Hæstiréttur íslands
Mál nr. 464/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Aðild
- Samaðild
- Aðildarskortur
- Félagsdómur
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 30. október 2002. |
|
Nr. 464/2002. |
Sjómannasamband Íslands(Björn L. Bergsson hrl.) gegn Landssambandi íslenskra útvegsmanna (Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.) |
Kærumál. Aðild. Samaðild. Aðildarskortur. Félagsdómur. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Með úrskurði gerðardóms sem starfaði á grundvelli laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira, var breytt kjarasamningum „milli Samtaka atvinnulífsins (SA) vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna (L)“. SÍ höfðaði af þessu tilefni mál á hendur L og krafðist þess að dæmt yrði að tiltekin ákvæði í úrskurði gerðardómsins væru óskuldbindandi fyrir sig og félagsmenn sína og hefðu ekki áhrif á kjarasamning milli sín og L. Af hálfu L var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi og féllst héraðdómari á þá kröfu. Hæstiréttur taldi SÍ geta stutt heimild sína til að sækja málið við 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála. Í dómi réttarins kemur fram að enda þótt SA fari með umboð frá L til að gera kjarasamninga verði málinu ekki vísað frá á þeim grundvelli að nauðsyn sé á samaðild með L og SA, sbr. 2. mgr. 18. gr. sömu laga. Þá verði ekki fallist á að mál um kröfu SÍ eigi undir Félagsdóm og verði málinu því ekki vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu. Samkvæmt því var lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdómara verði hrundið og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Málið á rætur að rekja til þess að kjarasamningar sjómanna urðu lausir 15. febrúar 2000, þegar lög nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna féllu úr gildi. Fóru þá í hönd samningaviðræður milli félaga innan sóknaraðila og fleiri samtaka fiskimanna annars vegar og aðildarfélaga varnaraðila hins vegar. Þær viðræður báru ekki árangur og kom til verkfalls af hendi launþega og verkbanns atvinnurekenda. Vinnudeilu þessari lauk með því að 16. maí 2001 tóku gildi lög nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira. Í 1. gr. þeirra voru lýst óheimil verkföll, verkbönn og aðrar aðgerðir nánar tiltekinna félaga, sem ætlað væri að knýja fram aðra skipan kjaramála en mælt var fyrir um í lögunum. Skyldi bann þetta standa frá gildistöku laganna og svo lengi sem ákvörðun gerðardóms samkvæmt 2. gr. og 3. gr. laganna hefði gildi. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna bar Hæstarétti að tilnefna þrjá menn í þann gerðardóm ef samkomulag tækist ekki í vinnudeilunni fyrir 1. júní 2001 og skyldi hann taka ákvörðun um atriði varðandi kjaramál fiskimanna, sem nánar greindi í 1. mgr. 2. gr. laganna. Bar gerðardóminum að ljúka þessum störfum fyrir 1. júlí 2001 og yrðu ákvarðanir hans bindandi frá gildistöku laganna til þess tíma, sem hann tæki sjálfur ákvörðun um. Samningar náðust ekki um kjaramál sjómanna innan þess frests, sem að framan greinir. Hæstiréttur tilnefndi 1. júní 2001 menn til að sitja í gerðardóminum og lauk hann störfum með úrskurði 30. sama mánaðar, sem ákveðið var að gilda ætti til ársloka 2003.
