Hæstiréttur íslands
Mál nr. 337/2004
Lykilorð
- Rán
- Aðfinnslur
|
|
Mánudaginn 21. mars 2005. |
|
Nr. 337/2004. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Stefáni Aðalsteini Sigmundssyni (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Rán. Aðfinnslur.
S var ákærður fyrir að hafa í félagi við tvo aðra menn rænt sölutekjum sem starfsmenn Skeljungs hf. voru með á leið í banka. S játaði sakargiftir hjá lögreglu en neitaði sök fyrir dómi þó að hann staðfesti þar að rétt væri eftir sér haft í skýrslum lögreglunnar. Talið var að ekkert hefði komið fram sem rýrði sönnunargildi játningar S fyrir lögreglu. Þvert á móti væru ýmis atriði málsins til þess fallin að styrkja hana. Var því talið hafið yfir allan skynsamlega vafa að S hefði gerst sekur um verknaðinn og hann því sakfelldur fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að S framdi ránið á ófyrirleitinn hátt í félagið við tvo aðra menn og voru þeir allir hettuklæddir. Þá beitti hann annan starfsmanninn ofbeldi auk þess sem ránið var fyrirfram skipulag og ránsfengurinn hafði ekki komist til skila nema að litlu leyti. Var þetta allt metið S til refsiþyngingar en hann átti sér engar málsbætur. Var S gert að sæta fangelsi í tvö og hálft ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. júlí 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og greiðslu skaðabóta en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst sýknu.
I.
Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi, en eins þar kemur fram játaði ákærði sakargiftir í tveimur skýrslum hjá lögreglu, annars vegar 9. apríl 2003 og hins vegar 28. maí sama ár.
Ákærði reisir vörn sína meðal annars á því að við mat á sök hans sé, gegn neitun hans fyrir dómi, óheimilt að byggja á játningu hans hjá lögreglu, sbr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 16. gr. laga nr. 36/1999.
Við rannsóknina skýrði ákærði meðal annars svo frá að hann hefði ætlað að hræða aðra stúlkuna sem flutti peningana með slökkvitæki, en ekki ætlað að meiða hana. Taldi hann að hann hafi „snert hana eitthvað með tækinu“ en hún hafi orðið mjög skelkuð og lagst á jörðina. Hann hafi misst slökkvitækið og „handfangið hafi brotnað af tækinu í atganginum.“ Frásögn ákærða um brotið handfang á slökkvitækinu er í samræmi við það sem fram kom við rannsókn lögreglu. Ákærði skýrði einnig svo frá að hann hafi síðar um daginn fengið að láni bifreið systur sinnar, rauða Daihatsu fólksbifreið, og farið á henni ásamt öðrum manni, sem nú er látinn, í Hvammsvík til að brenna þar sönnunargögn tengd ráninu. Systir ákærða var skráð á þessum tíma fyrir slíkri bifreið. Hefur hún staðfest fyrir dómi að hafa lánað ákærða bifreiðina þennan dag. Tvö vitni báru hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi að hafa séð rauða Daihatsu bifreið kyrrstæða í Hvammsvík síðdegis þann dag sem ránið var framið. Hafi tveir menn verið að kveikja bál þar í fjörunni. Í málinu er ekkert fram komið um að fjallað hafi verið opinberlega um tegund bifreiðarinnar eða brotið handfang slökkvitækisins. Lögreglumennirnir, sem yfirheyrðu ákærða, báru fyrir dómi að ákærði hafi sjálfur sýnt þeim flóttaleiðina. Kemur sú leið heim og saman við nákvæman framburð vitnisins C, fund lögreglu á reiðhjóli og bifreiðum, sem ákærði lýsti að hafi verið notuð við ránið, og undankomu ránsmanna af vettvangi. Hefur ákærði engin haldbær rök fært fyrir þeirri staðhæfingu sinni að lögreglumennirnir hafi sýnt honum þessa leið.
Í fyrstu skýrslu sinni hjá lögreglu 1. mars 2003 lét D, fyrrum eiginkona ákærða, þess ekki getið að hún hafi geymt ránsféð fyrir ákærða og síðar fengið hluta þess að láni. Í skýrslunni 9. apríl 2003 greindi ákærði sjálfur frá því að D hafi geymt fyrir sig peninga og síðar fengið sjálf 200.000 krónur til eigin afnota. Það var fyrst í skýrslu 17. apríl 2003 að hún skýrði frá þessu og þá í öllum atriðum á sama veg og ákærði. Það er því ljóst að ákærði gat ekki haft upplýsingar um þetta frá lögreglu, svo sem hann hefur haldið fram.
Ákærði játaði svo sem fyrr greinir sakargiftir í skýrslum sínum hjá lögreglu 9. apríl 2003 og 28. maí sama ár. Er efni þeirri rakið í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði hefur staðfest fyrir dómi að rétt sé eftir sér haft í fyrrgreindum lögregluskýrslum, en þar lýsti hann atvikum af nákvæmni. Við þá fyrri kvaðst hann aðspurður ekki óska eftir verjanda. Í upphafi hennar sagðist hann vilja viðurkenna aðild sína að ráninu. Gerði lögreglumaðurinn þá hlé á skýrslutökunni, þar sem hann hafði ákveðið að tilnefna ákærða verjanda. Ekki tókst að ná sambandi við verjandann og var skýrslutöku haldið áfram að ósk ákærða. Verjandinn svaraði símleiðis skilaboðum lögreglu meðan yfirheyrslan stóð enn yfir og ræddi tvívegis við ákærða símleiðis áður en henni lauk. Var verjandinn síðan viðstaddur skýrslugjöf ákærða 28. maí. Staðfesti ákærði þá að rétt væri eftir sér haft í skýrslunni 9. apríl. Þegar framangreint er virt og litið er til annarra gagna málsins er ekkert fram komið, sem rýrir sönnunargildi játningar ákærða fyrir lögreglu.
Ákærði heldur því jafnframt fram að framburður D sé ómarktækur og hafi ekkert sönnunargildi meðal annars í ljósi þess að hún hafi séð sjónvarpsþátt, sem fjallaði um ránið, áður en hún gaf skýrslu hjá lögreglu. Hún hafi því getað hagað framburði sínum samkvæmt því sem kom fram þar og einnig í fjölmiðlum sem skýrðu frá ráninu. Í skýrslu D hjá lögreglu komu strax fram atriði sem ekki verður séð að hafi komið fram opinberlega. Greindi hún meðal annars frá því að ákærði hafi tjáð sér að ránsmennirnir hafi notað reiðhjól við undanförina af vettvangi. Þessi framburður hennar var í samræmi við upplýsingar sem lögreglu höfðu borist á fyrstu dögum rannsóknarinnar og skráðar voru eftir vitninu C. Framburð sinn um móttöku peninganna gaf hún þrátt fyrir að hann gæti komið sök á hana sjálfa, en eins og fram kom í héraðsdómi var framburður hennar metinn trúverðugur.
