Hæstiréttur íslands

Mál nr. 391/2015

A (Steingrímur Þormóðsson hrl.)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. (Heiðar Örn Stefánsson hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Uppgjör
  • Fyrirvari
  • Endurupptaka bótaákvörðunar

Reifun

Árið 2006 varð A fyrir líkamstjóni í umferðarslysi og samkvæmt örorkumati var varanlegur miski hans metinn 7 stig og varanleg örorka 7%. Á grundvelli matsins fór fram uppgjör skaðabóta árið 2011 en af hálfu A var ritað undir uppgjörið með „fyrirvara um mat á varanlegum afleiðingum.“ Á grundvelli nýs mats frá árinu 2014, þar sem varanlegur miski A var metinn 20 stig og varanleg örorka 20%, höfðaði hann mál gegn V hf. og krafðist frekari skaðabóta. Reisti hann kröfu sína á því að gerður hafði verið sérstakur fyrirvari við bótauppgjörið og kæmi því 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 „ekki til álita í máli þessu“. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skýra yrði fyrirvarann svo að A hefði með honum áskilið sér rétt til frekari bóta ef varanlegur miski eða varanleg örorka yrði vegna ófyrirséðrar breytingar meiri en talið var í matinu sem áður hafði verið lagt til grundvallar uppgjöri skaðabóta. Hefði A ekki fært fram viðhlítandi sönnur fyrir því að slíkar ófyrirséðar breytingar hefðu orðið á heilsu sinni. Þá var ekki fallist á með A að ógilda mætti uppgjörið á grundvelli ógildingarreglna samningaréttar né að hann hefði orðið fyrir tjóni af því að hafa tekið við þeim skaðabótum sem mælt hefði verið fyrir um í uppgjörinu. Var V hf. sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 6.321.737 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.301.105 krónum frá 9. ágúst 2006 til 9. ágúst 2007 og af 6.321.737 krónum frá þeim degi til 27. mars 2014, en til vara 3.951.881 krónu með 4,5% ársvöxtum af 800.680 krónum frá 9. ágúst 2006 til 9. ágúst 2007 og af 3.951.881 krónu frá þeim degi til 27. mars 2014. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi þess að frá síðastnefndum degi til greiðsludags verði sér dæmdir dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá kröfum á hendur B sem var aðili að málinu í héraði við hlið stefnda.

Samkvæmt gögnum málsins varð áfrýjandi fyrir líkamstjóni í umferðarslysi 10. ágúst 2006 og er óumdeilt að stefndi beri fébótaábyrgð á því. Aðilarnir stóðu saman að því að afla frá nafngreindum lækni og hæstaréttarlögmanni örorkumats 30. nóvember 2010 vegna áfrýjanda. Þar var komist að þeim niðurstöðum að hvorki hafi hann orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni af völdum slyssins né væru efni til að ákveða handa honum þjáningabætur, en varanlegur miski hans næmi 7 stigum og varanleg örorka 7%. Á grundvelli þessa örorkumats gengu aðilarnir til uppgjörs 28. janúar 2011 og fékk áfrýjandi samkvæmt því greiddar að meðtöldum vöxtum og kostnaði samtals 3.999.816 krónur úr hendi stefnda, þar af 615.720 krónur í miskabætur og 2.757.301 krónu í bætur fyrir varanlega örorku. Í kvittun fyrir þessari greiðslu var tekið fram að lögmaður, sem þar kom fram í umboði áfrýjanda, gerði „fyrirvara um mat á varanlegum afleiðingum.“ Fyrir atbeina nýs lögmanns leitaði áfrýjandi 20. janúar 2014 einn eftir mati lögfræðings og tveggja lækna á afleiðingum líkamstjóns síns af völdum slyssins. Í mati þeirra 5. mars sama ár var talið að tímabundið atvinnutjón áfrýjanda hafi ekkert orðið, en hann ætti rétt til þjáningabóta vegna veikinda án rúmlegu á tímabilinu 9. ágúst til 9. nóvember 2006, varanlegur miski hans hafi orðið 20 stig og varanleg örorka 20%. Á grundvelli þessa nýja mats krafði áfrýjandi stefnda 6. mars 2014 um frekari miskabætur og bætur fyrir varanlega örorku en greiddar höfðu verið 28. janúar 2011, 1.310.400 krónur vegna miska og 5.020.632 krónur vegna örorku, auk vaxta og kostnaðar. Áður en stefnda gafst ráðrúm til að lýsa afstöðu sinni til kröfunnar höfðaði áfrýjandi mál þetta 12. mars 2014 til greiðslu á samtölu framangreindra tveggja fjárhæða, 6.331.032 krónum. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi lækkað fjárhæð kröfu sinnar um miskabætur í 1.301.105 krónur og nemur því dómkrafa hans hér fyrir dómi alls 6.321.737 krónum.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi byggir áfrýjandi aðallega á því að fyrirvarinn, sem þáverandi lögmaður hans gerði samkvæmt áðurnefndri kvittun fyrir greiðslu bóta, hafi tekið gagngert til niðurstaðna matsins frá 30. nóvember 2010 um miskastig og hlutfall varanlegrar örorku. Af þeim sökum standi uppgjörið 28. janúar 2011 því ekki í vegi að hann geti nú gert kröfu um frekari bætur. Í tengslum við þetta var tekið fram í héraðsdómsstefnu að áfrýjandi liti svo á að hvergi hafi verið áskilið við uppgjörið að ekki yrði unnt að taka það upp á ný nema að fullnægðum skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og kæmi það lagaákvæði því „ekki til álita í máli þessu, nema sem lagarök fyrir varamálsástæðu“. Málsástæður, sem áfrýjandi hefur uppi til vara, lúta annars vegar að því að uppgjörið 28. janúar 2011 megi ógilda bæði eftir óskráðum reglum um rangar og brostnar forsendur og ákvæði 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og hins vegar að hann hafi orðið fyrir tjóni af því að hafa tekið við þeim skaðabótum, sem mælt var fyrir um í uppgjörinu, og beri stefndi skaðabótaábyrgð á því.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að framangreindur fyrirvari geti ekki talist hafa falið annað í sér en að áfrýjandi áskildi sér rétt til að krefjast frekari bóta ef síðar yrðu ófyrirséðar breytingar á heilsufari hans sem yllu því að varanlegur miski hans eða varanleg örorka af völdum slyssins yrði talin meiri en lagt var til grundvallar í uppgjörinu 28. janúar 2011, sbr. dóm Hæstaréttar 20. febrúar 2014 í máli nr. 576/2013. Gegn andmælum stefnda hefur áfrýjandi ekki fært fram viðhlítandi sönnur fyrir því að slíkar ófyrirséðar breytingar hafi orðið á heilsu sinni. Þá verður fallist á með héraðsdómi að málsástæður, sem áfrýjandi byggir á til vara, geti ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að aðalkrafa hans eða varakrafa verði tekin til greina. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, A, greiði stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2015.

                Þetta mál, sem var tekið til dóms 14. janúar 2015, er höfðað af A, kt. […], […], á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. […], Ármúla 3, Reykjavík og B, kt. […], […], eiganda bif­reiðar­innar […], til viður­kenn­ingar á neðangreindum dómkröfum og til greiðslu málskostnaðar og vaxta.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða honum óskipt 6.331.032 kr. ásamt 4,5% ársvöxtum af 1.310.400 kr., frá 9. ágúst 2006 til 9. ágúst 2007, og af 6.331.032 kr. frá þeim degi til 27. mars 2014, en með dráttarvöxtum, sam­kvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðslu­dags.

                Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu eins og málið væri eigi gjafsókn­ar­mál.

                Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og B, krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda.

                Til vara krefjast stefndu þess að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar.

                Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar úr hendi hans.

Málsatvik

                Stefnandi lenti í hörðum árekstri, 9. ágúst 2006. Hann var þá farþegi í framsæti bif­reið­ar­innar […] er henni var ekið […]. Samkvæmt lögregluskýrslu varð slysið þannig að bif­reiðin sem stefn­andi sat í stöðvaðist fyrirvaralaust á veginum þar sem vél bílsins stöðvaðist. Bif­reið sem var ekið næst fyrir aftan sveigði frá en ökumanni bifreiðarinnar […], sem var þar á eftir, tókst ekki að koma í veg fyrir slys heldur ók aftan á […]. Við áreksturinn fékk stefn­andi, sem var í bílbelti, bæði hálshnykk og höfuðáverka og eymsli í höfuð og bak sam­kvæmt lögreglu­skýrslu. Bíllinn var óökufær og dreginn af slys­stað.

                Stefnandi leitaði fyrst á slysadeild LSH, 20. ágúst 2006, þar sem hann hafði slæma verki vinstra megin í hálsinum, herðum og baki. Við læknis­skoðun var hann stífur og þrotinn í sjalvöðva (m. trapezius) og öllum hálsvöðvum vinstra megin, svo og stífur og aumur í vöðvum við vinstra herðablað og hreyfigeta háls­ins var aðeins skert. Hann var greindur með hálstognun og tognun í brjósthrygg. Hann var útskrif­aður með lyf­seðil fyrir bólgueyðandi lyf og ráðlagt að leita til sjúkraþjálfara. Rönt­gen­myndir voru ekki teknar. Aðrar upplýsingar liggja ekki fyrir um komur hans á slysa­deild.

                Á þessum tíma var stefnandi einyrki og vann við […]. Hann mun hafa verið 1-2 vikur frá vinnu þar sem hann gat ekki tekið lengra leyfi. Hann var að sögn kraftminni og úthaldsminni við vinnuna.

