Hæstiréttur íslands

Mál nr. 89/2007


Lykilorð

  • Landamerki
  • Gjafsókn


         

Fimmtudaginn 17. janúar 2008.

Nr. 89/2007.

Ómar Antonsson

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Hanný Heiler

(Ólafur Björnsson hrl.)

 

Landamerki. Gjafsókn.

H krafðist viðurkenningar á því að landamerki milli jarðar sinnar Dynjanda og jarðarinnar Horns í Sveitarfélaginu Hornafirði yrðu ákveðin með nánar tilgreindum hætti. Í málinu var meðal annars deilt um staðsetningu tiltekinna örnefna sem vísað var til í landamerkjabréfum Horns og jarðarinnar Þinganess, sem Dynjanda hafði verið skipt út úr. Með vísan til meðal annars staðhátta og framburðar tveggja vitna sem bæði voru staðkunnug frá unga aldri var fallist á kröfur H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. febrúar 2007. Hann krefst sýknu af  kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms gáfu vitnin Jens Olsen og Sveinbjörn Sverrisson skýrslur fyrir Héraðsdómi Austurlands. Hafa endurrit þeirra og nokkur önnur gögn verið lögð fram í Hæstarétti. Þessi nýju gögn fá því ekki breytt að hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ómar Antonsson, greiði í ríkissjóð málskostnað fyrir Hæstarétti 400.000 krónur.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Hanný Heiler, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 15. nóvember 2006.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. október s.l., er höfðað með stefnu birtri 31. október 2005.

Stefnandi er Hanný Heiler, kt. 230562-7929, Dynjanda, Sveitarfélaginu Hornafirði.

Stefndi er Ómar Antonsson, kt. 150853-2739, Horni, Sveitarfélaginu Hornafirði.

Til réttargæslu er stefnt:

Íslenska ríkinu, kt. 550169-2829, vegna jarðeigna ríkisins, kt. 680981-1759, Arnarhvoli, Reykjavík, sem þinglýstum eiganda jarðarinnar Þinganess, Mörtu Karen Björnsdóttur, kt. 160356-5539 og Sigurði Brynjari Torfasyni, kt. 220144-2169, Haga, Sveitarfélaginu Hornfirði, sem þinglýstum eigendum jarðarinnar Haga, Valdimar Ingólfssyni, kt. 111066-3619 og Aðalheiði Fanneyju Björnsdóttur, kt. 220272-5329, Hólabraut 12, Sveitarfélaginu Hornafirði, Valdimar sem þinglýstum eiganda jarðanna Sauðaness og Grænahrauns og Aðalheiði Fanneyju sem þinglýstum eiganda Sauðaness og loks Valþóri Ingólfssyni, kt. 191250-4439, Grænahrauni 2, Sveitarfélaginu Hornafirði, sem þinglýstum eiganda Grænahrauns.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði að landamerki á milli jarðanna Dynjanda og Horns í Sveitarfélaginu Hornafirði séu eftirfarandi:

Úr Kambslækjarminni við Merkileiti (punktur A hnit 689798.58  426564.15), sjóhending í fjallsrætur (punktur B, hnit 689812.85  426778.14). Frá þessu Merkileiti skal vera sjónhending til Vitaðsgjafa, en það er sker staðsett N 64 15 412 og V 15 10 444.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, Ómars Antonssonar.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi að mati dómsins.

Réttargæslustefndu hafa ekki látið til sín taka í málinu.

Við aðalmeðferð málsins var upplýst að stefnandi Hanný Heiler hefði keypt eignarhluta Sigurðar Pálma Pálssonar í jörðinni Dynjanda og væri nú ein þinglýstur eigandi jarðarinnar. Aðild málsins sóknarmegin breyttist því í samræmi við framangreint.

II.

Málavextir

Jarðirnar Horn og Þinganes eru fornar jarðir í Hornafirði. Landamerkjabréf Þinganess er dagsett 1. júní 1888 og því þinglýst 12. maí 1890 og landamerkjabréf Horns er dagsett 26. apríl 1898 og því þinglýst 27. apríl 1901. Landamerkjabréf Þinganess er samþykkt og áritað af hálfu eiganda og ábúanda Horns og landamerkjabréf Horns er samþykkt og áritað af hálfu eiganda Þinganess.

