Hæstiréttur íslands

Mál nr. 418/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. september 2005.

Nr. 418/2005.

Sýslumaðurinn á Akranesi

(Ólafur Þ. Hauksson sýslumaður)

gegn

X

(Ingi Tryggvason hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. september 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 20. september 2005 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 1. nóvember 2005 kl. 12. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Að virtum gögnum málsins verður að telja að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið brot sem varðað getur við 211. gr., sbr. 20. gr., eða eftir atvikum við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar litið er til þeirra upplýsinga sem fyrir liggja í málinu um aðdraganda og atvik að hinu ætlaða broti varnaraðila verður talið að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, svo sem þau hafa verið skýrð í fyrri dómum Hæstaréttar, séu uppfyllt til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 20. september 2005.

             Mál þetta barst dóminum með bréfi sýslumannsins á Akranesi 20. september 2005 og var tekið til úrskurðar sama dag.

Sýslumaðurinn á Akranesi krefst þess að kærða, X, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 1. nóvember 2005, kl. 12.00.

Af hálfu kærða er kröfu um gæsluvarðhald mótmælt.

I.

Laust fyrir kl. 9.00 að morgni sunnudagsins 28. ágúst sl. hringdi A, fædd 1991, í Neyðarlínuna og tilkynnti að móðir sín, B, hefði orðið fyrir líkamsárás á heimili þeirra að [...]. Lögreglumenn fóru á vettvang og hittu fyrir B og tvö börn hennar. Mikið blæddi úr höfði B og greindi hún lögreglu frá því að kærði, fyrrum sambýlismaður hennar, hefði ráðist á sig og barið sig margsinnis í höfuðið með áhaldi.

B var flutt til aðhlynningar á Sjúkrahús [...]. Samkvæmt áverkavottorði yfirlæknis sjúkrahússins 29. ágúst sl. kom í ljós við skoðun skálægur 4 cm langur skurður á hvirfli í miðlínu sem blæddi úr, 4 cm langur skurður vinstra megin á höfði sem blæddi úr, 5 cm langur skurður rétt ofan við hársvörð framan til sem blæddi úr, 1,5 cm langur skurður rétt ofan við hársvörð framan til sem blæddi úr og kúla um 9 cm í þvermál aum viðkomu hægra megin á höfði, auk minni áverka á handleggjum.

Lögregla kannaði vettvang að [...] og fann felgujárnslykil á bak við hurð inni á baðherbergi. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að talsvert blóð hafi verið sjáanlegt inni á baðinu á hurð, veggjum og gólfi. Einnig hafi talsvert blóð verið í svefnherbergi þar sem lögreglumenn hittu B fyrir á vettvangi. Þá er tekið fram að engin ummerki hafi verið sjáanleg um innbrot.

Skömmu eftir atburði umræddan morgun kom faðir kærða á vettvang og greindi lögreglu frá því að sonur hans væri í annarlegu andlegu ástandi. Hann hefði lengi glímt við erfitt þunglyndi og verið langt niðri undanfarnar vikur. Einnig kom fram hjá föðurnum að kærði hefði á undanförnum árum gert nokkrar tilraunir til sjálfsvígs og taldi hann hættu á að kærði reyndi slíkt aftur. Um kl. 11.00 sama morgun barst síðan lögreglu tilkynning um að kærði hefði fundist í malarnámu skammt norðan við [...]. Komu sjúkraflutningsmenn þar að kærða þar sem hann sat meðvitundarlaus í framsæti reykfylltrar bifreiðar sinnar með gúmmíslöngu tengda við útblástursrör bifreiðarinnar og leidda inn um hliðarrúðu. Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að í bifreiðinni hafi fundist flíspeysa með blóðblettum.

Kærði var fluttur til aðhlynningar á Sjúkrahús [...] og síðan til Reykjavíkur. Þar var hann síðan handtekinn á geðdeild Landspítalans 30. ágúst sl. og færður til yfirheyrslu hjá lögreglu.

