Hæstiréttur íslands
Mál nr. 169/2004
Lykilorð
- Líkamsárás
- Dómari
- Sýkna
|
|
Fimmtudaginn 25. nóvember 2004. |
|
Nr. 169/2004. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Líkamsárás. Dómarar. Sýkna.
X var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa stungið Y með hnífi vinstra megin í brjósthol með þeim afleiðingum að hún hlaut stungusár sem gekk inn í brjósthol, brot á rifbeini og loft lak undir húð. X, Y og Z höfðu setið að drykkju á aðfangadag í íbúð Y og voru öll undir áhrifum áfengis og lyfja. Um kvöldið hringdi Z í lögreglu og tilkynnti að Y hafi verið stungin með hníf og árásarmaðurinn væri farinn af vettvangi. Er lögregla kom á vettvang var X með blóð á nefi og blóðkám var einnig á framanverðum bol, sem hann klæddist. Z var blóðug á höndum og andliti. Mikil óreiða og óþrifnaður var í íbúðinni. Blóðug skæri fundust á stofugólfinu þar sem Y lá. Samkvæmt niðurstöðu DNA rannsóknar reyndist blóðið vera úr Y. Gat Y ekki borið af eigin raun hver stakk hana, en minnist þess þó að hafa verið að rífast við Z skömmu áður en atlagan átti sér stað. Framburður Z um málsatvik var mjög á reiki. Þannig bar hún fyrst að ókunnugur maður hafi verið að verki, en dró síðan þann framburð til baka og kvað X vera sökudólginn. Við meðferð málsins fyrir dómi kvað hún svo annan nafngreindan mann hafa verið í íbúðinni, en sagðist ekki vita hvenær hann fór. Á þennan mann hafði hún ekki minnst í skýrslum sínum við lögreglurannsókn. Hans var heldur ekki getið í framburði annarra. Samkvæmt niðurstöðu DNA rannsóknar fannst saman við blóð Y, sem var á umræddum skærum, minni háttar magn af DNA, sem komið var frá öðrum karlmanni en ákærða. Af læknisvottorðum og framburði lækna, sem höfðu afskipti af Y, varð ekki ráðið hvort Y var stungin með skærum eða hníf. X hvorki neitaði né játaði að hafa framið verknaðinn en bar við minnisleysi. Ekki var talið unnt að draga þann framburð í efa þegar litið var til ástands hans. Var ekki talin komin fram lögfull sönnun þess að X hafi framið verknaðinn, sem hann var ákærður fyrir. Var hann því sýknaður af kröfu ákæruvalds í málinu. Var miskabótakröfu Y því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. apríl 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða og þyngingar á refsingu. Jafnframt krefst ákæruvaldið þess að höfuðstóll miskabóta, sem ákærða var með héraðsdómi gert að greiða Y, verði hækkaður í 1.000.000 krónur.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara sýknu. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að bótakröfu Y verði aðallega vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.
I.
Ákærði krefst ómerkingar hins áfrýjaða dóms á þeirri forsendu að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum. Ákvæðið felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skuli skipa dóm í máli ef sýnt þykir, að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Ræðst nauðsyn þessa úrræðis af aðstæðum hverju sinni.
Í máli þessu er ákærða gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás á Y með því að hafa að kvöldi 24. desember 2002 á heimili hennar stungið hana með hníf vinstra megin í brjósthol með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Þegar lögregla kom á vettvang lá Y upp við sófa á gólfi íbúðarinnar og kom síðar í ljós við læknisrannsókn að hún hafði verið stungin með eggvopni. Á vettvangi voru auk brotaþola ákærði og Z. Voru þau öll ölvuð og í annarlegu ástandi. Bar Z þá við lögreglumenn að ókunnur maður hefði verið hér að verki og mun ákærði hafa tekið undir það. Þessa staðhæfingu dró hún til baka seinna um kvöldið. Síðar við rannsóknina var framburður hennar á þann veg að hún hafi lent í átökum við Y. Hún hafi kallað í ákærða sem hafi komið henni til aðstoðar. Ákærði hafi í framhaldi þess stungið Y. Hún hafi eftir stunguna séð hann með blóðugan hníf í hendinni og hann beðið hana að losa sig við hnífinn. Hún hafi því hent hnífnum fram af svölum íbúðarinnar. Í skýrslum sínum fyrir lögreglu kvaðst Y ekki vita hver stakk hana en telja að það hafi verið ákærði, þar sem hún efaðist um að Z hefði gert það. Ákærði, sem þá bjó á heimili Y, kvaðst hafa drukkið áfengi og tekið inn lyf umrætt sinn og ekkert muna eftir þegar Y var stungin. Hann minntist þess þó að hafa annað hvort haldið á hnífnum eða dregið hann úr sárinu. Z hafi síðan tekið hnífinn og farið með hann út á svalir. Við yfirheyrslurnar bar Y og Z saman um að ekki hafi verið öðrum til að dreifa í íbúðinni en þeim og ákærða er atburðurinn varð, enda hafi A, sem kom með Z fyrr um daginn á heimili Y, verið farinn. Er þetta í samræmi við vætti vitna, sem yfirheyrð voru hjá lögreglu. Í héraðsdómi eru rakin þau sönnunargögn, sem aflað var við lögreglurannsóknina, meðal annars læknisvottorð og niðurstaða DNA rannsóknar á tilteknum fatnaði ákærða og Z, blóðugum hníf, sem lögregla fann í garði við húsið samkvæmt ábendingu Z og blóðugum skærum, sem fundust á stofugólfi íbúðarinnar.
Ákærði er sakaður um líkamsárás, sem getur varðað hann fangelsi allt að 16 árum ef sök er sönnuð. Hann neitaði sakargiftum við þingfestingu málsins. Þegar jafnframt er litið til þess hvernig áðurgreindum framburði ákærða og vitna var háttað við rannsókn málsins var full ástæða til að skipa dóminn þremur héraðsdómurum, enda lá fyrir að niðurstaða málsins hlaut að verulegu leyti að ráðist af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Þrátt fyrir þessa annmarka þykir ekki rétt, eins og málið liggur fyrir, að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað.
II.
