Hæstiréttur íslands
Mál nr. 329/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Skjal
- Þagnarskylda
|
|
Þriðjudaginn 3. júní 2014. |
|
Nr. 329/2014.
|
SPB hf. (Andri Árnason hrl.) gegn Þjóðskjalasafni Íslands (Gizur Bergsteinsson hrl.) Sigríði Logadóttur og (Arnar Þór Stefánsson hrl.) Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. (Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Afhending gagna. Skjal. Þagnarskylda.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu S hf. um að Þ, S og E ehf. yrði gert að afhenda sér nánar tiltekna hluta úr skýrslum sem átta starfsmenn Seðlabanka Íslands höfðu gefið fyrir rannsóknarnefnd Alþingis samkvæmt lögum nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Í dómi Hæstaréttar var fallist á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að S hf. ætti ekki rétt til aðgangs að skýrslunum umfram það sem umræddum starfsmönnum væri skylt að upplýsa um á grundvelli ákvæða um vitnaskyldu við skýrslugjöf fyrir dómi. Þá kom fram að sérstök ákvæði um þagnarskyldu, svo sem 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, gangi framar reglum um upplýsingarétt eftir II. og III. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012. S hf. ætti því ekki rétt til aðgangs að skýrslunum á grundvelli síðargreindu laganna. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. maí 2014 sem barst héraðsdómi samdægurs og réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðilanum Þjóðskjalasafni Íslands yrði gert skylt að afhenda sér nánar tiltekna hluta úr skýrslum sem átta starfsmenn Seðlabanka Íslands gáfu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis samkvæmt lögum nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar, en til vara að fyrrgreind krafa sín verði tekin til greina. Að því frágengnu krefst sóknaraðili þess að umræddir hlutar skýrslnanna verði lagðir fyrir héraðsdómara „í trúnaði og gegn þagnarskyldu, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og að framan greinir var þeirri aðalkröfu sóknaraðila í héraði, að varnaraðilanum Þjóðskjalasafni Íslands yrði gert skylt að afhenda sér hluta af áðurnefndum skjölum, hafnað með hinum kærða úrskurði. Þótt þar hafi ekki verið sérstaklega leyst úr varakröfu sóknaraðila um að héraðsdómari ákvæði að þessir hlutar skjalanna yrðu lagðir fyrir hann í trúnaði gegn þagnarskyldu, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991, verður litið svo á að með því að hafna aðalkröfunni á þann hátt sem gert var hafi héraðsdómari ekki talið það hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins að kynna sér nánar efni þeirra. Þar sem ekki er ástæða til að hnekkja því mati dómarans verður kröfu sóknaraðila um ómerkingu úrskurðarins hafnað.
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands voru þeir átta starfsmenn bankans sem gáfu skýrslu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðaði hagi viðskiptamanna bankans og málefni hans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir höfðu fengið vitneskju um í starfi sínu og leynt skyldu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Eftir 3. mgr. 6. gr. laga nr. 142/2008 var starfsmönnunum skylt, að kröfu nefndarinnar, að veita henni upplýsingar þótt þær væru háðar þagnarskyldu samkvæmt lögum og reglum bankans. Í samræmi við 5. mgr. 17. gr. laganna voru gögn sem aflað hafði verið vegna rannsóknarinnar, þar á meðal skýrslur starfsmannanna, færð á Þjóðskjalasafn Íslands og fer um aðgang að þeim samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012.
Í síðari málslið 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Eins og ráðið verður af athugasemdum með frumvörpum þeim, sem urðu að upplýsingalögum nr. 50/1996 og síðar nr. 140/2012, ber að gagnálykta frá þessu ákvæði á þann veg að sérstök ákvæði um þagnarskyldu, svo sem 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001, gangi framar reglum um upplýsingarétt eftir II. og III. kafla upplýsingalaga. Þar sem starfsmönnum Seðlabankans sem komu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var skylt að veita nefndinni upplýsingar, enda þótt þær væru háðar sérstakri þagnarskyldu, verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á með sóknaraðila að hann eigi rétt til aðgangs að skýrslum þeirra fyrir nefndinni á grundvelli upplýsingalaga. Af þeim sökum er varnaraðilanum Þjóðskjalasafni Íslands óskylt að afhenda sóknaraðila þá hluta af skýrslunum sem krafa hans tekur til, sbr. 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991.
Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði segir.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, SPB hf., um að varnaraðilanum Þjóðskjalasafni Íslands verði gert skylt að afhenda nánar tiltekna hluta úr skýrslum sem átta starfsmenn Seðlabanka Íslands gáfu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis samkvæmt lögum nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum, Þjóðskjalasafni Íslands, Sigríði Logadóttur og Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., 150.000 krónur hverjum í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2014.
Það mál sem hér er til úrlausnar er sprottið af ágreiningi við slitameðferð SPB hf., sem vísað var til dómsins með bréfi slitastjórnar hans 7. desember 2010. Málið var þingfest 24. janúar 2011.
Í efnisþætti málsins er sóknaraðili Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. en varnaraðili er SPB hf. Lýsti hinn fyrrnefndi fjárkröfum við slitameðferð hins síðarnefnda en slitastjórn SPB hf. hafnaði þeim að mestu.
Sá ágreiningur sem hér er til úrlausnar lýtur að því að í þinghaldi 26. febrúar sl. krafðist SPB hf. þess að dómari kvæði upp úrskurð um afhendingu gagna á grundvelli 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Beindist krafa hans að Þjóðskjalasafni Íslands sem vörsluaðila skjala sem eru endurrit skýrslna sem átta þáverandi starfsmenn Seðlabanka Íslands gáfu fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis.
Var Þjóðskjalasafni Íslands gert viðvart um fyrrnefnda kröfu og var sótt þing af þess hálfu 18. mars sl. og því mótmælt að krafan næði fram að ganga.
Þá sótti einnig þing Sigríður Logadóttir aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands og mótmælti því að Þjóðskjalasafni Íslands verði gert að afhenda skýrslu sem hún gaf fyrir rannsóknarnefnd Alþingis.
Var málinu þá frestað til 23. mars sl. til munnlegs flutnings um framangreindan ágreining og ákveðið að við þann málflutning væri SPB hf. sóknaraðili en Þjóðskjalasafn Íslands, Sigríður Logadóttir og Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. varnaraðilar. Málið ver flutt og tekið til úrskurðar þann dag.
I
Sóknaraðili krefst þess að Þjóðskjalasafni Íslands verði með úrskurði dómsins gert skylt að afhenda varnaraðila, eftirfarandi skjöl sem það hafi í vörslum sínum, nánar tiltekið hluta skýrslna neðangreindra aðila, sem gefnar hafi verið fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis í tengslum við rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna, þar sem umræddir aðilar séu spurðir sérstaklega um veðlánaviðskipti Seðlabanka Íslands (með viðskiptabréf viðskiptabankanna, Landsbanka Íslands hf., Kaupþings banka hf. og Glitnis banka hf.) og í því sambandi lánveitingar til sóknaraðila eða forvera hans (Sparisjóðabanka Íslands hf., áður Icebank hf.) og svör þeirra við þeim spurningum, eða umfjöllun af þeirra hálfu um lánveitingar til varnaraðila í umræddum skýrslum, tilgang þeirra og markmið:
1. Skýrslu Arnórs Sighvatssonar, fyrrverandi aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands (nú aðstoðarbankastjóra Seðlabanka Íslands), dags. 27. júlí 2009, bls. 27 til og með bls. 32;
2. Skýrslur Davíðs Oddsonar, fyrrverandi bankastjóra Seðlabanka Íslands og fyrrverandi formanns bankastjórnar, dags. 7. ágúst 2009, bls. 62 til og með bls. 67, bls. 69 til og með bls. 72, dags. 12. ágúst 2009, bls. 27 og 4. janúar 2010, bls. 2 til og með bls. 6;
3. Skýrslu Eiríks Guðnasonar, fyrrverandi bankastjóra Seðlabanka Íslands, dags. 26. maí 2009, bls. 43 til og með bls. 48;
4. Skýrslu Ingimundar Friðrikssonar, fyrrverandi bankastjóra Seðlabanka Íslands, dags. 19. mars 2009, bls. 43 til og með bls. 45;
5. Skýrsla Sigríðar Logadóttir, yfirlögfræðings hjá Seðlabanka Íslands, dags. 8. maí 2009, bls. 49 til og með 50;
6. Skýrslu Stefáns Svavarssonar, fyrrum aðalendurskoðanda Seðlabanka Íslands og fyrrum stjórnarmanns í Fjármálaeftirlitinu, dags. 23. október 2009, bls. 36 til og með bls. 39 og 13. nóvember 2009, bls. 29 til og með bls. 33, bls. 35 til og með bls. 37;
7. Skýrslu (Sigurðar) Sturlu Pálssonar, fyrrum framkvæmdastjóra alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands (nú framkvæmdastjóra markaðsviðskipta og fjárstýringar), dags. 20. júlí 2009, bls. 19 til og með bls. 20, bls. 24 til og með bls. 25, bls. 72 til og með bls. 75, bls. 79 til og með bls. 81;
8. Skýrslu Tryggva Pálssonar, fyrrum framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, dags. 10. mars 2009, bls. 40 til og með 42.