                Stefnandi mun hafa leitað til sjúkraþjálfara tvisvar til þrisvar en fannst það ekkert gagnast sér. Samkvæmt fram lögðu bréfi leitaði hann til hnykk­læknis (kíró­prak­tors), 22. október 2007, vegna verkja í brjóstbaki með leiðni í háls og hand­legg. Með­ferðin stóð í alls 33 skipti, til 1. september 2008, og taldi lækn­ir­inn hana hafa gengið vel og verki í brjóstbaki minnka. Í vottorðinu er hvorki getið ástæðu komu stefn­anda til læknisins né umferðarslyssins.

                Ekki liggja fyrir frekari gögn í málinu um læknismeðferðir stefnanda vegna slyss­ins en stefnandi hætti að vinna árið 2009 vegna mikilla verkja.

                C læknir segir í vottorði, 11. febrúar 2010, að stefnandi hafi komið til skoðunar 14. nóvember 2009. Í vott­orð­inu er lýst vinnuslysi á fingri en ekki getið annarra slysa eða metinnar örorku stefnanda. Þá er vísað til vottorðs heilsugæslu um eymsli í hálsvöðvafestu í júlí 2000. Læknirinn hefur eftir stefn­anda að einkenni eftir slysið séu þrálátir verkir í hálsi og höfði, slen og dofi auk þung­lyndis og kvíða. Vísað er til samtals við stefnanda 27. janúar 2010, vegna gerðar vottorðsins, þar sem komi fram að stefnandi sé mjög slæmur af verkjum í herðum og hálsi en einnig hafi þung­lyndið versnað. Haft er eftir stefnanda að verk­efnum hafi fækkað hjá honum og hafi það einnig slæm áhrif á geðheilsuna. Læknirinn taldi orsakasamband vera á milli umferð­ar­slyssins og tognunaráverka stefn­anda enda hafi stefnandi ekki kvartað yfir líkum ein­kennum fyrir slysið.

                Stefnandi mun hafa gefið lögmanni umboð 18. júní 2008 til að annast sín mál vegna slyssins. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., viðurkenndi bótarétt úr ábyrgð­ar­trygg­ingu bifreiðarinnar […]. Með sameiginlegri matsbeiðni fóru þáverandi lög­maður stefnanda og VÍS fram á mat D læknis og E lögmanns á afleið­ingum slyss­ins.

                Í matsgerð þeirra, sem lá fyrir 30. nóvember 2010, er heilsufarssaga stefnanda rakin. Þar er lýst vinnuslysi á fingri í nóvem­ber 1998 þar sem honum var metin 4% örorka. Þar segir einnig að stefnandi hafi slasast á vinstra hné í bílslysi en þess ekki getið hvenær það var og engin gögn eru um þetta slys í málinu. Kemur fram að F hafi metið stefnanda til 25% örorku vegna einkenna frá báðum hnjám, hálsi og herðum. Ekki er getið um ástæðu þessa mats. Meðal gagna sem mats­menn öfluðu við matið er örorkumat frá Tryggingastofnun, frá F, dags. 6. október 1993, vegna slyss 5. mars 1988. Þessu slysi er ekki frekar lýst í mat­inu né er þar getið fleiri slysa sem stefnandi hafði lent í fyrir umferðarslysið í ágúst 2006.

                Stefndu vekja athygli á fram lögðu vottorði slysadeildar um komu stefn­anda þangað, 30. apríl 1998, vegna vinnuslyss er hann datt niður 1,5 m af vinnu­palli og rak bakið í. Þar hafi hann verið greindur með mar á neðanverðu baki og mjaðma­grind en ekki brot og var hann útskrifaður og ráðlögð bólgueyðandi með­ferð. Í mats­gerð er þessa slyss stefnanda ekki getið.

                Matsmenn hafa eftir stefnanda að hann hafi haft þung­lyndis­einkenni og kvíða­röskun í 3-4 ár og taki lyf við því eftir þörfum. Þá geta þeir […] sem hann sótti um tveimur árum áður. Í matsgerðinni segir að við skoðun komi fram að stigun á þung­lyndi sam­kvæmt MADRS gæfi 25 stig. Það sé þunglyndi þar sem þörf er á lyfja- og samtals­með­ferð og voru þung­lyndis­ein­kenni áberandi. Matsmenn hafa eftir stefn­anda að hann hafi verki í hálsi, leiðniverk niður í brjótshrygg og út í herðar og hnakka, auk þess sem þunglyndi hafi versnað. Þá eigi hann erfitt með að beygja sig, bogra og vinna upp fyrir sig, einnig að bera þungt og hann þreytist fljótt við vinnu.

                Matsmenn vísa einnig til vottorðs G 8. september 2008, um að stefnandi hafi haft verki í hálsi frá 2000 en ekki sé saga um langvinn stoð­kerfis­ein­kenni.

                Í matsgerð 30. nóvember 2010 segir að stefnandi hafi síð­ustu árin fyrir umferð­ar­slysið unnið við eigin rekstur við […]. Eftir slysið hafi hann ekki ráðið við fullan vinnudag. Ástandið hafi verið nán­ast óbreytt frá 2007, lítið um verkefni og hann sé eini starfsmaður fyrir­tæk­is­ins og í raun atvinnu­laus. Þá er haft eftir stefnanda að hann stefni á að halda eigin rekstri áfram en ekki fara til starfa sem launþegi.

                Matsmenn töldu orsakasamband milli einkenna stefnanda og umferðarslyssins enda meiri líkur en minni fyrir því að hluti einkenna stefnanda yrði rakinn til þess. Þá töldu þeir heilsu­far hans orðið stöðugt 9. nóvember 2006. Matsmenn töldu tíma­bundna óvinnu­færni enga og heldur ekki þjáningatímabil. Þeir töldu varanlegan miska 7 stig og var þá litið til þess að fyrri stoðkerfiseinkenni vegna afleiðinga háls- og brjóst­hryggjar­togn­unar hefðu versnað. Hafðar voru til hliðsjónar miskatöflur örorku­nefndar. Ekki verður séð að tekið hafi verið tillit til þunglyndis stefnanda við end­an­legt mat. Var­an­leg örorka var metin 7% þar sem telja yrði starfsmöguleika hans skerta sem og almennt starfs­úthald, sér­stak­lega við líkamlega krefjandi störf.

                Í kjölfar matsins var gengið til uppgjörs bóta 28. janúar 2011, og var við útreikn­ing þeirra byggt á niðurstöðum matsins. Tryggingafélagið greiddi stefnanda sam­tals 3.999.816 kr. Þáverandi lögmaður hans, sem annaðist sam­skipti við VÍS fyrir hans hönd, gekk frá uppgjöri og tók við bótum með svohljóðandi fyrir­vara um mat á var­an­legum afleiðingum: „Lögmaður gerir fyrir­vara um mat á var­an­legum afleið­ingum.“

                Stefndu geta þess að í gögnum málsins séu ýmsar upplýsingar um læknis­heim­sóknir og með­ferðir stefn­anda vegna ýmissa kvilla sem ekki tengist umferðar­slys­inu og beri þau meðal annars um óvinnu­færni hans. Þótt þessi gögn tengist ekki umferð­ar­slys­inu telja stefndu rétt að vekja athygli á því að samkvæmt vottorðum hafi stefn­andi verið óvinnu­fær tíma­bilið 12. nóvember 1997 til 20. apríl 1999 ýmist vegna umferð­ar­slyss eða sjúk­dóms. Enn fremur komi fram í einu af fram lögðum vottorðum að stefn­andi hafi verið óvinnu­fær vegna sjúkdóms frá september til áramóta 2010. Auk þess segi í umsókn heilsu­gæslunnar fyrir hönd stefnanda til Sjúkratrygginga Íslands, 25. júní 2012, um lyfja­skír­teini vegna viðvarandi (krónísks) sjúkdóms, að stefnandi eigi í erfið­leikum með […] og vilji fara á örorku vegna þess.

                H bæklunarlæknir vann nýtt mat á varanlegri örorku stefn­anda 25. júní 2012, að beiðni I, löggilts vátryggingamiðlara, vegna starfs­örorku­trygg­ingar J. Þar kemur fram að stefnandi hafi sagt H, að hann fyndi alltaf fyrir afleiðingum slyss­ins með verkjum í hálsi og mjóbaki. Verstur væri hann í hálsinum, verkinn leiddi upp í höfuð, út í báðar herðar og niður brjóst­bakið. Einnig væru verkir í mjóbaki. Niður­staða H eftir skoðun var sú, að stefn­andi hefði í umræddu slysi tognað í hálsi og niður í brjósthrygg. Hann mat óvinnu­færni stefnanda til […] 50%.

                Stefnandi veitti núverandi lögmanni sínum umboð 19. október 2012, til þess að krefja VÍS um viðbótarbætur vegna umferðarslyssins og var umboð fyrri lög­manns fellt úr gildi samhliða.

                Nýi lögmaðurinn sendi stefnanda til K geðlæknis þar sem svars var óskað við því hvort þunglyndi, sem stefnandi hefði glímt við, væri afleið­ing af umferð­ar­slysinu og hefði valdið því að stefnandi hefði ekki getað unnið að iðn sinni. Mats­viðtal fór fram 19. janúar 2013. Haft er eftir stefnanda að hann hafi fengið kvíða­kast um tveimur mán­uðum eftir slysið og í fram­haldi af því sótt á hann þung­lyndis­ein­kenni. Það hafi leitt til að hann flosn­aði upp úr vinnu. Einkennin hafi síðan verið til staðar og heldur ágerst þrátt fyrir breyti­lega lyfja­með­ferð við þunglyndinu. Fram kemur að engin fyrri saga sé um þung­lyndi og kvíða hjá stefnanda. Stefnandi hafi verið […]. Stefn­andi skoraði 22 stig á Beck´s mælikvarða fyrir þunglyndi og 15 stig fyrir kvíða, sem staðfesti þung­lyndis­greininguna. Niður­staða læknisins var því sú, að kvíða- og þung­lyndis­ein­kenni stefn­anda væru afleið­ingar slyssins og mikil­vægt væri að þau yrðu metin með þegar fyrir­huguð matsgerð færi fram.

