Hæstiréttur íslands
Mál nr. 162/2005
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
- Játningarmál
|
|
Fimmtudaginn 16. júní 2005. |
|
Nr. 162/2005. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn X Y og Z(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) |
Ómerking. Heimvísun. Játningarmál.
Þremur pólskum ríkisborgurum var gefið að sök að hafa verið starfandi án atvinnuleyfis í byggingarvinnu. Voru þeir handteknir að morgni og yfirheyrðir um sakarefnið hjá lögreglu sama dag, ákæra gefin út daginn eftir og hún birt þeim samdægurs fyrir dómi við þingfestingu málsins. Í beinu framhaldi þess voru þeir yfirheyrðir stuttlega um ætluð brot sín. Farið var með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og það því tekið til dóms og kveðinn upp í því dómur. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að ákærðu hefði gefist lítið sem ekkert ráðrúm til að íhuga hvort þeir ættu að ráðfæra sig við verjanda áður en þeir tækju um það ákvörðun hvort þeir myndu halda uppi vörnum. Hefði héraðsdómara verið rétt að beina því til þeirra hvort þeir óskuðu eftir slíkum fresti. Þá varð ekki heldur ráðið af framburði ákærðu fyrir dómi að þeir hafi skýlaust játað sakargiftir og því ekki heimilt að ljúka málinu í samræmi við 125. gr. laga nr. 19/1991. Var héraðsdómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 19. apríl 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærðu, refsing verði staðfest eða hún milduð.
Ákærðu krefjast aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að þeir verði sýknaðir. Til þrautavara krefjast þeir að refsing verði felld niður, en að því frágengnu að ákvörðun hennar verði frestað skilorðsbundið en ella að hún verði milduð.
Í málinu er ákærðu, sem eru pólskir ríkisborgarar, gefið að sök að hafa verið starfandi á nánar tilgreindum tímabilum á árinu 2005 án atvinnuleyfis í byggingarvinnu við nýbyggingu hótels sem verið er að reisa í landi Q. Eru brot þeirra í ákæru talin varða við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. 17. gr. og ákvæði til bráðabirgða sömu laga.
Ákærðu voru handteknir að morgni 22. mars 2005 og færðir til yfirheyrslu hjá lögreglunni á Selfossi. Þeir voru yfirheyrðir um sakargiftir á tímabilinu frá kl. 15.30 til 21.15 sama dag og látnir lausir kl. 22.20. A, sem mun vera að reisa áðurnefnt hótel að Q, var yfirheyrður sama dag. Kvaðst hann hafa haft í hyggju að kynnast ákærðu „og svo ráða þá í vinnu eftir löglegum leiðum.“ Hann hafi ætlað að sækja um atvinnuréttindi fyrir þá. Ákærði Y kvaðst hafa unnið í steypuvinnu fyrir A tveimur dögum áður, en ekki hafi verið samið um laun fyrir þá vinnu. A hafi aumkað sig yfir hann þar sem hann hafi sagt A að hann ætti ekki fyrir flugfarinu heim og A hafi leyft honum að vinna „smávegis til að fá smávegis pening.“ Ákærði X kvaðst í fyrstu hafa unnið létt störf frá því að hann kom til Q um helgina 12.-13. febrúar en frá 15. sama mánaðar hafi hann unnið við byggingarvinnu. A hafi ætlað að greiða fyrir vinnuna með því að greiða flugfarseðil hans til Póllands og aftur til Íslands „þegar [A] væri búinn að afla leyfa fyrir mætta til að hann mætti starfa.“ Ákærði Z kvaðst ekki hafa verið við vinnu á Íslandi heldur einungis dvalist sem ferðamaður í Q. Hann vildi ekki tjá sig um sakargiftir.
