Hæstiréttur íslands

Mál nr. 582/2011


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 10. maí 2012.

Nr. 582/2011.

 

K

(Erlendur Þór Gunnarsson hrl.

Oddgeir Einarsson hdl.)

gegn

Barnaverndarnefnd A

(Kristbjörg Stephensen hrl.

Þyrí Steingrímsdóttir hdl.)

 

Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn

Með dómi héraðsdóms var K svipt forsjá fjögurra barna sinna á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fyrir Hæstarétti kom einungis til endurskoðunar niðurstaða héraðsdóms um að K skyldi svipt forsjá tveggja yngri barnanna. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að K skyldi svipt forsjá barnanna tveggja með vísan til þess að þar hafi komið fram að andlegri heilsu barna hennar og þroska þeirra væri hætta búin færi hún með forsjá þeirra og að ekki yrði talið að hún væri hæfari til að fara með forsjá tveggja barna fremur en fjögurra.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. október 2011. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda um sviptingu forsjár barnanna B og C. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Áfrýjandi var með héraðsdómi svipt forsjá fjögurra barna sinna, þeirra D, E, B og C. Með bréfi 26. apríl 2012 til Hæstaréttar tilkynnti áfrýjandi að hún félli frá áfrýjun í málinu hvað varðar sviptingu forsjár barnanna D og E. Kemur úrlausn hins áfrýjaða dóms um sviptingu forsjár yfir þeim því ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi og stendur hún því óhögguð.

Í forsendum hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, kemur fram að andlegri heilsu barna áfrýjanda og þroska þeirra sé hætta búin fari hún með forsjá þeirra og að ekki verði talið að áfrýjandi sé hæfari til að fara með forsjá tveggja barna fremur en fjögurra. Samkvæmt þessu og í ljósi breyttrar kröfugerðar áfrýjanda hér fyrir dómi verður með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða hans að áfrýjandi skuli svipt forsjá tveggja barna sinna, þeirra B og C.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, K, er svipt forsjá B og C.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2011.

I.

Málið var höfðað 15. janúar sl. og dómtekið 19. september sl. Stefnandi er A, [...], [...] í [...], vegna barnaverndarnefndar A og stefnda er K, [...], [...].

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði svipt forsjá barna sinna, D, kt. [...], E, kt. [...], B, kt. [...] og C, kt. [...]. Ekki er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur stefndu eru að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefnda málskostnaður úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts.

Mál þetta er rekið fyrir dómi í samræmi við fyrirmæli X. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sérfróðir meðdómsmenn tóku sæti í dóminum 21. júní sl. Dómsformaður fékk málið til meðferðar 31. ágúst 2011.

II.

1. Málsatvik fyrir þingfestingu málsins

Málið varðar fjögur börn, D [...] ára, E [...] ára, B [...] ára og C [...] ára, sem öll lúta forsjá stefndu.

Stefnda er fædd [...] og á alls sex börn. Foreldrar stefndu skildu þegar hún var 10 ára gömul. Hún bjó eftir það með móður sinni sem átti við áfengisvandamál að stríða. Kveðst hún hafa farið á unglingaheimili, líklega þegar hún var [...] ára gömul, og lítið farið í skóla eftir það. Í gögnum málsins kemur fram að stefnda hafi flust með móður sinni til [...] þegar hún var [...] ára gömul. Móðir hennar hafi drukkið mikið og hún oft verið ein og matarlaus.

Þegar stefnda var nýorðin [...] ára kynntist hún föður tveggja elstu sona sinna, F og G. Þau hafi gengið í hjónaband þegar hún var [...] eða [...] ára gömul og flutt til Íslands um sama leyti. Kveðst hún hafa sætt mikilli kúgun og ofbeldi af hálfu eiginmannsins. Þau munu hafa skilið líklega árið [...] og stefnda flutt að nýju til [...].

Skömmu síðar kynntist stefnda H, sem er faðir D og E. Fjölskyldan virðist fljótlega hafa flutt til Íslands en þá mun stefnda hafa verið ófrísk af D. Stefnda og H voru gift í fjögur eða fimm ár. Á þeim tíma kveður stefnda að eiginmaður sinn hafi átt við geðræn vandamál að stríða og að hann hafi beitt hana ofbeldi og hótunum. Þau hafi flutt að nýju til [...] líklega árið 2000 og búið þar á nokkrum stöðum. Slitnað hafi upp úr sambandinu um tíma árið 2001 og síðan aftur árið 2002 eftir að H hafði lamið hana. Gögn málsins bera með sér að félagsmálayfirvöld í [...], þar sem þau bjuggu á þessum tíma, hafi þá kannað aðstæður og samband foreldranna við D og E, en F og G virðast þá hafa búið hjá föður sínum. Komust þau að þeirri niðurstöðu að foreldrarnir stæðu sig vel í foreldrahlutverkinu.

Stefnda og H virðast hafa slitið samvistum eftir þetta og hún flust til [...]. Í kjölfarið mun stefnda hafa fengið ávísað lyfjum gegn þunglyndi. Svo virðist sem stefnda og H hafi reynt að hefja sambúð að nýju haustið 2003. Í desember það ár mun stefnda hins vegar hafa lagst inn á sjúkrahús vegna ofneyslu lyfja og hófst þá athugun á aðstæðum barnanna á ný. Kemur fram í gögnunum að stefnda hafi í kjölfarið leitað sér aðstoðar vegna lyfjamisnotkunar. Varð niðurstaða athugunar félagsmálayfirvalda í [...] að ekki væru efni til aðgerða af þeirra hálfu og var athugun málsins látin niður falla.

Stefnda kveðst hafa byrjað í sambúð með föður tveggja yngstu barnanna, I, árið 2005. Í gögnum málsins kemur fram að í ágústlok það ár hafi óþekktur maður komið að heimili þeirra vopnaður hnífi og hótað I og stefndu. Félagsmálayfirvöld í [...] hófu þá aftur athugun á aðstæðum barnanna. Í skýrslu sem gerð var af því tilefni kemur fram að stefndu finnist erfitt að setja D mörk og láta hann fylgja reglum og óskaði hún eftir stuðningi við það. Að öðru leyti var ekki talið að neitt benti til þess að stefnda misnotaði lyf á þessum tíma og að hún hugsaði vel um börnin sín. Fram kemur í gögnum málsins að aðgerðir, sem áttu að miða að því að styðja stefndu í foreldrahlutverkinu, hafi átt að byrja í janúar 2006. Þá hafi aðstæður verið orðnar betri og stefnda afþakkað stuðninginn.

Stefnda lýsir sambandi sínu við I þannig að hann hafi beitt hana ofbeldi. Ekki hafi dregið úr því eftir að B fæddist í [...]. Hún hafi fengið aðstoð til að komast heim til Íslands, en þar fæddist C í [...]. I mun hafa komið til landsins þó að sambúð þeirra væri lokið og hann dvalið hér á landi um nokkurra mánaða skeið.

Mál barnanna fjögurra hafa verið til athugunar hjá Barnavernd A síðan í júní 2008. Þá bárust tvær tilkynningar um ryskingar og erfiðleika stefndu vegna sambúðarslita hennar og I. Fram kemur í gögnum málsins að farið hafi verið í heimsókn á heimili stefndu í ágúst 2008 en ekki hafi þótt efni til frekari íhlutunar.

Tilkynning barst að nýju í mars 2009 um háreysti úr íbúð stefndu og grun um heimilisofbeldi. Stefnda var boðuð í viðtal hjá Barnavernd A í apríl sama ár og var þá farið yfir málið. Hún greindi þá frá því að I væri farinn af landi brott og að hún væri til samvinnu um stuðning frá þjónustumiðstöð. Ákveðið var að loka málinu og stefndu tilkynnt um það.

Tilkynningar fóru að berast að nýju í júní 2009, fyrst um ofbeldisfulla hegðun D og E, og síðan um grunsemdir um vímuefnaneyslu stefndu og áhyggjur af aðstæðum barnanna. Þá barst tilkynning frá [...]skóla um vaxandi áhyggjur af líðan D. Við heimsókn starfsmanns barnaverndar á heimili stefndu í júnílok viðurkenndi hún að hafa átt erfitt tímabil og að hún væri undir „áhrifum“ en tók jafnframt fram að það væri hún aldrei þegar börnin væru heima. Stefnda var boðuð í viðtal hjá barnavernd 1. júlí 2009 og þar samþykkti hún að sæta nánari athugun barnaverndar. Tilkynningar héldu áfram að berast um ætlaða vímuefnaneyslu stefndu. Starfsmaður barnaverndar fór sjö sinnum í júlímánuði í óboðað eftirlit á heimili stefndu en ekki var sett út á aðstæður þar og kom stefnda ágætlega fyrir þegar hún var heima. D og E voru á þessum tíma í sveitadvöl.

Hinn 4. ágúst 2009 barst enn á ný tilkynning þar sem lýst var áhyggjum af börnunum sem þá voru í umsjá ættingja. Farið var á heimili stefndu þar sem faðir stefndu og vinkona hennar gættu barnanna. Kvað faðirinn að stefnda væri illa stödd og þyrfti að fara í meðferð. Fyrst í stað náðist ekki í stefndu og var ákveðið 6. ágúst sama ár að börnin skyldu vistuð á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á vistheimili á vegum barnaverndarnefndar A til 20. ágúst 2009. Stefnda samþykkti síðan vistun barnanna utan heimilis til 7. september sama ár. Stefnda ritaði 12. ágúst sama ár jafnframt undir meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem ætlast var til að hún sækti sér viðeigandi meðferð og yrði til samvinnu við Barnavernd A um málefni barna sinna. Fram kemur í gögnum málsins að stefnda hafi neitað að hafa verið í neyslu fíkniefna en að hún hefði misnotað lyf, sem hún hefði fengið ávísað frá lækni, þ.e. amfetamín, Díazepam og kvíðalyf.

Í samtölum við starfsmenn barnaverndar mun stefnda hafa lýst óánægju sinni með vistun barnanna á vistheimilinu og aðkomu barnaverndaryfirvalda. Hún upplýsti þó um að hún ætlaði að fara í lok ágúst í meðferð að Teigi, sem er meðferðarmiðstöð fyrir einstaklinga með geðraskanir og vímuefnavandamál. Fram kemur í bréfi frá göngudeild vímuefnameðferðar á Landspítala frá 11. janúar 2010 að ekki hafi orðið af því að hún hæfi þá meðferð þar sem hún væri að taka bæði róandi og örvandi lyf. Fyrst þyrfti hún að fara í afeitrun.

Í gögnum frá Barnavernd A kemur fram að stefnda hafi ekki sinnt því sem skyldi að vera með börnum sínum á vistheimilinu meðan þau dvöldust þar. Í greinargerð starfsmanna heimilisins, dags. 23. september 2009, kemur eftir sem áður fram að á vistunartímanum hefði stefnda oft átt innilegt samband við börn sín. Þau hafi viljað ræða við hana og vera nálægt henni og hún verið góð við þau og sýnt þeim ástúð. Hún hafi þó verið börnum sínum „undirgefin“ og skort hæfni til að setja þeim mörk. Þá hafi hún ekki ráðið við D og hafi starfsfólk vistheimilisins oft þurft að grípa þar inn í.

Tvær tilkynningar bárust 1. september 2009 þar sem fram kom að mikið „partýstand“ hefði verið hjá stefndu um helgina. Hún sótti börn sín af vistheimilinu 2. september 2009. Starfsmaður barnaverndar á bakvakt fór á heimili stefndu 3. september 2009 en hún virðist þá hafa verið að skipta um húsnæði. Kemur fram í skýrslu hans að stefnda hafi  þá ekki verið sjáanlega undir áhrifum vímuefna en verið veik. Ekki var talin nein ástæða til að aðhafast frekar og yfirgaf starfsmaður heimilið.

Stefnda mun hafa flutt að [...] í [...] í september 2009. Af gögnum málsins verður ráðið að D og E hafi byrjað í [...]skóla í lok september það ár. Yngri börn stefndu, B og C, voru áfram á leikskólanum [...].

Mál stefndu og barnanna var bókað á meðferðarfundi starfsmanna barnaverndar 16. september 2009. Þar var lagt til að gerð yrði ný meðferðaráætlun. Þá var talið rétt að sálfræðingur barnaverndar kæmi að málefnum drengjanna og að samvinna yrði við þjónustumiðstöð og meðferðaraðila stefndu auk þess sem sótt yrði um stuðningsfjölskyldu fyrir drengina. Þá yrði fylgst með líðan barnanna heima, í skóla og leikskóla.

