Print

Mál nr. 88/2013

Lykilorð
  • Lögreglumaður
  • Ákæruvald
  • Hæfi
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Umboðssvik

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 13. febrúar 2014.

Nr. 88/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

Gegn

X og

(Óttar Pálsson hrl.)

Y

(Þórður Bogason hrl.)

Lögreglumaður. Ákæruvald. Hæfi. Frávísunarkröfu hafnað. Umboðssvik.

X og Y voru ákærðir fyrir umboðssvik, með því að hafa 8. febrúar 2008 í störfum sínum hjá A banka hf., báðir meðlimir í áhættunefnd bankans, misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í stórfellda hættu með lánveitingu bankans til B ehf. í formi peningamarkaðsláns að tiltekinni fjárhæð, án trygginga eða ábyrgða og andstætt almennum reglum bankans um lánsveitingar og markaðsáhættur um hámark heildarlánveitinga til einstaks aðila og aðila honum tengdum. Ekki var fallist á með X og Y að vísa bæri málinu frá héraðsdómi, en þeir báru því m.a. við að tveir lögreglumenn sem rannsökuðu málið hefðu verið vanhæfir til þess svo og að saksóknari sá sem tók ákvörðun um saksókn hefði ekki verið til þess hæfur. Í niðurstöðu Hæstaréttar var fallist á með héraðsdómi að sannað væri, þrátt fyrir neitun X og Y, að þeir hefðu samþykkt að veita peningamarkaðslánið til B ehf. svo og að ranglega hefði verið staðhæft í ákæru að lánið hefði veitt án trygginga eða ábyrgða, en sama dag og lánið var veitt var undirrituð handveðsyfirlýsing þar sem B ehf. setti A banka hf. að veði hlutabréf í G hf. sem námu tiltekinni fjárhæð að nafnverði. Rakti Hæstiréttur að á fundi áhættunefndar A banka hf. 6. febrúar 2008 hefði verið samþykkt að lána C ehf. eða óstofnuðu félagi, sem eftir stofnun hlaut nafnið E ehf., lán að nettó fjárhæð 100.000.000 evrur. Hefði tilgangur lánveitingarinnar verið að greiða skuld C ehf. við D banka sem B ehf. var í ábyrgð fyrir, en hlutabréf í A banka hf. höfðu verið sett að veði til tryggingar greiðslu lánsins. Þótti sannað að ekki hefði verið unnt að veita B ehf. lánið þar sem það myndi fara umfram þau útlánamörk sem mælt var fyrir um í reglum bankans. Hefði ákvörðun um lánveitingu til B ehf. því ekki verið á færi áhættunefndarinnar heldur stjórnar A banka hf. Ekki hefði legið fyrir samþykki stjórnar fyrir því að víkja frá ákvörðun áhættunefndar og gögn í málinu bæru ekki með sér að lagt hefði verið mat á hversu hátt lán mætti veita B ehf. ef tekið hefði verið tillit til ætlaðrar rýmkunar á heimildum í reglunum. Með því að heimila veitingu lánsins til B ehf. og árita ádráttarskjal um að greiða mætti lánið út hefðu X og Y brotið reglur A banka hf. Með því hefðu þeir misnotað aðstöðu sína sem forstjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans. Taldi Hæstiréttur að enginn vafi væri á því að ásetningur X og Y hefði staðið til þessarar misnotkunar og til þess að vernda einkum hagsmuni C ehf. og B ehf. Var því talið að skilyrðum 249. gr. almennra hegningarlaga um misnotkun á aðstöðu og auðgunarásetning væri fullnægt. Að því er varðaði mat á fjártjónshættu A banka hf. rakti Hæstiréttur að í reglum A banka hf. um útlán og áhættumat hefði falist mat bankans á því hvaða útlánamörk væru viðunandi án þess að of mikil áhætta væri tekin. Ekki hefði verið hnekkt skilningi X og Y á því að í reglunum hefðu falist heimildir til rýmri lánveitinga þegar tekið hefði verið tillit til skuldbindinga, sem hefðu takmarkað vægi í áhættugrunni. Væri miðað við að í reglunum, að teknu tilliti til heimilar rýmkunar, hefði falist almennt mat bankans á forsvaranlegri áhættu í hverjum útlánaflokki, væri ósannað að farið hefði verið umfram þá áhættu sem bankinn hefði talið viðunandi. Þá hefði ákæruvaldið ekki upplýst hvaða tryggingar A banki hf. hefði haft vegna lána sem bankinn hefði veitt B ehf. og ekki lagt fram upplýsingar um verðmæti þeirrar tryggingar sem afhent var bankanum 8. febrúar 2008. Loks lá fyrir að lánið hefði einungis verið veitt yfir helgi og að A banki hf. hefði haft í vörslum sínum flest þau skjöl sem þurfti til að flytja lánið yfir á E ehf. sem áhættunefnd hafði samþykkt sem lántaka og ekki var umdeilt að samræmdist reglum bankans. Taldi Hæstiréttur ekki sannað að háttsemi X og Y hefði falið í sér verulega fjártjónshættu fyrir A banka ehf. Væru því ekki  fullnægt öllum skilyrðum 249. gr. almennra hegningarlaga og voru X og Y því sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. febrúar 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.  

