Hæstiréttur íslands
Mál nr. 175/2006
Lykilorð
- Rán
- Fíkniefnalagabrot
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 19. október 2006. |
|
Nr. 175/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Gísla Val Eggertssyni og (Jón Egilsson hdl.) Andra Ragnarssyni(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Rán. Fíkniefnalagabrot. Skilorð.
G var sakfelldur fyrir rán og tilraun til ráns, auk fíkniefnalagabrots og dæmdur í 12 mánaða fangelsi. Var ránstilraunin framin í félagi við A. Þar sem G hafði ekki áður gerst sekur um brot á almennum hegningarlögum og með tilliti til ítarlegra upplýsinga, sem lágu fyrir dóminum um að G hefði náð tökum á fíkniefnaneyslu sinni, þótti fært að binda alla refsinguna almennu skilorði. A var einnig sakfelldur fyrir ránstilraun og fíkniefnalagabrot og dæmdur til 6 mánaða fangelsisrefsingar og með hliðsjón af sakarferli hans þótti ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. mars 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærðu en þyngingar á refsingu.
Ákærðu krefjast báðir mildunar refsingar.
Í niðurstöðu héraðsdóms var staðhæft vegna 1. ákæruliðar að ákærði Gísli Valur hafi verið vopnaður sveðju umrætt sinn, en tvö vitni höfðu borið á þann veg við meðferð málsins. Í ákæru er honum hins vegar gefið að sök að hafa verið með hníf og verður því við það miðað við ákvörðun refsingar. Hnífurinn fannst ekki, en ljóst er af gögnum málsins að blað hans var langt. Ákærði hefur ekki áður hlotið refsidóm fyrir hegningarlagabrot. Hann játaði brot sín undanbragðalaust. Með vísan til þessa svo og forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að refsing ákærða sé hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Ákærði hefur lengi átt við vímuefnavanda að stríða. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi lagði ákærði fram gögn um að hann hafi farið í áfengismeðferð í kjölfar þess að hann framdi brotin sem hér um ræðir. Samkvæmt ítarlegum gögnum sem hann lagði fyrir Hæstarétt mun hann enn halda sig frá neyslu vímuefna, hefur stundað nám með góðum árangri og fengið bestu meðmæli frá vinnuveitanda sínum. Að þessu virtu þykir rétt að fresta fullnustu refsingar hans og binda almennu skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.
Með vísan til forsendna héraðsdóms er á það fallist að ákærði Andri hafi gerst sekur um tilraun til ráns og fíkniefnalagabrot. Hann var dæmdur 9. mars 2005 í 6 mánaða fangelsi, en þar af var fullnustu þriggja mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir þjófnað, gripdeild, nytjastuld, hilmingu, fíkniefnalaga- og umferðarlagabrot. Ákærði var síðast dæmdur 8. júlí 2005 í fimm mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir þau brot sem í héraðsdómi greinir að öðru leyti en því að hann var ekki sakfelldur fyrir þjófnað heldur þjófnaðartilraun. Að öðru leyti er sakaferli ákærða rétt lýst í héraðsdómi. Sá dómur var hins vegar ekki birtur ákærða fyrr en 6. október síðastliðinn og hefur ákærði lýst því yfir að hann hafi tekið sér frest til ákvörðunar um áfrýjun dómsins. Af þessari ástæðu hefur dómurinn ekki áhrif á ákvörðun refsingar nú og verður ákærða ákveðin refsing sér í lagi fyrir ránsbrotið, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Í ljósi sakaferils ákærða þykir ekki fært að skilorðsbinda refsinguna.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.
Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðra verjenda þeirra, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði. Þá verður ákærði Andri dæmdur til að greiða útlagðan kostnað verjanda síns, eins og nánar er getið í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Gísli Valur Eggertsson, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, Andri Ragnarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærðu greiði óskipt 54.141 krónu í áfrýjunarkostnað. Að auki greiði ákærði Gísli Valur málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 311.250 krónur. Þá greiði ákærði Andri málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur og útlagðan kostnað hans 25.080 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 5. október 2005 á hendur Gísla Val Eggertssyni, [kt. og heimilisfang], og Andra Ragnarssyni, [kt. og heimilisfang], fyrir rán og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, framin í Reykjavík, sunnudaginn 10. júlí 2005:
1. Á hendur báðum ákærðu fyrir tilraun til ráns í versluninni A, sem þeir framkvæmdu sameiginlega, um kl. 12.30, eins og hér greinir:
Ákærðu fóru saman inn í verslunina með hulin andlit og var ákærði Gísli vopnaður hnífi og ákærði Andri vopnaður skrúfjárni. Ákærði Gísli ógnaði starfsmanni verslunarinnar, B, með hnífi og sagði henni að þeir væru að ræna verslunina. Ákærði Andri spurði hvar lyfið Mogadon væri geymt og leitaði síðan í lyfjaskápum verslunarinnar. Ákærðu hurfu á brott tómhentir.
