Hæstiréttur íslands
Mál nr. 520/2006
Lykilorð
- Þjófnaður
|
|
Fimmtudaginn 22. mars 2007. |
|
Nr. 520/2006. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Þjófnaður.
X var gefið að sök að hafa brotist inn í Skíðaskálann í Hveradölum í félagi við Y og haft þaðan á brott nánar tilgreind verðmæti. X neitaði sakargiftum fyrir dómi og bar við minnisleysi. Sagði hann lögreglu hafa lagt sér orð í munn í skýrslu sem hún tók af honum. Meðákærða Y kom ekki fyrir dóm til skýrslugjafar um aðild X að ætluðu broti þeirra. Lögreglumaðurinn sem tók skýrsluna af X og lögreglumaður sem skráður var vottur að henni voru heldur ekki yfirheyrðir um hvernig skýrslutökunni var háttað, þrátt fyrir að fullt tilefni hefði verið til þess í ljósi framburðar X um gang hennar. Samkvæmt þessu var hvorki talið unnt að byggja í málinu á framburði X né meðákærðu Y fyrir lögreglu. Gegn neitun X var því ekki talið að komin væri fram lögfull sönnun þess að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var að sök gefin og var hann því sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 21. september 2006, í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvaldsins.
Ákærða er gefið að sök að hafa brotist inn í Skíðaskálann í Hveradölum aðfaranótt 12. febrúar 2004 í félagi við Y og haft þaðan á brott verðmæti sem talin eru upp í ákæru og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Lögregla handtók þau við Litlu Kaffistofuna í Ölfusi í bifreið, sem meðákærða mun hafa ekið, skömmu eftir að innbrotið var tilkynnt lögreglu. Ákærðu neituðu bæði við yfirheyrslu lögreglu síðar sama dag að hafa brotist inn í Skíðaskálann og slegið eign sinni á umrædd verðmæti. Ákærði óskaði ekki eftir að honum yrði skipaður verjandi að svo stöddu og var verjandi því ekki viðstaddur yfirheyrsluna yfir honum. Í skýrslunni er bókað eftir ákærða að meðákærða hafi brotist þarna inn og stolið verðmætunum. Hún hafi kallað til hans úr dyragættinni og beðið hann að taka svartan plastpoka og fara með út í bifreiðina og það hafi hann gert. Í pokanum hafi verið matvæli. Ákærði neitaði sakargiftum fyrir dómi og bar við minnisleysi um atburði næturinnar. Hann kvaðst þó fullviss um að hann hefði ekki tekið þátt í þjófnaðinum. Aðspurður um áðurgreindan framburð sinn hjá lögreglu kvaðst hann ekki hafa munað atvik þá og sagði að lögregla hafi lagt honum orð í munn.
Meðákærða mætti fyrir dóm 11. apríl 2006 og neitaði sök og var ekki spurð frekar um sakarefni. Hún kom ekki á ný fyrir dóm áður en málið var dómtekið. Sakflytjendur gerðu ekki athugasemdir við það að hún yrði ekki yfirheyrð um sakargiftir og var því látið við það sitja. Bar hún því ekki fyrir dómi um aðild ákærða að ætluðu broti þeirra. Lögreglumaðurinn sem tók skýrsluna af ákærða 12. febrúar 2004 og lögreglumaður sem skráður er vottur að henni voru heldur ekki yfirheyrðir um hvernig skýrslutökunni var háttað, þrátt fyrir að fullt tilefni hafi verið til þess í ljósi framburðar ákærða um gang hennar. Samkvæmt þessu verður hvorki unnt að byggja í máli þessu á framburði ákærða né meðákærðu fyrir lögreglu. Gegn neitun ákærða er því ekki komin fram lögfull sönnun þess að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er að sök gefin og verður hann því sýknaður, sbr. 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Eftir þessum málsúrslitum verður allur sakarkostnaður málsins lagður á ríkissjóð. Niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð málsvarnarlauna og útlagðan kostnað skipaðs verjanda ákærða verður staðfest. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti verða ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, skal vera sýkn af kröfu ákæruvalds.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun og útlagður kostnaður skipaðs verjanda ákærða í héraði, sem ákveðinn var í héraðsdómi, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 26. júlí 2006.
Mál þetta, sem þingfest var 9. mars sl. og dómtekið 6. júní sl. að lokinni aðalmeðferð, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 21. nóvember 2005, á hendur Y [kennitala] [heimilisfang] og X [kennitala] [heimilisfang].
I.
,,Gegn ákærðu Y
a
fyrir umferðarlagabrot,
með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 12. febrúar 2004, ekið bifreiðinni [...], skráningarnúmer [...] undir slíkum áhrifum slævandi lyfja og örvandi efna að hún var ófær um að stjórna bifreiðinni örugglega, frá Skíðaskálanum í Hveradölum vestur Suðurlandsveg, Ölfusi, að Litlu Kaffistofunni, þar sem lögregla hafði afskipti af akstri ákærðu.
b
fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni,
með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 12. febrúar 2004, haft í vörslu sinni í bifreiðinni IG 872, alls 4,92 grömm af hassi sem fundust í úlpu ákærðu, við leit lögreglu, í framhaldi af handtöku ákærðu vegna þess brots sem lýst er í I. kafla ákæru.
II.
Gegn ákærðu Y og X í sameiningu,
fyrir þjófnað,
með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 12. febrúar 2004 brotist inn í Skíðaskálann í Hveradölum og haft þaðan á brott með sér kr. 2000 í 50. kr. mynt, hitakönnu og ýmis matvæli sbr. munaskrá (433-2004-652), sem fundust í bifreiðinni IG 872 við leit lögreglu.