Þegar allt framangreint er virt og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þann verknað sem hann er sakaður um í ákæru. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og heimfærslu brots ákærða til refsiákvæðis.
II.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1995 fjórum sinnum hlotið dóm eða gengist undir sátt með greiðslu sektar fyrir fíkniefnalagabrot, síðast 15. desember 2003. Í september 1997 var hann dæmdur í fangelsi í fimm mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir þjófnað og nytjastuld. Þá var hann dæmdur til greiðslu sektar árið 1999 fyrir skjalafals.
Við ákvörðum refsingar er litið til þess að ákærði framdi ránið á ófyrirleitinn hátt í félagi við tvo aðra menn og voru þeir allir hettuklæddir. Hann beitti aðra stúlkuna ofbeldi með því að slá hana í höfuðið með slökkvitæki þannig að hún féll í götuna. Marðist hún á kinnbeini en hlaut ekki aðra líkamlega áverka. Ljóst er að ránið var fyrirfram skipulagt, meðal annars með það í huga að komast yfir mikil verðmæti og tryggja undankomu ræningjanna. Hefur ránsfengurinn, um sex milljónir króna, ekki komist til skila nema að litlu leyti. Verður þetta allt metið ákærða til refsiþyngingar, sbr. 1., 2., 6., 7. og 8. töluliði 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr. sömu greinar. Ákærði á sér engar málsbætur. Verður refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um skaðabætur er staðfest um annað en vexti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað frá lögreglustjóranum í Reykjavík 19. janúar 2004 nam sakarkostnaður þess embættis vegna upphaflegrar rannsóknar málsins 467.623 krónum. Er þar meðal annars kostnaður vegna DNA-rannsóknar. Í bréfi Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2004 til Fangelsismálastofnunar ríkisins kemur fram að auk þessa kostnaðar hafi fallið til sakarkostnaður við meðferð málsins í héraði vegna þóknunar og málsvarnarlauna verjanda ákærða og annars kostnaðar. Verður ákærði dæmdur til að greiða 1/3 hluta kostnaðar, sem til féll við upphaflega rannsókn málsins, eða 155.874 krónur. Að öðru leyti verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað, þar með talin þóknun og málsvarnarlaun verjanda.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar segir í dómsorði.
Það athugast að við gerð ágrips var án samráðs við verjanda felldur niður stór hluti málsgagna. Fengu Hæstiréttur og verjandinn þessi gögn fyrst í hendur skömmu fyrir málflutning. Er þetta í andstöðu við 2. mgr. 154. gr. laga nr. 19/1991 með síðari breytingum.
Dómsorð:
Ákærði, Stefán Aðalsteinn Sigmundsson, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.
Ákærði greiði Sjóvá-Almennum tryggingum hf. 5.738.180 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. mars 2000 til 1. júní 2001 en með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 29. mars 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð um annað en sakarkostnað af upphaflegri rannsókn málsins, en af honum greiði ákærði 1/3 hluta, 155.874 krónur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2004.
Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 10. mars sl. á hendur ákærða, Stefáni Aðalsteini Sigmundssyni, kt. [ ], “fyrir rán sem hann framkvæmdi við þriðja mann á árinu 1995 á bifreiðastæði við Íslandsbanka á horni Lækjargötu og Vonarstrætis í Reykjavík samkvæmt fyrirframgerðri áætlun og eins og hér greinir:
Mánudaginn 27. febrúar 1995 veittist ákærði ásamt öðrum félaga sinna, báðir með hulin andlit, að tveimur starfsmönnum Skeljungs hf., E og F, sem voru á leið í bankann til að leggja inn fjármuni í eigu Skeljungs hf., sló hina fyrrnefndu í höfuðið með slökkvitæki þannig að hún féll í götuna, hrifsaði af henni tösku sem í voru ávísanir og peningar að fjárhæð um 6 milljónir króna og hafði á brott með sér. Félagarnir hurfu af vettvangi í bifreið sem þriðji félaginn ók.
Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakrafa:
Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, krefjast þess að ákærði verði dæmdur til þess að greiða sér kr. 5.738.180 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. september 1999 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til 1. september 2003 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.”
Málavextir
Mánudagsmorguninn 27. febrúar 1995 voru tveir starfsmenn Skeljungs hf., þær E og F, að flytja tekjur af helgarsölu úr bensín- og smurstöðvum félagsins í Íslandsbanka í Lækjargötu. Samkvæmt lögregluskýrslu var það um kl. 10.07 að tveir grímuklæddir menn veittust að þeim. Sló annar þeirra F viðstöðulaust í höfuðið með barefli svo að hún féll og þreif hann peningatöskuna sem hún hafði verið með. Mennirnir hlupu svo að hvítum Saab-bíl sem beið á stæði við Vonarstræti og óku á brott. Konurnar sögðu menn þessa hafa verið með lambhúshettur á höfði sem einungis voru á göt fyrir augu og nef og í eins konar bláum vinnugöllum. Við bíl kvennanna lá slökkvitæki ásamt hárflygsum sem álitið var að væru úr höfði F. Þá lágu þar hjá þrjár safntöskur sem haldið var að hefðu dottið úr peningatöskunni. Ennfremur sáust skóför og hjólför eftir mennina og bíl þeirra, að talið var. F var með áverka á vinstra gagnauga og var hún flutt á slysadeild til aðhlynningar. Í vottorði Leifs Jónssonar læknis segir að marblettur hafi sést á kinnbeini hennar, vinstra megin, um 2x2,5 sm að stærð og vægur þroti í.
Í málinu eru fjölmörg uppgjörsgögn varðandi sölutekjurnar sem starfsmenn Skeljungs hf. voru með á leið í bankann. Samkvæmt þeim voru þær með 6.218.501 krónu í töskunni, bæði í reiðufé og tékkum. Þá er komið fram að 608.481 króna varð endurheimt.
Síðar þennan morgun fannst mannlaus, hvítur Saab við Ásvallagötu [...] og í honum stór peningataska eins og sú sem tekin hafði verið í ráninu. Í botni hennar var þjófavarnartæki sem ætlað var að gefa frá sér hljóð og litarefni. Engin merki voru um það að tækið hefði gefið litarefnið frá sér. Útvarpstæki bílsins var í gangi og í aftursæti var hálfbrunnið dagblað. Númeraspjöldin á bílnum reyndust við athugun í bifreiðaskrá tilheyra öðrum bíl. Í bílnum fannst margs konar dót, svo sem flaska með olíuvökva og tusku í stað tappa á gólfi, fjögur heil haglaskot í hanskahólfi, númersplata af bílnum undir sæti, óopnuð lítil peningataska frá einni bensínstöðinni og loks má nefna stóran sjálfskeiðung sem stungið hafði verið á kaf í innréttingu bílsins við hægra farþegasætið aftur í.