Meðal þess, sem ákvörðun var tekin um í fyrrnefndum úrskurði gerðardómsins, var svofelld regla, sem fram kom í 2. mgr. og 3. mgr. 2. liðar úrskurðarorða: „Nú er settur í fiskiskip tæknibúnaður eða hagræðing á sér stað sem leiðir til þess að færri menn geti sinnt skipsstörfum en kveðið er á í skiptatöflu í kjarasamningi þessum og skal þá hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar skiptast að hálfu milli þeirra sem á skipinu eru í hlutfalli við skiptahlutfall þeirra. Hinn helmingurinn skal ganga óskertur til útgerðarinnar. Forsenda fyrir slíkri breytingu skiptakjara er að gerður sé skriflegur samningur um það milli útgerðar og áhafnar, þar sem rökstuðningur fyrir breytingunum kemur fram. Samningurinn skal síðan staðfestur af skipverjum í leynilegri atkvæðagreiðslu. Að því loknu skal samningurinn undirritaður af fulltrúum útgerðar og áhafnar og afrit sent til aðila kjarasamnings þessa.“ Sóknaraðili kveður gerðardóminn með þessu hafa numið úr gildi grein 1.37. í kjarasamningi málsaðila, sem varði sömu atriði og framangreind regla, en með því hafi gerðardómurinn farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt. Af því tilefni höfðaði sóknaraðili mál þetta 26. október 2001. Hann krefst þess að dæmt verði að framangreind ákvæði í úrskurði gerðardómsins séu óskuldbindandi fyrir sig og félagsmenn sína og hafi ekki áhrif á kjarasamning milli hans og varnaraðila.
Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi, sem lögð var fram 8. janúar 2002, var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá. Með hinum kærða úrskurði féllst héraðsdómari á þá kröfu.
II.
Samkvæmt úrskurðarorðum áðurnefnds úrskurðar gerðardóms frá 30. júní 2001 var breytt með honum kjarasamningum „milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna“ annars vegar og sóknaraðila og fjögurra annarra samtaka og stéttarfélaga hins vegar. Sóknaraðili hefur kosið að beina máli þessu að varnaraðila, en ekki Samtökum atvinnulífsins, sem munu fara með umboð frá varnaraðila til að gera kjarasamninga. Eins og sóknaraðili hagar kröfugerð sinni getur slíkt umboð ekki breytt því að aðeins annar tveggja, varnaraðili eða Samtök atvinnulífsins, hlýtur að standa gegnt honum í málinu, en ekki þeir báðir. Beini sóknaraðili kröfu sinni ranglega að varnaraðila í stað Samtaka atvinnulífsins veldur það sýknu varnaraðila vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, en til þess verður ekki tekin afstaða nema í efnisdómi um kröfuna. Eru því engin efni til að vísa málinu frá héraðsdómi á þeim grundvelli að nauðsyn hafi verið á samaðild varnaraðila og Samtaka atvinnulífsins samkvæmt 2. mgr. 18. gr. sömu laga.
Samkvæmt lögum Sjómannasambands Íslands felst starfsemi þess meðal annars í því að veita þeim sjómannafélögum, sem í sambandinu eru, sérhverja þá aðstoð, sem það getur látið í té til að efla starfsemi þeirra og hindra að gengið sé á rétt þeirra, og að gangast fyrir samræmdum aðgerðum sjómannafélaganna við gerð samninga um kaup og kjör. Sóknaraðili getur því stutt heimild sína til að sækja mál þetta við 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Með IV. kafla laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er lagt á vald Félagsdóms að leysa úr ágreiningi um nánar tiltekin atriði, sem talin eru í 44. gr. laganna. Með þetta vald fer Félagsdómur sem sérdómstóll, sbr. 3. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Heyra í skjóli þess undir hann mál, sem ella yrðu rekin fyrir almennum dómstólum eftir þeirri meginreglu, sem fram kemur í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991. Skýra verður ákvæði um valdsvið Félagsdóms að teknu tilliti til þessa. Samkvæmt orðanna hljóðan taka ákvæði 44. gr. laga nr. 80/1938 ekki til kröfu, sem snýr að viðurkenningu á því að nánar tiltekin atriði í úrskurði gerðardóms um breytingar á kjarasamningi málsaðila séu óskuldbindandi. Í ljósi þess, sem að framan greinir, eru ekki efni til að skýra ákvæðið á rýmri veg en orð þess gefa beint tilefni til. Verður því ekki fallist á með varnaraðila að mál um kröfu sóknaraðila eigi undir Félagsdóm. Málinu verður þannig ekki vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu.