Fram kemur í gögnum málsins að stefnda hafi lagst inn á móttökugeðdeild fíkniefnameðferðar (deild 33A) 25. september 2009. Hún útskrifaðist þaðan 1. október sama ár. Í bréfi göngudeildar vímuefnameðferðar frá 11. janúar 2010 segir að áform stefndu um að hefja í kjölfarið meðferð að Teigi hefði ekki gengið eftir. Stefnda hefði fengið nokkur tækifæri til að hefja ferlið en hún ekki notfært sér það. Þá hefði hún ekki staðið við samkomulag um að hún kæmi reglulega á göngudeild og héldi meðferðarsambandi við félagsráðgjafa þar.

Í októberbyrjun 2009 bárust upplýsingar frá skólastjóra [...]skóla um að skólaganga D og E hefði farið illa af stað. Glímdu þeir við mikla vanlíðan og ójafnvægi. Starfsmenn barnaverndar munu hafa farið á heimili stefndu 6. október 2009. Kemur fram í gögnum málsins að þar hafi stefnda greint frá því að hún ætti í miklum erfiðleikum með D, sem hefði ráðist á hana og kallað hana öllum illum nöfnum. Hefði hún miklar áhyggjur af líðan D og E. Stefnda undirritaði meðferðaráætlun sem fól meðal annars í sér að hún skyldi vera í samvinnu við Barnavernd A og sinna meðferð á vegum Landspítala. Yrði meðferðaráætlunin endurskoðuð að þremur mánuðum liðnum.

Í lok október 2009 lýsti faðir stefndu yfir miklum áhyggjum af högum hennar við geðlækni stefndu, m.a. vegna ofbeldisfullrar hegðunar eldri drengjanna tveggja í garð móður sinnar. Hinn 2. nóvember 2009 barst einnig tilkynning frá slysa- og bráðadeild um að stefnda hefði komið með sjúkrabíl eftir ofneyslu fíkniefna. Þá var tilkynnt frá leikskóla yngri barnanna, með bréfi dags. 30. nóvember 2009, að mikill óstöðugleiki og rót væri á börnunum. B mætti óreglulega í leikskólann og ýmsir kæmu með hann og næðu í hann. Þá hefði aðlögun C, sem hefði átt að hefjast 1. október 2009 ekki gengið eftir, en stefnda hefði komið einu sinni með hana. Einnig bárust tilkynningar á þessum tíma frá [...]skóla um að E hefði greint frá ýmsu óeðlilegu, m.a. um að hann væri stundum að skoða klámefni í tölvunni, léki sér í tölvuleikjum sem væru bannaðir börnum og hefði fundið fíkniefni heima hjá sér.

Faðir stefndu hafði samband við bakvakt barnaverndar 3. nóvember 2009 og greindi frá því að D væri heima hjá sér með hníf, sem hann hótaði að nota til að meiða aðra, og að hann gerði sig líklegan til að særa sjálfan sig. Í samtali við móður kom fram að hún hefði náð hnífnum af honum og taldi hún ekki þörf á að hafa samband við lögreglu. Daginn eftir tilkynnti stefnda að D væri aftur kominn með hníf í hendur og ógnaði sjálfum sér og öðrum. Var þá rætt um að fá bráðaviðtal á barna- og unglingageðdeildinni (BUGL) daginn eftir og um það bókað á meðferðarfundi starfsmanna barnaverndar 5. nóvember 2009. Enn fremur var bókað að sálfræðingur barnaverndar myndi taka drengina áfram í viðtöl og lagt til að „Greining og ráðgjöf heim“ kæmi þegar að málinu. Bráðaviðtal fyrir D á BUGL átti að fara fram 6. nóvember 2009 en móðir mun hafa haft samband og sagst vera veik og ekki komast með drenginn.

Daginn eftir, eða 7. nóvember 2009, hafði stefnda samband og óskaði aðstoðar þar sem D gengi berserksgang og ógnaði sjálfum sér og öðrum með hnífi. Lögregla var kölluð á staðinn og afvopnaði drenginn. Greindi stefnda starfsmanni barnaverndar einnig frá því að D hefði vafið vír um háls sér og hótað að hengja sig. Lögregla flutti þá drenginn á BUGL þar sem hann var lagður inn. Þar dvaldi hann til 10. nóvember 2009. Á fundi á BUGL, sem stefnda var boðuð til en mætti ekki á, var ákveðið að drengurinn fengi listmeðferð á BUGL og að sótt yrði um fyrir hann á göngudeild. Í samráði við stefndu fór hann síðan á vistheimili barnaverndar þar sem stefnda treysti sér ekki til að fá hann heim. Ætlunin var að hún undirritaði meðferðaráætlun og yfirlýsingu um samþykki fyrir vistun drengsins 13. nóvember. Stefnda mun hins vegar ekki hafa mætt.

Fleiri tilkynningar bárust í nóvember 2009 sem gáfu til kynna að D ætti við mikla vanlíðan að stríða. Í lok nóvember bárust tilkynningar til barnaverndaryfirvalda um að stefnda væri í mikilli vímuefnaneyslu en hún hafði ekki sinnt því að hefja meðferð á Teigi eins og til hafði staðið. Kom þar fram að stefnda hefði ekki staðið við samninga um skilyrði fyrir innlögn. Yngri börnin þrjú virðast hafa verið í umsjá ættingja á þessum tíma. Í framhaldi af þessu mun stefnda hafa skráð sig í meðferð á Vogi 30. nóvember 2009 en gögn málsins bera með sér að henni hafi verið vísað úr meðferðinni 7. desember sama ár þar sem hún hafi verið staðin að því að reykja kannabis ásamt öðrum sjúklingi á staðnum.

Hinn 2. desember 2009 samþykkti stefnda að þrjú yngri börnin yrðu vistuð á vistheimili frá þeim degi til 12. janúar 2010 ásamt D sem hafði þá dvalið þar síðan hann kom af barna- og unglingageðdeildinni. Í framhaldi af því gerði stefnda samning um umgengni við börnin 18. desember sama ár sem fól m.a. í sér að hún verði tíma með þeim á hverjum degi svo framarlega sem hún væri allsgáð. Stefnda tjáði starfsmönnum Barnaverndar A að hún væri á biðlista eftir því að komast í meðferð á Vogi á nýjan leik. Við nánari könnun á því í árslok 2009 mun það ekki hafa reynst rétt. Í bréfi J, læknis á Vogi, 11. janúar 2010 kemur fram að stefnda hefði þá ekki fengið neina formlega meðferð hjá Sjúkrastofnun SÁÁ og erfitt væri að meta ástand hennar að öðru leyti en því að hún væri með „greindan fíknisjúkdóm og háð örvandi efnum og cannabisefnum“. Taldi hann að batahorfur væru litlar meðan engin áform væru uppi um raunhæfa meðferð og endurhæfingu.

Í greinargerð Barnaverndar A, dags. 5. janúar 2010, var vandlega farið yfir málefni stefndu og barna hennar og sú tillaga gerð að börnin yrðu vistuð áfram utan heimilis í sex mánuði, með eða án samþykkis móður, á meðan hún tæki á vanda sínum. Börnin voru kyrrsett á vistheimili á vegum barnaverndaryfirvalda 6. janúar 2010 í allt að 14 daga á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þar sem samþykki móður lá ekki fyrir um vistun barnanna utan heimilis tók barnaverndarnefnd mál stefndu til úrskurðar 12. janúar 2010. Var úrskurðað að börnin skyldu vistuð á heimili á vegum barnaverndarnefndar A í allt að tvo mánuði frá úrskurðardegi, sbr. 1. tölul. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Byggðist niðurstaða nefndarinnar m.a. á því að staða barnanna væri slæm, þau byggju við óviðunandi aðstæður og ættu við ýmiss konar vanda að etja. Stefnda ætti erfitt með að setja þeim mörk og sinna þeim sem skyldi. Þrátt fyrir að stefnda hefði ávallt lýst yfir vilja til samstarfs við barnaverndaryfirvöld hefði iðulega orðið misbrestur á því og stefnda ekki þegið stuðningsúrræði sem í boði hefðu verið. Stefnda ritaði í framhaldi af þessu undir samning um umgengni við börn sín 27. janúar 2010 á meðan þau dveldu á vistheimilinu, en hún mun hafa neitað að skrifa undir meðferðaráætlun. Yrði umgengnin annars vegar á miðvikudögum frá kl. 16 til 18 og hins vegar á sunnudögum frá kl. 10 til 13. Barnaverndarnefnd fól [...] enn fremur að gera kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um að börnin yrðu vistuð utan heimilis stefndu í sex mánuði svo unnt væri að gera varanlegar breytingar á uppeldisaðstæðum barnanna.

Eldri drengirnir tveir fóru til fósturforeldra á [...] en yngri börnin tvö dvöldu áfram á vistheimili barna. Stefnda fór í meðferð á Vogi 31. janúar 2010 og dvaldi þar til 11. febrúar 2010. Hún mun ekki hafa þegið boð um eftirmeðferð á Vík eins og henni hafði verið ráðlagt. Í bréfi J, læknis á Vogi, 7. apríl 2010 segir að stefnda hafi útskrifast með engin sérstök áform um endurhæfingu vegna fíknisjúkdóms og yrðu batahorfur því að teljast litlar þar til úr yrði bætt.

Stefnda undirritaði meðferðaráætlun 31. mars 2010, en hún fól m.a. í sér að hún gengist undir forsjárhæfnismat. Þá undirritaði hún samning um umgengni við eldri börnin. Fram kemur í greinargerð barnaverndar frá 20. apríl 2010 að stefnda hefði frá 10. mars 2010 sinnt vel umgengni við yngri börnin. Í byrjun apríl 2009 virðist elsti sonur stefndu, F, hafa flutt til móður sinnar en hann hafði áður verið búsettur hjá föður sínum í [...].

Dómsátt var gerði í máli stefndu 9. apríl 2010 sem fól í sér að börnin yrðu áfram vistuð utan heimilis til 12. júlí 2010. Stefnda sótti um að fá að annast yngri börnin tvö á vistheimili barna og var erindið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar 20. apríl 2010. Í fundargerð nefndarinnar kemur fram að stefnda hafi á þeim tíma verið í stuðningshóp og væri í meðferð á göngudeild SÁÁ. Hún hefði þó upplýst að hún hefði „fallið“ tvisvar frá síðustu meðferð. Málinu var frestað til 4. maí 2010. Samkvæmt greinargerð barnaverndar, sem lögð var fyrir fundinn, hafði óboðað eftirlit verið með heimili stefndu og tekin hefðu verið fíkniefnapróf af henni. Hefðu þau reynst neikvæð en hún þó greint frá því að hún væri að taka Diazepam töflur til að róa taugarnar. Á fundinum var samþykkt að stefnda færi í kennslu- og greiningarvistun á vistheimilinu með yngri börnin út vistunartímann. Skyldi meðferðaráætlun gerð og tekið fram að ef stefnda félli á vímuefnabindindi skyldi málið lagt fyrir barnaverndarnefnd að nýju þar sem framtíðardvalarstaður barnanna yrði ákveðinn.

Hinn 4. júní 2010 var gerður samningur um umgengni stefndu við eldri drengina, D og E, en samkvæmt honum skyldi stefnda dvelja einu sinni í fjórar klukkustundir á fósturheimili þeirra og þeir koma í heimsókn til móður á Vistheimili barna. Ekki liggur annað fyrir en það hafi gengið eftir. Um þetta leyti var einnig aflað upplýsinga frá skóla og leikskóla um líðan barnanna. Frá leikskóla yngri barnanna bárust þær upplýsingar að vel gengi hjá C og að B færi mikið fram. Hins vegar væru samskipti við stefndu lítil. Í umsögn umsjónarkennara D í [...]skóla á [...] kom fram að honum virtist núna líða vel og væri í góðu jafnvægi. Hegðun hans væri oftast mjög góð. Um E sagði að líðan hans og hegðun hefði lagast heilmikið á því tímabili sem hann hefði verið í skólanum. Samskipti við önnur börn væru þó ekki góð en hann ætti erfitt með félagsleg tengsl og samskiptareglur.

Í málinu liggur einnig fyrir skýrsla skipaðs talsmanns tveggja eldri drengjanna, L félagsráðgjafa, dags. 21. maí 2010. Tilgangur skipunar talsmanns þeirra var að koma sjónarmiðum drengjanna á framfæri. Í samantekt talsmannsins kemur fram að rætt hafi verið við þá hvorn í sínu lagi. Afstaða þeirra beggja væri að þeir vildu búa hjá móður sinni en að öðrum kosti hjá ömmu sinni eða frænku.

