Hæstiréttur íslands

Mál nr. 50/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Skattur
  • Aðild


Miðvikudaginn 28

 

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001.

Nr. 50/2001.

Fimleikafélag Hafnarfjarðar

(Valgarður Sigurðsson hrl.)

gegn

sýslumanninum í Hafnarfirði

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám. Skattar. Aðild.

F kærði þann úrskurð héraðsdóms að hafna ógildingu fjárnáms, sem gert hafði verið hjá honum vegna ógreiddra opinberra gjalda. Knattspyrnudeild F hafði upphaflega verið gert að greiða gjöldin en eftir að hún varð ekki við greiðsluáskorunum varnaraðila voru hin ógreiddu gjöld lögð á F. F hafnaði hins vegar greiðsluskyldu og bar því meðal annars við að þar sem skattrannsóknin hefði lengst af beinst gegn knattspyrnudeild F og að öllum tilkynningum hefði verið beint til hennar væri ekki lagaheimild til þess að gera F að greiða gjöldin. Fallist var á að skattyfirvöldum hefði þegar í upphafi borið að leggja umrædd gjöld á F sjálfan en ekki knattspyrnudeild hans. Hins vegar var talið að F hefði verið kunnugt um rannsókn skattyfirvalda og að hann hefði átt þess kost að gæta hagsmuna sinna við hana, sem hann hefði og gert. Með vísan til þess og þar sem F viðurkenndi að hann bæri fulla ábyrgð á skuldbindingum knattspyrnudeildarinnar var hinn kærði úrskurður staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði fjárnám, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði hjá honum 28. janúar 2000 vegna ógreidds virðisaukaskatts ásamt dráttarvöxtum og kostnaði, að fjárhæð samtals 3.406.949 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að framangreint fjárnám verði fellt úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins til sóknaraðila 14. febrúar 1994 var óskað eftir því að hann afhenti öll bókhaldsgögn sín fyrir árin 1989 til 1993 og veitti jafnframt nánar tilteknar upplýsingar um stjórn sína og rekstur. Af gögnum málsins má sjá að bréf þetta markaði upphaf skattrannsóknar, sem leiddi til þess að ríkisskattstjóri ákvað 12. september 1997 að leggja á sóknaraðila söluskatt vegna áranna 1988 og 1989 og virðisaukaskatt vegna áranna 1990 til 1993. Með úrskurði yfirskattanefndar 2. júlí 1999 voru þessi gjöld lækkuð verulega. Fjárnám varnaraðila, sem um ræðir í málinu, var gert fyrir gjöldunum eins og álagningu þeirra hafði verið breytt til lækkunar.

Áðurgreindu bréfi skattrannsóknarstjóra var svarað með bréfi varaformanns knattspyrnudeildar sóknaraðila 28. apríl 1994. Þar segir að aðalstjórn sóknaraðila hafi beðið varaformanninn um að gera grein fyrir fjármálum knattspyrnudeildar félagsins árin 1988 til 1992. Síðari tilkynningar skattyfirvalda voru sendar knattspyrnudeild sóknaraðila, en í öllum tilvikum utan einu var tekið fram að þær ættu að berast nafngreindum stjórnarmönnum í aðalstjórn. Svör sóknaraðila voru ýmist send í nafni aðalstjórnar hans eða fyrir hönd knattspyrnudeildar.

Þótt rétt hefði verið af skattyfirvöldum að leggja umrædd gjöld á sóknaraðila sjálfan, en ekki knattspyrnudeild hans, svo og að beina til hans tilkynningum um þau, leiðir af framangreindu og gögnum málsins að honum var kunnugt um rannsókn skattyfirvalda. Hann átti þess allan kost að gæta hagsmuna sinna við hana og gerði það. Honum gat ekki dulist að gjöldin, sem vörðuðu starfsemi knattspyrnudeildar hans og voru í orði kveðnu lögð á hana, beindust í raun að félaginu sjálfu, enda voru einstakar deildir innan þess ekki bærar um að njóta réttinda sjálfstætt eða bera þannig skyldur. Af hálfu sóknaraðila hefur ítrekað komið fram í málinu að hann beri fulla ábyrgð á skuldbindingum knattspyrnudeildar sinnar. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2001.

