Hæstiréttur íslands
Mál nr. 63/2017
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Skaðabætur
- Einkaréttarkrafa
- Fyrning
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Aðalsteinn E. Jónasson landsréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. janúar 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara að dómkröfur verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi er til úrlausnar í máli þessu skaðabótakrafa stefnda á hendur áfrýjanda vegna þeirrar refsiverðu háttsemi, sem áfrýjandi var fundinn sekur um með dómi Hæstaréttar 9. júní 2016 í máli nr. 182/2015, en ekki krafa stefnda á hendur áfrýjanda á grundvelli lánssamningsins frá árinu 2007. Um skaðabótakröfuna hefur eins og í hinum áfrýjaða dómi greinir ekki gengið dómur og hefur stefndi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um hana.
Bú áfrýjanda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 18. febrúar 2010 og voru skiptalok 28. september 2012 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. ber þrotamaður ábyrgð á skuldum sínum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskiptin. Í 2. málslið málsgreinarinnar kemur fram að hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða frá þeim degi er skiptunum er lokið. Í 3. málslið málsgreinarinnar segir að þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildir þessi sami fyrningarfrestur um hana enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma. Samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laganna verður fyrningu aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum.
Skaðabótakröfunni á hendur áfrýjanda lýsti stefndi ekki við gjaldþrotaskiptin og gildir því um hana fyrningarfrestur samkvæmt 3. málslið 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi höfðaði ekki innan þess tveggja ára fyrningarfrests sem þar greinir mál samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laganna til viðurkenningar á fyrningarslitum og var skaðabótakrafan því fyrnd 28. september 2014. Verður því ekki jafnað til málshöfðunar í skilningi 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 að skaðabótakröfunnar var getið í ákæru í sakamáli því sem ákæruvaldið höfðaði á hendur áfrýjanda og lauk með áðurgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 182/2015. Hins vegar leiðir af ákvæðum 11. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda að þótt fyrningarfrestur skaðabótakröfunnar hafi liðið gat stefndi haft kröfuna uppi í sakamálinu og fengið um hana dóm. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétt eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Arnfinnur Sævar Jónsson, greiði stefnda, Pillar Securitisation S.á.r.l., 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. nóvember 2016.
I.
Mál, þetta sem tekið var til dóms 5. október 2016, er höfðað með skriflegri greinargerð um einkaréttarkröfu brotaþola, stefnanda í máli þessu, sem birt var með ákæru á hendur ákærða, stefnda í máli þessu, í máli nr. S-85/2014, sbr. 174. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í þinghaldi í því máli 23. janúar 2015 var einkaréttarkröfu brotaþola vikið til meðferðar í einkamáli með heimild í 175. gr. áðurgreindra laga og var málið fyrst tekið fyrir á reglulegu dómþingi 28. janúar 2016.
Stefnandi er Pillar Securitsation S.à.r.l., 35a avenue J.F. Kennedy, L-1855, Luxembourg.
Stefndi er Arnfinnur Sævar Jónsson, kt. [...], Mosprýði 10, Garðabæ.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 57.143 bandaríkjadali með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. febrúar 2010 til þingfestingardags ákærumáls, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 7.332.058 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. febrúar 2010 til þingfestingardags ákærumáls, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna til greiðsludags.
Í báðum tilfellum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti.
II.
Málavextir eru þeir að stefndi tók lán hjá forvera stefnanda, Kaupthing Bank Luxemborg S.A., í janúar árið 2007. Fjárhæð lánsins var 578.841,66 bandaríkjadalir. Stefnandi kveður lán þetta hafa verið veitt til fasteignakaupa, en viðskiptasamband hafi verið með aðilum frá árinu 2000. Láninu hafi verið ráðstafað til kaupa á fasteigninni að Boynton Beach 33437 FL, 8700 Sandy Crest Lane, í Flórídaríki í Bandaríkjunum. Fasteignin hafi þó ekki verið sett að veði fyrir láninu og engar aðrar tryggingar munu hafa verið lagðar fram af hálfu stefnda vegna lánveitingarinnar. Lánið fór í vanskil og með áritun á stefnu 10. júní 2009 féllst Héraðsdómur Reykjaness á dómkröfur stefnanda, sem námu þá 451.781,52 evrum, auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Í kjölfarið krafðist stefnandi fjárnáms hjá stefnda og gerði sýslumaðurinn í Hafnarfirði árangurslaust fjárnám hjá honum 18. nóvember 2008. Á grundvelli þess var bú stefnda tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 18. febrúar 2010. Stefnandi lýsti kröfu í þrotabúið vegna lánsins og nam fjárhæð lýstrar kröfu 97.375.605 krónum.
