila, í Kringlunni 4, Reykjavík.  Hann hafi hins vegar engan starfsmann sem geti hafa hist fyrir í Kringlunni 4 þann 21. september 2010 kl. 11:29. Vottorðið virðist því vera tilbúningur. 

Í lok greinargerðar sinnar lýsir varnaraðili í örfáum orðum hvað orðið hafi af 54.800.000 króna láni er hann hafi tekið hjá sóknaraðila 2. júlí 2008.  Kveðst hann gera sér grein fyrir því að á honum hvíli þessi skuld,  í það minnsta að nafninu eins og hann orðar það.  Hann hafi ætíð lýst sig fúsan til þess að ganga til uppgjörs á skuldinni gegn því að hann fái lán hjá Íslandsbanka hf., sem tryggt verði með veði í fasteign. 

Niðurstaða

Andmæli varnaraðila varðandi brostnar forsendur og markaðsmisnotkun vegna lánasamningsins frá 13. mars 2008 má orða svo að hann telji að sóknaraðili sé ekki lánardrottinn í skilningi 65. gr. gjaldþrotalaga.  Hann eigi ekki kröfu á hendur sér.  Varnaraðili hefur ekki stutt þessar fullyrðingar sínar nákvæmum gögnum, enda vart forsenda til að fjalla nákvæmlega um mótbárur sem þessar í máli sem rekið er samkvæmt 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991. 

Varnaraðili hefur þó leitt að því talsverðar líkur, einkum með framlagningu dráttar úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að í viðskiptum þeim sem skuld hans er sprottin af, hafi honum ekki verið kynnt allt um hag bankans sem þá var á orði helstu stjórnenda hans.  Þessi atriði skiptu verulegu máli þegar reynt var að meta hvaða verð væri eðlilegt að greiða fyrir hlutabréf í bankanum.  Þegar litið er til þess að varnaraðili hefur vegna ákvæðis 3. mgr. 2. gr. laga nr. 129/2008 ekki heimild til þess að fá með dómi viðurkennt að hann sé ekki skuldbundinn samkvæmt lánasamningnum, verður að telja að sóknaraðili hafi ekki gert nægilega sennilegt að varnaraðili sé skuldbundinn samkvæmt þessum lánasamningi. 

Skuld samkvæmt lánasamningnum frá 2. júlí 2008 viðurkennir varnaraðili.  Hann telur sig hins vegar færan um að greiða hana, enda fái hann lán til þess frá Íslandsbanka.  Þá segir hann í greinargerðinni að þriðji maður sé í ábyrgð fyrir skuld þessari. 

Varðandi fyrra atriðið þá getur þetta ekki hindrað framgang gjaldþrota­skipta.  Skuldin féll í gjalddaga fyrir rúmlega 18 mánuðum og hann svaraði ekki áskorun sóknaraðila um að lýsa sig gjaldfæran. 

Samkvæmt texta lánasamningsins er Sund ehf. í ábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar.  Um fjárhagsstöðu þess félags er ekkert að finna í gögnum málsins.  Þá er ekki einu sinni fullyrt í greinargerð varnaraðila að félag þetta sé fært um að greiða skuldina.  Varnaraðili ber sönnunarbyrði fyrir því að 1. tl. 3. mgr. 65. gre gjaldþrotalaga eigi við.  Getur hann ekki byggt á þessari reglu þar sem hann hefur ekki sannað fullyrðingu sína. 

Áskorun um að félagið yrði lýst gjaldfært var birt fyrir Jóni Þórissyni, sem sagður var starfsmaður varnaraðila, í Kringlunni 4 þriðjudaginn 21. september 2010.  Vottorði stefnuvotts um birtingu þessa hefur ekki verið hnekkt. 

Áskorunin laut að kröfum samkvæmt báðum lánasamningunum.  Varnar­aðili kannast við að skulda tiltekna fjárhæð vegna síðari samningsins.  Bar honum því að svara áskorun sóknaraðila varðandi þá skuld. 

Samkvæmt framansögðu er öllum mótbárum varnaraðila hafnað.  aðili hefur sýnt fram á að skilyrðum 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 17. gr. laga nr. 95/2010, er fullnægt.  Ber því að taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta.  Rétt er að málskostnaður falli niður. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Að kröfu sóknaraðila, Glitnis banka hf., er bú varnaraðila, Iceproperties ehf., kt. 460204-2670, Kringlunni 4, Reykjavík, tekið til gjaldþrotaskipta. 

Málskostnaður fellur niður.