Þetta er talið varða við 252. gr., sbr. 1. mgr. 20. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Á hendur ákærða Gísla fyrir rán á veitingastaðnum C, um kl. 13.40, með því að hafa farið inn á veitingastaðinn með hulið andlit og ógnað starfsmanni veitingastaðarins, D, með hnífi og skipað honum að afhenda sér peninga úr sjóðsvél veitingastaðarins, sem hann gerði. Ákærði hafði á brott með sér 10.500 krónur í reiðufé.
Þetta er talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga.
3. Á hendur ákærða Andra fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa haft í vörslum sínum 0,46 g af fíkniefninu MDMA þegar hann var handtekinn um kl. 14.00 á Gagnvegi. Efnið fannst við leit á ákærða á lögreglustöðinni, Hverfisgötu 113.
4. Á hendur ákærða Gísla fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa haft í vörslum sínum 0,27 g af hassi þegar hann var handtekinn um kl. 14.00 á Gagnvegi. Efnið fannst við leit á ákærða á lögreglustöðinni, Hverfisgötu 113.
Eru brot ákærða Andra samkvæmt 3. tölulið og ákærða Gísla samkvæmt 4. tölulið talin varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og að ofangreind fíkniefni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um fíkniefni og önnur eftirlitskyld efni.
Bótakrafa:
Af hálfu C, [kt.], er þess krafist að ákærði Gísli verði dæmdur til að greiða félaginu skaðabætur að fjárhæð 36.500 krónur, auk dráttarvaxta.
Ákærði Gísli Valur játar sök samkvæmt öllum liðum ákæru. Verjandi ákærða krefst þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Jafnframt krefst hann þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna.
Ákærði Andri neitar sök samkvæmt 1. tl. ákæru, en játar sök samkvæmt 3. tl. Verjandi ákærða krefst þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Jafnframt krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna.
1. tl. ákæru
Sunnudaginn 10. júlí 2005 kl. 12.35 var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um að menn vopnaðir hnífum hafi farið inn í verslunina A. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var tilkynnt um að mennirnir væru tveir, báðir dökkklæddir og með hulin andlit. Fram kemur að annar mannanna hafi verið með sveðju sem hann hafi ógnað fólki með. Mennirnir hafi farið út úr versluninni og annar þeirra hlaupið út um dyr á austurhlið hennar. Hinn aðilinn hafi farið um útgang á norðurhlið hússins. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi starfsfólk verslunarinnar verið búið að loka versluninni. Skúffur á bak við afgreiðsluborð hafi verið opnar og borið með sér að rótað hafi verið í þeim. Skrúfjárn hafi legið á gólfi fyrir aftan afgreiðsluborð. Starfsfólk hafi ekki orðið vart við að neinu hafi verið stolið úr versluninni. Í frumskýrslunni kemur jafnframt fram að sama dag kl. 13.50 hafi lögregla stöðvað akstur bifreiðarinnar E við Brekkuhús í Grafarvogi, en grunur hafi leikið á um að ökumaður bifreiðarinnar væri undir áhrifum áfengis. Ökumaður hafi reynst vera ákærði Gísli Valur, en meðákærði Andri setið í farþegasæti bifreiðarinnar. Er lögreglumaður hafi rætt við ákærðu hafi vaknað grunsemdir um að um væri að ræða sömu menn og farið hafi inn í verslunina A sama dag, en klæðnaður þeirra hafi komið heim og saman við lýsingu vitna. Hafi ákærðu báðir virst í annarlegu ástandi. Voru þeir handteknir og færðir á lögreglustöð til yfirheyrslna. Á lögreglustöð hafi ákærði Andri haft meðferðis efni er lögregla hafi telið vera fíkniefni. Einnig hafi fundist efni á ákærða Gísla Val, er lögregla hafi talið vera fíkniefni, sem og 9.500 krónur í reiðufé.
Samkvæmt skýrslu lögreglu reyndust vera til staðar myndir í eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar A frá því er ákærðu fóru inn í verslunina. Myndir frá því eru í skýrslu tæknideildar lögreglu, sem merkt er I/19-1 í rannsóknargögnum málsins.
Ákærði Gísli Valur gaf skýrslu hjá lögreglu 11. júlí 2005. Kvaðst hann viðurkenna að hafa farið inn í verslunina A 10. júlí 2005 ásamt meðákærða. Hafi þeir farið inn í verslunina í þeim tilgangi að ræna þar lyfjum. Bar ákærði að hann hafi verið undir miklum áhrifum fíkniefna á sunnudeginum og myndi hann því óljóst eftir atburðum. Hafi hann neytt fíkniefna frá 13 ára aldri, en verið án efna í samtals í 15 mánuði. Hafi hann ,,fallið” tveim vikum fyrir atburði. Ákærðu hafi ekið um á bifreiðinni E. Hafi þeir þá fengið þá hugmynd að ræna lyfjum úr versluninni A. Hafi þeir ekið upp að versluninni, hlaupið inn og ákærði verið með stóran hníf í hendi. Meðákærði hafi átt hnífinn. Meðákærði hafi verið með hníf eða ,,eitthvað annað” í hendi. Fljótlega eftir að ákærðu hafi verið komnir inn í verslunina hafi ákærði ,,gugnað” og flýtt sér út úr versluninni. Ekki kvaðst ákærði hafa ógnað starfsfólki verslunarinnar. Kvaðst hann ekki geta útilokað að meðákærði hafi spurt hvar lyfið Mogadon væri geymt. Það hafi þá verð eftir að ákærði var kominn út úr versluninni.
Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu síðar sama dag. Kvað hann ákærðu hafa verið að skemmta sér aðfaranótt sunnudagsins 10. júlí. Hafi þeir notað fíkniefni, sem þeir hafi klárað. Hafi þeir velt fyrir sér hvar þeir gætu orðið sér út um meiri efni. Þá hafi komið upp sú hugmynd að ræna lyfjaverslun til þess að útvega efni. Engin alvara hafi verið í því í fyrstu en síðar hafi þeir ákveðið að láta til skara skríða. Meðákærði hafi útvegað fatnað og hníf. Við svo búið hafi þeir ekið áleiðis að versluninni A. Ekki hafi verið fyrir fram ákveðið að fara í verslunina í [...], ákærðu hafi einfaldlega ekið þar framhjá. Ákærðu hafi ekkert tekið úr versluninni. Ákærði kvaðst hafa haft meðferðis hníf með um 15 cm löngu blaði, sem hafi verið einhverskonar skrauthnífur. Hann hafi verið bitlaus. Ákærði kvaðst hafa verið með hnífinn innanklæða þegar hann hafi farið inn í verslunina. Er hann hafi verið kominn inn hafi hann tekið hnífinn upp. Ákærði kvaðst telja að meðákærði hafi einnig verið með hníf umrætt sinn, þó svo hann gæti ekki fullyrt um það. Er ákærði hafi séð konu hlaupa í burtu frá sér hafi ákærði ,,gugnað.” Hafi hann við svo búið farið út úr versluninni.
Fyrir dómi bar ákærði á sama veg um atvik. Kvað hann meðákærða hafa gefið sér einhverja lyfjatöflu sem farið hafi illa í ákærða. Í framhaldinu hafi þeir farið úr húsi og sú atburðarás orðið sem hér að framan hefur verið rakin. Kvaðst ákærði telja að ákærðu hafi farið nánast á sama tíma inn í verslunina. Meðákærði hafi farið lengra inn í verslunina og á bak við afgreiðsluborðið. Ekki kvaðst ákærði hafa tekið eftir hvort meðákærði hafi hótað starfsfólki verslunarinnar. Meðákærði hafi verið með skrúfjárn eða hníf í hendi. Ákærði hafi yfirgefið verslunina og meðákærði komið út 30 til 40 sekúndum síðar. Ákærði kvaðst ekki hafa ógnað neinum með þeim hnífi er hann hafi haldið á. Kona í nágrenni við ákærða hafi orðið hrædd en aðrir haldið ró sinni. Ákærði kvaðst hafa verið með nælonsokk á höfði er hann hafi farið inn í verslunina. Hafi hann sennilega verið með sólgleraugu á höfði. Gleraugun hafi hann fengið heima hjá meðákærða. Ákærði kvaðst hafa játað verknaðinn hjá lögreglu. Málið allt hafi breytt líferni ákærða. Hafi hann ekki neytt áfengis eða efna frá því hann hafi verið vistaður í fangageymslu vegna málsins. Hafi hann farið í meðferð vegna fíkniefnaneyslu. Kvaðst hann vera byrjaður í skóla og stefna á að halda námi áfram. Kvaðst hann hafa sent afsökunarbréf til starfsfólks verslunarinnar, en hann hafi séð mjög eftir því sem hann hafi gert.
Ákærði Andri gaf skýrslu hjá lögreglu 11. júlí 2005. Kvað hann meðákærða hafa farið um 2 mínútum á undan sér inn í verslunina A 10. júlí 2005. Ekki hafi verið farið inn í verslunina til að ræna þaðan lyfjum eða öðru. Enginn hafi verið í versluninni er ákærði hafi komið inn og hafi hann ,,notað tækifærið” til þess að ná í eitthvað. Ekki kvaðst ákærði kannast við að annar ákærðu hafi verið með sveðju í hendi inni í versluninni eða hafa hrópað á starfsfólk um afhenda lyfið Mogadon. Er ákærði var beðinn um að gera grein fyrir ferðum sínum nefndan sunnudag kvaðst hann ekki geta það þar sem hann myndi ekki eftir deginum.
Ákærði gaf á ný skýrslu hjá lögreglu síðar sama dag. Kvað hann meðákærða hafi langað að fremja rán. Er borinn var undir ákærða framburður meðákærða hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa verið fullur og ,,útúrdópaður” á sunnudeginum og myndi hann ekki eftir neinu. Ákærði kvaðst þó muna eftir því að meðákærði hafi verið með skrauthníf í hendi þennan dag. Hnífinn kvaðst ákærði hafa fundið. Ekki kvaðst hann vita hvar hnífurinn væri niðurkominn, en hann væri með um 15 cm löngu bitlausu blaði. Ákærði kvaðst einungis hafa verið með bakpoka meðferðis er hann hafi farið inn í verslunina. Ekki hafi hann verið með skrúfjárn í hendi.
