Hæstiréttur íslands

Mál nr. 666/2011


Lykilorð

  • Börn
  • Áfengislagabrot
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                     

Fimmtudaginn 7. júní 2012.

Nr. 666/2011

 

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

(Björn Jóhannesson hrl. f.h. brotaþola)

 

Börn. Áfengislagabrot. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

X var sýknaður af ákæru fyrir brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa látið A, sem þá var 15 ára, sjúga á sér kynfærin gegn loforði um að hafa milligöngu um að útvega henni áfengi. Ekki þótti sannað, gegn eindreginni neitun X, að hann hefði haft hin kynferðislegu samskipti við A gegn framangreindu loforði. Þar sem sá þáttur ákæruliðarins þótti veigamikill í lýsingu brotsins og í órofa sambandi við fyrri hluta brotalýsingarinnar taldi Hæstiréttur að ekki væri fullnægt því skilyrði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 að sanna þurfi hvert það atriði sem sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti. X var hins vegar sakfelldur fyrir brot gegn áfengislögum, en ekki gerð refsing vegna þess.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að því er varðar sakfellingu ákærða og ákvörðun refsingar.

Ákærði krefst aðallega sýknu af 1. lið í ákæru, til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið, en að því frágengnu „vægustu refsingar sem lög leyfa“ og að hún verði skilorðsbundin að fullu. Að því er varðar 2. ákærulið krefst ákærði þess aðallega að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið, en til vara „vægustu refsingar sem lög leyfa“ og að hún verði skilorðsbundin að fullu. Þá krefst ákærði þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2010 til 17. október 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákærði er í 1. lið ákæru borinn þeim sökum að hafa að kvöldi þriðjudagsins 2. febrúar 2010 í íþróttamiðstöðinni að [...], [...], sýnt af sér ósiðlegt athæfi gagnvart stúlkunni A, fæddri [...], sem þá var 15 ára ,,með því að láta hana sjúga á sér kynfærin gegn loforði um að hafa milligöngu um að útvega henni áfengi.“ Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum lið ákæru er einkum reist á framburði brotaþola hjá lögreglu og fyrir dómi, en um frumkvæði ákærða að fundi þeirra er einnig vísað til framburðar vitnis og til samskipta hans og brotaþola eftir atvikið. Ákærði hefur játað þau kynferðislegu samskipti við brotaþola á tilgreindum stað og tíma, sem í ákæru greinir, en kveður þau hafi farið fram með samþykki hennar. Hann mótmælir því eindregið að samþykki brotaþola til þeirra samskipta hafi verið veitt með því skilyrði að hann lofaði að hafa milligöngu um að útvega henni áfengi.  Hann kveður brotaþola hafa fyrst óskað eftir því í bifreiðinni er hann ók henni heim eftir veru þeirra í íþróttahúsinu. Í kæru [...] 21. apríl 2010 segir um þetta: ,,[Brotaþoli] greindi frá því að áður en hún fór úr íþróttahúsinu hafi hún farið fram á það við [ákærða] að hann útvegaði henni áfengi sem hann og gerði.“ Í framburði starfsmanns sveitarfélagsins, sem vann að málinu, fyrir dómi kemur einnig fram að það hafi verið hennar skilningur eftir samtöl við brotaþola að hún hafi fengið þetta loforð fram hjá ákærða eftir hin kynferðislegu samskipti þeirra. Gegn eindregnum andmælum ákærða um þetta atriði telst ekki sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi haft framangreind kynferðisleg samskipti við brotaþola gegn loforði af hans hálfu um að hafa milligöngu um að útvega henni áfengi. Í 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 segir að hvorki megi dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfur á hendur honum. Þó megi sakfella hann þótt aukaatriði brots, svo sem staður og stund þess séu ekki skýrt eða rétt greind, enda telji dómari að vörn hafi ekki verið áfátt þess vegna.

Sá þáttur sakargifta í 1. lið ákærunnar, sem lýtur að því að ákærði hafi komið fram vilja sínum gegn loforði um að hafa milligöngu um að útvega brotaþola áfengi, er ekki aukaatriði brotsins, heldur veigamikill þáttur í lýsingu ætlaðs brots hans. Þessi þáttur er í órofa sambandi við fyrri hluta brotalýsingar um að hann hafi ,,látið“ brotaþola viðhafa þær athafnir, sem lýst er í ákærunni. Þar sem þessi þáttur telst ekki sannaður er ekki fullnægt því skilyrði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um að sanna þurfi ,,hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti“. Verður því, eins og ætluðu broti er lýst í 1. lið ákæru, að sýkna ákærða af þeim sökum sem hann er borinn í þessum lið. Í samræmi við þá niðurstöðu verður einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

            Ákærði unir sakfellingu samkvæmt 2. lið ákæru og er fallist á með héraðsdómi að sakfella beri hann samkvæmt þeim lið.

            Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Eins og hér háttar til verður honum ekki gerð refsing vegna brots hans á 18. gr., sbr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, sbr. 218. gr. laga nr. 88/2008. Staðfest er niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð sakarkostnaðar þar með talin málsvararlaun skipaðs verjanda ákærða ásamt virðisaukaskatti. Þóknun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti ákveðst að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærða, X, er ekki gerð refsing í máli þessu.

Einkaréttarkröfu brotaþola, A, er vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða fyrir héraðsdómi 627.500 krónur og þóknun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 27. október 2011

Mál þetta, sem dómtekið var 13. september sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 31. maí 2011 á hendur ákærða, X, kt. [...], [...], [...];

fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2010 í [...] nema annað sé tekið fram:

1.       Brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 2. febrúar, í íþróttamiðstöðinni að [...], sýnt af sér ósiðlegt athæfi gagnvart stúlkunni A, fæddri [...], sem þá var 15 ára, með því að láta hana ... (sbr. framhaldsákæru útgefna 14. júní 2011) sjúga á sér kynfærin gegn loforði um að hafa milligöngu um að útvega henni áfengi.

2.       Brot gegn áfengislögum, með því að hafa nokkrum dögum síðar haft milligöngu um að útvega A áfengi á [...] og afhenda henni það í [...].

Telst 1. ákæruliður varða við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og telst 2. ákæruliður varða við 18. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B, kt. [...], [...], [...], fyrir hönd ófjárráða dóttur sinnar, A, kt. [...], með lögheimili á sama stað, er gerð sú krafa á hendur sakborningi, X, kt. [...], að hann verði dæmdur til að greiða kröfuhafa, B f.h. A, miskabætur að fjárhæð kr. 1.800.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafa þessi var kynnt fyrir sakborningi, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er einnig gerð krafa um þóknun við réttargæslu úr hendi sakbornings samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæslu­þóknun.

Kröfur ákærða eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Hvað skaðabótakröfu brotaþola varðar krefst ákærði þess aðallega að kröfunni verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni, en til þrautavara að hún verði lækkuð verulega. Í öllum tilvikum krefst ákærði þess að sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin hæfileg þóknun skipuðum verjanda ákærða til handa vegna vinnu hans á rannsóknarstigi og fyrir dómi.

I.

Með bréfi 21. apríl 2010 kærði barnaverndarnefndin á [...] meint kynferðisbrot ákærða gegn brotaþola til lögreglu. Í kæru barnaverndarnefndar kom fram að viku áður hefði nefndinni borist tilkynning frá stúlkunni sjálfri um brotið. Efnislega mun tilkynningin hafa verið á þá leið að ákærði, sem verið hefði málkunnugur brotaþola, hefði sett sig í samband við stúlkuna og beðið hana um að hitta sig að kvöldlagi í íþróttahúsinu í [...]. Hefði stúlkan orðið við þeirri bón. Í íþróttahúsinu hefði ákærði reynst vera einn fyrir. Hann hefði fljótlega gerst ágengur við stúlkuna og að lokum neytt hana til munnmaka.