Faðir yngri barnanna tveggja, I, mun hafa komið til landsins í lok maí 2010 til að njóta umgengni við börnin sín á Vistheimili barna, en þá lágu fyrir gögn sem gáfu til kynna að hann færi með forsjá B ásamt stefndu. Í greinargerð um umgengni hans, dags. 16. júní 2010, kemur fram að samskipti barnanna og föður þeirra hefðu verið góð og hann sýnt þeim hlýju og festu. Hafi börnin kynnst honum og verið ánægð í samvistum við hann.

Stefnda gekkst undir forsjárhæfnismat sem M sálfræðingur annaðist. Í álitsgerð hans, dags. 17. júní 2010, kemur fram að lagðar hefðu verið fyrir hana ýmis sálfræðileg próf er mældu greind, persónuleika, sjálfsmat og fleira. Þá var lífsferill stefndu rakinn, heilsufari hennar og meðferðarsögu lýst, og gerð grein fyrir fjölskylduneti sem og fjárhagslegri stöðu. Á WAIS-greindarprófi mældist heildargreind stefndu 78, munnleg greind 79 og verkleg greind 81. Niðurstöður Raven-greindarprófs sýndu 19 stig en meðaltalsbil „spannar 25. til 75. hundraðsröð“. Útkoman væri því langt fyrir neðan meðaltalsmörk og að mati sálfræðingsins benti það til verulegra frávika í athygli og rökhugsun. Jafnframt er í matinu gerð grein fyrir niðurstöðu MMPI-persónuleikaprófs og persónuleikaprófi Eysencks sem og útkomu úr matslistum um stundar- og lyndiskvíða, viðbrögðum við ögrun og foreldraálagi. Í álitsgerðinni segir að niðurstöður sálfræðilegra prófana sýndu mjög slaka greindarfarslega stöðu stefndu, jafnvel þó að tekið væri tillit til þess að hún hefði lengi búið í [...], væri slök í orðskýringum og væri tiltölulega nýkomin úr harðri neyslu auk þess sem hún hefði slakt skammtímaminni og lélega einbeitingu. Þá bentu niðurstöður persónuleikaprófa til þess að hún hefði mörg geðræn einkenni og persónuleikaraskanir. Hún væri m.a. með krónískan kvíða, þunglyndi og hugsanir hennar „nálguðust oft jaðar raunveruleikamarka“. Hún hefði mjög slakar innri bjargir og myndi eiga áfram erfitt með að takast á við daglegt álag og mörg vandamál. Álagspróf sýndu að stefnda ætti undir niðri í erfiðleikum með að takast á við uppeldi barnanna og að í mati hennar á foreldrahlutverkinu og tengslum sínum við börnin drægi hún upp óljósa mynd af framtíðinni og þeim uppeldisaðstæðum sem hún vildi bjóða börnunum. Komist var að þeirri niðurstöðu að geta stefndu til að axla forsjárskyldur sínar væru „í versta falli skertar og í besta falli óljósar“. Síðan sagði orðrétt:

Á hitt ber að líta að börnin hafa myndað við hana margvísleg tengsl eftir aldri og þroska og fullvíst er að engin önnur tengsl koma þar í staðinn. K hefur einnig gengist undir fíkniefnameðferð og þjálfun í að setja börnunum mörk í hegðun og óskar eftir frekari aðstoð og stuðningi eftir að hún er komin heim til sín. Flest í málflutningi K ber með sér að hún hafi það helsta og eina markmið í lífinu að ala upp og hlúa að börnum sínum og telur sig hafa tekið miklum breytingum í hugarfari og getu. Í ljósi hagsmuna barnanna með geðtengsl þeirra við móður sína að leiðarljósi og með hliðsjón af umræddri breytingu á K, telur undirritaður að reyna verði til þrautar að styðja hana til þess að sinna því hlutverki en til þess að svo megi verða þarf mikinn stuðning og aðhald og telur undirritaður að það verði hvort tveggja að beinast annars vegar að K sjálfri og hins vegar að börnunum fjórum og heimilinu í heild.

Í því efni var m.a. bent á að stefnda þyrfti á geðmeðferð að halda sem tæki raunverulega á stöðu hennar og var bent á tiltekin úrræði í því sambandi. Þá hefði stefnda sjálf kallað eftir aukinni aðstoð, s.s. Stuðningnum heim og stuðningsfjölskyldum. Þá yrði að gæta að því að yngri börnin kæmu á heimilið áður en eldri drengirnir flyttu til stefndu.

Stefnda var í greiningar- og kennsluvistun með yngri börnunum tveimur á Vistheimili barna í þrjár vikur frá 7. maí 2010 þar sem hún sinnti börnunum eftir leikskóla og um helgar. Hinn 28. maí sama ár flutti stefnda í íbúð á vistheimilinu og hugsaði ein um börnin en starfsmenn fóru í heimsókn þrisvar á dag. Í greinargerð starfsmanna vistheimilisins, sem barst skrifstofu barnaverndarnefndar A 22. júní 2010, kemur fram að stefndu hefði farið fram á tímabilinu. Hún hefði verið dugleg að tala við börnin, leika við þau, fara með þau út og sýna þeim hlýju. Þó vantaði upp á að hún stjórnaði eins og foreldri. Virtist hún vilja standa sig vel og búa börnunum gott heimili. Hún væri hins vegar oft kvíðin, hefði ekki mikið sjálfstraust og sér þætti aðrir geta ráðskast með sig og þar með börnin. Þá hefði hún tilhneigingu til að kenna öðrum um þegar illa gengi og spurning væri hvort hún hefði nægilegt úthald og ábyrgðarkennd til að skapa börnunum gott atlæti.

Málið var lagt fyrir barnaverndarnefnd A á fundi 29. júní 2010. Í greinargerð Barnaverndar A kemur fram að starfsmenn hennar leggi til að gerð yrði sex mánaða meðferðaráætlun með stefndu og börn hennar. Í tillögunum fólst m.a. að B og C flyttu heim til stefndu á ný og að D og E yrðu áfram í fóstri til 15. ágúst 2010 en flyttu heim til stefndu að þeim tíma loknum. Áður en til þess kæmi myndu þeir dvelja á heimili hennar aðra hverja helgi. Einnig voru sömu tillögur gerðar og komu fram í forsjárhæfnismati stefndu frá 12. júní 2010, auk þess sem lagt var til að elsti sonur stefndu, F, byggi ekki á heimili hennar á meðan ástandið væri viðkvæmt hvað hin börnin snerti. Faðir B og C, I, krafðist þess á fundinum að tillögum starfsmanna stefnanda, um að börnin hans færu aftur heim til stefndu, yrði hafnað og fór fram á að hann tæki við foreldraábyrgð og uppeldi þeirra.

Barnaverndarnefnd samþykkti að yngri börnin færu aftur til stefndu. Þá skyldu D og E fara á ný til stefndu 18. júlí 2010 en ekki 15. ágúst, þar sem fósturforeldrar þeirra gætu ekki haft þá lengur. Fram kom að elsti sonur stefndu, F, væri staddur í [...] með föður sínum en stefnda kvað hann væntanlegan til landsins eftir tvo til þrjá mánuði. Stefnda ritaði undir meðferðaráætlun til þriggja mánaða samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga hinn 1. júlí 2010. Þar kom m.a. fram að barnavernd skyldi sækja um stuðningsfjölskyldu og um úrræðið „Stuðninginn heim“ fyrir stefndu, fylgjast með börnunum og veita stefndu annan stuðning eftir þörfum. Stefnda skyldi sækja sér meðferð hjá Hvítabandinu á Skólavörðustíg, gangast undir regluleg fíkniefnapróf, taka á móti boðuðu og óboðuðu eftirliti á heimili sínu og vera almennt í samvinnu við starfsmenn stefnanda um málefni sín og nýta vel þann stuðning sem væri í boði af hálfu Barnaverndar A. Í bókun barnaverndarnefndar kom fram að ef meðferðaráætlun gengi ekki eftir skyldi málið lagt fyrir á ný án tafar með tilliti til ákvörðunar um framtíðardvalarstað barnanna, enda væri stuðningur við móður þá fullreyndur.

Börnin fluttu á heimili stefndu eins og kveðið var á um í niðurstöðu barnaverndarnefndar. Í greinargerð Barnaverndar A frá 18. nóvember 2010 kemur fram að stefnda hafi í fyrstu lýst óánægju sinni með að þurfa að fara í meðferð á Hvítabandinu en samþykkti þó að skoða það úrræði. Starfsmenn Barnaverndar A sendu tilvísunarbréf á meðferð fyrir stefndu hjá Hvítabandinu 23. ágúst 2010. Beiðninni var synjað 9. september sama ár þar sem ekki var talið líklegt að stefnda gæti tileinkað sér meðferð þar sökum sálrænnar stöðu sinnar. Stefnda mun hafa fengið tíma hjá geðlækni í staðinn.

Í greinargerð barnaverndar kemur einnig fram að sótt hafi verið um stuðningsfjölskyldur fyrir börnin, en þangað til það gengi eftir hafi stefnda samþykkt að D og E færu reglulega til fósturfjölskyldunnar á [...]. Um miðjan ágúst hafi verið haft samband frá leikskóla yngri barnanna og tilkynnt að þau hefðu ekki komið í leikskóla eftir sumarleyfi. Hefði stefnda borið við að hún væri bíllaus og með strætófóbíu. Hún hefði ekki byrjað að fara með börnin á leikskólann fyrr en hún var minnt á að hún hefði lofað að koma börnunum á leikskólann þrátt fyrir fjarlægð frá heimili. Það mun hafa verið 24. ágúst 2010. Þá hafi yngri börnin byrjað að fara til stuðningsfjölskyldu í byrjun september, fyrst eina helgi en síðan tvær helgar í mánuði. Á meðferðarfundi 26. ágúst sama ár var samþykkt að eldri drengjunum yrði veitt tíu tíma listmeðferð. Í október sama ár var einnig samþykkt að eldri drengirnir tveir færu tvær helgar í mánuði til fyrrum fósturforeldra sinna, í stað einnar helgar í mánuði, til að létta undir með stefndu.

Í fyrrgreindri greinargerð kemur einnig fram að eftirlitsaðilar hafi til mánaðarmóta október/nóvember 2010 farið á heimili stefndu í 25 skipti frá því að börnin fluttu heim til hennar. Stefnda hafi verið heima í 16 skipti og hafi fíkniefnaprufur verið teknar af henni sem ýmist reyndust ógildar eða neikvæðar. Stefnda mun einnig hafa verið boðuð reglulega án fyrirvara í fíkniefnapróf á heilsugæslu [...] og í þau skipti sem hún mætti þangað hafi fíkniefnaprufur reynst neikvæðar. Þó hafi komið fyrir í nokkur skipti að stefnda hafi ekki getað mætt í prufur þar sem hún væri bíllaus og stundum hafi hún ekki svarað í síma þegar reynt hafi verið að boða hana í prufur.

Aðilar á vegum úrræðisins „Stuðningurinn heim“ munu hafa komið alls tíu sinnum á heimili stefndu á tímabilinu frá 7. september til 1. nóvember 2010. Var markmiðið að kenna stefndu að setja börnum sínum mörk og standa við þau. Samkvæmt skýrslu starfsmanna úrræðisins, dags. 11. nóvember 2010, gekk stefndu vel í byrjun en það sem helst hafi truflað var að F, elsti sonur stefndu, hefði verið á heimilinu en hann hefði hvorki verið í skóla né stundað vinnu. Í skýrslunni kom einnig fram að börnum stefndu virtist líða vel þegar starfsmenn komu í heimsókn, fyrir utan E. Í mati á árangri kemur fram að markmið hafi engan veginn náðst þar sem stefnda hefði farið að neyta fíkniefna á tímabilinu.

Tilkynning barst frá lögreglu til Barnaverndar A 14. september 2010 vegna afskipta lögreglunnar af F en hann hafði ásamt félaga sínum haft í hótunum við nágranna fjölskyldunnar eftir að E hafði lenti í orðaskaki við hann. Önnur tilkynning barst frá lögreglu 27. september sama ár þar sem kona hafði fundið B [...] ára og C [...] ára, ein að leik úti við á meðan stefnda hafði lagt sig.

Stefnda undirritaði nýja meðferðaráætlun til sex mánaða 1. október 2010 þar sem gert var ráð fyrir áframhaldandi stuðningi við stefndu með það að markmiði að tryggja öryggi barnanna á heimili hennar. Fram kom að stefnda hefði uppfyllt fyrri meðferðaráætlun, dags. 1. júlí sama ár. Stefnda hefði verið allsgáð síðan í febrúar og til samvinnu og ekkert sem þótti benda til þess að börnin færu aftur í vistun utan heimilis.

