Hæstiréttur íslands
Mál nr. 299/2008
Lykilorð
- Líkamsárás
- Brot gegn valdstjórninni
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2008. |
|
Nr. 299/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, settur vararíkissaksóknari) gegn Algis Rucinskas og Sarunas Urniezius (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) |
Líkamsárás. Brot gegn valdstjórninni.
A og S voru ákærðir fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, A með því að hafa slegið tvo lögreglumenn og A og S með því að hafa ásamt þriðja manni ráðist að lögreglumanni og slegið hann ítrekað og sparkað í höfuð hans. Fyrir Hæstarétti gerði ákæruvaldið athugasemdir um atriði sem ekki hafi verið nægjanlega litið til við úrlausn málsins í héraði. Ekki þóttu efni til að telja ákvæði 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 geta átt við. Talið var að héraðsdómara hafi frá öndverðu mátt vera ljóst að niðurstaða málsins myndi ráðast af mati á sönnunargildi munnlegra skýrslna og hefðu með réttu lagi þrír héraðsdómarar átt að skipa dóm í málinu. Þrátt fyrir það voru ekki talin efni til að ómerkja héraðsdóminn. Talið var sannað að A hafi slegið tvo lögreglumenn, en hins vegar ekki talið sannað að hann hafi gert sér grein fyrir að um lögreglumenn var að ræða við verknaðinn, en þeir voru óeinkennisklæddir. Var brot A því ekki heimfært undir 1. mgr. 106. gr. hegningarlaga, heldur 1. mgr. 217. gr. Ekki var talið sannað að A og S hefðu í sameiningu ásamt þriðja manni ráðist á lögreglumann, enda hafi lögreglumennirnir ekki getað borið um það hverjir það hafi verið sem veittust að honum og fleiri hafi verið á vettvangi. Voru þeir því sýknaðir af þeim hluta ákærunnar sem sneri að þeirri háttsemi. Við ákvörðun refsingar A var m.a. litið til þess að hann réðst án nokkurs tilefnis á tvo menn úti á götu og veitti þeim þung höfuðhögg. Þá voru fjórir félagar hans komnir út úr bifreið reiðubúnir til að leggja honum lið. Var refsing A ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, en ekki þóttu efni til að skilorðsbinda hana.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða Algis Rucinskas um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst sakfellingar beggja ákærðu samkvæmt ákæru og þyngingar á refsingu ákærða Algis Rucinskas.
Ákærði Algis Rucinskas krefst aðallega sýknu en til vara að refsing hans verði milduð.
Ákærði Sarunas Urniezius krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
I
Ríkissaksóknari höfðaði mál þetta með ákæru 5. febrúar 2008 á hendur þremur mönnum, ákærðu Algis Rucinskas og Sarunas Urniezius auk Vitalij Gagin, fyrir brot gegn valdstjórninni. Var þeim gefið að sök að hafa aðfaranótt föstudagsins 11. janúar 2008 brotið gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum með því að ráðast með ofbeldi á lögreglumenn við fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem voru við skyldustörf fyrir utan veitingastaðinn Monte Carlo að Laugavegi 34a í Reykjavík. Í I. kafla ákæru var ákærða Algis Rucinskas gefið að sök að hafa með krepptum hnefa slegið lögreglumanninn Eirík Valberg í höfuðið með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið stóra kúlu ofarlega á enni vinstra megin og lögreglumanninn Jón Gunnar Sigfús Sigurgeirsson í andlitið með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið roða og bólgu á vinstri kinn, bólgu á efri vör og tognun á hálshrygg. Í II. kafla ákæru voru allir ákærðu bornir sökum um að hafa í sameiningu ráðist að lögreglumanninum Snorra Birgissyni, slegið hann ítrekað, meðal annars í höfuðið, og sparkað í höfuð hans ekki sjaldnar en tvisvar eftir að ákærðu felldu hann í götuna. Við þetta hafi Snorri hlotið heilahristing, roðabletti í andliti og á hálsi, kúlu efst á höfði, hrufl á báðum hnjám og tognun í hálsi, vinstri olnboga og þumallið hægra megin.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. febrúar 2008. Ákærðu, sem eru frá Litháen, neituðu allir sök. Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu Sarunas Urniezius og Vitalij Gagin sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins, sem unir við þau málalok að því er þann síðarnefnda varðar. Ákærði Algis Rucinskas var sakfelldur fyrir að hafa slegið Eirík Valberg og Jón Gunnar eins og honum var gefið að sök, en brot hans var talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, þar sem ekki þótti sannað að honum hafi mátt vera ljóst að um lögreglumenn hafi verið að ræða þegar hann veittist að þeim.
II
Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti virðist óumdeilt að aðdragandi fyrrgreindra atvika hafi verið sá að ákærðu Algis Rucinskas og Sarunas Urniezius hafi með samlöndum sínum Vitalij Gagin, Deividas Sarapinas og Juozas Bulkevicius verið staddir aðfaranótt 11. janúar 2008 á kránni Belly´s í Hafnarstræti ásamt Birnu Pálsdóttur, en þau hafi, að frátöldum Deividas Sarapinas og ákærða Sarunas Urniezius, verið starfsmenn fyrirtækisins JB byggingarfélags. Þau hafi farið af kránni og haldið brott á tveimur bifreiðum. Birna og ákærði Algis Rucinskas hafi verið í annarri bifreiðinni og aðrir áðurnefndir í hinni og hafi þau ekið sem leið lá austur Hverfisgötu og síðan vestur Laugaveg. Á þeim tíma hafi fyrrnefndir þrír lögreglumenn ásamt þeim fjórða, Hauki Bent Sigmarssyni, verið óeinkennisklæddir við fíkniefnaeftirlit í námunda við veitingastaðinn Monte Carlo á Laugavegi. Þar hafi þeir haft afskipti af tveimur körlum og konu, en hún hafi staðið utan við bifreið, látið ófriðlega og baðað út höndum. Í sömu mund hafi ákærðu og fyrrnefndir samferðarmenn þeirra komið akandi eftir Laugavegi. Birna Pálsdóttir hafi stöðvað bifreiðina, sem hún og ákærði Algis Rucinskas hafi verið í, en þau bera því við að þau hafi talið mennina fjóra, sem reyndust vera óeinkennisklæddir lögreglumenn, vera að á ráðast á konuna og hafi þau farið út til að aðstoða hana. Það sama hafi ökumaður hinnar bifreiðarinnar gert og þeir, sem í henni voru, einnig farið út í því skyni. Ákærðu og umræddir þrír félagar þeirra hafa allir ásamt Birnu Pálsdóttur haldið því fram að þau hafi ekki á þessu stigi gert sér grein fyrir því að þarna væru lögreglumenn við störf. Þessum staðhæfingum var ekki andmælt af hálfu ákæruvaldsins við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti.