Fram kemur í gögnum málsins að Z hringdi í fjarskiptamiðstöð lögreglu og tilkynnti að Y hefði verið stungin með hníf og árásarmaðurinn væri farinn af vettvangi. Er lögregla kom á vettvang var ákærði með blóð á nefi og blóðkám var einnig á framanverðum bol, sem hann klæddist. Z var blóðug á höndum og andliti. Mikil óreiða og óþrifnaður var í íbúðinni. Blóðug skæri fundust skammt frá sófa á stofugólfinu þar sem Y lá. Samkvæmt niðurstöðu DNA rannsóknar reyndist blóðið vera úr Y. Má sjá af ljósmyndum tæknideildar lögreglu af skærunum að blóðið nær um þrjá cm upp á egg þeirra.
Z og ákærði tjáðu lögreglu á vettvangi að ónafngreindur maður hefði ráðist á Y og veitt henni áverkann. Gaf Z nokkuð nákvæma lýsingu á manninum. Sem fyrr segir viðurkenndi hún skömmu síðar að hafa átt upptökin af því að spinna upp þessa frásögn. Ákærði hafi svo tekið undir með henni. Z kvaðst hafa gert þetta til að verja ákærða, sem henni þætti vænt um. Vísaði hún í framhaldi af því lögreglu á áðurnefndan hníf, sem hún sagðist hafa hent út af svölunum út í garðinn að beiðni ákærða. Hnífurinn fannst í garðinum á stað, sem gat komið heim og saman við frásögn hennar. Blóð var á hnífnum, sem reyndist vera úr Y samkvæmt niðurstöðu DNA rannsóknarinnar. Er haft eftir Z í frumskýrslu lögreglu að þær Y hafi verið að þrasa og Y rifið í hár hennar. Z hafi því kallað á ákærða að hjálpa sér og hafi ákærði þá stungið Y, sem hafi sleppt takinu á hárinu og fallið í gólfið. Z hafi ekki séð ákærða gera þetta, en séð hann með hnífinn í hendinni. Í skýrslu sinni hjá lögreglu daginn eftir lýsti Z aðdraganda þess að þær Y lentu í handalögmálum á þann veg, að Y hafi verið afbrýðisöm út í sig, en Z og ákærði hafi áður átt í ástarsambandi. Y hafi ráðist á sig, rifið í hárið á sér og ekki sleppt takinu þrátt fyrir að Z öskraði og því hafi hún kallað á ákærða sér til hjálpar. Hann hafi komið og staðið við hlið þeirra. Y hafi þá sleppt takinu og fallið milli sófa og borðs. Ákærði hafi þá verið með hnífinn blóðugan í hendi. Hún hafi hent hnífnum að beiðni hans fram af svölunum og í framhaldi þess gætt að Y. Nokkuð hafi blætt úr sárinu og hún þurrkað það með peysu sinni. Hún kvaðst ekki vita ástæðu þess að ákærði stakk Y. Í skýrslu 13. janúar 2003 bar Z í meginatriðum á sama veg. Sagði hún að þær Y hafi ekki verið „miklar vinkonur“ þar sem Z og ákærði hafi verið í „einhverju sambandi sl. sumar”. Þær hafi setið í sófa í stofunni og meðal annars talað um samband þeirra og ákærða. Hafi Y sagt að hún væri hrifin af öðrum manni og hafi hún sagt ákærða frá þessu þennan sama dag. Ákærði hafi verið sár og grátið út af þessu. Y hafi svo skyndilega rifið í hár hennar. Z hafi kallað á ákærða, sem hafi verið í eldhúsinu eða á salerninu, en hún hafi ekki heyrt þegar hann kom. Hún hafi strax áttað sig á því er Y hneig niður og hún sá blóð á vinstri síðu hennar að ákærði hafði stungið Y, þótt hún hafi ekki séð það. Aðspurð kvaðst hún ekki muna eftir að hafa séð áðurnefnd skæri. Verið gæti þó að hún hefði notað þau til að klippa bolinn utan af Y, en minntist þess þó ekki. Í skýrslu sinni fyrir dómi bar Z að ákærði hafi komið og stungið Y þegar þær áttu í átökum í sófanum. Ákærði hafi verið í stofunni en farið fram í eldhús og náð í hnífinn. Hún hafi séð hann stinga Y. Hún minntist þess ekki að hafa kallað á hann sér til aðstoðar. Sagðist hún hafa hent hnífnum fram af svölunum, en neitaði því að ákærði hefði beðið hana um það. Hún minntist þess ekki að hafa sagt á vettvangi að einhver ókunnugur maður hefði ráðist á Y, en bar hins vegar nú að einhver „[...]“ hafi einnig verið þarna. Nánar aðspurð sagði hún að hann hafi verið í íbúðinni þegar hún kom þangað ásamt A, en kvaðst ekki muna hvort hann var farinn þegar ráðist var á Y með hnífnum. Þessi maður hafi hins vegar engan þátt átt í því.