Hinn 18. október 2010 barst tilkynning frá lögreglu þar sem hún hafði stöðvað bifreið sem B og C voru farþegar í. Vantaði framrúðu í bílinn en byggingarplast hafði verið notað sem bílrúða og búið að gera gat á plastið fyrir ökumanninn til að sjá út. Börnin hafi verið í bílbeltum en ekki með annan öryggisbúnað. Fram kemur í gögnum málsins að starfsmenn barnaverndar hafi rætt málið við stefndu sem sagðist hafa treyst móðursystur sinni fyrir börnunum meðan hún hefði farið út að versla.

Hinn 2. nóvember 2010 barst tilkynning til Barnaverndar A frá [...]skóla þess efnis að starfsmaður skólans og nágranni stefndu hefði haft samband við skólann og látið vita að E hefði komið á nærbuxunum einum klæða á heimili hennar og sagt frá því að elsti bróðir sinn, F, væri að ráðast á móður þeirra. Lögregla kom á staðinn og hafði hún  samband við Barnavernd A og lét vita að ástandið hjá stefndu og börnum hennar væri ekki gott. Samkvæmt lögregluskýrslu var allt á rúi og stúi í íbúðinni og stefnda alblóðug og í uppnámi. F skýrði lögreglu frá því að hann hefði orðið reiður við stefndu sem hefði verið úti til kl. 5:30 um nóttina og skilið börnin eftir í hans umsjá. Í lögregluskýrslunni greinir frá því að stefnda hafi verið í nokkurri vímu og vínlykt af henni. Hafi hún blásið í áfengismæli er sýndi 0,25 prómill en jafnframt hefði hún viðurkennt að hafa tekið inn „10 stk. af einhverjum töflum“ um nóttina. Stefnda samþykkti að starfsmenn barnaverndar færu með yngri börnin í leikskóla og að þau færu síðan til stuðningsfjölskyldunnar yfir helgina. Þá kom stuðningsforeldri eldri drengjanna á vettvang og sótti þá. Þá kom fram að F myndi snúa aftur heim til föður síns í [...] strax daginn eftir.

Í greinargerð Barnaverndar A 18. nóvember 2010 kemur fram að illa hafi gengið að ná í stefndu næstu daga eftir fyrrgreindan atburð til að mæta á fund til að fara yfir málin. Hafi starfsmenn barnaverndar gert tilraunir til að fara á heimili hennar tvisvar á dag frá 4. til 8. nóvember en stefnda aldrei verið heima og ekki svarað í síma. Til hafi staðið að börnin sneru aftur heim til stefndu 7. nóvember en ekki hafi orðið af því. Fram kemur í greinargerðinni að stuðningsfjölskylda eldri drengjanna hefði heyrt í stefndu og hún greint frá því að hún væri með kærasta sínum, manni að nafni O, í sumarbústað. Hafi stuðningsfjölskyldurnar greint frá því að frá 2. nóvember til 7. nóvember hefði stefnda ekki haft samband við börnin sín. D og E hefðu þó einu sinni náð í hana.

Hinn 8. nóvember 2010 var ákveðið að við þessar aðstæður yrði neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga beitt og var lögmanni stefndu kynnt sú ráðstöfun. Ekki náðist hins vegar í stefndu. Eldri drengirnir voru áfram hjá stuðningsfjölskyldu sinni en yngri börnin fóru á vistheimili. Stefnda mætti loks ásamt lögmanni sínum 9. nóvember 2010. Með þeim var einnig kærasti stefndu, fyrrnefndur O, en fram kemur í gögnum málsins að hann hafði þá nýlokið fangelsisafplánun. Á fundi hjá Barnavernd A, sem haldinn var daginn eftir, samþykkti stefnda að börnin skyldu vistuð utan heimilis frá 9. nóvember til 22. nóvember 2010. Þá kom jafnframt fram að stefnda væri að missa húsnæði sitt sökum skulda. Hefði stefnda sent umsókn um íbúð hjá [...] en óvíst væri hvort hún yrði samþykkt þar sem gerðar væru kröfur um að umsækjendur hefðu verið allsgáðir í minnst 6 mánuði.

Samkvæmt greinargerðum Barnaverndar A til barnaverndarnefndar, sem liggja fyrir í málinu, var umgengni stefndu við börnin afar stopul frá vistun þeirra utan heimilis og þar til barnaverndarnefnd úrskurðaði í málinu 30. nóvember 2010. Ákveðið hafði verið að stefnda yrði á vistheimilinu á hverjum degi eftir að yngri börnin kæmu af leikskóla og þar til þau væru sofnuð og að sama tímafyrirkomulag yrði um helgar. Stefnda mun hins vegar aðeins hafa verið með börnunum 10. og 11. nóvember og síðan aftur 22. nóvember 2010. Þá tilkynnti hún veikindi er hún átti að hitta eldri drengina 13. nóvember sama ár.

Málið var lagt fyrir fund barnaverndarnefndar 19. nóvember 2010 og reifuðu lögmaður föður yngri barnanna, lögmaður stefndu og starfsmenn Barnaverndar A sjónarmið aðila. Ákveðið var að fresta málinu til 30. nóvember 2010 og samþykkti stefnda áframhaldandi vistun barnanna utan heimilis fram á þann dag. Upplýsinga var aflað um niðurstöðu fíkniefnaprófa á þessu tímabili. Í svari hjúkrunarfræðings kom fram að stefnda hefði mætt í fíkniefnapróf 28. október 2010 og þá greinst jákvæð fyrir notkun Díazepams en hún kvaðst þá taka lyfið samkvæmt læknisráði. Stefnda hefði verið boðuð í fíkniefnapróf 17., 18., 19. og 22. nóvember en ekki hefði náðst í hana.

Í greinargerðum Barnaverndar A fyrir fundi barnaverndarnefndar 19. og 30. nóvember 2010 kemur fram að það hafi verið mat starfsmanna barnaverndar að stefnda hefði uppfyllt meðferðaráætlun, dags. 1. júlí 2010, þrátt fyrir ýmsa vankanta á umönnun og eftirliti með börnunum, t.d. hvað snerti mætingu þeirra í skóla og leikskóla. Ný meðferðaráætlun hefði verið gerð 29. september 2010, en að mati starfsmanna hefði hún ekki uppfyllt hana þar sem ljóst þætti að hún væri fallin á vímuefnabindindi þrátt fyrir að hún neitaði því. Þá lægju fyrir upplýsingar frá skóla um vanlíðan eldri drengjanna og slælega mætingu þeirra í haust. Jafnframt var vísað til þess að stefnda hefði virt að vettugi þá samninga sem hún hefði sjálf viljað gera um heimkomu barnanna 7. nóvember 2010. Hafi hún ekki verið til samvinnu eftir það og ekki sinnt umgengni við börnin þrátt fyrir að hún legði áherslu á að yngri börnin þyrftu mikið á henni að halda. Í greinargerðinni segir síðan orðrétt:

Miðað við framvindu málsins frá því að börnin komu til móður á ný og sér í lagi frá 2. nóvember sl. þá telja starfsmenn að móðir sé ekki í stakk búin til að taka við krefjandi umönnun barnanna að nýju og að ekki sé verjandi að börnin búi lengur við óöryggi varðandi framtíðardvalarstað og því ekki hægt að leggja til tímabundna vistun. Við svo búið telja starfsmenn að stuðningsaðgerðir skv. barnaverndarlögum séu fullreyndar og að hagsmunum barnanna sé best borgið með því að þau fái notið tryggari uppeldisaðstæðna.

Í greinargerðinni var lagt til að yngri börnin færu í umsjá föður, að því tilskildu að hann fengi leyfi Barnaverndarstofu skv. 84. gr. barnaverndarlaga, og að eldri drengirnir færu í varanlegt fóstur. Tekið var fram að þessar tillögur tækju mið af málinu í heild sinni frá upphafi og þeirri vanhæfni stefndu sem starfsmenn teldu að hefði verið viðvarandi í málinu. Þrátt fyrir vilja stefndu til samstarfs virtist hún hvorki hafa úthald né getu til að framfylgja forsjárskyldum sínum enda vandi hennar margþættur samkvæmt forsjárhæfnismati.

Lögmaður stefndu mótmælti framangreindu mati starfsmanna barnaverndar og lagði áherslu á að þau vandamál sem upp hefðu komið haustið 2010 tengdust því að elsti sonur stefndu, F, hefði dvalið hjá henni. Hefði hún litið svo á að henni bæri að annast hann þar sem hann hefði ekki náð lögræðisaldri. Hann væri nú horfinn af landi brott. Þá lægi fyrir að góð tengsl væru milli stefndu og barnanna og að ef þau yrðu rofin væru verulegar líkur á að það hefði varanleg áhrif á börnin.

Niðurstaða barnaverndarnefndar A var að hagsmunum barnanna væri best borgið með því að þau yrðu vistuð utan heimilis móður til 18 ára aldurs. Þá var það mat nefndarinnar að rétt væri að stefnt skyldi að því að B og C færu í umsjón föður síns að aðlögunarferli loknu að því gefnu að hann fengi leyfi á grundvelli 84. gr. barnaverndarlaga og að í framhaldinu myndi hann sækja um leyfi sem fósturforeldri. Þá færu D og E á fósturheimili á vegum barnaverndarnefndar A. Fól nefndin [...] að gera kröfu um að stefnda yrði svipt forsjá barna sinna, sbr. a- og d- liði 29. gr. barnaverndarlaga. Þá úrskurðaði hún að börnin skyldu vistuð á heimili á vegum barnaverndarnefndar A í allt að tvo mánuði frá og með 30. nóvember 2010, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga.

2. Gagnaöflun eftir þingfestingu málsins

Mál þetta var þingfest 25. janúar sl. Stefnda skilaði greinargerð í þinghaldi 17. mars sama ár Í næsta þinghaldi, 19. apríl sl., lagði lögmaður stefnanda fram ýmis gögn m.a. um lögregluafskipti af stefndu 12. og 29. desember 2010 og viðleitni föður D og E til að fá þá til sín. Einnig var lagt fram tímabundið leyfi Barnaverndarstofu fyrir því að faðir yngri barnanna, I, færi með umsjá þeirra í [...]. Þá voru lögð fram gögn um umgengni stefndu við eldri drengina um jólin 2010, um lögregluafskipti af stefndu 20. janúar 2011, þar sem fram kemur að hún hafi verið að innheimta skuld vegna fjögurra Mogadon-spjalda, sem og lögregluskýrsla frá 1. febrúar 2011, þar sem stefnda og kærasti hennar voru að reyna að komast inn á heimili stefndu að [...]. Í því tilviki fundust fíkniefni við leit á kærastanum og fíkniefnaumbúðir á heimilinu. Einnig hafa verið lögð fram gögn sem sýna að stefnda hafi byrjað í meðferð að Hlaðgerðarkoti í mars sl. en yfirgefið meðferðina skömmu síðar.

Í þinghaldinu 19. apríl sl. var auk framangreindra gagna lögð fram matsbeiðni af hálfu stefndu.  Þar er óskað mats á eftirfarandi atriðum:

   1.            Forsjárhæfni matsbeiðanda, þ. á m. helstu persónueinkenni hennar, tilfinningaástand og tengslahæfni.

   2.            Hvernig háttað sé andlegri heilsu matsbeiðanda og hvort líklegt sé að matsbeiðandi sé ófær um að annast börn sín / eða að börnunum sé hætta búin vegna andlegrar vanheilsu eða geðsjúkdóms matsbeiðanda.

   3.            Hvernig háttað er tilfinningalegu sambandi og tengslum milli matsbeiðanda og barna hennar og hver skilningur matsbeiðanda á þörfum þeirra er.

   4.            Hvort fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu barnanna eða þroska þeirra sé hætta búin fari matsbeiðandi með forsjá þeirra eða hvort breytni matsbeiðanda sé líkleg til að valda þeim alvarlegum skaða.

   5.            Hvort matsbeiðandi sé ófær um að sinna daglegri umönnun og uppeldi barnanna með hliðsjón af aldri þeirra og þroska.

   6.            Hvort önnur úrræði en forsjársvipting gætu komið að gagni til að tryggja velferð barna matsbeiðanda.

Óskað var eftir því að mat á því sem fram kæmi í þriðja og fimmta lið væri sundurliðað eftir börnum matsbeiðanda. Þá var einnig óskað að matsmenn mætu forsjárhæfni annars vegar með tilliti til þess að hún fengi forsjá allra fjögurra barnanna, en einnig með tilliti til þess að hún fengi forsjá eingöngu tveggja yngri barnanna eða tveggja eldri barnanna, ef matsmenn teldu að fjöldi barna hefði áhrif á forsjárhæfni hennar.