Um þau atvik, sem síðan urðu, stendur á hinn bóginn ágreiningur. Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að á skorti að í héraðsdómi séu nægilega reifuð atriði úr skýrslum ákærðu og vitna sem verulegu máli skipti um sönnunarmat.
Að því er varðar I. kafla ákæru vísar ákæruvaldið í þessu sambandi til þess að lögreglumennirnir Jón Gunnar Sigfús Sigurjónsson og Haukur Bent Sigmarsson hafi fyrir dómi fullyrt að þeir hafi kallað „police“ áður en ákærðu og félagar þeirra hafi veist að þeim fjórum lögreglumönnum, sem voru við störf á vettvangi umrætt sinn, auk þess sem þeir hafi verið með lögregluskilríki hangandi um hálsinn. Haukur Bent hafi tekið sín skilríki upp og kallað upp sama orðið þrívegis þegar ákærði Algis Rucinskas og fjórir aðrir menn, sem hann hafi séð að voru útlendingar, komu að þeim. Mennirnir hafi verið um eina bíllengd frá honum þegar hann kallaði þetta og hélt sínum skilríkjum uppi. Eiríkur Valberg hafi jafnframt fullyrt fyrir dómi að ákærði Algis Rucinskas hafi séð lögregluskilríki sem héngu um háls hans. Hann hafi haldið skilríkjunum uppi þegar hann átti samskipi við vitnið Birnu Pálsdóttur, sem hafi séð skilríkin vel, en þetta hafi gerst áður en til átaka kom á vettvangi og hafi ákærði Algis Rucinskas þá verið staddur mjög nálægt Birnu. Vitalij Gagin hafi borið fyrir dómi að hann hafi heyrt kallað „police“ hálfri mínútu eftir að hann steig út úr bifreið á vettvangi. Snorri Birgisson hafi borið að hann hafi verið með skilríki sín hangandi um hálsinn utan við yfirhöfn allan tímann, sem hann var á vettvangi. Vitnið Sæmundur Karl Aðalbjörnsson, sem hafi ekið eftir Laugavegi, hafi séð skilríki lögreglumanns sem sleginn var niður áður en vitnið fór út úr bifreið sinni. Samkvæmt þessu telur ákæruvaldið sannað að ákærða Algis Rucinskas hafi verið fullljóst að Eiríkur Valberg og Jón Gunnar Sigfús Sigurgeirsson væru lögreglumenn áður en hann hafi ráðist að þeim.
Varðandi II. kafla ákærunnar er af hálfu ákæruvaldsins vísað til þess að Snorri Birgisson hafi lýst því fyrir dómi að eftir að Eiríkur Valberg hafi fengið þungt högg frá manni í skærblárri úlpu hafi Snorri farið inn í hóp þriggja manna, sem ráðist hafi á Eirík þrátt fyrir að hann hafi áður kallað á ensku að þeir væru lögreglumenn, og hafi þessir þrír menn allir látið högg og spörk dynja á Snorra. Við þetta hafi hann fallið til jarðar, en litið upp og séð mann í skærblárri úlpu stökkva yfir höfuð hans. Óumdeilt sé að þessi lýsing á klæðaburði eigi við ákærða Algis Rucinskas. Einnig hafi Snorri borið að einn árásarmannanna hafi ekið bifreið af gerðinni BMW af vettvangi eftir árásina, en ákærði Sarunas Urniezius hafi fyrir dómi staðfest að hann hafi ekið þeirri bifreið. Snorri hafi á hinn bóginn ekki getað fullyrt hver þriðji árásarmaðurinn hafi verið. Birna Pálsdóttir hafi sagt í vitnaskýrslu að ákærði Sarunas Urniezius hafi verið einn þeirra, sem hafi sparkað í liggjandi mann á vettvangi.
III
Samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði gefi skýrslu hér fyrir dómi. Svo var ekki gert í máli þessu. Engin efni eru til að fallast á að Hæstiréttur geti án tillits til þessa ákvæðis metið sjálfstætt hvort tekist hafi með munnlegri sönnunarfærslu að sanna sök ákærðu vegna þess að héraðsdómari leggi í hinum áfrýjaða dómi „í raun ekkert mat á trúverðugleika framburðar ákærðu eða vitna“, svo sem komist er að orði í greinargerð af hálfu ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti.