Ákærðu krefjast aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, til vara sýknu, en að því frágengnu mildunar á refsingu.  

I

Krafa ákærðu um að málinu verði vísað frá héraðsdómi er í meginatriðum reist á sömu röksemdum og sama krafa þeirra fyrir héraðsdómi, sem gerð var í bókunum er lagðar voru fram af þeirra hálfu í þinghaldi 6. júní 2012. Málflutningur fór fram um frávísunarkröfuna 31. ágúst sama ár og hafnaði héraðsdómur henni með úrskurði 17. september 2012. Krafan er einkum reist á þremur röksemdum. Í fyrsta lagi á því að rannsókn málsins verði ekki lögð til grundvallar ákæru þar sem tveir lögreglumenn, er einkum sinntu rannsóknarstörfum, hafi af tilgreindum ástæðum verið vanhæfir til starfans. Í öðru lagi vegna þess að saksóknari sá, er tók ákvörðun um saksókn, hafi verið vanhæfur til þess. Í þriðja lagi vegna þess að ákæran sé ekki reist á þeirri rannsókn, sem fram fór í málinu.

1

Til stuðnings fyrstu frávísunarástæðunni halda ákærðu því fram að í ljós hafi komið að tveir nafngreindir lögreglumenn, sem störfuðu hjá embætti sérstaks saksóknara og önnuðust öðrum starfsmönnum þess embættis fremur rannsókn málsins, hafi 24. september 2011 hafið störf í þágu þrotabús B ehf. sem hafi valdið  vanhæfi þeirra til að annast rannsóknina. Ákærðu hafi fyrst verið gerð grein fyrir þessum aðgerðum lögreglumannanna 23. maí 2012 þegar sérstakur saksóknari gaf út yfirlýsingu um að þeir hefðu verið kærðir til ríkissaksóknara vegna ætlaðs brots á þagnarskyldu. Þeir hafi látið af störfum hjá embættinu í lok árs 2011. Ákærðu benda á að lögreglumennirnir tveir hafi annast allar skýrslutökur af sakborningum og vitnum á rannsóknarstigi, leit að gögnum og leit í þeim gögnum, sem aflað hafi verið, og lagt mat á hver þeirra hefðu þýðingu til sönnunar og þannig orðið hluti af rannsóknargögnum málsins. Lögreglumennirnir hefðu hafið störf í þágu þrotabús B ehf. áðurgreindan dag og hafi verkefni þeirra falist í að leggja mat á gjaldþol félagsins og rannsaka í því sambandi meðal annars hvernig það hefði fjármagnað greiðslur afborgana á skuldum sínum í aðdraganda að töku bús þess til gjaldþrotaskipta. Við það starf hafi þeir hagnýtt sér upplýsingar sem þeir hafi aflað sér við lögreglurannsóknina. Hagsmunir þrotabúsins hafi staðið til þess að sýnt yrði fram á að B ehf. hafi verið ógjaldfært þegar á árinu 2007 svo unnt væri að reisa kröfu um riftun ráðstafana samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. á málsástæðum um ógjaldfærni. Vinna lögreglumannanna í þágu þrotabúsins