P geðlæknir og R sálfræðingur voru hinn 6. maí sl. dómkvödd til að framkvæma matið og var við það miðað að þau skyldu ljúka því 6. júní sama ár. Matsgerð lá þá ekki fyrir og var málinu frestað til 21. júní sl. Fyrir þinghaldið lét annar matsmanna dómara vita að ekki hefði reynst unnt að ljúka matinu sökum þess að stefnda hefði nánast ekkert sinnt því að mæta á fundi hjá matsmönnum, hvorki fundi með henni einni né svokallaða tengslaathugunarfundi með börnunum . Matsmenn gerðu dómara nánari grein fyrir þessu með bréfi 22. júní sl. þar sem meðferð matsmálsins var rakin. Kemur þar fram að stefnda hafi mætt í eitt viðtal af fimm hjá P. Þá hefði hún mætt í eitt viðtal hjá R af fjórum til fimm viðtölum sem talið var að væru nauðsynleg til að ljúka matinu. Stefnda hefði einnig verið boðuð til umgengnisheimsóknar á fósturheimili eldri drengjanna 4. júní sl. en ekki hafi orðið af því þar sem ekki hefði náðst í hana og hún ekki látið vita af sér.

Málið var næst tekið fyrir 4. júlí sl. og bókað að málinu yrði frestað til gagnaöflunar og enn fremur til þess að stefnda, með aðstoð lögmanns síns, gæti leitað eftir því við matsmenn að þeir framkvæmdu matið fyrir þann tíma að því tilskildu að hún mætti á þá fundi sem nauðsynlegir væru. Annar dómkvaddra matsmanna tilkynnti að hann gæti ekki unnið meira að málinu og var þá S sálfræðingur dómkvödd 7. júlí sl. til að framkvæma matið ásamt P geðlækni. Í þessum þinghöldum voru lögð fram ýmis gögn, s.s. umsögn skipaðs talsmanns eldri barnanna 25. maí 2011 og vottorð T geðlæknis, dags. 1. júní 2011.

Lögmaður stefndu lagði fram matsgerð matsmanna, dags. 14. september sl., fyrir aðalmeðferð málsins. Um gagnaöflun segir í matsgerðinni að matsmaðurinn S hafi aflað gagna með viðtölum við stefndu og að samskipti hennar og barnanna hafi verið skoðuð þegar umgengni hafi farið fram 10. júlí 2011. Þá segir þar að ekki hafi verið hægt að ljúka við matið þar sem stefnda hefði hætt að mæta í viðtölin. Ljóst er að stefnda mætti í fjögur viðtöl hjá matsmanninum en ekki í fimmta og síðasta viðtalið en þá svaraði hún ekki í síma. Þá liggur fyrir að ekki voru lögð fyrir stefndu sálfræðileg próf af matsmönnum heldur stuðst við niðurstöður prófa sem grein er gerð fyrir í forsjárhæfnismati. Einnig kemur fram að matsmaðurinn P hafi aflað gagna með tveimur, klukkutíma löngum viðtölum við stefndu, með athugun á sjúkragögnum geðdeildar og með símtali við T geðlækni. Fram kemur í matsgerðinni að stefnda hafi ekki mætt í boðuð viðtöl hjá matsmanninum 4. maí, 6. júní, 14. júní og 3. ágúst sl. Hún mætti hins vegar í viðtal 30. maí og 20. júlí. Hinn 3. júní mætti hún í miklu uppnámi og baðst undan því að ljúka viðtalinu.

Í matsgerðinni er gerð grein fyrir niðurstöðu geðskoðunar matsmanna. Þar kemur fram að stefnda hafi átt við þunglyndi og kvíða að stríða frá 25 ára aldri og tekið þunglyndislyf. Engin saga sé hins vegar um alvarlegar geðraskanir s.s. geðrof eða geðhvarfasýki. Með þeim fyrirvara að fullu geðlæknisfræðilegu mati hafi ekki verið lokið þá segir í matsgerðinni nokkuð ljóst að stefnda sé tilfinninganæmur og viðkvæmur einstaklingur sem eigi erfitt með tilfinningastjórnun einkum undir álagi. Hún hafi tilhneigingu til að kenna öðrum um ef hún lendi í árekstrum og upplifi sig sem fórnarlamb aðstæðna. Í ljósi uppvaxtarsögu hennar og áfalla á lífsleiðinni telja matsmenn að búast megi við að hún hafi einhver merki áfallastreitu þó að það hafi ekki verið formlega greint. Þá kemur fram í þessum þætti matsins að hún hafi hlýjar og eðlilegar tilfinningar til barna sinna en að hún eigi mjög erfitt með að skipuleggja sig og halda gerða samninga. Megi því ætla að hún muni eiga erfitt með að veita börnum sínum nægilegt aðhald og leiðsögn í uppeldinum. Erfitt sé að meta með vissu hvort fíknivandi stefndu sé nú óvirkur enda sé það eðli fíknar að sjúklingar leyni vandanum í lengstu lög. Kemur fram að geðheilsa hennar til lengri tíma velti mjög á því hvort henni takist að ná tökum á þeim vanda til frambúðar.

Í niðurstöðum matsmanna kemur fram að ekki sé unnt að taka afstöðu til allra matsspurninga þar sem athugun og gagnaöflun hafi ekki verið lokið. Síðan segir eftirfarandi í matinu um tengsl móður við börnin:

Án efa þykir móður mjög vænt um börnin sín og tengist þeim á náinn og ástríkan hátt. Styrkleiki hennar er sá að hún er mjög hlý og sýnir börnunum mikinn kærleika. Veikleikar hennar sem móður er andlegt heilsufar hennar, persónuleikaraskanir sem valda árekstrum við umhverfið sem aftur ýta undir kvíða hennar t.d. árekstrar við barnavernd, rifrildi við nágranna og hótanir. Hún á oft erfitt með að bera ábyrgð á sér og börnunum, hefur lítið innsæi í þarfir þeirra og setur sínar eigin þarfir oft ofar þörfum barnanna. Hún sinnti því t.d. illa að fara með yngri börnin í leikskólann sumarið 2010 og rök hennar fyrir slakri mætingu var út frá hennar þörfum en ekki þörfum barnanna, „hún var bíllaus, var með strætófóbíu, of dýrt að keyra og vildi sjálf vera með börnunum“. Þegar móðir var í óreglu sinnti hún börnunum misvel og veikleikar hennar í foreldrahlutverkinu tóku yfir. Í gögnum málsins kemur fram að stundum hafi liðið þó nokkur tími sem móðir hitti ekki börnin þegar þau voru vistuð. Engin ástæða er til að efast um að móður þyki vænt um börnin sín og sýni þeim ást og hlýju þegar hún er með þau og í góðu ástandi. Neysla móður hefur haft slæm áhrif á börnin, sérstaklega E og D. D hefur orðið mjög reiður og sýnt móður sinni ofbeldi.

Í matsgerðinni er síðan vikið að niðurstöðu í forsjárhæfnismati M sálfræðings og eftirfarandi ályktun dregin:

Það er engum vafa undirorpið að sterk geðtengsl eru milli móður og barnanna, sérstaklega yngri barnanna sem hún hefur að mestu annast ein. Geðtengsl barns við umönnunaraðila hefur forspárgildi varðandi andlega líðan á fullorðinsárum. Góð geðtengsl veita barninu öryggi og stöðugleika og það þróar með sér félagslega hæfni. Börn undir fimm ára aldri eru sérstaklega viðkvæm fyrir aðskilnaði og geðtengslarofum. Ef geðtengslarof verður er hætta á að barnið þrói með sér erfiðleika í tilfinningastjórnun, fjölskyldutengslum og glími við geðrænan vanda á fullorðinsárum. Einnig er hætta á að barnið, þegar það verður fullorðið, eigi í erfiðleikum í foreldrahlutverkinu og viðhaldi ástandinu fram í næstu kynslóð. (e.g., Hesse & Main, 2006; Solomon & George, 2006). Með þetta í huga taka matsmenn undir tillögur M um að reynt verði til þrautar að styðja móður til að sinna foreldrahlutverki sínu.

Í matsgerðinni kemur þó fram að stefnda hafi slakar fyrirmyndir úr æsku sinni sem foreldri og hún þurfi því mikla aðstoð til að bæta foreldrahæfni sína. Þannig þurfi hún að fá skýrar leiðbeiningar og sýnikennslu í því hvernig takast eigi á við daglegt líf. Móðir þurfi sjálf enduruppeldi og menntun. Hún hafi lítið stuðningsnet í kringum sig þannig að enn mikilvægara sé að hún fái góðan stuðning og stuðningsfjölskyldu fyrir börnin. Þá sé einnig mikilvægt að hún sé í góðri samvinnu við barnaverndaryfirvöld og haldi sig frá eiturlyfjum. Þá verði eftirlit að vera áfram með heimilinu fái hún börnin aftur til sín.

III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi heldur því fram að vímuefnavandi og andleg heilsa stefndu hafi verið með slæmu móti nánast óslitið frá barnæsku barnanna. Gögn málsins beri það sterklega með sér að í þau skipti sem börnin hafi verið í umsjá stefndu hafi þau búið við gríðarlegan óstöðugleika og óvissu um framtíð sína. Stefnda hafi verið til mismikillar samvinnu en oft þegið þau stuðningsúrræði sem henni hafi verið boðin, m.a. geðlæknisviðtöl, eftirlit og aðhald starfsmanna stefnanda, félagslegt húsnæði, meðferðarúrræði auk fjárhagslegs stuðnings, svo eitthvað sé nefnt. Úrræðin hafi hins vegar ekki dugað til sökum djúpstæðs vanda hennar. Stefnandi heldur því fram að stefnda hafi takmarkaða innsýn í sjúkdóm sinn og hafi þ.a.l. ekki náð tökum á vandanum en heldur kosið að afneita honum og kenna öðrum um ófarir sínar og barnanna. Heilsa stefndu hafi ekki tekið framförum á tímabilinu eins og að hafi verið stefnt nema síður sé. Stefnda hafi engan vilja sýnt til að halda langvarandi vímuefnabindindi.

Stefnandi reisir kröfu sína um forsjársviptingu á því að ítrekað hafi verið leitast við að aðstoða stefndu við að taka á vandamálum sínum með það að markmiði að börnin nytu uppeldis og forsjár hennar. Stefnda eigi við alvarlegan vímuefnavanda að stríða er leiði til þess að hæfni hennar sem forsjáraðila sé skert eins og forsjárhæfnismat sýni með óyggjandi hætti. Börnin hafi verið vistuð utan heimilis vegna vímuefnavanda og veikinda stefndu og hafi eytt dágóðum hluta ævi sinnar án foreldratengsla við stefndu. Af forsögu málsins megi sjá að uppeldisaðstæður barnanna hafi verið óviðunandi í umsjá stefndu og að vímuefnaneysla og óstöðugleiki hafi einkennt bernsku þeirra. Með þá forsögu stefndu í huga sé ljóst að hún hafi hvorki vilja né getu til að búa börnunum það uppeldisumhverfi sem þau sannanlega eigi rétt á. Báðir eldri drengirnir hafi verið illa haldnir af félagslegum og hegðunartengdum erfiðleikum sem rekja megi beint til þess óstöðugleika sem einkennt hafi aðstæður þeirra um árabil. Stefnandi telur því afar brýnt að koma á þeim stöðugleika í uppeldisaðstæðum drengjanna sem þeim og börnunum öllum sé nauðsynlegur.

Stefnandi telur að ávallt hafi verið leitast við að eiga eins góða samvinnu við stefndu um málið eins og aðstæður hafi leyft. Þau úrræði sem henni hafi verið boðin hafi hins vegar ekki dugað henni og verði það fyrst og fremst rakið til hins djúpstæða vanda sem hún glími við í formi misnotkunar á áfengi og öðrum vímuefnum og andlegra veikleika. Að mati stefnanda hafi verið leitast við að beita eins vægum úrræðum gagnvart stefndu og unnt hafi verið hverju sinni. Hafi stuðningsúrræði ekki megnað að skapa börnunum þau uppeldisskilyrði sem þau eigi skýlausan rétt á. Önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting séu því ekki tiltæk nú, en brýna nauðsyn beri til að skapa börnunum það öryggi og þá festu og umönnun sem þau hafi farið á mis við fram að þessu. Að mati stefnanda hafi meðalhófsreglunnar verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki verið gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi krafist.