Í kæru barnaverndarnefndar kom fram að brotaþoli hefði jafnframt greint frá því að áður en stúlkan fór út úr íþróttahúsinu fyrrnefnt kvöld hefði hún farið fram á það við ákærða að hann útvegaði henni áfengi, sem hann hefði og gert.

Undir rekstri málsins tók lögregla skýrslur af ákærða og nokkrum vitnum, þ.m.t. brotaþola. Einnig var aflað vottorða frá sálfræðingunum C og D. Þá aflaði lögregla enn fremur gagna varðandi símasamskipti ákærða og brotaþola, sem og MSN-samskipti brotaþola og tveggja vitna er vörðuðu sakarefni málsins.

Rannsókn málsins lauk í febrúar 2011 og gaf ríkissaksóknari síðan út ákæru á hendur ákærða 31. maí sl. samkvæmt áðursögðu. Var það mat ákæruvalds að ekki væri grundvöllur til ákæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Hins vegar var það niðurstaða ákæruvalds að ákærði hefði gerst sekur um háttsemi sem varðaði við barnaverndar- og áfengislög, sbr. töluliði 1 og 2 í ákæru.

II.

Ákærði kom fyrir dóm 22. júní 2011 og neitaði sök samkvæmt báðum töluliðum ákæru. Þá hafnaði hann bótakröfu brotaþola. Við aðalmeðferð málsins sagði ákærði þessa afstöðu sína óbreytta.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði umrætt kvöld, sem hann taldi mögulega hafa verið þriðjudagskvöld, spilað fótbolta í íþróttahúsinu í [...]. Eftir fótboltann, eða um kl. 22:00, hefði hann farið í sturtu í íþróttahúsinu. Síðar um kvöldið hefði brotaþoli komið og hitt hann í húsinu, eins og þau hefðu verið búin að ákveða áður í samskiptum sín á milli á MSN. Kannaðist ákærði við að hafa hringt í stúlkuna þetta kvöld, líklega á milli kl. 22:00 og 22:30, til að láta hana vita að fótboltinn væri búinn. Staðfesti ákærði að á umræddum tíma hefði hann verið að nota símanúmerið [...]. Þá sagði ákærði aðspurður sér hafa verið fullkunnugt um aldur stúlkunnar og tók fram að þau hefðu á þessum tíma verið orðnir góðir vinir.

Spurður um hvort hann hefði þurft að ganga á eftir brotaþola að koma í íþróttahúsið kvað ákærði svo ekki hafa verið. Stúlkan hefði alveg verið til í að hitta ákærða þar. Sérstaklega spurður um hvað staðið hefði til að gerðist í íþróttahúsinu svaraði ákærði: „Það var alveg búið að plana að það átti eitthvað að gerast. ... Við vorum bæði að leita eftir einhverju meira en bara spjalli.“ Sagðist ákærði hafa haldið að samskipti þeirra brotaþola væru að þróast út í einhverskonar samband.

Fram kom hjá ákærða að í fyrstu hefðu hann og stúlkan rætt saman en fljótlega hefðu þau farið að kyssast. Stúlkan hefði síðan veitt ákærða munnmök inni í búningsklefa kvenna í íþróttahúsinu og hefði ákærði haft sáðfall. Ákærði sagði frumkvæði að þessum atlotum hafa verið gagnkvæmt og stúlkan tekið fullan þátt í þeim. Lýsingar stúlkunnar á því að hann hefði verið ágengur við hana og ekki viljað hleypa henni út úr búningsklefanum sagði ákærði alrangar. Þá kannaðist ákærði alls ekki við að komið hefði til tals milli þeirra brotaþola að hann keypti handa henni áfengi í skiptum fyrir að hún veitti honum munnmök, hvorki fyrir eða eftir atvikin í búningsklefanum né meðan á þeim stóð. Hins vegar hefði stúlkan nefnt það við ákærða í bílnum, þegar hann var að aka henni áleiðis heim, hvort hann gæti útvegað henni áfengi. Hann hefði strax svarað því til að hann hefði ekki aldur til að kaupa áfengi, auk þess sem ólöglegt væri að kaupa áfengi fyrir börn. Á ákærða var þó að skilja að hann hefði jafnframt gefið í skyn að hann myndi athuga hvað hann gæti gert. Vísaði ákærði til þessara orðaskipta til skýringar á SMS-samskiptum sínum við brotaþola laust eftir miðnætti 5. febrúar 2010.

Ákærði taldi sig og brotaþola hafa dvalist í íþróttahúsinu umrætt kvöld í um 30 mínútur. Að loknum samskiptum þeirra í búningsklefanum kvaðst ákærði hafa ekið stúlkunni langleiðina heim. Spurður um líðan stúlkunnar þá sagði ákærði hana hafa verið góða og nefndi í því sambandi að þau hefðu spjallað saman á leiðinni. Ákærði sagði framangreind samskipti þeirra brotaþola í íþróttahúsinu hafa verið fyrstu og einu kynferðislegu samskipti þeirra.

Eftir atvikin í íþróttahúsinu kvaðst ákærði hafa verið í samskiptum við brotaþola, bæði á MSN og með SMS-skilaboðum. Þá hefðu þau átt eitt símtal í tengslum við það er ákærði tók bakpoka handa stúlkunni með frá [...] til [...]. Ákærði aftók með öllu að sá greiði hefði verið í tengslum við samskipti þeirra brotaþola í íþróttahúsinu nokkrum dögum áður. Nánar um þann greiða vísaði ákærði til fyrrnefndrar óskar stúlkunnar um að ákærði keypti fyrir hana áfengi. Bar ákærði að stúlkan hefði síðar upplýst hann um að hún væri búin að útvega sér áfengi og beðið hann um að sækja bakpoka til stráks á [...], E að nafni. Þar sem ákærði hefði verið á leið þaðan til [...] sagði hann hafa verið minnsta málið fyrir sig að kippa bakpokanum með og gera þannig náinni vinkonu greiða. Pokann hefði hann fengið afhentan við útibú Íslandsbanka á [...]. Er til [...] var komið hefði hann síðan hringt í brotaþola, mögulega kl. 18:55, sbr. framlagt notkunaryfirlit fyrir símanúmer stúlkunnar, og afhent henni bakpokann í framhaldinu. Kom fram hjá ákærða að hann hefði vitað að áfengi var í pokanum. Hann hefði hins vegar ekki áttað sig á því að afhending áfengisins, ein og sér, til stúlkunnar varðaði við lög.

Ákærði skýrði ósk sína við brotaþola um að hún eyddi öllum SMS-samskiptum þeirra með vísan til þess að þar hefði verið rætt um áfengi. „Það kæmi ekki vel fyrir mig að ég væri að ... koma með eitthvað áfengi fyrir yngri stelpu.“

Nánar spurður út í tengsl sín við stúlkuna svaraði ákærði því til að þau væru búin að eiga heima í sama bæjarfélagi frá því að hann myndi eftir sér. Þau hefðu gengið í sama skóla, en sá skóli væri lítill og þar þekktu allir alla. Þá hefðu þau nokkru áður en atvik máls gerðust farið að eiga samskipti á MSN.

III.