Til vara er þess krafist að dómari ákveði að ofangreindar blaðsíður úr skýrslum þessara sömu aðila, sem gefnar voru fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis í tengslum við rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna, verði lagðar fyrir hann í trúnaði og gegn þagnarskyldu, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991.
Varnaraðilar Þjóðskjalasafn Íslands og Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. krefjast þess að framangreindum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá gerir varnaraðilinn Þjóðskjalasafn Íslands kröfu um að sér verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi sóknaraðila.
Varnaraðilinn Sigríður Logadóttir krefst þess að hafnað verði kröfum sóknaraðila að því er varðar skýrslu sem hún gaf fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis 8. maí 2009.
II
Í kröfu sinni um úrlausn dómsins kveðst sóknaraðili byggja aðalkröfu sína á X. kafla laga nr. 91/1991, nánar tiltekið 2. mgr. 68. gr., sbr. 3. mgr. 67. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 67. gr. geti aðili krafist þess að fá afhent skjal sem sé í vörslum manns, sem ekki sé aðili að máli, til framlagningar í málinu. Heimildin sé bundin því skilyrði að vörslumanni sé skylt að afhenda aðilanum það án tillits til málsins eða að efni skjalsins sé slíkt að vörslumanni væri skylt að bera vitni um það í málinu. Verði vörslumaður ekki við kröfu aðila um að láta skjal af hendi, geti aðili lagt fyrir dómara skriflega beiðni um að vörslumaðurinn verði skyldaður með úrskurði til að afhenda skjalið fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 68. gr. sömu laga.
Fyrir liggi að umrædd skjöl séu til og í vörslum Þjóðskjalasafns Íslands eins og fram komi í bréfi safnsins til sóknaraðila 27. janúar 2014 þar sem synjað hafi verið beiðni hans um aðgang að þeim skýrslum sem um sé fjallað í máli þessu. Hafi sóknaraðili óskað eftir umræddum aðgangi á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Tekið sé fram í 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008 að gögn rannsóknarnefndar Alþingis, sem aflað hafi verið vegna rannsóknar nefndarinnar, þ.á.m. endurrit skýrslna þeirra aðila sem kvaddir hafi verið fyrir nefndina skuli færð á Þjóðskjalasafn Íslands.
Sóknaraðili kveðst telja að synjun Þjóðskjalsafns Íslands um afhendingu gagnanna byggi á röngum lagagrundvelli og að stofnunin beri í reynd lagaskyldu á grundvelli 1. mgr. 14. gr. laga nr. 140/2012 til að afhenda varnaraðila umrædd skjöl. Auk þess telji sóknaraðili að efni skjalanna geti talist með þeim hætti að vörslumanni sé í reynd skylt að bera vitni um það í málinu, enda ljóst af svari Þjóðskjalasafns að starfsmenn þess hafi kynnt sér skjölin með ítarlegum hætti, þ.m.t. efni og innihald þeirra og geti þannig borið vitni um atriði sem þar komi fram.
Varnaraðili kveðst telja að umrædd skjöl muni skipta sköpum fyrir sönnunarstöðu hans í því dómsmáli sem ágreiningur þessi sé hluti af. Líkt og rakið sé í greinargerð hans til dómsins sé ein meginmálsástæða hans fyrir sýknu sú að Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. geti ekki byggt kröfur sínar á því að um lögleg markaðslán hafi verið að ræða, þar sem lánin hafi verið klædd í búning formlegs láns til sóknaraðila gegn veðum í skuldabréfum og víxlum viðskiptabankanna þriggja, Landsbanka Íslands hf., Kaupþings banka hf. og Glitnis banka hf., í þeim tilgangi að koma lausafjármunum til viðskiptabankanna án þess að reglur Seðlabanka Íslands, um bann við lánveitingum gegn veði í eigin skuldabréfum fjármálafyrirtækis, ættu við. Lánveitingarnar hafi eingöngu verið til málamynda, þar sem í reynd hafi verið um neyðarlán að ræða til viðskiptabankanna þriggja, sem hafi átt að falla undir 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001, þ.e. hafi átt að vera lán til fjármálafyrirtækja í lausafjárvanda.