Stefnandi bendir á að það séu frumréttindi barna að fá að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Stefnandi telur það hafa sýnt sig að stefnda geti ekki búið börnum sínum þau uppeldisskilyrði. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldra og barna vegist á séu hagsmunir barnanna þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem mælt sé fyrir um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sbr. lög nr. 18/1992. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og í Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sbr. lög nr. 10/1979.

Við munnlegan málflutning lagði stefnandi áherslu á að fallast bæri á kröfu um forsjársviptingu ef dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að skilyrðum a- eða d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 væri fullnægt og að önnur og vægari úrræði til úrbóta hefðu verið reynd án viðunandi árangurs. Stefnandi taldi gögn málsins sýna að stefnda væri augljóslega vanhæf til að fara með forsjána vegna greindarskerðingar og annarra sálrænna erfiðleika hennar sem og vímuefnaneyslu. Um þetta vísar stefnandi til fyrirliggjandi gagna og forsjárhæfnismats M sálfræðings. Stefnandi telur nýtt mat S sálfræðings og P geðlæknis ekki breyta þessu. Ekki hafi verið lagður nægilega traustur grunnur að þeirri niðurstöðu sem þar er komist að. Enginn efist um að stefnda elski börnin sín og sé tengd þeim sterkum böndum. Þá sé ekki dregið í efa að hún vilji annast börnin eins vel og kostur er. Hins vegar sýni gögn málsins að getan til þess sé ekki til staðar vegna þeirra þátta sem að framan greinir. Þá hafi uppeldisaðstæður barnanna verið óviðunandi um langt skeið og umsjá þeirra alvarlega ábótavant vegna augljósrar vanhæfni hennar. Með vísan til þess og þeirrar meginreglu, sem komi fram í 4. gr. barnaverndarlaga um að hagsmunir barnanna skuli ávallt vera í fyrirrúmi, telur stefnandi að fallast beri á kröfu stefnanda.

Í stefnu kemur fram að stefnandi byggi m.a. á eftirfarandi réttarheimildum: Barnaverndarlögum nr. 80/2002, Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992, Alþjóðlegum samningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979 og lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991.

2. Málsástæður og lagarök stefndu

Í greinargerð stefndu er sú athugasemd gerð við málatilbúnað stefnanda að hann byggist að miklu leyti á fjölda gagna er stafi frá stefnanda sjálfum og að hluta til á tilkynningum um grunsemdir sem sagðar séu nafnlausar. Eigi þessar nafnlausu grunsemdir enga stoð í raunveruleikanum og sé ekki hægt að byggja niðurstöðu málsins á slíku. Dregur þetta allt verulega úr sönnunargildi þeirra gagna sem stefnandi byggi mál sitt á.  Hins vegar beri að líta til þess að í þeim gögnum sem stefnandi leggi sjálfur fram sé að finna fjölmörg atriði sem bendi til þess að stefnda hafi almennt sinnt börnum sínum vel og myndað gott samband við þau.

Stefnda telur að í stefnu sé mikið gert úr vímuefnaneyslu stefndu. Stefnda viðurkenni að á tímabili hafi hún átt í erfiðleikum með fíkniefni og þá sérstaklega lyfseðilsskyld lyf sem hún hafi fengið frá læknum vegna veikinda sinna. Stefnda telur að þáttaskil hafi orðið í fíkniefnaneyslu sinni um áramótin 2009-2010. Eftir þann tíma hafi hún tekið sig mikið á og hætt allri neyslu. Á árinu 2010 hafi verið tekin fjölmörg fíkniefnapróf af stefndu sem öll hafi verið neikvæð fyrir utan eitt skipti, 28. október 2010, þar sem hún hafi mælst jákvæð fyrir Diazepam. Stefnda kveðst hafi mælst jákvæð í það skiptið þar sem hún hafi verið nýbyrjuð á nýjum lyfjum (Stesolid) sem hún hafi fengið frá geðlækni sínum. Þá liggi fyrir að stefnda hafi viðurkennt að hafa drukkið einn bjór þriðjudaginn 2. nóvember sl. Samkvæmt áfengismælingu lögreglu, hafi hún aðeins mælst með 0,25 prómill í blóði. Hins vegar hafi vandamál stefndu ekki verið tengd áfengisneyslu, heldur fyrst og fremst fíkniefnaneyslu. Hún hafi einnig viðurkennt að hafa neytt lyfseðilsskyldra lyfja sem hún hafi fengið ávísað frá lækni.

Stefnda viðurkennir að eftir að börn hennar hafi verið vistuð utan heimilis hafi hún leiðst aftur út í neyslu áfengis- og vímuefna. Það hafi verið mikið áfall fyrir hana þegar börn hennar hafi verið tekin af henni í annað sinn, hún hafi átt erfitt, lent í miklu áfalli og því neytt fíkniefna í nokkurn tíma. Hún hafi ákveðið að vinna bug á vímuefnafíkn sinni í eitt skipti fyrir öll og hafi farið í meðferð á deild 33A á Landspítalanum. Þá hafi hún innritað sig í meðferð á Hlaðgerðarkoti. Við munnlegan málflutning kvaðst stefnda hafa haldið sig frá allri neyslu undanfarna mánuði. Því til stuðnings bendir hún á að hún hafi gengist undir fíkniefnapróf 10. júlí sl. sem hafi reynst neikvætt. Þá leggur stefnda áherslu á að ekkert liggi fyrir um að hún hafi neytt fíkniefna meðan hún hafi haft börnin í sinni umsjón allt frá áramótum 2009/2010.

Varðandi mat á forsjárhæfni stefndu tekur hún fram að fyrir liggi mat M sálfræðings. Niðurstöður þess bendi ekki til að hún sé augljóslega vanhæf til að fara með forsjána. Þar sé sett út á greindarfarslega stöðu stefndu og að einhverju leyti dregin í efa hæfni hennar sem uppalanda. Hins vegar staðfesti þetta mat að mikil tengsl séu milli hennar og barnanna og að engin önnur tengsl komi þar í staðinn. Þá hafi stefnda gengist undir fíkniefnameðferð og þjálfun í að setja börnunum mörk í hegðun auk þess sem hún óski eftir frekari aðstoð og stuðningi. Því sé talið að reyna eigi til þrautar að styðja stefndu til að sinna foreldrahlutverkinu. Þar eru sett fram fimm atriði sem huga þurfi að í tengslum við endurkomu barnanna til stefndu. Telur stefnda að stefnanda hafi mistekist að fylgja þessum leiðbeiningum.

Stefnda bendir einnig á að matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna styðji þessa niðurstöðu. Niðurstöður matsgerðarinnar séu skýrar um að mikil geðtengsl séu milli stefndu og barnanna og að geðtengslarof geti haft mjög slæm áhrif á þroska þeirra. Því skuli reyna til þrautar að styðja stefndu í foreldrahlutverkinu. Önnur gögn í málinu styðji einnig að mikil og góð tengsl séu milli stefndu og barnanna. Þá verði að taka tillit til vilja barnanna, einkum tveggja eldri strákanna, sbr. m.a. 2. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga.

Stefnda byggir á því að meðan hún sinnti börnunum á árinu 2010 hafi henni farið mikið fram sem uppalanda og hún nýtt sér vel þá leiðsögn sem hún hafi fengið. Vísar hún í því sambandi til greinargerðar starfsmanna vistheimilis sem og skýrslu starfsmanna sem unnu með henni að úrræðinu „Stuðningurinn heim“.

Stefnda telur óumdeilt að hún sinni grunnþörfum barnanna mjög vel þegar hún sé ekki í neyslu. Hún hafi nægan tíma til að hugsa um börnin. Þó að hún eigi erfitt með að setja börnum sínum mörk þá sé það ekki nægileg ástæða til að svipta hana forsjá. Þá liggi ekkert fyrir um að stefnda hafi beitt börn sín andlegu eða líkamlegu ofbeldi.

Varðandi aðstæður stefndu í dag kom fram í munnlegum málflutningi að hún viðurkenni að hafa byrjað á ný í vímuefnaneyslu þegar börnin voru tekin af henni í nóvember á síðasta ári eins og fram hefur komið. Engin merki séu hins vegar um fíkniefnaneyslu hennar á undanförnum mánuðum og hafi henni tekist að koma lagi á líf sitt. Telur hún að þau áföll sem orðið hafi á síðasta ári megi að miklu leyti rekja til málsmeðferðar stefnanda í málinu. Elstu bræður barnanna, F og G, séu nú hjá henni og geta þeir verið henni stuðningur við umönnun yngri barnanna. Á þessari stundu eigi hún við húsnæðisvanda að stríða en hún búi tímabundið í leiguhúsnæði móður sinnar. Stefnda telur þó að ef hún fái forsjá barnanna ætti að vera auðvelt fyrir hana að verða sér úti um leiguhúsnæði. Þá bendir stefnda á að húsnæðisvandi eigi ekki að vera ákvarðandi við mat á sviptingu forsjár, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 26. október 2006 í máli Wallova og Walla gegn Tékklandi.

Af hálfu stefndu eru gerðar alverlegar athugasemdir við þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til af hálfu stefnanda í málinu eftir að börnin voru vistuð utan heimilis. Stefnda telur að ekki hafi verið heimilt að flytja yngri börnin tvö á fósturheimili í öðru landi, sbr. 8. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá uppfylli flutningur barnanna ekki meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Með því hafi verið valin leið sem hafi verið fyrirhafnarminni fyrir stefnanda en um leið horft fram hjá hagsmunum barnanna og geðtengslum stefndu og þeirra. Þá sé kynfaðir þeirra þeim nánast ókunnugur. Aðrir kostir hafi verið í stöðunni s.s. að vista börnin á vistheimili eða fósturheimili á Íslandi eða að gera föður kleift að fóstra börnin á Íslandi eins og hann hafði lýst yfir að hann væri reiðubúinn að gera. Með þessari ráðstöfun hafi umgengni stefndu við börnin verið gerð mjög erfið, en slík umgengni hafi aðeins átt sér stað í eitt skipti frá því að krafa var gerð um sviptingu forsjár. Þá heldur stefnda því fram að ekkert eftirlit sé með fósturheimilinu í [...]. Kynfaðir barnanna sé þó þekktur ofbeldismaður. Þá hafi leyfi Barnaverndarstofu til vistunar barnanna hjá honum runnið út 21. mars 2011.

Stefnda gerir einnig athugasemdir við þá ákvörðun stefnanda að senda eldri drengina á nýtt fósturheimili á [...]. Með þeirri ráðstöfun hafi þeim verið komið fyrir eins langt frá dvalarstað stefndu og hugsast getur á Íslandi og stefnda ekki fengið mörg tækifæri til umgengni við þá.

Stefnda byggir einnig á því að málsmeðferð barnaverndaryfirvalda í málinu sé ábótavant. Hún telur að sér hafi ekki verið veittur sá stuðningur sem henni hafi verið nauðsynlegur til þess að takast á við foreldrahlutverkið. Í forsjárhæfnismati hafi verið lagt til að stefnda fengi geðmeðferð þar sem tekið yrði á stöðu hennar og bent á hópmeðferð á dagdeild geðdeildar á Skólavörðustíg. Ekki hafi verið send tilvísun í þá meðferð fyrr en tveimur mánuðum eftir að forsjárhæfnismatið lá fyrir. Eftir að stefndu hafði verið synjað um þá meðferð hafi stefnandi ekki reynt að koma henni í aðra meðferð sem væri betur við hæfi, heldur sent hana til sama geðlæknis og hún hafði verið í meðferð hjá í nokkur ár án sýnilegs árangurs. Telur stefnda að tilraunir stefnanda til þess að veita henni geðmeðferð við hæfi hafi fyrst og fremst verið til málamynda og vilji til þess að hjálpa henni hafi verið takmarkaður. Þá bendir stefnda á að ekki hafi verið fylgt þeirri tillögu sálfræðingsins, sem annaðist mat á forsjárhæfni hennar, að leyfa yngri börnunum að koma fyrst inn á heimilið og fá eldri drengina í heimsókn til þeirra áður en þeir kæmu endanlega til stefndu. Í stað þess að fylgja þessu eftir hafi eldri drengirnir komið endanlega á heimilið rétt rúmlega tveimur vikum eftir að yngri börnin komu til hennar. Því hafi í raun ekki gefist nokkur aðlögunartími fyrir stefndu til að takast á við uppeldi yngri barnanna áður en eldri drengirnir komu inn á heimilið aftur. 