Á meðan á skiptum á þrotabúi stefnda stóð kveðst stefnandi hafa óskað eftir því við skiptastjóra að afdrif áðurgreindrar fasteignar yrðu könnuð sérstaklega. Svör stefnda um afdrif eignarinnar hafi ekki þótt trúverðug, en hann hafi verið margsaga um ýmislegt er varðaði sölu eignarinnar. Samkvæmt sölugögnum sem skiptastjóri hafi aflað hafi fasteignin verið seld á 10 bandaríkjadali.
Eftir ítarlega eftirgrennslan skiptastjóra um afdrif eignarinnar og viðskiptin á bak við sölu hennar sendi skiptastjóri sérstökum saksóknara tilkynningu á grundvelli 84. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. vegna atvika er skiptastjóri taldi geta gefið tilefni til rökstudds gruns um að refsivert athæfi hefði átt sér stað vegna sölu fasteignarinnar.
Samkvæmt auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaðinu 22. október 2012 lauk skiptum á búi stefnda 28. september 2012 án þess að greiðslur fengjust upp í lýstar kröfur.
Hinn 30. janúar 2014 var gefin út ákæra á hendur stefnda vegna brots á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 sem talið var varða við 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. laganna um skilasvik. Var stefnda gefið að sök að hafa skotið eignarhluta sínum í áðurgreindri fasteign undan búskiptunum. Stefnandi lagði fram einkaréttarkröfu til embættis sérstaks saksóknara, dagsetta 29. janúar 2014, og var greint frá einkaréttarkröfunni í ákæru málsins sem gefin var út 30. janúar 2014. Í upphafi aðalmeðferðar sakamáls nr. S-85/2014 hinn 16. janúar 2015 var ákveðið að skilja kröfuna frá sakamálinu og var einkaréttarkröfunni vísað til meðferðar í almennu einkamáli með heimild í 175. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Með dómi Héraðsóms Reykjaness, uppkveðnum 5. febrúar 2015, var stefndi sakfelldur fyrir brot gegn 4. tölulið 250. gr. almennra hegningarlaga og dæmdur til refsingar. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og var dómur héraðsdóms staðfestur með vísan til forsendna hans og röksemda um sakfellingu stefnda, sbr. dóm Hæstaréttar 9. júní 2016 í máli nr. 182/2015.
III.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á því að stefndi hafi með refsiverðri háttsemi sinni, sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir með dómi Hæstaréttar 9. júní sl., valdið stefnanda verulegu tjóni. Háttsemi stefnda hafi leitt til þess að áðurgreind fasteign var ekki til reiðu við skipti á þrotabúi hans og því hafi andvirði hennar ekki komið til úthlutunar upp í lýstar kröfur, en stefnandi hafi lýst kröfu í búið.
Krafa stefnanda sé skaðabótakrafa sem höfð hafi verið uppi í sakamáli á hendur stefnda, sbr. XXVI. kafla laga nr. 88/2008, og sé hún því ekki fyrnd, sbr. 11. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þegar hafi verið tekin afstaða til bótaskyldu stefnda í sakamáli á hendur stefnda, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 182/2015.