Samkvæmt framangreindu eru ekki efni til að vísa máli þessu frá héraðsdómi. Verður því lagt fyrir héraðsdómara að taka það til efnismeðferðar.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Landssamband íslenskra útvegsmanna, greiði sóknaraðila, Sjómannasambandi Íslands, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2002.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 5. þessa mánaðar, er höfðað með stefnu birtri 26. október 2001.
Stefnandi er Sjómannasamband Íslands, Borgartúni 18.
Stefndi er Landssamband íslenskra útvegsmanna, Hafnarhvoli við Tryggvagötu, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að dæmt verði að 2. og 3. mgr. 2. töluliðar úrskurðarorðs gerðardóms, samkvæmt 2. gr. laga nr. 34/2001, um breytingar á kjarasamningi stefnanda og stefnda, séu óskuldbindandi fyrir stefnanda og félagsmenn þess og hafi ekki áhrif á ákvæði kjarasamnings stefnanda og stefnda. Þá er krafist málskostnaðar.
Af hálfu stefnda er þess krafist aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins en til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
Krafa stefnda um frávísun málsins er til úrlausnar hér.
Af hálfu stefnanda er sú krafa gerð að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og stefnanda dæmdur málskostnaður í þessum hluta málsins.
Kjarasamningar útvegsmanna innan Samtaka atvinnulífsins og Landssambands íslenskra útvegsmanna við stéttarfélög fiskimanna urðu lausir þann 15. febrúar 2000. Samningaviðræður hófust í ársbyrjun árið 2000 og kröfur um breytingar á síðast gildandi kjarasamningum voru lagðar fram í febrúar. Í megindráttum voru samningsaðilar útvegsmanna fjórir, stefnandi vegna félaga undirmanna, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands vegna skipstjóra- og stýrimannafélaga, Vélstjórafélag Íslands vegna vélstjóra og Alþýðusamband Vestfjarða vegna félaga undirmanna og vélstjóra á Vestfjörðum.
Samtök atvinnulífsins vísuðu deilunni til sáttameðferðar ríkissáttasemjara með bréf sínu 22. maí. Í mars 2001 kom til verkfalla stéttarfélaga fiskimanna og í kjölfarið verkbann útvegsmanna.
Þann 9. maí 2001 var undirritaður kjarasamningur við Vélstjórafélag Íslands um kaup og kjör vélstjóra á fiskiskipum.
Þann 16. maí 2001 voru verkföll og verkbönn stöðvuð með lögum 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fengu aðilar, sem ekki höfðu gert samning, frest til 1. júní 2001 til þess að ná samkomulagi. Tækist það ekki skyldi gerðardómur ákveða um kjaramál fiskimanna í nánar tilgreindum atriðum, þ.á.m. atriðum er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör.
Gerðardómur kvað upp úrskurð sinn 30. júní 2001. Í framhaldi af úrskurðinum kom upp ágreiningur á milli stefnda og stefnanda um túlkun á ákvæðum um skiptakjör.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að gerðardómur samkvæmt lögum nr. 34/2001 hafi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt með því að kveða á um breytingar á mönnun skipa í framtíðinni í tilefni óskilgreindra tæknibreytinga og óskilgreindrar hagræðingar. Jafnframt hafi gerðardómurinn brotið gegn 5. gr. laga nr. 80/1938 með því að ákveða í 3. mgr. 2. töluliðar úrskurðarorðs um breytingar á kjarasamningi málsaðila að um meintar breytingar eða meinta hagræðingu yrði einvörðungu fjallað á vettvangi útgerðar og áhafnar án atbeina stefnanda og stefnda.