hafi einnig varðað mikla hagsmuni fyrir þá en sameignarfélag þeirra, sem gerði samning við þrotabúið um verkið, hafi fengið um 30.000.000 krónur í verklaun. Störf þeirra og afstaða við rannsókn á máli ákærðu hafi mótast af því að þeir hefðu haft hagsmuni af því að rannsókn á sakargiftum á hendur ákærðu leiddi til þeirrar niðurstöðu að B ehf. hafi verið ógjaldfært og greiðslur félagsins á skuldum þess verið fjármagnaðar með lögbrotum. Í þessu sambandi er bent á að í beiðni skiptastjóra þrotabúsins 2. maí 2012 um dómkvaðningu matsmanna til þess að skoða og meta hvort félagið hafi verið ógjaldfært þegar gerðar voru tilteknar ráðstafanir, sem krafist er riftunar á í níu dómsmálum er þrotabúið hefur höfðað, komi fram að tilgangur matsins sé að sanna að B ehf. hafi verið ógjaldfært síðla árs 2007 og í síðasta lagi 30. nóvember það ár. Í matsbeiðninni sé sérstaklega fjallað um fjármögnun á uppgreiðslu láns hjá D 8. febrúar 2008. Þar sé að finna lýsingu skiptastjóra á því að ekki hafi náðst að ganga frá lánveitingunni á þann hátt sem samþykkt hafði verið innan A banka hf. og því hafi verið gripið til þess ráðs að veita B ehf. beint svokallað peningamarkaðslán að fjárhæð 102.162.470,12 evrur eða rúmlega 10.000.000.000 krónur. Þeir X og Y hafi nú verið ákærðir fyrir þessa lánveitingu og sé ákæran hluti framlagðra skjala í áðurnefndum riftunarmálum. Telji ákæruvaldið að með lánveitingunni hafi ákærðu misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í stórfellda hættu þar sem lánið hafi verið án trygginga eða ábyrgða og andstætt almennum reglum A banka hf. um hámark heildarlánveitinga til einstaks aðila. Þá hafi lánveitingin ekki verið samþykkt af áhættunefnd bankans eins og skylt hefði verið.

Ákærðu árétta að lögreglumennirnir tveir hafi frá því í september 2011 og til áramóta unnið samtímis við rannsókn málsins hjá embætti sérstaks saksóknara og í þágu þrotabúsins. Þeir hafi að auki unnið sem verktakar fyrir embættið eftir 1. janúar 2012 og meðal annars verið sækjanda málsins til aðstoðar við þingfestingu þess í héraði. Ákærðu telja sem fyrr greinir að lögreglumennirnir tveir hafi haft fjárhagslegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu rannsóknarinnar og ákvörðun um saksókn í málinu. Í því sambandi er bent á að ólíklegt verði að telja að skiptastjóri þrotabúsins hafi verið reiðubúinn að kosta jafn miklu til vinnu lögreglumannanna í þágu þess nema hann hafi fengið vísbendingu eða fyrirheit um að niðurstöður vinnunnar myndu þjóna hagsmunum þrotabúsins.