Eins og í héraðsdómi greinir kemur fram í frumskýrslu að Y hafi sagt við lögreglumenn á vettvangi að ákærði hafi veitt henni áverkann. Við yfirheyrslu hjá lögreglu og fyrir dómi kvaðst hún ekki vita hver hafi verið hér að verki þar sem minni sitt væri gloppótt vegna áfengisdrykkju, en þau hafi öll setið að sumbli. Sagði hún í skýrslu sinni hjá lögreglu tveimur dögum eftir atburðinn að Z og A hafi komið í heimsókn til þeirra X um tvöleytið þennan dag. Aðrir hafi ekki komið í íbúðina. A hafi farið um fjögurleytið. Þær Z hafi farið að rífast í kjölfar þess að Z fór að ræða um þann tíma sem hún og ákærði voru saman. Ákærði hafi blandað sér í rifrildið, en jafnframt hafi sér fundist hann gera lítið úr sér. Hún hafi sagt eitthvað um Z sem reitti hann til reiði. Næst myndi hún eftir sér þar sem hún lá á gólfinu. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir hver hefði stungið hana og aldrei séð neitt vopn, en fyndist að hún hefði verið stungin með skærum. Efaðist hún um að Z hefði stungið sig og taldi að ákærði hefði gert það. Sagði hún í lok skýrslunnar að hún hefði ekki trúað því að ákærði gæti gert þetta. Framburður Y var á sama hátt í skýrslu hennar hjá lögreglu 21. janúar 2003. Aðspurð minntist hún þess hvorki að hafa sagt við lögreglu á vettvangi að ákærði hefði stungið hana né að hún hefði rifist eða verið í átökum við Z. Hún sagðist muna eftir að A hafi farið, næst myndi hún óljóst eftir sér í eldhúsinu þar sem hún var að huga að matseld, en svo ekki fyrr en hún lá særð á stofugólfinu og var að kalla á Z. Hún minntist þess að skærin hafi legið á borðinu fyrir framan sófann á aðfangadag. Framburður Y fyrir dómi var í meginatriðum á sama veg og við rannsóknina. Kvaðst hún ekkert muna eftir sér eftir að Z kallaði á X er þær voru í átökum í sófanum. Aðspurð um það hvort hún vissi hver hefði stungið sig sagði hún að Z hefði ekki gert það. Kvaðst hún álykta svo þar sem Z hafi sagst hafa hlúð að sér eftir atlöguna og getið þess að ákærði hafi beðið hana að henda hnífnum. Sjálf gæti hún ekki borið um hvort ákærði eða Z hafi stungið hana, en ljóst er af framburði hennar að hún taldi að öðrum væri ekki til að dreifa.
Ákærði hefur ekki kannast við að hafa framið þann verknað sem hann er sakaður um í málinu. Hann hefur borið við minnisleysi vegna mikillar ölvunar og lyfjaneyslu. Í frumskýrslu er haft eftir honum þegar hann hafði fallið frá frásögninni um að ókunnur maður hafi verið að verki, að Y hafi skyndilega hnigið niður fyrir framan sig í stofunni af ókunnum ástæðum. Framburður hans var að öðru leyti samhengislaus. Við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi kvaðst hann muna mjög óljóst eftir atburðum dagsins eftir að þau Z og A komu í heimsókn þar sem hann hafi farið í „blackout“. Þó sagðist hann minnast þess að hafa stumrað yfir Y og haldið utan um hana þar sem hún hafi þá legið á milli stofu og gangs. Honum fyndist sem hann hafi annaðhvort dregið umræddan eldhúshníf úr sárinu eða haldið á honum. Hann hafi séð blóð á hluta hnífsblaðsins. Þá hafi Z staðið skammt frá sér og horft á hnífinn eins og í leiðslu. Í framhaldi af því hafi hún tekið hnífinn úr höndum hans og farið með út á svalir. Hann hafi spurt hana hvað hún væri að gera og bent á að hnífurinn væri sönnunargagn, en hún skellt skollaeyrum við því og hent hnífnum fram af svölunum. Hann kvaðst telja sig ráma í að þau Z hafi reynt að leita að hnífnum í garðinum. Hann kvaðst heldur ekki minnast þess að hafa séð umrædd skæri. Ákærði kvaðst hafa séð stungusárið þegar sjúkralið kom og hafi föt Y þá verið mjög blóðug. Hann sagðist ekki vita hver væri ástæða atlögunnar og minntist þess ekki að hafa rifist við Y eða sakað hana um að daðra við aðra karlmenn, enda væri það ólíkt sér. Ákærði kvaðst að öðru leyti ekkert muna eftir aðdraganda árásarinnar, en sagði ótrúlegt að hann hefði verið hér að verki, þótt hann gæti ekkert um það fullyrt vegna ástands síns. Aðspurður um þá frásögn á vettvangi að ókunnugur maður hefði ráðist á Y sagði ákærði að hann hefði heyrt Z segja þetta og vel megi vera að hann hafi tekið undir það þar sem hann hefði ekki vitað betur.
III.
Fram er komið að ákærði, Y og Z sátu að drykkju síðdegis umræddan aðfangadag og voru öll undir áhrifum áfengis og lyfja. Kemur fram í niðurstöðu matsgerða, sem nánar er lýst í héraðsdómi, að ætla megi að Z hafi verið undir verulega slævandi áhrifum áfengis og lyfja og ákærði mjög slævður og hugsanlega ósjálfbjarga vegna neyslu áfengis og lyfja. Er þetta í samræmi við lýsingu í frumskýrslu lögreglu á ástandi þeirra á vettvangi, en þar kemur fram að ákærði hafi verið ölvaður, þvoglumæltur og drafandi og átt erfitt með að halda jafnvægi, en Z talsvert ölvuð og þvoglumælt.
Ljóst er af framburði ákærða, Z og Y að atvik málsins eru mjög óljós. Þannig hefur brotaþolinn Y ekki getað borið af eigin raun um hver stakk hana. Hún minnist þess þó að hafa verið að rífast við Z skömmu áður en atlagan átti sér stað. Kemur það heim og saman við framburð A, sem hefur borið hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi fljótlega farið úr íbúðinni vegna rifrildis þeirra. Framburður Z um málsatvik er mjög á reiki eins og rakið hefur verið. Þannig bar hún fyrst að ókunnugur maður hefði verið hér að verki, en dró síðan þann framburð til baka og kvað ákærða vera sökudólginn. Við meðferð málsins fyrir dómi sagði hún svo mann sem kallaður er „[...]“ hafa verið í íbúðinni eftir að þau A komu þangað, en sagðist ekki vita hvenær hann fór. Á þennan mann hafði hún ekki minnst í skýrslum sínum við lögreglurannsókn. Hans er heldur ekki getið í framburði annarra. Samkvæmt niðurstöðu DNA rannsóknar fannst saman við blóð Y, sem var á umræddum skærum, minni háttar magn af DNA, sem komið var frá öðrum karlmanni en ákærða. Af læknisvottorðum og framburði lækna, sem höfðu afskipti af Y, verður ekki ráðið hvort hún var stungin með skærum eða hníf. Ákærði hefur hvorki neitað né játað að hafa framið verknaðinn en borið við minnisleysi. Sá framburður verður ekki dreginn í efa þegar litið er ástands hans sem fyrr er lýst. Þegar allt framangreint er virt er ljóst að ekki er fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi framið þann verknað, sem hann er ákærður fyrir, sbr. 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991. Ber því að sýkna hann af kröfu ákæruvalds í málinu. Eftir þessum málsúrslitum verður miskabótakröfu Y vísað frá héraðsdómi, sbr. 1. málslið 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.
Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvalds.
Kröfu Y um miskabætur er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með þar talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 400.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns Y í héraði, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2004.
Mál þetta sem dómtekið var 11. mars sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 25. ágúst 2003 á hendur X, kt. [...], [...] ,,fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 24. desember 2002, að [...] í Reykjavík stungið Y, með hnífi vinstra megin í brjósthol, með þeim afleiðingum að hún hlaut stungusár sem gekk inn í brjóstholið, brot á 7. rifbeini og loft lak undir húð.”
Ákæruvaldið telur háttsemi þessa varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu Y, kt. [...], er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 3. ágúst 2003 til greiðsludags.
Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að ákærði hljóti vægustu refsingu sem lög leyfa, sem jafnframt verði skilorðsbundin. Þá krefst verjandi ákærða þess að gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 25. desember 2002 til 10. janúar 2003 komi til frádráttar refsingu.
Verjandi krefst þess og að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði stórlega lækkuð. Þá krefst verjandi þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun.
Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 24. desember 2002 barst lögreglunni tilkynning kl. 19.56 um að kona hefði verið stungin með hnífi að [...], Reykjavík. Er lögregla kom á vettvang hafi þar verið fyrir ákærði, X, Z og Y, en hún hafi legið á hægri hlið á gólfi íbúðarinnar upp við sófa. Z hafi staðið yfir henni og ákærði hafi setið upp við sófann þar sem Y hafi legið. Bæði ákærði og Y hafi verið í annarlegu ástandi og/ eða ölvuð, en Y hafi verið með meðvitund.
Ákærði og Z lýstu árásarmanni á þá lund að hann væri snoðklipptur og dökkhærður með dökka húð, um það bil 190 cm á hæð, í meðallagi grannur, milli 40 og 50 ára. Y tjáði lögreglu hins vegar að ákærði, X, hefði stungið sig. Hún kvað þau hafa rifist og síðan hafi hún fundið að hún hefði verið stungin. Skömmu áður hefði A setið með þeim Z, X og sér í íbúðinni að drykkju, en hann hefði móðgast og farið til móður sinnar.
Ákærði var með blóðkám á nefi og á bol þeim sem hann var klæddur var blóðblettur á vinstri öxl. Z var blóðug á höndum og í andliti. Ákærði og Z voru bæði handtekin. Á vettvangi fundust lítil, blóðkámug skæri. Ákærði lýsti því síðar yfir í yfirheyrslu hjá lögreglu að hann myndi eftir því að hafa annað hvort dregið hníf úr sári Y eða haldið á hnífnum.
Við yfirheyrslur lögreglu síðar sama kvöld kvaðst Z hafa verið að segja ósatt er hún kvað ókunnan mann hafa stungið Y og kvað hún ákærða hafa stungið Y með eldhúshnífi með svörtu skafti og blóð hefði verið á hnífnum. Ákærði hefði beðið hana um að henda hnífnum út og hafi hún hent hnífnum fram af svölunum. Stuttu síðar hefði ákærði beðið hana að ná aftur í hnífinn vegna fingrafara.
Í lögregluskýrslu sem tekin var af Y 26. desember 2002 kvaðst hún muna eftir því að hafa farið að rífast við Z og hafi ákærði blandað sér í það. Hún hafi sagt eitthvað við ákærða sem reitt hafi hann til reiði. Hún kvað minni sitt gloppótt vegna áfengisdrykkju og myndi bara að fljótlega eftir þetta hafi hún legið á gólfinu og að búið hafi verið að stinga hana. Hún kvaðst aldrei hafa séð neitt vopn en af einhverri ástæðu hafi henni fundist vopnið vera lítil skæri, en þorði þó ekki að fullyrða það. Í lögregluskýrslu sem tekin var af Y 21. janúar 2003 er eftir henni haft að hún myndi ekki eftir því að hafa bent á ákærða sem árásármann.
Í bráðabirgðalæknisvottorði B yfirlæknis frá 25. desember 2002 segir að Y hafi verið stungin með skærum í vinstri holhönd. Rannsókn hafi leitt í ljós rifbrot á 7. rifi og ofurlítið loft hafi lekið út undir húð. Í skýrslum lögreglumannanna C og D frá 27. desember 2002 og 30. desember 2002, kemur fram að haft hafi verið samband við lækninn vegna læknisvottorðsins og hafi þá læknirinn tjáð þeim að gleymst hefði að geta þess að Y hefði aldrei verið í lífshættu eftir að hún komst undir læknishendur.
Í læknisvottorði E, starfandi sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala frá 6. janúar 2003 kemur fram að Y hafi verið með fulla meðvitund og áttun við komu á spítalann. Lífsmörk hafi verið stöðug. Á brjóstholi vinstra megin hafi verið stungusár rétt neðan við ,,fossu axillaris 10 cm fyrir neðan pectoralisvöðvana og 10 cm lateralt hafi verið u.þ.b. 1 cm inngangsport”. Hjarta-og lungnahlustun hafi verið eðlileg sem og kviðskoðun. Röntgenmynd af lungum hafi sýnt subcutan emphysema yfir stungustaðnum og rifbrot á 7. rifi. Hún hafi fengið súrefni, sett hafi verið upp nál hjá henni og hún höfð fastandi. Sárið hafi verið deyft með Lidocain með Adrenalini og verið explorerað og gæti samsvarað því að hafa verið gert með skærum. Tekin hafi verið 2 spor í sárið og húðinni síðan lokað. Þá segir í vottorðinu: ,,Þegar hér var komið gerðist hún óróleg og vildi fara heim. Var beitt miklum fortölum til að fá hana til að þiggja meðferð og leggjast inn og varð það úr á endanum...”