Í landamerkjabréfi Þinganess er merkjunum við Horn lýst með eftirfarandi hætti:

Úr Kambslækjarminni við Merkileiti sjónhending í brýr upp. Til fjarðarins eru mörkin þannig: Úr Merkileiti sjónhending í Vitaðsgjafa, þaðan liggur markið......

Í landamerkjabréfi Horns er merkjunum við Þinganes lýst svo:

....og þaðan efstu eggjar á fjöllum inn á móts við Merkileiti, þaðan sjónhending í kambinn ytra megin við Kambslæk, þaðan sjónhending í Vitaðsgjafa.....

Með afsali dags. 22. desember 1942 seldi Gunnar Jónsson bóksali á Höfn í Hornafirði Torfa Þorsteinssyni bónda í Þinganesi 50 hektara af óræktuðu landi úr eignarjörð sinni Þinganesi til stofnunar nýbýlis. Landið er austast í gömlu Þinganesjörðinni við landamerki Horns. Bær mun hafa verið reistur á Dynjanda árið 1943, en hinn 1. október 1957 byggði Landnám ríkisins jörðina Jens nokkrum Olsen til stofnunar nýbýlis. Stærð landsins er sögð vera 78 hektarar. Landsvæði jarðarinnar takmarkast að ofan af brattri fjallshlíð vestur af Almannaskarði og að sunnan af Skarðsfirði. Samkvæmt byggingarbréfi dags. 1. október 1957 er landamerkjunum lýst á eftirfarandi hátt:

Að austan samkvæmt þinglesnum landamerkjum Horns og Dynjanda. Að sunnan ræður fjörðurinn að læknum Dynjandi. Síðan ræður Dynjandi að ræsi á þjóðveginum til Almannaskarðs. Þá ræður þjóðvegurinn til vesturs 375 m leið. Þar beygja merkin til norðurs eftir skurði og ræður miðlína hans að enda skurðarins. Þar beygja merkin til norðausturs og ræður framhald miðlínu, miðlína og síðan framhald miðlínu skurðar, sem liggur suðaustan undir Miðhlaupshrauni, merkjum að fjallsrótum, að austan ráða fjallsrætur að landamerkjum Horns og Dynjandi.

Stefnandi heldur því fram að samkvæmt þessari lýsingu séu merki Dynjanda gagnvart Horni frá fjallsrótum til fjarðarins og sé Vitaðsgjafi í báðum tilvikum notaður sem sjónhendingarpunktur, en fastur merkjapunktur í Hornsbréfinu sé “kamburinn ytra megin við Kambslæk” og Þinganesbréfinu sé “Kambslækjarminni við Merkileiti og Merkileiti” notað sem viðmiðun.

Stefnandi kveður kambinn ytra megin (austan) við Kambslæk heita Merkileitiskambur. Vegna girðingaframkvæmda stefnda hafi risið ágreiningur milli stefnanda og stefnda um hvar Kambslækur sé og þar með Merkileiti. Telji stefndi Kambslæk vera u.þ.b. 200 metrum vestar en sá lækur, sem stefnandi telji vera Kambslæk. Reynt hafi verið að sætta deilu þessa hjá sýslumanni en án árangurs.

Í stefnu kemur fram að réttargæslustefndu hafi verið stefnt í málinu til að gefa þeim færi á að gæta hagsmuna sinna vegna kröfupunktar B í fjallsrótum, en punktur þessi snúi að sameiginlegu óskiptu beitilandi þessara jarða á einn veg og landi Horns á annan og sé jafnframt á endimörkum lands Dynjanda til fjallsins.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu stefnandi, Haraldur Torfason, Jón Stefánsson, Sigurður Pálmi Pálsson, Sigurgeir Skúlason, Sigurður Sigurbergsson og Þorleifur Hjaltason.

III.

Málsástæður

Málsástæður stefnanda.

