Hæstiréttur íslands
Mál nr. 123/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 24. mars 2009. |
|
Nr. 123/2009. |
Þröstur R. Kristinsson(Tryggvi Þórhallsson hdl.) gegn Ívari Erni Arnarsyni og Helga Einarssyni (Skúli J. Pálmason hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem máli Þ gegn Í og H var vísað frá dómi sökum vanreifunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. mars 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. febrúar 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður að gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Þröstur R. Kristinsson, greiði varnaraðilum, Ívari Erni Arnarsyni og Helga Einarssyni, hvorum fyrir sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. febrúar 2009.
Mál þetta var þingfest 4. júní 2008 og tekið til dóms 29. janúar sl. Stefnandi er Þröstur R. Kristinsson, kt. 220663-3889, Dofrakór 5, Kópavogi, en stefndu eru Ívar Örn Arnarson, kt. 130963-6929, Björtusölum 8, Kópavogi, og Helgi Einarsson, kt. 190460-5849, Leirubakka 24, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.096.324 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 23. júlí 2007 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.
Stefndu krefjast aðallega sýknu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað. Til vara krefjast stefndu þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
I.
Stefnandi lýsir málsatvikum svo að skuld stefndu sé vegna samnings um birgðafjármögnun sem gerður hafi verið 24. nóvember 2004 milli Stúdíóbíla ehf. og Glitnis Fjármögnunar hf. (eftirleiðis Glitnir). Undir samninginn hafi ritað stefndi Ívar Örn Arnarson, f.h. Stúdíóbíla ehf., en báðir stefndu hafi ritað undir samninginn sem ábyrgðaraðilar og tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu höfuðstóls, vaxta og kostnaðar. Rekstur Stúdíóbíla ehf. hafi ekki gengið að óskum og félagið hætt starfsemi sumarið 2007. Stefnandi hafi verið einn af forsvarsmönnum fyrirtækisins og hafi þá komið í hans hlut að gera upp margvíslegar skuldbindingar þess. Stefnandi hafi lagt út verulegar fjárhæðir til lánardrottna fyrirtækisins og tekið á sig persónulegar skuldbindingar vegna þess. Þær skuldbindingar séu mörgum sinnum hærri en sú ábyrgð sem stefndu hafi tekið að sér í málinu.
Þegar Stúdíóbílar ehf. hafi hætt starfsemi hafi umræddur lánasamningur við Glitni staðið í 999.006 krónum auk höfuðstóls og vaxta. Auk þess hafi fallið til innheimtukostnaður að fjárhæð 104.317 krónur. Stefnandi hafi leyst til sín kröfuna á grundvelli framsals og hafi krafan þá staðið í 1.096.324 krónum sem sé stefnufjárhæð máls þessa. Stefnandi hafi síðan beint greiðsluáskorun til stefndu án árangurs.
Stefnandi byggir kröfur sínar á þeirri almennu reglu samninga- og kröfuréttar að gerða samninga beri að halda. Varðandi dráttarvaxtakröfu vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 og varðandi málskostnað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
II.
Stefndu lýsa málavöxtum svo að stefndi Ívar Örn hafi verið kunningi stefnanda frá gamalli tíð. Þau kynni hafi endurnýjast er stefndi hafi flutt í næsta hús við stefnanda í Kópavogi í byrjun þessarar aldar. Um líkt leyti hafi stefnandi sett á stofn einkahlutafélagið Stúdíóbíla ehf. sem hafi verið reist á rústum fyrirtækisins Bílastúdíó ehf. Hin endurnýjuðu kynni hafi orðið til þess að stefndi Ívar Örn hafi fengið áhuga á að aðstoða stefnanda við rekstur Stúdíóbíla ehf. Samstarfsmaður Ívars Arnar, stefndi Helgi, hafi einnig ákveðið að leggja Stúdíóbílum ehf. lið. Hafi stefndu fallist á stjórnarþátttöku í félaginu og Ívar tekið að sér framkvæmdastjórn í byrjun í því skyni að afla félaginu viðskiptavildar og trausts. Stefndu hafi ekki skráð sig fyrir hlutafé í félaginu en stutt félagið með vinnu við standsetningu á húsnæði sem tekið hafi verið á leigu og með því að gangast í ábyrgðir fyrir félagið. Síðan hafi þeir ætlað að sjá til hverju fram yndi í rekstri félagsins. Fljótlega eftir að samstarfið var hafið hafi þeir fjármagnað innflutning bifreiða með tíu milljóna króna láni sem félagið átti að endurgreiða þeim þegar bifreiðarnar seldust. Þetta hafi ekki gengið eftir heldur hafi þeir aðeins fengið endurgreidda eina og hálfa milljón króna. Við flutning fyrirtækisins úr Hafnarfirði í Garðabæ hafi leigusali í Garðabæ sett það skilyrði að tryggingarvíxill yrði lagður fram til tryggingar skilvísri greiðslu húsaleigu. Þeir hafi gengist undir víxilábyrgð í þessu sambandi að fjárhæð 4.500.000 krónur og í upphafi ársins 2007 hafi víxillinn fallið á þá og þeir greitt hann.