Hér að framan er greint frá athugasemdum, sem gerðar hafa verið af hendi ákæruvaldsins um atriði, sem ekki hafi nægilega verið litið til við úrlausn málsins í héraði. Að því er varðar I. kafla ákæru er til þess að líta að fyrir liggur að átök, sem þar greinir, hófust þegar ákærði Algis Rucinskas sló lögreglumennina Eirík Valberg og Jón Gunnar Sigfús Sigurgeirsson eins og hann var sakfelldur fyrir í héraðsdómi. Þrátt fyrir málatilbúnað ákæruvaldsins hafa ekki verið leiddar nægar líkur fyrir því að röng sé sú ályktun, sem byggt er á í hinum áfrýjaða dómi, að ósannað sé að áður en þetta gerðist hafi verið búið að hrópa á ensku að þetta væru lögreglumenn. Af framburði Eiríks, Jóns Gunnars og Birnu Pálsdóttur verður heldur ekki ályktað með nægilegri vissu að ákærði hafi áður en þetta gerðist hlotið að hafa séð skilríki lögreglumannanna. Um sakarefni II. kafla ákæru er til þess að líta að vitnið Birna bar að þegar hún hafi séð þrjá menn lemja og sparka í einn mann, líklegast lögreglumann, sem lá á jörðinni, hafi aðrir lögreglumenn verið með ákærða Algis Rucinskas „skammt frá inni í hinu horninu.“ Hún bar á hinn bóginn einnig að einn þeirra, sem spörkuðu í liggjandi manninn, hafi verið hávaxinn og hún því aðallega á þeim grunni ályktað að þar hafi verið að verki ákærði Sarunas Urniezius. Að því verður þó að gæta að eftir gögnum málsins gat þessi lýsing ein út af fyrir sig einnig átt við um annan áðurnefndra manna, sem voru á vettvangi, auk þess sem Vitalij Gagin bar fyrir dómi að hann hafi sest aftur inn í bifreið fljótlega eftir að átökin hófust og hafi ákærði Sarunas Urniezius þegar verið kominn þangað inn. Að þessu öllu virtu eru ekki efni til að telja ákvæði 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 geta átt hér við. Eins og mál þetta var vaxið mátti héraðsdómara að vísu vera ljóst frá öndverðu að niðurstaða þess myndi ráðast af mati á sönnunargildi munnlegra skýrslna ákærðu og framburði fjögurra lögreglumanna og annarra vitna fyrir dómi, en í því ljósi og með því að ákærðu voru bornir sökum um brot, sem varðað getur þungri refsingu, hefði að réttu lagi borið að neyta í héraði heimildar síðari málsliðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 til að þrír héraðsdómarar skipuðu dóm í málinu. Þrátt fyrir það eru ekki næg efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar á ný.
Að teknu tilliti til alls þess, sem að framan greinir, verður ekki hreyft við sönnunarmati héraðsdómara. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða Algis Rucinskas og heimfærslu brots hans til refsiákvæða, en jafnframt um sýknu ákærða Sarunas Urniezius.
Við ákvörðun refsingar ákærða Algis Rucinskas verður að gæta að því að hann réðist án nokkurs tilefnis á tvo menn á götu úti og veitti þeim þung höfuðhögg með krepptum hnefa. Fjórir félagar hans voru þá komnir út úr annarri bifreið og sýnilega reiðubúnir að leggja honum lið. Árás ákærða var fólskuleg og ógnvekjandi og brotavilji hans einbeittur. Að virtu því, sem í héraðsdómi greinir um ákvörðun refsingar, svo og 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, er hún hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald, sem ákærði sætti frá 11. til 18. janúar 2008. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða látin standa óröskuð.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sarunas Urniezius fyrir Hæstarétti skulu greiðast úr ríkissjóði, en þau eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Ákærði Algis Rucinskas verður dæmdur til að greiða helming annars áfrýjunarkostnaðar málsins, þar á meðal af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, allt eins og í dómsorði segir, en að öðru leyti greiðist sakarkostnaður fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Ákærði Algis Rucinskas sæti fangelsi í þrjá mánuði, en frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist hans frá 11. til 18. janúar 2008.
Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sarunas Urniezius fyrir Hæstarétti, Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði Algis Rucinskas greiði að helmingi annan áfrýjunarkostnað málsins, sem alls nemur 320.680 krónum, en þar af eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, 12. mars 2008.
Málið, sem dómtekið var 28. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 5. febrúar 2008 á hendur „Algis Rucinskas, [...], Hringbraut 39, Reykjavík, Sarunas Urniezius, [...], Ástúni 4, Kópavogi og Vitalij Gagin, [...], án lögheimilis, litháískum ríkisborgurum, fyrir brot gegn valdstjórninni aðfaranótt föstudagsins 11. janúar 2008, með því að ráðast með ofbeldi á lögreglumenn við fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem voru við skyldustörf fyrir utan veitingastaðinn Monte Carlo, Laugavegi 34a, Reykjavík:
I
Gegn ákærða Algis Rucinskas:
a) Fyrir að hafa slegið lögreglumanninn Eirík Valberg, fæddum 1981, í höfuðið með krepptum hnefa með þeim afleiðingum að Eiríkur hlaut stóra kúlu ofarlega á enni vinstra megin.
b) Fyrir að hafa slegið lögreglumanninn Jón Gunnar Sigfús Sigurgeirsson, fæddum 1979, í andlitið með krepptum hnefa með þeim afleiðingum að Jón Gunnar hlaut roða og bólgu á vinstri kinn, bólgu á efri vör og tognun á hálshrygg.
II
Gegn ákærðu öllum fyrir að hafa í sameiningu ráðist að lögreglumanninum Snorra Birgissyni, fæddum 1984, slegið hann ítrekað, meðal annars í höfuðið, og sparkað í höfuð hans eigi sjaldnar en tvisvar eftir að ákærðu felldu Snorra í götuna. Við þetta hlaut Snorri heilahristing, roðabletti í andliti og á hálsi, kúlu efst á höfði, hrufl á báðum hnjám og tognun í hálsi, um vinstri olnboga og um þumallið hægra megin.
Telst háttsemi ákærðu við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 101/1976 og 1. gr. laga nr. 25/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Ákærðu neita sök og krefjast sýknu. Þeir krefjast þess að sakarkostnaður falli á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjenda þeirra.
