Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-250
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Eignarréttur
- Afréttur
- Fasteign
- Þjóðlenda
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 30. október 2020 leitar Blönduósbær leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 2. október 2020 í málinu nr. 63/2019: Íslenska ríkið gegn Blönduósbæ, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
Í málinu er deilt um hvort landsvæðið Fannlaugarstaðir á sunnanverðum Skaga á milli Húnaflóa og Skagafjarðar teljist þjóðlenda eða eignarland í skilningi laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlands, þjóðlendna og afrétta. Með úrskurði óbyggðanefndar 19. desember 2014 í máli nr. 1/2013 var komist að þeirri niðurstöðu að landsvæðið Fannlaugarstaðir, eins og það var afmarkað í úrskurðarorðum nefndarinnar, væri þjóðlenda í afréttareign leyfisbeiðanda. Í málinu krefst leyfisbeiðandi þess að það ákvæði í úrskurðinum verði fellt úr gildi. Leyfisbeiðandi reisir kröfu sína meðal annars á því að beinn eignarréttur hafi stofnast að Fannlaugarstöðum á grundvelli nýbýlatilskipunarinnar frá 15. apríl 1776 með því að fram hafi farið áreið og útmæling 10. júlí 1823 að beiðni Bjarna Þorleifssonar, eiganda jarðarinnar Víkur, sem leyfisbeiðandi leiði rétt sinn frá. Vísar leyfisbeiðandi til 3. gr. tilskipunarinnar sem fjallar um þær aðstæður þegar einhver „kemur fram með gögn um óefanlegan eignarrétt til landsins.“
Héraðsdómur felldi úrskurð óbyggðanefndar í máli nr. 1/2013 úr gildi og féllst á kröfu leyfisbeiðanda þess efnis að á landsvæðinu Fannlaugarstöðum væri engin þjóðlenda. Að mati dómsins var talið skipta miklu máli við úrlausn um það hvort þrætulandið væri háð beinum eignarrétti leyfisbeiðanda að í dómsmálabók Skagafjarðarsýslu 1820 til 1823 hefði komið fram að Bjarni Þorleifsson hefði haft skjöl sem vafalaust sýndu að hann hefði á þeim tíma verið eigandi landsins. Ekki yrði horft fram hjá því þótt þau skjöl sem vísað hefði verið til hefðu ekki fundist. Þá vísaði héraðsdómur einnig til þess að lega landsins hefði skipt máli sem og að þar hefði verið stofnað nýbýli.
Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og staðfesti fyrrnefndan úrskurð óbyggðanefndar. Rakti rétturinn fyrirliggjandi heimildir og efni þeirra skjala sem fundist hefðu um landið Fannlaugarstaði og taldi þau skjöl gefa eindregið til kynna að enginn hefði kallað til beins eignaréttar yfir landinu og taldi í ljósi þess óskýrleika ekki hægt að leggja til grundvallar að til hefði staðið að stofna til nýbýlis á grundvelli 3. gr. nýbýlatilskipunarinnar. Var því ekki fallist á að tilvísun í útskrift fyrrnefndrar dómsmálabókar gæti ein og sér dugað sem fullgild sönnun fyrir því að Bjarni Þorleifsson hefði árið 1823 farið með beinan eignarrétt að landinu. Þá taldi Landsréttur að lögformlegt nýbýli hefði ekki stofnast á grundvelli tilskipunarinnar þar sem fyrir lægi að ekki hefði verið gætt að 6. gr. hennar um útgáfu byggingarbréfs. Að lokum hafnaði rétturinn því að umráðum landsins hefði nokkru sinni verið háttað þannig að þau gætu fullnægt kröfum 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, um óslitið eignarhald á fasteign.
Leyfisbeiðandi telur að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng að efni til. Telur hann að Landsréttur hafi misskilið og eða rangtúlkað dóm Hæstaréttar 7. október 2010 í máli nr. 379/2009. Í því máli hafi sérstaklega verið tekið fram að íslenska ríkið yrði að bera hallann af því ef ekki væri rétt staðið að því að ljúka stofnun nýbýlis. Leyfisbeiðandi eigi því ekki að bera af því hallann að vanrækt hefði verið að stofna nýbýli að Fannlaugarstöðum eða gerð hefðu verið þau mistök að ljúka ekki við stofnun þess. Vísar leyfisbeiðandi til þess að óumdeilt sé að lögformleg stofnun nýbýlis samkvæmt nýbýlatilskipuninni leiði til stofnunar grunneignarréttar að því landi sem þannig hafi verið tekið út og að leyfisbeiðandi leiði rétt sinn frá þeim sem lét taka landið út. Telur leyfisbeiðandi að þessi rök sem og önnur rök hans um skráningu jarðarinnar í fasteignamat og greiðsla fasteignagjalda af henni hefðu átt að leiða til þess að dómur héraðsdóms yrði staðfestur. Þá telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Loks telur leyfisbeiðandi að niðurstaða málsins varði mikla hagsmuni sína enda sé um að ræða landsvæði með mikla möguleika sem útivistarsvæði og henti til skógræktar. Þá feli niðurstaða Landsréttar í sér að leyfisbeiðandi sé sviptur réttindum sínum yfir landi sem hann eigi réttilega tilkall til í andstöðu við ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem þegar hafa gengið né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.