                L skoðaði stefnanda og taldi að ekki væri hægt að bæta ástand hans með frekari læknis­aðgerðum og taldi jafnframt að ekki væri að vænta frekari bata. Fram kemur í vott­orð­inu 16. mars 2013, að frá 2009 hafi stefnandi verið óvinnu­fær og haft verki sem leiði út í handleggi og í bakið. Hann taki Ibufen og Para­ceta­mol. Stefn­andi vakni á nótt­unni vegna verkja og sofi illa. Hann geti ekki unnið við […] og eigi stundum í erfið­leikum með að aka og sé óvinnufær til flests sem teljist lík­am­legt. Sjúkra­þjálfun, nála­stungur og tímar hjá hnykklækni hafi dugað lítið. Enn fremur kemur fram að stefn­andi líði af þunglyndi eftir slysið og kvíði hafi komið í kjöl­farið. Hann hafi verið utan við sig og hafi átt erfitt með að ein­beita sér, verið mátt­laus og haft doða. Hann hafi ofvirknieinkenni og gleymi því fljót­lega hvað hann ætli að gera. Þá hafi sjónin versnað um heilan á tveimur árum.

                Að auki fór stefnandi að undirlagi lögmanns síns til M heila- og taugaskurðlæknis. Í læknisvottorði hans, 30. apríl 2013, kemur fram að stefn­andi hafi hlotið slæma tognun í háls- og brjósthrygg í umferð­ar­slysinu. Hann hafi frá þeim tíma daglega haft umtals­verð tognun­ar­ein­kenni, með leiðni upp í höfuð, út í herðar. Í kjölfar slyssins hafi þróast kvíði og þung­lyndi. Verkir og þung­lyndi krefðust stöð­ugrar lyfjameðferðar, en önnur með­ferð eins og sjúkra­þjálfun og hnykk­ingar hafi ekki fært honum varanlegan bata. Sem svar við spurningu um framtíð­ar­horfur segir M að ástand eftir stoð­kerfis­skaða sé viðvarandi og ekki að vænta neins bata. Kvíði og þunglyndi þyrfti mark­viss­ari þjálfun.

                Með beiðnum 10. og 20. janúar 2014 fór stefnandi einhliða fram á mat þriggja mats­manna, N lögfræðings, O bækl­un­ar­læknis og P, geð- og embættislæknis. Hann bað þá að meta að nýju and­legar og líkamlegar afleiðingar slyss­ins 9. ágúst 2006, samkvæmt ákvæðum skaða­bóta­laga nr. 50/1993.

                Í matsgerð þeirra, 5. mars 2014, er vísað til vottorða lækna sem stefnandi hafði leitað til, bæði fyrr og síðar, og einnig fyrri matsgerðar frá 2010, um fyrra heilsufar, persónu­sögu og afleið­ingar umferðarslyssins.

                Um núverandi einkenni hafa matsmenn eftir stefnanda að hann sé almennt lélegur til heilsu og þunglyndið sé mjög truflandi. Hann hafi alltaf verki milli herða­blaða, upp í hnakka og hnakkagróf og síðan upp í höfuð með stingjum, segist vera stirður í hálsi og hnakka. Þá séu stundum verkir í mjóbaki. Svefn sé mis­jafn, skamm­tíma­minni lélegt og einbeiting en langtímaminni í lagi. Kvíði hafi gert vart við sig um tveimur mánuðum eftir slysið, hann hafi leitað aðstoðar árið 2007 eða 2008 hjá heim­ilis­lækni en 2009/2010 hafi þetta snarversnað. Hann hugsi ekki mikið um slysið og umferð trufli hann ekki.

                Í samantekt og niðurstöðu matsmanna segir að saga stefnanda sé nokkuð flókin vegna fyrri sögu en hann hafi verið metinn til örorku vegna hennar. Ætla verði að heilsu­tjón hans vegna tognunar nú í hálsi og brjósthrygg sé að mestu leyti vegna áverk­ans við umferðarslysið 9. ágúst 2006. Matsmenn taka fram að stefnandi eigi sögu um […] og að til­hneig­ing til þung­lyndis og kvíða sé vel þekkt afleiðing hans. Þar sem engum gögnum sé til að dreifa sem greini á milli þessara þátta hjá stefn­anda verði að áætla hluta sem verði rakinn til slyssins og hluta sem verði rakinn til annars. Mats­menn taka einnig fram að líta verði til þess að stefnandi hafi ein­göngu að hluta leitað sér með­ferðar vegna geð­ein­kenna.

                Niðurstaða matsmanna er að heilsufar stefnanda hafi verið stöðugt 9. ágúst 2007. Tímabil óvinnufærni sé ekkert enda engin læknisfræðileg gögn í málinu sem stað­festi óvinnufærni hans. Veikindatímabil töldu matsmenn vera frá slysdegi til 9. nóv­em­ber 2006, án rúmlegu. Því til stuðnings vísa matsmenn til þess að samkvæmt lækna­bréfi slysa­deildar hafi stefnandi haft veruleg tognunareinkenni frá hálsi og brjóst­hrygg.

                Matsmenn mátu varanlegan miska stefnanda 20 stig. Sú niðurstaða byggðist á því að tognun á hálsi og brjósthrygg yrði að mestu rakin til umferðarslyssins. Hann hafi verulega verki og hreyfiskerðingu, bæði í hálsi og brjósthrygg, sem samkvæmt miska­töflum nemi á bilinu 13-16 stigum. Matsmenn töldu miska vegna þessara áverka hæfi­lega metinn 12 stig og var þá tekið tillit til fyrri áverkasögu.

                Matsmenn töldu geðeinkenni einnig gefa miska en ekki væri við íslenskar miska­töflur að styðjast um það en danskar töflur gefi 15 stig vegna langvinns meðal­alvar­legs þunglyndis. Matsmenn töldu sögu stefnanda sýna að þunglyndið yrði ekki ein­göngu rakið til slyssins og að hæfilegt væri að miski vegna þess væri 8 stig. Var við það einnig tekið tillit til þess að þunglyndi var eingöngu meðhöndlað að hluta. Mats­menn mátu varanlega örorku stefnanda, vegna áverka sem hann hlaut í umferð­ar­slys­inu, 20%.

                Stefndu telja ljóst af matsgerð að aðferð matsmannanna þriggja, við mat á var­an­legum afleiðingum slyssins fyrir stefnanda, sé sú sama og notuð var í sam­eigin­legu mati málsaðila í nóvember 2010, þ.e. að bera saman tvær atburða­rásir atvinnu­þátt­töku, þ.e. annars vegar ef stefnandi hefði ekki lent í slys­inu og hins vegar að teknu til­liti til slyss­ins. Matsmenn telji að stefnandi muni eiga erfitt með að vinna líkamlega krefj­andi störf eins og þau sem hann vann áður. Starfs­geta hans til þess hafi því skerst og einnig úthald. Þá kunni að vera erfitt fyrir hann að fá starf við hæfi þar sem sam­keppn­is­staða hans á vinnumarkaði hafi versnað og einnig geti aldur spilað þar inn í.

                Matsmenn voru beðnir að leggja mat á hvort heilsufar stefnanda hefði versnað frá nóvember 2010. Um það segja matsmenn að hreyfiskerðing í hálsi hafi aukist að því leyti sem hægt sé að bera saman athuganir á því. Þá séu meiri einkenni verkja- og hreyfi­skerðingar í brjóst­hrygg. Einnig segja matsmenn að þung­lyndis­ein­kenni hafi 2010 verið meðal-alvarleg og séu það enn í dag. Matsmenn töldu líkur á því að hluti af þung­lyndi og kvíða stefnanda yrði rakinn til fyrri sjúkrasögu og hluti yrði rakinn til slyss­ins. Var­an­legur heildarmiski stefnanda var metinn, að teknu tilliti til fyrra heilsu­fars, til 20 stiga og varanleg örorka að álitum metin 20%.

                Stefndu árétta að þar sem mats­mennirnir hafi ekki verið dómkvaddir til starf­ans sé mat þeirra ekki yfirmat á mati gerðu 30. nóvember 2010, og sem uppgjörið byggi á, heldur hlið­stætt mat sem skoða verði sem nýtt mat á einkennum umferðar­slyss­ins.

                Stefnandi krafði VÍS um bætur, 6. mars 2014, vegna viðbótar­miska og við­bótar varanlegrar örorku, í samræmi við niðurstöðu matsgerðar í mars 2014. Svars var kraf­ist í síðasta lagi eftir 14 daga eða 20. mars 2014. Áður en VÍS gæf­ist færi á að taka afstöðu til fram kominnar kröfu var stefna birt félag­inu 12. mars 2014.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir kröfu sína aðallega á því, að í tjónskvittun, sem þáverandi lög­maður hans samþykkti, 28. janúar 2011, sé lögmætur fyrirvari um mat á var­an­legum afleið­ingum slyssins 9. ágúst 2006. Nú liggi fyrir ný sönnunargögn um afleið­ingar þess, svo sem vottorð frá geðlækni og nýtt sérfræðimat, þar sem fram komi að miski og örorka séu verulega hærri en talið hafi verið í upphaflegu mati. Því sé ljóst að var­an­legar afleið­ingar umferðarslyssins, 9. ágúst 2006, séu meiri, en áður hafði verið metið á grund­velli takmarkaðra læknisfræðilegra gagna. Í sérfræði­mats­gerð 5. mars 2014 sé var­an­legur miski talinn 20 stig og varanleg örorka 20%.

                Stefndi, B, hafi átt bifreiðina […], sem var ekið á þá bifreið sem stefn­andi var farþegi í, í umrætt sinn. Bifreiðin […] hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgð­ar­trygg­ingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Það sé ágreiningslaust að öku­maður bif­reið­ar­innar […] beri ábyrgð á þessu óhappi. Grundvöllur bóta­skyldu sé óumdeildur, enda hafi stefndu viðurkennt bótaábyrgð á slysinu og hið stefnda félag greitt stefnanda bætur.