Fyrir dómi bar ákærði að ákærðu hafi verið saman nefndan sunnudag í júlí 2005. Þá hafi kviknað hugmynd um að fara í verslunina A. Sú hugmynd hafi borist í tal skömmu áður en ákærðu hafi farið inn í verslunina. Ákærðu hafi hulið andlit sín og sennilega verið með sólgleraugu á höfði. Ákærðu hafi farið inn í verslunina og meðákærði verið á undan inn. Ekkert fólk hafi verið inni í versluninni á þessum tíma. Hafi ákærði gengið á bak við afgreiðsluborðið, opnað skúffur og rótað í þeim. Hafi hann þá tekið upp skrúfjárn sem hann hafi ætlað að nota til að opna skúffur. Skrúfjárnið hafi ákærði skilið eftir. Hafi ákærði engin lyf fundið og hlaupið út úr versluninni. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum efna á þessum tíma og hafi hann í raun ekkert vitað hvað hann var að gera. Ákærði kvaðst minnast þess að hafa tekið tösku með sér að heiman sem eitthvað af dóti hafi verið í. Ekki kvaðst ákærði muna hvort hann hafi tekið dót sérstaklega til og sett í töskuna á heimili sínu. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa hrópað á starfsfólk verslunarinnar um að afhenda lyfið Mogadon. Ekki kvaðst ákærði hafa rætt við neinn á meðan hann hafi verið inni í versluninni eða hafa ógnað neinum þar inni. Ákærði kvaðst hafa farið í afplánun eftir að hann hafi verið handtekinn, en hann hafi afplánað 3ja mánaða fangelsisdóm. Eftir að hann hafi losnað út hafi hann farið að vinna og hafi hann stundað vinnu samfellt síðan. Ekki hafi hann notað áfengi eða fíkniefni frá því hann hafi verið handtekinn.
B kvaðst hafa verið við störf í versluninni A þennan dag. Hafi hún verið að aðstoða viðskiptavin við afgreiðsluborð verslunarinnar. Skyndilega hafi maður klæddur í dökk föt staðið við afgreiðsluborðið. Hafi hann verið með sokk á höfði og sveðju í hendi. Hafi hann sagt að hann væri kominn til að ræna. Kvaðst B hafa forðað sér út um bakdyr verslunarinnar. Í sama mund hafi hún séð annan mann koma inn í verslunina. Hafi sá hlaupið á eftir henni og hrópað ,,heyrðu, heyrðu.” Kvaðst B hafa farið út og hringt á lögreglu, sem fljótlega hafi komið á vettvang. Kvaðst B hafa verið í um eins metra fjarlægð frá þeim er hafi haldið sveðjunni á lofti við afgreiðsluborðið. Kvaðst hún seinna hafa frétt að mennirnir hafi verið að leita að lyfjum í versluninni. Ekki kvaðst B hafa veitt því eftirtekt hvort hinn maðurinn hafi verið vopnaður er hann hafi komið inn í verslunina. Hafi henni fundist henni stafa mikil ógn af þeim er hafi verið með sveðjuna þar sem hún hafi óttast að hann myndi beita vopninu. Er hún hafi farið yfir atburði eftirá hafi henni hins vegar fundist drengurinn frekar sakleysislegur, en hann hafi ekki verið æstur.
F kvaðst hafa verið við vinnu í versluninni umrætt sinn. Hafi hún unnið bakatil í versluninni og verið að horfa á skjá eftirlitsmyndavélakerfis verslunarinnar. Á skjánum hafi hún séð dökkklæddan mann, með hettu eða húfu, ganga að afgreiðsluborði. Hafi henni fundist eitthvað óeðlilegt við viðkomandi og því fært sig nær skjánum. Í því hafi maðurinn tekið upp stóran hníf sem hafi orðið til þess að starfsmaður verslunarinnar hafi fært sig frá afgreiðsluborðinu. Í sama mund hafi F sagt við G, samstarfsfélaga sinn, að verið væri að ræna verslunina. Í því hafi annar dökkklæddur maður komið inn í verslunina og farið inn fyrir afgreiðsluborðið, nærri F. B og G hafi forðað sér út um bakdyr verslunarinnar. Maðurinn hafi kallað á eftir þeim, en sennilega ekki tekið eftir F. Hafi hún staðið grafkyrr á meðan þetta hafi gerst en hún hafi óttast að maðurinn myndi taka eftir sér og hugsanlega gera sér mein. Maðurinn hafi hins vegar farið aftur að afgreiðsluborðinu og farið að leita í skúffum. Í þann mund hafi F ýtt á neyðarhnapp og farið út um bakdyrnar. Hún hafi farið úr slopp sínum og farið aftur inn í verslunina um aðalinnganginn. Sá mannanna sem hafi komið inn fyrir afgreiðsluborðið hafi þá verið á leið út úr versluninni og hafi hann horfið út úr verslunarmiðstöðinni við verslun [...]. F kvað þann mannanna sem komið hafi inn fyrir afgreiðsluborðið hafa verið með skrúfjárn í hendi. Hafi hann sýnt að hann væri með vopn í hendi til að hræða afgreiðslufólkið. Hafi hann hins vegar ekki látið mikið á skrúfjárninu bera. F kvað sér hafa stafað ógn af mönnunum. Af þeirri ástæðu hafi hún flúið út úr versluninni, en hún hafi óttast að maðurinn myndi beita vopninu ef hún færi ekki að fyrirmælum hans.