Stefnandi kveður verðmat fasteignarinnar við sölu ekki liggja fyrir, en líkt og fram komi í kæru skiptastjóra sé nokkrum erfiðleikum háð að ákvarða rétta tímasetningu á sölu eignarinnar, enda hafi sakborningur verið margsaga um hvenær sala á henni fór fram og þá sé grunur um að um málamyndagerninga hafi verið að ræða. Sé miðað við fasteignamat eignarinnar hafi verðmæti hennar við afsal numið 272.121 bandaríkjadal. Bendir stefnandi á að í dómi Hæstaréttar komi fram að í upphafi árs 2010 hafi eignarhluti stefnda í fasteigninni numið að lágmarki 136.060,50 bandaríkjadölum, þ.e. sömu fjárhæð og miðað sé við í bótakröfu stefnanda.
Samkvæmt gögnum málsins hafi maki sakbornings verið helmingseigandi fasteignarinnar við afsal og hafi eignin verið henni frjáls til ráðstöfunar, enda hafi eignin ekki verið veðsett. Þrotabúinu hafi því borið að fá í sinn hlut helmingshlut stefnda í fasteigninni að andvirði 136.055,5 bandaríkjadalir.
Lýstar kröfur í þrotabú sakbornings hafi í heild numið 232.055.224 krónum, þar af hafi krafa stefnanda numið 97.367.573 krónum eða 42% af lýstum heildarkröfum. Á þeim forsendum sé þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda 42% af helmingi fasteignamatsvirðis eignarinnar eða 57.143 bandaríkjadali (0,42*136.055,5).
Verði ekki fallist á að dæma beri kröfuna í erlendum gjaldmiðli krefjist stefnandi þess til vara að stefnda verði gert að greiða samsvarandi fjárhæð í íslenskum krónum og að miðað verði við miðgengi bandaríkjadals samkvæmt gengisskrá Seðlabanka Íslands á þeim degi er bú stefnda var tekið til gjaldþrotaskipta.
Upphafsdagur vaxta taki mið af útgáfudegi afsals eignarinnar og upphafsdagur dráttarvaxta miðist við þann dag er sakamálið gegn stefnda var þingfest.
Hvað varðar lagarök vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sér í lagi XXVI. kafla laganna. Þá kveður hann kröfu um vexti studda við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum ákvæði 6., 8. og 9. gr. laganna.
IV.
Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 fyrnist kröfur sem lýst sé í þrotabú tveimur árum eftir að skiptum lýkur. Skiptum á búi stefnda hafi lokið 28. september 2012 og hafi krafa stefnanda því fyrnst 28. september 2014. Í 3. mgr. sama lagaákvæðis sé kveðið á um að fyrningu slíkra krafna verði aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skuli því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gildi almennar reglur um fyrningu hennar.
Eins og fram komi í frumvarpi til laga nr. 142/2010 um breytingu á lögum nr. 21/1991 sé ekki unnt að slíta fyrningu nema í undantekningartilfellum, samanber fyrrgreind skilyrði 3. mgr. Jafnframt sé tekið fram að þar sem um undantekningartilfelli sé að ræða beri að túlka heimildina þröngt.
Samkvæmt ákvæðinu sé einungis hægt að rjúfa fyrningu að uppfylltum þremur skilyrðum. Í fyrsta lagi þurfi kröfueigandi að höfða einkamál og krefjast í því viðurkenningar á fyrningarslitum. Í því dómsmáli verði kröfueigandi að færa sönnur fyrir því annars vegar að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu og hins vegar að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma. Stefndi kveðst byggja á því að ekkert þessara skilyrða sé uppfyllt í málinu.
Stefndi bendir á að stefnandi hafi aldrei höfðað mál til að slíta fyrningu kröfu sinnar og því sé krafan löngu fyrnd. Eins og sjá megi af fyrrgreindum skilyrðum verði fyrningu kröfu hvorki slitið þegar einkaréttarkröfu er komið á framfæri við ákæruvald né þegar ákæra er gefin út á hendur ákærða. Kröfuhafi, sem lýsir einkaréttarkröfu í sakamáli, eigi því ekki að vera betur settur en aðrir kröfuhafar þrotamanns, sem ekki hafi sett fram einkaréttarkröfu. Sama fyrningarregla eigi við um allar kröfur í þrotabúi. Stefnandi hafi því sjálfur þurft að höfða mál á hendur stefnda líkt og skýrt sé tekið fram í fyrrgreindri málsgrein 165. gr. laga nr. 21/1991.