Ákæra var gefin út á hendur ákærðu daginn eftir að þeir voru yfirheyrðir hjá lögreglu og þeim birt hún á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands sama dag. Túlkur var viðstaddur þinghaldið. Er ákærðu hafði verið birt ákæran var eftir þeim haft að þeir óskuðu ekki eftir að þeim yrði skipaður verjandi. Í framhaldi þess voru teknar af þeim stuttar skýrslur. Ákærði X kvaðst hafa komið hingað til lands í leit að atvinnu. Hann hafi unnið „smátt og smátt, einn og einn dag“ af því að A hafi viljað sjá „hvernig hann vinnur, hverskonar fagmaður er hann.” Er ákærði var að því spurður hvort hann játi sakargiftir var fært til bókar eftir túlkinum: „Hann sagði að hann getur ekki sagt nei, hann verður að segja já, en bætti svo við að hann hefur sem sagt verið hérna og ætlar að fara svo aftur til Póllands, þá ætlaði A að vinna að atvinnu og dvalarleyfi hans, eftir að hann er búinn að prófa hann hér þennan stutta tíma.“ Á svipaðan veg var framburður ákærðu Y og Z. Við yfirheyrsluna yfir þeim síðastnefnda er meðal annars bókað eftir túlkinum: „ ... en ég veit ekki hvernig á að svara þessu af því að þeir tala þannig að það er [A] sem gerir samninginn, ég held þeir skilji ekki alveg ferlið, hvað fylgir því að fá samning hjá atvinnuveitanda.“
Eins og að framan greinir eru ákærðu pólskir ríkisborgarar. Þeir voru handteknir 22. mars 2005 og yfirheyrðir um sakarefnið hjá lögreglu sama dag, ákæra gefin út daginn eftir og hún birt þeim samdægurs fyrir dómi við þingfestingu málsins. Í beinu framhaldi þess voru þeir yfirheyrðir stuttlega um ætluð brot sín, en ekki verður séð af bókun í þingbók að þeim hafi verið kynnt gögn málsins í þinghaldinu. Að svo búnu var farið með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og fært til bókar: „Sakarflytjendur reifa sjónarmið um ákvörðun refsingar.“ Var málið í framhaldi þess tekið til dóms og kveðinn upp í því dómur.
Ákærðu gafst samkvæmt framansögðu lítið sem ekkert ráðrúm til að íhuga hvort þeir ættu að ráðfæra sig við verjanda áður en þeir tækju um það ákvörðun hvort þeir myndu halda uppi vörnum. Við þessar aðstæður og með hliðsjón af sakarefninu hefði héraðsdómara verið rétt að beina því til ákærðu hvort þeir óskuðu eftir fresti til að taka slíka ákvörðun. Ekki verður séð af bókun í þingbók að svo hafi verið gert. Af framburði ákærðu fyrir dómi verður heldur ekki ráðið að þeir hafi skýlaust játað sakargiftir. Var því ekki heimilt að ljúka málinu í samræmi við 125. gr. laga nr. 19/1991. Verður því samkvæmt framansögðu ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Vegna þessara úrslita málsins verða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti greidd úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði, en fram er komið að enginn annar áfrýjunarkostnaður var af málinu.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, X, Y og Z, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 23. mars 2005.
Mál þetta, sem þingfest var í dag, er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 23. mars 2005, á hendur X, Y og Z.
„fyrir brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga
I. Gegn ákærða [X]
með því að hafa á tímabilinu 12. febrúar 2005 til 22. mars 2005 verið starfandi án atvinnuleyfis í byggingarvinnu við nýbyggingu hótels sem nú er að rísa í landi [Q].
II. Gegn ákærðu [Y] og [Z]
með því að hafa á tímabilinu 15. mars 2005 til 22. mars 2005 verið starfandi án atvinnuleyfis í byggingarvinnu við nýbyggingu hótels sem nú er að rísa í landi [Q].”
Ákæruvaldið telur háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. 17. gr. sömu laga og 2. gr. laga nr. 19/2004, og krefst þess að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Ákærðu komu fyrir dóminn við þingfestingu málsins og játuðu brot sín. Með málið var farið samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærðu hafa gerst sekir um háttsemi þá sem þeim er gefin að sök í ákæru og þannig brotið gegn 3. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr., sbr. 17. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. 2. gr. laga nr. 19/2004. Ákærðu hafa með greindri háttsemi unnið sér til refsingar.
Sakavottorð ákærðu hafa ekki verið lögð fram í málinu.
Refsing hvers ákærðu um sig þykir hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð en fullnustu refsingarinnar skal frestað og skal refsingin niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærðu greiði allan sakarkostnað.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærðu X, Y og Z sæti hver um sig fangelsi í 1 mánuð en fullnustu refsingarinnar skal frestað og skal hún niður falla að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærðu greiði allan sakarkostnað.