A lýsti upphafi samskipta sinna við ákærða svo fyrir dómi að ákærði hefði byrjað að tala við hana á MSN skömmu áður en atvik máls gerðust. Fyrir hefðu þau verið „kunningjar“, enda gengið í sama grunnskóla.

Í MSN-samskiptunum sagðist vitnið hafa skilið ákærða svo að hann væri að biðja um að þau hittust „... og mér fannst hann gefa mjög mikið í skyn að hann vildi gera eitthvað með mér ...“, eitthvað kynferðislegt. Sagðist vitnið ekki hafa gefið til kynna við ákærða að það væri til í eitthvað slíkt.

Umrætt kvöld kvaðst vitnið hafa fengið SMS-skilaboð frá ákærða þar sem hann hefði innt vitnið eftir því hvort það vildi ekki hitta hann. Síðar hefði ákærði hringt í vitnið, hann sagst vera einn í íþróttahúsinu og haldið áfram að reyna að fá vitnið til að hitta sig. Var á vitninu að skilja að símtal þetta hefði tekið nokkurn tíma og vitnið meðan á því stóð verið að reyna að koma fram með afsakanir fyrir því að þurfa ekki að hitta ákærða. Neitaði vitnið því aðspurt að það sem fram hefði farið í símtalinu gæti talist hafa verið spjall vina. Að lokum, eftir að ákærði hafði svarið fyrir það að nokkuð væri að fara að gerast þeirra á milli, þau væru einungis að fara að tala saman, hefði vitnið fallist á að hitta hann í íþróttahúsinu.

Vitnið sagði þau ákærða hafa sest niður inni í búningsklefa í íþróttahúsinu. Í fyrstu hefðu þau einungis rætt saman en ákærði síðan sagst vilja gera eitthvað og hann í sömu andrá strokið annað læri vitnisins. Ákærði hefði skipað vitninu að standa upp og því næst reynt að kyssa það, taka það úr fötunum og káfa á því. Í fyrstu kvaðst vitnið hafa kysst ákærða á móti og nefndi vitnið því til skýringar að það hefði hvorki þá, né áður, viljað særa ákærða. Vitnið hefði síðan reynt að komast undan atlotum ákærða og meðal annars margoft sagt honum að það þyrfti að fara heim. Ákærði hefði hins vegar ekki viljað hleypa vitninu í burtu og hann haldið áfram að kyssa vitnið, káfa á því og fara inn á það. Vitnið hefði gert tilraun til að labba í burtu en ákærði þá tekið utan um vitnið, lyft því upp og gengið með það aftur inn í búningsklefann. Þetta hefði ákærði gert þrátt fyrir að vitnið hefði færst undan atlotum hans og enn og aftur sagst þurfa að fara heim.

Inni í búningsklefanum hefði ákærði beitt vitnið miklum þrýstingi, hann grátbeðið vitnið um að „gera bara smá“ og hann sagst myndu „gera hvað sem er fyrir mig“. Hann hefði síðan tekið typpið á sér út, togað vitnið nær og ýtt aftan á hné þess þannig að það féll á hnén. Ákærði hefði síðan haldið áfram að grátbiðja vitnið „um að gera eitthvað fyrir sig.“

Eftir að hafa margítrekað sagt nei og einnig reynt að labba út úr búningsklefanum kvaðst vitnið hafa verið orðið ráðalaust. „Ég bara gafst upp. Ég bara sá það alveg að ég var ekkert að fara að komast þarna út án þess að gera eitthvað fyrir hann.“ Vitnið hefði því sagt við ákærða að það skyldi veita honum munnmök ef hann hjálpaði vitninu að útvega áfengi. „... þetta var bara svona skyndiákvörðun af því að ég vildi ekki labba tómhent út.“ Ákærði hefði svarað: „Já, ég skal gera hvað sem er.“ Vitnið hefði í kjölfarið veitt ákærða munnmök þar til hann hafði sáðlát.

Að sögn vitnisins var andrúmsloftið mjög vandræðalegt eftir að munnmökunum lauk. Ákærði hefði að lokum boðist til að aka vitninu heim, sem það hefði þegið. Á leiðinni í bílnum hefði verið „... vandræðaleg þögn allan tímann.“ Aðspurt taldi vitnið að þau ákærði hefðu dvalist í um 30-45 mínútur í íþróttahúsinu þetta kvöld.

Spurt út í þann framburð ákærða að það hefði ekki verið fyrr en í bílnum sem vitnið hefði beðið hann um að útvega sér áfengi svaraði vitnið því til að sá framburður ákærða væri rangur.

Dagana á eftir sagðist vitnið hafa gengið eftir því að ákærði stæði við loforð sitt. „Ég var einhvern veginn að ... gera þetta fyrir mig meira ásættanlegt, þannig að ... ég fékk eitthvað í staðinn.“ Ákærði hefði í þeim samskiptum farið fram á að vitnið „... tottaði hann aftur og eitthvað svona en ég náttúrlega bara neitaði ...“. Vitnið kvað ákærða hafa staðið við orð sín og hann fært vitninu áfengi, bjór og vodka, eitthvert kvöldið í þessari sömu viku. Nánar um hvernig það atvikaðist bar vitnið að það hefði talað við félaga sinn, E, sem fengið hefði vin sinn til að kaupa áfengið. Ákærði hefði síðan tekið við áfenginu og flutt það til [...]. Áfengið kvaðst vitnið hafa drukkið ásamt tveimur vinkonum sínum eftir þorrablót sem fram hafi farið helgina [...].

Spurt um hverjum það hefði sagt frá því sem átti sér stað í íþróttahúsinu svaraði vitnið því til að það hefði greint unnustu bróður síns frá atvikum í stuttu máli. Einnig hefði hún sagt F frá atvikum nokkrum dögum eftir að þau gerðust.

Um líðan sína eftir það sem gerðist í íþróttahúsinu bar vitnið að það hefði skammast sín og því liðið hræðilega. „Mér leið bara eins og ég væri alger drusla.“ Kvað vitnið atvikið hafa haft áhrif á skólagöngu þess, það bæði hætt að vilja læra og mæta í skóla. Vitnið lýsti einnig vanlíðan tengdri tímasókn í íþróttum og sagðist það ýmist hafa flýtt sér mjög að hafa fataskipti í búningsklefanum eða þá mæta í skólann í íþróttafötum og sleppa þannig við að þurfa að hafa fataskipti í klefanum. Enn fremur bar vitnið að svefntruflanir hefðu hrjáð það. Þá kom fram hjá vitninu að atvikið í búningsklefanum hefði spurst út meðal fólks.

Líðan sína sagði vitnið hafa lagast eftir að það hóf skólasókn í framhaldsskóla, fjarri sinni heimabyggð. Tók vitnið fram að það hefði ákveðið að skipta um umhverfi vegna þessa máls.

Fyrir dómi staðfesti vitnið framlögð MSN-samskipti sín við G og H. Þá staðfesti vitnið að á umræddum tíma hefði það verið að nota símanúmerið [...].

F skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði verið viðstödd þegar ákærði hringdi í vinkonu hennar, A, kvöld eitt í febrúar 2010. Vitnið sagði þær A hafa verið í göngutúr og hefði ákærði „alltaf“ verið að hringja í stúlkuna og biðja hana um að koma og hitta sig. Þegar vitnið hefði þurft að fara annað hefði A ákveðið að láta til leiðast og hitta ákærða.

Fram kom hjá vitninu að það hefði ekkert heyrt hvað ákærði sagði í símtölum sínum við A. Það hefði hins vegar heyrt eitthvað af því sem stúlkan sagði. Kvað vitnið A hafa verið óvissa um hvað gera skyldi. Stúlkan hefði fyrst ekki viljað fara en hún síðan ákveðið, eins og áður sagði, að hitta ákærða. Var á vitninu að skilja að ákærði hefði sótt nokkuð stíft að stúlkan kæmi til fundar við hann.