Ákæruvaldið segir háttsemi ákærðu Y samkvæmt ákærulið I a varða við 2. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 og samkvæmt ákærulið I b varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985 og 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 248/2002.
Ákæruvaldið segir háttsemi ákærðu beggja samkvæmt ákærulið II varða við 1. mgr. 244. gr., sbr. 2. mgr. 70. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákæruvaldið krefst þess að ákærðu bæði verði dæmd til refsingar og að ákærða Y verði jafnframt dæmd til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993.
Verjendur ákærðu beggja krefjast sýknu og að málsvarnarlaun þeirra greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik.
Aðfaranótt fimmtudagsins 12. febrúar 2004 barst lögreglunni á Selfossi tilkynning frá A, eiganda Skíðaskálans í Hveradölum, um að þar væri innbrot í gangi. Lögreglumenn fóru áleiðis á vettvang frá Reykjavík og Selfossi. Lögreglumenn úr Reykjavík mættu bifreiðinni [...], skráningarnúmer [...], við Svínahraun og veittu henni eftirför. Um kl. 06:04 var bifreiðinni gefið stöðvunarmerki og var hún þá um 500 metra vestan við Litlu Kaffistofuna. Þegar bifreiðin var stöðvuð sat ákærða Y undir stýri en ákærði X sat í farþegasæti frammí. Á vettvangi var einnig staddur B, sonur tilkynnanda. Ákærðu voru bæði handtekin og færð á lögreglustöðina á Selfossi. Við leit á ákærðu Y á lögreglustöðinni fannst fjölnota lyfseðill, skráður á nafngreinda konu, box með notuðum sprautum og nálum, 2000 krónur í 50 króna mynt í búnti merkt SPRON og 5 molar af ætluðu hassi. Kl. 07:47 var tekið blóðsýni úr ákærðu Y og kl. 08:40 var tekið þvagsýni úr ákærðu. Síðdegis þann 12. febrúar var gerð leit í bifreiðinni [...] með leyfi ákærðu Y og að henni viðstaddri. Við leitina fannst svartur plastpoki og í honum ýmis matvæli auk hitakönnu.
Framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.
Ákærði X kvaðst, aðspurður um málsatvik, ekki geta lýst þeim þar sem hann hafi verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma. Hann viti þó að þau hafi verið á ferðinni á þessum slóðum og stoppað einhversstaðar. Ákærði X sagðist, aðspurður um hvort hann og ákærða Y hafi ekið útaf í Kömbum, hafa verið mjög ruglaður á þessum tíma og muni varla neitt. Aðspurður um hvort ákærða Y hafi keyrt bílinn úr Ölfusi kvað ákærði X hana hafa keyrt allan tímann. Ákærði X sagðist aðspurður ekki muna af hverju hann og ákærða Y hafi ekið að skíðaskálanum. Aðspurður um ástand ákærðu Y kvað ákærði X hana líklega hafa verið í sama ástandi og hann sjálfur. Nánar spurður sagðist ákærði X ekki geta fellt neinn dóm á það en þau hafi bæði verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma. Aðspurður um hvort hann myndi til þess að ákærða Y hafi neytt fíkniefna eða lyfja þann dag sagði ákærði X að hún hafi örugglega gert það, hann teldi það nokkuð víst, en hann myndi ekki eftir því. Ákærði X sagðist ekki muna hvað gerst hafi þegar þau komu að skíðaskálanum. Ákærða Y hafi brotist inn og hann vitað fyrst af því eftir á. Aðspurður um ummæli í lögregluskýrslu að ákærða Y hafi brotið glugga í skíðaskálanum kvaðst ákærði X halda að hann hafi sagt hvað sem er við skýrslutökuna. Honum hafi verið haldið í sólarhring án svefns og matar. Ákærði kvaðst ekkert muna eftir atburðarásinni. Aðspurður hvort framburður hans í lögregluskýrslunni væri bara bull svaraði X að hann teldi svo vera, allavega í stórum dráttum. Sér hefðu verið lögð orð í munn. Aðspurður sagðist ákærði X ekki muna eftir að við leit í bílnum hafi fundist svartur ruslapoki með matvælum í sem honum hafi verið sýndur. Ákærði X kvaðst ekki muna eftir því að ákærða Y hafi verið skorin á höndum.
Aðspurður um hvort hann teldi sig hafa munað betur þegar lögregluskýrsla var gefin en núna svaraði ákærði X að hann teldi sig ekki hafa munað betur þá en núna. Aðspurður hvort efni skýrslunnar væri steypa svaraði ákærði X að hann gæti ekki annað sagt en það hefði átt að ljúka málinu þarna og hann gæti ekki einu sinni munað hvað hann hafi verið lengi inni. Aðspurður sagðist ákærði X ekkert hafa sofið. Ákærði X neitaði, aðspurður hvort hann teldi einhverjar líkur á að hann hafi lagt á ráðin með að brjótast inn í skíðaskálann, það væri fáránlegt að hann hafi haft nokkuð um það að segja. Aðspurður hvort hann hafi einhvern tíma gert slíkt kvaðst ákærði X hafa átt sín unglingsár en aldrei á fullorðinsaldri. Aðspurður kvað ákærði X engar líkur vera á því að hann hafi aðstoðað ákærðu Y við innbrotið, hann teldi engar líkur á að hann myndi brjótast inn einhvers staðar. Aðspurður um hvort sú frásögn í lögregluskýrslunni að hann hafi hjálpað ákærðu Y með þýfi inn í bíl væri frá honum komin svaraði X að þetta hafi komið frá ákærðu Y og lögreglunni og að hann hafi verið plataður inn í málið. Ákærði X kvaðst, aðspurður um af hverju hann hafi undirritað skýrsluna, hafa viljað koma sér burt, hann hefði gert nokkurn veginn hvað sem er til að koma sér burtu. Ákærði X kvaðst ekki telja neinar líkur á að lögregluskýrslan geymdi rétt atvik, hann teldi engar líkur á að hann myndi fremja jafn fáránlegan glæp.