Þann 17. mars 2000, barst Héraðsdómi Reykjaness krafa Fimleikafélags Hafnarfjarðar, kt. 540169-2769, Kaplakrika Hafnarfirði, um að fjárnámsgerð sýslumannsins í Hafnarfirði frá 28. janúar 2000 í málinu nr. 036-1999-03382, hjá sóknaraðila fyrir 3.406.949 krónum að viðbættum dráttarvöxtum frá 17. desember 1999, gerð í eignarhlutum sóknaraðila í fasteignum í Kaplakrika, hús nr. 100, búningsklefahúsi, matshluti 0101, félagsheimili, matshluti 2101, félagsheimili og áhorfendastúku, matshluti 3101 og íþróttahúsi, matshluti 4101, verði ógilt.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að mati dómsins.

Varnaraðili, sýslumaðurinn í Hafnarfirði, gerir þá kröfu að ofangreind aðfarargerð verði staðfest.

I.

Málavextir eru á þá leið, að af hálfu skattrannsóknarstjóra fór fram almenn athugun á skattskilum íþrótta- og ungmennafélaga á landinu.  Sú athugun benti til þess að skattskil knattspyrnudeildar sóknaraðila væru í ólagi.  Hinn 14. febrúar 1994 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins rannsókn á skattskilum knattspyrnudeildar sóknaraðila með ritun bréfs til Fimleikafélags Hafnarfjarðar, viðtakandi Bergþór Jónsson, þar sem m.a. var farið fram á að látinn yrðu í té öll bókhaldsgögn og fært bókhald, svo og árskýrslur og ársreikningar og ýmsar upplýsingar varðandi rekstur aðalstjórnar, handknattleiksdeildar, knattspyrnudeildar og frjálsíþróttadeildar félagsins vegna rekstraráranna 1989 til 1993 að báðum meðtöldum, enda væri reikningsár félagsins almannaksárið.  Ella væri óskað gagna og upplýsinga vegna rekstraráranna frá og með 1988/1989 og til og  með loka ársins 1993.  Sóknaraðili svaraði bréfi þessu 28. apríl 1994 án þess að gögn væru send.  Á þessum tíma voru hafnar skýrslutökur hjá skatt­rannsóknarstjóra ríkisins, en skýrslur voru teknar af Bergþóri Jónssyni, formanni aðal­stjórnar sóknaraðila, Gunnlaugi Magnússyni, varaformanni aðalstjórnar, Þóri Jónssyni, formanni knattspyrnudeildar sóknaraðila og Viðari Halldórssyni, vara­formanni knatt­spyrnudeildar sóknaraðila.

Helstu niðurstöður skýrslu skattrannsóknarstjóra voru í stuttu máli þær að ekki væri fyrir hendi fært bókhald hjá knattspyrnudeildinni vegna rekstrartímabilsins nóvember 1988 til og með 31. október 1992 og væri gagnavörslu deildarinnar verulega ábótavant.  Forsvarsmenn deildarinnar upplýstu að gögn þau er ekki hefðu fundist kynnu að hafa verið fleygt.  Í ljós væri leitt að stjórnarmenn sóknaraðila hefðu vanrækt að gera grein fyrir greiðslum til þjálfara og leikmanna á skýrslum til skattyfirvalda.  Þá segir einnig í skýrslunni að svo virðist sem bókhaldsgögn vegna rekstrartímabilsins 1. nóvember 1992 til og með 31. október 1993 geri ekki grein fyrir öllum rekstri deildarinnar á þessu tímabili.  Skattrannsóknarstjóri ríkisins komst ennfremur að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu verið gerð skil af sölu og virðisaukaskattskyldri starfsemi sóknaraðila þegar frá væru talin starfsemi vegna ljósa og flettiskilta.

Skýrsla skattrannsóknarstjóra, dagsett 27. febrúar 1995 var send knatt­spyrnudeild sóknaraðila hinn 22. mars 1995 og móttakanda gefinn kostur á að kynna sér skýrsluna og koma að mótmælum sínum við efni hennar.  Eftir framlengdan frest, eða hinn 3. maí 1995 barst skattrannsóknarstjóra svar.  Í því bréfi gerði aðalstjórn sóknaraðila athugasemdir við skýrsluna fyrir hönd knattspyrnudeildar og andmælti afskiptum skattyfirvalda af skattskilum íþróttafélaga.  Með þessu bréfi fylgdi einnig greinargerð lögmanns sóknaraðila.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins dagsett 12. júlí 1995, var ríkis­skattstjóra send skýrsla skattransóknarstjóra, dagsett 27. febrúar 1995, ásamt framkomnum andmælum.  Skattransóknarstjóri tók fram að andmælin hefðu ekki gefið tilefni til efnislegrar umfjöllunar af hálfu embættisins. 