Stefnandi kveður að þegar byggingarbréfið fyrir Dynjanda hafi verið ritað 1. október 1957 hafi landamerki nýbýlisins verið teiknuð á kort og sjáist glöggt á því korti að lækurinn, sem stefndi kalli Kambslæk sé ekki landamerki á milli jarðanna og því ekki Kambslækur. Skýrt komi fram í þinglýstum landamerkjabréfum fyrir Horn og sérstaklega Þinganes að landamerki jarðanna séu utan við Kambslæk við Merkileitið. Nafnið á klettinum, Merkileitiskambur, bendi til þess að landamerkin séu þar. Stefndi telji hins vegar að lítill klettur niðri í fjöru miklu vestar sé Merkileiti. Stefnandi kveðst telja að rétta Merkileitið sé eina hæðin með stærsta klettakambinum sem beri yfir allt svæðið í kring bæði af sjó og landi. Bendir stefnandi á að ef beina lína er dregin af klettinum sem stefndi nefni Merkileiti og í Vitaðsgjafa, sem sé næsti landamerkjapunktur fyrir Þinganes, liggi línan yfir eyju sem tilheyri Þinganesi, þ.e. Dýrey. Í þinglýstum skjölum sé hins vegar talað um sjónhendingu sem ekki geti verið um að ræða ef eyju beri í milli.

Stefnandi heldur því fram að fyrir ofan Merkileitið uppi í skriðunni í fjallinu sé örnefnið Merkileitistorfa. Stefnandi bendir ennfremur á að fyrir ofan tangann séu greinileg merki um mikla efnistöku og jarðrask. Kveðst stefnandi telja að tvær símastaurastæður, sem standi þarna hærra en landið næst þeim, sýni þetta glöggt. Við efnistöku Vegagerðarinnar hafi horfið malarkambur sá sem Kambslækur kunni að vera kenndur við, en einnig kunni hann að vera kenndur við klettakambinn við Merkileitið rétt hjá læknum. Nú renni Kambslækurinn ekki á sama stað og fyrr því Vegagerðin hafi veitt honum upp fyrir og ofan í lægð þegar efnistaka og vegaframkvæmdir hafi staðið yfir á þessu svæði. Áður hafi lækurinn runnið fram af kambinum í fallegri fossbunu.

Stefnandi kveður kröfu sína um málskostnað byggja á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda.

Stefndi kveður landamerkjalýsingu Horns yngri en landamerkjalýsingu Þinganess og því sé rétt að leggja yngri landamerkjalýsingu sem staðfest sé af eiganda Þinganess til grundvallar dómi verði talið að ekki sé samræmi á milli þeirra.

Stefndi kveður að svo virðist sem stefnandi, sem leiði rétt sinn frá eiganda jarðarinnar Þinganess, geri ekki ágreining um að merkjum milli Horns og Þinganess sé rétt lýst í merkjalýsingu Horns frá 1989, en telji að deila megi um legu Kambslækjar og þar með Merkileitis. Vilji stefnandi færa þessa staði um það bil 200 metra til austurs inn á land Horns með þeim rökum að óljóst sé hvar þessi kennileiti séu að finna. Stefnandi vitni til byggingarbréfs frá 1. október 1957 máli sínu til stuðnings, en stefndi kveðst telja að byggingarbréfið breyti ekki merkjum milli jarðanna samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi frá 19. öld sem ekki hafi verið ágreiningur um hvernig skilja beri fyrr en nú liðlega öld eftir gerð bréfsins.

Af hálfu stefnanda sé á því byggt að sá Kambslækur, sem hann taki mið af, sé kenndur við malarkamb nokkurn sem horfið hafi þegar Vegagerðin hafi tekið þar efni. Kambslækur hafi áður runnið fram af malarkambi þessum í fallegri fossbunu. Þessi röksemd fái ekki staðist. Orðið kambur eitt og sér merki ekki möl eða malarkamb á þessum slóðum heldur klett eða klettarana. Þá sé útilokað að fossinn hafi fallið fram af malarkambi, enda hefði lækurinn grafi sig í gegnum slíkan malarkamb og því hefði foss ekki getað myndast.

Á dskj. nr. 10 megi greina hvar Kambslækur renni nú, en einnig hvar hann hafi runnið áður og hvar hann hafi fallið fram af kletti. Lækjarfarveginum hafi verið breytt á sínum tíma vegna aðgerða við vegarlagningu.

