Hæstiréttur íslands

Mál nr. 351/2014


Lykilorð

  • Bifreið
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Svipting ökuréttar
  • Ítrekun
  • Fíkniefnalagabrot


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 18. desember 2014.

Nr. 351/2014.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

Gabríel Gíslasyni

(Oddgeir Einarsson hrl.)

Bifreiðir. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Svipting ökuréttar. Ítrekun. Fíkniefnalagabrot.

G var ákærður fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot. Fyrir héraðsdómi neitaði G sök varðandi ætlað brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 og með hinum áfrýjaða dómi var hann sýknaður að þessu leyti, en sakfelldur fyrir önnur brot sem honum voru gefin að sök á grundvelli játningar. Hæstiréttur taldi að virtri dómaframkvæmd réttarins og með því að óumdeilt væri í málinu að tetrahýdrókannabínólsýra hefði greinst í þvagsýni G í kjölfar áðurgreinds aksturs hans hefði G gerst brotlegur við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Sakfelling G fyrir önnur brot sem honum voru gefin að sök samkvæmt ákæru voru ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og stóð óhögguð. Var refsing G ákveðin sekt að fjárhæð 600.000 að viðlagðri vararefsingu og hann sviptur ökurétti í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. maí 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Er þess krafist af hálfu ákæruvaldsins að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd. Þá er þess krafist að ákærði verði sviptur ökurétti.

Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Með ákæru 24. september 2013 var ákærða gefið að sök umferðar- og fíkniefnalagabrot með því að hafa 25. mars 2013 ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti, án öryggisbeltis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og að hafa á sama tíma haft í vörslum sínum, að hluta til í sölu- og dreifingarskyni, tilgreint magn af maríhúana, sem lögreglumenn fundu við leit á ákærða í bíl hans og við húsleit á dvalarstað hans í tilgreindri íbúð. Fyrir héraðsdómi neitaði ákærði sök varðandi ætlað brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 og með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sýknaður að þessu leyti, en sakfelldur fyrir önnur þau brot sem honum voru gefin að sök á grundvelli játningar hans.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi stöðvaði lögregla ákærða við akstur bifreiðarinnar [...] og handtók hann í kjölfarið vegna gruns um refsiverða háttsemi. Samkvæmt gögnum málsins var ákærði síðan færður á lögreglustöð, þar sem teknar voru af honum blóð- og þvagprufur. Samkvæmt matsgerð rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 24. apríl 2014 fannst tetrahýdrókannabínólsýra í þvagsýni ákærða, en tetrahýdrókannabínól var ekki í mælanlegu magni í blóðsýni hans.

Í 1. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga segir að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í 2. mgr. sömu greinar er mælt svo fyrir að mælist ávana- og fíkniefni samkvæmt 1. mgr. í blóði eða þvagi ökumanns teljist hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega. Að virtri dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. til dæmis dóma réttarins 19. júní 2008 í málum nr. 254/2008 og nr. 260/2008, og með því að óumdeilt er í málinu að tetrahýdrókannabínólsýra greindist í þvagsýni ákærða í kjölfar aksturs hans 25. mars 2013 hefur hann gerst brotlegur við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga.

Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir önnur þau brot sem honum voru gefin að sök samkvæmt ákærunni er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og stendur óhögguð. Þá verða staðfest ákvæði hans um upptöku og sakarkostnað.

Að öllu framangreindu virtu verður ákærða gerð sekt að fjárhæð 600.000 krónur og komi 32 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins. Þá hefur ákærði áður gerst sekur um brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga en honum var gerð fésekt og hann sviptur ökurétti í 12 mánuði frá 30. október 2012 samkvæmt sektargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þann dag. Samkvæmt því og með vísan til 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga verður ákærði sviptur ökurétti í tvö ár frá uppsögu dóms að telja.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Gabríel Gíslason, greiði 600.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 32 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá uppkvaðningu dóms þessa að telja.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 267.253 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2014.

                Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 24. september 2013, á hendur:

,,Gabríel Gíslasyni, kt. [...],

[...], [...],

fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 25. mars 2013 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, án öryggisbeltis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í þvagi fannst tetrahýdrókannabínólsýra)  um Þjóðhildarstíg  í Reykjavík til móts við skyndibitastaðinn KFC og að hafa á sama tíma haft í vörslum sínum að hluta til í sölu- og dreifingarskyni 52,51 g af maríhúana, sem lögreglumenn fundu við leit á ákærða, í bíl hans og við húsleit að [...], íbúð [...], [...].

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 71. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.  Krafist er upptöku á 52,51 g af maríhúana, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Jafnframt er krafist upptöku á 2 grammavogum skv. 7. mgr. 5. gr. sömu laga.