Í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla þar sem fram kemur að B hafi komið á lögreglustöðina á [...] 21. júní 2004 til að leggja fram kæru vegna líkamsárásar sem hún fullyrti að hún hefði orðið fyrir af hálfu kærða 19. sama mánaðar. Lýsti B því að kærði hefði á heimili sínu skellt sér í gólfið og hert að hálsi þannig að hún hefði átt erfitt með andardrátt. Í kjölfarið kvaðst B hafa komist undan ákærða og út úr íbúðinni. Í áverkavottorði vegna þessa atburðar kemur fram að B hafi fundið til í upphandlegg báðum megin, haft skrýtna tilfinningu í hálsi með leiðni niður í mitt bak, verk í baki og þyngsli yfir bringubeini. Þá liggur fyrir að B kvartaði við lögreglu í maí 2005 vegna hótana kærða í sinn garð.  

II.

             Í skýrslu B hjá lögreglu 29. ágúst sl., sagðist hún hafa komið að heimili sínu um kl. 9.00 að morgni sunnudagsins eftir að hafa verið í gleðskap. Kvaðst hún hafa farið inn í læst húsið og hleypt út hundi og bundið hann á bak við hús en hurð hússins hefði verið opin á meðan. Því næst sagðist B hafa farið inn í húsið og inn á bað til að bursta tennur, en þegar hún var að því hefði hún verið slegin ítrekað í höfuðið með verkfæri. B kveðst þá hafa snúið sér við og þekkt kærða. Kvaðst B hafa öskrað en kærði hefði varnað henni útgöngu og slegið hana margsinnis í höfuðið en eitt högg hefði komið í höndina þegar hún reyndi að verja sig. Loks kvaðst B við illan leik hafa komist út úr baðherberginu og undan kærða inn í herbergi til dóttur sinnar sem hringt hefði eftir hjálp. Þá kom fram hjá B að hún og kærði hefðu búið saman í tólf ár en skilið endanlega að skiptum fyrir tveimur árum. Taldi B að kærði hefði ekki sætt sig við sambúðarslitin en það hefði meðal komið fram í hótunum kærða í sinn garð.

             Í yfirheyrslu hjá lögreglu skýrði kærði þannig frá atburðum að hann hefði komið akandi að heimili B um kl. 2.00 umrædda nótt. Þar hefði hann beðið og orðið var við B um kl. 5.00 í fylgd með einhverjum manni á gangi upp nærliggjandi götu. Um kl. 9.00 hefði B síðan komið eftir sömu götu til baka í átt að húsinu. Um framhaldið kvaðst kærði ekki muna að öðru leyti en því að hann hefði verið nálægt henni og hún öskrandi. Því næst sagðist kærði muna eftir að hafa verið að hlaupa frá húsinu að bifreið sinni blóðugur á höndum. Kvaðst kærði þá hafa áttað sig á því að eitthvað mikið hefði gerst og taldi hann sig hafa lent í átökum við B. Við yfirheyrsluna var kærða sýndur felgujárnslykill sem lögregla fann á vettvangi og kannaðist kærði við verkfærið og að það tilheyrði bifreið sinni. Þá kannaðist kærði við að hafa áður haft í hótunum við B. Aðspurður hvort hann hefði hótað henni lífláti svaraði kærði: „Ég er ekki viss um hvort ég hef orðað það þannig.“ Fyrir dómi vísaði kærði til skýrslu sinnar hjá lögreglu og kaus að tjá sig ekki frekar.

III.

             Með úrskurði dómsins 31. ágúst 2005 var kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag. Var sá úrskurður reistur á d-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Með úrskurðinum var kærða jafnframt gert að sæta geðrannsókn.

             Samkvæmt geðrannsókn Tómasar Zoëga, geðlæknis, frá 19. september 2005 hafa einkenni afbrýðissemi kærða í garð fyrrum sambýliskonu magnast eftir að þau slitu sambúðinni þannig að kærði hafi verið fastur í þráhyggjuhugsunum um konuna. Þótt kærði sé haldinn hugvilluröskun af afbrýðissemistoga telur læknirinn ekkert benda til að hann sé ekki ábyrgur gerða sinna. Jafnframt telur læknirinn kærða ekki í bráðri hættu gagnvart sjálfum sér og hafa fullt innsæi í það sem hann hafi gert fyrrum sambýliskonu sinni, auk þess að vera með samviskubit. Þráhyggja gagnvart konunni sé þó enn fyrir hendi en í minna mæli sem stendur. Eins og málum sé fyrir komið telur læknirinn konuna ekki í hættu en leggur áherslu á að kærði taki lyf og sé til meðferðar hjá lækni.