Í greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi sé jafnframt rakið að Rannsóknarnefnd Alþingis hafi að einhverju leyti fjallað um þessar sömu lánveitingar Seðlabankans til sóknaraðila í skýrslu sinni (2. bindi, 7. kafli, bls. 75-76). Þar sé vísað til þess m.a. að svo virðist sem vitað hafi verið af hálfu Seðlabanka Íslands að fjármunirnir hafi runnið beint til viðskiptabankanna þriggja í formi kaupverðs fyrir bréfin gegn þóknun til sóknaraðila fyrir milligönguna. Þetta hafi hins vegar verið nauðsynlegt til að miðla lausafé til bankanna þriggja. Þessu til stuðnings sé í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis m.a. vísað til ummæla Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans (2. bindi, 7. kafli bls. 75) og Sturlu Pálssonar, framkvæmdastjóra alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans sem komið hafi fram í skýrslutökum þeirra fyrir nefndinni (2. bindi, 7. kafli, bls. 75-76).
Sóknaraðili telji líkur standa til þess að enn frekari umfjöllun sé að finna á þeim blaðsíðum, úr skýrslum ofnagreindra aðila sérstaklega svo og skýrslum annarra stjórnenda og starfsmanna Seðlabanka Íslands, sem sóknaraðili óski eftir að Þjóðskjalasafn Íslands afhendi fyrir dómi, þ.á.m. umfjöllun um vitneskju umræddra stjórnenda og starfsmanna Seðlabankans um að raunverulegur tilgangur og eðli lánveitinganna hafi verið með þeim hætti sem sóknaraðili haldi fram í málinu. Aðgangur að þessum upplýsingum muni því skipta verulegu máli fyrir sönnunarstöðu hans og renna frekari stoðum undir málatilbúnað hans fyrir dóminum.
Sóknaraðili telji á grundvelli framangreindra sjónarmiða að skilyrði séu fyrir hendi til að dómari skyldi Þjóðskjalasafn Íslands með úrskurði til að afhenda tilgreind skjöl fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, sbr. einnig 3. mgr. 67. gr. sömu laga.
Verði niðurstaða dómara hins vegar sú að umrædd skjöl hafi að geyma atriði sem hlutaðeigandi, þ.e. tilgreindum stjórnendum og starfsmönnum Seðlabanka Íslands eða, eftir atvikum, starfsmönnum Þjóðskjalasafns Íslands, væri óskylt eða óheimilt að bera vitni um, óski sóknaraðili eftir að dómari ákveði að skjölin verði lögð fyrir hann í trúnaði og gegn þagnarskyldu, sbr. nánar 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991.
III
Varnaraðili Þjóðskjalasafn Íslands vísar m.a. til sjónarmiða sem fram koma í bréfi safnsins til sóknaraðila 27. janúar 2014 þar sem hafnað var að afhenda honum hin umdeildu skjöl. Er þar m.a. vísað til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem kveðið er á um að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafi jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir sem mæli með því að upplýsingum sé haldið leyndum þyngra en hagsmunir þess sem fari fram á aðgang að gögnum. Er til þess vísað að fram komi í athugasemdum við umrætt ákvæði í frumvarpi til laganna að aðgangur að gögnum sé því aðeins takmarkaður ef talin yrði hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingunum. Sé það mat Þjóðskjalasafns Íslands, sökum þeirrar lagaumgjarðar sem gilt hafi um skýrslugjöf fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, að þær persónulegu hugrenningar, mat og vangaveltur sem starfsmenn Seðlabanka Íslands setji fram og varði SPB hf. og lánveitingar til þess félags falli undir áðurgreint undantekningarákvæði 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Er að auki tekið fram í bréfinu að hluti umræddra upplýsinga séu að mati Þjóðskjalasafns Íslands settar fram með þeim hætti að þær varði jafnframt hag annarra viðskiptamanna Seðlabanka Íslands sem og málefni bankans sjálfs, sem óheimilt sé að veita aðgang að, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008 og gagnályktun frá 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2002. Kemur fram í bréfinu að á grundvelli framangreindra sjónarmiða og réttarheimilda sé Þjóðskjalasafni Íslands óheimilt að veita umbeðinn aðgang.