Verjandi ákærða krefst sýknu af kröfu um sviptingu ökuréttar en að öðru leyti vægustu refsingar sem lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar stöðvaði lögreglan akstur bifreiðarinnar [...] á þeim tíma sem í ákæru greinir. Tilefni lögregluafskiptanna var að ökumaður var ekki með öryggisbelti spennt. Í skýrslunni er lýst grunsemdum lögreglu um akstur undir áhrifum fíkniefna en ákærði greindi frá því á vettvangi að hann hefði neytt kannabis þremur vikum fyrr.

Tekin var skýrsla af ákærða síðar sama dag og játaði hann þá sök að mestu leyti en var ekki spurður um akstur undir áhrifum fíkniefna enda lá þá ekki fyrir niðurstaða Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi

Ákærði játar sök að öllu leyti utan að hann neitar að hafa verið óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og hann hafi því ekki ekið undir áhrifum fíkniefna. Ákærði kvaðst hafa reykt kannabis um þremur til fjórum vikum fyrir aksturinn. Ekki hefði hvarflað að sér að efnið fyndist svo lengi í þvagi eins og reyndist vera. Hann hefði ekki hugsað um þetta fyrir aksturinn enda ekki hvarflað að sér og hann ekki fundið fyrir neinum líkamlegum áhrifum sem hann gat tengt við neysluna þremur til fjórum vikum áður. Hefði hann vitað þetta hefði hann ekki ekið bifreiðinni í greint sinn. Hann kvaðst því hafa ekið bifreiðinni í góðri trú um að vera hæfur til aksturs hennar.

Meðal gagna málsins er matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsett 24. apríl 2013, þar sem segir að tetrahýdrókannabínólsýra hafi fundist í þvagi ákærða. Tetrahýdrókannabínól hafi ekki verið mælanlegt í blóði ákærða.

A, [...] Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, staðfesti og skýrði matsgerðina fyrir dóminum. Hún kvað niðurstöðuna sýna að ákærði hefði neytt kannabis og mögulegt sé að neyslan hefði átt sér stað þremur vikum fyrr eins og ákærði bar en tetrahýdrókannabínólsýra geti mælst í þvagi einstaklings í tvær til fjórar vikur eftir neyslu kannabis. Hún kvað tetrahýdrókannabínólsýru, sem mældist í þvagi ákærða, vera óvirkt niðurbrotsefni og hafi ekki áhrif á getu einstaklings til að aka bifreið.

Niðurstaða

Ákærði hefur borið um kannabisneyslu sína þremur til fjórum vikum fyrir aksturinn sem um ræðir og hann hafi ekki fundið til neinna líkamlegra áhrifa af neyslunni, svo löngu fyrr, og hann ekki vitað að tetrahýdrókannabínólsýra gæti mælst jafn lengi í þvagi og raun ber vitni.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar var ekkert að aksturslagi ákærða er lögreglan stöðvaði aksturinn.

Vitnið A deildarstjóri lýsti því að tretrahýdrókannabínlólsýra gæti mælst í þvagi í allt að fjórar vikur eftir neyslu kannabis en sýran væri óvirkt niðurbrotsefni sem ekki hefur áhrif á getu einstaklings til að stjórna ökutæki.

Ákærða er með akstrinum gefið að sök brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt 45. gr. a umferðarlaga nægir að efni mælist í þvagi ökumanns til þess að hann teljist vera undir áhrifum fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega.

Ákærði neytti kannabis þremur til fjórum vikum fyrir aksturinn og fann ekki til neinna líkamlegra áhrifa eins og rakið var. Frumskýrsla lögreglu bendir ekki til þess að neitt hafi verið að aksturslagi hans og vitnið A bar að tetrahýdrókannabínólsýra geti mælst í þvagi í allt að fjórar vikur eftir neyslu kannabis en það hafi ekki áhrif á getu einstaklings til að stjórna ökutæki.

Þegar allt þetta er virt er það mat dómsins að ákærði hafi verið í góðri trú um hæfi sitt sem ökumanns, greint sinn, og eru því ekki uppfyllt saknæmisskilyrði 18. gr. almennra hegningarlaga til að unnt sé að refsa ákærða fyrir brot gegn 45. gr. a umferðarlaga og er hann sýknaður á broti gegn þeirri lagagrein og í samræmi við það sýknaður af kröfunni um sviptingu ökuréttar.

Að öðru leyti er sannað, með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi aðra sem í ákæru greinir og eru brot hans þar réttfærð til refsiákvæða.

Refsing ákærða þykir hæfilega ákvörðuð 525.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 28 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Með vísan til 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 eru dæmd upptæk fíkniefni og grammavogir svo sem krafist er.

Ákærði greiði 150.600 króna málsvarnarlaun Elínar Hrefnu Ólafsdóttur héraðsdómslögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði Gabríel Gíslason greiði 525.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 28 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

                Ákærði er sýknaður af kröfunni um sviptingu ökuréttar.

                Upptæk eru dæmd 52,51 g af maríjúana og 2 grammavogir.

                Ákærði greiði 150.600 króna málsvarnarlaun Elínar Hrefnu Ólafsdóttur héraðsdómslögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.