Í frumskýrslu Jóns Gunnars Sigfúsar Sigurgeirssonar lögreglumanns segir um upphaf málsins að nokkrir lögreglumenn hafi verið við fíkniefnaeftirlit á Laugavegi aðfaranótt föstudagsins 11. janúar síðastliðins. Á móts við veitingastaðinn Monte Carlo hafi þeir veitt tveimur körlum og einni konu eftirtekt. Þau hafi öll verið ölvuð og gengið að bifreið er lagt hafði verið á móts við veitingastaðinn. Lögreglumennirnir höfðu afskipti af þessu fólki eftir að ljóst varð að þau hygðust aka á brott á bifreiðinni. Segir í skýrslunni að konan hafi látið mjög ófriðlega og baðað höndunum út í loftið eftir að hún steig út úr bifreiðinni. Síðan segir í skýrslunni: „Á þessum tíma sáum við hvar tvær bifreiðar stöðvuðu við vettvanginn og út úr hvítri bifreið steig stúlka. Stúlkan gekk til okkar og spurði okkur brosandi hvort við værum að ráðast á stelpu. EV-0329 kynnti henni með því að sýna henni lögregluskilríki sín að við værum lögreglumenn og bað hana um að koma ekki að okkur þar sem við værum að vinna. Í framhaldi af þessu komu nokkrir aðilar út úr bifreiðunum og hlupu að okkur. EV sýndi þeim lögregluskilríki sín en okkur var strax ljóst að þeir væru erlendir og kölluðum við því til þeirra „Police“ ítrekað. Auk EV náði HBS-0422 að sýna mönnunum lögregluskilríki sín og hrópa að þeim að við værum lögreglumenn. Réðust mennirnir engu að síður á okkur með höggum og spörkum. Strax við upphaf árásarinnar fékk EV högg á höfuðið, ofan við vinstra gagnaugað, hlaut af bólgur og kúlu. Nánast á sama tíma fékk ég, JGSS-9932, þungt högg á vinstri kinn svo sprakk fyrir vör og bólga myndaðist á kinn auk þess sem ég fékk mikinn höfuðverk.“
Í skýrslunni er svo nánar lýst átökunum á vettvangi en lögreglumaðurinn vankaðist við höggið og mundi lítið hvað gerðist næstu andartökin.
Lögreglumennirnir kölluðu eftir aðstoð og komu margir lögreglumenn á vettvang. Þar og annars staðar voru ákærðu handteknir auk annarra er talið var að hlut ættu að máli. Ákærðu voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 18. janúar en hafa síðan þá verið í farbanni. Auk ákærðu voru tveir Litháar úrskurðaðir í gæsluvarðhald og síðan farbann.
Lögreglumennirnir, sem greindir eru í ákærunni, leituðu til slysadeildar eftir átökin. Í vottorði um Snorra Birgisson segir: „Við skoðun er sjúklingur með roða aftan á hálsi beggja vegna og sömuleiðis rauður í kinnum. Þá eru eins og 3 roðablettir ofarlega á enni hægra megin, kúla efst á höfði. Engin óþægindi við að bíta saman. Augnhreyfingar eru eðlilegar. Svolítil eymsli í vinstra eyra en ekki merki um blæðingu þar inn í hlustinni. Þá eru nokkur eymsli þegar hann sveigir höfuð niður í átt að bringu þannig að eymsli eru aftanvert í hálsvöðvum. Við skoðun á handleggjum þá voru nokkur eymsli þarna við hreyfingar um vinstri olnboga og þreifast eymsli við vöðvafestur utanvert við olnbogaliðinn. Þá eru nokkur eymsli um þumallið á hægri hendi. Loks má tiltaka að hann er með grunn hrufl framan á báðum hnjám. Skömmu eftir komu er tekin sneiðmynd af höfði til að athuga hvort einhver blæðing greinist innan höfuðkúpu eða þá brot yfir kúpubeinum en ekki sést neitt slíkt.“ Greiningin var heilahristingur, væg tognun í hálsi, tognun um olnboga, tognun um þumallið og yfirborðsáverkar.
Í vottorði um áverka Jóns Gunnars Sigfúsar Sigurgeirssonar segir að við skoðun sé „hann með roða og bólgu á kinn vinstra megin sem nær niður á efri vör sem einnig er áberandi bólgin. Við skoðun er hann enn fremur stífur í hálsi vinstra megin en hreyfingar eru að öðru leyti eðlilegar um hálsinn.“
Í vottorði um áverka Eiríks Valberg segir að hann sé með nokkuð stóra kúlu á enninu, tveir sinnum tveir sentimetrar, og nánast sprungið fyrir.
III
Í þessum kafla verður rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi. Ákærði Algis Rucinskas bar að hann hafi verið við Monte Carlo aðfaranótt föstudagsins 11. janúar síðastliðins og lent þar í átökum en ekki hafi verið um slagsmál að ræða. Hann kvaðst hafa verið farþegi í bifreið með Birnu vinkonu sinni og vinir hans hafi verið að aka sömu leið í annarri bifreið og voru þau öll að aka niður Laugaveg. Hann kvaðst hafa séð unga menn vera að ráðast á stúlku og hafi Birna sagt að hún þekkti til fólksins, en ekki vissi hann hvort hún hafi átt við mennina eða stúlkuna. Birna hafi stöðvað bifreiðina og hlaupið til fólksins. Ákærði kvaðst hafa séð að ýtt var við Birnu og fór hann þá út úr bifreiðinni. Henni var ýtt aftur og hafi hann gripið hana og í því hafi vinir hans komið og blandast í átökin. Hann kvaðst hafa haldið um Birnu eftir að hafa gripið hana og slegið, með vinstri hönd, manninn sem var að ýta henni. Þessi viðbrögð hafi verið eins og ósjálfráð. Þá hafi mennirnir hrópað „við erum lögreglumenn“ og reynt að sýna skírteini og byrjað að úða gasi. Þegar ákærði uppgötvaði að um lögreglumenn var að ræða kvaðst hann hafa reynt að forðast gasið og komið sér á brott en ekki farið langt. Skömmu síðar hafi borið að lögreglumenn og þeir byrjað að berja hann í bakið þótt hann hafi verið með hendur upp í loft. Hann kvað mennina ekki hafa verið einkennisklædda en hrópað að þeir væru lögreglumenn. Ákærði hafi síðan verið handtekinn og fluttur á lögreglustöðina.