Auk þess tímafrests sem stefnandi sé bundinn af samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum verði hann að hafa sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu og að auki verði að teljast líklegt að fullnusta geti fengist á kröfu hans. Stefnandi hafi heldur ekki sýnt fram á að þessi skýru skilyrði séu fyrir hendi, enda stoði það lítt þar sem krafa hans sé fyrnd. Hvað sem því líði kveðst stefndi byggja á því að skilyrðin séu ekki uppfyllt, en stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því. Hann hafi enga tilraun gert til þess að færa sönnur á þessi atriði. Þá sé rétt að geta þess að stefnandi er fjárfestingarsjóður sem stefnda kveður tæpast hafa sérstaka hagsmuni af því að fá dómkröfu þessa máls greidda, auk þess sem afar ólíklegt verði að teljast að hann geti fengið kröfu sinni fullnustað þar sem stefndi sé eignalaus með öllu.
Í öðru lagi kveðst stefndi byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi eigi enga skaðabótakröfu á hendur stefnda þar sem stefndi hafi ekki valdið honum tjóni. Í máli þessu krefjist stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda og því verði öll skilyrði bótaskyldu í skilningi skaðabótaréttar að vera uppfyllt svo að unnt sé að fallast á kröfuna. Ekki sé um að ræða almenna fjárkröfu í málinu, enda hafi stefnandi nú þegar fengið dóm fyrir slíkri kröfu, samanber stefnu sem árituð hafi verið af Héraðsdómi Reykjaness 10. júní 2009, en sú niðurstaða hafi orðið grundvöllur gjaldþrotaskiptabeiðni stefnanda.
Í þessu sambandi kveðst stefndi benda á að stefnandi hafi nú þegar fengið dóm fyrir kröfu sinni á hendur stefnda og því sé ekki hægt að sjá að stefnandi hafi í raun lögvarða hagsmuni af því að fá jafnframt dóm fyrir skaðabótakröfu sinni. Um sé að ræða sömu kröfu þótt skaðabótakrafa stefnanda í þessu máli varði aðeins hluta heildarkröfunnar. Stefndi kveðst ekki gera sérstaka kröfu um frávísun málsins frá dómi vegna þessa, en kveðst vekja athygli réttarins á því að málatilbúnaður stefnanda kunni að varða frávísun ex officio.
Þá kveðst stefndi byggja sýknukröfu sína á því að fjárhæð kröfu stefnanda sé með öllu ósönnuð. Bendir stefndi á að stefnandi byggi skaðabótakröfu sína á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að stefndi hafi komið fasteigninni undan skiptum og því hafi söluverðmæti hennar ekki runnið til kröfuhafa í þrotabúinu. Dómkröfu stefnanda sé því ætlað að endurspegla það tjón sem hann eigi að hafa orðið fyrir vegna þess að fasteignin hafi ekki komið til úthlutunar í þrotabúi stefnda.
Stefndi bendir á að fjárhæð hins ætlaða tjóns sé með öllu ósönnuð. Í málinu liggi ekki fyrir nein gögn um verðmæti fasteignarinnar á þeim tíma er bú stefnda var tekið til gjaldþrotaskipta. Stefnandi hafi þannig ekki lagt fram nein gögn sem styðji útreikning dómkröfu sinnar. Í einkaréttarkröfu sinni miði stefnandi við verð sem hann kalli fasteignamat. Meðal gagna í málinu séu upplýsingar af heimasíðu Palm Beach County Property Appraiser þar sem fram komi einhvers konar mat á eigninni. Þar sé verðið áætlað 272.121 bandaríkjadalur. Að mati stefnda sé ekki hægt að leggja þessar upplýsingar til grundvallar við útreikning á bótakröfu stefnanda. Ekkert liggi fyrir um það í málinu hvaðan umrætt verðmat stafi eða hvort um opinber gögn sé að ræða. Þá liggi ekki fyrir í málinu verðmat á eigninni á þeim tíma þegar bú stefnda var tekið til gjaldþrotaskipta, hvorki mat fasteignasala í Bandaríkjunum né mat dómkvadds matsmanns. Kveðst stefndi byggja á því að í málinu hefði þurft að liggja fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns í samræmi við IX. kafla laga um meðferð einkamála svo að unnt væri að taka dómkröfu stefnanda til greina.