                Samkvæmt tjónskvittun vegna fullnaðaruppgjörs 28. janúar 2011, hafi hið stefnda tryggingafélag greitt stefnanda 3.999.816 kr. Starfsmaður félagsins ann­ars vegar og þáverandi lögmaður stefn­anda hins vegar hafi ritað undir skjalið. Á tjóns­kvitt­unina hafi sá síðarnefndi sett skýran og ótví­ræðan fyrirvara um mat á varan­legum afleið­ingum slyssins. Hvergi komi fram, hvorki á því skjali sem nefnist full­nað­ar­upp­gjör né sjálfri tjónskvittuninni, að endur­upp­taka komi ekki til álita nema skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu uppfyllt. Stefnandi byggi á því að 11. grein skaða­bóta­laga komi ekki til álita í þessu máli, nema sem laga­rök fyrir varamálsástæðu stefn­anda. Það sem skipti máli sé, að þáverandi lögmaður stefn­anda hafi efast um að rétt hafi verið metið og því gert fyrirvara við mat á afleið­ingum slyssins, það er fyrir­vara við þá mats­gerð sem var grundvöllur þess bóta­upp­gjörs sem fram hafi farið.

                Ágreiningur málsins snúist um þá viðbótarfjárhæð, sem stefndu beri að greiða skv. 4. og 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 fyrir varanlegan miska og varanlega örorku stefn­anda samkvæmt niðurstöðu matsgerðarinnar frá 5. mars 2014. Matsgerðinni hafi ekki verið mótmælt með rökum og ekki verið hnekkt. Því beri að leggja hana til grund­vallar dómi í málinu, enda séu afleiðingar slyssins verulega meiri og aðrar en gert hafi verið ráð fyrir, þegar gengið var til bótauppgjörs 28. janúar 2011. Lögmaður stefn­anda hafi sett skýran fyrirvara um frekari bætur en þá voru inntar af hendi. Almenn skilyrði fjármunaréttar, kröfu- og samningaréttar séu því fyrir því að bóta­ákvörðun hins stefnda tryggingafélags verði endurupptekin.

                Stefnandi byggi á því að hann hafi fyrst fengið það staðfest, þegar hann leitaði til K geðlæknis, í janúar 2013, að hann bæri andlegar afleiðingar vegna umferð­ar­slyssins. Þá loks hafi sérfræðingur í geð­lækningum staðfest þessar afleiðingar slyss­ins í skilningi 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og stefnandi þá fyrst átt þess kost að leita fulln­ustu kröfunnar, sbr. dóma Hæsta­réttar í málum nr. 615/2007, nr. 661/2007, nr. 259/2008 og nr. 536/2008. Niðurstaða þessara dóma sé að fyrn­ing­ar­frestur bótakröfu vegna líkams­tjóns hefjist ekki fyrr en tjón­þoli geri sér grein fyrir að áverkar eftir slys séu var­an­legir, en á þeim tíma eigi tjón­þoli þess fyrst kost að leita fulln­ustu kröfu sinnar, sbr. 99. gr. umferðarlaga. Í ofangreindum dómum sé miðað við komu tjónþola til bækl­unar- eða tauga­læknis, sem greini varanlegan áverka. Stefnandi byggi á að sama gildi um sér­fræð­ing í geð­lækn­ingum.

                Krafa stefnanda sé grundvölluð á sérfræðimatsgerð P geð­læknis, O bæklunarlæknis og N lög­fræð­ings, frá 5. mars 2014. Stefnandi krefjist 13 miskastiga til viðbótar og 13% varan­legrar örorku til viðbótar því sem honum hafi áður verið greitt. Útreikningur bótakröfunnar sé í kröfubréfi, dags. 6. mars 2014, en krafan sundurliðist svo:

Miskabætur

10.080.000 x 13 stig

1.310.400 kr.

Bætur fyrir varanlega örorku

4.656.581 x 8,459 x 13%

5.020.632 kr.

Samt. krafa án lög­m.­kostn. og vaxta

 

6.331.032 kr.

                Stefnandi byggi á því að upphaflegt mat hafi verið svokallað sameiginlegt mat, sem sé í andstöðu við 10. gr. skaðabótalaga, sbr. 9. gr. laga nr. 37/1999. Í greinar­gerð með 9. gr. laga nr. 37/1999 segi að sérfræðilegt mat, sem annar máls­aðila afli, geti tjón­þoli eða sá sem sé krafinn bóta borið undir örorkunefnd. Með þessu hafi hlut­verk örorku­nefndar breyst og hún verði fyrst og fremst matsaðili á síðari stigi. Einnig komi fram að frá þeirri aðalreglu að örorkunefnd fjalli ekki um mál á fyrsta stigi sé gerð sú und­an­tekning að málsaðilar geti sameiginlega óskað álits örorku­nefndar um ákvörðun örorku- og/eða miskastigs, án þess að áður liggi fyrir sérfræði­legt álit.

                Stefnandi byggi á því að sérfræðimatsgerð hans hafi verið sótt í samræmi við efni 10. gr. skaðabótalaga, með áorðnum breytingum og matsgerðinni hafi ekki verið hnekkt. Í samræmi við þetta byggi stefnandi á að fyrri mats­gerð­inni, sem stefnandi og trygg­ingafélagið hafi beðið sam­eigin­lega um, hafi verið hnekkt með sérfræðimatsgerð dags. 5. mars 2014, auk nýlegra vott­orða frá bækl­unar-, tauga- og geðlæknum. Stefn­andi vísar þessu til stuðn­ings einnig til almennra sönn­un­ar­reglna og hins frjálsa mats dóm­ara.

                Verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður stefnanda til grundvallar bóta­kröfum hans, byggi hann á almennum reglum fjármunaréttar um rangar og brostnar forsendur. Sé ekki fallist á ofangreindar málsástæður, verði að álykta sem svo, að mats­gerðin frá 30. nóvember 2010, hafi ekki verið nægilega vel unnin og þar með röng, en við því hafi stefnandi ekki mátt búast. Ekki verði með sanngirni byggt á því gagn­vart stefnanda, sem neytanda, að hann verði að hlíta fyrra matinu, þótt í ljós verði leitt með nýju mati að honum hafi ekki versnað frá því fyrra matið var gert. Í því efni nægi sá fyrirvari sem gerður hafi verið.

                Þá verði enn fremur að ætla, að ekki hafi verið gætt réttra matssjónarmiða sam­kvæmt 5. grein skaðabótalaga, ekki sé ljóst hvernig matsmenn meti varanlega lækn­is­fræði­lega örorku, þar sem áverkarnir séu ekki færðir undir þá liði íslensku miska­tafln­anna, sem mæli varanlegan miska. Í matsgerðinni komi því ekki fram hvernig svo­kall­aður miski sé metinn og hvort andlegar afleiðingar stefnanda eftir slysið séu þar metnar til stiga, það er hvort upplifanir hans á slysinu séu þar teknar með í reikning­inn, sem og þung­lynd­is­afleiðingar umferðarslyssins. Stefnandi byggi á því að sú ákvörðun hans að taka við bótunum, hafi grundvallast á því, að fyrri matsgerð hafi verið rétt og löglega gerð. Hann hafi mátt treysta því, eins og áður segi. Hafi svo ekki verið, geti stefnandi byggt á því, að samningur hans um endanlegar bætur sé ógildan­legur á grund­velli reglna fjár­muna­réttar um rangar og brostnar forsendur. Í því efni byggi stefn­andi einnig á því inntaki 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda lög­gern­inga, með síðari breytingum, að óheið­ar­legt sé, að hið stefnda félag byggi á hinni fyrri matsgerð, reynist hún röng í veru­legum atriðum. Við mat á því hvort matsgerðinni sé áfátt verði að horfa til þess, að annar þeirra matsmanna sem vann fyrri matsgerðina, D bæklun­ar­læknir, hafi verið trúnaðarlæknir Vátrygg­inga­félags Íslands hf. og gætt hags­muna félags­ins í slysa­málum, þegar matið fór fram, en stefn­andi hefði aldrei sam­þykkt D sem mats­mann, hefði hann vitað um stöðu hans. Þá hafi E verið fyrr­ver­andi starfs­maður VÍS og því rétt­mætt að efast einnig um hlut­leysi hans, við gerð mats­ins.

                Varamálsástæður stefnanda séu því þær, verði ekki fallist á fyrri málsástæðu um skýran fyrirvara, að fyrirliggjandi uppgjör sé ógilt á grundvelli ógildingarreglna samn­inga­réttar og fjármunaréttar og í öðru lagi, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, með því að taka við þeim skaðabótum, sem honum hafi verið greiddar. Eigi hið stefnda félag meðal annarra sök á tjóni hans. Þá hafi stefnandi einnig þjáðst af þunglyndi á þeim tíma er hann tók við fjárhæðum á grundvelli hinnar upp­haf­legu matsgerðar, eins og fram komi í fyrri matsgerðinni og ekki verið í stakk búinn til að játa einu né neinu. Það geti ekki haft nein áhrif að stefnandi hafi notið aðstoðar lög­manns, sem eigi þá einnig sök á tjóni stefn­anda samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar. Stefnandi byggi í því efni á þeirri reglu skaðabótaréttar, að þegar tjónvaldar séu fleiri en einn, þurfi tjón­þoli ekki að stefna öllum sem sök eigi á tjóni, heldur geti beint skaða­bóta­kröfu sinni að einum þeirra.