Daginn eftir sagðist vitnið hafa hitt A og rætt við hana. Hefði stúlkan þá greint vitninu frá því sem gerðist kvöldið áður. Stúlkan hefði sagt svo frá að hún og ákærði hefðu verið ein í íþróttahúsinu. Þau hefðu farið inn í búningsklefa þar sem ákærði hefði reynt að fá hana til að totta sig. Það hefði stúlkan ekki viljað og hún gert ítrekaðar tilraunir til að fara en ákærði ekki hleypt henni í burtu. „Hann þvingdana“.

Spurt um líðan A daginn eftir atvikið í íþróttahúsinu bar vitnið að stúlkan hefði verið mjög sár út í ákærða og henni liðið illa. „Ég sá bara á henni hvað henni leið illa.“ Var á vitninu að skilja að varanlegar breytingar hefðu orðið til hins verra á líðan stúlkunnar eftir þetta. Þá nefndi vitnið að skólasókn stúlkunnar hefði versnað eftir umrætt atvik, það hefði reyndar verið farið að bera á því áður að hún mætti seint í tíma, en það hefði aukist eftir atvikið í íþróttahúsinu.

E kannaðist aðspurður fyrir dómi við að hafa haft milligöngu um að útvega A áfengi. Hvenær það nákvæmlega var kvaðst vitnið ekki geta um borið vegna þess hversu langt væri um liðið. Fram kom hjá vitninu að stúlkan og vinkona hennar hefðu beðið vitnið um að koma peningum, sem sú síðarnefnda hefði afhent vitninu, til ónafngreindrar manneskju. Sú hefði keypt áfengið en síðan afhent það vitninu. Vitnið hefði sett áfengið, bjór og vodka, ásamt sígarettum, í bakpoka sem það hefði komið til ákærða. Hann hefði síðan átt að skutla áfenginu til A.

Fram kom hjá vitninu að A hefði sagt því frá því sem gerðist í íþróttahúsinu í [...]. Spurt um hvenær það samtal hefði átt sér stað kvaðst vitnið telja að þetta hefði verið einni til tveimur vikum eftir atvikið. Vitnið sagði stúlkuna hafa lýst því sem gerðist svo að hún og ákærði hefðu hist í íþróttahúsinu. Ákærði hefði síðan fengið stúlkuna með sér inn búningsklefa þar sem hann hefði neytt hana til að veita sér munnmök. Spurt um hvort stúlkan hefði veitt ákærða munnmök gegn því að hann útvegaði henni áfengi kvað vitnið ekkert slíkt hafa komið fram. Kom fram hjá vitninu að það hefði haft á tilfinningunni að stúlkan væri ekki að segja alla söguna.

Vitnið sagðist hafa merkt mikinn mun á líðan A fyrir og eftir atvikið í íþróttahúsinu. Áður hefði stúlkan verið opin og kát en eftir það hefði hún farið að loka sig af. Kvað vitnið stúlkunni hafa liðið hörmulega eftir það sem þar gerðist.

G sagði A hafa greint sér frá því á MSN í apríl 2010 að ákærði hefði sagt henni að totta sig inni í klefa í íþróttahúsinu í [...]. Fyrst kvaðst vitnið ekkert hafa verið búið að heyra af þessu atviki fyrr en stúlkan greindi honum frá því í fyrrnefndum netsamskiptum. Síðar bar vitnið að það hefði, um svipað leyti þó, verið búið að heyra af atvikinu. Er lögregluskýrsla vitnisins var borin undir það fyrir dómi kannaðist vitnið síðan við að stúlkan hefði tjáð því á MSN, í febrúar eða mars, að sér hefði verið nauðgað af ákærða. Staðfesti vitnið sem réttar nánari lýsingar þess hjá lögreglu á frásögn stúlkunnar af því atviki, sbr. framlagða lögregluskýrslu.

Fyrir dómi voru framlögð netsamskipti vitnisins og A borin undir það. Kannaðist vitnið aðspurt við þessi samskipti þess og stúlkunnar.

H sagðist hafa merkt miklar breytingar á vinkonu sinni A, árið 2010. Vitnið hefði fundið fyrir mikilli vanlíðan hjá stúlkunni. Þá hefði hegðun hennar breyst. Vitnið kvaðst hafa innt stúlkuna eftir ástæðum þessa og hún vísað til misnotkunar af hendi ákærða án þess að lýsa því nánar.

Fyrir dómi var vitnið spurt út í framlögð netsamskipti frá 19. og 20. apríl 2010. Staðfesti vitnið að um væri að ræða samskipti sem átt hefðu sér stað milli þess og A. Kom fram hjá vitninu að þessi samskipti hefðu verið í samhengi við það sem vitnið hafði áður verið búið að frétta.

I kannaðist aðspurð við það að hafa eitt sinn séð A stíga út úr bifreið ákærða. Taldi vitnið þetta að öllum líkindum hafa verið eftir kvöldmat. Nánar um tímasetningu þessa atviks gat vitnið ekki borið.

J greindi svo frá að hann hefði verið með ákærða í bifreið þegar sá síðarnefndi hefði tekið við bakpoka úr hendi stráks sem vitnið hefði ekki þekkt. Pokanum hefði í kjölfarið verið komið í hendur stúlku í [...]. Hana sagðist vitnið heldur ekki hafa þekkt. Fram kom hjá vitninu að löngu síðar hefði ákærði upplýst það um að áfengi hefði verið í pokanum.

K lýsti aðkomu sinni að málinu svo að D sálfræðingur hefði haft samband og óskað eftir því að hún fengi A á sinn fund og ræddi við hana. Ástæðu þessa kvað vitnið upplýsingar sem fram hefðu komið hjá stúlkunni í viðtali sem D hefði átt við hana skömmu áður um að brotið hefði verið gegn stúlkunni.

Hinn 13. apríl 2010 sagði vitnið A hafa komið og rætt við sig. Í samtali þeirra hefði stúlkan lýst því nokkuð nákvæmlega sem fyrir hana hefði komið. Hefði vitnið skynjað mikla vanlíðan hjá stúlkunni, hún talað lágt og verið mjög flöt í frásögn sinni. Það síðarnefnda sagði vitnið samrýmast því að stúlkan hefði orðið fyrir áfalli. Hún hefði samt sem áður greint hiklaust og heildstætt frá málsatvikum. Stúlkan hefði virst einlæg í frásögn sinni og engra mótsagna gætt hjá henni. Málsatvikalýsingu í bréfi forstöðumanns [...] frá 21. apríl 2010 kvað vitnið unna upp úr minnisnótum sem það hefði ritað meðan á viðtalinu stóð.

Vitnið sagðist hafa skilið stúlkuna svo að strax eftir munnmökin hefði hún „úr því að þetta hafði gerst“ ákveðið að reyna að fá eitthvað út úr þessu. Hún hefði því ákveðið að fá ákærða til að útvega sér áfengi. Tók vitnið fram í þessu sambandi að það hefði ekki, í samræmi við hefðbundið verklag barnaverndaryfirvalda, spurt stúlkuna út í einstök atvik heldur einungis hlustað á frásögn hennar og tekið niður minnispunkta.

