Hæstiréttur íslands
Mál nr. 348/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2016, þar sem beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna var hafnað. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að umbeðin dómkvaðning fari fram.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
I
Í ákæru máls þessa 12. desember 2012 eru varnaraðilunum Y og Z gefin að sök umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 8. eða 9. júlí 2008 misnotað aðstöðu sína og stefnt hagsmunum A banka hf. í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga er þeir hafi samþykkt að veita einkahlutafélaginu B, eignalausu félagi með takmarkaða ábyrgð, lán að fjárhæð 6.000.000.000 krónur, án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins, sem hafi verið í andstöðu við reglur bankans um lánveitingar og markaðsáhættu. Hafi lánið verið veitt til að fjármagna að fullu kaup B ehf. á 25,7% hlut C hf. í D, en hlutabréf þess félags hafi ekki verið skráð í kauphöll. Þá eru varnaraðilinn X og Þ ákærðir fyrir hlutdeild í hinu ætlaða broti, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Til vara er hinn fyrrnefndi ákærður fyrir brot gegn 254. gr. sömu laga, en að því frágengnu 264. gr. laganna.
Í málinu liggur fyrir að kærandi þess, slitastjórn A banka hf., fékk dómkvadda tvo menn í tilgreindu máli milli hans og varnaraðila, svo og annars nafngreinds manns, til að meta markaðsvirði eignarhlutar C hf. í D, miðað við 9. júlí 2008, eða sama dag og A banki hf. veitti það lán sem mál þetta snýst um. Matsgerðin var lögð fram við þingfestingu málsins. Eftir það var óskað yfirmats af hálfu gagnaðila slitastjórnar A banka hf. í áðurnefndu einkamáli og voru þrír menn kvaddir til starfans. Yfirmatsgerðin var lögð fram í þinghaldi í máli þessu 7. nóvember 2013, en dómsmeðferð þess hafði verið frestað í því skyni að beiðni verjenda frá og með 11. febrúar sama ár. Samkvæmt yfirmatsgerðinni var markaðsverðmæti nánar tilgreindra hlutabréfa C hf. í félaginu D metið út frá fjórum virðismatsaðferðum, þar á meðal frjálsu fjárstreymi til fyrirtækis. Kom fram í matsgerðinni að matsmenn hafi framkvæmt virðismat með „fjárstreymisgreiningu“ og þar verið horft til mismunandi sviðsmynda, þar sem gengið væri út frá mismunandi rekstrarforsendum.
II
Um ástæður matsbeiðni varnaraðila er vísað til þess að eitt af skilyrðum þess að háttsemi geti talist til umboðssvika sé að háttsemi umboðsmanns hafi skapað umbjóðanda hans að minnsta kosti verulega fjártjónshættu. Geti varnaraðilar ekki fallist á að það sé rétt, sem haldið er fram í ákæru, að A banka hf. hafi verið valdið verulegri fjártjónshættu í skilningi almennra hegningarlaga með framangreindri lánveitingu. Í málatilbúnaði sóknaraðila sé mat á fjártjónshættu einkum byggt á þeirri forsendu að gangvirði hlutabréfanna í D hafi verið umtalsvert lægra en lagt var til grundvallar innan A banka hf. Því hafi tryggingar vegna lánsins verið ófullnægjandi, en það telji ákærðu ósannað. Á milli aðila sé samkvæmt þessu grundvallarágreiningur um gangvirði hlutabréfa í D og hvað teljist sannað í þeim efnum hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins. Sé tilgangur matsins að varpa ljósi á þetta atriði. Samkvæmt matsbeiðninni skyldi virðismat eignarhlutar C hf. í D, miðað við 9. júlí 2008, takmarkað við „fjárstreymisaðferð.“ Í matsbeiðni sagði að við virðismatið skyldi notast „m.a. við eftirfarandi forsendur:
-
þær forsendur (óbreyttar) sem lagðar eru til grundvallar í fimm ára rekstraráætlun stjórnenda [D], dags. 6. maí 2008, sem lögð var fyrir lánveitendur (Bank Case);
-
þær forsendur (óbreyttar) sem lagðar eru til grundvallar í fimm ára rekstraráætlun stjórnenda [D], dags. 6. maí 2008, sem afhent var [...] í tengslum við fyrirhuguð kaup þess á hlut í félaginu ([...] Case); og
-
hinar sömu forsendur og lagðar eru til grundvallar skv. lið (B), að teknu tilliti til hæfilegra breytinga telji matsmenn eina eða fleiri forsendur rekstraráætlunar stjórnenda [D] hafa verið óraunhæfa.“