G kvaðst hafa verið við vinnu sína í versluninni A þennan dag. Hafi hún setið við ,,læknasíma” í lyfjabúri verslunarinnar fyrir innan afgreiðsluborð. F hafi setið skammt frá og horft í skjá eftirlitsmyndavélakerfis verslunarinnar. Hafi hún skyndilega sagt að verið væri að ræna verslunina. Hafi G og B hlaupið út um bakdyr. Hafi hún því ekki séð mennina berum augum. Hafi hún aðgætt með hvort einhver lyf hafi verið tekin eftir að mennirnir hafi verið horfnir. Ekki hafi hún orðið vör við það.
H kvaðst hafa verið stödd í versluninni A þennan dag, er hún hafi tekið eftir tveimur mönnum sem hafi komið að verslunarmiðstöðinni. Hafi hún tekið eftir að þeir hafi báðir verið dökkklæddir og með grímur eða eitthvað þess háttar fyrir andlitum. Hafi hún hætt að veita þeim athygli og verið að skoða tiltekna hluti í versluninni með aðstoð afgreiðslukonu. Skyndilega hafi maður, með nælonsokk fyrir andlitinu, komið að þeim. Hafi hann dregið sveðju út úr erminni, otað eða sveiflað henni að H og afgreiðslukonunni og sagt eitthvað eins og að þær skyldu vera rólegar, hann vildi eingöngu fá lyfið Mogadon. Við þetta hafi afgreiðslukonan hljóðað upp yfir sig og hlaupið út úr versluninni um bakdyr. Í því hafi hinn maðurinn komið inn í verslunina og hlaupið á eftir afgreiðslukonunni. Fljótlega hafi hann snúið við og farið að gramsa í skúffum bak við afgreiðsluborðið. Hinn hafi stuttu síðar stungið sveðjunni aftur inn í ermina og farið út úr versluninni, nokkuð á undan hinum. Sá síðari hafi tekið eitthvað í fangið og farið út. Ekki hafi hún séð hann með vopn í hendi. Mennirnir hafi verið frekar rólegir og hafi H því ákveðið að vera róleg sjálf, en hún hafi staðið hreyfingalaus allan tímann. Hafi henni ekki endilega fundist sem þeir myndu gera sér neitt. Hafi hún tekið eftir að sá með sveðjuna hafi verið frekar sljór og hægur.
Kristján Ágúst Kristjánsson lögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Kvað hann lögreglu hafa komið að versluninni A eftir að ákærðu hafi verið horfnir á braut. Hafi vitni lýst þeim aðilum er hafi komið inn í verslunina. Þar hafi komið fram að mennirnir hafi verið dökkklæddir og annar þeirra með hníf eða sveðju í hendi. Ákærðu hafi verið handteknir síðar sama dag. Hafi þeir þá virst vera í annarlegu ástandi.
Niðurstaða:
Ákærðu hafa viðurkennt að hafa farið inn í verslunina A sunnudaginn 10. júlí 2005 og að hafa haft í hyggju að nálgast þar fíkniefni. Hafa ákærðu einnig viðurkennt að þeir hafi farið inn með hulin andlit og ákærði Gísli Valur viðurkennt að hann hafi verið með hníf í hendi, sem hann hafi sýnt starfsmanni í versluninni. Ákærði Andri hefur viðurkennt að hafa verið með skrúfjárn meðferðis, en fullyrt að það hafi verið geymt í bakpoka er hann hafi verið með og að hann hafi einungis tekið skrúfjárnið upp til að opna læstar skúffur í versluninni.
Fyrir dóminn hafa komið starfsmenn verslunarinnar og viðskiptavinur. Eru vitni þessi samhljóða um að annar þeirra manna er komu inn í verslunina hafi verið með hulið andlit og vopnaður stórum hnífi. Er slegið föstu að þar hafi farið ákærði Gísli Valur. B hefur borið að hún hafi verið að aðstoða viðskiptavin er ákærði kom að henni og hafi henni ekki dulist að rán væri yfirvofandi. Á sama veg hefur H borið, en B var að aðstoða hana við afgreiðsluborðið við val á varningi. Þá hefur F, sem var rétt fyrir innan afgreiðsluborðið, borið að hún hafi orðið þess áskynja að verið væri að fremja rán í versluninni er ákærðu komu inn í verslunina. Af ótta við ákærðu fóru þrír starfsmenn verslunarinnar út um bakdyr verslunarinnar.