Vitnið kvaðst hafa hitt stúlkuna að nýju í júlí 2010 og þá hefði hún lýst vanlíðan sinni og nefnt að hún færi helst ekki út úr húsi. Einnig hefði komið fram hjá stúlkunni að fyrrnefnt atvik væri „alltaf að poppa upp í hugann.“

B, móðir brotaþola, bar fyrir dómi að í febrúar 2010 hefði farið að bera á hegðunarvandamálum hjá brotaþola sem meðal annars hefðu lýst sér í verri mætingu í skóla. Stúlkan hefði bæði mætt of seint og stundum alls ekki í tíma. Einnig hefði vitnið veitt því athygli að stúlkan þoldi illa snertingar, sérstaklega af hálfu karlmanna, þ.m.t. föður. Sagði vitnið stúlkuna hafa umturnast á þessum tíma. Enn fremur bar vitnið að það ræki minni til þess að eitthvert kvöldið í febrúar hefði stúlkan komið frekar seint heim og verið grátandi. Vitnið hefði gengið á stúlkuna um hvað væri að en hún engu viljað svara, hún verið stjörf og langt niðri.

Fram kom hjá vitninu að stúlkan hefði opnað sig við skólastjóra grunnskólans í [...], um að eitthvað hefði komið fyrir hana, í kjölfar ofsafenginna viðbragða stúlkunnar við niðrandi orðum sem skólafélagi hennar hefði látið falla í félags­miðstöðinni í bænum.

Vitnið lýsti ástandi brotaþola sumarið 2010 sem skelfilegu. Stúlkan hefði verið hætt að sofa og hún ekki getað einbeitt sér vegna mikillar vanlíðanar. Hefði nábýlið við ákærða þar ekki bætt úr skák. Vegna þessa hefði verið brugðið á það ráð að stúlkan breytti um umhverfi og hún farið til dvalar um hríð erlendis hjá ættingjum. Var enginn vafi í huga vitnisins að vanlíðan stúlkunnar mætti rekja til atviksins í íþróttahúsinu. Nefndi vitnið í því sambandi einnig að stúlkan hefði, bæði í tengslum við skólasókn og vinnuskóla um sumarið, forðast mjög og verið ófús að koma í íþróttahúsið. Þá kom fram hjá vitninu að enn hefðu aukið álagið á stúlkuna vegna þessa máls hringingar sem ættingjum hennar hefðu borist, og hún vitað af, frá aðilum tengdum ákærða.

Spurt um hvort samskipti ákærða og brotaþola fyrir atvikið í íþróttahúsinu hefðu verið mikil svaraði vitnið því neitandi. Kvaðst vitnið ekki vita til þess að ákærði hefði nokkru sinni komið í heimsókn til brotaþola. Var það hald vitnisins að á milli þeirra hefði ekki verið vinasamband og nefndi vitnið í því sambandi að það hefði aldrei séð þau ræðast saman, einungis heilsast líkt og bæjarbúar almennt geri. „Þau höfðu bara engin samskipti.“

Aðspurt um þroska brotaþola á þeim tíma sem atvik máls gerðust kvað vitnið stúlkuna hafa verið samsvarandi jafnöldrum sínum í þroska.

Á vitninu var að skilja að það hefði fyrst með símhringingu frá [...] fengið vitneskju um að brotaþoli hefði „... orðið fyrir kynferðisafbroti ...“.

L bar fyrir dómi að fljótlega eftir að umrætt atvik í íþróttahúsinu í [...] átti sér stað hefði farið að bera á eins konar fælni hjá A sem lýst hefði sér í því að hún átti erfitt með að mæta í skólann. Vegna þessa hefði verið farið út í ákveðna vinnu með stúlkunni. Sagði vitnið stúlkuna hafa rakið þessa líðan til fyrrnefnds atviks.

M rannsóknarlögreglumaður upplýsti fyrir dómi að hann hefði fengið þau gögn sem fyrir liggja í málinu um MSN-samskipti A frá föður stúlkunnar á rafrænu formi. Gögnin hefði faðirinn tekið úr tölvu stúlkunnar. Aftók vitnið að áður hefði eitthvað verið átt við textann í þeim.

Þá kom einnig fyrir dóm sem vitni N en ekki þykir ástæða til að rekja framburð hans sérstaklega.

IV.

Í málinu liggur frammi vottorð C, sálfræðings í Barnahúsi, vegna stúlkunnar A. Í niðurlagi vottorðsins segir meðal annars svo:

A er 16 ára gömul (var 15 ára þegar undirrituð hitti hana fyrst) og er útlit og þroski í samræmi við aldur. A hefur sótt 12 viðtöl til undirritaðrar frá 23. júní 2010 ...

Það var ljóst frá byrjun að A hafði mikla þörf fyrir meðferðarviðtöl og leið augljóslega afar illa. Samkvæmt móður höfðu orðið miklar breytingar á líðan og hegðun A á skömmum tíma sem höfðu áhrif á daglegt líf hennar. Skólagangan fór að vera erfið vegna einbeitingarskorts og erfiðleika við að vakna á morgnana eftir svefnlausar nætur. Hún gat ekki stundað íþróttir eða mætt í leikfimitíma því hún gat ekki hugsað sér að fara inn í íþróttahúsið. Það var leyst tímabundið með samningi um að A stundaði líkamsrækt með móður sinni á líkamsræktarstöð á staðnum og notaði íþróttatímann í skólanum til að vinna upp það sem hún var á eftir með í bóklega náminu.

A glímdi við þunglyndi, kvíða, sektarkennd, skömm, lélegt sjálfsmat, brotna sjálfsmynd og svefnerfiðleika. Niðurstöðu sjálfsmatskvarða voru í samræmi við lýsingu A á líðan sinni sem og upplifun móður. Allt eru þetta einkenni sem oft má sjá hjá þolendum kynferðisbrota. Þó A legði sig fram við að forðast allt sem minnti á meint atvik, er það erfitt á svo litlum stað og allsstaðar eitthvað sem minnir á, fyrir utan hættuna á að mæta meintum geranda og/eða hans fólki á förnum vegi og kvíðinn sem því fylgir. Allt á þetta sinn þátt í því að viðhalda vanlíðaninni.

A líður betur í dag en fyrir ári síðan þegar meðferðarviðtölin hófust. Hún hefur þó enn þörf fyrir meðferðarviðtöl og stuðning og henni mun væntanlega standa það til boða að halda áfram í viðtölum þótt hún sé flutt (tímabundið) [...], þar sem hún er í [...]. En sú ákvörðun hennar er lituð af því sem á undan hefur gengið, þar sem hún gat ekki hugsað sér að vera í menntaskóla [...] og halda áfram að sjá og jafnvel umgangast fjölskyldumeðlimi og vini meints geranda og hafa stöðugt fyrir augum sér eitthvað sem minnir hana á.

C kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði tilvitnað vottorð sitt.

Þá liggur einnig frammi í málinu bréf/greinargerð D sálfræðings frá 13. júlí 2010. Í því segir meðal annars svo:

Undirritaður hefur þekkt til A frá árslokum 2008, en þá leitaði móðir hennar eftir aðstoð fyrir hana vegna vanlíðunar. Stúlkan kom í fjögur viðtöl fram til ársloka 2009 og vann vel úr sínum málum.

Þann 19. mars í ár var undirritaður beðinn um að hringja [...] í stúlkuna vegna þess að henni leið mjög illa. Í samtalinu greindi hún frá því að í byrjun febrúar hafi hún verið úti í íþróttahúsi í [...] og þar hafi einnig verið 18 ára gamall strákur. Hann hafi gerst mjög nærgöngull við hana þannig að hún varð hrædd og ákvað að forða sér út. Það tókst ekki því hann króaði hana þá af, tók fast utan um hana og bar hana inn í búningsklefa. Hún barðist um og bað hann að sleppa sér. Hann gerði það ekki og hún fann að hann var miklu sterkari en hún og hætti að berjast um. Hann þröngvaði henni svo til munnmaka og hætti ekki fyrr en hann hafði haft sáðlát. ...