Vegfarandi gaf sig fram við lögregluna sama dag og sagðist hafa veitt athygli tveimur mönnum við gatnamót Ásvallagötu og Ljósvallagötu um morguninn. Kvað hann annan þeirra hafa farið um grímuklæddur í miklum flýti á reiðhjóli en hinn verið á hlaupum í samfestingi og með tösku. Hefði annar mannanna, a.m.k., haldið suður yfir Hringbraut, inn Furumel og í átt að Víðimel. Í skýrslu Kristjáns Friðþjófssonar rannsóknarlögreglumanns, 28. febrúar 1996, er haft eftir vegfarandanum C að hann hefði verið á gangi eftir gangstíg í bakhúsagarði við Ásvallagötu og Ljósvallagötu þegar hjólreiðamaðurinn fór hratt fram hjá honum og skömmu seinna, við undirganginn við Ljósvallagötu hefði hann mætt hinum manninum á hlaupum. Hjólreiðamaðurinn hefði verið með gráa lambhúshettu sem hafi verið heil fyrir andlitinu, klæddur dökkum anórakk og með lítinn bakpoka. Hinn maðurinn hefði verið dökkhærður, stutthærður, um 179 sm á hæð, með fæðingarblett á kinninni, klæddur í bláan kuldagalla merktan Eimskipum og með gráa, upprúllaða húfu á höfði. Ekki gat C fundið mann þennan í myndasafni lögreglunnar. Þá er þess að geta að tilkynning barst um það að sést hefði til þriggja manna fara inn í fólksbíl við Víðimel og hraða sér á brott. Þá er í málinu lögregluskýrsla þar sem segir að reiðhjól hefði fundist yfirgefið við Víðimel 30 og kannaðist enginn í því húsi við að eiga það þegar um það var grennslast.
Í málinu er skýrsla Bjarna Bogasonar um viðtal við C 15. janúar 1996. Þar er haft eftir vitninu að hjólreiðamaðurinn hefði farið hratt vinstra megin fram úr honum á göngustígnum. Hefði þetta virst vera grannvaxinn maður með hettu fyrir andlitinu og virtist vera með bakpoka. Þegar þetta gerðist hefði hann verið að koma að undirgöngunum á milli húsa nr. 8 og 10 við Ljósvallagötu. Rétt á eftir hefði annar maður komið hlaupandi á móti honum. Sá hefði verið með dökka belgtösku með löngum böndum. Maðurinn hafi verið sérkennilega búinn, í bláum, slitnum kuldagalla með málningarblettum. Yfir þvert bakið hafi staðið EIMSKIP. Sjálfur kvaðst C vera 186 sm á hæð en maðurinn verið ívið lægri vexti og vel vaxinn. Minnti hann að maðurinn hefði verið berhöfðaður og stuttklipptur en þetta myndi hann ekki nákvæmlega. Hann hafi verið með einhvers konar blett á kinn, líklega þeirri hægri. Þegar maðurinn var farinn fram hjá kvaðst hann hafa heyrt hljóð eins og maðurinn hefði látið töskuna frá sér. Hann kvaðst svo hafa gengið áfram í gegnum undirgönginn og beygt suður Ljósvallagötu. Skömmu seinna hefði sami maður komið hlaupandi framhjá með töskuna og beygt inn í undirgöng, sem eru milli húsa nr. 22 og 24, en komið þaðan strax út aftur. Hann hefði svo hlaupið inn í næstu undirgöng, milli nr. 26 og 28, og komið strax út aftur. Loks hefði hann hlaupið inn í göngin, sem eru á milli nr. 30 og 32. Hann hefði svo séð, þegar hann var kominn af Hringbraut og inn á Birkimel, að maður, sem virtist vera sá sami, hljóp eftir Furumel.
Þá er þess að geta að síðdegis mánudaginn 27. febrúar 1995 sást hvar eldur logaði í fjörunni í Hvammsvík í Kjós. Var eldurinn slökktur og tilkynnt um þetta til lögreglu. Þarna var um að ræða tösku, fatnað, skó, peningapoka frá Skeljungi, sem raktir voru til ránsins, og fleira. Sumt af þessu hafði brunnið að mestu en annað minna eða ekki.
Næst gerðist það markvert í málinu að þetta mánudagskvöld hringdi maður úr Borgarnesi til lögreglunnar og tilkynnti það tengdasonur hans, H, sem átt hefði leið um veginn hjá Hvammsvík, hefði séð þrjá menn við eldinn í fjörunni þar skammt fyrir innan og rauðan Daihatsu-bíl á veginum þar upp af. Haft var tal af H 5. mars og sagði hann bílinn hafa verið af gerðinni Daihatsu Charade af eldri gerð, rauðan að lit. Tveir menn hefðu verið að ganga frá eldinum í átt að bílnum, sem sneri í stefnu til Reykjavíkur. Hann kvað I hafa verið með sér í bílnum þegar þetta var og klukkan um 15.30. I hafði samband við lögregluna þetta kvöld og sagði að um kl. 15.45 hefðu þeir H ekið fram hjá þar sem eldur logaði í fjörunni og tveir menn voru á gangi frá eldinum í átt að rauðum Daihatsu Charade-bíl sem var á veginum. Hafi þetta verið bíll af árgerð 1987 eða þar um bil. Af förum á veginum virtist bílnum hafa verið snúið við á veginum áður en honum var lagt og sneri bíllinn í stefnu til Reykjavíkur.
Málið lá nú kyrrt til ársins 2002 að það gerðist í ágústbyrjun að D, fyrrverandi eiginkona ákærða, sem búsett er og var á [...] hafði samband við L, lögreglumann þar, og sagðist hafa mikilsverðar upplýsingar um málið. Sagði hún ákærða hafa tekið þátt í ráninu og hefði hann sagt sér frá því að kvöldi ránsdagsins. Hefði hann verið með mikið samviskubit yfir því að hafa slegið stúlkuna sem var með peningatöskuna.