Með bréfi ríkissattstjóra dagsett 12. september 1995 til knattspyrnudeildar sóknaraðila, viðtakandi Bergþór Jónsson, formaður aðalstjórnar, óskaði ríkisskattstjóri m.a. eftir lögum og reglum félagsins áður en ákvörðun yrði tekin í málinu.  Í fram­haldi af móttöku umbeðinna gagna ritaði ríkisskattstjóri knattspyrnudeild sóknar­aðila, viðtakandi Bergþór Jónsson, formaður aðalstjórnar, bréf þar sem boðuð var skatt­breyting á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra.  Bréf þetta var ranglega dagsett og var því nýtt bréf sent til knattspyrnudeildar sóknaraðila, Gunnlaugs Magnússonar, vara­fomanns aðalstjórnar.  Sóknaraðili mótmælti bréfi þessu hinn 5. desember 1995 og sendi jafnframt greinargerð. 

Hinn 12. september 1997 endurákvarðaði ríkisskattstjóri gjöld knatt­spyrnudeildar sóknaraðila og beindi bréfi sínu til Gunnlaugs Magnússonar, vara­formanni aðalstjórar.  Bráðabirgðakæra barst ríkisskattstjóra dagsett 11. október 1997 og síðan rökstudd kæra dagsett 10. desember 1997. 

Með úrskurði ríkisskattstjóra dagsettum 24. mars 1998 sem beint var til knatt­spyrnudeildar sóknaraðila, viðtakandi Gunnlaugur Magnússon, varaformaður aðal­stjórnar, var kröfum sóknaraðila hafnað.  Kærufrestur var gefinn til yfir­skattanefndar.

Hinn 22. apríl 1998 kærði sóknaraðili úrkurð ríkisskattstjóra til yfirskatta­nefndar til bráðabirgða.  Hinn 10. júní 1998 sendi sóknaraðili rökstuðning og var þess krafist að hinn kærði úrskurður yrði felldur úr gildi og að allar kröfur sem hann beindi að ríkisskattstjóra yrðu teknar til greina.  Úrskurður yfirskattanefndar var kveðinn upp 2. júlí 1999.  Efnislega tók yfirskattanefnd hluta krafna sóknaraðila til greina en hafnaði öðrum.  Eftir stendur virðisaukaskattur vegna áranna 1990 til og með 1993. 

Krafa samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar var ekki greidd og gerði sýslumaður því árangurslaust fjárnám hjá knattspyrnudeild sóknaraðila hinn 15. apríl 1999 vegna gjaldanna.  Hinn 6. júlí 1999 óskaði sýslumaður eftir gjaldþrotaskiptum á búi knattspyrnudeildar sóknaraðila.  Hinn 24. september 1999 hafnaði Héraðsdómur Reykjaness kröfu sýslumanns um að bú knattspyrnudeildar sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Hinn 9. nóvember 1999 sendi sýslumaður sóknaraðila greiðsluáskorun og skoraði á félagið að greiða virðisaukaskattinn innan 15 daga.  Því var ekki sinnt og ritaði sýslumaður þá hinn 8. desember 1999 aðfararbeiðni.  Málið var tekið fyrir hjá sýslumanni í Hafnarfirði hinn 28. janúar 2000.  Var mætt af hálfu sóknaraðila og gerðinni mótmælt.  Sýslumaður ákvað að hún skyldi ná fram að ganga og vísaði sóknaraðili því þeim ágreiningi til Héraðsdóms Reykjaness.

II.

Sóknaraðili byggir á því að lagaskilyrði hafi skort fyrir rannsókn skatt­rannsóknarstjóra og eftirfarandi endurálagningu.  Skattrannsókninni hafi ekki verið beint að sóknaraðila og stjórn þess fyrir utan fyrstu tilkynningu skattrannsóknarstjóra.  Rannsókninni hafi verið beint að undirdeild sem geti ekki sjálfstætt borið réttindi og skyldur og beri ekki ábyrgð á fjármálum félagsins og fari ekki með málefni þess gagnvart skattyfirvöldum.  Allar tilkynningar, frestir, úrskurðir, kærur, andmæli við frumskýrslu og síðar álagningu og innheimtu hafi verið beint að deildarstjórn. 