Ákærði X kvað aðspurður um þau orð í lögregluskýrslu að ákærða Y hafi kallað til hans úr dyrunum að skíðaskálanum og beðið hann að koma, að hann hafi farið að dyrunum og þar fyrir innan hafi verið svartur ruslapoki sem hún hafi beðið hann um að taka og fara með í bílinn, að hann hafi sjálfur sagt að það hafi verið kjöt og önnur matvæli í pokanum og hann hafi sett hann í aftursæti, og hvort þetta væru ekki hans orð og ef ekki, hvaðan þau kæmu, að þetta hlyti að koma frá ákærðu Y eða lögreglunni. Aðspurður um að þetta væri ekki það sem ákærða Y segði sagði ákærði X að hún gæti verið tvísögul. Hann myndi ekki eftir atburðum og teldi útilokað að hann myndi taka þátt í svona fráleitum verknaði. X kvaðst vita að þetta væri skýrslutaka af honum sjálfum. Aðspurður um hvers vegna hann hafi sagt þetta svaraði ákærði X að hann vissi það ekki. Aðspurður um hvort honum hafi dottið þetta í hug á staðnum svaraði ákærði X að hann vissi það ekki. Aðspurður um þau ummæli í lögregluskýrslu að framburður hafi verið greinargóður, málfar skýrt, jafnvægi stöðugt og sjáaldur eðlileg og hvort hann hafi verið í vímu umrætt sinn, kvaðst ákærði X ekki telja lögregluna færa um að úrskurða hvort hann hafi verið í vímu. Nánar aðspurður um hvort þessi ummæli lögregluskýrslunnar væru rétt neitaði ákærði X því og sagði að hann hefði ekki verið að þvælast með ákærðu Y ef hann hefði ekki verið í algjöru ruglástandi.
Aðspurður um hvort hann hafi neytt svipaðra efna og ákærða Y svaraði ákærði X að hann teldi sig hafa neytt sömu efna og hún. Aðspurður um hvort hann hafi, þegar hann gaf skýrsluna, yfirleitt munað eftir einhverjum atburðum sem máli skiptu, þannig að hann álykti að þessi frásögn hefði ekki getað stafað frá honum, svaraði X að svo væri.
Aðspurður um hvort hann hafi á þessum tíma verið lengi í neyslu svaraði ákærði X að hann hafi verið fíkniefnaneytandi nær allt sitt líf. Aðspurður um hvort hann hafi töluvert þol gegn fíkniefnum svaraði ákærði X að svo væri, hann hafi þó, þegar atvik málsins gerðust, verið nýkominn af Vogi og verið vel trappaður niður og án efna í um mánuð. Ákærði X kvaðst aðspurður hafa verið án vímuefna í um tvö ár.
B gaf skýrslu fyrir dómi gegnum síma og sagði svo frá atvikum málsins að kl. 5 aðfaranótt fimmtudagsins 12. febrúar 2004 hafi Securitas hringt í foreldra vitnisins, eigendur skíðaskálans, og sagt að þjófavarnakerfið væri farið af stað í skálanum. Vitnið hafi farið af stað til að kanna málið. Þegar hann kom að skálanum hafi hann farið inn og orðið var við mannaferðir. Hann hafi þá farið aftur út í bíl og hringt í lögregluna.
Aðspurður kvað B bifreiðina hafa verið mannlausa. Aðspurður um hvort matvæli hafi verið tekin sagðist B ekki vita hvort eitthvað hafi verið tekið.
Aðspurður um hvort hann hafi ekið fram hjá bifreiðinni kvaðst B hafa beðið við afleggjarann. B neitaði því að hafa litið inn í bifreiðina, en sagðist hafa séð að hann væri mannlaus. Aðspurður hvort hann hafi stoppað og kíkt eða ekið viðstöðulaust sagði B að hann hafi lagt og gengið að bifreiðinni. Síðan hafi hann farið inn og heyrt læti inni. Þá hafi hann farið aftur inn í bíl og út á afleggjara og hringt í lögregluna. Síðan hafi bifreiðin komið og ekið fram hjá. Hann hafi elt bifreiðina, lögreglan tekið fram úr á leiðinni og stöðvað bifreiðina við Litlu Kaffistofuna. Aðspurður um veðrið kvað B hafa verið myrkur og blautt. Aðspurður kvaðst B hafa gengið vinstra megin fram hjá bílnum.
B sagðist aðspurður ekki hafa séð neitt borið inn í bílinn eða séð neitt til athafna ákærðu.
C, lögregluvarðstjóri á Selfossi, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Vitnið kvaðst aðspurt ráma í atvik málsins. Aðspurður um hver hans aðkoma að málinu hafi verið svaraði C að tilkynnt hafi verið um yfirstandandi innbrot í skíðaskálanum. Hann hafi þá verið staddur inni á lögreglustöð. Í tilkynningunni hafi komið fram að fólkið væri ennþá innandyra í skálanum. Lögreglan hafi farið með forgangi á staðinn. Tilkynnandi hafi beðið við afleggjara eftir bíl fólksins. Lögreglan hafi heyrt gegnum fjarskipti að bíllinn væri farinn af stað áleiðis til Reykjavíkur. Lögreglan frá Reykjavík hafi komið á móti og stöðvað bílinn við Litlu Kaffistofuna og handtekið ökumann og farþega. Hann hafi séð um flutning á ákærðu Y á lögreglustöðina á Selfossi. Lögreglubíll frá Reykjavík hafi flutt farþegann, ákærða X.