D gaf skýrslu í málinu hjá lögreglunni á [...] 1. mars 2003. Sagði hún að þetta mál hefði hvílt þungt á sér í langan tíma. Þegar hún svo sá sjónvarpsþátt um málið hefði það orðið til þess að hún ákvað að létta á samviskunni. Hefði hún sagt núverandi sambýlismanni sínum frá þessu og hann verið henni sammála um að hún skyldi koma upplýsingunum á framfæri. Skýrði hún svo frá að sama dag og ránið var framið hefði ákærði hringt heim til hennar í [...] og beðið hana að koma til sín í [...] að hitta hann hjá systur sinni í [...]. Gæti hann ekki sagt henni erindið í síma. Hún kvaðst hafa heyrt að honum lá mikið á hjarta og hann verið æstur í tali. Hún hefði tekið leigubíl til ákærða sem hefði verið einn heima. Hefði hann sagt henni að hann hefði gert af sér “svolítið svakalegt.” Hefði hann svo sagt að hann hefði tekið þátt í ráni með tveimur öðrum og þeir verið búnir að skipuleggja verknaðinn bæði vel og lengi. Hefði hann sagt henni hvar ránið var framið og lýst alveg atburðarásinni. Kvað hann þá hafa stolið bíl og beðið eftir stúlkunum sem komu með sölutekjurnar hjá Skeljungi í pokum til þess að leggja inn í bankann. Hefðu þeir allir verið í bláum samfestingum og með lambhúshettur. Þegar þeir hefðu stokkið úr bílnum hefði ákærði gripið með sér slökkvitæki sem hann hefði ætlað að sprauta úr á stúlkurnar. Þegar til átti að taka hefði tækið ekki virkað og hann þá í fáti slegið til annarrar stúlkunnar með því. Kvað D ákærða hafa helst verið miður sín yfir að hafa slegið stúlkuna, enda hefði hann alls ekki ætlað að beita ofbeldi. Hefði ákærði dvalið nokkuð við þetta atriði í frásögninni. Hann hefði svo sagt að þeir þremenningarnir hefðu hrifsað peningapokana af stúlkunum og stokkið upp í bílinn aftur og ekið að einhverri götu ekki langt frá. Þar hefðu þeir allir stigið á reiðhjól og hjólað hver sína leið og svo hist við annan bíl sem þeir höfðu skilið eftir. Það hafi verið fremur stór bíll því að þeir hefðu sett hjólin í hann og tekið þau með sér. Hefðu þeir ekið upp í Hvalfjörð þar sem þeir hefðu brennt fötin, töskurnar og vísanóturnar. Hefðu þeir fengið út úr þessu ráni um milljón hver í peningum. D kvaðst hafa sagt að hún tryði þessu ekki, en innst inni hefði hún trúað honum, því hann hefði áður talað um að hann ætlaði að fremja svipað rán. Hefði það verið á [...] að hann hefði talað um að ræna sölutekjum kaupfélagsins þar. Til þess að sannfæra hana nú hefði ákærði sótt svartan ruslapoka og opnað hann. Ofan í þeim poka hafi verið hvítur, venjulegur haldapoki sem Stefán hafi opnað og sýnt henni. Þar hafi húm séð “hrúgu af peningabúntum”, bæði af þúsund króna og 5 þúsund króna seðlum. Hefði henni brugðið við þetta og reiðst ákærða og spurt af hverju hann væri að flækja hana í þetta. Hann hefði þá sagt að hann þekkti engan annan sem hann gæti treyst og hann hefði ætlað að biðja hana að geyma þetta fyrir sig. Við það hefði hún orðið enn reiðari, en ákærði sagt að hann treysti henni til þess að segja engum frá þessu. Hún hefði svo farið heim til sín. Næstu daga hefði ákærði hringt nokkrum sinnum í hana og sagt að hann óttaðist að sími hans væri hleraður og eins að hann væri viss um að fylgst væri með honum. Hefði honum liðið mjög illa út af þessu en hún hafi álitið að vanlíðun hans væri einnig út af fíkniefnaneyslu hans. Hann hafi látið skína í það að félagar hans kynnu að vinna henni mein ef hún kæmi upp um þá. Hann hafi ekki sagt hverjir þeir væru.
Ekki kvaðst D vita hvað hefði orðið um peningana, en ákærði hefði keypt sér snjómoksturstæki sem hann vann með fyrir Vegagerðina við [...]. Þá hefði hann fyrir nokkru keypt sér nýjan Musso-jeppa.
Ákærði kom til skýrslutöku í málinu á Ísafirði 26. mars 2003, frjáls ferða sinna. Hann neitaði þá sök en kannaðist við að D hefði komið að finna hann í [...] þegar hann var staddur hjá systur sinni í [...]. Hefði ránsmálið þá verið mikið í fréttunum. Hefðu þau hist til þess að spjalla, enda ættu þau saman þrjú börn. Hefði hann lýst áhyggjum sínum af ráninu við hana. Hann kvaðst hafa verið í fíkniefnaneyslu á þessum tíma og verið með 400 þúsund krónur í fórum sínum sem hann hefði átt. Auk þess hefði hann verið með annað eins af peningum sem hann ekki átti en vildi ekki segja hvernig á þeim stóð. Þetta fé hefði allt verið geymt þarna á heimili systur hans. Hefði D samþykkt að geyma fyrir hann þessa peninga. Hefðu þeir verið í pakka með límbandi utan um og hún farið með þá með sér. Peningana hefði hann sótt til hennar 2-3 dögum seinna og hún þá verið búin að taka 200 þúsund af þeim. Hefði hann fallist á að hún héldi þeim peningum. Hann kvað það sem D hafði eftir honum um hlut hans í ráninu vera rangt.
Ákærði gaf sýni úr sér til þess að erfðaefni úr því yrði borið saman við sýni sem fundist hafði á því sem fannst í fjörunni við Hvammsvík.
Næst gerðist það að ákærði hafði samband við lögregluna í Reykjavík og kvaðst vilja greina frá hlut sínum í ráninu. Hann kom á lögreglustöðina til yfirheyrslu á Hólmavík 9. apríl 2003. Skýrði hann þá svo frá að hann hefði tekið þátt í ráninu ásamt tveimur öðrum sem hann vildi ekki segja til en nefndi A og B. Skýrði hann frá því að hann og A hefðu fengið hugmyndina um að fremja ránið og rætt saman um það. Hefði A vitað um tilhögun peningaflutninganna hjá Skeljungi. Síðar, þegar B var kominn til skjalanna, hefði þetta verið ákveðið. Hann hefði ekki átt þátt í að skipuleggja þetta, enda verið búsettur í Látrum í Mjóafirði. Hefði hann ekki komið suður fyrr en helgina fyrir ránið. A og B hefðu skipulagt þetta og útvegað það sem til þurfti, bæði klæðnað og ökutæki. Hefði hann hitt þessa félaga sína og þeir fengið sér í glas saman um helgina. Á mánudagsmorgninum hefðu þeir hist á stað, sem Saab-bíllinn var geymdur en ekki gat hann sagt hvar þar sem hann væri ekki kunnugur hér. Hefðu þeir A og B verið búnir að skipta um skráningarmerki á bílnum. Þeir hefðu klæðst fötunum sem búið var að útvega. Hefði hann farið í bláan samfesting og minnti hann að málningarklessur væru á honum. Ekki mundi hann hvort áletrun var á gallanum. Þá hefði hann sett á sig prjónahúfu og höfðu tvö göt verið á svo hann sæi út. Hinir tveir hefðu einnig verið í bláum samfestingum en ekki mundi hann hvort þeir hefðu verið með málningarklessum. Þeir hefðu svo farið að bankanum og beðið á bílastæðinu við bankann. B hefði ekið en ekki muni hann hvort hann sjálfur hafi setið fram í eða aftur í. Ekki vissi hann til þess að vopn hefðu verið í bílnum og ekki mundi hann eftir haglaskotum eða hnífi. Ekki hafi heldur verið ætlunin að beita vopnum við ránið. Hefðu þeir beðið drykklanga stund í bílnum eftir stúlkunum en loks hafi komið inn á stæðið bíll merktur Skeljungi og í honum tvær stúlkur, sem hann ekki þekkti. Þegar hann fór úr bílnum hefði hann tekið með sér slökkvitæki sem hann ætlaði að nota ef til þess kæmi að hann þyrfti að verja sig og hefði verið ákveðið að hafa það með í förinni. Hann hefði ætlað að hræða aðra stúlkuna, og hélt að hann hefði komið við hana með tækinu, án þess þó að hann ætlaði að meiða hana. Handfangið á tækinu hefði brotnað í atganginum og hann því misst það. Stúlkan hefði orðið mjög skelkuð og lagst á jörðina en hann kvaðst ekki hafa veitt hinni stúlkunni athygli meðan á þessu gekk. Stúlkan hefði borið töskuna, sem hún var með, fyrir höfuð sér en við það hefðu fallið úr henni alls konar umslög. Þeir A hefðu tínt þetta saman en á meðan hefði B beðið í bílnum undir stýri, reiðubúinn að aka með þá á brott. Allt þetta hafi tekið aðeins nokkrar sekúndur og þegar þeir höfðu náð töskunni af stúlkunni hefðu þeir sest í bílinn hjá B, hann fram í en A aftur í. Hefði hann verið með töskuna á milli fóta sér og tekið úr henni innihaldið og skipt því í tvær eða þrjár minni töskur sem þeir höfðu meðferðis. Í stóru töskunni hefði verið tæki sem “pípti” í. Hann sagði að búið hefði verið að ákveða undankomuleiðina að einhverju marki en hann vissi ekki hvort staðurinn þar sem bílnum skyldi lagt hefði verið ákveðinn nákvæmlega. Eftir að bílnum hafði verið lagt í innkeyrslu í nálægri götu hefði hann reynt að kveikja í bílnum, eins og þeir höfðu ákveðið áður en þeir hefðu verið með bensín á flösku til þess arna. Það hefði þó ekki tekist þar sem kveikjarinn hans hefði verið bensínlaus. Þeir A hefðu þá forðað sér á brott en B hefði þá verið horfinn. A hefði forðað sér á reiðhjóli en sjálfur hefði hann forðað sér á hlaupum. Á leiðinni niður að Hringbraut hefði hann farið inn í rangt húsasund. Þegar hann hefði farið fram hjá rétta sundinu hefði hann mætt manni á miðjum aldri. Hann hefði áttað sig á því að hann var í röngu húsasundi og farið þar úr samfestingnum og skilið hann eftir í sundinu. Hann hefði hlaupið til baka og þá mætt sama manninum aftur sem hefði horft á hann undrandi. Kvaðst ákærði hafa óttast það að maðurinn myndi geta borið kennsl á hann síðar. Hann mundi ekki hvernig hann var klæddur undir gallanum en hann áleit að hann hefði verið léttklæddur. Hann hefði hlaupið yfir á Víðimel þar sem hann hefði skilið bíl sinn eftir, annaðhvort kvöldinu áður eða þennan morgun. Þeir A hefðu sest þar í bílinn en áður hefði A reynt að setja reiðhjólið í bílinn en ekki tekist og það verið skilið eftir. Hefðu þeir ekið á bílnum suður í [...] til systur ákærða. Þaðan hefðu þeir farið á stað í miðbænum sem ákærði vildi ekki tilgreina og hitt þar B. Þar hefðu þeir skipt með sér fengnum þannig að um það bil milljón kom í hlut hvers. Þeir hefðu aðeins hirt peninga en ekki tékka og hefði verið ákveðið að þeir A skyldu eyða töskunum og pappírunum sem höfðu fylgt. Þeir hefðu keypt bensín á brúsa í [...] og svo farið til systur ákærða, G, og fengið lánaðan bílinn hennar af gerðinni Daihatsu Charade, rauðan að lit. Hefðu þeir haldið upp í Hvalfjörð og numið staðar skammt frá Hvammsvík. Þar hefðu þeir farið niður í fjöru og lagt eld í dótið, fatnað og annað sem þeir ætluðu að eyða. Hann kvaðst muna eftir því að bíll hefði ekið fram hjá meðan þeir voru í fjörunni við þetta. Þeir hefðu svo ekið til baka og skilað bílnum á vinnustað G, leikskólanum [...]. Þá hefði klukkan verið um fimm síðdegis, og leiðir þeirra A skilið. Hann kvaðst hafa farið heim til systur sinnar en verið órólegur yfir því að geyma peningana hjá henni. Hefði hann því hringt til D, fyrrverandi konu sinnar, líklega daginn eftir, og beðið hana að koma til sín. Þegar hún kom hefði hann beðið hana um að geyma fyrir sig peningana, sem voru vandlega innpakkaðir í plastpoka. Ekki mundi hann nákvæmlega hvað hann sagði D en hann hefði verið mjög miður sín, sérstaklega yfir því að hafa slegið til stúlkunnar. Gæti verið að hann hefði sagt D frá því atviki. Hefði hann einungis blandað D í málið vegna þess hversu illa honum leið yfir atvikinu. D hefði tekið 800 þúsund krónur í geymslu en afganginum hefði hann haldið sjálfur. Hann hefði svo vitjað um peningana hjá D síðar. Hann kvaðst hafa látið hana hafa um 200 þúsund krónur, sem hún hafði sjálf tekið úr pakkanum, en hún hefði svo gengið frá peningunum fyrir hann aftur og sett þá í eftirlíkingu af bók sem var hol að innan og hafði verið utan um glös og vasapela. Nokkrum dögum síðar hefði hann tekið sér far með flutningabíl vestur og farið heim til sín í Látra með peningana í bókarhulstrinu. Hann kvaðst hafa keypt sér vélsleða fyrir hluta af fengnum en afgangurinn hefði farið í tóma ráðleysu. Hefði hann aukið fíkniefnaneyslu sína mjög fyrst eftir atburðinn. Hann sagði að sér hefði liðið illa eftir þennan verknað og eins gert ráð fyrir því að einhvern tíma yrði hann að svara til saka fyrir hann en einnig hefði hann vonað að málið gleymdist. Eftir að D hefði skýrt lögreglunni frá málinu hefði hann séð sér fært að leysa frá skjóðunni. Hann gæti hins vegar ekki sagt til hinna tveggja.
Þess er að geta í sambandi við skýrslu þessa að bókað var að ákærða hefði í upphafi skýrslutökunnar, kl. 13.15, verið bent á rétt hans til þess að hafa verjanda viðstaddan en hann ekki þegið það. Eftir að hann hafði sagst hafa átt þátt í ráninu hefði rannsakarinn gert hlé á yfirheyrslunni, kl. 13.30, til þess að verjandi gæti verið viðstaddur. Í samráði við ákærða hefði verið reynt að ná sambandi við verjandann en hann ekki verið viðlátinn. Að ósk ákærða hefði yfirheyrslunni þá verið haldið áfram, kl. 13.45. Þá var bókað, að kl. 14.30 hefði verjandinn hringt og rætt einslega við ákærða og fallist á að taka að sér málsvörnina. Hefði verið ákveðið að halda áfram yfirheyrslunni og hafa símsamband við verjandann að henni lokinni. Hefði yfirheyrslan byrjað aftur kl. 14.53. Að henni lokinni hefði verið hringt í verjandann, kl. 16.45, honum kynnt skýrslan og hann rætt við ákærða áður en hann skrifaði undir skýrsluna. Skýrsluna ritaði Árni Þór Sigmundsson rannsóknarlögreglumaður, og viðstaddur yfirheyrsluna var einnig Guðmundur Ásgeirsson rannsóknarlögreglumaður.
Ákærði fór 8. maí 2003 ásamt lögreglumönnunum Guðmundi Ásgeirssyni og Árna Þór Sigmundssyni að Ásvallagötu [...]. Sýndi hann þeim þá leið sem hann kvaðst hafa hlaupið frá Saab-bílnum niður á Víðimel og staði á þeirri leið sem við sögu komu í skýrslunni sem hann gaf á Hólmavík.
Loks er þess að geta að í tilefni af skýrslu ákærða á Hólmavík var gerð rannsókn á slökkvitæki sem kemur við sögu í málinu. Er til um hana skýrsla með ljósmyndum en þessi gögn eru óstaðfest og því verður ekki nánar farið út í þau.
D gaf aðra skýrslu hjá lögreglu 17. apríl sl. og var þá borin undir hana síðari skýrsla ákærða. Staðfesti hún það sem hún hafði áður sagt um fund þeirra ákærða fyrst eftir ránið og skýrði frá á sama veg og áður. Hún staðfesti einnig það sem ákærði hafði sagt um hennar hlut af fengnum. Sagðist hún hafa litið á þetta sem lán enda hefði hann verið búinn að samþykkja að lána henni þessa peninga. Síðar hefðu þau samið um að þetta gengi upp í ógreitt meðlag með elsta barni þeirra. Hún kvað ákærða hafa sagt að peningarnir sem hann sýndi henni í [...] hefðu verið um ein milljón, en hún hefði ekki talið þá.
Ákærði var kallaður til yfirheyrslu að nýju miðvikudaginn 28. maí 2003 hér í Reykjavík. Var verjandi hans þá viðstaddur. Skýrði hann þá frá nafni þess sem hann hafði nefnt A en hann hafði látist nokkrum dögum áður. Kvaðst ákærði hafa hitt A um þrem vikum áður og þá sagt honum að hann væri búinn að skýra frá sínum þætti í málinu. Kvað hann A hafa orðið mjög tortrygginn og leitað að hljóðnema á ákærða. Í skýrsluna var skráð eftir ákærða stutt lýsing á framvindunni og verkaskiptingu þeirra þriggja, sem er í samræmi við það sem áður kom fram hjá honum. Hins vegar var þá skráð eftir honum að A hefði beðið eftir honum á Ásvallagötunni og þeir orðið samferða yfir á Víðimel. Ákærði vildi ekki segja hver B væri.
C, sem fyrr er nefndur, gaf skýrslu í málinu hjá lögreglu, 4. júní sl. Hann skýrði þá frá á sama veg og fyrri skýrslur greina.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins.
Ákærði neitar sök. Hann kveðst ekki eiga neina aðild að ráninu en kunningi hans, sem fallinn er frá, hafi komið að máli við sig og sagt að hann hefði verið beðinn um það að taka dót sem hafði orðið eftir á undankomuleiðinni hjá ræningjunum og koma því fyrir. Hafi þessi kunningi viljað fá hann til þess að hjálpa sér við þetta. Hafi þeir ekið vestur í bæ og kunninginn sýnt honum þá hluti sem eftir höfðu orðið á flóttanum. Hafi þeir verið á bíl systur ákærða sem kunninginn var með, en kunninginn hafi verið í sendiferðum fyrir ákærða. Þeir hafi fengið sér að borða og kunninginn þá sagt honum frá málinu í megindráttum og virst vita dálítið um það.
Hlutirnir sem átt hafi að fyrirkoma hafi verið reiðhjól, samfestingar og taska með uppgjörstöskum og skóm. Hafi þeir verið miklir vinir á þessum tíma og verið í stöðugu sambandi þegar ákærði var hér syðra. Hann kveðst ekki hafa viljað taka þátt í því með honum að koma dótinu undan. Þetta sé það sem hann viti um málið, “í stórum dráttum”. Hann segir aðspurður um skýrsluna sem hann gaf hjá lögreglu 9. apríl í fyrra að það hafi verið skárri kostur fyrir hann að játa þar sem rannsóknarinn hafi sagst hafa DNA-sýni úr honum í þessari tösku og gæsluvarðhaldsúrskurð á hann í bakhöndinni. Þannig hafi þá staðið á fyrir honum að hann færi á hausinn og systir hans með, ef hann yrði tekinn úr vinnu sinni. Hann hafi auk þess treyst á það að rannsóknin myndi leiða það í ljós að játning hans stæði ekki styrkum stoðum. Hann kveður yfirheyrsluna á Hólmavík hafa farið eðlilega fram og rannsóknarinn reynt að aðstoða hann við að koma framburðinum frá sér. Þá hafi hann notað vitneskjuna, sem hann hafði um málið, frá kunningja sínum til þess að “undirstrika atriði.” Sé skýrslan rétt eftir honum höfð og kannist hann við að hafa skrifað undir hana. Hann kveðst ekki geta skýrt framburð D í málinu með öðru en að hún hafi misskilið hann. Hann segir samband þeirra D hafa verið “nokkuð þokkalegt” á þessum tíma. Oft hafi þó komið upp ágreiningur milli þeirra vegna barnanna sem þau eigi saman. Hann segir að það kunni að vera að hann hafi eitthvað sagt D af því sem hann vissi um málið frá þessum kunningja, án þess að hann muni það, enda langt um liðið. Ekki viti hann til þess að D hafi vitneskju um málið frá öðrum en honum. Hann segist síðast hafa talað við kunningja sinn nokkrum dögum áður en hann lést. Ákærði segist hafa fengið bíl systur sinnar lánaðan þar sem hann hafi verið að gera við eigin bíl. Kunningi hans, A, hafi verið á bílnum í sendiferðum fyrir sig meðan hann gerði við bílinn. Þeir hafi aldrei orðið viðskila langan tíma í einu meðan á þessu stóð. Þó hefði hann mögulega getað haft tíma til þess að aka upp í Hvalfjörð og til baka. Segist hann hafa spurt hann hvort hann hefði farið með þessa tösku upp í Hvalfjörð en hann neitað því. Það hafi verið um hádegið að A hafi sagt honum af ráninu og þeir skrafað um þetta svolítið. A hafi komið með töskuna í bíl systur hans og kveðst ákærði hafa af þeim sökum óttast að lífssýni úr honum kynnu að finnast í henni þar sem hann hefði skoðað í töskuna og tekið úr henni húfu. A hafi í frásögn sinni af ráninu, sem hann hafði frá öðrum, talið upp þau atriði sem farið hefðu úrskeiðis í ráninu. Þar á meðal hafi verið þetta með slökkvitækið sem brotnað hefði. Þá hafi hann sagt frá því að einn af ránsmönnunum hefði villst inn í húsasund, skilið gallann sinn eftir og verið beðinn um að sækja gallann. Þá hafi hann sagt frá reiðhjólum sem A hefði verið beðinn um að taka í vörslu sína. Hann kveðst ekki trúa því að A hafi verið einn af ránsmönnunum heldur hafi hann verið beðinn um að taka til eftir þá og reynt að fá sig með í það. Hann kannast við að hafa sýnt D peninga sem þeir A áttu saman og höfðu átt frá því þeir voru saman til sjós. Höfðu þeir nýlega fengið þá greidda. Hann kannast við að hafa beðið hana að geyma fyrir sig hluta af fénu.
E hefur skýrt frá því að þær hafi ekið sinn vanalega hring og safnað sölutekjum hjá útsölustöðvunum og endað í Lækjargötu eins og venjulega. Hún kveðst hafa stigið út úr bílnum á undan hinni konunni sem hafi tafist við það að reyna að loka flutningatöskunni utan um allar uppgjörstöskurnar en mikið hafi verið í þeim og þetta því torsótt. Hún hafi ekki gætt að þessu og því verið lögð af stað frá bílnum. Hún hafi snúið sér við og þá séð hvar maður kom að hlaupandi og barði konuna í höfuðið. Hafi maðurinn verið í samfestingi og með hettu yfir höfðinu. Þarna hjá hafi verið hvítur bíll og maður undir stýri. Þarna á bílastæðinu hafi svo verið þriðji maðurinn. Þegar konan var fallin í götuna kveðst hún hafa hlaupið inn í bankann og látið vita um árásina. Hún hafi svo snúið við og farið út í dyr og fylgst með því sem var að gerast en ekki hætt sér nær fyrr en mennirnir voru farnir. Þá hafi hún hlaupið til hjálpar konunni.
F hefur skýrt frá því að þær E hefðu verið búnar að safna saman tekjunum á öllum stöðvum Skeljungs og endað ferðina í Lækjargötu. E hafi farið á undan úr bílnum en hún hafi þurft að sækja töskuna aftur í. Hafi mikið verið í flutningatöskunni, eins og alltaf á mánudögum. Því hafi hún tafist við að loka henni. Þær hafi tekið eftir að þarna var bíll í gangi en ekki gert sér grillur út af því, enda séu oft bílar í gangi þar. Þegar hún hafði tekið töskuna úr bílnum, og líklega eftir að hafa lokað henni, hafi hún fengið einhvern aftan á bakið á sér og misst töskuna. Hún hafi reynt að líta við en ekki séð annað af manninum en húfuna og augun. Hafi hún þá verið slegin niður. Hafi höggið komið á gagnaugað og hún misst við það fótanna og fallið. Maðurinn hafi, eftir því sem hún man, verið í bláum smíðagalla. Henni finnst eins og þarna hafi verið annar maður og þeir báðir hlaupið í bílinn sem þær höfðu séð. Hún hafi ekki fengið aðra áverka en smámar undan högginu.
C hefur skýrt frá því að hann hafi verið á leið til vinnu eftir stíg að húsabaki við Blómvallagötu og Ljósvallagötu. Þegar hann hafi verið kominn langleiðina að undirgöngunum við Ljósvallagötu hafi mannvera komið ríðandi á hjóli frá vinstri og í veg fyrir vitnið og áfram eftir gangvegi sem liggur þvert á. Kveður hann sér hafa orðið starsýnt á veru þessa sem hafi verið með lambhúshettu sem sneri öfugt, að því er honum virtist. Hafi hann því ekki séð framan í mannveruna. Hann hafi horft á eftir verunni og gengið áfram nokkur skref, en þá séð hvar maður kom hlaupandi af Ljósvallagötu og inn í undirgöngin. Hafi hann verið með íþróttatösku. Þegar vitnið gekk fram hjá hafi maðurinn numið staðar í undirgöngunum og hent frá sér töskunni. Hann kveðst hafa haldið áfram ferð sinni út á Ljósvallagötu og beygt til hægri. Eftir örskamma stund hafi sami maður, að hann áleit, komið hlaupandi, farið fram úr vitninu og beygt til hægri og inn í önnur undirgöng sem þarna eru. Hann hafi komið hlaupandi út úr þeim aftur og svo beygt inn í þriðju undirgöngin sem þarna eru. Hann kveðst hafa haldið áfram og yfir Hringbraut. Þegar hann hafi verið á móts við bakaríið sem þarna er á horninu hafi hann séð yfir á Víðimel og séð mann á ferð vestur þá götu. Hafi liturinn á fötum hans verið eins og á fötum mannsins sem hann hafði áður mætt og áleit hann að þar færi sami maður. Sá maður hafi verið klæddur í bláan vinnugalla með “Eimskip” á bakinu. Þá hafi verið blettir á honum, sem gátu verið hvítar málningarslettur. Rámi hann í að maðurinn hafi verið með húfu á höfði.
Fyrir dóminn hafa komið þeir H og I og gefið stuttar skýrslur sem eru í samræmi við það sem þeir höfðu áður borið hjá lögreglu. Eru ekki efni til þess að gera þeim sérstök skil hér.
D, fyrrverandi eiginkona ákærða, hefur skýrt frá því að það hafi verið sama dag og ránið var framið eða daginn eftir að ákærði hafi hringt í hana og verið uppnámi. Hafi hann beðið hana að koma til sín suður í [...] og skyldi hann borga fyrir hana leigubíl, en hún hafi þá verið bíllaus. Þegar þangað kom hafi hann spurt hana hvort hún hefði heyrt fréttirnar, sem hún ekki hafði. Hafi hann þá sagt henni að hann hefði tekið þátt í ráni við þriðja mann. Þeir hefðu setið fyrir tveimur stúlkum við bankann og þegar þær komu hafi þeir stigið úr bílnum og hann haft með sér slökkvitæki sem hann ætlaði að sprauta úr á þær til þess að þær fipuðust. Þegar til kom hefði tækið ekki verkað og hann hefði þá í fátinu slegið til annarrar þeirra með tækinu. Hafi ákærði virst miður sín út af því að hafa slegið stúlkuna. Þeir hefðu gripið töskurnar og stokkið inn í bílinn og ekið á brott og að stað þar sem þeir tóku reiðhjól. Þeir hefðu hjólað á þeim hver í sína átt en svo allir hist við bíl sem þeir hefðu sett hjólin í og þaðan ekið upp í Hvalfjörð. Hann hafi sýnt henni peningabúnt sem voru í innkaupapoka og utan um allt var svartur ruslapoki. Hann hafi talað um þetta væri um milljón. Ákærði hafi sagt að þeir hefðu haft um milljón hver upp úr krafsinu þegar þeir voru búnir að taka frá ávísanir og pappíra. Hann hafi beðið hana að geyma þá fyrir sig og hún fallist á það og farið með þetta heim til sín í leigubíl og geymt í nokkra daga eða svo. Hún kveðst hafa verið atvinnulaus og félaus og því fengið lánaðar af þessu 200 þúsund en láninu hafi síðan verið breytt í meðlag með elsta barni þeirra. Hún kveðst ekki hafa talið peningana. Hún segir þetta ávallt hafa hvílt þungt á sér, þótt hún reyndi að bæla það niður, og loks þegar hún sá þátt um málið í sjónvarpinu hafi hún ákveðið að létta á samviskunni og ljóstra því upp. Hún segir samkomulag þeirra ákærða hafa verið ágætt á þessum tíma. Hafi hún verið með tvö yngstu börnin en ákærði það elsta. Hún hafi svo fengið forræði þess einnig og þá verið samið um að lánið gengi upp í meðlag með því barni.