Þá segir í vottorði F læknis frá 8. janúar 2003 að ljóst sé að áverki sá sem Y hlaut geti verið lífshættulegur. Í því tilviki sem hér um ræði hafi hnífsblaðið trúlega lent á rifi og hending því ráðið að brjóstholslíffæri sködduðust ekki meira. Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að það sé álit læknisins að af ofangreindum áverka hefði getað hlotist bani.
Lögregla fann hníf með svörtu skafti í runnabeði vestan við [...]. Heildarlengd hnífsins var 277 mm, blaðlengd 142 mm og mesta breidd á blaðinu 18 mm. Á hnífsblaðinu var blóð og voru teknar strokur af blóðinu á tvo bómullarpinna sem sendir voru til rannsóknar.
Einnig var strok tekið frá skærunum sem fundust á vettvangi, en heildarlengd þeirra var 159 mm.
Þá var blóð strokið af hægri peysuermi að framan og af baki hennar, en peysan fannst í íbúðinni.
Einnig var blóð strokið úr vinstri lófa Z og sent til rannsóknar og blóð strokið af bol sem sem ákærði klæddist er hann var handtekinn.
Þá voru tekin lífssýni úr ákærða, Z og Y, sem og blóð- og þvagsýni til rannsóknar á etanóli og lyfjum í blóði.
Í álitsgerð G prófessors frá 6. maí 2002 segir að sýni sem hafi að geyma ætlað blóð (1-7) hafi verið send til rannsóknar til Rettsmedisinsk Institutt i Oslo og þar borin saman við lífssýni úr ákærða, brotaþola og Z. Orðrétt segir þar meðal annars: ,,Í framhaldi af því voru framkölluð DNA-snið úr sýnum 1-10. Við samanburð DNA-sniða úr sýnum frá munum 1-7 við DNA snið málsaðilanna þriggja 8-10, kemur í ljós að sýni það sem merkt var 1a og tekið af hníf og sýni sem merkt voru 4a (peysa, hægri ermi að framan) og 5a (peysa, bak) og 6a (bolur, vinstri öxl) hafa að geyma DNA-snið, sem kemur heim við það, sem finnst í Y. Sýni sem merkt er 7a, frá bol við hálsmál er með sama DNA sniði og því sem finnst í Z. Sýnið sem merkt er 3a var rannsakað endurteknum sinnum og við ítarlega rannsókn (3a ch.rens) reyndist unnt að sýna fram á 4 kerfi af 11, sem geta samrýnst því, sem finnst í DNA-sniði Z.
Sýnið sem merkt er 2a (blóð strokið af skærum) er blöndunarsýni, sem aðallega er með DNA-sniði sömu tegundar og það sem finnst í Y en þar er einnig að finna minni háttar magn af DNA, sem komið er frá karlmanni, sem er ekki hið sama og DNA-snið X.”
Í samantekt og niðurstöðum álitsgerðar hans kemur fram að DNA-rannsókn hafi sýnt að blóð á hníf, skærum, peysu og á bol á vinstri öxl sé með sams konar DNA-sniði og það sem fundist hafi í Y. DNA-rannsóknin hafi ennfremur sýnt að blóðsýni í hálsmáli bols, sem og blóðsýni úr lófa Z hafi verið með DNA-sniði hennar sjálfrar.
Etanólmagn í blóði Y reyndist 1,42 o/oo. Etanól í blóði Z reyndist 1,59 o/oo og 2,54 o/oo í þvagi. Þá fundust í blóði Z klórdíazepoxíð, desmetýlklórdíazepoxíð, demoxepam, og nordíazepam, en í matsgerð H, Lyfjafræðistofnun frá 3. febrúar 2003 segir að gera megi ráð fyrir að vegna þessara lyfja hafi hlutaðeigandi verið undir verulegum slævandi áhrifum áfengis og benzódíazepínsambanda þegar blóðsýnið var tekið.
Etanól í blóði ákærða var 2,08 o/oo og 2,96 o/oo í þvagi hans. Í þvagi fundust benzodíazepínsambönd og morfínlyf. Við staðlaða lyfjaleit í þvagi fannst vottur af parasetamóli og kódeini. Í blóðinu fannst díazepam, og nordíazepam.
Í álitsgerð H, Lyfjafræðistofnun frá 17. febrúar 2003 segir að vegna áfengis og þessara lyfja megi búast við að viðkomandi hafi verið mjög slævður og hugsanlega ósjálfbjarga vegna neyslu áfengis og díazepams þegar blóðsýnið var tekið.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, X, bar fyrir dómi að hann hefði þekkt Y í nokkra mánuði, er atburðir þeir gerðust sem ákæra tekur til og hafi hann ætlað að halda með henni jól. Hann hafi verið að elda hamborgarhrygg. Hann kvaðst muna lítið eftir atburðum eftir að þau A og Z hafi komið í heimsókn, en þá hefði hann verið búinn að taka inn verkjalyf og róandi lyf. Hann kvaðst ekki muna eftir hnífsstungunni en kvaðst muna eftir að hafa haldið á hnífi sem Z hafi síðar tekið af honum og hent fram af svölum íbúðarinnar. Ákærði þekkti aftur þann hníf sem honum var sýndur á skjali úr gögnum málsins og kvað það vera hnífinn sem hann hafi haldið á. Þá kvað hann hugsanlegt að hann hafi tekið undir þann framburð Z á vettvangi að einhver ókunnugur maður hafi verið árásarmaður.
Ákærði kvaðst hafa verið hálfósjálfbjarga vegna neyslu áfengis og vímuefna er atburðir gerðust, eins og niðurstaða blóðrannsóknar sýni.
Ákærði kvaðst ekki vita hvernig hann hefði hlotið áverka á nefi og kvaðst ekki muna eftir því að hafa lent í átökum. Hann kvað Z hafa sagt sér að hún hafi kallað á sig og beðið sig um hjálp í átökum við Y.
Ákærði kvaðst ekki muna til þess að ókunnugur maður hafi komið í íbúðina, en það hafði hann áður tjáð lögreglu.