Aðspurður um hvort hann gæti lýst því þegar bíllinn var stöðvaður svaraði C að hann hafi ekki verið viðstaddur, lögreglan frá Reykjavík hafi stöðvað bílinn. Lögreglan frá Reykjavík hafi tjáð þeim að ákærða Y hafi ekið og ákærði X hafi verið farþegi. Þau hafi bæði verið vistuð á Selfossi. Við öryggisleit á lögreglustöðinni á ákærðu Y hafi fundist ætlað hass og smámynt, 50 krónu mynt í búnti frá sparisjóði. Aðspurður um ástand ákærðu Y svaraði C að hún hafi verið verulega æst og illviðráðanleg. Lögreglumennirnir hafi orðið að færa hana í handjárn og hún hafi virst undir talsverðum áhrifum fíkniefna. Ekkert hafi verið hægt að ræða við hana og hún hafi látið illum látum í lögreglubílnum og alla leið inn í klefa. Hún hafi barist um og ekki verið hægt að ræða við hana. Aðspurður um viðbrögð ákærðu Y við leit á henni svaraði C að öryggisleit hafi verið framkvæmd í úlpu hennar. Hún hafi verið mjög upptrekt og æst og brugðist illa við öllu sem lögreglan gerði. Aðspurður um hvort ákærða Y hafi verið með hrufl á höndum við handtöku og blætt úr hægri hönd hennar kvaðst C muna eftir þessu, hún hafi verið með sár á hendinni þegar lögreglumennirnir tóku við henni. Sárið hafi litið út fyrir að vera nýtt. Aðspurður um hver reynsla hans væri varðandi vímueinkenni svaraði C að hún væri þó nokkur, hann hafi verið um 10 ár í lögreglunni og verið í þó nokkrum málum sem vörðuðu lyfjaakstur og þó nokkrum fíkniefnamálum. Ákærða Y hafi borið öll einkenni fíkniefnaneyslu, hún hafi verið ör og æst og vaðið úr einu í annað. Aðspurður um ástand X sagðist C hafa ósköp lítil afskipti haft af honum og hann gæti ekki vitnað um ástand hans. X hafi verið við bílinn þegar C kom að og sér hafi virst hann vera í annarlegu ástandi. C staðfesti að hafa ritað frumskýrslu og handtökuskýrslur, sem voru lagðar fyrir hann.
D, lögreglumaður á Selfossi, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Vitnið kvaðst aðspurt muna lítillega eftir atvikum málsins, það væri langt um liðið. Aðspurður um málsatvik sagði D að tilkynnt hafi verið um innbrot í gangi í skíðaskálanum. Lögreglan hafi farið á staðinn. Á leiðinni hafi fólkið farið af vettvangi og lögreglan frá Reykjavík hafi stöðvað bíl þeirra, við Litlu Kaffistofuna að hann minni. Þegar þeir hafi komið á staðinn hafi verið búið að handtaka fólkið og þeir hafi aðstoðað við að flytja það á lögreglustöðina á Selfossi og koma þeim í klefa.
D kvaðst aðspurður ekki muna eftir að hafa haft afskipti af ákærða X. Þeir hafi flutt ákærðu Y, en afgreitt ákærðu bæði í klefa. Aðspurður hvort hann myndi eftir ástandi ákærðu Y við handtöku kvað D hana hafa verið í mjög annarlegu ástandi og æsta, undir áhrifum áfengis og sennilega einhvers meira. Lögreglumennirnir hafi þurft að slást við hana og halda henni fastri í lögreglubílnum meirihluta leiðarinnar frá vettvangi og þar til þeir komu henni inn í klefa á Selfossi. Aðspurður um hvort hann hafi verið viðstaddur leit á ákærðu Y svaraði D að svo væri, leitað hafi verið á henni áður en hún var sett inn í klefa. Aðspurður um hvað fundist hafi á ákærðu Y sagði D að eitthvað hafi fundist af ætluðu hassi, einhverjir molar, hann muni ekki hve margir, og einhverjir smáhlutir aðrir sem hann gæti ekki tilgreint. Aðspurður um hvort hann muni til þess að ákærða Y hafi verið með hrufl á höndum og blætt hafi úr hægri hendi svaraði D að hann myndi ekki eftir því. Aðspurður um reynslu hans af því að meta vímueinkenni kvað D það gerast alltof oft í sinni vinnu að það yrði að meta það og fást við það. Aðspurður sagðist D hafa verið lögreglumaður síðan 1999 eða í sjö ár.
E, lögreglumaður í Reykjavík, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Vitnið kvaðst aðspurt muna lauslega eftir því, það væri langt um liðið. Aðspurður hvort hann gæti greint frá atvikum svaraði E að lögreglan hafi verið beðin um að stöðva bifreið sem hefði hugsanlega verið í innbroti í skíðaskálanum. Hann muni aðeins að það hafi verið mikil þoka þetta kvöld. Hann hafi verið á ómerktri bifreið. Þeir hafi séð bifreið við Litlu Kaffistofuna og sett upp stöðvunarmerki. Nokkurn tíma hafi tekið fyrir bifreiðina að stöðva. Þegar bifreiðin var stöðvuð hafi lögreglumennirnir stigið úr sinni bifreið. Sig minni að farþeginn hafi komið út úr bílnum með hníf í hendi. Þeir hafi beðið hann um að sleppa honum, sem hann hafi gert. Hann hafi ekki sýnt neina ógnandi tilburði. Honum hafi þótt þau bæði í mjög annarlegu ástandi. Þeir hafi flutt ákærða X á Selfoss.