Svo sem ráðið verði af dskj. nr. 9 fari lína, sem dregin sé úr kambinum “ytra megin við Kambslæk” að Vitaðsgjafa yfir austurjaðar Dýreyjar. Stefnandi haldi því fram að þegar af þeirri ástæðu geti ekki staðist að draga beri línuna frá þeim stað, sem stefndi telji vera á merkjum jarðanna. Á þetta sé ekki fallist. Á dskj. nr. 15, sem sé skrá um eyjar og flæðisker eftir Ásgeir Gunnarsson segi orðrétt: “Landamerkja punktar voru 11, það mun hafa verið venja, að sjónmál væri á milli landamerkjapunkta, en nokkuð er þetta á reyki (svo) í Þinganesi.” Stefndi heldur því fram með vísan til framangreinds að það hafi ekki verið ófrávíkjanleg regla að sjónmál væri á milli landamerkjapunkta á þessum slóðum og að það gæti skýrt hvers vegna notast hafi verið við Vitaðsgjafa sem viðmiðun. Þess utan sé ósannað að ekki sé sjónmál á milli greindra staða.

Á dskj. nr. 13, sem stefndi kveður vera örnefnaskrá fyrir Þinganes eftir Ásgeir Gunnarsson, segi á bls. 5: Smalasteinar, tveir stórir steinar ofan við veg rétt við Kambslæk.

Í örnefnaskrá fyrir Þinganes eftir Stefán Einarsson á dskj. nr. 14, bls. 1 segi: Þá eru Krosshraunsbakkar, sem lágu út að Kambslæk. Næst er Merkileiti, sem skilur lönd milli Horns og Þinganess. Liggur sú markalína úr Merkileitishaug og beint niður til sjávar við kamb utan við Kambslækinn og sjónhending út í fjörð í sker, sem heitir Gjafi (sennilega sama og Vitaðsgjafi í Hafnanesslandi).

Á dskj. nr. 12, sem stefndi kveður vera örnefnaskrá fyrir Horn eftir Stefán Einarsson prófessor segi á bls. 1: Landamerki að innan er úr Merkileitistorfu og niður að Skarðsfirði í Grjótkamb utan við Kambslæk og þaðan beina sjónhendingu í Vitaðsgjafa (sker austan við Mikleyjarál).

Á dskj. nr. 11 sé að finna loftmynd með örnefnum eftir Sigurgeir Skúlason og þar sé Kambslækur réttilega merktur á þeim stað sem stefndi telji hann vera. Heimildarmenn Sigurgeirs hafi verið Stefán Einarsson, Ásgeir Gunnarsson og Sigurjón Sigurðarson.

Á dskj. nr. 16 sé einnig kort eftir Ásgeir L. Jónsson frá árinu 1942, sem sýni Kambslæk á þeim stað sem stefndi telji að hann sé.

Stefndi kveðst telja að allar framangreindar heimildir styðji þá niðurstöðu að lækur sá sem stefndi telji vera Kambslæk sé sá lækur sem vitnað sé til í heimildum um merki jarðanna Horns og Þinganess, en að lækur sá sem stefnandi bendi á sé ekki hinn réttnefndi Kambslækur.

Um lagarök vísar stefndi til laga um landamerki og laga um meðferð einkamála.

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um landamerki milli jarðanna Dynjanda og Horns frá fjallsrótum að fjöru u.þ.b. miðja vegu á milli bæjarhúsanna á Dynjanda og Almannaskarðs. Fram kom við aðalmeðferð málsins að málsaðilar eru þó sammála um að upphafspunkturinn í fjallsrótum sé svokölluð Merkileitistorfa, sem er allstór gróinn blettur í fjallsskriðunni. Kveðst stefndi telja það vera hið eiginlega Merkileiti.

Stefnandi telur að draga eigi landamerkjalínuna frá fyrrgreindum upphafspunkti í fjallsrótum sjónhendingu í Kambslækjarmynni við Merkileiti og frá Merkileiti sjónhendingu í Vitaðsgjafa, sem er sker í Skarðsfirði skammt austan við Höfn. Á vettvangi benti stefnandi á læk, sem sprettur upp neðan við Merkileitistorfuna og rennur beina leið til sjávar vestan við tanga nokkurn sem gengur þar í sjó fram. Kvað stefnandi umræddan læk heita Kambslæk og tangann Merkileitistanga. Þá kvað stefnandi kambinn austan við lækinn heita Merkileitiskamb.

