Hæstiréttur íslands
Mál nr. 40/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Kyrrsetning
- Gjaldþrotaskipti
|
Föstudaginn 26. febrúar 2010. |
|
|
Nr. 40/2010. |
ÞS69 ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. (Bjarki H. Diego hrl.) |
Kærumál. Kyrrsetning. Gjaldþrotaskipti.
Þ ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu S hf. Var krafa S hf. byggð á 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 en samkvæmt því ákvæði getur lánardrottinn krafist gjaldþrotaskipta á búi skuldara ef kyrrsetning hefur verið gerð hjá skuldaranum án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag og ekki er ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans. Talið var að Þ ehf. hafi ekki leitt sönnur að því að árangurslaus kyrrsetningargerð hjá honum gefi ekki rétta mynd af fjárhag hans. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2010, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði leitaði varnaraðili kyrrsetningar í eignum sóknaraðila með beiðni 28. október 2009. Beiðnin var reist á tveimur kröfum sem varnaraðili telur sig eiga á hendur sóknaraðila, annarri að fjárhæð 20.302.777 danskar krónur en hinni að fjárhæð 288.003.952 krónur. Sóknaraðili andmælti því að gerðin færi fram. Sýslumaður ákvað 10. nóvember 2009 að kyrrsetningargerðin skyldi fara fram og var skorað á lögmann sóknaraðila að benda á eignir til kyrrsetningar. Hann benti á að sóknaraðili ætti kröfu á hendur varnaraðila vegna hlutafjárloforðs hans að fjárhæð 450.000.000 krónur auk annarrar kröfur að fjárhæð 90.000.000 krónur sem hann ætti á hendur varnaraðila. Varnaraðili andmælti tilvist fyrrnefndu kröfunnar við gerðina. Að því búnu var bókað af hálfu sýslumanns: ,,Af hálfu sýslumanns er fallist á að ábendingar gerðarþola nægi ekki til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda. Skorað er á lögmann gerðarþola að benda á aðrar eignir til tryggingar kröfunni en hann kveðst ekki vita til að gerðarþoli eigi aðrar eignir. Lögmaður gerðarbeiðanda krefst þess að gerðinni verði lokið með árangurslausri kyrrsetningu og er svo gert með vísan til 15. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 8. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Gerðinni er þar með lokið.“
Varnaraðili krafðist gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila 18. nóvember 2009 og reisti þá kröfu á hinni árangurslausu kyrrsetningargerð. Vísar hann kröfunni til stuðnings til 1. töluliðs 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því ákvæði getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta ef kyrrsetning hefur verið gerð hjá skuldaranum án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag og ekki er ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans. Sóknaraðili hefur ekki leitt sönnur að því að framangreind kyrrsetningargerð gefi ekki rétta mynd af fjárhag hans, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 16. júní 2008 í máli nr. 282/2008.
Með þessum athugasemdum verður hinn kærður úrskurður staðfestur. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, ÞS69 ehf., greiði varnaraðila, Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2010.
Með beiðni er barst dóminum 18. nóvember 2009 krafðist Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf., kt. 701086-1399, Borgartúni 25, Reykjavík, þess að bú ÞS 69 ehf., kt. 620785-0169, Sundlaugavegi 30a, Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Við fyrirtöku beiðninnar var kröfunni mótmælt og var þingfest sérstakt ágreiningsmál, sem tekið var til úrskurðar 17. desember sl., en endurupptekið og tekið til úrskurðar á ný 8. janúar sl.
Gjaldþrotabeiðandi, hér eftir nefndur sóknaraðili, krefst þess að bú ÞS 69 ehf., hér eftir nefnt varnaraðili, verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.
Sóknaraðili kveðst eiga tvær fjárkröfur á hendur varnaraðila. Annars vegar er krafa að höfuðstól DKK 18.049.572, sem hann telur að nemi með áföllnum vöxtum og dráttarvöxtum samtals DKK 20.302.777. Hins vegar krafa að höfuðstól 278.227.167 krónur, sem sóknaraðili telur að með áföllnum vöxtum nemi samtals 288.003.952 krónum.
Þann 10. nóvember 2009 reyndi Sýslumaðurinn í Reykjavík að kyrrsetja eignir varnaraðila til tryggingar framangreindum skuldum. Var gerðinni lokið sem árangurslausri.
Í greinargerð varnaraðila eru raktar fjárfestingar sem íslenskir aðilar réðust í í Danmörku. Segir að allt hafi verið unnið eftir ráðleggingum og með lánsfé frá sóknaraðila, sem hafi áskilið sér háa þóknun fyrir. Var fjárfest í líkamsræktarstöðvum, en reksturinn reyndist ekki í neinu samræmi við þær áætlanir sem gerðar höfðu verið. Hafi varnaraðili loks gerst aðili að ævintýri þessu sumarið 2008, með því m.a. að taka lán hjá sóknaraðila að fjárhæð DKK 57.000.000. Samkomulag aðila hafi falið í sér að sóknaraðili keypti hlutafé í varnaraðila fyrir ÍSK 450.000.000.
Varnaraðili segir að sóknaraðila hafi borið að greiða hlutaféð með tilteknum hætti. Framsali á hlut í dönsku hlutafélagi og framsali réttinda samkvæmt tveimur lánasamningum. Sóknaraðili hafi hins vegar ekki afhent nein gögn um verðmæti þeirra réttinda sem hann afhenti. Hafi endurskoðandi enn ekki staðfest greiðsluna, svo sem áskilið hafi verið.
Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi auk framangreinds, skuldbundið sig til að kaupa hlutafé í varnaraðila fyrir ÍSK 90.000.000.