                Stefnandi bendir á í þessu sambandi að framkvæmdin sé sú, hjá hinu stefnda trygg­ingar­félagi, að trúnaðarlæknir félagsins mæti á fundi með starfsmönnum tjóna­deildar og fari yfir þær matsgerðir sem félaginu berist og kröfur á hendur því eru byggðar. Meti trúnaðarlæknir það svo að eitthvert mat, sem kröfur eru byggðar á, sé ekki nægilega traust ráðleggi hann félaginu að biðja um mat dóm­kvaddra mats­manna eða vísa matinu til örorkunefndar. Stefnandi byggi á því að óheiðar­legt hafi verið af félag­inu að láta slíkan ráðgjafa þess standa að mats­gerð­inni og hafi félagið með því sýnt af sér sök og beri einnig ábyrgð á gerðum trúnaðar­lækn­is­ins, vegna náinna tengsla félagsins og læknisins. Hið stefnda félag hafi því ekki gætt hags­muna stefn­anda eins og félaginu hafi borið að gera samkvæmt grunnreglum vátrygg­inga­réttar, sbr. t.d. 1. gr. laga nr. 56/2010 um starfsemi vátryggingafélaga. Til grund­vallar þessari máls­ástæðu vísar stefnandi einnig til 1. gr. laga nr. 74/1997 um rétt­indi sjúkl­inga, sem og til meg­in­reglna laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn og laga um lögmenn. Þá vísar stefn­andi í þessu sam­hengi til 31. gr. laga nr. 7/1936, um samn­ings­gerð, umboð og ógilda lög­gern­inga, með síðari breyt­ingum.

                Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til þeirra lagareglna sem þegar hafa verið tilgreindar, til bótakafla umferðarlaga nr. 50/1987, til skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, sem og til almennra reglna kröfu- og samningaréttar (fjár­muna­réttar) um gildi fyrirvara og réttaráhrifa þeirra. Um útreikning bóta­kröfu vísar stefn­andi til skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og þau voru á slys­degi. Um bóta­rétt og aðild málsins vísar stefnandi til XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Kröfu sína um drátt­ar­vexti reisir hann á ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi vekur athygli á því að í stefnu sé sagt að málið sé höfðað til viður­kenn­ingar á tilteknum dómkröfum. Þrátt fyrir þetta krefjist stefnandi þess að stefndu greiði honum tiltekna fjárhæð með nánar tilgreindum vöxtum. Stefndu telja þessa fram­setn­ingu dómkrafna ekki samrýmast þeirri reglu d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómkrafa sé annað hvort fjárhæð kröfu í krónum eða án fjár­hæðar og þá til viðurkenningar. Þessu til viðbótar tilgreini stefnandi engar forsendur fyrir því að málið sé höfðað sem viðurkenningarmál og það rökstutt, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu telja þetta slíkan formgalla á efni stefnu að það kunni að leiða til vís­unar málsins frá dómi án kröfu.

                Stefndu mótmæla alfarið öllum kröfum og málsástæðum stefnanda. Stefndu byggja kröfu sína um sýknu á því að stefnandi eigi ekki lögvarinn rétt til frekari bóta, vegna þess umferðarslyss sem þetta mál snýst um, en þegar hafi verið greiddar með bóta­upp­gjöri Vátryggingafélags Íslands hf., 28. janúar 2011. Stefnandi hafi ekki orðið fyrir frek­ara tjóni sem stefndu verði gert að bera ábyrgð á gagnvart honum og bæta með greiðslu úr lögbundinni ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar […].

                Samkvæmt reglum um sönnun og sönnunarbyrði hvíli á herðum stefnanda sönn­un­ar­byrðin fyrir því að hann eigi rétt til frekari bóta. Það hvíli á honum að sanna að heimilt sé að lögum að taka upp á ný bótauppgjör sem þegar hafi farið fram, hvort sem það sé fyrir fyrirvarann sem var gerður, á grundvelli almennra reglna fjár­muna­réttar um brostnar og rangar forsendur, á grundvelli skilyrða 11. gr. skaðabóta­laga nr. 50/1993 eða af öðrum ástæðum.

                Jafnframt hvíli á stefnanda að sanna að afleiðingar umferðarslyssins hafi verið aðrar og meiri en þær sem metnar voru með matsgerð D, 30. nóvem­ber 2010, og lagðar voru til grundvallar við bótauppgjörið.

                Sýknukrafa stefndu byggir nánar á eftirfarandi málsástæðum.

Allar frekari bótakröfur stefnanda eru fyrndar samkvæmt fjögurra ára fyrn­ingar­reglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

                Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að óháð því hvort endurupptaka sé heimil leiði fyrningarákvæði 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 til þess að bóta­krafa stefn­anda hafi, áður en þetta mál var höfðað, verið fallin niður fyrir fyrn­ingu. Stefndu taka fram að hvorki bótauppgjör né fyrirvari rjúfi fyrningu.

                Bótakrafa stefnanda sé reist á bótareglum laga nr. 50/1987 og því fari um fyrn­ingu eftir fjög­urra ára fyrningareglu 99. gr. þeirra. Tvö skilyrði séu fyrir upp­hafs­tíma fjög­urra ára fyrningarfrestsins. Annars vegar verði tjónþoli að hafa fengið vitn­eskju um kröfuna og hins vegar verði það tímamark að vera komið að hann eigi þess fyrst kost að leita fullnustu kröfunnar. Bæði þessi skilyrði verði að vera uppfyllt.

                Stefndu telji dómvenju fyrir því að beita skuli hlutlægum mælikvarða á það hvenær tjónþoli megi gera sér grein fyrir kröfu sinni og geti leitað fullnustu hennar. Hér verði að horfa til þess hvenær tjónþola hafi fyrst gefist færi á að hefjast handa en ekki hvenær hann hafi ákveðið það. Annað viðmið þýddi að tjónþoli réði því í raun sjálfur hvenær fyrningarfresturinn hæfist og ákvæði þannig upphaf frests­ins. Það geti vita­skuld ekki staðist þegar litið sé til þess að fjögurra ára fyrningarreglan sé, eins og aðrar fyrningarreglur, sett í þágu greiðanda og almannahagsmuna en ekki í þágu kröfu­hafa.

                Stefnandi byggi á því að hann hafi fyrst fengið vitneskju í skilningi 99. gr. laga nr. 50/1987 um andlegar afleiðingar slyssins, í janúar 2013, eftir að hann leitaði til K geðlæknis. Fyrningarfrestur 99. gr. hafi því fyrst geta hafist þá. Þessu hafna stefndu alfarið sem röngu og ósönnuðu.

                Stefndu benda á að þunglyndiseinkenni stefnanda hafi legið fyrir þegar við fyrra matið og stefnandi hafi því haft vitneskju um þau einkenni sem afleiðingu slyss­ins frá upp­hafi. Þá segi ekkert um það í matsgerð D, 30. nóvember 2010, að ekki hafi verið tekið tillit til and­legra einkenna eins og matmennirnir P og O haldi fram í mati 5. mars 2014 enda rök­styðji þeir þá full­yrð­ingu ekki. Í báðum matsgerðum meti matsmenn sömu einkenni og helg­ist mis­munur á niðurstöðum ein­göngu af því að matsmenn leggi mismunandi mat á sömu áverka og einkenni.

                Stefndu byggja á því að miða beri upphaf fjögurra ára fyrningarfrests 99. gr. laga nr. 50/1987 við það tímamark þegar matsmenn töldu stöðugleika hafa verið náð en í hvorugu matinu hafi matsmenn verið beðnir að leggja mat á það hvenær tíma­bært hefði verið að meta afleiðingar slyssins.

                Eigi að miða upphaf fyrningar við eitthvað annað, síðara tímamark, eftir að tjón­þola verði ljóst að hann hafi hlotið varanlegar líkamlegar afleiðingar af slysi, sé nauð­syn­legt að sýna fram á aukin og/eða ný einkenni vegna slyssins. Það verði að liggja fyrir að líkamlegt ástand tjónþola hafi breyst frá því sem áður var metið, vegna auk­inna og/eða nýrra einkenna sem ekki voru til staðar áður.

                Stefndu byggja á því að svo sé ekki í tilviki stefnanda enda ljóst af fyrir­liggj­andi matsgerðum að einkenni stefnanda sem þar séu metin séu í meginatriðum þau sömu. Í þeirri matsgerð sem stefnandi leggi til grundvallar stefnukröfum byggi mats­menn ekki á neinu nýju, hvorki nýjum einkennum né auknum einkennum þeirra fyrri.

                Í mati 30. nóvember 2010 sé heilsufar stefnanda talið stöðugt 9. nóvem­ber 2006. Miðað við það hafi fyrningarfrestur runnið út í árslok 2010 eða löngu áður en þetta mál var höfðað. Sama eigi við sé miðað við matsgerðina 5. mars 2014. Stöð­ug­leika sé þar talið náð 9. ágúst 2007 og miðað við það hafi fyrningarfresti lokið í árs­lok 2011, sem sé sömu­leiðis löngu fyrir málshöfðunina.

                Verði ekki fallist á framangreint byggja stefndu á því að miða beri upphaf fjög­urra ára fyrningarfrests 99. gr. laga nr. 50/1987 við það tímamark þegar stefnandi leit­aði sér fyrst lög­manns­aðstoðar sem ætla má að hafi verið í því skyni að gæta hags­muna hans við bóta­kröfu og eftirfarandi uppgjör.

                Eftir því sem segi í matsgerðinni, 30. nóvember 2010, hafi stefn­andi veitt fyrri lög­manni sínum umboð, 18. júní 2008. Stefndu telja ekki annað koma til álita en að stefn­andi hafi á þeim tíma haft fulla vitneskju um tjón sitt og á því tímamarki átt þess kost að leita fulln­ustu þess í skilningi 99. gr. Fyrningarfresti hafi sam­kvæmt þessu lokið í árslok 2012, eða áður en þetta mál var höfðað.

                Stefndu hafna því að þeir dómar sem stefnandi vísi til í stefnu eigi við enda atvik í þeim málum allt önnur.