Ákærðu hurfu af vettvangi án þess að taka til sín lyf, annan varning eða fjármuni. Óljóst er hvort þeir hafi haft með sér á brott sprautur eða líka hluti, sem hafa í það minnsta haft takmarkað verðgildi. Var brot þeirra því ekki fullframið. Atburðarás sú sem hér hefur verið rakin kemur glöggt fram á myndum úr eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar. Þó sýnir engin myndanna ákærða Andra með skrúfjárn í hendi ógna starfsmönnum. Hins vegar er hann með bakpoka, sem samræmist framburði hans sjálfs. Er ósannað að ákærði Andri hafi farið inn í verslunina með skrúfjárn sem hann hafi notað sem vopn. Þá liggur ekki fyllilega ljóst fyrir hvor þeirra eða hvort kallað hafi verið eftir lyfinu Mogadon í versluninni. Með vísan til alls framanritaðs slær dómurinn föstu að ákærðu hafi í félagi farið inn í verslunina í þeim tilgangi að nálgast lyf og að í yfirbragði þeirra og framferði hafi falist hótun um að beita líkamlegu ofbeldi. Að gættu því sem hér að framan hefur verið rakið og snertir verknaðarlýsingu ákæru verða ákærðu báðir sakfelldir samkvæmt 1. tl. ákæru. Er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
2. tl. ákæru
Sunnudaginn 10. júlí 2005 kl. 13.40 barst lögreglunni í Reykjavík tilkynning um rán á veitingastaðnum C. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að maður hafi ógnað starfsmanni veitingastaðarins með hnífi og að hann hafi haldið á brott af staðnum með einhverja fjármuni meðferðis. Hafi manninum verið lýst þannig að hann hafi verið með nælonsokk yfir höfði, sólgleraugu og í svörtum jakka. Á staðnum hitti lögregla fyrir tilkynnanda og starfsmann veitingastaðarins er afhenti fjármunina. Kl. 13.50 þennan dag stöðvað lögregla akstur bifreiðarinnar E við Brekkuhús í Grafarvogi, en grunur lék á um að ökumaður bifreiðarinnar væri undir áhrifum áfengis. Ökumaður reyndist vera ákærði Gísli Valur. Í viðræðum lögreglumanns við ákærða og farþega vöknuðu grunsemdir um að þar færi sá er farið hafði inn í veitingastaðinn C þann sama dag, en klæðnaður mannsins kom heim og saman við lýsingu vitna. Hafi ákærði virst í annarlegu ástandi. Var hann handtekinn og færður á lögreglustöð. Á ákærða fundust 9.500 krónur í reiðufé.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 11. júlí 2005. Viðurkenndi hann að hafa framið rán á veitingastaðnum C 10. júlí 2005. Ákærði kvað sig hafa vantað peninga til fíkniefnakaupa. Ákærði og félagi hans hafi komið að veitingastaðnum á bifreið og lagt henni í nágrenninu. Hafi ákærði farið inn á staðinn með hníf falinn í ermi sinni. Er inn í afgreiðslusal veitingastaðarins kom hafi ákærði dregið hnífinn fram, sýnt afgreiðslumanni hann um leið og ákærði hafi beðið hann um að láta sig fá peninga. Afgreiðslumaðurinn hafi opnað kassa og látið hann fá um 10.000 krónur í reiðufé. Að því loknu hafi ákærði hraðað sér út í bifreiðina og haldið á brott. Ákærði kvaðst ekki hafa hótað starfsmanninum lífláti. Ákærði kvað geta staðist að hann hafi verið með nælonsokk yfir höfði og sólgleraugu, klæddur í svartan vindjakka og svartar buxur. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Gaf hann skýrslu hjá lögreglu síðar þennan sama dag. Kvað hann hugmynd að því að ræna staðinn hafa kviknað hjá sér í þann mund er hann hafi gengið inn á staðinn. Hafi ákærði verið með lítinn hníf á sér sem hann hafi tekið fram um leið og hann hafi sagt afgreiðslumanni að láta sig fá peninga.
Fyrir dómi bar ákærði að hann hafi ætlað að fá sér að borða á veitingastaðnum. Hafi kviknað hugmynd um að ræna staðinn er hann hafi gengið inn. Kvaðst ákærði hafa verið rólegur á meðan á þessu hafi staðið, en hann hafi samt verið orðinn mjög veikur. Ákærði kvaðst hafa verið með lítinn hníf meðferðis og sennilega nælonsokk á höfði og sólgleraugu. Ákærði kvaðst muna atburðina illa. Hafi hann beðið um að fá peninga og í kjölfarið fengið þá. Peningana hafi ákærði fengið úr einum kassa, en aðrir kassar hafi verið læstir. Hafi hann sennilega fengið um 9.000 krónur afhentar. Ákærði kvaðst telja að afgreiðslumaður á veitingastaðnum, og annar til er hafi verið nálægur, hafi báðir séð að ákærði hafi verið í mjög slæmu ástandi.