Þá skyldu matsmenn framkvæma „næmigreiningu á helstu forsendum virðismatsins og lýsa verðmatsbili sem að þeirra mati gæti endurspeglað mögulega sýn fjárfestis á rekstur [D].“
III
Eins og áður greinir liggur þegar fyrir í málinu yfirmatsgerð, sem aflað var af hálfu varnaraðila um sama matsefni og um ræðir í matsbeiðni þeirri er mál þetta tekur til, auk þess sem í matsgerðinni var beitt sams konar virðismatsaðferð og vísað er til í matsbeiðni varnaraðila, ásamt þremur öðrum aðferðum. Samkvæmt því og þar sem matið er bundið við tilteknar afmarkaðar forsendur verður ekki annað ráðið en að raunverulegur tilgangur þess sé að sýna fram á að ekki sé uppfyllt það hugtaksskilyrði 249. gr. almennra hegningarlaga að varnaraðilar hafi valdið A banka hf. verulegri fjártjónshættu með háttsemi sinni. Að þessu virtu og með því að það er hlutverk dómara að leggja mat á sönnunargögn málsins og atriði sem krefjast lagaþekkingar, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008, verður samkvæmt 3. mgr. 110. gr. sömu laga að telja að umbeðið mat sé tilgangslaust til sönnunar, sbr. dóma Hæstaréttar 8. desember 2014 í máli nr. 739/2014 og 13. mars 2015 í máli nr. 185/2015. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2016
Mál þetta er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara 12. desember 2012 á hendur ákærðu Y og Z fyrir umboðssvik, sbr. 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa 8. eða 9. júlí 2008 misnotað aðstöðu sína og stefnt hagsmunum A banka hf. í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga er þeir hafi samþykkt að veita einkahlutafélaginu B, eignalausu félagi með takmarkaða ábyrgð, lán að fjárhæð 6.000.000.000 króna, án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins, sem hafi verið í andstöðu við reglur bankans um lánveitingar og markaðsáhættu. Hafi lánið verið veitt til að fjármagna að fullu kaup B ehf. á 25,7% hlut C hf. í D, en hlutabréf þess félags hafi ekki verið skráð í kauphöll. Þá er málið höfðað á hendur ákærðu X og Þ fyrir hlutdeild í umboðssvikum hinna tveggja fyrrgreindu og X jafnframt til vara fyrir hylmingu, sbr. 254. gr. almennra hegningarlaga, og til þrautavara fyrir peningaþvætti, sbr. 264. gr. sömu laga.
Málið var þingfest 7. janúar 2013 og dómur kveðinn upp 5. júní 2014. Dóminum var áfrýjað og samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt um formhlið þess 13. apríl 2015. Dómur var kveðinn upp 22. sama mánaðar þar sem hinn áfrýjaði dómur var ómerktur ásamt meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og málinu vísað heim í hérað til úrlausnar á ný af þeirri ástæðu að sérfróður meðdómandi hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins. Í þinghaldi 5. júní 2015 krafðist sækjandi þess að dómsformaður viki sæti í málinu. Með úrskurði dómsins 23. september 2015 var kröfunni hafnað, en með dómi Hæstaréttar 13. október 2015 í málinu nr. 655/2015 var dómsformanni gert að víkja sæti með vísan til g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Núverandi dómsformaður fékk málinu úthlutað 21. október sl. en hafði fram að þeim tíma engin afskipti af því.
Með dómi Hæstaréttar Íslands 11. mars sl. í málinu nr. 185/2016 var fallist á kröfu ákæruvaldsins um að leiða fimm tiltekna matsmenn, úr einkamálinu nr. E-2977/2010, sem vitni við aðalmeðferð málsins. Í kjölfarið tilkynntu verjendur að þeir hygðust leggja fram matsbeiðni. Matsbeiðnin var lögð fram við fyrirtöku málsins 7. apríl sl. af hálfu verjenda ákærðu Y, Z og X. Sækjandi andmælti matsbeiðninni og fór málflutningur um ágreininginn fram 14. apríl sl.
Verjandi ákærða Þ stendur ekki að framangreindri matsbeiðni en lagði fram bókun vegna hennar í þinghaldinu 14. apríl sl.
I
Ákærðu, Y, Z og X, krefjast þess, með vísan til XIX. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að dómkvaddir verði tveir sérfróðir og óvilhallir matsmenn til þess að láta í té rökstutt álit á gangvirði tiltekinna hlutabréfa í félaginu D miðað við 9. júlí 2008.