Fyrirvarinn við bótauppgjörið veitir ekki heimild til endurupptöku og skilyrði 11. gr. skaða­bóta­laga fyrir endurupptöku ekki uppfyllt

                Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að sá fyrirvari sem gerður var við bóta­upp­gjörið leiði ekki til þess að endurupptaka þess sé heimil, án þess að skil­yrði 11. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993 séu uppfyllt, en fyrirvarinn hljóði svo: Lög­maður gerir fyrir­vara um mat á varanlegum afleiðingum.

                Fyrirvarinn sé almennur og stefnandi skýri ekki hvernig beri að skýra hann. Hins vegar sé dóm­venja fyrir því að skýra beri fyrirvara á þann veg að áskilinn sé réttur til frekari bóta, verði varanlegar afleiðingar meiri en talið var í því mati sem lagt var til grund­vallar, vegna síðari breytinga. Stefndu vísa hér til skýrs fordæmis Hæsta­réttar í dómi réttarins í máli nr. 576/2013.

                Í almennum fyrirvara, eins og þeim sem var gerður við uppgjörið á tjóns­kvittun, 28. janúar 2011, felist ekki áskilnaður um endurupptöku reynist mat, sem upp­gjör er reist á, vera rangt. Í því tilviki þurfi fyrirvarinn að vera mun skýrari um það sem honum sé ætlað að taka til. Sé fyrirvari almennur komi endurupptaka ein­göngu til álita séu skil­yrði 11. gr. skaðabótalaga jafnframt uppfyllt. Annað væri í hæsta máta óeðli­legt þar sem þá væri hægt að komast fram hjá lagaskilyrðum endur­upp­töku með því einu að gera almennan fyrirvara við sérhvert bótauppgjör.

                Stefndu byggja á því að heimild til endurupptöku verði ekki byggð á 11. gr. skaða­bóta­laga þar sem skilyrði ákvæðisins séu ekki uppfyllt. Fyrir það fyrsta sé hvorki reifað né rökstutt í stefnu á hvern hátt skilyrði ákvæð­is­ins séu uppfyllt en stefnandi vísi til ákvæðisins sem lagaraka fyrir vara­máls­ástæðu fyrir endurupptöku. Því megi segja að þessi málsástæða sé vanreifuð og eigi því að vísa henni frá án kröfu.

                Í annan stað séu skilyrði 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku ekki upp­fyllt. Samkvæmt ákvæðinu séu skilyrðin þau að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjón­þola þannig að ætla megi að miska- eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.

                Stefndu hafna því alfarið að í síðari matsgerð, 5. mars 2014, sé gerð grein fyrir slíkum nýjum, verulegum, ófyrirsjáanlegum breytingum á heilsufari stefnanda sem raktar verði til slyssins, frá hinu fyrra mati 30. nóvember 2010, að skilyrði 11. gr. skaða­bóta­laga séu uppfyllt.

                Við samanburð á umfjöllun matsmanna um mögulegar afleiðingar sé ekki annað að sjá en matsmenn meti sömu einkenni, þótt orða­lag kunni að einhverju leyti að vera mismunandi. Mismunurinn sé því augljóslega óverulegur á þeim ein­kennum sem stefnandi kvarti yfir sem afleiðingu slyssins og lögð séu til grund­vallar mati.

                Það að matsmenn hins endurskoðaða mats telji miska og varanlega örorku til hærri prósentustiga sanni ekki að afleiðingar séu í raun og veru aðrar og meiri en í því mati sem var lagt til grundvallar uppgjöri eða að ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu­fari hafi átt sér stað. Matsmenn leggi einungis mis­mun­andi mat á sömu einkenni enda bygg­ist matsgerðir í líkamstjónamálum almennt á hug­lægum viðhorfum matsmanna. Ekki sé því ólíklegt að slíkt mat hækki með nýrri mats­gerð þótt engar nýjar og ófyrir­sjáan­legar afleiðingar hafi komið fram heldur séu metin sömu einkennin. Stefndu árétta að þunglyndiseinkenni stefnanda hafi legið fyrir frá upphafi og það sé einkenni þung­lyndis að það sé sveiflukennt.

                Þá benda stefndu á að hin síðari matsgerð, 5. mars 2014, hnekki ekki fyrra mati þar sem, eins og áður sagði, matsmenn hafi ekki verið dóm­kvaddir og nýja matið því hliðstætt mat. Krafa stefnanda um endur­upp­töku, sem byggi á þessu nýja mati, grund­vallist þannig ekki á því að nýtt mat hafi hnekkt fyrri niður­stöðu, að því leyti að nýjar og/eða breyttar afleiðingar hafi komið fram, umfram þær sem fyrir voru. Í síðara mat­inu séu eingöngu endurmetnar mögu­legar afleið­ingar. Stefnandi hafi þannig í raun ein­göngu aflað sér nýrrar mats­gerðar um mögu­legar afleiðingar, þar sem hann taldi þá fyrri ranga. Í slíku tilviki komi endur­upp­taka sam­kvæmt 11. gr. skaðabótalaga ekki til álita enda geri skilyrði ákvæðis­ins ekki ráð fyrir endur­upptöku þegar þannig hátti til.

Meint saknæm háttsemi stefndu ósönnuð auk þess að vera órökstudd og vanreifuð

                Stefndu hafna alfarið öllum fullyrðingum í stefnu um að stefndu hafi sýnt af sér saknæma háttsemi gagnvart stefnanda við bótauppgjörið.

                Helst megi skilja málatilbúnað stefnanda um þetta þannig að það hafi verið óheið­ar­legt af stefndu að ganga til uppgjörs við stefnanda á grundvelli mats­gerðar­innar, 30. nóvember 2011, og/eða að annar matsmaðurinn hafi haft tengsl við stefndu.

                Þessu hafna stefndu alfarið sem röngu og ósönnuðu. Í stefnu sé hvergi reifað og rökstutt hver meint saknæm háttsemi þeirra eigi að hafa verið. Þá leitist stefn­andi ekki við að sanna þetta né tilgreina orsaka­tengsl við meint tjón stefnanda tengt þessu, sem sé þar að auki ósannað. Stefndu telja mála­til­búnað stefnanda um sak­næma hátt­semi svo vanreifaðan að varði frá­vísun án kröfu.

                Stefndu hafna því sérstaklega að hafa sýnt af sér þá háttsemi gagnvart stefn­anda sem nefnd er í 31. gr. samningalaga nr. 7/1936 og að hafa komið óheið­ar­lega fram við stefnanda við bótauppgjörið.

                Stefnandi hafi notið aðstoðar lögmanns allt frá því að hann hóf að leita réttar síns en samkvæmt matsgerð, 30. nóvember 2010, hafi hann gefið fyrri lögmanni sínum umboð, 18. júní 2008. Því hafi ekki hallað á stefnanda á nokkurn hátt í sam­skiptum hans við stefndu, hvorki við ákvarðanir í tengslum við matið né uppgjör á grund­velli þess. Sú fullyrðing stefnanda að ekki skipti máli þótt hann hafi haft lög­mann sér við hlið allan tímann í samskiptum við stefndu sé röng og sé henni alfarið hafnað.

                Stefndu beri hvorki skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á niðurstöðu matsins né beri stefndu að lögum skaðabótaábyrgð á matsmönnum eða verkum þeirra við fram­kvæmd matsins. Öllum fullyrðingum stefnanda um slíkt sé alfarið mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Þar fyrir utan sé ekkert það samband á milli stefndu og mats­manna að til þess geti komið. Hið stefnda félag hafi ekki verið vinnuveitandi mats­manna, hvorki við gerð mats­ins eða að öðru leyti, heldur matsmenn sjálfstæðir í mats­störfum sínum.

                Stefndu benda sérstaklega á að lögmaður stefnanda hafi gætt hagsmuna hans gagn­vart stefndu við uppgjörið á þann hátt sem hann taldi þörf á. Jafnframt hafi lög­maður stefn­anda staðið að matsgerðinni 30. nóvember 2011 með stefndu og hvorki gert athugasemdir við þá mats­menn sem voru valdir né það sem var metið. Reyndar megi ganga út frá því sem vísu að lögmaðurinn hafi tekið þátt í því með stefndu að velja matsmenn. Stefnandi hafi þannig haft alla sömu möguleika og stefndu að velja mats­menn og setja fram mats­spurn­ingar. Öllum fullyrðingum um meinta saknæma hátt­semi stefndu og óheiðarleika hvað þetta varðar sé því alfarið hafnað sem röngum og ósönnuðum.

                Á sama hátt sé því alfarið hafnað sem röngu og ósönnuðu að matsmenn, annar eða báðir, hafi gætt hagsmuna stefndu við matið. Stefndu árétta að þáverandi lög­maður stefn­anda hafi staðið að vali matsmanna með stefndu og hvorki gert athuga­semdir við hæfi mats­manna né störf þeirra. Réttinda stefnanda hafi því verið gætt í hví­vetna bæði við matið og eftirfarandi uppgjör, annað sé ósannað.

                Stefndu hafna því einnig að meint saknæmi geti falist í þeim lagaákvæðum sem vitnað sé til í stefnu. Í stefnu sé engin grein gerð fyrir því að hvaða leyti svo var og stefndu þannig gert mjög óhægt um vik með að fjalla nánar um það.

Sjónarmið um brostnar forsendur eiga ekki við

                Stefndu hafna því alfarið að sjónarmið fjármunaréttar um brostnar og rangar forsendur komi til álita um það hvort heimilt sé að taka bótauppgjörið upp á ný eða hafi áhrif á málið að öðru leyti. Í stefnu sé því mjög takmarkað lýst að hvaða leyti svo geti verið eða að hvaða leyti forsendur sem lágu að baki uppgjörinu hafi verið rangar eða þær nú brostnar. 