Nánar spurður um átökin kvaðst ákærði hafa reynt að ýta frá sér en kvaðst ekki geta sagt hvort hann hafi slegið frá sér með krepptum hnefa. Hann neitaði að hafa slegið lögreglumann með krepptum hnefa og enn fremur neitaði hann að hafa sparkað í einhvern í átökunum. Ákærði kvaðst ekki hafa séð lögregluskilríki framan á mönnunum fyrir framan Monte Carlo. Hann hafi fyrst áttað sig á því að um lögreglumenn var að ræða þegar þeir hafi kallað Police, en það var eftir að hann byrjaði að ýta frá sér.
Ákærði Sarunas Urnieziuz bar að hafa verið á akstri eftir Laugaveginum umrædda nótt og stöðvað eftir að hann sá að ýtt var við Birnu af manni, en hann var í hópi manna. Ákærði kvaðst hafa farið út úr bifreiðinni og ýtt með flötum lófa við manninum sem hafði ýtt við Birnu. Hann kvaðst ekki hafa vitað að þetta væru lögreglumenn og fyrst vitað það þegar þeir hófu að hrópa Police, en það hafi hann heyrt þegar hann hafði ýtt við manninum. Þá hafi hann farið á brott á bifreiðinni. Ákæruefnið var borið undir ákærða og neitaði hann alfarið að hafa gert það sem hann er ákærður fyrir. Kvað hann ákæruefnið vera rugl.
Ákærði Vitalij Gagin bar að hafa verið fyrir framan Monte Carlo á umræddum tíma og að hafa lent þar í átökum. Hann hafi ásamt fleirum komið akandi í bifreið og séð að verið var að ýta við konu á götunni. Í framhaldinu hafi hafist átök og konan öskrað. Hann hafi þá heyrt öskrað Police og við það snúið aftur í bifreiðina, sest í aftursæti, og ekki tekið þátt í neinum átökum. Hann kvað meðákærða Sarunas hafa verið kominn inn í bifreiðina á undan sér. Nánar spurður um átökin kvað hann að um hafi verið að ræða ýtingar og lýsti hann ástandinu eins og það hafi verið „kaos“. Ákærði gat ekkert borið um hvað meðákærðu gerðu í átökunum. Nánar spurður um átökin kvað hann mikið hafa verið öskrað. Ákæruefnið var borið undir ákærða og neitaði hann alfarið að hafa gert það sem hann er ákærður fyrir.
Devidas Sarapinas var einn af þeim sem voru á vettvangi. Hann bar að hafa verið á Laugaveginum umrædda nótt og séð að eitthvað var að gerast. Hann kvaðst hafa séð vini sína þar, það er ákærðu og einnig Juozas. Hann kvaðst hafa séð hreyfingar í hóp, eins og hann orðaði það, en ekkert meira. Hann kvaðst hafa séð að einhver ýtti á konu sem var með ákærða Algis og hafi það verið einn af lögreglumönnunum. Eftir það hafi hafist hreyfingar, eins og framburður hans var þýddur, en hvað gerðist nákvæmlega kvaðst hann ekki geta borið um þar eð allt hefði gerst svo hratt. Þó hafi einhver kallað Police þegar hreyfingarnar hófust en hvað gerðist eftir það kvaðst hann ekki muna þar eð hann hafi fengið gas framan í sig. Hann kvaðst síðar hafa séð að mennirnir voru með lögregluskilríki.
Juozas Bulkevicius var einnig á vettvangi. Hann bar að hafa verið þar með ákærðu og framangreindum Devidas. Þangað hafi hann komið með félögum sínum á bifreið er ekið var eftir Laugaveginum. Þeir hafi séð kyrrstæða bifreið og konu og hafi þeir stansað þar. Það sem síðan gerðist hafi gerst mjög hratt og hann kvaðst ekki hafa séð atburðarásina vel, enda hafði hann drukkið áfengi og verið þreyttur eftir vinnu. Þeir félagarnir hafi farið út úr bifreiðinni en ekkert hafi það verið rætt þeirra á milli hvað þeir ætluðu að gera. Hann kvaðst hafa séð ákærða Algis þegar hann gekk frá bifreiðinni og að hóp manna sem þar var. Juozas kvaðst hafa gengið að hópnum en þá fengið högg og ekki muna vel eftir sér eftir það. Hann kvaðst ekki hafa séð lögregluskilríki meðan á þessu stóð og ekki gert sér grein fyrir að þarna væru lögreglumenn. Hann kvaðst hafa heyrt kallað Police en skilið það svo að einhver væri að kalla á hjálp lögreglunnar. Spurður um hvað hann hafi viljað út úr bifreiðinni kvaðst hann hafa viljað hjálpa konu sem karlmenn hefðu verið að ráðast á, en ekki hafi hann þekkt konuna. Hann hafi þekkt konuna sem var með ákærða Algis en þetta hafi ekki verið hún.
Eiríkur Valberg lögreglumaður bar að hann hafi verið við fíkniefnaeftirlit á Laugavegi umrædda nótt ásamt þremur öðrum lögreglumönnum. Hann kvað þá hafa haft afskipti af einni konu og tveimur körlum fyrir utan Monte Carlo. Þá hafi stúlka gengið til þeirra og spurt hvað þeir væru að gera og hvort þeir væru að ráðast á konuna. Eiríkur kvaðst hafa rætt við stúlkuna sem kom, sýnt henni lögregluskilríki og sagt henni hvað væri að gerast og þá hafi hann fengið högg á gagnaugað. Hann kvaðst hafa séð manninn sem sló hann út undan sér en hann væri viss um að það hafi verið ákærði Algis sem hafi slegið sig. Hann hafi séð ákærða strax eftir að hann hafði verið handtekinn. Eiríkur kvað ákærða hafa verið í áberandi blárri úlpu og hafi hann þekkt ákærða af úlpunni. Eiríkur kvaðst hafa vankast við höggið og lítið muna eftir að hann fékk það. Nánar spurður kvaðst Eiríkur hafa haldið lögregluskilríkjum fyrir framan sig og verið að sýna stúlkunni þau er hann fékk höggið. Útilokað væri annað en maðurinn sem sló hann hafi séð þau. Í sömu mund og hann var sleginn kvaðst hann hafa heyrt hrópað Police.