Aðspurður um ástand þeirra á leiðinni svaraði E að þau hafi verið í annarlegu ástandi. Aðspurður um ástand ákærðu Y svaraði E að hún hafi verið í annarlegu ástandi sem hann gæti ekki skilgreint nánar. Það væri svo langt um liðið. Aðspurður um hrufl á höndum ákærðu Y svaraði E að hann myndi ekki eftir því. Aðspurður sagðist E hafa verið lögreglumaður síðan 1999. Aðspurður um reynslu af vímueinkennum svaraði E því að hann hefði aðallega unnið við fíkniefni.
F, lögreglumaður í Reykjavík, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Aðspurður kvaðst vitnið muna eftir atvikum málsins, þó ekki mjög vel. Aðspurður hvort hann geti greint frá atvikum málsins svaraði F að tilkynnt hafi verið um innbrot í skíðaskálann. Þeir hafi farið upp eftir til að hafa uppi á þjófunum. Einhver lýsing hafi legið fyrir á bifreið, að hann minnti. Þeir hafi fundið bifreiðina og stöðvað hana. Í honum hafi verið maður og kona í frekar annarlegu ástandi. Bifreiðin hafi verið full af alls kyns dóti og drasli. Þar á meðal hafi verið, að sig minni, poki við fætur farþega. Þau hafi verið handtekin og Selfosslögreglan tekið við þeim.
Aðspurður hvort hann myndi eitthvað frekar eftir ástandi ákærðu svaraði F að honum hafi virst þau vera ölvuð eða undir áhrifum einhverra lyfja. F kvaðst hafa séð það af hegðun þeirra og hvernig þau hafi komið fyrir. Aðspurður hvort þau hafi verið óskýr eða reikul í spori svaraði F að þau hafi verið hálf undarleg að því að hann minni, hann gæti ekkert skýrt það nánar. Aðspurður hvort hann myndi til þess að Y hafi verið með hrufl á höndum svaraði F að hann myndi það ekki. Aðspurður sagðist F hafa verið lögreglumaður síðan sumarið 2000.
G, rannsóknarlögreglumaður í Reykjavík, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Vitnið sagðist aðspurt muna óljóst eftir atvikum málsins. Hann myndi eftir að lögreglan hafi fengið útkall um innbrot í skíðaskálann. Hann hafi farið með F í lögreglubíl. Þegar þeir komu að Litlu Kaffistofunni hafi verið búið að stöðva bifreið og hafi þeir gætt hennar þar til hann var dreginn burt af dráttarbíl. Það hafi verið mjög vont veður, það sé nokkurn veginn það sem hann muni. Aðspurður um hvort hann muni eftir ástandi fólksins svaraði G að hann myndi ekkert eftir því.
H, rannsóknarlögreglumaður, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Aðspurður hvort hann gæti sagt frá atvikum máls sagði H að það væri ekki mikið um það að segja annað en að hann hafi verið kallaður út af bakvakt vegna innbrots í skíðaskálann og þjófnaðar þaðan síðla nætur. Hann hafi farið á vettvang. Þá þegar hafi verið búið að handtaka tvo aðila grunaða um aðild að því máli. Hans starf hafi falist í rannsóknarvinnu og hann hafi tekið ljósmyndir af vettvangi. Rúður hafi verið brotnar á tveimur stöðum í veislusal og vesturhlið. Á vesturhlið salarins hafi gluggi verið spenntur upp og fótspor sést á borði, á norðurhlið salarins hafi rúður í hurð verið brotnar og blóðtaumar verið í kring. Rótað hafi verið í hirslum, m.a. á bar og inni í eldhúsi, farið hafi verið inn í kæligeymslu og rótað til og farið hafi verið út um kjallaradyr. H staðfesti að myndir sem honum voru sýndar hafi verið teknar á vettvangi. H staðfesti að hann hafi unnið skýrslu sem honum var sýnd. Aðspurður sagði hann skýrsluna vera svo seint til komna vegna þess að hann hafi verið kallaður af vettvangi til annars máls í Hveragerði og orðið frá að hverfa. Það mál hafi tekið allan hans tíma næstu vikur. Aðspurður um hvort hann hafi rætt við eigendur skíðaskálans svaraði Jón neitandi, sér hafi ekki verið úthlutað máli þessu til rannsóknar.