Á vettvangi benti stefndi hins vegar á læk u.þ.b. 200 metrum vestar sem rennur þar til sjávar vestan við mun minni tanga eða klett í fjörunni og kvað hann vera hinn rétta Kambslæk. Þaðan telur stefndi að draga beri sjónhendingarlínu í fyrrnefndan Vitaðsgjafa.

Um landamerkin á þrætusvæðinu liggja fyrir tvö landamerkjabréf. Annað landamerkjabréfið er fyrir jörðina Þinganes, sem jörðin Dynjandi er byggð úr, en það er dagsett 1. júní 1888 og því þinglýst 12. maí 1890. Það er samþykkt af hálfu eiganda og ábúanda Horns. Um mörkin á þrætusvæðinu segir þar: Úr Kambslækjarminni við Merkileiti sjónhending í brýr upp. Til fjarðarins eru mörkin þannig: Úr Merkileiti sjónhending í Vitaðsgjafa, þaðan liggur markið......

Hitt landamerkjabréfið er fyrir jörðina Horn og er það dagsett 26. apríl 1898 og því þinglýst 27. apríl 1901. Það er samþykkt af hálfu eiganda Þinganess. Um landamerkin á þrætusvæðinu segir þar: ....og þaðan efstu eggjar á fjöllum inn á móts við Merkileiti, þaðan sjónhending í kambinn ytra megin við Kambslæk, þaðan sjónhending í Vitaðsgjafa.....

Í báðum bréfum er skerið Vitaðsgjafi notað sem stefnulínupunktur, en fastur punktur í Þinganesbréfinu er Merkileiti og Kambslækjarmynni við Merkileiti og í Hornsbréfinu Merkileiti og kamburinn ytra megin við Kambslæk. Bæði bréfin miða þannig í stórum dráttum við sjónhendingarlínu frá fjallsbrún í Merkileiti og þaðan sjónhendingarlínu í Vitaðsgjafa. Óumdeilt er í málinu að orðalagið ytra megin eða utan við Kambslæk þýði samkvæmt málvenju á þessu svæði austan megin eða austan við lækinn.

Á dskj. nr. 9 má sjá að ef bein lína er dregin frá þeim stað, sem stefndi kveður vera kambinn austan við Kambslæk sem getið er um í Hornsbréfinu, í Vitaðsgjafa ber Dýrey á milli. Eyjuna ber hins vegar ekki á milli ef dregin er bein lína frá þeim stað, sem stefnandi kveður vera Merkileiti, og í Vitaðsgjafa. Þetta mátti glöggt sjá á vettvangi, sérstaklega þegar horft var úr Álaugarey og yfir Skarðsfjörðinn að hinu umþrætta landsvæði. Þaðan sást ekki staðurinn, sem stefndi telur að miða beri við þar sem Dýrey bar í milli, en þaðan mátti hins vegar vel greina Merkileitistorfuna og staðinn, sem stefnandi vill miða við þar fyrir neðan. Er því ekki um að ræða sjónhendingarlínu frá þeim stað, sem stefnandi vill miða landamerkin við og að Vitaðsgjafa.

Á ljósmyndum á dskj. nr. 9 og 10 má sjá að tanginn, sem stefnandi vill miða landamerki jarðanna við er mun stærra og meira áberandi kennileiti en sá staður, sem stefndi hefur bent á sem landamerkjapunkt. Fram hefur komið í málinu að talsverð efnistaka hefur átt sér stað á fyrrgreindum tanga og sjá mátti við skoðun á vettvangi ummerki um jarðrask og að land á þessum stað hefur lækkað talsvert vegna malarnáms og vegaframkvæmda. Samkvæmt íslenskri orðabók merkir orðið leiti hæð og samræmist það ágætlega staðháttum á þeim stað, sem stefnandi telur að heiti Merkileiti og miða beri landamerkin við. Á þeim stað sem stefndi bendir á er hins vegar ekki að finna hæð heldur hallar landinu þar heldur niður að sjó. Telja verður að landfræðilegar aðstæður bendi því fremur til þess að staður sá, sem stefnandi bendir á sem Merkileiti, sé sá staður sem miðað sé við í landamerkjabréfum jarðanna.