Knattspyrnudeild sóknaraðila eins og aðrar deildir þess lúti boðvaldi aðal­stjórnar sóknaraðila og aðalstjórn félagsins beri ábyrgð á fjármálum deildanna og þeim fjárskuldbindinum sem þær taki á sig.  Á sama hátt beri aðalstjórn ábyrgð á framtals- og skattskilum knattspyrnudeildar sóknaraðila.  Fimleikafélag Hafnarfjarðar sé einn lögaðili þótt félagið greinist síðar í undirdeildir fyrir hverja eina íþrótt sem þar sé stunduð.  Í skýrslu skattrannsóknarstjóra, þar sem fjallað sé um réttarstöðu og stjórn sóknaraðila, sé tekið fram að rannsókninni sé beint að knattspyrnudeild sóknar­aðila.  Sé á það bent í skýrslunni að með því sé ekki tekin nein afstaða til þess hvort gjaldbreyting eigi að beinast að aðalstjórn eða knattspyrnudeild sóknaraðila.  Gjald­breytingunni hafi síðan verið beint að knattspyrnudeildinni. 

Sóknaraðili telur að knattspyrnudeild sóknaraðil sé ekki lögaðili í skilningi 2. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignaskatt.  Knattspyrnudeildin geti því ekki verið aðili að skattrannsókn á framtals- eða skattskilum sem aðalstjórn félagsins beri ein ábyrgð á.  Félagið sem heild beri alla ábyrgð á framtals- og skattskilum félagsins jafnt félagsdeildar sem félagsins sjálfs og verði rannsókn aðeins beint að aðalstjórn.  Á því er einnig byggt að ekki hafi verið gætt ákvæða 7. mgr. 102. gr. a áðurnefndra laga við skattrannsóknina.  Í ljósi alls þessa telur sóknaraðili að álagning umkrafinna gjalda hafi verið andstæð lögum og þess vegna verði ekki á henni byggt.  Beri því að ógilda nefnda aðfarargerð. 

Sóknaraðili vísar til heimildarákvæða 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. 92. gr.  Um meðferð málsins vísar sóknaraðili til fyrirmæla 94. gr. sömu laga.  Sóknaraðili vísar einnig til 2. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignaskatt varðandi aðild að skattrannsókn og til 7. mgr. 102 gr. a, einkum varðandi réttarstöðu sóknar­aðila við rannsóknaraðgerðir skattrannsóknarstjóra á rannsóknarstigi.  Kröfu sína um málskostnað styður sóknaraðili við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

III.

Varnaraðili heldur því fram að öll bréf skattrannsóknarstjóra og ríkisskatt­stjóra, utan eitt hafi verið stíluð á knattspyrnudeild sóknaraðila.  Viðtakandi þeirra bréfa hafi verið Bergþór Jónsson, formaður aðalstjórnar eða Gunnlaugur Magnússon, varaformaður aðalstjórnar.  Eitt bréf hafi þó verið stílað á Fimleikafélag Hafnarfjarðar, með formann aðalstjórnar, Bergþór Jónsson sem viðtakanda.  Öllum bréfum hafi verið svarað af aðalstjórn sóknaraðila eða lögmönnum þeirra.  Aldrei hafi komið fram athugasemd um ætlaða ranga aðild af málinu.  Sóknaraðili hafi því haldið skatt­yfirvöldum í góðri trú.  Formleg og efnislega rétt skattákvörðun skattyfirvalda verði ekki ómerkt og aðför felld úr gildi, einungis vegna þess að bréf séu stíluð á „Knattspyrnudeild FH,” en ekki „Fimleikafélag Hafnarfjarðar,”  eins og sóknaraðili byggi á.  Bágt sé að sjá hver ágreiningur sóknaraðila sé í raun því að í kæru til Héraðsdóms Reykjaness taki sóknaraðili fram að knattspyrnudeildin lúti boðvaldi aðalstjórnar FH og að aðalstjórn félagsins beri ábyrgð á fjármálum knattspyrnu­deildarinnar og þeim fjárskuldbindingum sem hún taki á sig.  Þá segi einnig í kærunni að á sama hátt beri aðalstjórn ábyrgð á framtals- og skattskilum knattspyrnu­deildarinnar.  Varnaraðili bendir á í þessu sambandi að stjórnarmenn beri óskipta ábyrgð á kröfum, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Varnaraðili bendir á að skattstjórar hafi heimild til að úthluta aðilum fleirum en einu virðisaukaskattsnúmeri sbr. 5. og 6. mgr. 24. gr. laga um virðisaukaskatt.  Gjaldbreyting málsins beinist að virðisaukaskattsnúmerinu 33617 sem sé skráð á nafn og kennitölu Knattspyrnudeildar FH.  Deildin sé hluti af félaginu, það sé sóknaraðili, sem endanlega beri ábyrgð á málum þess eins og reyndar sé viðurkennt af sóknaraðila.  Skráning virðisaukaskattsnúmers sé formsatriði en ekki efnis.  Númerinu hafi verið úthlutað í samræmi við óskir ráðamanns í deildinni en deildin sé nokkuð sjálfstæð sbr. lög félagsins.