I, dósent í eiturefnafræði við læknadeild Háskóla Íslands, gaf skýrslu fyrir dómi gegnum síma og staðfesti undirritun sína á matsgerð dagsettri 3. maí 2004 og að þar væri rétt greint frá. I var spurður út í fullyrðingu í matsgerðinni um að samanlögð áhrif klónazepams, nítrazepams og nordíazepams, sem fundist hafi í blóði ákærðu Y, hafi dregið verulega úr hæfni ökumanns til aksturs bifreiðar og hann hafi því ekki verið fær um að stjórna henni örugglega er blóðsýnið var tekið, og svaraði I, aðspurður hvort þessari niðurstöðu mætti jafna við 0,5 af alkóhóli, að þetta samsvaraði að sínu mati meira magni. Aðspurður hvort það samsvaraði mun meira magni svaraði I að það væri erfitt að meta. Hann teldi þetta magn líklega samsvara einhverju meira en 0,7. Aðspurður um lýsingu í handtökuskýrslu á ástandi ákærðu Y, að hún hafi verið mjög æst og uppstökk, sjáöldur útvíkkuð, jafnvægi óstöðugt, framburður ruglingslegur og málfar óskýrt, hvort þessi lýsing gæti samræmst niðurstöðum matsgerðarinnar, svaraði I að benzódíazepínsambönd gætu valdið æsingi og árásarhneigð í sjaldgæfum tilvikum, en hann myndi frekar búast við að einstaklingur væri sljór. Aðspurður um að fleiri efni hafi fundist í blóði ákærðu Y sagði I að lítið amfetamín hefði fundist og ekki virtust hafa verið örvandi lyf í blóði hennar. Beiðnin bæri með sér að leitað hafi verið að algengustu lyfjum. Hann hafi ekki fyrir framan sig að hverju nákvæmlega hafi verið leitað. Hann geri ráð fyrir að öll algengustu efni hefðu fundist. Aðspurður um hvort lýsingin gæti átt við svaraði I að það væri erfitt að segja af eða á, en að þessi efni hafi verið í blóði hennar þá útiloki það ekki ástand ökumanns eins og því er lýst. Ástand hennar þurfi hinsvegar ekki að vera af þessum efnum.
Ákærða Y kom ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og voru ekki gerðar athugasemdir við það af hálfu sakflytjenda. Verjandi hennar upplýsti að ákærða væri í mikilli fíkniefnaneyslu og hefði verið útilokað að ná sambandi við hana.
Niðurstaða.
Ákæruliður I a.
Ákærða Y hefur neitað sök í þessum ákærulið. Fyrir liggur framburður vitnisins B um að hann hafi elt bifreiðina [...] frá skíðaskálanum og að Litlu kaffistofunni. Þá liggur fyrir framburður lögreglumannanna E og F um að þeir hafi stöðvað akstur bifreiðarinnar [...] við Litlu Kaffistofuna og hafi ákærða Y ekið bifreiðinni. Framburður þeirra fær stoð í frumskýrslu ritaðri af C, lögregluvarðstjóra.
Blóðsýni var tekið úr ákærðu Y kl. 07:47 og þvagsýni kl. 08:40. Í matsgerð I, dósents í eiturefnafræði, kemur fram að í þvagi ákærðu Y hafi fundist amfetamín, metamfetamín, metýlfenidat, benzódíazepínsambönd, kannabínóíðar, kódein og vottur af koffeini og nikótíni. Þá hafi fundist í þvagi tetrahýdrókannabínólsýra. Í blóði ákærðu Y hafi fundist amfetamín, 24 ng/ml, klónazepam, 85 ng/ml, nítrazepam, 80 ng/ml, og nordíazepam, 55 ng/ml og vottur af klórdíazepoxíði og umbrotsefnum þess. Styrkur amfetamíns hafi ekki verið nægur til að hafa marktæk áhrif á hæfni til aksturs bifreiða. Gera megi ráð fyrir að samanlögð áhrif klónazepams, nítrazepams og nordíazepams hafi dregið verulega úr hæfni ökumanns til aksturs bifreiðar. Styrkur þessara efna kunni að hafa verið örlítið hærri þegar ökumaður var stöðvaður en það hafi þó ekki marktæk áhrif á niðurstöður matsins. I kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerðina. Aðspurður kvað I niðurstöðuna samsvara meira en 0,5 af alkóhóli, líklega eitthvað meira en 0,7.
Framburður I fær stoð í framburði lögreglumannanna C, sem kvað ákærðu Y hafa virst undir talsverðum áhrifum fíkniefna, og D, E og F. Lögreglumennirnir kváðust aðspurðir hafa starfað í lögreglunni í sex til tíu ár og hafa C, D og E borið að þeir hafi talsverða reynslu af fíkniefnamálum.
Framburður Iog lögreglumannanna fær ennfremur stoð í handtökuskýrslu ákærðu Y, þar sem ástandi hennar er lýst svo að sjáöldur hafi verið útvíkkuð, jafnvægi óstöðugt, framburður ruglingslegur, málfar óskýrt og að hún hafi verið ,,mjög æst og uppstökk.
Samkvæmt framangreindu verður talið sannað að ákærða Y hafi aðfaranótt fimmtudagsins 12. febrúar 2004 ekið bifreiðinni [...] frá Skíðaskálanum í Hveradölum vestur Suðurlandsveg, Ölfusi, að Litlu Kaffistofunni undir slíkum áhrifum lyfja að hún hafi verið ófær um að stjórna bifreiðinni örugglega. Er háttsemi ákærðu Y réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru, sbr. nú ákvæði 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a umferðarlaga, sbr. lög nr. 66/2006, sbr. einnig 2. gr. laga nr. 19/1940. Ákærða Y hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.
Ákæruliður I b.
Ákærða Y hefur neitað sök í þessum ákærulið. Fyrir liggur framburður lögreglumannanna C og D, sem fær stoð í frumskýrslu, að leit hafi verið framkvæmd á ákærðu Y á lögreglustöðinni á Selfossi og að í úlpu hennar hafi fundist fimm molar af ætluðu hassi. Þá liggur fyrir í gögnum málsins efnaskýrsla tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík þar sem fram kemur að efnið hafi greinst við litaprófun sem hass. Í efnaskýrslunni segir að efnið hafi vegið 4,79 grömm, en í ákæru en þyngd efnisins sögð 4,92 grömm.
Samkvæmt framangreindu verður talið sannað að ákærða Y hafi aðfaranótt fimmtudagsins 12. febrúar 2004 haft í vörslu sinni 4,79 grömm af hassi. Er háttsemi ákærðu Y réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærða Y hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.