[---]

A greindi undirrituðum frá ýmsum óþægindum sem hún hafði upplifað í kjölfar ofangreinds atburðar. Þetta voru óþægindi eins og mjög ásæknar minningar um atburðinn, sterkar endurupplifanir (flash-backs) um einstök atriði atburðarins, mikil reiði, öryggisleysi, miklar tilfinningasveiflur, mikil skömm og svefnerfiðleikar. Henni gekk erfiðlega að einbeita sér í skólanum og var stöðugt hrædd.

... Tilfinningaleg viðbrögð hennar og ýmsir erfiðleikar sem hún hefur upplifað í kjölfar atburðarins eru í samræmi við það sem mætti teljast eðlilegt miðað við aðstæður. ...

D sagðist hafa hitt A einni eða tveimur vikum áður en hann ræddi við stúlkuna í síma 19. mars 2010 og hefði hún þá verið mjög döpur. Í símtalinu hefði stúlkan greint vitninu frá þeim atvikum sem lýst er í tilvitnuðu bréfi vitnisins. Var á vitninu að skilja að það hefði orðið vart við „tilfinningalegar breytingar“ á stúlkunni í kjölfar atviksins í íþróttahúsinu. Nefndi vitnið í því sambandi tilfinningasveiflur, öryggisleysi, skömm og svefntruflanir.

Vitnið upplýsti að það hefði næst rætt við stúlkuna símleiðis 22. mars 2010 og síðan hitt hana 8. apríl s.á. Þá hefði stúlkan verið döpur og „... þessi atburður hékk svolítið yfir henni ...“ Af þeim sökum hefði vitnið lagt til við stúlkuna að hún ræddi við starfsmann barnaverndarnefndar, en stúlkan hefði á þessum tímapunkti ekki viljað segja foreldrum sínum frá umræddu atviki þar sem hún hefði meðal annars verið hrædd við hver viðbrögð þeirra yrðu. Í kjölfarið hefði stúlkan rætt við K, starfsmann barnaverndaryfirvalda, og málið þannig komist í þeirra hendur.

V.

Ákærði byggir sýknukröfu sína á því að ósannað sé að hann hafi látið brotaþola sjúga á sér kynfærin. Þá hafi hann aldrei lofað henni að hafa milligöngu um að útvega henni áfengi í staðinn. Ákærði hafi strax í upphafi rannsóknar viðurkennt að munnmök hefðu átt sér stað. Hann hafi hins vegar ætíð neitað ásökunum um að hann hefði beitt stúlkuna nauðung, einnig hefði hann neitað að hafa haft í hótunum við hana og enn fremur að þau hafi viðhaft kynferðislegar athafnir sem ekki hafi verið með fullum vilja og samþykki stúlkunnar.

Af hálfu ákærða er á það bent að ákærði og brotaþoli séu ein til frásagnar um sakarefni málsins. Þá hafi útprentanir á MSN-samskiptum, sem fyrir liggi í málinu, takmarkað sönnunargildi þar sem þau hafi verið afhent lögreglu níu eða tíu dögum eftir að tilkynnt var um málið til lögreglu og fjórum og fimm dögum eftir að samtölin áttu sér stað á vefnum. Verulegur vafi sé því hvað haft sé eftir stúlkunni og hvaða orð og atvik hafi verið lögð henni í munn. Enn fremur sé ekki hægt að útiloka að skrifuðum texta í afritum af MSN-samskiptum hafi verið breytt eða atvikalýsingar staðfærðar.

Ákærði neitar því að hafa á nokkurn hátt lofað brotaþola að útvega henni áfengi fram til 5. febrúar 2010. Í framlögðum SMS-samskiptum komi ekkert það fram sem sanni að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi. Þá verði að líta til þess að stúlkan hafi eftir miðnætti 5. febrúar 2010 átt upphafið að samskiptum við ákærða með því að biðja hann um að skutla sér út á [...]. Ákærði fái ekki séð hvernig hægt sé að lesa það út úr sönnunargögnum að hann hafi lofað því að útvega áfengi, hvað þá gegn munnmökum.

Þá bendir ákærði sérstaklega á það sem hann segir mikið ósamræmi í lýsingu brotaþola og vitna á því hvort stúlkan hafi verið keyrð heim eða ekki eftir fyrrgreint atvik að kvöldi 2. febrúar 2010. Brotaþoli segi sjálf að ákærði hafi keyrt hana heim og það staðfesti vitnið I. Í atvikalýsingu í mati D sálfræðings komi hins vegar fram að ákærði hafi farið í burtu og skilið stúlkuna eftir og þá hafi vitnið F borið fyrir lögreglu að stúlkan hefði „... gengið ein heim til sín frá íþróttahúsinu, eftir þetta.“ Enn fremur gæti misræmis í framburði brotaþola annars vegar og vitna hins vegar um hverjum stúlkan hafi greint frá umræddu atviki og einnig hvenær það hafi hún gert.

Sýknukrafa ákærða er jafnframt á því byggð að ekki hafi verið um ósiðlegt athæfi að ræða af hálfu ákærða þar sem brotaþoli hafi gefið honum munnmök með fullu samþykki og án þess nokkurn tímann að gefa í skyn að hún vildi yfirgefa staðinn, hætta ástaratlotunum, hún farið að gráta, eða sagt nei. Þá vísar ákærði því einnig á bug að orsakasamband og/eða sennileg afleiðing sé á milli ákæruliða 1 og 2. Sú háttsemi ákærða að keyra með áfengi til [...] hafi verið algerlega óháð því sem gerðist í íþróttahúsinu nokkrum dögum áður. Einu tengslin þar á milli hafi verið að í huga ákærða hafi samskipti hans og stúlkunnar verið orðin nánari og hann átt erfiðara um vik að neita „vinkonu“ um greiða. Umrædd háttsemi hafi því ekki verið ólögmæt.

Af hálfu ákærða er viðurkennt að hann hafi 5. febrúar 2010 tekið við bakpoka á [...] sem hann hafi mátt vita að í væri áfengi og afhent brotaþola í [...]. Ákærði hafi hins vegar ekki talið sig vera að gera neitt rangt. Hann hafi álitið að ólöglegt væri að kaupa áfengi handa einstaklingi yngri en 20 ára, en sjálfur hafi ákærði einungis verið 18 ára er atvik máls gerðust og því ekki haft aldur til áfengiskaupa. Hafi ákærða ekki verið kunnugt um að afhending áfengis ein og sér væri refsiverð eða fæli í sér lögbrot.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til meginreglu 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir ákærði ekki hafa verið færðar fullnægjandi sönnur á að hann hafi framið brot þau sem honum eru gefin að sök í ákæru. Því beri að sýkna hann af öllum kröfum ákæruvalds.

VI.

A.

Svo sem áður hefur verið vikið að laut rannsókn lögreglu í máli þessu í fyrstu einkum að því hvort ákærði hefði gerst sekur um kynferðisbrot í samræmi við kæru barnaverndaryfirvalda þar um. Fyrir liggur að ákæruvaldið mat gögn málsins svo að lögreglurannsókn lokinni að ekki væru efni til útgáfu ákæru á þeim grunni. Það er því augljóslega ekki úrlausnarefni í máli þessu að skera úr um hvort ákærði hafi gerst sekur um slíkt brot. Þykir rétt að taka af um þetta öll tvímæli hér þar sem ýmis rannsóknargögn málsins, sem og framburður nokkurra vitna fyrir dómi, bera skýr merki þessa upphafs málsins.