D kvaðst hafa verið við vinnu á veitingastaðnum C er þessir atburðir hafi átt sér stað. Hafi hann verið við afgreiðsluborð þegar maður með nælonsokk dreginn yfir andlitið og sólgleraugu hafi komið inn á staðinn. Hafi maðurinn sagt eitthvað sem D hafi ekki heyrt. Hafi D því hallað sér fram yfir afgreiðsluborðið og maðurinn þá spurt D hvort hann vildi deyja. Jafnframt hafi maðurinn sýnt D hnífsblað sem hann hafi dregið upp úr hægri jakkavasa. Um leið hafi maðurinn sagt ,,reddaðu mér peningum.” D kvaðst þá hafa opnað peningakassa, tekið úr honum 9.500 krónur og rétt manninum. Maðurinn hafi ekki verið sáttur við það og beðið D um að opna aðra peningakassa. Hafi D opnað annan kassa sem hafi reynst tómur. Hafi D þá spurt manninn að því hvort hann ætti að ná í lykla að öðrum kössum. Maðurinn hafi þá sagt að D skyldi ekki vera með læti og ítrekað að D skyldi opna peningakassana. D hafi farið inn á skrifstofu til að ná í lykla og mætt manninum sem hafi verið kominn inn fyrir afgreiðsluborðið. D hafi opnað aðra peningakassa og í einum verið 1.000 krónur. Maðurinn hafi tekið þá fjármuni. Eftir þetta hafi maðurinn gengið út af staðnum. Þá hafi D ýtt á neyðarhnapp. Jafnframt hafi hann hringt á lögreglu. Við skýrslugjöf hjá lögreglu bar D að honum hafi þótt maðurinn ógnandi þegar hann hafi sýnt honum hnífinn. Maðurinn hafi hins vegar ekki verið æstur. Hafi D verið hræddur við manninn, sérstaklega eftir að hann hafi verið kominn inn fyrir afgreiðsluborðið. Fyrir dómi bar D að sér hafi ekki virst maðurinn beint hættulegur eða ógnandi. Hafi hann áttað sig á að um rán væri að ræða er maðurinn hafi spurt hvort D vildi deyja.
Niðurstaða:
Ákærði hefur játað sök. Hefur hann viðurkennt að hafa farið inn á veitingastaðinn C með hulið andlit, ógnað starfsmanni veitingastaðarins með hnífi og skipað honum að afhenda sér peninga úr sjóðsvél staðarins. Ákærði kveðst hafa haft á brott með sér um 9.000 krónur í reiðufé. D, starfsmaður veitingastaðarins, bar að ákærði hafi ógnað sér með því að sýna sér hníf er hann hafi haft í hendi. Í framhaldinu hafi D afhent ákærða samtals 10.500 krónur í reiðufé. Samkvæmt bréfi veitingastaðarins C frá 29. júlí 2005 er staðhæft að ákærði hafi haft á brott með sér 10.500 krónur af veitingastaðnum. Með öllu þessu verður slegið föstu að ákærði hafi haft 10.500 krónur af starfsmanni veitingastaðarins C með háttsemi sem í fólst hótun um líkamlegt ofbeldi. Með því hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 252. gr. laga nr. 19/1940.
3. tl. ákæru
Ákærði Andri hefur skýlaust játað háttsemi samkvæmt þessum lið ákæru. Játning hans samrýmist gögnum málsins. Með hliðsjón af því verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum lið og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
4. tl. ákæru
Ákærði Gísli Valur hefur skýlaust játað háttsemi samkvæmt þessum lið ákæru. Játning hans samrýmist gögnum málsins. Með hliðsjón af því verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum lið og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði Gísli Valur er fæddur 1981. Hann gekkst undir sátt hjá lögreglustjóra 25. október 2000 fyrir brot gegn umferðarlögum. Þá gekkst hann undir viðurlagaákvörðun í héraðsdómi 16. nóvember 2004 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir fullframið brot gegn 252. gr. laga nr. 19/1940, sem og tilraun til brots gegn sama ákvæði, auk þess sem hann hefur verið sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði hefur fullyrt að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna 10. júlí 2005. Framburðir vitna styðja þá staðhæfingu ákærða, enda voru hann og meðákærði í leit að fíkniefnum er þeir fóru saman inn í verslunina A. Ákærði var vopnaður sveðju, sem gat leitt til alvarlegra atburða miðað við ástand ákærða. Sveðjan kann þó að hafa verið hættuminni en útlit hennar gaf tilefni til að ætla. Verður að telja að þeir er urðu á vegi ákærða þennan dag hafi mátt ætla að þeim væri töluverð hætta búin af ákærða og félaga hans. Á hinn bóginn er til þess að líta að ákærði fór ekki fram með miklu offorsi þennan dag, hvorki í versluninni A eða á veitingastaðnum C. Með vísan til alls þessa, sbr. og 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Ákærði hefur gert þá grein fyrir högum sínum að hann sé nú hættur allri neyslu fíkniefna og hafi farið í áfengismeðferð í kjölfar þessara atburða. Hafa verið lögð fram í réttinum vottorð þessu til stuðnings. Þá hefur hann gert grein fyrir því að hann sé í skóla. Hafa einnig verið lögð fram vottorð því til stuðnings. Er að mati dómsins unnt að líta til þessara atriða við ákvörðun refsingar ákærða, en þau, ásamt sakaferli ákærða, leiða til þess að unnt er að skilorðsbinda hana að hluta til með þeim hætti er í dómsorði er kveðið á um.