Þessu til viðbótar kveðst stefndi byggja á því að engar upplýsingar liggi fyrir í málinu um hvaða verðmæti skiptastjóri í þrotabúinu hefði fengið fyrir eignina. Þannig liggi ekkert fyrir um það hvaða tjóni þrotabúið eða kröfuhafar þess urðu fyrir. Án þessara upplýsinga sé útilokað að staðfesta hvert raunverulegt tjón stefnanda hefði orðið af því að fá ekki úthlutun úr búinu. Þá liggi heldur ekki fyrir upplýsingar um það hvaða fjárhæð hefði komið í hlut stefnanda við úthlutun úr þrotabúinu. Ljóst sé að umtalsverður kostnaður hefði fallið til, bæði útlagður kostnaður vegna sölu fasteignarinnar og annar skiptakostnaður, hefði fasteignin verið seld af skiptastjóra. Slíkur kostnaður hefði alltaf komið til frádráttar á greiðslu til kröfuhafa í þrotabúinu, þ.m.t. til stefnanda.
Loks beri að geta þess að hefði Nand Kumar Kurup ekki fengið fasteigninni afsalað til sín gegn niðurfellingu á kröfu sinni hefði hann lýst kröfu í þrotabú stefnda að fjárhæð u.þ.b. 200.000 bandaríkjadalir. Um þetta sé að að öðru leyti vísað til dómsins í sakamáli nr. S-85/2014. Sé því ljóst að heildarkröfur í þrotabúinu hefðu orðið hærri en raun bar vitni og því hefði stefnandi ekki átt 42% af lýstum kröfum í þrotabúið. Hann hefði því ekki fengið 42% af úthlutuðum eignum búsins í sinn hlut við skiptalok, líkt og hann byggi dómkröfu sína á.
Fyrir öllum þessum atriðum beri stefnandi sönnunarbyrði og hafi hann á engan hátt staðið undir henni. Af þeim sökum sé ekki hægt að fallast á dómkröfu stefnanda.
Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á sýknukröfu stefnda krefjist stefndi þess til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Kveður hann varakröfu sína byggjast á sömu röksemdum og gerð hafi verið grein fyrir í aðalkröfu, að breyttu breytanda.
Til stuðnings málsástæðum sínum vísar stefndi aðallega til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. ásamt síðari breytingum og þá sérstaklega til 165. gr. laganna. Að auki vísar stefndi til XXVI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, IX. kafla laga nr. 91/1991 og óskráðra meginreglna skaðabótaréttar.
Stefndi kveður málskostnaðarkröfuna reista á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað reista á ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
V.
Af gögnum málsins þykir ljóst að forveri stefnanda, Pillar Securitsation S.à.r.l., var Kaupthing Bank Luxembourg S.A., og að krafa hins síðarnefnda á hendur stefnda er nú í eigu stefnanda.
Í máli þessu krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda vegna þeirrar refsiverðu háttsemi hans að hafa í aðdraganda töku bús hans til gjaldþrotaskipta í byrjun árs 2010 skotið eignarhluta sínum í áðurgreindri fasteign í Bandaríkjunum undan skiptum með málamyndagerningi og þannig skert rétt stefnanda og annarra lánardrottna sinna til að öðlast fullnægju af eignum búsins. Með þessari háttsemi hafi stefndi valdið stefnanda, sem lýsti kröfu í búið, verulegu tjóni.
Eins og fram hefur komið hefur stefndi verið sakfelldur fyrir áðurgreinda háttsemi, sem talin var varða við 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, samanber dóm Hæstaréttar Íslands 9. júní 2016 í máli nr. 182/2015. Með hliðsjón af forsendum og niðurstöðu dómsins er fallist á með stefnanda að stefndi hafi með háttseminni valdið stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti.