Af hálfu stefnda er bent á að í stefnu sé gerð krafa um að 2. og 3. mgr. 2. töluliðar úrskurðarorðs gerðardóms skv. 2. gr. laga nr. 34/2001, um breytingar á kjarasamningi stefnanda og stefnda séu óskuldbindandi fyrir stefnanda og félagsmenn þess og hafi ekki áhrif á ákvæði kjarasamninga stefnanda og stefnda. Núgildandi kjarasamningur sé á milli stefnanda vegna aðildarfélaga hans og Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga LÍÚ. Samtök atvinnulífsins hafi verið stofnuð 15. september 1999 og fari skv. 38. gr. samþykkta sinna með samningsumboð útvegsmanna, sem staðfest sé í viðræðuáætlun samtakanna við stefnanda, sem var gefin út 7. desember 1999. Þá hafi Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd útvegsmanna verið gert sameiginlegt tilboð sjómannasamtakanna í janúar 2001 um breytingu á kjarasamningum. Samkvæmt framansögðu hafi stefnanda verið ljóst að samtökin væri aðili að kjarasamningnum, sem gerð er krafa um að verði ógiltur að hluta. Þar sem Samtökum atvinnulífsins sé ekki stefnt telur stefndi að skv. 2. tl. 18. gr. eml. 91/1991 beri að vísa málinu frá dómi.
Þá séu skilyrði 3. mgr. 25. gr. eml. 91/1991 fyrir málshöfðun ekki uppfyllt í máli þessu. Lög stefnanda heimili honum ekki að höfða dómsmál í eigin nafni fyrir héraðsdómi vegna almenns eða einstaklingsbundins gildis kjara- og ráðningarsamninga einstakra félagsmanna, eins og sé forsenda skv. 3. mgr. 25. gr. eml. Í félagslögum hagsmunasamtaka verða að vera skýr ákvæði um málshöfðunarrétt samtakanna. Efnislega gangi kröfugerð stefnanda einnig miklu lengra heldur en 3. mgr. 25. gr. eml., sem heimili almennar viðurkenningarkröfur. Kröfugerð stefnanda hafi að markmiði að ógilda vinnustaðasamninga einstakra útgerða og sjómanna, þótt þessum aðilum sé ekki stefnt og raunar liggi ekki neitt umboð fyrir frá skipverjum til málssóknarinnar.
Krafa stefnanda lúti að gildi úrskurðarorðs gerðardóms um breytingu á kjarasamningi. Kröfur um gildi kjarasamnings eigi undir Félagsdóm. Stefnukrafa sé byggð á því að brotið hafi verið gegn 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem kveðið sé á um það að stéttarfélög séu lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna. Félagsdómur dæmi um brot á lögum nr. 80/1938 og um ágreining um túlkun og gildi kjarasamnings eins og komi fram í 1. og 2. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938. Þá er jafnframt vísað til 47. gr. þar sem segi að mál sem höfða megi fyrir Félagsdómi skuli ekki flutt fyrir almennum dómstólum nema Félagsdómur hafi neitað að taka það til meðferðar sbr. 3. tl. 44. gr. Á það hafi ekki reynt að Félagsdómur hafi neitað að taka málið til meðferðar og beri því að vísa því frá dómi skv. skýrum fyrirmælum 3. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938.
Stefndi styður kröfur sínar um frávísun við 18., 24. og 25. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 og 44. og 47. gr. laga nr. 80/1938.
Kröfu um málskostnað styður stefndi við 129., sbr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.