                Í því tilviki að stefnandi byggi þetta á því að nú liggi fyrir nýtt mat, þar sem afleið­ingar séu taldar meiri, hafna stefndu því að það eigi við. Stefnandi hafi hvorki fært rök fyrir því né reifað á nokkurn hátt hvað hafi valdið meintum forsendu­bresti þannig að þessar reglur eigi við, en sönnunarbyrðin um það hvíli á honum.

                Forsendur bótauppgjörs teljist því aðeins brostnar að síðar hafi komið í ljós veru­legar nýjar og/eða ófyrirsjáanlegar heilsufarslegar afleiðingar af völdum slyssins. Eins og þegar hafi verið lýst hafi svo ekki verið í tilviki stefnanda. Stefndu vísa til þeirrar umfjöllunar og af hverju hið síðara mat komi ekki til álita sem grund­völlur upp­gjörs.

                Stefndu árétta einnig fyrri umfjöllun um að stefnandi hafi notið aðstoðar lög­manns í öllum samskiptum við stefndu sem leiddu til þess bótauppgjörs sem hann nú freistar að fá endurupptekið á grundvelli rangra og brostinna forsenda. Lögmaður stefn­anda hafi til að mynda staðið að öflun matsgerðarinnar sem uppgjörið var byggt á og hafi stefn­andi þannig haft alla mögulega á að koma á framfæri þeim athuga­semdum við það, teldi hann þess þörf. Stefnandi hafi þannig staðið jafnfætis stefndu að öllu leyti við nefnt upp­gjör og á engan hátt hallaði á hann í þeim samskiptum sem leiddu til upp­gjörs­ins. Öllum full­yrð­ingum um slíkt í stefnu sé alfarið hafnað sem röngum og ósönn­uðum.

Varakrafa – lækkun bóta

                Verði ekki fallist á kröfu stefndu um sýknu krefjast þeir þess til vara að bætur verði lækkaðar. Sú krafa byggist á því að afleiðingar séu of hátt metnar í þeirri mats­gerð sem stefnukrafa byggist á og sé þeirri matsgerð alfarið mótmælt sem sönnun um afleið­ingar. Eins og þegar hafi verið rakið sé ekki annað að sjá en mats­menn síðara mats meti sömu einkenni og í hinu fyrra og þar með ljóst að niður­staða þeirra sé of há.

                Stefndu benda sérstaklega á að það hvíli á stefnanda að afla sér dómkvadds mats í því skyni að hnekkja því mati sem bótauppgjörið byggi á, telji hann það mat rangt og afleiðingar meiri en þar eru metnar. Það hafi stefnandi ekki gert þar sem síð­ari matsgerðin, sem stefnukröfur hans byggist á, hnekki ekki þeirri fyrri heldur sé matið hlið­stætt.

                Stefndu benda einnig á að skekkja í útreikningi stefnanda á kröfu um miska­bætur valdi því að stefnukrafan sé of há og beri að lækka þann kröfulið sem því nemi.

                Þá byggja stefndu á því að lækka beri bætur til stefnanda vegna lögbundins frá­dráttar, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Það sé stefnanda að gera grein fyrir, bæði þeim greiðslum sem hann hafi fengið og eigi rétt á og falli þar undir, enda gildi hér reglan um sönnunarbyrði stefnanda um umfang tjóns síns.

                Stefndu mótmæla vaxtakröfum stefnanda. Eldri vextir en fjögurra ára frá birt­ingu stefnu séu fyrndir og dráttarvextir eigi ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögu.

                Til stuðnings kröfum sínum vísa stefndu einkum til almennra reglna skaða­bóta- og vátryggingaréttar, skaðabótalaga nr. 50/1993, umferðarlaga nr. 50/1987, laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda auk laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála. Krafa þeirra um máls­kostnað byggist á 129. og 130 gr. þeirra laga.

Niðurstaða

                Stefnandi slasaðist 9. ágúst 2006 þegar ekið var aftan á kyrrstæða bifreið sem hann var far­þegi í. Hann fékk strax mikil líkamleg einkenni enda tognaði hann á hálsi og brjósthrygg. Um tveimur mánuðum síðar gerðu andleg einkenni vart við sig, fyrst kvíða­kast en síðar viðvarandi þunglyndi og fleiri einkenni.

                Árið 2008 veitti stefnandi lögmanni umboð til þess að gæta hagsmuna sinna vegna bóta sem hann kynni að eiga rétt á vegna afleiðinga slyssins. Lögmaðurinn og trygg­inga­félag, sem tryggði þá bifreið sem ekið var aftan á þá sem stefnandi sat í, óskuðu sam­eigin­lega mats á varanlegum afleiðingum slyss­ins fyrir stefnanda. Það var niður­staða læknis og lögmanns, sem unnu matið, að miski stefnanda næmi 7 stigum og var­an­leg örorka væri 7%. Af matsgerðinni verður ekki séð að tillit hafi verið tekið til and­legra einkenna stefnanda við matið enda þótt fjallað sé um þau í matsgerðinni. Á grund­velli þessa mats greiddi trygg­inga­félagið stefn­anda bætur, 28. janúar 2011. Þáver­andi lögmaður stefnanda gerði svofelldan fyrir­vara við uppgjörið: „Lögmaður gerir fyrirvara um mat á varanlegum afleiðingum.“

                Þegar komið var fram á árið 2012 taldi stefnandi afleiðingar slyssins alvarlegri en kom fram í niðurstöðu matsins frá nóvember 2010. Hann leitaði til nýs lög­manns sem sendi hann til sérfræðinga í geð-, bæklunar- og heila- og tauga­lækn­ingum. Í kjöl­far rannsókna þeirra fór stefnandi þess á leit við geðlækni, bæklunarlækni og lög­fræð­ing að þeir ynnu mat á varanlegum afleiðingum stefnanda af slysinu. Í mats­gerð, 5. mars 2014, töldu þeir varanlegan miska 20 stig og tóku inn í það mat and­leg einkenni stefn­anda. Var­an­lega örorku töldu þeir 20%. Stefnandi höfðar þetta mál til þess að fá greiddan mismuninn á þeim bótum sem hann fékk greiddar, 28. janúar 2011, á grund­velli sameiginlega matsins og þeim bótum sem hann fengi greiddar yrði matið frá mars 2014 lagt til grundvallar útreikningi bóta.

                Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi sem og matsmennirnir N lögfræðingur og P, geð- og embættislæknir, sem unnu, ásamt O bæklunarlækni, matsgerð dagsetta 5. mars 2014.

                Þótt stefnandi hafi í inngangskafla stefnunnar krafist viðurkenningar bóta­skyldu en krefjist greiðslu fjár í kröfukafla hennar þykir ekki slíkur formgalli á stefn­unni að það leiði til þess að málinu verði vísað frá dómi.

                Bótaábyrgð stefndu, þess ökumanns sem ók aftan á þá bifreið sem stefnandi sat í og vátryggjanda bifreiðarinnar sem hann ók, byggir á XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Stefndu byggja á því að krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt 99. gr. þeirra.

                Við mat á því þarf að taka afstöðu til þess hvenær fjögurra ára fyrningarfrestur 99. gr. laga nr. 50/1987 hafi hafist. Í því ákvæði segir að allar bóta­kröfur samkvæmt XIII. kafla laganna um fébætur og vátryggingu, bæði á hendur þeim, sem ábyrgð ber, og vátrygg­inga­félagi, svo og endurkröfur vátrygg­ingafélags, fyrn­ist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Þessar kröfur fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjóns­atburði.

                Stefndu byggja á því að stefnandi hafi þegar fyrra matið fór fram gert eða að minnsta kosti mátt gera sér grein fyrir því að þung­lynd­iseinkenni hans yrðu rakin til slyss­ins. Hafi hann ekki gert það þá þegar þá sé ekki unnt að miða við síðari tíma en bata­hvörf (stöðug­leika­punkt) annað hvort 9. nóvember 2006 sem séu batahvörf sam­kvæmt sameiginlegu mats­gerðinni eða 9. ágúst 2007 sem séu talin batahvörf sam­kvæmt síðari matsgerðinni.

                Dómurinn getur ekki fall­ist á þessa málsástæðu. Í sameiginlegu mats­gerðinni, dags. 30. nóv­em­ber 2011, er vissulega oft minnst á þung­lyndi sem stefnandi greinir mats­mönnum frá en hins­vegar verður ekki séð að tillit sé tekið til þess við mat á miska hans. Fallist er á það með stefnanda að hann hafi ekki haft nokkrar forsendur til að meta það hvort tengja mætti andlega líðan hans þannig við slysið að hún væri sjálf­stæð afleiðing af því eða einungis vanlíðan tengd hinum líkamlegu afleiðingum slyss­ins fyrir hann og óvinnufærni sem fylgdi þeim. Því er fallist á að hann hafi ekki haft vitn­eskju um kröfu sína í skilningi 99. gr. umferðarlaga, það er að verulegar líkur væru á því að þung­lyndis- og kvíða­ein­kenni hans væru afleiðing af slysinu, fyrr en 21. janúar 2013 þegar hann fékk í hendur læknis­vottorð K geðlæknis. Dóm­ur­inn fellst því á með stefnanda að ekki sé hægt að miða kröfu hans vegna þessara afleið­inga slyssins við fyrri tíma en þann. Krafa stefnanda sem byggir á andlegum áverkum hans af slysinu er því ekki fyrnd sam­kvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

                Stefnandi byggir kröfu sína á því að með fyrirvara sem var ritaður á kvittun fyrir uppgjöri bóta, 28. janúar 2011, hafi þáverandi lögmaður hans gert fyrirvara við þá matsgerð sem var grundvöllur bótauppgjörsins. Fyrirvarinn nægi því til þess að ákvörðun um bætur verði endurupptekin og geti 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ekki staðið því í vegi.