Ákærði Andri er fæddur 1983. Á hann að baki nokkurn sakaferil. Var hann 1. september 2000 dæmdur til greiðslu sektar vegna nytjastulds og umferðarlagabrota. Þann 21. desember 2001 gekkst ákærði undir sátt gegn greiðslu sektar vegna umferðarlagabrots. Þá var hann 2. júlí 2003 dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi í tvö ár fyrir þjófnað og fíkniefnabrot. Þann 9. október 2003 var hann dæmdur í sekt vegna fíkniefnabrots og 19. nóvember sama ár var hann dæmdur til greiðslu sektar vegna umferðarlagabrots. Þá gekkst hann 16. febrúar 2004 undir greiðslu sektar vegna sviptingaraksturs. Hann var 9. mars 2005 dæmdur í 6 mánaða fangelsi, þar sem þrír mánuðir voru bundnir skilorði til þriggja ára. Var um að ræða brot gegn fíkniefnalögum, umferðarlögum og 245., 254. og 1. mgr. 259. gr. laga nr. 19/1940. Var dómurinn frá 2. júlí 2003 dæmdur með. Ákærði gekkst undir sátt 12. maí 2005 hjá sýslumanni fyrir brot gegn 244. gr. laga nr. 19/1940 og aftur 16. júní 2005 fyrir brot gegn umferðarlögum. Loks var ákærði 8. júlí 2005 dæmdur í 5 mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 157. gr., 1. mgr. 244. gr., 246. gr. og 263. gr. laga nr. 19/1940, umferðar- og fíkniefnalögum. Var hinn skilorðsbundni hluti refsidómsins frá 9. mars 2005 þá dæmdur með. Brot ákærða í þessu máli eru framin tveim dögum eftir að refsidómurinn frá 8. júlí 2005 var kveðinn upp. Ber nú að fara með dóminn eftir ákvæðum 60. gr. laga nr. 19/1940 og ákvarða ákærða refsingu í einu lagi fyrir hina skilorðsbundnu refsingu og þau brot sem hér er dæmt um eftir ákvæðum 77. gr. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir tilraun til ráns í versluninni A og fíkniefnalagabrot. Samkvæmt 252. gr. laga nr. 19/1940 skal sá sem gerst hefur sekur um brot á ákvæðinu sæta fangelsi að lágmarki 6 mánuðum. Fyrir tilraun til brots má dæma lægri refsingu en mælt er um fullframin brot, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 19/1940. Er unnt að líta til þess við ákvörðun refsingar í málinu. Ákærðu höfðu fyrirfram sammælst um að fremja vopnað rán þennan dag. Í ljósi þessa, sem og með hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Þó svo ákærði hafi gert grein fyrir breyttum högum sínum eftir að hann átti hlut að ránstilrauninni 10. júlí 2005 er í ljósi sakaferils hans ekki fært að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.
Ákærði Gísli Valur hefur mótmælt skaðabótakröfu C í málinu. Bótakröfunni hefur ekki verið fylgt eftir við meðferð málsins fyrir dómi. Er hún vanreifuð og verður vísað frá dómi.
Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs fíkniefni er lagt var hald á við rannsókn málsins.
Um sakarkostnað fer sem hér segir. Ákærðu greiði í félagi sakarkostnað að fjárhæð 30.735 krónur, sem til fellur vegna reikninga frá Öryggismiðstöð Íslands hf. og Vöku ehf. Ákærði Gísli Valur greiði einn sakarkostnað að fjárhæð 33.615 krónur, sem er þóknun til verjanda á rannsóknarstigi málsins. Þá greiði ákærði Andri einn sakarkostnað að fjárhæð 59.500 krónur, sem er þóknun verjanda á rannsóknarstigi málsins. Að auki greiði ákærðu tildæmd málsvarnarlaun að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir fulltrúi ríkissaksóknara.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Gísli Valur Eggertsson, sæti fangelsi í 12 mánuði. Fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsivistinni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, Andri Ragnarsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.
Skaðabótakröfu C, [kt.], er vísað frá dómi.
Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 0,46 g af fíkniefninu MDMA og 0,27 g af hassi, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.
Ákærðu greiði í félagi 30.735 krónur í sakarkostnað. Að auki greiði ákærði Gísli Valur 33.615 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns 109.560 krónur. Þá greiði ákærði Andri 59.500 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Jóns Höskuldssonar héraðsdómslögmanns 109.560 krónur.