Vitnið, Y, kvað þau ákærða hafa verið kærustupar á þeim tíma sem atburðir áttu sér stað. Umræddan dag hafi A og Z komið um hádegisbil og haft með sér landa. Þau hafi öll setið að drykkju, en vitnið hafi beðið þau um að fara um fjögurleytið. A hafi staðið við það, en Z setið lengur. Z hafi sagt að ákærði, X, elskaði sig, en ekki vitnið, og farið að fíflast eitthvað í ákærða. Eftir að A hafi farið hafi vitnið sett kjöt yfir og kartöflur og X hafi líka verið í eldhúsinu. Vitnið hafi svo farið inn í stofu og sest í sófa hjá Z. Z hafi þá byrjað að fíflast í sér, en vitnið reiðst og rifið í hár Z og haldið henni niðri á hárinu. Z hafi þá hrópað til X að vitnið væri að drepa sig. Þá kvaðst vitnið ekki vita fyrr en henni hafi verið skellt á gólfið og hún hafi verið stungin. Vitnið kvaðst vita að Z hafi ekki stungið sig og sé því bara ákærða til að dreifa. Hún kvað skæri hafa verið í stofunni, en hnífur hafi verið geymdur í eldhúsinu. Hún kvaðst ekki vita hvernig blóð komst á skærin. Hún kvað atburðinn hafa haft þær afleiðingar á sig að hún gæti ekki treyst neinum og væri orðin hrædd við karlmenn.
Vitnið, Z, kvaðst hafi komið til Y á aðfangadag með A. Er A hafi yfirgefið íbúðina hafi vitnið orðið eftir. Vitnið kvað þau öll hafa verið undir áhrifum. Eftir að A hafi verið farinn hafi Y ráðist á vitnið og rifið í hár hennar, en vitnið hafi reynt að losa hana af sér. Nánar aðspurð kvað vitnið að þær Y hafi setið hlið við hlið í sófanum og Y verið að rífa í hár hennar og gæti verið að vitnið hafi beðið ákærða að hjálpa sér. Ákærði hafi verið í stofunni þegar Y var að rífa í hár hennar, en farið inn í eldhús og náð í hníf og stungið Y í síðuna. Nánar lýsti hún því að ákærði hafi komið að Y, sem setið hafi í sófanum, og vitnið hafi séð ákærða reka hnífinn í Y. Hún man ekki eftir að skæri hafi verið í stofunni. Í einhverju ,,sjokki” hafi hún hent hnífnum fram af svölunum. Síðan hafi hún hringt á Neyðarlínuna og reynt að halda við sárið á Y með einhverri flík, þar til sjúkraflutningamenn komu. Vitnið kvað ókunnugan mann hafa verið staddan í íbúðinni þegar hún hafi komið í heimsókn, en hann hafi ekki komið nálægt þessum verknaði. Hann hafi setið í stofunni og rætt við þau. Hún kvaðst telja að farið hafi verið með þann mann í fangageymslur. Vitninu var sýndur hnífur á mynd úr skjalaskrá og kvað hún hnífinn vel geta verið þann sem Y var stungin með. Vitnið kvaðst ekkert umgangast ákærða í dag. Hún kvað sér þykja vænt um hann og væri hún ekki óvinveitt honum. Hún kvaðst ekkert muna eftir átökum við ákærða, sem hún lýsti í lögregluskýrslu. Aðspurð hvers vegna vitnið breytti framburði sínum frá því sem vitnið bar hjá lögreglu kvað vitnið ástæðuna vera þá að hún hafi viljað verja ákærða, þar sem henni hafi þótt vænt um hann. Hún hafi því sagt lögreglu ósatt.
Vitnið, A, kvað það geta vel verið að hann hafi dvalið hjá þeim Y og ákærða í einn og hálfan tíma en hann kvaðst ekki muna hvenær hann hafi komið. Hann kvað þær Y og Z hafa farið að rífast um X stuttu eftir að hann hafi komið. Hann hafi sagst ekki nenna að hlusta á það og farið niður á neðri hæð til vinar síns. Þar hafi hann sest í sófa og steinsofnað, en hann hafi bæði verið þreyttur og ölvaður.
Hann kvað ekkert annað fólk hafa verið í íbúðinni en Y, ákærða, Z og hann sjálfan og hafi þau öll verið inni í stofu er vitnið var þar statt.
Vitnið, I, kvað A hafa komið til sín klukkan rúmlega fjögur umrætt aðfangadagskvöld. Hann hafi fengið að leggja sig í íbúð hans og hafi hann farið síðar um kvöldið til móður sinnar.
Vitnið, J, kvað A hafa komið til þeirra I umræddan aðfangadag, um fjögurleytið. Hann hafi verið slæptur og drukkinn og sofnað skömmu eftir að hann kom í heimsókn og hafi hann verið hjá þeim er lögregla kom á staðinn.
Vitnið, K rannsóknarlögreglumaður, kvaðst hafa verið kallaður út umrætt aðfangadagskvöld að [...]. Þegar hann kom á staðinn var búið að flytja konuna á spítala og handtaka tvo aðila. Hann hafi fengið þær upplýsingar að konan hefði verið stungin með skærum sem sjúkraflutningamenn hefðu tekið með sér til að sýna læknum. Hann hafi farið niður á lögreglustöð og rætt við ákærða og Z. Þá hafi komið fram ósamræmi í framburði þeirra. Ákærði hafi talað um að maður sem hann ekki þekkti, hafi komið þar að og stungið Y með skærum. Z hafi aftur á móti sagt að ákærði hefði stungið Y og að hún hefði hent vopninu, hníf, fram af svölum. Z hafi sagt að þau ákærði hefðu komið sér saman um að búa til sögu um þriðja mann sem komið hefði í íbúðina og stungið Y með skærum. Z hafi sagt lögreglumönnum hvar vopnið væri að finna.
Y hefði hins vegar sagt að ákærði hefði stungið sig með skærum. Hún hafi talið vopnið vera skæri vegna þess að Z hefði sagt henni það.
Vitnið, L lögreglumaður, kvað þrjá aðila hafa verið inni í íbúðinni er lögregla kom á staðinn. Vitnið kvað Y hafa legið á stofugólfi íbúðarinnar. Á vettvangi hafi Y bent í átt að ákærða og sagt X, er vitnið hafi spurt hver hafi stungið hana. Vitnið hafi aftur spurt Y hver hafi stungið hana og hafi hún þá sagt að ákærði hefði stungið sig. Vitnið kvað skæri hafa legið á stofuborði.