Knattspyrnudeild FH teljist vera virðisaukaskattskyldur aðili samkvæmt 1. og 2. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 enda stundi deildin virðisaukaskattskylda starfsemi samkvæmt 1. gr. og 2. mgr. 2. gr. sömu laga.

Varnaraðili mótmælir því að réttur samkvæmt 7. mgr. 102. gr. laga a nr. 75/1981 hafi verið brotinn á sóknaraðila við rannsókn málsins.

Varnaraðili vísar til 130. gr. laga um meðferð einkamála varðandi máls­kostnað.

IV.

Ágreiningslaust er í málinu að knattspyrnudeild Fimleikafélags Hafnarfjarðar geti ekki sjálfstætt borið réttindi og skyldur.  Ágreiningslaust er að deildin lúti boð­valdi aðalstjórnar Fimleikafélags Hafnarfjarðar og aðalstjórn beri ábyrgð á fjár­málum deildarinnar og þeim fjárskuldbindingum sem hún tekur á sig.  Ágreiningslaust er að aðalstjórn beri ábyrgð á framtals- og skattskilum knattspyrnu­deildarinnar.  Ágreiningslaust er að Fimleikafélag Hafnarfjarðar sé einn lögaðili sem greinist í undirdeildir eftir þeirri íþrótt sem stunduð er. Ágreiningur er ekki um fjárhæð álagningar og réttmæti hennar.  Aðilar deila ekki heldur um að kröfur skattyfirvalda sé rétt beint að sóknaraðila eins og gert er í þessu máli. 

Krafa sóknaraðila um ógildingu fjárnámsins byggist á því einu að skattyfirvöld hafi ranglega beint rannsókn sinni og öllum tilkynningum og bréfasendingum til knattspyrnudeildar sóknaraðila en ekki til aðalstjórnar eins og rétt hefði verið að gera.  Gjaldbreytingum og úrskurðum hafi þannig verið beint að knattspyrnudeildinni einni en ekki aðalstjórn. 

Þegar skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn á skattamálum sóknaraðila voru teknar skýrslur af Bergþóri Jónssyni, formanni aðalstjórnar, Gunnlaugi Magnús­syni, varaformanni aðalstjórnar, Þóri Jónssyni, formanni knattspyrnudeildar og Viðari Halldórssyni, varaformanni knattspyrnudeildar.  Rannsókn skattrannsóknar­stjóra beindist í öndverðu einvörðungu að fjármálum knattspyrnudeildarinnar en ekki öðrum íþróttadeildum sóknaraðila.  Skattyfirvöld stíluðu flest bréf sín til sóknaraðila á „Knattspyrnudeild FH” eftir að rannsókn hófst.  Jafnframt var tekið fram í bréfunum að þau skyldu borin út til Bergþórs Jónssonar, formanns aðalstjórnar eða Gunnlaugs Magnússonar, varaformanns aðalstjórnar.  Formaður og varaformaður aðalstjórnar fylgdust því með gangi málsins og rannsókn skattyfirvalda á einni af undirdeild aðal­stjórnar.  Því verður ekki fallist á með sóknaraðila að skattrannsóknin hafi beinst að þriðja manni eða einhverjum óviðkomandi aðila eins og sóknaraðili virðist byggja á.  Rannsóknin beindist að undirdeild sóknaraðila sem aðalstjórn ber ábyrgð á, enda nýtur undirdeild í íþróttafélagi ekki rétthæfis sem félag eða stofnun.  Þá gáfu skatt­yfirvöld sóknaraðila andmælarétt á öllum stigum og var hann þeginn af sóknaraðila í öllum tilvikum, annað hvort af knattspyrnudeildinni, aðalstjórn eða lögmönnum sóknaraðila.  Skattyfirvöld hafa því fullnægt tilkynninga- og upplýsinga­skyldu sinni.

Ekki verður fallist á með sóknaraðila að ákvæði 7. mgr. 102. gr. a laga nr. 75/1981 um tekju og eignaskatt hafi verið brotinn á honum, enda hefur sóknaraðili ekki bent á nein atriði til stuðnings þeirri málsástæðu, hvorki í greinargerð né í málflutningi.  Samkvæmt framansögðu verður kröfum sóknaraðila hafnað í málinu.  Rétt þykir að málskostnaður falli niður. 

Gunnar Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila, Fimleikafélags Hafnarfjarðar, um ógildingu fjárnáms, sem gert var hjá sóknaraðila 28. janúar 2000, að fjárhæð 3.406.949 krónur, er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.