Hæstiréttur íslands
Mál nr. 495/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Þriðjudaginn 4. janúar 2000. |
|
Nr. 495/1999. |
M (Brynjar Níelsson hrl.) gegn K (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Kærður var úrskurður héraðsdómara um málskostnað í máli, sem K höfðaði gegn M, þar sem hún krafðist forsjár barns þeirra. Náðist sátt í málinu þess efnis að K skyldi fara með forsjá barnsins, en M hefði rúman umgengnisrétt. Talið var að með hliðsjón af ákvæðum 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri rétt að hvor aðili bæri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar:
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 1999, þar sem kveðið var á um málskostnað í máli varnaraðila gegn sóknaraðila, sem var að öðru leyti lokið með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði, en til vara að málskostnaður verði felldur niður. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.
Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdómara höfðaði varnaraðili málið í því skyni að fá forsjá barns hennar og sóknaraðila, en áður höfðu málsaðilar árangurslaust reynt að ná samkomulagi um forsjána og umgengni við barnið. Þegar málið átti að koma til aðalmeðferðar fyrir héraðsdómi var því lokið með sátt.
Þótt niðurstaða málsins samkvæmt dómsátt aðilanna hafi orðið sú að krafa varnaraðila um forsjá hafi verið tekin til greina, var um leið ákveðið að sóknaraðili hefði ríflega umgengni við barn þeirra. Í þessu ljósi og með hliðsjón af ákvæðum 130. gr. laga nr. 91/1991 er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði, svo og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hvor aðili skal bera sinn kostnað af málinu fyrir héraðsdómi.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 1999.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um málskostnaðarkröfu stefnda fyrr í dag, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af K, [...], með stefnu birtri 25. júní 1998 á hendur M, [...].
Dómkröfur stefnanda eru þær, að henni verði einni falin forsjá sonar hennar og stefnda, B, [...]. Þá er krafizt málskostnaðar úr hendi stefnda, að viðbættum virðisaukaskatti, 24,5%.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Jafnframt er gerð sú krafa, að stefnda verði með dómi falin óskipt forsjá barnsins, B, og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu, ásamt virðisaukaskatti, 24,5%.
Í þinghaldi fyrr í dag varð sátt með aðilum um annað en málskostnað, og var málið tekið til úrskurðar um það atriði.
II.
Forsendur og niðurstaða:
Aðilar deildu í máli þessu um forsjá sonar síns, sem fæddur er árið 1990. Á þeim tíma voru aðilar í óvígðri, óskráðri sambúð, sem hófst í nóvember 1989. Á sambúðartímanum flutti stefndi, vegna vinnu sinnar [...], til Þýzkalands. Í ársbyrjun 1994 flutti stefnandi, út til stefnda. Störfum stefnda í Þýzkalandi lauk í ársbyrjun 1995, og fluttu þau þá aftur til Íslands. Um 9 mánuðum síðar sagði stefndi starfi sínu lausu hjá F og réð sig á ný til starfa í Þýzkalandi og fluttist þangað. Stefnandi kveðst hafa verið því andsnúin, m.a. vegna óvissu um áform stefnda varðandi framtíðardvalarstað og vinnu. Lauk sambúð aðila endanlega vorið 1997.
Sonurinn B hefur búið hjá stefnanda eftir að sambúðinni lauk. Stefndi hefur óskað eftir sameiginlegri forsjá drengsins, en stefnandi kveðst ekki treysta sér til að fallast á það.
Málið var þingfest 30. júní 1998. Undirritaður dómari fékk málið til meðferðar 1. október það ár. Var ítrekað leitað sátta með aðilum og málinu m.a. frestað í þrígang í því skyni. Þá var málinu frestað þrívegis til að stefndi mætti taka ákvörðun um, og ganga frá beiðni um dómkvaðningu matsmann. Undir rekstri málsins sagði lögmaður stefnda sig frá því, og var því m.a. frestað, svo stefndi mætti ráða sér nýjan lögmann til að fara með málið fyrir hann. Í framhaldi af því var dómkvaddur matsmaður að ósk stefnda og var málinu frestað nokkrum sinnum, þar sem matsgerð lá ekki fyrir á tilskildum tíma. Loks var málinu frestað einu sinni til sátta, án þess að matsgerð lægi fyrir. Þá var talið ljóst, að sættir myndu ekki nást, og var málinu fresta til aðalmeðferðar til dagsins í dag. Í því þinghaldi tókust loks sættir með aðilum, að öðru leyti en um málskostnað, svo sem fyrr er greint frá. Samtals hefur málið verið tekið fyrir þrisvar á reglulegu dómþingi og 11 sinnum, eftir að undirritaður dómari fékk það til meðferðar.
Eins og mál þetta er vaxið þykir rétt, að stefndi greiði stefnanda málskostnað, sem ákvarðast, með hliðsjón af umfangi málsins, gangi þess, lyktum og fjölda fyrirtaka, kr. 320.000, og hefur þá jafnframt verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Stefndi, M, greiði stefnanda, K, kr. 320.000 í málskostnað.