Í 1. tölulið ákæru er ákærða gefið að sök barnaverndarlagabrot með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 2. febrúar 2010, í íþróttamiðstöðinni að [...] í [...], sýnt af sér ósiðlegt athæfi gagnvart stúlkunni A, fæddri [...], sem þá var 15 ára, með því að láta hana sjúga á sér kynfærin gegn loforði um að hafa milligöngu um að útvega henni áfengi.  Er meint brot ákærða í ákæru talið varða við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Í 3. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002 segir að hver sem sýni barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særi það eða móðgi skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Fyrir liggur að saknæmisskilyrði samkvæmt tilvitnaðri lagagrein er gáleysi. Með börnum er í lögum nr. 80/2002 átt við einstaklinga yngri en 18 ára, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Fyrir dómi bar brotaþoli að eftir að hafa margítrekað neitað ákærða um kynferðisleg atlot og hún árangurslaust reynt að yfirgefa búningsklefann hefði hún verið orðin ráðalaus. „Ég bara gafst upp. Ég bara sá það alveg að ég var ekkert að fara að komast þarna út án þess að gera eitthvað fyrir hann.“ Stúlkan hefði því sagt við ákærða að hún skyldi veita honum munnmök ef hann hjálpaði henni að útvega áfengi. „... þetta var bara svona skyndiákvörðun af því að ég vildi ekki labba tómhent út.“ Ákærði hefði svarað: „Já, ég skal gera hvað sem er.“ Brotaþoli hefði í kjölfarið veitt ákærða munnmök þar til hann hafði sáðlát. Við skýrslutöku hjá lögreglu bar stúlkan með mjög svipuðum hætti hvað umrætt atvik varðar. Þá liggja í málinu frammi afrit MSN-samskipta stúlkunnar við vitnið G, frá 18. apríl 2010, þar sem hún lýsir þessum atvikum með sambærilegum hætti.

Aðspurður fyrir dómi kannaðist ákærði alls ekki við að komið hefði til tals milli hans og brotaþola að hann keypti handa henni áfengi í skiptum fyrir að hún veitti honum munnmök, hvorki fyrir eða eftir atvikin í búningsklefanum né meðan á þeim stóð. Hann sagði stúlkuna hins vegar hafa nefnt það við sig í bílnum, þegar hann var að aka henni áleiðis heim, hvort hann gæti útvegað henni áfengi. Ákærði kvaðst strax hafa svarað því til að hann hefði ekki aldur til að kaupa áfengi, auk þess sem ólöglegt væri að kaupa áfengi fyrir börn. Á ákærða var þó að skilja að hann hefði þrátt fyrir þessi svör gefið í skyn að hann myndi athuga hvað hann gæti gert.

Í málinu liggur frammi samantekt lögreglu á SMS-samskiptum milli ákærða og brotaþola laust eftir miðnætti 5. febrúar 2010. Efnislega voru samskipti brotaþola og ákærða meðal annars þessi: Ekki er séns að þú getir skutlað mér í bæinn og svo inn í [...] á morgun? Frá [...]? Já. Hvað fæ ég í staðinn? Hey þú fékkst tott. Það er ekkert. Fæ ég aftur? Hey ég á inni hjá þér far fyrir það! Oh mig langar í annað samt. Færð ekki. Af hverju? Bara. Jú seg mér. Ég nenni ekkert þannig veseni. Jú örugglega samt, en fæ ég ekkert? Þú fékkst! Og þú sagðist ætla að hjálpa mér að ná í áfengið og það. Já áfengi ekki far.

Framburður brotaþola í málinu, bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi, var greinargóður og skýr og hefur frásögn stúlkunnar af atvikum frá upphafi verið stöðug.

Framlögð gögn varðandi símasamskipti ákærða og brotaþola, sem og vætti F fyrir dómi, eru til stuðnings þeim framburði stúlkunnar að það hafi verið ákærði sem hafði frumkvæðið að fundi þeirra í íþróttahúsinu umrætt kvöld. Þá er vætti F einnig til stuðnings þeim framburði brotaþola að ákærði hafi sótt það nokkuð ákveðið að þau hittust. Fyrir dómi reyndi ákærði að gera lítið úr þessu frumkvæði sínu. Þá þykir hann, að því virtu sem upplýst er um kynni þeirra brotaþola, hafa í skýrslugjöf sinni fyrir dómi gert meira úr tengslum sínum við stúlkuna en hún hefur viljað kannast við og framburður vitna og gögn málsins verða talin geta stutt. Enn fremur þykja framanrakin SMS-samskipti ákærða og stúlkunnar, sem fóru þeirra á milli einungis nokkrum dögum eftir atvikið í íþróttahúsinu, að sínu leyti vera til stuðnings framburði brotaþola um að ákærði hafi verið ágengur við hana í búningsklefanum og hann sóst ákveðið eftir kynferðislegu samneyti við hana.

Að öllu framangreindu heildstætt virtu þykir verða að leggja til grundvallar við úrlausn málsins þann framburð brotaþola að stúlkan hafi, er hún upplifði sig með öllu ráðalausa gegn ásókn ákærða eftir kynferðislegum atlotum, í búningsklefa íþróttahússins í [...] umrætt kvöld, lýst því yfir að hún skyldi veita honum munnmök ef hann hjálpaði henni að útvega sér áfengi og að á það hafi ákærði fallist, eða í það minnsta sýnt algert skeytingarleysi gagnvart þeim orðum hinnar 15 ára gömlu stúlku. Með þeirri háttsemi sinni þykir ákærði hafa sýnt af sér ósiðlegt athæfi gagnvart barni í skilningi 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

B.

Í 2. tölulið ákæru er ákærða gefið að sök brot gegn áfengislögum, með því að hafa, nokkrum dögum eftir atvik þau sem lýst er í 1. tölulið ákæru, haft milligöngu um að útvega brotaþola áfengi á [...] og afhenda stúlkunni það í [...].

Skv. 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998 er óheimilt að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem er yngri en 20 ára. Brotaþoli hefur borið að ákærði hafi nokkrum dögum eftir að atvik skv. 1. tölulið ákæru gerðust afhent henni tösku í [...] sem í var áfengi. Fyrir dómi kannaðist ákærði við að hafa afhent brotaþola töskuna og viðurkenndi hann jafnframt að hafa vitað að í henni væri áfengi. Þá er upplýst í málinu með framburði ákærða og vitna að töskuna flutti ákærði frá [...] til [...] að beiðni brotaþola. Með því veitti hann 15 ára barni liðsinni við að útvega sér áfengi.

Framlögð SMS-samskipti ákærða og brotaþola eru því til stuðnings að málsatvik hafi verið með þeim hætti sem að framan er lýst. Að því og öðru framangreindu virtu þykir hafið yfir allan vafa að ákærði hafi umrætt sinn tekið við tösku á [...], vitandi að í henni væri áfengi, og hann síðan afhent brotaþola, sem þá var 15 ára gömul, töskuna stuttu síðar í [...]. Með afhendingu áfengisins einni og sér braut ákærði gegn skýru banni 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998 við því að þeim sem yngri eru en 20 ára sé afhent áfengi.

VII.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing. Þá var hann einungis 18 ára gamall er hann framdi brot sín. Með vísan til þessa og að brotum ákærða virtum þykir refsing hans hæfilega ákveðin 45 daga fangelsi. Eftir atvikum þykir með heimild í 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 rétt að fresta fullnustu refsingar ákærða og skal refsingin falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

VIII.