Í greinargerð stefndu er því einnig haldið fram að barnaverndaryfirvöld hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 56. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hafi verið aflað nægra upplýsinga um föður yngstu tveggja barnanna, I, eða hvernig forsjá þeirra væri  í raun háttað. Þá hafi skort á að fyrir lægju yfirlýsingar frá þeim aðilum sem annast hafi börn stefndu þar sem fram komi hvernig samvinna við hana hafi verið á árinu 2010.

Stefnda telur einnig að stefnandi hafi ekki gæt meðalhófs við meðferð málsins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, 7. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Í fyrsta lagi telur stefnda að vægasta úrræðið hafi ekki verið valið sem í boði hafi verið. Það liggi fyrir að barnavernd hafi eingöngu verið að vinna með stefndu frá því um mitt ár 2008 eða í um tvö og hálft ár. Fyrir þann tíma hafi barnaverndaryfirvöld ekkert komið nálægt málum hennar og barna hennar, hvorki á Íslandi né í [...]. Stefnda fellst á að rétt hafi verið að grípa til aðgerða eftir atvikið í byrjun nóvember sl. þar sem stefnda hafi ekkert ráðið við F. Hins vegar hefði stefnandi átt að velja vægara úrræði, eins tímabundna vistun, meðan stefnda væri að vinna úr sínum vandamálum. Þess í stað hafi verið ákveðið að beita mest íþyngjandi úrræði sem stefnandi hafi haft völ á. Þetta hafi verið gert þrátt fyrir getu hennar til að annast börnin þegar hún haldi sig frá vímuefnum. Í þessu sambandi byggir stefnda á þeirri meginreglu barnaréttar að það sé börnum fyrir bestu að alast upp hjá foreldri sínu. Þá hafi ekki verið hóf í beitingu þess úrræðis sem valið var. Hafi stefnandi valið leiðir sem miðuðu að því að takmarka tengsl stefndu og barnanna sem mest. Umgengni við börnin hafi verið í lágmarki og samband hennar við yngri börnin nánast alveg rofið. Telur stefnda að með því að veita móður svo litla umgengni sem raun beri vitni miðað við aðstæður hafi stefnandi brotið gegn meðalhófsreglu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 26. mars 1999.

Í greinargerð stefndu er tekið heilshugar undir það með stefnanda að ef hagsmunir stefndu og barna hennar fari ekki saman vegi hagsmunir þeirra þyngra. Hins vegar telur stefnda ljóst að börnin hafi ríka hagsmuni af því að vera hjá móður sinni. Stefnda hafi sýnt mikinn vilja til samstarfs við barnaverndaryfirvöld og svo yrði að sjálfsögðu áfram ef hún héldi forsjánni yfir börnum sínum. Ekkert sé fram komið í málinu sem kalli á forsjársviptingu eins og sakir standi. Því beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

Stefnda kveðst byggja kröfur sínar aðallega á sömu réttarheimildum og vísað sé til í stefnu. Þá styðjist krafa um málskostnað aðallega við 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

IV.

Niðurstaða

Stefnda gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Þá gáfu dómkvaddir matsmenn einnig skýrslu fyrir dómi og staðfestu matsgerð sína, dags. 14. september sl. Ekki er ástæða til að rekja sérstaklega það sem fram kom við skýrslugjöf þessara aðila en þó verður vikið að einstökum atriðum í rökstuðningi fyrir niðurstöðu dómenda eftir því sem þörf þykir.

Eldri drengirnir, D og E, ræddu ekki við dóminn, en fyrir liggja tvær greinargerðir skipaðs talsmanns þeirra, L. Í lýsingu á málsatvikum í kafla II er vikið að greinargerð hennar frá 21. maí 2010. Kemur þar fram að helst vildu drengirnir þá búa hjá móður sinni. Í síðari greinargerð talsmannsins, dags. 25. maí 2011, kemur fram að D hafi verið tregur til að ræða við talsmanninn. Hann tjáði henni þó að hann vildi helst ekki fara frá fósturforeldrum sínum á [...], en ef hann gæti ekki verið þar áfram vildi hann vera hjá pabba sínum í [...]. Þá varð það niðurstaða talsmannsins að E vildi annaðhvort vera hjá móður sinni eða áfram hjá fósturforeldrunum á [...].

Stefnandi reisir kröfu sína um að stefnda verði svipt forsjá fjögurra barna sinna á a- og d-liðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í a-lið málsgreinarinnar kemur fram að barnaverndarnefnd sé heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar skuli sviptir forsjá ef hún telur að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra  og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska. Samkvæmt d-lið málsgreinarinnar getur barnavernd gert sömu kröfu ef fullvíst er að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Í 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga segir að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.

Stefnda reisir sýknukröfu sína á því að ekki hafi verið sýnt fram á að ofangreindum skilyrðum sé fullnægt og að unnt sé að beita vægari úrræðum. Í málatilbúnaði stefndu er einnig skírskotað til þess að mistök hafi verið gerð af hálfu stefnanda varðandi ráðstöfun barnanna eftir að hún var svipt tímabundið forsjá þeirra. Um fósturráðstafanir stefnanda gilda fyrirmæli XII. kafla barnaverndarlaga. Í málinu er einungis gerð krafa um að stefnda verði svipt forsjá barnanna. Það er hlutverk dómsins að meta hvort framangreindum skilyrðum a- eða d-liða 1. mgr. 29. gr. sé fullnægt í málinu og hvort vægari úrræði hafi verið reynd án viðunandi árangurs auk þess sem það kemur í hlut dómenda að meta hvort börnunum sé fyrir bestu í ljósi aðstæðna að stefnda verði svipt forsjá þeirra. Við úrlausn á því hefur lögmæti ákvarðana stefnanda og annarra barnaverndaryfirvalda um fósturráðstöfun barnanna takmarkaða þýðingu.

Eins og ráðið verður af forsjárhæfnismati á stefndu frá 17. júní 2010, sem M sálfræðingur annaðist, er vandi stefndu margþættur. Ekki er efni til að draga í efa þá niðurstöðu hans að stefnda búi við mjög slaka greindarfarslega stöðu og að hún glími við ýmis geðræn einkenni og persónuleikaraskanir. Ljóst er af niðurstöðu forsjárhæfnismatsins, sem fær stoð í mati hinna dómkvöddu matsmanna, að stefnda sé með krónískan kvíða og þunglyndi. Hins vegar virðist hún ekki haldin alvarlegri geðröskun s.s. geðrofi eða geðhvarfasýki, eins og ráða má af mati hinna dómkvöddu matsmanna. Dómurinn leggur jafnframt til grundvallar þá niðurstöðu persónuleikaprófa, sem gerð er grein fyrir í forsjárhæfnismatinu, að stefnda eigi erfitt með að takast á við daglegt álag og hafi mjög slakar innri bjargir sem og að hún eigi erfitt með tilfinningastjórnun.

Gögn málsins gefa til kynna að stefnda hafi átt við lyfjamisnotkun að stríða um alllangt skeið. Hún var lögð inn á sjúkrahús í [...] vegna ofneyslu lyfja í desember 2003 og fram kemur í gögnum frá [...] félagsmálayfirvöldum að hún hafi þá verið mjög illa haldin. Hún virðist hins vegar hafa náð tökum á misnotkuninni um tíma meðan hún bjó í [...]. Af gögnum málsins verður ráðið að eftir að stefnda flutti til Íslands hafi hún  byrjað að misnota lyf að nýju. Eins og greinir í matsgerð dómkvaddra matsmanna virðist neysla hennar árið 2009 hafa þróast út í blandaða neyslu á ólöglegum fíkniefnum, svo sem kókaíni og amfetamíni, auk áfengis.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar frá þeim meðferðaraðilum sem stefnda hefur leitað til frá 2009 til dagsins í dag. Hún lagðist inn á móttökudeild fíkniefnameðferðar á Landspítala (deild 33A) 25. september 2009 til 1. október sama ár, en fór ekki í eftirmeðferð eins og ráð var fyrir gert. Samkvæmt tilkynningu frá slysa- og bráðadeild Landspítala var komið með stefndu í sjúkrabíl eftir ofneyslu fíkniefna og áfengis í þrjá  sólarhringa í byrjun nóvember það ár. Stefnda skráði sig í meðferð á Vogi 30. nóvember 2009 en henni var þá vísað úr meðferðinni skömmu síðar vegna fíkniefnaneyslu á staðnum. Stefnda fór aftur í meðferð að Vogi 31. janúar 2010 og dvaldi þar til 11. febrúar 2010 en þáði ekki boð um eftirmeðferð. Haft var eftir stefndu í fundargerð barnaverndarnefndar 20. apríl 2010 að hún væri þá í stuðningshópi og sækti meðferð á göngudeild SÁÁ. Þar kemur jafnframt fram að hún hafi fallið tvisvar frá síðustu meðferð. Óumdeilt er að stefnda hafi byrjað að neyta fíkniefna að nýju í kjölfar atviksins 2. nóvember sl. sem leiddi til þess að börnin voru vistuð utan heimilis. Stefnda mun hafa lagst inna á móttökudeild fíkniefnameðferðar (33A) 5. mars sl. og dvalið þar til 14. sama mánaðar. Þaðan fór hún á Hlaðgerðarkot og skýrði þar starfsmönnum Barnaverndar A 18. sama mánaðar frá því að hún ætlaði að vera þar í sex vikur hið minnsta. Einum eða tveimur dögum síðar yfirgaf hún meðferðina að Hlaðgerðarkoti.

Við skýrslutöku fyrir dómi kvað stefnda sig hafa haldið sig frá fíkniefnum í u.þ.b. sjö mánuði. Hún tæki þó Stesolid (Diazepam), Stilnox og þunglyndislyf að læknisráði. Ekki liggur fyrir að stefnda hafi farið í fíkniefnapróf frá októberlokum 2010 til 10. júlí sl. er umgengni stefndu við börnin fór fram, en þá reyndist prófið neikvætt. Í bréfi matsmanna frá 22. júní 2011 kemur fram að þegar stefnda hafi mætt í boðað matsviðtal 3. júní sl. hafi hún verið í miklu uppnámi og ekki treyst sér í viðtalið. Var hún þá húsnæðislaus og hafði verið á gangi um bæinn með syni sínum, F, alla nóttina. Stefndu hafi þá verið boðið upp á ráðgjöf hjá félagsráðgjafa. Þáði hún það og fékk neyðarúrlausn sinna mála. Í viðtali við félagsráðgjafann mun hafa komið fram að stefnda hefði reykt kannabis nýlega „til að róa sig niður“ en að hún hafi afþakkað þvagprufu til að skima fyrir vímuefnum.

Þegar á allt framangreint er litið er óhjákvæmilegt að líta svo að stefnda eigi við margþættan vímuefnavanda að stríða sem hún hafi ekki tekist á við með trúverðugum hætti. Frá 2008 til dagsins í dag virðast þó hafa komið tímabil þar sem henni hefur tekist að halda sig frá fíkniefnum. Tilraunir hennar til að vinna á þessum vanda virðast aftur á móti ekki hafa náð að rista djúpt og kennir hún þá jafnan öðrum en sjálfri sér um. Telur dómurinn að annaðhvort skorti hana vilja eða getu til að horfast í augu við eigin vanda hvað þetta varðar.

Afskipti barnaverndaryfirvalda hér á landi af málefnum stefndu hófust skömmu eftir að hún fluttist á ný til landsins árið 2008. Þau urðu þó til muna róttækari eftir að vísbendingar bárust um misnotkun hennar á vímuefnum árið 2009 og aukna vanlíðan eldri drengjanna. Þá bjó stefnda ein með fjögur börn á aldrinum frá eins árs og upp í níu ára, en við þær aðstæður er ljóst að oft getur reynt á sálarþrek venjulegs foreldris. Í þessu sambandi skiptir máli að stefnda virðist ekki getað leitað stuðnings hjá nákomnum við daglega umsjá og uppeldi barnanna nema í takmörkuðum mæli. Vikið er að því í forsjárhæfnismati að stefnda segi föður sinn reyna að styðja sig í umönnun barnanna en að engan beinan stuðning fái hún frá móður sinni. Þá kvaðst hún á þeim tíma geta leitað stuðnings hjá systur sinni. Hins vegar eigi mjög margir af ættingjum hennar við vímuefnavanda að etja og flestir lifi á jaðri samfélagsins, eins og segir í matinu. Við skýrslutöku við aðalmeðferð málsins skýrði stefnda frá því að hún gæti ekki leitað til neinna nákominna um aðstoð við umönnum barnanna nema kannski til föður síns.