Við munnlegan málflutning vísaði varnaraðilinn til framangreindra sjónarmiða og taldi þau leiða til þess að ekki væru uppfyllt í málinu skilyrði 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 til að honum yrði gert skyld með úrskurði á grundvelli 2. mgr. 68. gr. sömu laga að láta hin umbeðnu gögn af hendi. Byggir varnaraðili og á því að skyldur skýrslugjafa sem mælt er fyrir um í lögum nr. 142/2008 um að gefa skýrslur án tillits til ákvæða laga um þagnarskyldu og að viðlagðri refsiábyrgð séu þess eðlis að horfa verði til þeirra sérstaklega við mat á því hvort beita eigi undantekningarákvæði 3. mgr. 14. upplýsingalaga. Einnig verði að hafa í huga að rannsóknarnefndin hafi heitið skýrslugjöfum trúnaði. Verði að telja að framangreint hafi haft áhrif á upplýsingagjöf aðila og leitt til þess að talað hafi verið frjálslegar en aðilar hefðu gert við aðrar aðstæður. Verði þetta að hafa áhrif á hagsmunamatið. Fái umrædd sjónarmið stoð m.a. í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem fjallað hafi í nokkrum málum um aðgang að skýrslum einstaklinga fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Þá var og á það bent að ekki yrði séð að sóknaraðili hefði af því hagsmuni að fá umræddar skýrslur afhentar enda væri honum fært að kalla umrædda aðila fyrir sem vitni við aðalmeðferð málsins og þá myndi eftir atvikum reyna á hvort og þá að hvaða marki skýrslugjöfum væri skylt að svara einstökum spurningum. Væri slík málsmeðferð í betra samræmi við málsmeðferðarreglur einkamálaréttarfars.
IV
Varnaraðilinn Sigríður Logadóttir byggir einkum á því að hin umkrafða skýrsla hennar sé ekki tæk sem sönnunargagn í málinu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 og vísar því til stuðnings m.a. til dóms Hæstaréttar í máli nr. 561/2010.
Þá byggir varnaraðili á því að sjónarmið um þagnarskyldu leiði til þess að ekki eigi að veita aðgang að skýrslu hennar. Hafi hún í skýrslugjöf sinni m.a. fjallað um atriði sem leynt eigi að fara samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands en hún hafi verið og sé starfsmaður bankans. Vísar hún í þessu samhengi til 2. ml. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga og kveður að með gagnályktun frá því ákvæði verði leidd sú regla að sérstök þagnarskylduákvæði takmarki aðgang manna að gögnum samkvæmt lögunum, en 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 sé ákvæði af þeim toga.
Einnig vísar varnaraðili til þess að sú skýrsla sem hún hafi gefið fyrir nefndinni hafi verið gefin á grundvelli sérstakrar lagaskyldu samkvæmt ákvæðum laga nr. 142/2008. Sé í skýrslu hennar að finna viðkvæmar upplýsingar sem varði jafnt viðskiptamenn Seðlabanka Íslands og málefni bankans sjálfs. Þá séu einnig í skýrslunni persónulegar athugasemdir um vinnuumhverfi bankans og málefni einstakra starfsmanna hans en slíkar upplýsingar séu háðar þagnarskyldu.
Kveðst varnaraðili vísa til þess að þegar gögn rannsóknarnefndar Alþingis hafi verið færð til Þjóðskjalsafns Íslands, sbr. 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008, þá verði að telja að raknað hafi við ákvæði laga um þagnarskyldu varðandi þær upplýsingar sem þar sé að finna. Verði umræddar skýrslur því ekki afhentar með vísan m.a. til framangreindrar 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001.
Verði ekki fallist á þetta sé byggt á því að með hliðsjón af efni þeirrar skýrslu sem varnaraðili hafi gefið fyrir nefndinni að hafna beri kröfu um aðgang að gögnunum með vísan til 4. tl. 1. mgr. 6. gr., sbr. 7. gr. og 2. ml. 9. gr. og 3. mgr. 14. gr. laga nr. 140/2012. Sé annars vegar um að ræða mikilvæga fjárhags og viðskiptahagsmuni viðskiptamanna Seðlabanka Íslands og málefni bankans sjálfs og hins vegar persónulegar upplýsingar og hugleiðingar varnaraðila um starfsemi bankans.