Af hálfu stefnanda hefur kröfu um frávísun verið mótmælt og bent á að ágreiningur aðila lúti fyrst og framst að lögmæti úrskurðar gerðardóms sem skipaður hafi verið samkvæmt lögum nr. 34/2001 og því hvort gerðardómurinn hafi farið út fyrir heimildir sínar samkvæmt lögunum. Þess sé ekki krafist að kjarasamningur verði ógiltur að hluta heldur beinist krafan að því að úrskurður gerðardómsins sé ógildur og séu þá ákvæði fyrri samnings í gildi. Þá eigi ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 ekki við hér þar sem kröfugerð lúti ekki að hagsmunum einstakra félaga í aðildarfélögum stefnanda heldur að hagsmunum samtakanna. Loks eigi úrlaunsarefni máls þessa ekki undir Félagsdóom þar sem hér sé verið að krefjast ógildingar á gerðardómi vegna þess að han hafi farið út fyrir heimildir sínar við að komast að niðurstöðu og endurskoðun að þessu leiti eigi undir almenna dómstóla en ekki Félagsdóm.
NIÐURSTAÐA
Með 1. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira voru verkföll Sjómannafélags Eyjafjarðar og aðildarfélaga Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, auk verkbanna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna gagnvart aðildarfélögum í Alþýðusambandi Vestfjarða og aðildarfélögum stefnanda, svo og verkföll og verkbönn og aðrar aðgerðir sem ætlað var að knýja fram aðra skipan kjaramála en lögin ákvæðu óheimil frá gildistöku laganna og á gildistíma ákvarðana gerðardóms skv. 2. og 3. gr. Þó var aðilum heimilt að semja um slíkar breytingar en eigi má knýja þær fram með vinnustöðvun. Í 2. gr. laganna segir að hefðu aðilar skv. 1. gr. ekki náð samkomulagi fyrir 1. júní 2001 skyldi gerðardómur skipaður af Hæstirétti ákveða eftirfarandi um kjaramál fiskimanna í þeim samtökum sem nefnd eru í 1. gr.:
a. atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila,
b. atriði er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör,
c. atriði er varða kauptryggingu og launaliði,
d. atriði er varða slysatryggingu,
e. atriði er varða afmörkun á helgarfríi fiskimanna á netaveiðum,
f. atriði er varða mótframlag útvegsmanna vegna viðbótarlífeyrissparnaðar fiskimanna og
g. önnur atriði sem nauðsynlegt er að taka á varðandi kjaramál.
Í 38. gr. samþykkta Samtaka atvinnulífsins sem stofnuð voru 15. september 1999 segir að með aðild að samtökunum feli aðildarfélög þeirra svo og einstakir meðlimir þeim umboð til að gera alla kjarasamninga fyrir sína hönd, með þeim takmörkunum einum sem felist í samþyktunum. Samtökin séu félag atvinnurekenda í skilningi vinnulöggjafar og fari með allar þær heimildir sem þau lög áskilji félögum atvinnurekenda.
Samkvæmt 3. gr. samþykkta Samtaka Atvinnulífsins er Landsamband íslenskra útvegsmanna eitt af aðildarfélögum samtakanna.
Í bréfi dagsettu 22. maí 2000 vísuðu samtökin kjaradeilu samtakanna og stefnanda, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Vélstjórafélags Íslands og Alþýðusambands Vestfjarða um kaup og kjör fiskimanna til sáttameðferðar embættis ríkissáttasemjara og vísuðu þar til viðræðuáætlunar frá 7. desember 1999 undirritaðri af stefnanda og Samtökum atvinnulífsins.
Samkvæmt því sem hér er rakið fara Samtök atvinnulífsins með umboð til samningsgerðar fyrir hönd stefnda Landssambands íslenskra útvegsmanna en með framangreindum lögum var það lagt í hendur gerðardóms að kveða upp úr um hver vera skyldu kjör þeirra er greinir í 1. gr. laganna. Felst það og í málatilbúnaði stefnda að af hans hálfu er litið svo á að samningagerð sé á forræði Samtaka atvinnulífsins. Stefnanda var því rétt að beina kröfum sínum einnig að Samtökum atvinnulífsins en þau eiga óskipta aðild máls þessa með stefnda. Ber því með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 að vísa máli þessu frá dómi en málskostnaður fellur niður.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.