Ákærðu telja einnig að ætlað vanhæfi lögreglumannanna tveggja hafi haft áhrif á framkvæmd rannsóknarinnar og niðurstöður hennar svo og á það hvernig þær hafi verið settar fram. Þannig hafi ýmsum gögnum, sem ákærðu telja til grundvallargagna málsins, enginn gaumur verið gefinn. Í þessu sambandi er getið um tölvupóst- og símasamskipti þeirra starfsmanna A banka hf. sem önnuðust útborgun lánsins, sem ákært er fyrir, á þeim degi sem lánveitingin fór fram. Þá er einnig bent á fyrri útgáfu svonefnds ádráttarskjals sem sýni, eftir samanburð á því og þeim tveimur eintökum þess, sem síðar voru gerð og ákæruvaldið lagði fram, að árituðum texta hafi verið bætt inn á skjalið eftir að ákærðu undirrituðu það. Ákærðu telja einnig að á hafi skort að við rannsóknina hafi verið lagt mat á verðmæti þeirra veða sem tekin voru af hálfu a banka hf. til tryggingar öllum skuldbindingum b ehf. við bankann. Hafi meðal annars komið fram í skýrslu lögreglu 2. nóvember 2011, sem gerð hafi verið um rannsóknina samkvæmt 56. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og annar lögreglumannanna tveggja undirritaði, að peningamarkaðslánið til b ehf. hafi verið veitt án trygginga. Hafi þessi veigamikla rangfærsla síðan ratað inn í verknaðarlýsingu í ákæru málsins. Jafnframt er bent á að fjöldi vitna, sem ástæða hafi verið til að leiða fyrir dóm, hafi ekki gefið skýrslu við rannsóknina.

Um rannsóknarniðurstöður og framsetningu þeirra benda ákærðu á að áðurnefnd skýrsla, sem sé gerð samkvæmt 56. gr. laga nr. 88/2008, hafi að efni til ekki verið í samræmi við fyrirmæli greinarinnar. Auk þess sé orðfæri hennar gildishlaðið og framsetning öll beri merki um að ekki hafi verið gætt jafnt að þeim atriðum sem horfi til sýknu og sektar svo sem skylt sé, sbr. 2. mgr. 53. gr. laganna. Framsetning skýrslunnar feli í sér skriflegan málflutning af hálfu ákæruvaldins sem sé utan þess sem lög nr. 88/2008 geri ráð fyrir. Þetta hafi ákæruvaldinu orðið ljóst og því lagt fram aðra skýrslu 1. júní 2012 um aðgerðir í málinu. Loks er bent á, að innbyrðis misræmi sé í afstöðu einstakra rannsakenda í málinu um ástæðu þeirrar lánveitingar sem ákært sé fyrir.

Af hálfu ákærða Y er frávísunarkrafan einnig reist á þeim rökum að ákærandinn í málinu hafi verið vanhæfur til þess að gefa út ákæru. Ástæða þess sé sú, að upplýst hafi verið að hann hafi haft dagleg samskipti við lögreglumennina tvo um rannsóknina og annast verkstjórn þeirra við hana. Sé afar ólíklegt að ákæranda hafi ekki verið ljóst, eða mátt vera ljóst, að ekki væri gætt að réttum hæfisreglum.

Loks reisir ákærði Y frávísunarkröfuna einnig á því að ljóst hafi orðið eigi síðar en við aðalmeðferð málsins að við rannsókn þess hjá lögreglu og útgáfu ákæru hafi grundvallarreglur 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð verið brotnar. Við rannsóknina og gerð ákæru hafi verið brotnar skyldur rannsóknara og ákæruvalds til að huga jafnt að atriðum sem horfi til sýknu og sektar, sbr. 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Málið sé angi af rannsókn annars máls og hafi á síðari stigum þeirrar rannsóknar verið afmarkað og gert að sérstöku máli. Það sé í raun byggt í kringum eitt skjal, ádráttarskjalið 8. febrúar 2008. Ljóst sé að rannsakendur í málinu hafi ekki tekið sérstaklega til skoðunar öll skjöl sem orðið hafi til þennan dag. Einungis fáein vitni hafi verið kölluð til vegna rannsóknar á þessum þætti sérstaklega og þess hafi ekki verið gætt að leggja fram fjölda skjala, sem þó hafi skipt miklu máli og verjendur síðar lagt fram fyrir héraðsdómi. Rannsókn málsins hafi farið í ríkum mæli fram fyrir dómi meðal annars með skýrslum fjölda vitna, sem ekki hafi gefið skýrslu við rannsókn hjá lögreglu. Ákæruvaldið hafi við aðalmeðferð málsins byggt á gögnum, sem það hafi áður ekki talið skipta máli við úrlausn þess. Þetta sýni að þegar ákæra í málinu hafi verið samin hafi ekki verið tekið tillit til fjölda gagna og vitnisburðar sem ákæruvaldið hafi síðar byggt á við málsmeðferðina og talið mikilvæg. Þessar röksemdir eigi annað tveggja að leiða til frávísunar málsins frá héraðsdómi eða sýknu ákærðu.