Þegar á árinu 2005 kveða stefnendur að þeir hafi gert sér grein fyrir að réttast væri að losna undan þátttöku í félaginu. Gerð hafi verið tilraun til að fá aðra til liðs við félagið og nokkrir sýnt því áhuga. Þær tilraunir hafi þó strandað á því að nýir eigendur hafi ekki verið fúsir til að greiða skuld félagsins við stefndu og taka ábyrgð á birgðafjármögnunarsamningnum sem mál stefnanda er reist á. Í ársbyrjun 2006 hafi Friðbjörn Friðbjarnarson og Michele Muoio komið að rekstri félagsins. Þeir hafi lagt einhverja fjármuni í félagið án þess að það kæmi stefndu til góða. Til hafi staðið að þeir losuðu stefndu undan framangreindum ábyrgðum vegna birgðafjármögnunar en það hafi ekki gengið eftir. Með tilkomu þeirra hafi stefndu ákveðið að nota tækifærið og hverfa úr aðalstjórn félagsins. Stefnandi varð nú formlega framkvæmastjóri félagsins enda hafi hann alla tíð gegnt því hlutverki í raun og verið sá sem sá um rekstur þess. Undir árslok 2006 hafi stefndu farið að hafa verulegar áhyggjur af rekstri félagsins. Þeir hafi sérstaklega haft áhyggjur af stöðu sinni sem ábyrgðarmenn á birgðafjármögnunarsamningi Stúdíóbíla ehf. við Glitni.
Þann 30. apríl 2007 hafi stefndu fengið tölvupóst frá Herdísi Stefánsdóttur, starfsmanni Glitnis, þar sem fram hafi komið m.a. að þrír bílar væru í fjármögnun hjá félaginu og einnig væri eldri skuld vegna vaxta og umsýslukostnaðar að fjárhæð 645.094 krónur. Í tölvubréfi frá Herdísi 7. júní 2007 hafi hún bent stefndu á að þeir þyrftu að segja ábyrgð sinni upp formlega ef þeir vildu fella hana niður. Í tölvubréfi 7. júní 2007 frá Herdísi hafi m.a. komið fram að stefnandi hafi komið á hennar fund í síðustu viku og hún hafi ítrekað við hann að fleiri tækjum yrði ekki afsalað fyrr en vanskil hefðu verið greidd upp. Stefndu sögðu upp ábyrgð sinni með tölvubréfi 13. september 2007 og þann 19. október 2007 sendi Herdís stefndu yfirlýsingu um að ábyrgð þeirra vegna birgðafjármögnunarsamningsins frá 24. nóvember 2004 væri fallin niður.
Stefndu segja að Stúdíóbílar ehf. hafi verið úrskurðaðir gjaldþrota 18. október 2007 eða degi áður en Herdís lýsti stefndu formlega úr ábyrgð. Stefndu segja að þeir hafi talið sig lausa allra mála gagnvart Stúdíóbílum ehf. og Glitni. Glitnir hafi lýst kröfu í þrotabú Stúdíóbíla ehf. að fjárhæð 1.112.326 krónur.
Svo hafi það gerst 31. mars 2008 að stefndu hafi borist innheimtubréf frá lögmanni stefnanda og þeir krafðir um greiðslu að fjárhæð 1.414.312 krónur. Við eftirgrennslan hafi stefndu komist að því að stefnandi hafði greitt skuld Stúdíóbíla ehf. við Glitni og fengið kröfuna framselda á hendur stefndu. Þá leiddi könnun stefndu einnig til þess að þrjár bifreiðar, sem hafi verið til fjármögnunar hjá Glitni, höfðu verið seldar um svipað leyti. Þeir hafi hins vegar ekki fengið frekari upplýsingar um sölu þessara bifreiða.
Stefndu byggja kröfur sínar á hendur stefnanda á þeirri meginreglu að mótbárur glatist ekki við framsal kröfu nema um viðskiptabréf sé að ræða en sú sé ekki raunin í tilviki stefnanda. Stefnandi verði því að hlíta því að byggt sé á málsástæðum sem varði Glitni án þess að félaginu sé stefnt til meðalgöngu, enda leiði stefnandi rétt sinn beint frá Glitni.