Bótakrafa stefnanda var upphaflega höfð uppi í sakamáli á hendur stefnda, samanber heimild í XXVI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Telst krafan því ekki fyrnd, sbr. 11. gr. fyrningalaga nr. 150/2007, en þar kemur fram að þótt fyrningarfrestur sé liðinn sé unnt að hafa uppi kröfu um skaðabætur í sakamáli þar sem skuldari er fundinn sekur um þann verknað sem liggur til grundvallar bótakröfu.
Eins og að framan greinir er til umfjöllunar í máli þessu bótakrafa stefnanda á hendur stefnda vegna áðurgreindrar refsiverðrar háttsemi stefnda, en ekki fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda vegna lánssamnings þeirra, en stefna vegna síðarnefndu kröfunnar var árituð um aðfararhæfi 10. júní 2009, sbr. 113. gr. laga nr. 91/1991. Um skaðabótakröfu stefnanda á hendur stefnda hefur hins vegar ekki gengið dómur. Ekki er fallist á með stefnda að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm fyrir skaðabótakröfu sinni.
Í áðurgreindri ákæru á hendur stefnda er tilgreint að stefndi og eiginkona hans hafi keypt umrædda fasteign á árinu 2007 fyrir 657.483,95 bandaríkjadali, en í upphafi árs 2010 hafi verðmæti fasteignarinnar samkvæmt fasteignamati verið 272.121 bandaríkjadalur. Verðmæti eignarhlutar ákærða í fasteigninni hafi því að lágmarki numið 136.060,50 bandaríkjadölum. Í dómi Hæstaréttar 9. júní 2016 í máli nr. 182/2015 var ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greindi og var því m.a. slegið föstu að í upphafi árs 2010 hafi eignarhluti ákærða í fasteigninni numið að lágmarki áðurgreindri fjárhæð.
Af framlögðum gögnum má sjá að lýstar kröfur í þrotabú stefnda námu í heild 232.055.224 krónum, þar af nam krafa stefnanda 97.367.573 krónum eða 42% af lýstum heildarkröfum.
Í dómi héraðsdóms í sakamáli á hendur stefnda nr. S-85/2015, sem staðfestur var með áðurgreindum dómi Hæstaréttar 9. júní 2016, var komist að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að stefndi hefði skuldað nafngreindum manni, sem fasteigninni var afsalað til á sínum tíma, fjármuni og að útgefnir reikningar þar að lútandi væru málamyndagerningar. Með vísan til þess ber að vísa á bug málsástæðum stefnda sem lúta að því að hefði umræddur maður ekki fengið fasteigninni afsalað til sín hefði hann lýst kröfu sinni í þrotabúið og þar með hefði hlutfall kröfu stefnanda af lýstum kröfum úr búinu verið mun lægra en 42%.
Með hliðsjón af því að eignarhluti stefnda í fasteigninni nam samkvæmt framangreindu að lágmarki 136.060,50 bandaríkjadölum og að krafa stefnanda í bú stefnda nam 42% af lýstum heildarkröfum í búið er fallist á bótakröfu stefnanda í málinu, þ.e. varakröfu hans, en þar hefur fjárhæð bótakröfunnar samkvæmt aðalkröfu verið færð til íslensks gjaldmiðils eftir skráðu sölugengi bandaríkjadals á þeim degi sem úrskurður gekk um töku bús stefnda til gjaldþrotaskipta, en ljóst er að greiðslur til stefnanda úr þrotabúinu hefðu samkvæmt framangreindu verið í íslenskum krónum og tekið mið af gengi bandaríkjadals á áðurgreindum degi, sbr. 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Miða ber upphafsdag dráttarvaxta við 5. apríl 2014, en þá var liðinn mánuður frá þingfestingu sakamálsins á hendur stefnda, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.
Með hliðsjón af málsúrslitum er stefnda gert að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Arnfinnur Sævar Jónsson, greiði stefnanda, Pillar Securitisation S.à.r.l., 7.332.058 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. febrúar 2010 til 5. apríl 2014, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.