Vitnið, M lögreglumaður, kvaðst hafa komið seint á vettvang og hafi þá aðrir lögreglumenn þegar verið komnir. Hans hlutverk hafi verið að leita að aðilanum sem sagt var að væri farinn af vettvangi. Hann staðfesti lögregluskýrslu sína.
Vitnið, N lögreglumaður, kvaðst hafa verið kallaður á vettvang í [...]. Þegar þangað hafi verið komið hafi vitnið verið beðinn um að fara inn í sjúkrabíl þar sem Y var. Vitnið kvað Y hafa sagt að rifrildi hefði staðið yfir og að ákærði hefði gert henni eitthvað eða ,,þetta”. Vitnið staðfesti lögregluskýrslu sína þar sem haft er eftir honum að Y hafi sagt vitninu að ákærði hafi stungið hana. Vitnið hafi tekið skæri sem voru á vettvangi og farið með þau á slysadeild.
Vitnið, O lögreglumaður, kvaðst hafa farið á vettvang og heyrt Z ræða við lögreglukonu. Z hafi fyrst sagt lögreglukonunni að ókunnugur maður hafi stungið Y, en síðar í yfirheyrslunni breytt framburði sínum og sagt ákærða hafa stungið Y.
Vitnið, P lögreglukona, kvaðst hafa spjallað við Z á vettvangi. Þegar hún hafi farið með Z út í lögreglubíl og rætt við hana hafi Z sagt henni að ókunngur maður hefði stungið Y. Síðar hafi hún sagst hafa verið að ljúga því og kvað þær Y hafa verið í átökum. Hafi Y rifið í hár Z og hún þá beðið ákærða að hjálpa sér. Hún kvað Z hafa sagt að hún hafi ekki séð ákærða stinga Y, en hann hefði komið aftan að Y og síðan hefði Y hnigið í gólfið. Þá hafi hún séð ákærða standa með hnífinn í höndunum og hafi ákærði þá sagt að hann hefði stungið hana. Z hafi sagst hafa hent hnífnum út.
Vitnið, B læknir, kvaðst hafa séð Y er hún kom inn á aðfangadagskvöld, en þá hafi annar læknir þegar saumað sárið. Sá læknir hafi talið að stungan væri ekki inn úr brjóstkassanum. Tekin var lungnamynd af Y og hafi þá sést að hún var með brotið rif og loftbrjóst, en það benti til að vopnið hafi lent á rifi. Hann kvaðst hafa haft eftir öðrum að Y hefði verið stungin með skærum. Af áverkum að dæma hefði vopninu verið stungið í hana af talsverðum krafti. Hann kvað Y ekki hafa verið í lífshættu þegar hún kom inn á spítalann, en ef loftbrjóstið hefði aukist hefði hún verið í lífshættu. Einnig kvað hann að ef vopnið hefði lent á milli rifja, hefði getað myndast lífshættulegt sár.
Vitnið, E læknir, staðfesti vottorð sitt frá 6. janúar 2003. Hún kvaðst hafa verið ábyrgur sérfræðingur á vakt, en hún hafi ekki skoðað Y. Hún kvaðst gera ráð fyrir því að ályktun um að Y hefði verið stungin með skærum væri byggð á framburði Y sjálfrar, en það samræmdist einnig þeim áverkum sem Y fékk. Er vitninu var sýnd mynd af skærunum og hnífnum kvað vitnið sárið geta hafa hlotist hvort heldur sem var af skærunum eða hnífnum.
Vitnið, F læknir, kvaðst hafa gefið út vottorð 8. janúar 2003. Hann kvað aðkomu sína að þessu máli hafa verið þá að hann hafi verið á vakt sem bæri ábyrgð á starfsemi deildarinnar. Annar læknir hafi annast Y, þ.e. E. Ekki hafi verið búið að sauma sárið þegar hann hafi komið að, en skurðlæknar hafi svo tekið hennar mál í sínar hendur. Vitnið kvað sárið hafa litið þannig út að það væri eftir egghvasst vopn. Álit það sem fram komi í vottorði hans, að um hníf væri að ræða, kvað hann væntanlega byggt á vitnisburði lögreglumanna. Vitnið kvað sárið ekki hafa verið lífshættulegt sár, en ef vopnið hefði lent annars staðar en á rifi, hefði það getað verið hættulegt.
Vitnið, G, staðfesti álitsgerð sína dagsetta 6. maí 2003. Hann kvaðst hafa fengið í hendur sjö strok frá munum með ætluðu blóði og hins vegar sýni frá aðilum sem tengist málinu.
Niðurstaða.
Vegna neyslu verkjalyfja, áfengis og róandi lyfja kvaðst ákærði muna lítið eftir atburðum eftir að þau A og Z komu í heimsókn, en minntist þess að hafa haldið á hnífi sem Z hefði tekið af honum og hent fram af svölum íbúðarinnar.
Í málinu liggur fyrir að á hnífi þeim sem fannst í beði fyrir utan [...] fannst blóð úr brotaþola, Y. Einnig fannst blóð á skærum sem fundust í íbúðinni, en það blóð var ,,blandað sýni”, þ.e. blóð úr Y og öðrum einstaklingi, en þó hvorki ákærða né Z.
Samkvæmt framburði læknanna E og F fyrir dómi hefði sár það sem Y hlaut getað hlotist hvort heldur sem var af völdum hnífs eða skæra, en á Y var einungis eitt stungusár. Þegar framangreint er virt og litið til þess að ákærði mundi eftir því að hafa staðið með hnífinn í höndunum og þess að vitnið, Z, kvaðst í einhverju ,,sjokki” hafa hent hnífnum fram af svölunum, er að mati dómsins hafið yfir allan vafa að árásarvopnið var framangreindur hnífur.
Í ljósi framburðar ákærða sjálfs og vitnanna A og Y um að einungis þau fjögur hafi verið stödd í íbúðinni umræddan dag, sem og þess að ekkert í gögnum málsins bendir til annars, er ótrúverðugur sá framburður Z fyrir dómi að aðrir hafi verið staddir í íbúðinni umræddan dag. Þá er í ljósi framburðar vitnanna Y, Z, I og J, sem og ákærða sjálfs, sannað að A var farinn af vettvangi er atburðir þeir sem ákæra tekur til áttu sér stað.