Jón Gunnar Sigfús Sigurgeirsson lögreglumaður bar að þeir lögreglumennirnir hafi haft afskipti af þremur mönnum, einni konu og tveimur körlum, umrædda nótt þegar hópur mann kom og réðst á þá. Hann kvaðst hafa verið á gangstéttinni þegar hann sá stúlku koma út úr bíl og hafi hún spurt hvort þeir væru að ráðast á konu. Lögreglumennirnir hafi sagt hverjir þeir væru og að þeir væru að vinna. Í nánast sömu mund hafi menn komið hlaupandi út úr tveimur bifreiðum og ráðist á lögreglumennina. Jón Gunnar kvaðst strax hafa fengið högg á kinnbeinið og hafi sá sem sló verið klæddur í bláa peysu og taldi Jón Gunnar hann heita Algis. Jón Gunnar kvaðst hafa kallað á hjálp, síðan dregið upp kylfu og farið að hjálpa félögum sínum, en þá var verið að ráðast á tvo þeirra. Hann kvaðst ekki geta borið um árásina á Snorra því að hann hefði verið að kalla á hjálp þegar hún átti sér stað. Þegar Jón Gunnar sá til Snorra hafi hann verið að rísa á fætur. Hann kvaðst hafa haft lögregluskilríki hangandi um hálsinn og eins hafi þeir hrópað Police, enda hafi þeim fljótt orðið ljóst að árásarmennirnir voru útlendingar. Jón Gunnar sagðist ekki hafa séð þegar Eiríkur var sleginn. Hann og Haukur hafi hlaupið á eftir ákærða Algis og handtekið hann þannig að hann sé alveg viss um að hann hafi slegið sig. Jón Gunnar kvað á að giska eina og hálfa til tvær mínútur hafa liðið frá því hann var sleginn og þar til þeir höfðu handtekið ákærða Algis.
Snorri Birgisson lögreglumaður bar að þeir lögreglumennirnir hefðu verið að hafa afskipti af fólki sem þeir þekktu mjög vel. Hann kvaðst hafa séð stúlku koma og gefa sig á tal við Eirík Valberg og hafi hún verið að skipta sér af störfum hans, en Eiríkur var að ræða við konu sem lögreglumennirnir töldu ástæðu til að hafa afskipti af. Eiríkur hafi beðið stúlkuna um að fara frá og jafnframt kynnt henni að þeir væru lögreglumenn. Í sömu mund kveðst Snorri hafa verið að leita að karlmanni sem lögreglumennirnir voru að hafa afskipti af. Allt í einu kveðst hann sjá karlmann í skærblárri úlpu stökkva út úr þvögu sem þarna var og kýla Eirík á vinstri vangann og virtist Snorra þetta vera þungt högg. Hann kveðst næst hafa hlaupið að hópi 3 manna, sýnt lögregluskilríki sín og skipað þeim að hörfa frá. Hann kvaðst hafa gert sér grein fyrir að þetta væru útlendingar og því öskrað á ensku að hér væri lögreglan. Þá hafi höggin farið að dynja á sér, meðal annars í andlitið. Hann hafi slegið frá sér en misst jafnvægið og fallið í götuna, fyrst á hnén en síðan á magann. Um leið og hann féll í götuna kveðst hann hafa fengið högg á hnakkann og taldi hann það hafa verið spark, en ekki sá hann hver veitti honum það. Þegar hann náði áttum aftur sá hann mann í blárri úlpu hoppa yfir sig og hafi þetta verið sá sami og kýldi Eirík. Snorri kvaðst einnig hafa fengið högg á vinstra gagnauga og rotast við það. Eftir stuttan tíma kvaðst hann hafa rankað við sér og þá séð að maður var sestur inn í bifreið þarna rétt hjá. Hann hafi því sent skilaboð um númer bifreiðarinnar jafnframt því að fara að bifreiðinni og þá séð að inni í henni sat einn af mönnunum þremur sem hann hafi verið að slást við. Snorri kvaðst hafa ætlað að brjóta rúðu í bifreiðinni þar eð maðurinn vildi ekki opna hana, en áður en honum tókst að ná í kylfuna var bifreiðinni ekið á brott. Þá var kallað til hans að maður væri að koma og þegar hann sneri sér við sá hann manninn í bláu úlpunni koma hlaupandi í fasið á sér. Hann kvaðst telja sig hafa úðað gasi á manninn en þeir skollið saman og hann dottið í götuna. Hann kvaðst síðan hafa farið með félaga sínum í átt að bifreið og handtekið þar mann í brúnum jakka en ekki kvaðst hann hafa séð þann mann veitast að lögreglumönnunum. Snorri kvaðst ekki hafa séð Jón Gunnar sleginn. Hann fullyrti að ákærði Algis hefði slegið Eirík en í þvögunni hefði ákærði og ákærði Sarunas veitt sér atlögu ásamt þriðja manni sem hann vissi ekki hver var. Hann kvaðst hafa staðið við hlið Eiríks þegar hann var sleginn. Sérstaklega spurður kvaðst Snorri ekki geta borið um að ákærði Vitalij hafi veist að sér.