A.

Í málinu gerir B, fyrir hönd brotaþola, kröfu þess efnis að ákærði verði dæmdur til að greiða stúlkunni miskabætur að fjárhæð 1.800.000 krónur, auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafan var kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga til greiðsludags. Þá krefst brotaþoli málskostnaðar úr hendi ákærða með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

Í framlagðri greinargerð brotaþola er til þess vísað að stúlkan hafi orðið fyrir alvarlegu kynferðisbroti af hálfu ákærða í íþróttahúsinu í [...] í febrúar 2010.

Í rökstuðningi fyrir miskabótakröfunni er áréttuð framangreind fullyrðing um alvarlegt kynferðisbrot ákærða. Slík brot segir lögmaður brotaþola mjög alvarleg og hafi þau ávallt í för með sér gríðarlegan miska fyrir hvern þann sem fyrir verði. Gerandinn beri skaðabótaábyrgð skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna miskatjóns brotaþola. Bætur fyrir miska skuli ákvarðaðar eftir því sem sanngjarnt þyki. Við mat á fjárhæð bótanna beri að líta til alvarleika brotsins, ásetnings sakbornings, huglægrar upplifunar brotaþola og umfangs tjónsins.

Af hálfu brotaþola er til þess vísað að atvikið í íþróttahúsinu hafi haft miklar og alvarlegar afleiðingar á andlega líðan brotaþola og valdið stúlkunni miklum andlegum þjáningum, svefntruflunum, kvíða og ótta. Þá hafi stúlkunni gengið erfiðlega að einbeita sér í skóla eftir atburðinn og hafi orðið mjög miklar breytingar á skólasókn hennar og námsárangri.

Til stuðnings kröfum sínum kveðst brotaþoli vísa til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. og 4. gr. sömu laga. Vaxtakröfur styðjist við 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga. Um rétt sinn til að hafa uppi kröfur sínar í málinu vísar brotaþoli til 1. mgr. 172. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

B.

Ákærði mótmælir lýsingu málavaxta í framlagðri bótakröfu sem rangri.

Kröfu sína um frávísun bótakröfunnar kveðst ákærði byggja á því að í bótakröfu séu málsatvik, málsástæður og lagarök reifuð með þeim hætti að um alvarlegt kynferðisbrot gegn 15 ára stúlku hafi verið að ræða. Ákæruvaldið hafi hins vegar ekki talið forsendur fyrir ákæru á þeim grunni.

Til stuðnings kröfu sinni um sýknu af bótakröfunni vísar ákærði til þess að ekkert sé sannað um afleiðingar umrædds atviks á brotaþola. Verði talið sannað að ákærði hafi gerst brotlegur liggi fyrir að alvarleiki þess brots sé lítill, ákærði ekki haft ásetning til brotsins og þá sé umfang tjóns óskilgreint og ósannað. Þá liggi fyrir í málinu gögn um vanlíðan brotaþola löngu áður en hún hafði munnmök við ákærða. Enn fremur liggi fyrir upplýsingar um önnur eldri atvik sem skýrt geti vanlíðan stúlkunnar.

Þrautavarakröfu sína um lækkun bótakröfunnar byggir ákærði sérstaklega á því að umfang tjónsins sé með öllu ósannað og óskilgreint. Þá sé fjárhæð kröfunnar ekki í samræmi við dómvenju.

C.

Skv. 1. mgr. 172. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur brotaþoli og hver sá annar sem telur sig hafa öðlast kröfu að einkarétti á hendur sakborningi vegna refsiverðrar háttsemi hans leitað dóms um hana í sakamáli eftir því sem nánar er ákveðið í XXVI. kafla laganna. Samkvæmt ákvæðinu er því einungis heimilt að dæma bætur til handa brotaþola í sakamáli vegna þeirrar refsiverðu háttsemi sem ákærða er gefin að sök í málinu.

Ákærði hefur með réttu á það bent að reifun málsatvika, málsástæðna og lagaraka í framlagðri greinargerð lögmanns brotaþola sé í litlu samræmi við sakarefni máls þessa. Framlögð vottorð tveggja sálfræðinga eru að miklu leyti sama marki brennd, þ.e. þau taka mið af upplifun brotaþola af atvikinu í íþróttahúsinu en ekki sakarefni máls þessa. Allt að einu þykir dóminum mega taka til efnislegrar meðferðar miskabótakröfu brotaþola en þó einungis að því marki sem hún fellur innan hinnar refsiverðu háttsemi ákærða. Kröfu ákærða um frávísun bótakröfunnar er því hrundið.

Brotaþoli á rétt til miskabóta úr hendi ákærða vegna þeirrar ólögmætu meingerðar sem í broti ákærða skv. 1. tölulið ákæru fólst, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ljóst er að dómafordæmum athuguðum að umkrafin bótafjárhæð er úr hófi, enda tekur hún samkvæmt framansögðu ekki mið af þeirri refsiverðu háttsemi sem ákærða er gefin að sök í málinu og hann hefur nú verið sakfelldur fyrir. Að því athuguðu, sbr. og það sem áður segir um framlagðar greinargerðir/vottorð sérfræðiaðila, þykir dóminum einungis fært að leggja almennan mælikvarða til grundvallar ákvörðun bótanna. Samkvæmt því og að broti ákærða virtu, sbr. 1. tölulið ákæru, þykja miskabætur til handa brotaþola, svo sem málið hefur verið lagt fyrir dóminn, hæfilega ákvarðaðar 150.000 krónur. Um vexti og dráttarvexti af kröfunni fer svo sem í dómsorði greinir, sbr. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008, sem hæfilega þykir ákveðinn í ljósi alls framangreinds og þess að lögmaður hennar var tilnefndur réttargæslumaður af lögreglu á rannsóknarstigi málsins, svo sem í dómsorði greinir.

IX.

Þegar það er virt að rannsókn málsins laut á fyrri stigum að mun alvarlegri sakargiftum á hendur ákærða en hann var síðar ákærður og sakfelldur fyrir og að sú staðreynd hafði óneitanlega áhrif á allt umfang málsins, sbr. hér upphafsorð 1. mgr. 216. gr. laga nr. 88/2088 um meðferð sakamála, þykir rétt að fella ⅓ hluta alls sakarkostnaðar á ríkissjóð, en dæma ákærða til greiðslu ⅔ hluta kostnaðarins samkvæmt úrslitum málsins og með vísan til meginreglu 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008.

Til sakarkostnaðar í málinu teljast 35.000 krónur vegna öflunar vottorðs frá Barnahúsi, vitnakostnaður, 31.240 krónur, og þóknun skipaðs verjanda ákærða, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur hdl., bæði á rannsóknarstigi og fyrir dómi, er hæfilega þykir ákveðin 627.500 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, en við ákvörðun þóknunarinnar er tekið tillit til þess tíma sem fór í ferðalög hjá lögmanninum. Enn fremur telst til sakarkostnaðar ferðakostnaður skipaðs verjanda sem réttilega þykir ákvarðaður samtals 170.915 krónur.

Samkvæmt framansögðu dæmist ákærði til að greiða 576.437 krónur í sakarkostnað. Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 45 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 576.437 krónur í sakarkostnað. Allur annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Kröfu ákærða um frávísun bótakröfu A er hrundið.

Ákærði greiði A 150.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2010 til 17. október 2010, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði brotaþola jafnframt 60.000 krónur í málskostnað.