Stefndu telja kröfu stefnanda bæði óskýra og torráðna. Fram komi að skuld Stúdíóbíla ehf. hafi numið 645.094 krónum hinn 30. apríl 2007 samkvæmt sex framlögðum reikningum. Samkvæmt öðrum gögnum nemi skuldin 879.437 krónum hinn 7. júní sama ár en þá hafi tveir reikningar bæst við. Á þriðju kvittun sé höfuðstóll tilgreindur 913.083 krónur. Á einu yfirliti nemi dráttarvextir 76.474 krónum fyrir 46 daga. Þar virðist vaxtafótur vera nálægt 66% ársvöxtum eða nær þreföldum hámarksvöxtum sem Seðlabanki Íslands heimili. Þá sé engin skýring gefin á því hvernig stefnufjárhæð sé fundin. Í málavaxtalýsingu í stefnu vísi stefnandi til þess að hann hafi lagt út verulegar fjárhæðir til lánardrottna Stúdíóbíla ehf. og tekið á sig persónulegar skuldbindingar. Þetta virðist réttlæta málshöfðun stefnanda á hendur stefndu. Ekkert liggi hins vegar fyrir um þessi meintu fjárútlát stefnanda.
Sýknukrafa stefndu er byggð á því að þeir hafi undirgengist ábyrgð gagnvart Glitni í þeim eina tilgangi að gera Stúdíóbílum ehf. kleift að fjármagna bifreiðainnflutning sem hafi verið meginmarkmið félagsins. Fyrir liggi að Glitnir hafi haft í vörslum sínum þrjár bifreiðar sem félagið hafi fjármagnað kaup á. Stefndu hafi fengið vilyrði eins starfsmanns Glitnis fyrir því að Stúdíóbílar ehf. myndu ekki fá þessar bifreiðar afhentar fyrr en vanskil hefðu verið greidd upp. Andvirði bifreiðanna hafi átt að ganga inn á reikning Stúdíóbíla ehf. en stefnandi einn geti upplýst um þessi grundvallaratriði, þ.e. um söluverð og hagnað af sölu bifreiðanna.
Samkvæmt viðurkenndum laga- og siðferðissjónarmiðum beri báðum aðilum viðskiptasambands að sýna gagnaðila sínum tillitssemi og nærgætni og gæta þess að valda ekki óþarfa tjóni. Þessa grundvallarreglu hafi starfsmenn Glitnis brotið.
Þá beri að líta til þess að stefnandi hafi verið framkvæmdastjóri Stúdíóbíla ehf. og hafi honum verið ljóst að hverju stefndi í rekstri félagsins. Ekkert liggi fyrir í málinu um hvert andvirði bifreiðanna þriggja hafi runnið. Af bréfi skiptaráðanda í þrotabúi félagsins megi ráða að félagið hafi ekki notið góðs af sölu bifreiðanna. Stefnandi hafi verið kaupandi að einni þessara bifreiða. Allar upplýsingar skorti í málinu um hvernig samningi hans um kaup á þessari bifreið hafi verið háttað.
Stefndu hafi aðeins gengið í ábyrgð fyrir fjármögnun sem hafi átt að vera beintengd við kaup og innflutning bifreiða. Af gögnum málsins megi hins vegar ætla að gjaldfærðar hafi verið ýmsar fjárhæðir sem í eðli sínu séu ekki tengdar bifreiðakaupum á nokkurn hátt. Stefndu hafi ekki gengið í ábyrgð fyrir ótilgreindum rekstrarkostnaði Stúdíóbíla ehf. eins og reikningar gefi til kynna. Því sé sú krafa réttmæt að stefnandi upplýsi nákvæmlega um hvaða útgjöld það hafi verið sem hann hafi greitt Glitni.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu er á því byggt að lækka beri kröfur stefnanda. Ljóst sé að hluti af kröfum hans falli utan ábyrgðar stefndu. Þá er þess krafist að dráttarvexti byrji ekki að falla á tiltekna fjárhæð fyrr en við dómsuppsögu málsins. Í því sambandi vísa stefndu til 3. tl. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Stefndu hafi ekki haft hugmynd um að stefnandi hefði fengið kröfuna framselda á hendur þeim fyrr en bréf barst frá lögmanni stefnanda í aprílbyrjun 2008. Það sé því sanngjarnt að dráttarvextir reiknist fyrst frá dómsuppsögu, sbr. 7. gr. laga nr. 38/2001.
Til stuðnings málskostnaðarkröfu vísa stefndu til 129. og 130. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.
III.
Stefndu komu að rekstri fyrirtækisins Stúdíóbíla ehf. sem flutti inn bifreiðar og seldi. Stefnandi var aðaleigandi fyrirtækisins og framkvæmdastjóri þess í lokin, allt uns félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 18. október 2008.