Í örnefnaskrá fyrir Horn eftir Stefán Einarsson prófessor segir um landamerkin á þessum stað að þau séu úr Merkileitistorfu og niður að Skarðsfirði í Grjótkamb utan við Kambslæk og þaðan beina sjónhendingu í Vitaðsgjafa. Í örnefnaskrá fyrir jörðina Þinganes, einnig eftir Stefán Einarsson prófessor, er landamerkjum lýst svo: Þá eru Krosshraunsbakkar, sem ná út að Kambslæk. Næst er Merkileiti, sem skilur lönd milli Horns og Þinganess. Liggur sú markalína úr Merkileitishaug og beint niður til sjávar við Kamb utan við Kambslækinn og sjónhending út í fjörð í sker, sem heitir Gjafi (sennilega sama og Vitaðsgjafi í Hafnanesslandi).

Hér verður að gera ráð fyrir að Merkileitistorfa og Merkileitishaugur sé eitt og sama kennileitið. Kemur þarna skýrt fram að markalínan sé úr Merkileitistorfunni, sem málsaðilar eru sammála um hvar sé, og beint niður til sjávar og í kambinn utan við Kambslæk. Þessi lýsing Stefáns Einarssonar samræmist ágætlega landamerkjabréfum Horns og Þinganess, svo og staðháttum á þeim stað, sem stefnandi hefur bent á sem landamerki á milli jarðanna, þ.e. að um sé að ræða beina línu frá fjallsbrún að fjöru með Merkileiti og kambinn austan megin við Kambslæk sem viðmið.

Fram hefur komið að kambur getur á þessu svæði þýtt klettabelti sem líkist grjóthleðslu sem þó sé af náttúrunnar völdum. Samkvæmt íslenskri orðabók getur kambur einnig merkt hryggur eða melhryggur og orðið sjávarkambur er sagt merkja sand- eða malarhryggur við sjávarströnd. Hvort tveggja samræmist ágætlega landslagi austan við læk þann sem stefnandi kveður vera Kambslæk, en þar er bæði að finna malarkamb, samanber efnistöku í vegagerð á þessu svæði og klettabelti næst sjónum.

Stefndi hefur lagt fram uppdrátt af landi Dynjanda samkvæmt mælingum Ásgeirs L. Jónssonar í júlí 1942. Líklegt má telja að uppdráttur þessi hafi verið gerður í tilefni af sölu Gunnars Jónssonar á 50 hekturum af landi úr Þinganesjörðinni til Torfa Þorsteinssonar sama ár. Þar er landamerkjalínan á milli Horns og Dynjanda dregin á ská úr Merkileitistorfu til vesturs í ónefnda hamra en vestan við þá er lækur og hann merktur Kambslækur. Beint fyrir neðan Merkileitistorfuna við sjóinn eru einnig hamrar og þar merkt við heitið Merkileitiskambur. Eins og landamerkin eru dregin upp á þessu korti virðast þau vera í samræmi við sjónarmið stefnda í máli þessu. Uppdráttur þessi er hins vegar óstaðfestur og á hann hefur ekki verið ritað samþykki landeigenda. Þá verður að telja uppdráttinn í ósamræmi við árituð og þinglýst landamerkjabréf jarðanna, sbr. framangreint, en þau fá einnig stuðning í framlögðum örnefnaskrám. Verður af framangreindum sökum ekki byggt á fyrrgreindum uppdrætti í máli þessu.

Staðsetning örnefna á korti á dskj. nr. 11 er einnig í samræmi við sjónarmið stefnda í málinu. Fram kom hjá vitninu Sigurgeiri Skúlasyni landfræðingi, sem skráði örnefnin og færði inn á kortið að beiðni sveitarfélagsins, að eini heimildarmaður hans við staðsetningu örnefnanna og gerð kortsins hafi verið stefndi í máli þessu. Þá sagðist hann ekki kannast við að nokkur annar hefði yfirfarið kortið og staðfest staðsetningu örnefnanna. Af framangreindum ástæðum verður ekki byggt á korti þessu um sönnun á staðsetningum örnefna í máli þessu. Inn á umrætt kort hefur þó verið fært inn örnefnið Merkileitistangi á sama stað og stefnandi heldur fram að hann sé og þar beint fyrir ofan Merkileitistorfa og er það til stuðnings kröfum stefnanda. Kambslækur er þar hins vegar sagður mun vestar.