                Sá fyrirvari sem stefnandi byggir á er þannig: „Lögmaður gerir fyrirvara um mat á varanlegum afleiðingum.“ Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 576/2013 reyndi á fyrir­vara sem hljóðaði svo: „Gerður er fyrirvari við mat á miska og varanlegri örorku.“ Í dómi sínum tekur réttur­inn fram að þar sem ekki liggi fyrir gögn, um það hvernig skýra beri fyrirvarann eða ástæður þess að hann hafi verið gerður, verði að skýra hann svo að tjónþoli hafi með honum áskilið sér rétt til frekari bóta yrðu varanlegur miski eða varanleg örorka meiri en talið var í áliti, sem tjónþoli og tryggingarfélag tjónvalds öfl­uðu í sameiningu, vegna síðari breytinga. Eðli máls samkvæmt yrði fyrirvarinn á hinn bóginn ekki skýrður svo að tjónþolinn hefði áskilið sér rétt til endurupptöku bóta­ákvörð­unar vegna þess að matið, sem hún var reist á, kynni að vera rangt. Fyrir­varar sem lúti að tilteknum forsendum mats verði að vera ótvíræðir, sbr. til dæmis dóm Hæsta­réttar 18. janúar 2007 í máli nr. 300/2006.

                Í þessu máli eru aðstæður að því leyti til eins og í máli Hæstaréttar nr. 576/2013 að meðal gagna málsins er ekkert sem varpað getur frekara ljósi á fyrir­ætl­un­ina með gerð fyrirvarans. Þykir hér það sama eiga við, að hefði stefnandi talið matið rangt, meðal annars vegna þess að þung­lyndi hans og kvíði, sem þá þegar íþyngdu honum talsvert, voru ekki látin hafa þýðingu við ákvörðun miskastiga í sameiginlegu mats­gerð­inni hefði hann í stað þess að taka við bót­unum getað óskað álits örorku­nefndar eða óskað dómkvaðningar matsmanna til þess að hnekkja henni. Það gerði hann ekki heldur tók við bótum með áðurnefndum fyrirvara.

                Dómurinn fellst á það með stefndu að úr fyrirvaranum, eins og hann er orð­aður, verði ekki ótvírætt lesið að með honum sé gerður fyrirvari við það reynist mat mats­mannanna á miska og varanlegri örorku stefnanda rangt. Þar sem hann hefur ekki, hvorki með gögnum né framburði vitna, fært sönnur á að sú merking sem hann leggur nú í fyrirvarann sé sú sem átti að felast í honum verður að ganga út frá því að með honum hafi stefnandi áskilið sér rétt til frekari bóta yrði varanlegur miski eða örorka meiri en talið var í þeirri matsgerð sem bótauppgjörið byggðist á vegna síðari breyt­inga. Stefnandi byggir ekki á því að breytingar hafi orðið á afleiðingum slyssins fyrir hann frá því sem komið var í ljós þegar matið í nóvember 2010 var unnið. Fyrirvarinn nægir því ekki til þess að heimila endurupptöku bótauppgjörsins.

                Stefnandi afl­aði einhliða matsgerðar þriggja sér­fræð­inga, bæklunar­læknis, geð­læknis og lögfræðings, í mars 2014. Hann telur þá matsgerð sem málsaðilar óskuðu eftir í sameiningu andstæða 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hins vegar telur hann þá matsgerð sem hann aflaði uppfylla skilyrði ákvæðisins og því hnekki hún sam­eigin­legu matsgerðinni.

                Dóm­ur­inn getur ekki fallist á að lesa megi úr grein­ar­gerð með frum­varpi til laga nr. 37/1999, sem breyttu skaðabótalögunum, að mats­gerðir sem máls­aðilar afla í sam­ein­ingu séu andstæðar 10. gr. laganna. Fallist er á það með stefndu að sú matsgerð sem unnin var í mars 2014 standi til hliðar við þá mats­gerð sem málsaðilar fengu gerða í sam­ein­ingu í nóvember 2010 en ekki ofar henni og hnekki henni ekki.

                Til vara byggir stefnandi á því að bótauppgjörið sé ógilt á grundvelli ógilding­ar­reglna samninga- og fjármunaréttar. Hann telur sameiginlegu matsgerðina ekki hafa verið rétt og löglega unna þar sem verklagi við gerð matsins hafi verið áfátt og efni mats­gerð­ar­innar ónákvæmt. Samningur hans við stefnda, 28. janúar 2011, um greiðslu bóta sé því ógildanlegur á grundvelli brostinna forsendna.

                Hann byggir jafnframt á því að þar sem læknirinn sem vann matið hafi verið trún­að­ar­læknir hins stefnda tryggingafélags á þeim tíma sem matið var unnið, og hinn lög­lærði matsmaður hafi jafnframt verið fyrrverandi starfs­maður stefnda, verði að efast um óhlut­drægni þeirra og því sé óheiðarlegt af stefnda að bera bótauppgjörið fyrir sig.

                Samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er heimilt, að kröfu tjónþola, að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur. Skilyrði endur­upp­töku er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.

                Í þessu lagaákvæði er orðuð regla um brostnar forsendur, það er hvernig skuli bregð­ast við reynist þær forsendur, sem lagðar voru til grundvallar við ákvörðun skaða­bóta, síðar brostnar. Þær forsendur sem þetta lagaákvæði tekur til eru þær að ekki muni koma í ljós ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsufari tjónþola.

                Stefnandi byggir ekki á því að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu hans og forsendur matsins af þeim sökum brostnar þannig að 11. gr. laganna heimili end­ur­upptöku. Hann byggir á því að það mat sem var lagt til grundvallar bóta­upp­gjöri 28. janúar 2011, hafi verið rangt og illa unnið og langlíklegast sé að matsmennirnir hafi verið hlutdrægir vegna tengsla sinna við hið stefnda félag.

                Vegna þeirrar málsástæðu, að upp­gjörið sé ógilt á grund­velli ógildingarreglna samn­ingaréttar, verður að líta til þess að stefn­andi naut aðstoðar lögmanns áður en mats­ins var leitað, á meðan það fór fram og við uppgjör bóta á grundvelli þess. Lög­maður hans hlýtur að hafa tekið þátt í að velja matsmenn, ákveða þær spurningar sem fyrir þá yrðu lagðar og leggja mat á það hvort matið væri faglega unnið og ganga frá upp­gjöri teldi hann mat­inu ekki í neinu áfátt. Með lögmann sér við hlið hafði stefnandi því forsendur og tækifæri til að gera athuga­semdir við alla þá þætti sem hann vill nú bera fyrir sig. Hvorki verður séð að þáver­andi lögmaður hans hafi verið þvingaður til að sam­þykkja þá sér­fræð­inga sem unnu matið, samþykkja þær spurningar sem fyrir þá voru lagðar né sam­þykkja þær bætur sem stefnandi átti rétt til samkvæmt sam­eigin­legu matsgerðinni. Af þeim sökum er ekki unnt að fallast á það með stefnanda að óheið­ar­legt sé af stefndu að bera fyrir sig bóta­upp­gjörið. Í hverju skrefi ferilsins átti stefn­andi að geta reitt sig á að lögmaður hans gætti hagsmuna hans. Þung­lyndi stefn­anda á þessum tíma getur því ekki haft neina þýðingu við mat á því hvort heiðarlegt sé af hinu stefnda félagi að bera mats­gerð­ina fyrir sig.

                Að lokum byggir stefnandi á því að hann hafi orðið fyrir tjóni með því að taka við bótum á grundvelli sameiginlegu matsgerðarinnar. Þar eigi hið stefnda félag jafn­framt sök þar sem það beri ábyrgð á gerðum þess matsmanns sem var trúnaðar­læknir félags­ins. Í því sambandi geti ekki neinu haggað þótt stefnandi hafi notið aðstoðar lög­manns þar sem sá lögmaður eigi einnig sök á tjóni hans.

                Enda þótt annar matsmannanna hafi verið trúnaðarlæknir félagsins bar félagið ekki neina húsbóndaábyrgð á verkum hans enda var hann ekki starfsmaður þess. Hinn mats­maðurinn mun jafnframt hafa verið fyrrverandi starfsmaður þess. Þar sem hið stefnda félag hafði ekkert yfir matsmönnunum að segja er ekki hægt að fallast á það með stefnanda að það beri skaða­bóta­ábyrgð á verkum þeirra hvort sem það eru mats­störf eða önnur verk. Dómurinn getur því ekki fallist á að félagið hafi valdið stefnanda tjóni með því bótauppgjöri sem fór fram á grund­velli hins sameiginlega mats. Þykir mega árétta að stefn­andi naut aðstoðar lögmanns við undir­búning og vinnslu matsins og var það hans hlutverk að gæta allra réttinda stefn­anda í hvívetna.

                Dómurinn hefur hafnað því að sá fyrirvari sem þáverandi lögmaður stefnanda ritaði á kvittun fyrir uppgjör bóta 28. janúar 2011, nægi til þess að stefnandi geti kraf­ist endur­ákvörðunar bóta óháð því hvort uppfyllt séu skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Því hefur jafnframt verið hafnað að ógilda megi það bótauppgjör á grund­velli ógildingarreglna samningaréttar svo og því að hið stefnda félag hafi valdið stefn­anda tjóni með því að greiða bætur á grundvelli hins sameiginlega mats.

                Rétt þykir að hvor málsaðila um sig beri sinn kostnað af málinu.

                Stefnanda var með bréfi innanríkisráðuneytisins, 16. desember 2013, veitt gjaf­sókn til þess að höfða þetta mál og reka fyrir héraðsdómi. Gjafsóknarkostnaður stefn­anda, þar með talin málflutnings­þóknun lögmanns hans, 950.000 krónur greiðist úr ríkis­sjóði.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M s o r ð

                Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og B, eru sýkn af kröfum stefnanda, A.

                Málskostnaður milli aðila fellur niður.

                Málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hrl, 950.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.