Ákærðu kveða tilgang matsins að varpa ljósi á virði félagsins D, en grundvallarágreiningur sé um gangvirði hlutabréfa í félaginu. Ákæruvaldið byggi á því að veruleg fjártjónshætta, sem sé eitt af skilyrðum þess að um umboðssvik geti verið að ræða, hafi skapast vegna lánveitingarinnar, en mat á henni sé einkum byggt á því að gangvirði hlutabréfa D hafi verið umtalsvert lægra en lagt hafi verið til grundvallar innan bankans. Ákærðu telja að hugmyndir ákæruvaldsins um gangvirði hlutabréfanna séu í ósamræmi við samtímagögn sem veiti vísbendingar um verðmætið. Matið hafi því verulega þýðingu fyrir sönnunarmat í málinu.
Skilyrði 127. og 128. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt til þess að fallist verði á beiðnina. Matið lúti ekki að gagnaöflun eða lögfræðilegum atriðum og það sé ekki bersýnilega tilgangslaust, en mikið þurfi til að koma svo matsbeiðni sé hafnað af þeim sökum. Ákærðu beri sjálfir hallann af því að þeim nýtist matið. Þá verði tafir vegna þess ekki skrifaðar á ákæruvaldið.
Þeirra matsgerða sem þegar liggi frammi í málinu hafi verið aflað í einkamáli þar sem ekki hafi allir ákærðu, eða allir verjendur, haft tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum. Þá liggi nú fyrir gögn sem ekki hafi verið hluti af því mati auk þess sem ákærðu hyggist leiða vitni til skýringar á matsatriðum áður en matið fari fram, sbr. 2. mgr. 129. gr. laga nr. 88/2008. Hæstiréttur hafi nú fallist á að matsmennirnir gefi skýrslu sem vitni í málinu á þeirri forsendu að aðstæðunum verði jafnað til þess að þeir hafi veitt ákæruvaldinu sérfræðiráðgjöf.
Ekki skipti máli hvenær matsbeiðnin komi fram. Því hafi verið mótmælt að matsmenn úr einkamálinu kæmu fyrir dóminn og boðað að að öðrum kosti yrði óskað dómkvaðningar matsmanna. Það hafi fyrst verið eftir dóm Hæstaréttar 11. mars sl. sem tilefni hafi verið til þess að óska matsins.
Varðandi matsspurningarnar sé um að ræða viðurkennda aðferð sem meðal annars sé notuð í yfirmatinu. Þá sé það matsbeiðenda að velja spurningarnar og þeir beri áhættuna af því að þær nýtist þeim.
Það sem óskað er eftir að verði metið er nánar tiltekið „gangvirði neðangreindra hlutabréfa í [D], sem voru í eigu [C], miðað við 9. júlí 2008:
[...]
Virðismatið skal framkvæmt með fjárstreymisaðferð og skal m.a. notast við eftirfarandi forsendur:
(A) þær forsendur (óbreyttar) sem lagðar eru til grundvallar í fimm ára rekstraráætlun stjórnenda [D], dags. 6. maí 2008, sem lögð var fyrir lánveitendur félagsins (Bank Case);
(B) þær forsendur (óbreyttar) sem lagðar eru til grundvallar í fimm ára rekstraráætlun stjórnenda [D], dags. 6. maí 2008, sem afhent var [...] í tengslum við fyrirhuguð kaup þess á hlut í félaginu ([...] Case); og
(C) hinar sömu forsendur og lagðar eru til grundvallar skv. lið (B), að teknu tilliti til hæfilegra breytinga telji matsmenn eina eða fleiri forsendur rekstraráætlunar stjórnenda [D] hafa verið óraunhæfa.
Matsmenn skulu framkvæma næmigreiningu á helstu forsendum virðismatsins og lýsa verðmatsbili sem að þeirra mati gæti endurspeglað mögulega sýn fjárfestis á rekstur [D].“
II
Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að beiðni ákærðu, Y, Z og X, um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað.
Sækjandinn byggir á því að bersýnilegt sé að matið sé tilgangslaust til sönnunar, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Ekki skuli verða við beiðni um dómkvaðningu matsmanns í sakamáli nema dómari telji þörf á því til þess að dómur verði lagður á málið. Engin þörf sé á því í málinu. Fimm matsmenn hafi þegar lagt mat á sama matsefni auk þess sem fleiri gögn liggi fyrir um verðmæti D. Matsmennirnir muni koma fyrir dóminn og verjendur eigi þess kost að leggja spurningar fyrir þá. Ákæruvaldið beri sönnunarbyrðina ef sönnunargögn skorti.
Sækjandi telur matsbeiðnina ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008. Með henni sé í reynd verið að fara fram á mat á fjártjónshættu sem sé eitt af þremur hlutlægum skilyrðum sem háttsemi þurfi að uppfylla til þess að um umboðssvik geti verið að ræða. Eins og matsbeiðnin sé sett fram lúti hún að því að fá mat á lögfræðilegu úrlausnarefni sem dómari leggi sjálfur mat á.