Ákæruliður II.
Ákærðu Y og X hafa bæði neitað sök í þessum ákærulið. Ákærða Y kom ekki fyrir dóm við aðalmeðferð og liggur því ekki fyrir annar framburður hennar en sá sem fram kemur í lögregluskýrslu dagsettri 12. febrúar 2004. Við skýrslutökuna neitaði ákærða Y að hafa farið inn í skíðaskálann. Ákærði X hafi tekið við akstri bifreiðarinnar eftir að þau lentu út af veginum í Kömbunum. Þau hafi ekið vestur Hellisheiði og beygt að skíðaskálanum vegna vandræða með hægra framhjólið. Hún hafi barið á einar dyr skálans en farið aftur inn í bíl þegar enginn kom til dyra. Hún viti að ákærði X hafi farið inn í skíðaskálann en viti ekki hvar eða hvernig. Hún hafi beðið lengi eftir ákærða X í bifreiðinni. Á meðan hún hafi beðið eftir honum hafi ljós birst aftan við bifreiðina, sem hún gat sér til um að hafi verið bifreið. Ákærði X hafi farið inn og út úr skálanum nokkrum sinnum og í síðasta sinn sem hann kom út úr skálanum hent einhverju dóti inn í bifreiðina og afhent henni rúllu af 50 krónu mynt. Þegar hún hafi ekið frá skíðaskálanum inn á Suðurlandsveg hafi kyrrstæð bifreið verið við afleggjarann.
Við skýrslutöku 12. febrúar 2004 neitaði ákærði X að hafa brotist inn í skíðaskálann og haft á brott með sér varning. Ákærða Y hafi ekið eftir að þau lentu út af veginum í Kömbunum vestur Hellisheiði að skíðaskálanum þar sem hún hafi ætlað að hitta einhverja menn. Þegar að kom hafi ákærða Y farið fyrst út úr bifreiðinni. Hann haldi að hún hafi brotið rúðu á hlið hússins, en kvaðst ekki muna hvort hann hafi séð ákærðu Y gera það, en kúbein sem hafi verið í bifreiðinni hafi legið í snjóskafli framan við brotnu rúðuna. Ákærða Y hafi farið inn um gluggann og verið inni í húsinu í um fimm til tíu mínútur en hann hafi spásserað á meðan fyrir utan. Hún hafi kallað til hans úr aðaldyrunum og beðið hann að koma, sem hann hafi gert. Ákærða Y hafi þá látið hann fá svartan plastpoka og beðið hann að fara með hann í bifreiðina. Ákærði X kvað kjöt og önnur matvæli hafa verið í plastpokanum. Hann hafi farið með pokann og sett í aftursæti bifreiðarinnar. Nánar aðspurður sagði ákærði X ákærðu Y hafa skorið sig og blóðgast við að brjóta rúðu á norðurgafli hússins. Hann hafi þó ekki séð hvar hún skar sig. Ákærði X kvaðst ekki hafa orðið var við neina umferð við skíðaskálann.
Ákærði X hefur dregið framburð sinn í lögregluskýrslu frá 12. febrúar 2004 til baka og neitar með öllu þátttöku í innbroti í skíðaskálann. Ákærði X ber við minnisleysi vegna vímu og kveðst ekki muna eftir neinum atburðum næturinnar. Ákærði telur sig ekki hafa munað neitt betur við skýrslutökuna. Ákærði X aftekur með öllu að hann myndi fremja slíkt afbrot, jafnvel þó í vímu væri. Efni lögregluskýrslunnar sé bull komið frá lögreglunni og ákærðu Y og sér hefðu verið lögð orð í munn. Hann hafi undirritað skýrsluna því hann hafi viljað komast burtu og viljað gera næstum hvað sem er til þess. Honum hafi verið haldið án svefns og matar. Þá ber ákærði X brigður á það mat lögreglu að hann hafi verið vímulaus þegar skýrslutakan fór fram.
Sannað er með myndum af vettvangi að rúður voru brotnar í hurð á skíðaskálanum. Á annarri myndinni sjást blóðtaumar á hurðinni, sem bendir eindregið til þess að sá sem braut rúðurnar hafi skorist á hendi við verknaðinn. Sannað er með framburði C lögreglumanns, sem fær stoð í frumskýrslu, að ákærða Y hafi við handtöku verið með nýtt hrufl á höndum, sem blætt hafi úr. Ekkert liggur fyrir um að ákærði X hafi verið með áverka á höndum við handtöku. Þá liggur fyrir framburður vitnisins B um að enginn hafi verið í bifreiðinni [...] þegar hann kom á vettvang. Verður því talið nægilega sannað gegn neitun ákærðu Y að hún hafi aðfaranótt fimmtudagsins 12. febrúar 2004 brotist inn í Skíðaskálann í Hveradölum og haft á brott með sér kr. 2000 í 50. kr. mynt, hitakönnu og ýmis matvæli sem fundust í bifreiðinni við leit lögreglu. Er háttsemi ákærðu Y réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærða Y hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.
Framburður ákærða X í lögregluskýrslu er samhljóða framburði ákærðu Y um að þau hafi lagt af stað frá húsi rétt hjá Hveragerði, ákærða Y hafi ekið bifreiðinni og að þau hafi lent út af og fest bifreiðina í Kömbunum og losað hana með hjálp frá kranabifreið. Ákærðu ber hinsvegar ekki saman um atvik máls eftir að bifreiðin var losuð. Þau greinir á um hver hafi þá tekið við stjórn bifreiðarinnar eða hvers vegna þau hafi ekið að skíðaskálanum. Þá benda ákærðu á hvort annað sem gerendur innbrotsins. Þegar að skíðaskálanum var komið telur ákærði X að ákærða Y hafi brotið rúðu í skálanum. Eins og að framan greinir er talið sannað að ákærða Y hafi brotið rúðu í hurð á skíðaskálanum. Þá segir ákærði X að hann hafi farið með svartan plastpoka út í bíl og í honum hafi verið kjöt og önnur matvæli. Þá kveður ákærði X ákærðu Y hafa ekið bifreiðinni frá skíðaskálanum áleiðis til Reykjavíkur þar til lögregla stöðvaði för þeirra.