Haukur Bent Sigmarsson lögreglumaður bar að umrædda nótt hafi hann verið á Laugaveginum ásamt framangreindum lögreglumönnum. Þeir hafi verið að hafa afskipti af þremur mönnum í bifreið. Hann kvaðst hafa staðið á götunni og verið að ræða við ökumanninn þegar hann tók eftir að tvær bifreiðar stöðvuðu á götunni og út úr annarri þeirra kom stúlka. Eiríkur hafi svarað stúlkunni sem hafi spurt hann um eitthvað og í framhaldinu hafi hann verið kýldur niður af manni í bláum jakka og kvað Haukur hann heita Algis. Strax á eftir hafi Algis kýlt Jón Gunnar og hafi bæði hann og Eiríkur orðið óvígir. Í framhaldinu hafi myndast þvaga fólks fyrir aftan bifreiðina, sem fólkið var í er lögreglumennirnir voru að hafa afskipti af. Haukur kvaðst hafa farið að þvögunni öðru megin og Snorri hinum megin og hafi þá verið veist að þeim með kreppta hnefa, en Haukur taldi 7 -8 manns hafa verið í þvögunni. Haukur kvaðst hafa gert sér grein fyrir því þegar í upphafi í hvað stefndi og tekið upp lögregluskilríki, sýnt þau og hrópað Police. Þetta hafi fleiri lögreglumenn einnig kallað. Hann kvað Snorra hafa verið sleginn í götuna en ekki sá hann hver gerði það. Sjálfur hafi hann tekið upp brúsa með varnarúða og beitt honum. Jón Gunnar hafi þá komið að og getað beitt kylfu og við það hafi hópurinn hörfað og tvístrast og hann séð Algis hlaupa á brott. Haukur og Jón Gunnar hafi elt Algis, fyrst upp götuna en síðan niður aftur og þá hafi hann séð Snorra vera rísa á fætur, illa áttaðan. Haukur kallaði á Snorra að þar kæmi maðurinn sem hefði kýlt þá og hefðu Snorri og Algis lent saman og Snorri fallið við en Algis hlaupið inn í port og hafi Haukur og Jón Gunnar elt hann þangað og handtekið.
Birna Pálsdóttir bar að hún hefði ekið niður Laugaveginn og með henni í bifreiðinni hafi verið ákærði Algis. Í annarri bifreið, sem ekið var á eftir þeim, hefðu verið fjórir félagar ákærða. Við Monte Carlo hafi þau séð par og hafi konan legið í götunni. Hún hafi stöðvað bifreiðina og ákærði farið út úr henni. Hún hafi líka farið út og gengið að konunni og spurt hvort allt væri í lagi með hana og hvort verið væri að ráðast á hana, en hún hafi engu svarað og slegið frá sér. Í sömu mund kvaðst hún hafa séð ákærða Algis kýla mann og hafi höggið lent um það bil á gagnauganu. Hún kvaðst hafa séð annan mann sýna lögregluskilríki en sá sem kýldur var hafi ekki sýnt slík skilríki. Birna kvaðst hins vegar hafa áttað sig á að um óeinkennisklædda lögreglumenn hafi verið að ræða og eins hafi maðurinn sem sýndi henni skilríkin sagt að um lögregluaðgerð væri að ræða. Hún kvaðst ekki hafa séð þann mann sleginn. Þegar hér var komið sögu voru félagar ákærða komnir út úr hinni bifreiðinni og slagsmál höfðu hafist. Birna kvaðst hafa sagt lögreglumönnunum þegar þeir höfðu handtekið ákærða Algis að mennirnir væru útlendingar og hér væri um misskilning að ræða. Spurð um það af hverju þau höfðu stöðvað og farið að skipta sér af konunni á götunni kvað Birna þetta hafa litið út sem verið væri að ráðast á konuna og hafi þau ætlað að hjálpa henni. Birna kvaðst ekki hafa heyrt kallað Police, en hún hafi áttað sig á því að þessi átök byggðust á misskilningi. Þá kvað hún að konan hafi slegið til sín og eins hafi lögreglumaður stöðvað sig eða ýtt við sér. Við þetta hafi hafist átök sem hafi staðið stutt og allt gerst mjög hratt og hafi hún í raun ekki vitað hverjir voru lögreglumenn og hverjir ekki. Þá hafi menn verið að sparka í einn mann sem lá í götunni, en ekki gat Birna borið um hverjir áttu þarna hlut að máli. Í myndbendingu hafði Birna þekkt ákærða Sarunas sem einn þessara manna en fyrir dómi var hún ekki eins viss og kvaðst hafa byggt framburð sinn á því hversu hávaxinn maðurinn var sem sparkaði. Birna taldi ástæðu þess að þau ákærði stöðvuðu hafa verið að þau hafi ætlað að bjarga konunni sem lá í götunni, en ekki hafi ætlunin verið að skipta sér af störfum lögreglunnar.
Sæmundur Karl Aðalbjörnsson varð vitni að átökunum. Hann kvaðst hafa verið staddur á miðjum Laugaveginum og séð að lögreglumenn höfðu lagt þar bifreið og árásarmennirnir, eins og hann orðaði það, lögðu fyrir aftan þá. Hann kvað einn mannanna hafa slegið einn lögreglumann niður en ekki vissi Sæmundur hvaða maður hafði gert það. Sæmundur kvaðst hafa vitað að þarna voru lögreglumenn á ferð. Hann hafi tekið eftir beltum og fylgihlutum á þeim og auk þess þekkt hann einn þeirra. Þá hafi hann séð skilríki á lögreglumönnunum. Næst sagði Sæmundur að það hefðu hafist átök en síðan hafi hópurinn tvístrast. Hann hafi séð Hauk elta einn og úða á hann gasi en maðurinn hafi náð að slá Hauk sem hafi vankast. Sæmundur tók fram að hann þekkti Hauk. Hann sá einnig lögreglumann liggja í götunni og var bæði sparkað í hann og hann sleginn. Ekki vissi hann hverjir hefðu gert það, en þeir hefðu komið úr bifreiðinni sem hann sá í upphafi. Sæmundur kvað allt hafa gerst mjög hratt og allir verið í einni þvögu þannig að hann gæti ekki borið um hver hefði gert hvað en hann hefði séð að mennirnir réðust á lögreglumennina.
IV
Af því sem að framan var rakið virðist sem atburðarásin fyrir framan veitingastaðinn Monte Carlo að Laugavegi 34a aðfaranótt föstudagsins 11. janúar síðast- liðins hafi verið þessum hætti. Fjórir óeinkennisklæddir lögreglumenn voru þar við fíkniefnaeftirlit og höfðu afskipti af tveimur körlum og einni konu. Á sama tíma komu ákærðu akandi eftir Laugaveginum í tveimur bifreiðum. Ákærði Algis var í fyrri bifreiðinni og ók Birna Pálsdóttir henni. Í aftari bifreiðinni voru hinir ákærðu og framangreindir Devidas og Juozas. Ákærði Algis og Birna virðast hafa túlkað aðgerðir lögreglumannanna sem árás á konuna, stöðvað bifreiðina og farið út í þeim tilgangi að hjálpa henni. Aftari bifreiðin stöðvaði einnig og þeir sem í henni voru fóru einnig út. Í framhaldinu lenti ákærðu og ef til vill öðrum saman við lögreglumennina með einum eða öðrum hætti.
