Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-270

Dánarbú Else Ingeborg Hansen (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)
gegn
Hafnarfjarðarkaupstað (Sigurður Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteign
  • Eignarréttur
  • Hefð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 20. nóvember 2020 leitar dánarbú Else Ingeborg Hansen leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 30. október 2020 í málinu nr. 588/2019: Dánarbú Else Ingeborg Hansen gegn Hafnarfjarðarkaupstað, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkenndur verði beinn eignarréttur hans að landspildu við fasteignina Stekkjarberg 11 í Hafnarfirði. Leyfisbeiðandi reisir kröfu sína á því að til eignarhalds á umræddri spildu hafi stofnast á grundvelli laga nr. 46/1905 um hefð. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda og var sú niðurstaða staðfest með dómi Landsréttar.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði verulega mikilvæga hagsmuni sína enda sé honum með öllu ófært að gera ráðstafanir með fasteignina Stekkjarberg 11 fyrr en niðurstaða liggi fyrir um eignarhaldið á spildunni. Þá hafi niðurstaða málsins almennt gildi um túlkun á ákvæðum laga nr. 46/1905. Loks telur leyfisbeiðandi að í dómi Landsréttar hafi ranglega verið talið að skilyrðum hefðar hafi ekki verið fullnægt þar sem meðal annars hafi verið horft fram hjá áratugalangri hagnýtingu á spildunni.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.