IV.

             Af hálfu lögreglu hefur verið bent á að sterkur grunur leiki á að kærði hafi gerst sekur um tilraun til manndráps með því að hafa læðst inn í íbúð fyrrverandi sambýliskonu og ráðist aftan að henni án nokkurra málalenginga með felgujárnslykil að vopni og slegið hana margsinnis í höfuðið. Áverkar konunnar komi heim og saman við framburð hennar, auk þess sem ráða megi af áverkunum að árásin hafi verið hrottaleg. Einnig hafi verið mikil mildi að ekki fór verr þar sem árásin beindist að höfði konunnar með miklu afli.

Með hliðsjón af atvikum telur lögregla allt benda til að ásetningur kærða hafi staðið til að bana B eða í það minnsta valda henni miklum skaða. Kærði hafi ekki getað gefið neinar skýringar á gerðum sínum eða upplýst hvað honum hafi gengið til. Að þessu virtu telur lögregla einsýnt að B stafi hætta af frekari árásum af hendi kærða sæti hann ekki gæsluvarðhaldi, enda hafi kærði sýnt í verki eindreginn ásetning sinn, auk þess sem kærði liggi undir grun um að hafa áður ráðist að konunni og haft upp hótanir í hennar garð. Telur lögregla að ætla megi að kærði sé vís til nýrrar atlögu þrátt fyrir niðurstöðu geðrannsóknar þar sem þráhyggja hans gagnvart fyrri sambýliskonu sé enn fyrir hendi. Jafnframt bendir lögregla á að B þurfi að búa við mikið óöryggi miðað við það sem á undan er gengið verði kærða ekki gert að sæta varðhaldi.

             Krafa lögreglu um gæsluvarðhald er studd við d-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Einnig telur lögregla að fyrir hendi sé sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um brot sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi og að brotið sé þess eðlis að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Því sé jafnframt fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. sömu laga til að krafan verði tekin til greina.

V.

             Kærða er gefið að sök að hafa að morgni 28. ágúst sl. ráðist að fyrrverandi sambýliskonu sinni með felgujárnslykli og veitt henni mikla áverka á höfði. Getur slíkt brot varðað við 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga eða eftir atvikum 2. mgr. 218. gr. sömu laga.

             Samkvæmt skýrslu Tómasar Zoëga, geðlæknis, um geðrannsókn sem hann vann, er kærði ekki í bráðri hættu gagnvart sjálfum sér og gerir sér grein fyrir hvað hann hafi gert fyrrum sambýliskonu sinni. Í skýrslunni segir jafnframt að þráhyggja kærða gagnvart konunni sé enn til staðar en í minni mæli. Kærði hafi fullt innsæi í veikleika sinn og eins og málum sé nú háttað séu ekki líkur á að konan sé í hættu. Að þessu virtu þykja ekki efni til að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli d-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

             Fyrrum sambýliskona kærða hefur greint frá því hjá lögreglu að kærði hafi laumast inn á heimili hennar og ráðist að henni með verkfæri og slegið hana ítrekað í höfuðið. Við þetta hlaut B mikla áverka á höfði svo sem að framan hefur verið rakið. Kærði hefur kannast við að hafa næturlangt setið fyrir konunni frá kl. 2.00 um nóttina en hún kom heim þegar komið var fram á morgun. Að svo miklu leyti sem kærði hefur greint frá atburðum er frásögn hans í samræmi við framburð konunnar. Er því fyrir hendi sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um brot sem að lögum getur varðað allt að 10 ára fangelsi. Með hliðsjón af því og þegar þess er gætt að gögn málsins benda til að kærði hafi komið konunni að óvörum þar sem hún átti sér einskis ills von á heimili sínu og ráðist að henni á þann veg sem hér hefur verið rakið þykir varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.  

             Benedikt Bogason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

             Kærða, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til 1. nóvember n.k. kl. 12.00.