Í fyrri lið ákærunnar er ákærða Algis gefið að sök að hafa slegið lögreglumanninn Eirík Valberg eins og þar er lýst. Ákærði hefur neitað sök en kannast við að hafa slegið með vinstri hönd til manns er var að ýta við Birnu. Þrír lögreglumenn bera að það hafi verið ákærði sem sló Eirík og það fær að hluta til stuðning í framburði Birnu og ákærða sjálfs. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi gerst sekur um að slá Eirík Valberg eins og honum er gefið að sök. Á sama hátt bera tveir lögreglumenn að ákærði hafi slegið Jón Gunnar eins og lýst er í þessum lið ákærunnar. Það er því niðurstaða dómsins að sannað sé með framburði lögreglumannanna, gegn neitun ákærða, að hann hafi einnig slegið Jón Gunnar eins og honum er gefið að sök.
Í síðari lið ákærunnar er ákærðu öllum gefið að sök að hafa í sameiningu ráðist á lögreglumanninn Snorra Birgisson eins og lýst er. Ákærðu neita allir sök. Hvorki Snorri, hinir lögreglumennirnir né önnur vitni hafa getað borið um hverjir það voru sem veittust að Snorra. Ákærðu voru að sönnu á vettvangi en þar voru einnig félagar þeirra tveir sem ekki eru ákærðir. Að svo vöxnu máli er það niðurstaða dómsins að gegn neitun ákærðu sé ekki komin fram lögfull sönnun fyrir sekt þeirra í þessum lið ákærunnar og verða þeir því sýknaðir af honum.
Brot ákærða Algis er í ákærunni talið brot gegn valdstjórninni og varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hélt því fram að sér hefði verið ókunnugt að um lögreglumenn hefði verið ræða, en þegar það hafi runnið upp fyrir honum hafi hann haft sig á brott. Framburður meðákærðu og landa þeirra tveggja, er á vettvangi voru, er mjög á sömu lund. Lögreglumennirnir voru óeinkennisklæddir en hafa borið að þeir hafi sýnt lögregluskilríki eins og rakið var. Af yfirheyrslum fyrir dómi má ráða að átökin hafi staðið mjög stutta stund. Þannig telur Jón Gunnar lögreglumaður að liðið hafi ein og hálf til tvær mínútur frá því hann var sleginn og þar til ákærði hafði verið handtekinn. Sæmundur Karl bar að allt hefði gerst mjög hratt og allir verið í einni þvögu. Þá verður ekki annað ráðið af framburði Birnu Pálsdóttur en það hafi verið eftir fyrsta höggið sem hún sá lögregluskilríki og áttaði sig á að um lögreglumenn væri að ræða. Ákærðu bera allir að þeir hafi fyrst gert sér grein fyrir að um lögreglumenn var að ræða þegar þeir heyrðu það hrópað á ensku og höfðu þeir sig þá á brott eins og rakið var. Þegar virtur er framburður ákærðu og vitna um það hvort og hvenær lögreglumennirnir sýndu skilríki sín er það niðurstaða dómsins að verulegur vafi leiki á hvort ákærða hafi mátt vera ljóst að um lögreglumenn var að ræða þegar hann sló þá Eirík Valberg og Jón Gunnar eins og hann hefur verið sakfelldur fyrir. Af þessu leiðir að brot hans verður ekki heimfært undir 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga heldur 1. mgr. 217. gr. sömu laga. Þetta er heimilt, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, enda var málflytjendum gefinn kostur á að reifa málið með það í huga.
Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann sektaður fyrir þjófnað í október síðast- liðnum. Refsing hans verður ákveðin með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og er hún hæfilega ákveðin 60 daga fangelsi. Skilyrði eru til að skilorðsbinda hana og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins fyrir ákærða haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ekki hefur verið lagt fram yfirlit yfir sakarkostnað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga nr. 19/1991. Hins vegar lagði sækjandinn fram ljósrit af fimm reikningum fyrir læknisvottorð vegna ákærðu og landa þeirra tveggja sem vitni eru í málinu. Eru reikningarnir samtals að fjárhæð 35.100 krónur. Verður ákærði Algis dæmdur til að greiða helming þessarar fjárhæðar en helmingur hennar skal greiddur úr ríkissjóði. Hann verður og dæmdur til að greiða helming málsvarnarlauna verjanda síns, Jónasar Þórs Guðmundssonar hdl., en þau ákveðast 850.000 krónur, en helmingur þeirra skal greiddur úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun verjanda ákærða Sarunas, Bjarna Haukssonar hdl., og verjanda ákærða Vitalij, Lárentsínusar Kristjánssonar hrl., 850.000 krónur til hvors, skulu greidd úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun allra verjendanna er ákveðin með virðisaukaskatti og að teknu tilliti til vinnu verjendanna meðan málið var á rannsóknarstigi.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Algis Rucinskas, sæti 60 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins fyrir ákærða haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærðu, Sarunas Urniezius og Vitalij Gagin, er sýknaðir af kröfu ákæruvaldsins.
Ákærði Algis greiði 17.550 krónur í sakarkostnað en að öðru leyti skal hann greiddur úr ríkissjóði. Hann greiði helming málsvarnarlauna verjanda síns, Jónasar Þórs Guðmundssonar hdl., 850.000 krónur, en helmingur þeirra skal greiddur úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun verjanda ákærða Sarunas, Bjarna Haukssonar hdl., og verjanda ákærða Vitalij, Lárentsínusar Kristjánssonar hrl., 850.000 krónur til hvors, skulu greidd úr ríkissjóð.