Samkvæmt framangreindu var aðeins þeim ákærða og Z til að dreifa sem hugsanlegum árásarmönnum. Sannað er með framburði þeirra Y og Z að þær tvær sátu í sófa íbúðarinnar skömmu áður en Y var stungin og þar hélt Y Z niðri á hárinu. Þá er og fram komið að töluverðan kraft þurfti í stunguna, þar sem hnífurinn lenti á rifi og braut það. Fyrir dómi bar Y að hnífurinn hefði verið geymdur í eldhúsinu.
Vitnin, L og N, lögreglumenn staðfestu fyrir dómi að Y hefði á vettvangi tjáð þeim að ákærði hefði stungið hana.
Vitnin, O lögreglumaður og P lögreglukona, staðfestu fyrir dómi að Z hefði á vettvangi tjáð þeim að ókunnur maður hefði stungið Y, en síðar í yfirheyrslum hjá lögreglu dregið þann framburð sinn til baka og sagt ákærða hafa stungið Y.
Vitnið, K lögreglumaður, staðfesti einnig fyrir dómi að Z hefði sagt sér að ákærði hefði stungið Y, en þau ákærði hefðu á vettvangi komið sér saman um sögu af ótilteknum þriðja manni sem komið hefði í íbúðina og stungið Y.
Frá því að Z hvarf frá framburði sínum um að ókunnur maður hefði stungið Y, hefur framburður hennar um að ákærði hafi stungið Y verið stöðugur. Fram kom í vitnisburði Z að henni hafi þótt vænt um ákærða og vildi verja hann. Í því ljósi verður að mati dómsins að meta breyttan framburð hennar. Þá hefur brotaþoli aldrei tilgreint annan árásarmann en ákærða. Ákærði mundi lítið eftir atburðum dagsins, en minntist þess þó að hafa staðið með hnífinn í höndunum.
Þegar allt framangreint er virt er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru og er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Refsiákvörðun.
Ákærði er fæddur í júní 1961. Hann á að baki langan sakarferil sem hófst árið 1978 er hann var á átjánda ári og var samfelldur allt til ársins 1994, en hlé varð þá í sex ár. Hann var dæmdur 18. ágúst 2000 í sex mánaða fangelsi fyrir tilraun til þjófnaðar, hinn 28. febrúar 2001 í fimm mánaða fangelsi fyrir tilraun til þjófnaðar, hinn 5. apríl sama ár fyrir ölvunarakstur en þar var um hegningarauka að ræða. Þá var honum gerð sekt vegna fíkniefnabrots 25. júní 2001. Hann hlaut síðast 30 daga fangelsisdóm fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga, 26. september 2002, skilorðsbundinn í þrjú ár.
Ákærði hefur oftast hlotið dóma fyrir þjófnað og skjalafals, en aðeins tvisvar gerst sekur um líkamsárás. Með broti því sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu hefur hann rofið skilorð fyrrgreinds dóms frá 26. september 2002. Ber því með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp þann dóm og ákveða refsingu í einu lagi, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga.
Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði beitti hættulegu vopni, blaðlöngum, beittum hníf og réð því hending ein að ekki fór verr. Hins vegar horfir til refsilækkunar að ekki verður talið að verknaður ákærða hafi einkennst af sterkum ásetningi. Af atlögu ákærða hlaust hættulegur áverki, þótt brotaþoli hafi ekki talist vera í lífshættu eftir að hún komst undir læknishendur. Enn fremur horfir til refsiþyngingar að ákærði hefur áður gerst sekur um líkamsárás, þótt ekki sé um ítrekað brot að ræða. Þegar allt framangreint er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði en til frádráttar refsivist hans komi gæsluvarðshaldsvist hans frá 25. desember 2002 til 10. janúar 2003.
Miskabótakrafa.
Y hefur krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 3. ágúst 2003 til greiðsludags. Auk þess hefur réttargæslumaður hennar, Brynjólfur Eyvindsson héraðsdómslögmaður krafist þóknunar vegna réttargæslustarfa. Kröfuna hefur hann rökstutt með þeim hætti að um óvænta árás hafi verið að ræða. Afleiðingar árásarinnar séu þær að brotaþoli hræðist að vera ein og þá sérstaklega í íbúðinni þar sem atburðir gerðust. Hún eigi mun erfiðara með svefn en áður og hafi fundið til meiri mæði en áður.
Fram er komið í málinu að ákærði og Y bjuggu saman á þeim tíma er atburðir þessir tóku til og milli þeirra var trúnaðarsamband. Atlaga ákærða, hnífsstunga í brjóstkassa, var gerð á heimili hennar. Við atlöguna hlaut hún hættulegan áverka. Að mati læknis sem skoðaði Y réð hending því að brjóstholslíffæri sködduðust ekki meira.
Þegar framangreint er virt er það mat dómsins að ólögmæt meingerð ákærða gegn persónu Y hafi valdið henni miska og ber því með vísan til 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fallast á kröfu hennar um miskabætur úr hendi ákærða, sem þykja hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.
Bótakrafa var kynnt ákærða 3. júlí 2003 og ber því dráttarvexti samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. ágúst 2003 til greiðsludags. Ákærði verður og dæmdur til að greiða réttargæslumanni brotaþola þóknun vegna kostnaðar við að halda fram kröfunni, sem þykir hæfilega ákveðin 100.000 krónur.
Sakarkostnaður.
Í ljósi úrslita málsins verður ákærði einnig dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðin eru í einu lagi fyrir verjandastörf á rannsóknarstigi og fyrir dómi að fjárhæð 200.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Sævarsdóttir, fulltrúi ríkissaksóknara.
D ó m s o rð
Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði, en til frádráttar refsivist komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 25. desember 2002 til 10. janúar 2003 með fullri dagatölu.
Ákærði greiði Y 300.000 krónur í miskabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9.gr. laga nr. 38/2001 frá 3. ágúst 2003 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.