V
Varnaraðili Eignasafn Seðlabanka Íslands kveðst taka undir röksemdir sem fram komu hjá öðrum varnaraðilum og gera þær að sínum. Þá sé á því byggt að hafna beri kröfum sóknaraðila með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 þar sem umbeðin gögn séu bersýnilega þýðingarlaus til sönnunarfærslu í málinu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 561/2010. Þá kveðst varnaraðili benda á að í tilvitnuðum dómi felist að ætli aðilar að færa fram sönnun fyrir dómi þá beri að gera það í samræmi við ákvæði einkamálalaga. Af því leiði að sóknaraðila sé tæk sú leið að leiða umrædda skýrslugjafa fyrir dóminn sem vitni og liggi því ekki fyrir með fullnægjandi hætti að honum sé nauðsyn á afhendingu þeirra gagna sem eftir er óskað.
VI
Krafa sóknaraðila um að varnaraðila Þjóðskjalasafni Íslands verði með úrskurði gert skylt að afhenda nánar tilgreindar blaðsíður úr endurritum skýrslna átta nafngreindra manna fyrir rannsóknarnefnd Alþingis til framlagningar í máli því sem hér er til meðferðar er studd við 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 3. mgr. 67. gr. sömu laga.
Í síðarnefnda lagaákvæðinu greinir að sé skjal í vörslum manns sem ekki er aðili að máli geti málsaðili krafist þess að fá skjalið afhent til framlagningar í málinu. Þetta er bundið þeim skilyrðum að vörslumanni skjalsins væri skylt að afhenda aðilanum skjalið án tillits til málsins eða að efni skjalsins sé slíkt að að vörslumanni væri skylt að bera vitni um það í málinu.
Fyrir liggur að þau skjöl sem krafa er gerð um afhendingu á eru til og eru í vörslum varnaraðilans Þjóðskjalasafns Íslands. Þar sem það var mat dómara að ekki væri útilokað að umrædd skjöl hefðu þýðingu í málinu var fyrrnefndur vörslumaður boðaður fyrir dóm sem og málsaðilar til að fjalla um beiðni sóknaraðila. Fer um málsmeðferðina eftir 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Þá mætti Sigríður Logadóttir fyrir dóminn af eigin frumkvæði og gaf dómari henni færi á að láta málið til sín taka enda varðar beiðni sóknaraðila m.a. afhendingu á endurriti skýrslu sem hún gaf fyrir rannsóknarnefnd Alþingis.
Þau gögn sem krafa sóknaraðila lýtur að voru færð í vörslur varnaraðilans Þjóðskjalasafns Íslands í samræmi við fyrirmæli 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Í sama lagaákvæði greinir að um aðgang að gögnunum fari eftir ákvæðum upplýsingalaga.
Vísar sóknaraðili um heimild sína til aðgangs að gögnunum til 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem kveðið er á um að skylt sé að verða við ósk aðila um aðgang að gögnum er geymi upplýsingar um hann sjálfan.
Af gögnum málsins má ráða að varnaraðili Þjóðskjalasafn Íslands skoðaði þau gögn sem sóknaraðili óskar eftir að afhent verði. Kemur fram í svari varnaraðilans að í skýrslum Eiríks Guðnasonar og Tryggva Pálssonar sé ekki minnst á sóknaraðila. Sóknaraðili gerir kröfu um afhendingu gagna sem varða hann sjálfan, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Verður ekki talið sýnt að skýrslur framangreindra manna uppfylli þá grundvallarforsendu sóknaraðila að varða hann og verður kröfu hans um afhendingu endurrita skýrslna nefndra manna hafnað þegar af þeirri ástæðu.