2

Ákæruvaldið hafnar þeim rökum sem ákærðu tefla fram til stuðnings frávísunarkröfunni. Röksemdir um hæfi lögreglumannanna tveggja varði ekki með neinum hætti hæfi ákæranda í málinu enda sé ákvörðun um saksókn eingöngu í hans höndum. Röksemdir ákærðu, sem að framan greinir, lúti að störfum tveggja lögreglumanna fyrir þrotabú B ehf. samhliða rannsóknarstörfum og tengist ekki ákvörðun um saksókn í málinu enda hafi ákæranda ekki verið kunnugt um starf lögreglumannanna fyrir þrotabúið fyrr en nokkrum mánuðum eftir útgáfu ákæru. Verði að ætla að ákærandi hafi lögum samkvæmt lagt sjálfstætt mat á rannsóknina og gögn málsins þegar tekin var ákvörðun um saksókn. Ákæruvaldið bendir á að það sé meginregla, sem fram komi í 111. gr. laga nr. 88/2008, að dómur verði reistur á sönnunargögnum sem færð séu fram við meðferð máls fyrir dómi. Í þessu máli hafi bein og milliliðalaus sönnunarfærsla farið fram fyrir héraðsdómi. Ákæruvaldið hafi lagt fram þau gögn sem það hafi talið skipta máli, en ákærðu átt þess kost að skoða rannsóknargögn og leggja fram í málinu þau gögn sem þeir hafi talið hafa þýðingu fyrir vörn sína. Þennan rétt hafi þeir nýtt sér. Sönnun í sakamáli fari því fram á grundvelli skjala sem sé aflað við rannsókn máls og skýrslum sakborninga og vitna fyrir dómi með þeim frávikum, sem heimiluð séu í 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008, en ekki á skjölum sem rannsakendur búi til eða skýrslum þeirra um atvik máls eða rannsókn þess. Sönnunarfærsla í málinu geti ekki borið vitni einhverri afstöðu rannsakenda, jafnvel þótt hún fyrirfyndist, þannig að það kæmi niður á réttlátri málsmeðferð.

Þá bendir ákæruvaldið á að einungis fáeinar skýrslu hafi verið teknar í þágu rannsóknar málsins eftir að lögreglumennirnir hófu störf í þágu þrotabús B ehf. 24. september 2011.

Ákæruvaldið hafnar því að ákærandi málsins hafi verið vanhæfur til þess að taka ákvörðun um saksókn. Ef samstarf ákærandans við rannsakendur málsins væri á einhvern hátt til þess fallið að afvegaleiða hann vegna þess vanhæfis sem ákærðu halda fram og lýst er að framan, verði að hafa í huga að öll sönnunarfærsla málsins sæti mati dómstóla. Héraðsdómi hafi verið gerð grein fyrir þeim atvikum, sem varði rannsakendur og hæfi þeirra og því sé engin ástæða til að ætla að héraðsdómur hafi ekki haft þau atriði til hliðsjónar við mat á sönnunargildi rannsóknargagna og framburði ákærðu og vitna.

3

Krafa ákærðu um frávísun málsins vegna ætlaðs vanhæfis tveggja lögreglumanna, sem einkum önnuðust rannsókn þess fyrir útgáfu ákæru og vegna ætlaðs vanhæfis ákæranda, er reist á sjónarmiðum um að hlutlægnisskyldu hafi ekki verið gætt við rannsóknina og við ákvörðun um saksókn. Vegna vanhæfisins hafi þeim ekki verið tryggð réttlát málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Lögreglumennirnir tveir störfuðu við embætti sérstaks saksóknara, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008. Þeir fór með lögregluvald samkvæmt 1. mgr. 9. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Um sérstakt hæfi þeirra til að rannsaka ætluð brot ákærðu fer því samkvæmt 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 7. mgr. 8. gr. lögreglulaga. Samkvæmt þessum lagaákvæðum hefðu þeir talist vanhæfir til að rannsaka ætluð brot ákærðu ef þeir, eða yfirmenn þeirra, hefðu haft sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta við rannsóknina. Ákærðu halda því fram, með vísan til þess sem segir í 1. tölulið þessa kafla, að þannig hafi verið ástatt fyrir lögreglumönnunum og ákærandanum.