Vitnið Haraldur Torfason, sem ólst upp á Dynjanda til 10 ára aldurs og bjó síðan í Nesjum í Hornafirði bar hér fyrir dómi að Merkileitið væri upp í skriðunni á fjallinu og lægi þaðan beint niður á tangann. Þá sagði hann að Kambslækur rynni frá Merkileiti og beint niður á tangann og þá til sjávar. Hann staðfesti að landamerkjalínan væri rétt á korti á dskj. 3. Vitnið Jón Stefánsson sagði að jörðin Horn hefði verið í eigu fjölskyldu hans og hann verið þar með annan fótinn þar til jörðin hefði verið seld fyrir nokkrum árum. Hann sagði að móðurbræður hans hefðu verið með fé í landi Horns og hann tekið þar þátt í smalamennskum og selveiðum. Hann sagði að landamerkjalínan væri úr Markatanga eða Merkileitistanga og upp í fjall og að Merkileitið væri landamerki á milli Horns og Dynjanda. Hann staðfesti landamerkjalínu á korti á dskj. nr. 3. Bæði þessi vitni báru að lækurinn, sem stefndi teldi að væri Kambslækur, héti Hamarslækur. Framburður þessara vitna, sem bæði eru staðkunnug á þessu svæði frá unga aldri, er í samræmi við kröfugerð stefnanda í máli þessu. Þá kom fram kom hjá vitninu Þorleifi Hjaltasyni að Merkileitið væri nokkuð stórt svæði og að hann vissi ekki um neinn ákveðinn punkt, sem kallaður væri Merkileiti. Kemur það einnig heim og saman við lýsingar í landamerkjabréfum og örnefnaskrám, svo og framburð vitnanna Haraldar og Jóns. Að öðru leyti virtist vitnið Þorleifur ekki vera kunnugt örnefnum á þessu svæði.

Með vísan til framangreinds þykir í ljós leitt að Kambslækjarmynni og kambur sá, sem fram kemur í landamerkjabréfum Horns og Þinganess, svo og fyrrnefndum örnefnaskrám Stefáns Einarssonar, séu í fjörunni beint niður af Merkileitistorfunni, þ.e. á þeim stað, sem stefnandi heldur fram. Ólíklegt verður að telja að lækur, sem rennur u.þ.b. 200 metrum vestar, dragi nafn sitt af kambi þessum en ekki lækurinn sem rennur þétt upp við hann, en á vettvangi hélt stefndi því fram að sá lækur hefði ekkert heiti. Með hliðsjón af öllu framangreindu og gögnum málsins þykir hins vegar í ljós leitt að lækurinn sem rennur næst Merkileitiskambinum og Merkileitistanganum að vestan sé Kambslækur.

Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða málsins sú að fallist er á kröfur stefnanda í málinu. Skal því draga landmerki á milli jarðanna Horns og Dynjanda í Hornafirði úr Kambslækjarmynni við Merkileiti (punktur A, hnit 689798.58 426564.15) sjónhendingu í Merkjaleitistorfu í fjallsrótum (punktur B, hnit 689812.85 426778.14). Stefnulína úr punkti A í Vitaðsgjafa markar hins vegar ekki landamerki á milli jarðanna og kemur því ekki til álita í máli þessu.

Með hliðsjón af úrslitum málsins ber stefnda, Ómari Antonssyni, að greiða stefnanda, Hanný Heiler, málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 550.000 krónur og er þar með talinn virðisaukaskattur.

Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri.

Dómsorð:

Landamerki á milli jarðanna Dynjanda og Horns í Sveitarfélaginu Hornafirði skulu vera eftir línu, sem ákveðin er á eftirfarandi hátt: Frá hnitapunkti í Kambslækjarmynni við Merkileiti, hnit 689798.58 426564.15 og þaðan sjónhendingu í hnitapunkt í Merkjaleitistorfu í fjallsrótum, hnit 689812.85 426778.14.

Stefndi, Ómar Antonsson, greiði stefnanda, Hanný Heiler, 550.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskatt.