Hæstiréttur íslands
Mál nr. 64/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Aðild
- Málsástæða
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 12. mars 2004. |
|
Nr. 64/2004. |
Húsfélagið Flétturima 2-8 (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Atla Eiríkssyni sf. Eggert Atlasyni Atla Elfari Atlasyni og Ómari Atlasyni (Jóhann H. Níelsson hrl.) |
Kærumál. Aðild. Málsástæður. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður fellur úr gildi.
H kærði frávísun héraðsdóms á máli hans gegn A sf., E, A og Ó. Í Hæstarétti var hvorki fallist á að málatilbúnaður H varðandi aðild þess að málinu né kröfugerð væri óljós. Þá var talið að játa yrði H heimild til að reisa kröfur sínar aðallega á grundvelli skaðabótaábyrgðar utan samninga, til vara á grundvelli skaðabóta innan samninga, en að því frágengnu á afslætti að álitum. Að lokum var ekki fallist á að tilvísun H í lagaákvæði væri áfátt. Var úrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða sér kærumálskostnað.
I.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur varnaraðilum til greiðslu skaðabóta eða afsláttar vegna ætlaðra galla á fjöleignarhúsinu Flétturima 2-8, Reykjavík. Er málavöxtum nánar lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram rökstyðja varnaraðilar frávísunarkröfu sína á því að máltilbúnaður sóknaraðila sé óskýr og ruglingslegur. Eigi það bæði við um aðild, kröfugerð og málsástæður. Telja þeir málatilbúnað sóknaraðila andstæðan ákvæðum e., f. og g. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Sóknaraðili telur að í stefnu sé glögg grein gerð fyrir því á hverju aðild hans að málinu sé reist. Mörg álitaefni séu fyrir hendi varðandi réttarsamband húsbyggjanda fjöleignarhúss, viðsemjanda hans og húsfélags slíks húss, sem meðal annars tengist aðild og réttarfari. Af þeim sökum hafi hann reist málatilbúnað sinn á fleirum en einum grunni, bæði að því er varðar aðild og málsástæður. Að því er aðild varðar séu þessar röksemdir settar fram í forgangsröð og hver röksemd um sig skýr og glögg. Reynist aðildarskortur vera fyrir hendi leiði það til sýknu en ekki frávísunar máls.
Sóknaraðili telur að einnig sé skýrt í stefnu að kröfur sínar varði einungs galla á sameign umrædds fjöleignarhúss, en ekki á séreign einstakra íbúðaeigenda. Þá sé kröfugerð sín bæði tölulega ljós og nákvæmlega sundurliðuð í stefnu. Auk þess sé þar vísað til nánari sundurliðunar í tilgreindum skjölum málsins.
Málsástæður sínar telur sóknaraðili í öllum tilvikum reistar á því að um handvömm hafi verið að ræða við byggingu hússins og brot á byggingareglugerð, sem leiði til ábyrgðar varnaraðila. Skaðabótakrafa sé annars vegar reist á grundvelli almennu skaðabótareglunnar, en hins vegar á kröfuréttarsambandi kaupenda og seljanda. Krafa um afslátt sé varakrafa og verði máli ekki vísað í heild frá dómi vegna vanreifunar hennar. Venjulegt sé að haga kröfugerð um afslátt með þessum hætti og miða í þeim efnum við kostnað vegna úrbóta. Dómvenja sé fyrir því að slíkt varði ekki frávísun.
II.
Samkvæmt ákvæðum 56. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús eru húsfélög í öllum fjöleignarhúsum og þarf ekki að stofna þau sérstaklega og formlega. Allir eigendur, og aðeins þeir, eru félagsmenn í viðkomandi húsfélagi. Réttindi og skyldur til þátttöku í því eru órjúfanlega tengd eignarrétti að einstökum eignarhlutum. Enginn eigandi geti synjað þátttöku í húsfélagi eða sagt sig úr því nema með sölu eignarhluta síns. Þá er í 3. mgr. 71. gr. laganna kveðið sérstaklega á um að húsfélag geti verið aðili að dómsmáli, bæði til sóknar og varnar. Gildir það jafnt um mál gegn þriðja aðila og einum eða fleiri félagsmönnum. Nægilega kemur fram í stefnu að krafa sóknaraðila sé vegna galla á sameign umrædds fjöleignarhúss og þar eru tilgreindir þeir hlutar hússins sem hann telur að haldnir séu göllum. Er því hér um að tefla kröfur sem húsfélag er bært að hafa uppi í dómsmáli. Þá verður ekki talið að málatilbúnaður sóknaraðila í stefnu, að því er lýtur að aðild hans að málinu, sé svo óljós að öðru leyti að frávísun varði.
Í stefnu er kröfugerð sóknaraðila rækilega sundurliðuð. Eru þar tilgreindir þeir gallar sem hann telur vera á sameign hússins og kröfufjárhæð vegna hvers þeirra. Þar kemur og fram að kröfur séu að hluta til reistar á raunkostnaði við úrbætur en að hluta á tilgreindri matsgerð. Er um þessi atriði nánar vísað til frekari sundurliðunar í gögnum málsins. Verður því ekki fallist á það með varnaraðilum að kröfugerð sóknaraðila sé svo óljós og lítt studd gögnum að vísa beri málinu frá héraðsdómi á þeim grunni.
Sóknaraðila verður að játa heimild til að reisa kröfur á hendur varnaraðilum, aðallega á grundvelli skaðbótaábyrgðar utan samninga, til vara á grundvelli skaðabóta innan samninga, en að því frágengnu á afslætti að álitum. Þá verður heldur ekki fallist á með varnaraðilum að tilvísun sóknaraðila í lagaákvæði sé svo áfátt að vísa beri málinu frá af þeim sökum.
Samkvæmt framanrituðu er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar greiði óskipt sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar, Atli Eiríksson sf., Eggert Atlason, Atli Elfar Atlason og Ómar Atlason, greiði óskipt sóknaraðila, Húsfélaginu Flétturima 2-8, samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2004.
Málið var þingfest 8. maí sl. og tekið til úrskurðar 12. janúar sl.
Stefnandi er Húsfélagið Flétturima 2-8, Reykjavík.
Stefndu eru Eggert Atlason, Stigahlíð 74, Atli Elfar Atlason, Neðstaleiti 4 og Ómar Atlason, Gerðhömrum 38, allir í Reykjavík. Þeim er stefnt persónulega og fyrir hönd Atla Eiríkssonar sf., sem þeir eiga.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða sér 10.170.900 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. desember 2001 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndu krefjast aðallega frávísunar og málskostnaðar og er sá þáttur málsins til úrskurðar. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið og sér úrskurðaður málskostnaður.
II
Samkvæmt stefnu eru málavextir þeir að sameignarfélag stefndu (í þessum kafla verður til hægðarauka eingöngu talað um stefnda) hóf byggingu fjöleignarhúss að Flétturima 2-8 á árinu 1991. Stefndi seldi íbúðir í húsinu á árunum 1994 til 1997 en þær eru samtals 24. Í stefnu segir að fyrst hafi verið kvartað við stefnda vegna galla á byggingunni með bréfi 24. apríl 1996. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hafi verið fengin til að rannsaka húsið og komist að því að talsvert var um sprungur í útveggjum og málning flagnaði af, auk annars. Aftur var kvartað í nóvember 1997 og þá fyrir hönd stefnanda. Á árunum 1998 og 1999 voru unnar skýrslur um ástand hússins á vegum stefnanda og í maí 2000 voru dómkvaddir matsmenn til að meta skemmdir og kostnað við úrbætur. Lá matsgerðin fyrir ári síðar eða í maí 2001. Á árinu 2000 hafði hins vegar verið gert við húsið að hluta til. Byggir bótakrafan á matinu nema um þá liði, er gert hefur verið við, en þar er byggt á viðgerðarkostnaði.
Stefndi kveðst hafa byggt húsið á árunum 1991 til 1993, er það hafi verið orðið fokhelt. Íbúðirnar voru síðan flestar seldar á árunum 1994 og 1995 og það sé því rangt í stefnu að byggingartími hússins hafi náð til ársins 1997. Þá tekur stefndi fram að byggingaryfirvöld hafi tekið húsið út eftir þágildandi reglum, alls 66 sinnum og alltaf án athugasemda. Eftir að íbúar voru fluttir inn kveður stefndi að kvartað hafi verið yfir ýmsu smálegu svo sem eðlilegt teljist og hafi hann látið lagfæra það. Hins vegar hafi eigendur ekki sinnt eðlilegu viðhaldi þrátt fyrir ábendingar heldur haldið áfram að kvarta yfir göllum og látið meta þá og rannsaka eins og rakið var.
III
Stefnandi byggir aðild sína að málinu á því að húsfundur hafi falið honum að fara með málið á hendur stefndu og hafi hann því allar heimildir til að krefja þá "um bætur eða afslátt vegna sameignar hússins á hvaða grunni sem er, óháð því hvort aðilar að húsfélaginu séu upphaflegir viðsemjendur eða ekki og óháð því hvort um sé að ræða skaðabætur utan samninga eða innan samninga og óháð grundvelli málsins að öðru leyti. Það sé síðan mál innan húsfélagsins og uppgjörsmál milli kaupenda og seljenda hvernig eftirleikurinn verði, stefnda og þessu máli óviðkomandi." Vísar stefnandi til 57. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo og til dómafordæma.
Skaðabótakröfu sína byggir stefnandi á því að stefndu, sem hafi byggt húsið, beri ábyrgð á að það hafi verið forsvaranlega byggt og í samræmi við lög og reglur. "Almenna skaðabótareglan og dómvenja leiða til þess að stefndi verður ábyrgur fyrir öllum afleiðingum vanrækslu í þessum efnum gagnvart öllum sem fyrir því verða hvort sem um er að ræða upprunalega viðsemjendur eða þá sem síðar kunna að eignast íbúðir í húsinu og óháð samningssambandi þeirra við þá sem bíða tjón. Eina skilyrðið er að orsökin sé adekvat en að sjálfsögðu er fyrirsjáanlegt það tjón sem íbúðareigendur verða fyrir á hverjum tíma ef út af er brugðið. Sama gildir vegna brota á byggingareglugerð nr. 177/1992. Verði ekki fallist á að stefndi geti borið ábyrgð á tjóni þeirra sem fyrir verða, óháð samningssambandi, er byggt á því að innan samninga gildi almenna skaðabótareglan eða regla sama efnis. Reglur um springende regres leiði síðan til þess að síðari kaupendur öðlast beinan rétt á hendur stefnda."
Þá er á því byggt að í samningi stefndu við upprunalega viðsemjendur sína hafi falist loforð um að byggja húsið á óaðfinnanlegan hátt. Þetta loforð hafi stefndu ekki efnt og beri því ábyrgð á því tjóni sem af því leiði. Á grundvelli reglna um "sprangkröfur" geti stefnandi krafið stefndu um bætur.
Loks er á því byggt að húsið hafi skort áskilda kosti, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922 og geti stefnandi, á grundvelli reglna um "sprangkröfur" gert kröfur á hendur stefndu.
Stefndu byggja frávísunarkröfuna á því að málatilbúnaður stefnanda sé ekki í samræmi við ákvæði laga um meðferð einkamála um skýran og glöggan málatilbúnað. Benda stefndu á að ekki sé gerð grein fyrir því á fullnægjandi hátt hvernig aðild að málinu sé háttað. Stefnandi byggi aðild sína á samþykkt húsfundar þar sem honum hafi verið heimilað að krefja stefndu um skaðabætur eða afslátt vegna sameignar hússins "óháð því hvernig samningssambandi núverandi eigenda við stefndu kunni að hafa verið háttað, svo og því hvort um sé að ræða skaðabætur innan eða utan samninga eða grundvelli málsins að öðru leyti." Í öðru lagi virðist aðildin byggð á framsalsyfirlýsingum þar sem einhverjir núverandi og fyrrverandi eigendur íbúða í húsinu framselji stefnanda óskilgreindar kröfur á hendur sameignarfélagi stefndu vegna fasteignarinnar. Í þriðja lagi byggi stefnandi á því að hann eigi aðild að öllum kröfum sem byggist á reglum um skaðabætur utan samninga og reglum um "springende regres". Í fjórða lagi byggi aðildin á því að félagsmenn í stefnanda eigi beina kröfu á hendur stefndu á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um "springende regres" vegna meintra brota stefndu á byggingarreglugerð og séu allir fyrri seljendur því samþykkir að stefnandi fari með málið.
Þá byggir frávísunarkrafan á því að stefnandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn til stuðnings kröfu sinni, sbr. g-lið 1. mgr. 80. gr. einkamálalaganna.
Loks er á því byggt að málsástæður stefnanda séu ósamþýðanlegar og í andstöðu hver við aðra. Þannig sé bæði byggt á því að stefndu beri ábyrgð samkvæmt almennu skaðabótareglunni og jafnframt beri þeir ábyrgð vegna vanefnda innan samninga án þess að gerð sé nánari grein fyrir í hverju þær vanefndir eigi að vera fólgnar. Hið sama gildi um þá málsástæðu að húsið hafi skort áskilda kosti.
IV
Sameignarfélag stefndu byggði fjöleignarhúsið að Flétturima 2 - 8 eins og rakið var og seldi íbúðir í því. Í stefnu er hins vegar engin grein gerð fyrir því hverjum stefndu seldu íbúðir eða hvernig þeir samningar voru, hvorki hvað varðar ætlaða ábyrgð stefndu né annað. Þá er heldur engin grein gerð fyrir því hverjir hafi átt íbúðirnar eftir að stefndu seldu þær og hvernig eða hvort núverandi eigendur, sem mynda stefnanda, leiði rétt sinn frá þeim. Þetta var þó nauðsynlegt í ljósi þess að stefnandi byggir bæði "á því að innan samninga gildi almenna skaðabótareglan eða regla sama efnis. Reglur um springende regres leiði síðan til þess að síðari kaupendur öðlast beinan rétt á hendur stefnda."
Stefnandi byggir einnig á því að stefndu beri ábyrgð á ætluðum göllum hússins á grundvelli almennu skaðabótareglunnar án þess að gera frekari grein fyrir þessum göllum að öðru leyti en því að rekja úr matsgerð álit matsmanna. Hann tengir þessa lýsingu matsmannanna í engu ætlaðri sök stefndu, sem þó er nauðsynlegt til stuðnings þessari málsástæðu.
Bótakröfu sína byggir stefnandi á niðurstöðu matsmanna nema þar sem búið er að gera við skemmdir. Þar krefst hann endurgreiðslu viðgerðarkostnaðar. Í stefnunni er hins vegar ekki greint á milli hvar krafist sé bóta samkvæmt mati og hvar endurgreiðslu, heldur látið nægja að vísa almennt til tiltekinna dómsskjala. Þá kemur ekki skýrlega fram í stefnu hvort verið sé eingöngu að krefjast bóta vegna galla á sameign eða hvort einnig sé verið að krefjast bóta vegna séreigna í húsinu. Sé svo þá hefur ekki verið gerð grein fyrir því hvernig stefnandi geti verið aðili að þeim kröfum.
Þá segir í stefnu að stefnandi eigi rétt til afsláttar ef framangreint leiði ekki til þess að stefndu verði taldir skaðabótaskyldir. Í engu er þess hins vegar getið af hvaða fjárhæð eigi að reikna afslátt. Af gögnum málsins má ráða að aðeins hluti núverandi íbúðaeigenda hafi á sínum tíma keypt þær af stefndu. Í stefnu er hins vegar ekki gerð grein fyrir því hvernig núverandi eigendur geti öðlast rétt til afsláttar úr hendi stefndu.
Í e-lið 1. mgr. 80. gr. einkamálalaganna segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða má málsástæður, sem stefnandi byggi málsókn sína á. Þá á og að greina önnur atvik málsins eins og þörf er á til að samhengi málsástæðna verði ljóst. Þessi lýsing á að vera svo gagnorð og skýr að ekki fari á milli mála hvert sakarefnið sé.
Eins og að framan hefur verið rakið skortir nokkuð á að stefnan sé í samræmi við framangreint ákvæði einkamálalaganna. Samhengi málsatvika og málsástæðna stefnanda er ekki svo ljóst að hægt sé að leggja dóm á málið í þeim búningi sem það er nú. Er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi og úrskurða stefnanda til að greiða hverjum hinna stefndu 75.000 krónur í málskostnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Málinu er vísað frá dómi og skal stefnandi, Húsfélagið Flétturima 2 - 8, greiða hverjum stefndu, Eggert Atlasyni, Atla Elfari Atlasyni og Ómari Atlasyni, 75.000 krónur í málskostnað.