G, systir ákærða, hefur skýrt frá því að ákærði hafi fengið lánaðan bíl hennar, sem var rauður Daihatsu Charade, að morgni um áttaleytið og skilað honum á vinnustað hennar síðar um daginn, einhvern tíma milli klukkan þrjú og hálfsex. Hún segist hafa tekið eftir því að nokkuð var gengið á bensínið þegar hún fékk bílinn aftur. Hún segir ákærða hafa verið alveg félausan þennan vetur og ekki keypt bensín á bíl hennar, ekki átt fyrir sígarettum eða kaffipakka, sem hann annars keypti þegar hann átti peninga. Ákærði hafi gist hjá henni á þessum tíma í 2 3 daga. Hann hafi annars dvalist hjá föður þeirra í Látrum þennan vetur og muni faðir þeirra hafa þurft að láta hann hafa vasapeninga. Hann hafi þó stundum verið með peninga fyrir tóbaki og kaffi þegar hann kom í heimsókn. Samband þeirra D hafi verið gott á þessum tíma, enda hafi ákærði gert sér far um að hafa sambandið gott, barnanna vegna. Á árinu 2003, um það leyti sem vitnið gaf skýrslu í málinu hjá lögreglu, hafi D rekið yngri dóttur þeirra að heiman og hafi ákærða mislíkað það og verið að garfa eitthvað í því og stúlkan dvalið hjá honum á þessum tíma. Þau hafi því ekki verið “sérstaklega góðir vinir” á því tímabili.
Árni Þór Sigmundsson lögreglumaður, hefur skýrt frá því að skýrsla ákærða á Hólmavík hafi verið mjög greinargóð. Aðdragandinn að henni hafi verið sá að þegar hann gaf fyrri skýrsluna á Ísafirði hefðu verið tekin úr honum sýni til DNA-rannsóknar. Niðurstaða úr rannsókninni hafi ekki verið komin enn. Hafi ákærði komið til Hólmavíkur og gefið skýrslu sína án nokkurs þrýstings frá þeim lögreglumönnunum. Hafi hann sagt þeim að hann vildi skýra frá þætti sínum í málinu og þyrfti hann ekki verjanda. Kveðst vitnið hafa lagt hart að honum að hafa verjanda viðstaddan og gert hlé á skýrslunni vegna þess. Þá skýrir vitnið frá því að ákærði hafi farið með þeim Guðmundi Ásgeirssyni og sýnt þeim slóðina sem hann hafði farið frá Ásvallagötu, undirgöng þar sem hann hefði villst, stað þar sem hann hefði farið úr samfestingi, mætt manni tvisvar sinnum, hlaupið í suðurátt, yfir Hringbraut og yfir á Víðimel.
Guðmundur Ásgeirsson lögreglumaður, hefur skýrt frá því að hann hafi verið viðstaddur skýrslugjöf ákærða á Ísafirði og á Hólmavík. Hann hafi ekki verið beittur neinum þvingunum og ekki látið skína í að hann yrði settur í varðhald. Hann kveður ákærða hafa sýnt þeim Árna Þór flóttaleiðina og kveðst hann hafa tekið ljósmyndir af þessu og sett þær upp og við þær skýringartexta.
Niðurstaða
Ákærði neitar nú sök og hefur sagt að hann hafi einungis skýrt D frá því sem hann hafði eftir öðrum um atvikin að ráninu. D hefur gefið trúverðugar og samhljóða skýrslur í málinu og hvatir hennar til þess að koma fram og ljóstra því upp eru ekki tortryggilegar. Ákærði gaf ítarlega og greinargóða skýrslu hjá lögreglu 9. apríl í fyrra þar sem hann játaði þátt sinn í ráninu og áréttaði þá skýrslu aftur 28. maí 2003. Eru þessar skýrslur hans í samræmi við annað sem fram er komið í málinu; við skýrslur D, við skýrslur C í stóru sem smáu, en telja verður hann sérlega greinargott og traust vitni, við skýrslur kvennanna sem rændar voru og loks við ýmisleg sakargögn í málinu sem grein hefur verið gerð fyrir. Ákærði breytti framburði sínum þegar málið kom fyrir dóm og sagðist hafa gefið skýrsluna á Hólmavík af ótta við að verða hnepptur í varðhald og að hann hafi óttast að niðurstaða DNA-rannsóknar yrði honum óhagstæð. Telja verður að þessar viðbárur hans séu haldlausar. Þá þykir skýring hans á því hvernig hann gat lýst slettóttum vinnugallanum og aukaatriðum í sambandi við flóttaleiðina frá Ásvallagötu einkar ótrúleg. Loks er þess að geta að framganga hans í málinu fyrir dóminum hefur ekki vakið traust. Þykir dóminum vera óhætt að byggja á játningu hans um að hann hafi tekið þátt í því, mánudagsmorguninn 27. febrúar 1995, að veitast ásamt öðrum að stúlkunum tveimur við Íslandsbanka í Lækjargötu, slá aðra þeirra í höfuðið með slökkvitæki svo að hún féll í götuna og hrifsa af henni og hafa á brott með sér peningatöskuna með um 6 milljónum króna í peningum og ávísunum. Braut hann með þessu athæfi sínu gegn 252. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Þegar ákærða er ákveðin refsing má að nokkru hafa hliðsjón af því að langt er liðið frá því að hann framdi brot sitt. Þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár.
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafa greitt Skeljungi hf. alls 5.738.180 krónur í bætur vegna tjónsins af brotinu. Gerir félagið kröfu í málinu um að ákærði verði dæmdur til þess að greiða því þá fjárhæð í bætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 1. september 1999 og frá 1. júlí 2001 samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001 til 1. september 2003 en þaðan í frá með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags. Krafan er nægilega rökstudd og ber að dæma ákærða til þess að greiða hana eins og hún er fram sett.
Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns Sigmundar Hannessonar hrl., 150.000 krónur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Stefán Aðalsteinn Sigmundsson, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði greiði Sjóvá-Almennum tryggingum hf. 5.738.180 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 1. september 1999 til 1. september 2003 en síðan dráttarvöxtum til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns Sigmundar Hannessonar hrl., 150.000 krónur.