Aðstæður stefndu, meðan hún var með öll börnin hjá sér, voru því afar krefjandi. Vegna sálrænna veikleika hennar, sem birtist m.a. í tilfinningalegri viðkvæmni, þunglyndi, kvíða og takmörkuðu andlegu úthaldi og sjálfstrausti, er ljóst að hún hefur átt erfitt með að halda andlegu jafnvægi og sýna festu í uppeldi barnanna. Benda gögn málsins enda til þess að í samskiptum stefndu og barnanna hafi hún oft freistast til að gefa eftir og átt afar erfitt með að setja þeim mörk. Sérstaklega hefur þetta átt við um eldri drengina, D og E, en samkvæmt greinargerð starfsmanna Vistheimilis barna frá 22. júní 2010 virðist einnig vanta upp á að stefnda geti tekið af skarið gagnvart yngri börnunum.

Í málinu liggur fyrir að þegar vandi stefndu var hvað mestur haustið 2009, en þá var hún í umtalsverðri neyslu vímuefna, sýndu D og E augljós merki mikillar vanlíðunar, sem birtist m.a. í ofbeldisfullri hegðun þeirra er bitnaði m.a. á stefndu. Hjá fósturforeldrum virðast þeir hins vegar báðir vera í mun meira jafnvægi og ganga betur bæði andlega og félagslega. Við skýrslutöku fyrir dómi var stefnda spurð að því hvort hún teldi að hegðun sín hefði haft skaðleg áhrif á börnin og kvað hún svo ekki vera þó að hún kannaðist við að hafa sært þau. Telur hún þvert á móti að börnin hafi borið skaða af því að hafa verið tekin af henni. Dómurinn telur að þetta gefi til kynna að stefndu skorti innsæi í þau skaðlegu áhrif sem vímuefnaneysla hennar og sálrænt ástand virðist hafa haft á andlega líðan og þroska barnanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi forsjárhæfnismati hefur stefnda einnig mjög óljósa mynd af þeim uppeldisaðstæðum sem hún vill búa börnum sínum. Hafði hún, að mati sálfræðingsins sem annaðist matið, ekki skýra sýn á framtíðina. Þá virtist hún helst binda vonir við að með aðstoð opinberra aðila og kennslu við að setja börnum sínum mörk tækist henni að annast forsjárskyldur sínar. Samkvæmt skýrslu stefndu fyrir dómi virðist sýn hennar á uppeldisaðstæður barnanna ekki hafa skýrst. Fyrir liggur að hún er nú húsnæðislaus og með tvo elstu syni sína, F og G, í sinni umsjá. Athygli vekur að hún kvað dvöl F á heimilinu vera rótina að vanda hennar við uppeldi yngri barnanna haustið 2010. Núna byggir hún hins vegar á því að hann og G geti verið henni stuðningur í umönnun yngri barnanna.

Hvað sem líður veikleikum stefndu er ljóst að hún hefur myndað sterk tengsl við börnin og þegar hún er með þau sýnir hún þeim ástúð og væntumþykju. Þá ber að geta þess að þegar starfsmenn barnaverndar hafa sótt hana heim á þeim tíma sem mál hennar hefur verið til umfjöllunar hefur heimilið verið snyrtilegt og börnin vel til fara. Stefnda virðist þó stundum taka þarfir sínar fram yfir hagsmuni barnanna og skorta innsæi í þarfir þeirra. Þannig vanrækti hún að fara með yngri börnin í leikskóla eftir sumarfrí árið 2010 og bar þá við að langt væri að fara með þau. Hún virðist hins vegar ekki hafa gert reka að því að sækja um flutning á leikskóla sem væri nær heimilinu.

Eins og rakið hefur verið var í forsjárhæfnismatinu frá 2010 talið að geta stefndu til að sinna forsjárskyldum sínum væri í versta falli skert en í besta falli óljós. Var komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að reyna til þrautar að styðja stefndu til að sinna foreldrahlutverkinu. Til þess að svo mætti verða þyrfti hins vegar að veita henni mikinn stuðning og aðhald sem beindist jafnt að stefndu sjálfri og börnunum sem og að heimilinu. Virðast góð tengsl hennar við börnin hafa ráðið miklu um þessa niðurstöðu sem og að stefnda hefði gengist undir fíkniefnameðferð og fengið þjálfun í að setja börnunum mörk auk þess sem hún teldi sig hafa tekið miklum breytingum í hugarfari og getu.

Fljótlega eftir að börnin komu á ný til stefndu sumarið 2010, en þá höfðu þau ekki búið hjá henni síðan síðla árs 2009, fóru tilkynningar að berast Barnavernd A þar sem athugasemdir voru gerðar við aðstæður barnanna. Á þessum tíma naut stefnda stuðnings og ráðgjafar á vegum úrræðisins „Stuðningurinn heim“ sem framan af virðist hafa gengið vel. Þegar ný meðferðaráætlun var undirrituð 1. október 2010 var sérstaklega tekið fram að ekkert benti til þess að börnin færu í vistun utan heimilis. Eftir atvikið 2. nóvember 2010, sem gerð er grein fyrir í kafla II í dómi þessum, er ljóst að miðað hafi verið við að börnin færu til stefndu nokkrum dögum síðar. Stefnda hvarf hins vegar af heimili sínu og ekki reyndist unnt að ná í hana á þeim degi sem hún átti að fá börnin til sín. Þá er ljóst að hún sinnti ekki umgengni við börnin nema að litlu leyti meðan þau voru í tímabundinni vistun utan heimilis í nóvember 2010. Telur dómurinn allt benda til þess að hún hafi á þessum tíma verið byrjuð að neyta vímuefna á ný, eins og hún raunar hefur viðurkennt. Vegna sinnuleysis stefndu gagnvart börnunum á þessu tímabili og vímuefnaneyslu hennar verður að telja að forsendur þær sem lágu til grundvallar forsjárhæfnismatinu og aðgerðum barnaverndaryfirvalda í kjölfarið hafi brostið og eðlilegt að álykta að hagsmunum barnanna væri best borgið með því að svipta stefndu forsjá þeirra.

Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna er að áliti dómsins ekki reist á nægilega traustum grunni. Ljóst er að ekki náðist að ljúka þeim viðtölum sem talin voru nauðsynleg til að leggja mat á forsjárhæfni stefndu vegna þess að hún mætti ekki í þau. Treystu matsmenn sér því ekki til að svara þeim matsspurningum sem fyrir þá voru lagðar. Meðal þeirra spurninga sem óskað var svara við var hvernig háttað væri tilfinningalegu sambandi og tengslum stefndu og barnanna sem og hvort líkamlegri og andlegri heilsu þeirra eða þroska væri hætta búin færi stefnda með forsjá þeirra. Þessar spurningar kalla að mati dómsins á athugun á sálrænni stöðu barnanna og hversu mikilvæg tengslin við stefndu séu þeim. Ekki verður séð að matsmenn hafi leitast við að varpa ljósi á þessi atriði nema með því að fylgjast með umgengni stefndu við börnin hluta úr degi 10. júlí 2011.

Sú ályktun matsmanna, að reyna skuli áfram til þrautar að styðja stefndu til að sinna foreldrahlutverkinu, virðist nær alfarið reist á upplýsingum sem lágu fyrir um sterk geðtengsl milli stefndu og barnanna, sérstaklega yngri barnanna. Vísa matsmenn þar til almennra atriða um að geðtengslarof geti haft skaðleg áhrif á börn. Ljóst er að forsjársvipting leiðir ávallt til þess að geðtengsl við foreldri rofna. Matsspurningarnar, sem óskað var eftir að matsmenn svöruðu, miðuðu að því að upplýsa hvort rétt væri út frá hagsmunum barnanna að rjúfa þessi tengsl milli þeirra og stefndu þar sem þroska þeirra og andlegri heilsu væri að öðrum kosti hætta búin sökum vanhæfni stefndu, sbr. 29. gr. barnaverndarlaga. Að mati dómsins skortir á að mat hinna dómkvöddu matsmanna svari því.

Þegar tekið er mið af öllu því sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins, að vegna tilhneigingar stefndu til misnotkunar á vímuefnum auk ýmissa annarra geðrænna einkenna auk persónuleikaraskana, sé hún ekki hæf til að fara með forsjá barna sinna fjögurra. Dómurinn telur að hana skorti þrek eða vilja til að takast á við vandamál sín af nægjanlegri festu, einkum við vímuefnavanda sinn. Stefnda virðist sökum sálrænna einkenna eiga erfitt með að þola daglegt álag sem fylgir uppeldi fjögurra barna. Við þessar aðstæður telur dómurinn að mikil hætta sé á að stefnda haldi áfram að misnota lyf og önnur vímuefni ef henni verður falið að gegna áfram forsjárskyldum sínum. Þá hafa börnin, einkum eldri drengirnir, sýnt augljós merki vanlíðunar þegar þau hafa verið í umsjá stefndu á sama tíma og hún hefur átt erfitt með að hafa stjórn á vímuefnaneyslu sinni. Því verður að fallast á að andlegri heilsu barnanna og þroska þeirra sé hætta búin fari stefnda með forsjá þeirra. Ekki verður talið að stefnda sé hæfari til að fara með forsjá tveggja barnanna fremur en þeirra allra. Dómurinn telur enn fremur upplýst að meðan stefnda hefur verið í neyslu vímuefna hafi daglegri umönnun, uppeldi og samskiptum stefndu og barnanna verið alvarlega ábótavant. Því er fullnægt skilyrðum fyrir forsjársviptingu barnanna samkvæmt a- og d-liðum 29. gr. barnaverndarlaga.

Eins og rakið hefur verið hefur stefnda fengið umtalsverðan stuðning við að annast forsjárskyldur sínar. Hún hefur undirgengist allmargar meðferðaráætlanir síðan í ágúst 2009 og fengið verulegan stuðning og leiðbeiningar, bæði með kennslu- og greiningarvistun á Vistheimili barna og með úrræðinu „Stuðningurinn heim”. Eftir að börnin fóru til stefndu á ný sumarið 2010 fengu þau enn fremur stuðningsfjölskyldur. Þá hafa eldri drengirnir fengið sálfræðilega aðstoð fyrir tilstuðlan stefnanda. Stefnda hefur jafnan þegið þau stuðningsúrræði sem henni hafa staðið til boða þó að stundum hafi gætt tortryggni hjá henni í fyrstu. Þá hefur stefnandi leitast við að aðstoða stefndu við að fá viðeigandi geðmeðferð þó að dómurinn telji að ef til vill hefði mátt ganga lengra við að veita henni aðstoð á því sviði. Í þessu ljósi verður á það fallist að vægari úrræði en varanleg forsjársvipting hafi verið reynd án viðunandi árangurs. Því verður að telja að skilyrði 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga sé fullnægt til að fallast megi á kröfu stefnanda. Í ljósi aðstæðna verður enn fremur að telja að það þjóni hagsmunum barnanna best að á þessu stigi verði leyst varanlega úr framtíðardvalarstað barnanna.

Með sömu rökum og að framan greinir verður ekki fallist á að aðgerðir stefnanda í máli þessu hafi stangast á við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Ítarlegar upplýsingar um ástand stefndu og líðan barnanna lágu fyrir áður en barnaverndarnefnd ákvað 30. nóvember 2010 að svipta hana forsjá barnanna. Rannsókn á þeim atriðum sem getið er í fyrrgreindri 29. gr. barnaverndarlaga var því ekki ábótavant.

Þegar á allt framangreint er litið telur dómurinn að hagsmunum barnanna sé best borgið með því að stefnda verði svipt forsjá þeirra. Er þá engin afstaða tekin til þess hvort rétt hafi verið staðið að ráðstöfun barnanna eftir að ákveðið var að krefjast forsjársviptingar fyrir dómi. Gögn málsins bera með sér að uppeldisaðstæður yngri barnanna, sem nú eru hjá föður sínum í [...], eru að beiðni stefnanda undir eftirliti barnaverndaryfirvalda þar í landi. Eins og atvikum er háttað og í ljósi fyrirmæla barnaverndarlaga verður ekki talið að líta beri til þessa atriðis við mat á því hvort stefnda skuli svipt forsjá barnanna.

Samkvæmt framansögðu ber að fallast á kröfu stefnanda eins og hún er fram sett.

Stefnandi krefst ekki málskostnaðar úr hendi stefndu. Stefnda nýtur gjafsóknar í málinu og greiðist gjafsóknarkostnaður hennar úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hennar, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 878.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og Hilmars Baldurssonar hdl. sem er hæfilega ákveðin 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Málið dæma Ásmundur Helgason héraðsdómari og meðdómsmennirnir Aðalsteinn Sigfússon sálfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, D, er svipt forsjá barna sinna, D, E, B og C.

Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hennar, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., 878.500 krónur og Hilmars Baldurssonar hdl. 251.000 krónur.