Sækjandi gerir athugasemd við framsetningu matsspurninga. Matsbeiðni ákærðu sé marklaus og þar af leiðandi þarflaus vegna þeirrar aðferðar sem farið sé fram á að notast sé við og þeirra gagna sem byggt sé á. Það gangi ekki upp að verjendur mæli fyrir um þá aðferð sem skuli nota og þau gögn sem byggja eigi á. Þá telur sækjandi verulega skorta á skýringar í matsbeiðni á því hvers vegna fara skuli þessa leið. Matsmenn verði að hafa svigrúm til þess að bera saman niðurstöður mismunandi aðferða. Matsgerðin muni því ekki upplýsa málið meira en orðið sé. Þá sé byggt á þessari sömu aðferð í yfirmatinu, sem liggi fyrir í málinu, og því ljóst að engin þörf sé á þessu mati.
Ef fallist verður á dómkvaðningu matsmanna snúist matið um virði hlutabréfa í D út frá afmarkaðri aðferð. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 meti dómari sönnunargildi matsgerðar. Matsgerð sem aflað sé með svo þröngum hætti hafi ekki jafn ríkt sönnunargildi og þær matsgerðir sem þegar liggi fyrir í málinu. Jafnframt bendir sækjandi á að hægt sé að ákveða að matsmenn þurfi ekki að semja skriflega matsgerð heldur skuli þeir mæta fyrir dóm áður en aðalmeðferð fer fram og gefa skýrslu um niðurstöðu matsins, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2008.
Þá bendir sækjandi á að tilefni matsbeiðnar ákærðu sé dómur Hæstaréttar frá 11. mars sl. í málinu nr. 185/2016, en fyrir liggi að matsbeiðni yrði afturkölluð félli ákæruvaldið frá því að boða matsmenn úr einkamálinu fyrir dóminn. Matsbeiðnin sé því ekki sett fram af þörf á því að meta verðmæti hlutabréfanna eða skorti á sönnunargögnum.
III
Þrír af fjórum ákærðu í málinu krefjast þess að dómkvaddir verði tveir sérfróðir og óvilhallir matsmenn til þess að meta gangvirði tiltekinna hlutabréfa í félaginu D miðað við 9. júlí 2008. Er þess óskað að virðismatið verði framkvæmt með fjárstreymisaðferð og stuðst við nánar tilteknar forsendur. Sækjandi mótmælir dómkvaðningunni þar sem matið sé tilgangslaust til sönnunar og ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Í 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 segir að verði ekki farið svo að sem segi í 2. eða 3. mgr. 127. gr. laganna kveði dómari einn eða tvo matsmenn, ef honum þykir þörf á, til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. sömu laga leggur dómari sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar og samkvæmt 3. mgr. getur aðili snúið sér beint til opinbers starfsmanns ef hann er skipaður í eitt skipti fyrir öll til að meta tiltekin atriði. Samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laganna getur dómari meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar.
Í matsbeiðni ákærðu kemur fram að eitt af skilyrðum þess að háttsemi geti talist til umboðssvika sé að háttsemi umboðsmanns hafi skapað umbjóðanda hans verulega fjártjónshættu. Ákærðu geti ekki fallist á að A hf. hafi verið valdið verulegri fjártjónshættu í skilningi hegningarlaga með lánveitingunni. Mat ákæruvaldsins á fjártjónshættu sé einkum byggt á þeirri forsendu að gangvirði hlutabréfanna í D, sem B ehf. hafi keypt af C hf. og sett hafi verið til tryggingar endurgreiðslu lánsins, hafi verið umtalsvert lægra en lagt hafi verið til grundvallar innan A banka hf. Tryggingar vegna lánsins hafi því verið ófullnægjandi. Ákærðu telji þetta ósannað. Samkvæmt framangreindu er það tilgangur matsins að upplýsa um verðmæti hlutabréfa í D í því skyni að sýna fram á að það hugtaksskilyrði umboðssvika að veruleg fjártjónshætta hafi skapast sé ekki uppfyllt. Með matsbeiðninni er því í raun verið að óska mats á fjártjónshættu í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í dómum Hæstaréttar í málunum nr. 739/2014 og 185/2015 kemur fram að mat á fjártjónshættu í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga sé lögfræðilegt úrlausnarefni. Þar sem dómari leggur sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008, verður því að hafna kröfu ákærðu um dómkvaðningu matsmanna.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hafnað er kröfu ákærðu Y, Z og X um dómkvaðningu matsmanna.