Framangreindur framburður er ítarlegur og sýnist ekki ótrúverðugur og er að nokkru leyti í samræmi við frásögn ákærðu Y í lögregluskýrslu. Fyrir liggur að ákærði X var yfirheyrður af sömu lögreglumönnum og yfirheyrðu ákærðu Y og að ákærða Y var yfirheyrð á undan. Slíkt rennir þó engum stoðum undir þá staðhæfingu ákærða X að lögreglumennirnir hafi lagt honum orð í munn. Þá var ákærða Y ekki viðstödd skýrslutökuna af ákærða X og því vandséð hvernig hún hefði átt að hafa áhrif á framburð hans. Verður því talið ósannað að lögreglan hafi með óeðlilegum hætti haft áhrif á framburð ákærða X í lögregluskýrslu.
Eins og framan greinir er framburður ákærða X í lögregluskýrslu ítarlegur og ekki ótrúverðugur og fær nokkra stoð í framburði ákærðu Y. Þá verður ekki litið fram hjá því að lýsing ákærða X á innihaldi svarta ruslapokans er í samræmi við lýsingu á innihaldi hans í munaskrá lögreglu. Er framburður ákærða X um minnisleysi, bæði við skýrslutöku og síðar, í því ljósi ótrúverðugur. Þá liggur fyrir framburður vitnisins B um að enginn hafi verið í bifreiðinni [...] þegar hann kom á vettvang.
Samkvæmt framangreindu verður að telja nægilega sannað gegn neitun ákærða X að hann hafi aðfaranótt fimmtudagsins 12. febrúar 2004 brotist inn í Skíðaskálann í Hveradölum og haft á brott með sér kr. 2000 í 50. kr. mynt, hitakönnu og ýmis matvæli sem fundust í bifreiðinni við leit lögreglu. Er háttsemi ákærða X réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákæru. Ákærði X hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.
Telja verður að ákærðu hafi framið innbrotið í skíðaskálann í sameiningu og er ekki fært að meta þátt annars þeirra sem hlutdeild.
Ákvörðun refsingar.
Ákærða Y.
Ákærða Y hefur frá árinu 1989 hlotið tíu refsidóma, þar af fimm fyrir auðgunarbrot, síðast 13. febrúar 2004. Sakarferill ákærðu Y hefur að öðru leyti ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu. Um var að ræða samverknað ákærðu Y og ákærða X, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar ákærðu Y verður ennfremur litið til 72. gr., 2. mgr. 244. gr. og 255. gr. sömu laga. Er refsing ákærðu Y hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði. Vegna sakaferils ákærðu Y þykir ekki fært að skilorðsbinda dóminn. Refsing ákærðu Y er hegningarauki við dóm Héraðsdóms Vestfjarða frá 13. febrúar 2004, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verður ákærða Y dæmd til að sæta upptöku á 4,79 grömmum af hassi. Þá verður ákærða Y dæmd til sviptingar ökuréttar í 6 mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði X.
Ákærði X hefur ekki áður sætt refsingu svo vitað sé. Við ákvörðun refsingar hans verður tekið tillit til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er refsing ákærða X hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Málskostnaður.
Samkvæmt framlögðu yfirliti lögreglu er sakarkostnaður málsins 273.515 krónur og féll hann allur til vegna rannsókna á broti ákærðu Y samkvæmt ákærulið I. Alkóhólrannsókn á þvagi ákærðu Y leiddi í ljós að hún var ekki undir áhrifum áfengis. Ber því að draga frá þann kostnað, 14.264 krónur. Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærðu Y til greiðslu kostnaðarins sem er, að frádregnum kostnaði við alkóhólrannsókn á þvagi, 259.251 króna.
Málsvarnarlaun verjanda ákærða X, Einars Gauts Steingrímssonar hrl., þykja hæfilega ákveðin 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu Y, Rúnu Soffíu Geirsdóttur hdl., þykja hæfilega ákveðinn 217.875 að meðtöldum virðisaukaskatti. Kostnaður Einars Gauts vegna aksturs nam 16.440 krónum og útlagður kostnaður Rúnu Soffíu vegna aksturs o.fl. nam 34.558 krónum. Samkvæmt 1. mgr. 165. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 164. gr., laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærðu til greiðslu framangreinda málsvarnarlauna og kostnaðar.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kveður upp dóm þennan. Uppkvaðning dómsins hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna mjög mikilla embættisanna dómarans.
D ó m s o r ð :
Ákærða, Y, sæti fangelsi í 4 mánuði.
Ákærði, X, sæti fangelsi í einn mánuð. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærða, Y, er svipt ökurétti í 6 mánuði frá birtingu dóms þessa að telja.
Ákærða, Y, greiði áfallinn sakarkostnað, 259.251 krónu og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Rúnu Soffíu Geirsdóttur hdl., 217.875 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 34.558 krónur vegna útlagðs kostnaðar verjandans.
Ákærði, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Einars Gauts Steingrímssonar hrl., 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 16.440 krónur vegna útlagðs kostnaðar verjandans.