Stúdíóbílar ehf. gerðu samning um bifreiðafjármögnun við Glitni sem fólst í því að bankinn fjármagnaði birgðir af nýjum og notuðum bifreiðum. Fjármögnunin var í formi veltureiknings þar sem allar skuldfærslur útborgana, endurgreiðslur, vextir og önnur gjöld voru færð. Staða veltureiknings skyldi vera skilgreind sem staða heildarláns. Í 4., 5. og 6. gr. samnings er fyrirkomulag fjármögnunarferilsins lýst. Það var í megindráttum á þá leið að Glitnir varð eigandi bifreiðar frá fyrstu fjármögnunargreiðslu og þar til hún er seld þriðja aðila. Sama gilti um uppítökubíla. Þeir skyldu strax við móttöku þeirra skráðir á nafn Glitnis. Þegar bifreið seldist gekk andvirði hennar til Glitnis gegn afhendingu allra nauðsynlegra skjala til eignayfirfærslu til nýs eiganda. Þannig átti endurgreiðsla fjármögnunar Glitnis ávallt að vera tryggð.
Stefndu tókust á hendur sjálfskuldarábyrgð á ofangreindum birgðafjármögnunarsamningi og var ábyrgð þeirra bundin við höfuðstól, vexti og kostnað. Stefndu hættu afskiptum af fyrirtækinu fyrrihluta árs 2006 en reyndu þó að fylgjast með rekstrinum eins og þeim var kostur vegna sjálfsskuldarábyrgðar sinnar.
Fram hefur komið í málinu að í lok samningssambands Stúdíóbíla ehf. og Glitnis stóðu eftir þrjár bifreiðar sem tilheyrðu umræddum birgðafjármögnunarsamningi. Bifreiðarnar voru Jeep Grand Cherokee árg. 2006, Dodge Dakota árg. 2006 og Chrysler 300c Sedan árg. 2006. Samningssambandi Stúdíóbíla ehf. og Glitnis lauk með því að framkvæmdastjóri Stúdíóbíla ehf., stefnandi málsins, leysti ofangreindar þrjár bifreiðar út. Til þess að gera það þurfti hann að greiða upp fjármögnunarsamninginn við Glitni og jafnframt áfallna skuld samkvæmt veltureikningi sem stefnandi segir að hafi verið uppsafnaðir vextir. Þessi skuld er stefnukrafa málsins.
Endurgreiðslukrafa stefnanda byggist væntanlega á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna reksturs Stúdíóbíla ehf. og að stefndu beri að deila því tjóni með honum. Um kröfu stefnanda eiga ekki við reglur um viðskiptabréf og glatast því ekki mótbárur við framsal á kröfu stefnanda. Stefndu koma því að vörnum er lúta að þátttöku þeirra í rekstri félagsins, sérstaklega endursölu þeirra bifreiða sem leystar voru út í lokin.
Í skýrslu aðila fyrir dómi greindi þá mjög á um málavexti. Stefnandi kvaðst hafa orðið fyrir margvíslegu tjóni en engin gögn hafa verið lögð fram um það í málinu þrátt fyrir áskoranir stefndu í greinargerð. Stefndu geta um sitt tjón í greinargerð sinni og hefur þeirri staðhæfingu þeirra ekki verið mótmælt af hálfu stefnanda. Stefnandi sagði þó í skýrslu sinni fyrir dómi að hans tjón hafi orðið meira en tjón stefndu. Þá sagði stefnandi að stefndu hefðu tekið bíla út úr fyrirtækinu án þess að greiða fyrir en því var harðlega mótmælt af hálfu stefndu. Stefndu hafa skorað á stefnanda að leggja fram yfirlit um endursöluverð bifreiðanna þriggja sem stefnandi leysti út í lok samningssambands Stúdíóbíla ehf. og Glitnis. Þrátt fyrir áskorun í greinargerð hefur stefnandi ekki lagt fram þessi gögn en stefndu segjast hafa upplýsingar um að umræddar bifreiðar hafi verið seldar með verulegum hagnaði. Þá hafa stefndu gert athugasemdir við fjárhæð stefnukröfunnar og bent á misvísandi útreikninga á henni samkvæmt framlögðum skjölum. Þeir telja ekki loku fyrir það skotið að stefnukrafa samanstandi ekki einungis af vöxtum, eins og stefnandi heldur fram. Af stefnanda hálfu hefur ekki verið brugðist við þessum athugasemdum þrátt fyrir áskoranir stefndu um að stefnandi upplýsi ofangreint með sundurliðun kröfunnar.
Að virtu öllu því, sem að framan greinir, eru slíkir brestir á reifun málsins af stefnanda hálfu að ófært er að leggja á það efnisdóm. Verður af þessum ástæðum að vísa málinu frá dómi.
Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Þröstur R. Kristinsson, greiði stefndu, Ívari Erni Arnarsyni og Helga Einarssyni, 200.000 krónur í málskostnað.