Varnaraðili kveðst telja að sóknaraðili standi í skuld við sig sem nemur hlutafjárloforðinu, ÍSK 450.000.000. Þá kveðst hann geta krafið hann um 90.000.000 króna í hlutafjárframlag, samkvæmt hluthafasamkomulagi sem gert var. Vilji sóknaraðili hins vegar að samkomulag aðila frá sumrinu 2008 gangi til baka, falli einnig niður ábyrgð varnaraðila á fyrri kröfu sóknaraðila.
Varðandi síðari fjárkröfu sóknaraðila bendir varnaraðili á að sóknaraðili sé nú til slitameðferðar. Kröfu þessa hafi hann ekki átt þegar slitameðferðin hófst. Hann segist hafa keypt hana síðar af öðru fjármálafyrirtæki. Telur varnaraðili að óheimilt sé að verja fé félags sem sé til slitameðferðar til kaupa á óvissum kröfum á hendur aðilum sem félagið átti í viðskiptum við áður en slitameðferð hófst. Varnaraðili vísar hér til laga nr. 161/2002, sbr. breytingalög nr. 125/2008, 129/2008 og 44/2009, einkum 2. mgr. 103. gr. Þá vísar varnaraðili til 19. gr. laganna.
Varnaraðili telur að ekki hafi verið skilyrði til að krefjast kyrrsetningar. Ekki hafi farið fram uppgjör milli aðila. Þá kvað hann kröfu sóknaraðila setta fram af illfýsi.
Við munnlegan málflutning mótmælti sóknaraðili málatilbúnaði varnaraðila. Lagði hann sérstaka áherslu á að kyrrsetningargerð hafi reynst árangurslaus. Þá kvaðst hann ekki telja sig lengur skuldbundinn til hlutafjárkaupa. Sér væri heimilt að kaupa kröfur. Loks mótmælti hann því að 100. gr. laga nr. 21/1991 ætti við hér.
Forsendur og niðurstaða
Andmæli varnaraðila snúast öll um það atriði að hann standi ekki í skuld við sóknaraðila. Að hann geti skuldajafnað með kröfu um ógreidd hlutafjárloforð. Leiðir það einnig til þeirrar niðurstöðu að kyrrsetningargerðinni hafi ekki með réttu verið lokið sem árangurslausri. Forsenda fyrir slíkri niðurstöðu væri þá jafnframt að sóknaraðili gæti ekki með réttu krafið um greiðslu kröfu, sem hann kveðst hafa fengið framselda frá Nýja Kaupþingi banka.
Í greinargerð varnaraðila er lýst ítarlega fjárfestingum aðila sem eru tengdir varnaraðila í Danmörku og ráðgjöf sóknaraðila um það efni. Hann telur að ráð sóknaraðila hafi reynst illa, en hefur ekki uppi skýrar kröfur af því tilefni.
Af framlögðum gögnum má sjá að sóknaraðili hefur ekki greitt það hlutafé sem hann skuldbatt sig til. Þær greiðslur sem hann vildi leggja fram hafa ekki verið viðurkenndar af endurskoðanda, svo sem áskilið var. Ekki verður leyst úr því hér hvort líta beri svo á að allt samkomulag aðila, sem fól í sér margháttuð viðskipti, þ.á m. umrætt hlutafjárframlag, sé fallið niður. Telja verður að málatilbúnaður sóknaraðila sýni að hann telji að samningar séu hvorki niður fallnir né að þeim hafi verið rift.
Við kyrrsetningargerðina var ekki leyst skýrlega úr þeim mótbárum varnaraðila er varða hlutafjárloforð sóknaraðila. Þessi krafa sem varnaraðili á sennilega leiðir þó til þess að hann gæti með henni greitt fyrri hluta kröfu sóknaraðila að fullu, eins og henni er lýst í gjaldþrotabeiðni.
Er málið var endurupptekið 8. janúar sl. lagði sóknaraðili fram afrit af samningi sínum við Nýja Kaupþing banka um kaup á kröfu þeirri sem hann hefur uppi í gjaldþrotabeiðni. Af þeim gögnum er augljóst að umrædd krafa, sem varnaraðili mótmælir ekki að sé til, var framseld sóknaraðila til eignar. Ekki skiptir máli þótt sóknaraðili hafi ekki viljað skýra frá því hvað hann greiddi fyrir kröfuna.
Það er rétt hjá varnaraðila að kaup á ótryggum kröfum er ekki meðal þess sem félög í slitameðferð eiga að leggja stund á. Ekki er hins vegar á þessu stigi unnt að fjalla um vinnu við slit á Straumi Burðarás fjárfestingarbanka. Formlega er framsal kröfunnar gilt og er ekki að lögum óheimilt. Þau ákvæði laga um fjármálafyrirtæki sem varnaraðili vísar til hagga þessu ekki. Verður að telja að sóknaraðili eigi með réttu á hendur varnaraðila þá kröfu sem hann fékk framselda frá Nýja Kaupþingi banka.
Varnaraðili getur ekki borið fyrir sig sem málsástæðu að ekki hafi verið skilyrði til kyrrsetningargerðar. Staðreynd er að gerðin fór fram og að niðurstaða hennar veitir skýra vísbendingu um ógjaldfærni varnaraðila.
Óumdeilt er að áðurnefndar kröfur sem varnaraðili á á hendur sóknaraðila duga ekki til að ljúka greiðslu á báðum þeim kröfum sem sóknaraðili hefur uppi. Kyrrsetningargerðinni var því réttilega lokið án árangurs. Önnur skilyrði 65. gr. laga nr. 21/1991 eru uppfyllt og verður bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Bú ÞS 69 ehf, kt. 620785-0169, Sundlaugavegi 30a, Reykjavík, er tekið til gjaldþrotaskipta.