Mál þetta er ágreiningsmál við slitameðferð sóknaraðila og fer um málsmeðferð eftir ákvæðum laga nr. 21/1991 en þar sem þeim sleppir eiga við ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Af framangreindu leiðir að við meðferð málsins gilda reglur laga nr. 91/1991 um sönnunarfærslu fyrir dómi sem og meginreglur einkamálaréttarfars þar að lútandi og þar með talin meginreglan um milliliðalausa sönnunarfærslu. Það er og meginregla í einkamálaréttarfari að aðili hefur forræði á sönnunarfærslu sinni og verður honum aðeins meinuð sönnunarfærsla ef dómari telur hana bersýnilega að hún sé þarflausa, sbr. ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Í dómi Hæstaréttar 7. apríl 2011 í máli nr. 561/2010 er m.a. fjallað um sönnunargildi þeirrar rannsóknarskýrslu Alþingis sem þau gögn tilheyra sem um er fjallað í máli þessu. Kemur þar m.a. fram að þó umrædd rannsóknarskýrsla geti gefið mikilvægar vísbendingar um atriði sem skipt gætu máli varðandi það sakarefni sem þar var til meðferðar þá leysti hún viðkomandi aðila ekki undan því að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir staðhæfingum sínum eftir þeim leiðum sem lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála bjóði. Við munnlegan málflutning mótmælti sóknaraðili því að af umræddum dómi verði dregnar ályktanir sem skipti máli við úrlausn þessa máls enda yrðu gögn sem aflað hefði verið við gerð skýrslunnar talin sönnunargögn þó sönnunargildi skýrslunnar sjálfrar væri hafnað.
Í 2. þætti laga nr. 91/1991 koma fram reglur laganna um sönnun og sönnunargögn og er honum skipt í kafla VI til XII. Í X. kafla er fjallað um skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn og eru þau ákvæði sem sóknaraðili vísar til í þeim kafla laganna. Í VIII kafla er fjallað um vitni. Eru þar ítarlegar reglur um skyldu manna til að gefa skýrslu fyrir dómi og greina þar satt og rétt frá öllu sem þeir vita um atvik máls og daga þar ekkert undan sem máli kunni að skipta. Þá eru reglur um það hvenær vitni er, sér að meinalausu, heimilt eða jafnvel skylt að neita að upplýsa um tiltekin atriði. Eru og í lögunum úrræði til að fá skorið úr um ágreining sem rísa kann af framangreindu. Þykir ekki ástæða til að lýsa umræddum reglum nánar hér.
Með lögum nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburð, var m.a. mælt fyrir um víðtæka skyldu einstaklinga og lögaðila til að veita rannsóknarnefnd þeirri sem komið var á fót upplýsingar. Fólst sú upplýsingagjöf m.a. í skyldu til að mæta til skýrslugjafar fyrir nefndinni. Bar mönnum að veita upplýsingar þó þær væru háðar þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, sérstökum reglum um utanríkismál, öryggi ríkisins eða fundargerðir ríkisstjórnar og ráðherrafunda og fundargerðir nefnda Alþingis. Sama gilti um upplýsingar sem óheimilt sé að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns viðkomandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 142/2008.
Af framangreindu má ráða að upplýsingaskylda þess sem kallaður var fyrir rannsóknarnefndina var til muna ríkari en gilda myndi um skýrslu viðkomandi manns sem vitnis fyrir dómi. Leggja verður til grundvallar í máli þessu að réttur sóknaraðila til þess að fá úrskurð dómsins um að vörslumanni umræddra skýrslna beri að afhenda þær sé háður því að sóknaraðili eigi rétt til þeirra upplýsinga sem þær geyma til nota til sönnunar í máli sínu, sbr. ákvæði 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 sem áður er rakið. Eins og fyrr er nefnt má ráða það af forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 561/2010 að tilvísanir til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis leysi málsaðila ekki undan þeirri skyldu að færa fram sönnur fyrir máli sínu á grundvelli þeirra ákvæða laga nr. 91/1991 sem um það gilda. Með hliðsjón af framangreindu og einkum með vísan til þess víðtæka fráviks frá almennum reglum réttarfarslaga um vitnaskyldu sem felst í lögum nr. 142/2008 er það mat dómsins að sóknaraðili máls þessa geti ekki talist eiga rétt til aðgangs að skýrslum umræddra manna umfram það sem sömu mönnum væri skylt á grundvelli vitnaskyldu og að viðlagðri vitnaábyrgð að upplýsa við skýrslutöku fyrir dómi. Verður kröfum sóknaraðila hafnað þegar af þeim ástæðum sem að framan hafa verið raktar.
Í ljósi framangreindrar niðurstöðu verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðilanum Þjóðskjalasafni Íslands málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði. Aðrir varnaraðilar hafa ekki uppi málskostnaðarkröfu í þessum þætti málsins.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómara.
ÚRSKURÐARORÐ
Framangreindum kröfum sóknaraðila SPB hf. er hafnað.
Sóknaraðili SPB hf. greiði varnaraðilanum Þjóðskjalasafni Íslands hf. 150.000 krónur í málskostnað.