Eins og áður segir tóku lögreglumennirnir, fyrir milligöngu sameignarfélags í þeirra eigu, að sér verkefni í þágu þrotabús B ehf. Vinna þeirra í þágu þrotabúsins hófst 24. september 2011. Svo sem greinir í úrskurði héraðsdóms 17. september 2012, þar sem kröfu ákærðu um frávísun málsins var hafnað, voru einungis sex skýrslur af vitnum teknar við rannsókn málsins á árinu 2011 þar af ein eftir 24. september það ár og ein skýrsla af hvorum ákærðu. Skýrslur á rannsóknarstigi voru fyrst teknar á árinu 2009 en flestar á árinu 2010. Af þessu leiðir að rannsókn málsins hefur að mestu verið lokið, þegar lögreglumennirnir hófu störf fyrir þrotabúið.

Sérstakur saksóknari lét fara fram athugun á nokkrum þáttum rannsóknarinnar, þegar í ljós kom að lögreglumennirnir höfðu starfað í þágu þrotabús B ehf. og lágu þar með undir grun um brot á þagnarskyldu sinni. Meðal annars var óskað eftir athugun á hvort merkja hafi mátt einhvern mun á áherslum og framgöngu lögreglumannanna tveggja eftir að þeir tóku að sér verkið í þágu þrotabúsins. Niðurstaða athugunarinnar er sett fram í greinargerð 25. júní 2012 og er á þann veg að svo hafi ekki verið. Þrír menn, þar af tveir sem starfa hjá embætti sérstaks saksóknara án þess þó að hafa komið að nokkru marki að rannsókninni og einn hæstaréttarlögmaður, unnu að athuguninni og gáfu þeir allir skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs verður ekki fallist á með ákærðu að rannsókn málsins beri þess nokkur merki að þeir lögreglumenn, sem við hana unnu, hafi ekki gætt jafnt að atriðum, sem lúta að sýknu og sakfellingu, og sýnt hlutlægni í störfum sínum, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Annmarkar, sem kunna að vera á rannsókninni, leiða því ekki til frávísunar málsins.

Lögreglumenn þeir, sem um ræðir, unnu að rannsókn málsins undir stjórn sérstaks saksóknara, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008. Næsti yfirmaður þeirra var yfirlögregluþjónn hjá embættinu en ekki liggur fyrir að hann hafi gefið þeim sérstök fyrirmæli við rannsóknina eftir að mál þetta var skilið frá upphaflegu rannsóknarmáli. Fyrir dómi kváðu lögreglumennirnir Hólmstein Gauta Sigurðsson, saksóknara, hafa stjórnað rannsókn þessa máls. Með ákvörðun sérstaks saksóknara 4. nóvember 2011, sem reist var á síðastgreindu lagaákvæði, var áðurnefndum saksóknara við embættið falið að taka ákvörðun um saksókn í málinu. Ákærðu hafa engin haldbær rök fært fram fyrir því að lögreglumennirnir hafi frá hausti 2011 og til 14. desember það ár, þegar ákæra var gefin út, haft sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta við rannsóknina þótt þeir hafi á sama tíma einnig unnið að rannsókn á gjaldþoli B ehf. á tilteknu tímabili fyrir þrotabú félagsins. Verður því ekki fallist á að þeir hafi verið vanhæfir til að sinna rannsókninni samkvæmt þeim lagaákvæðum, sem um sérstakt hæfi þeirra gilda og getið er að framan.

Um hæfi saksóknara þess sem fékk málinu úthlutað til ákvörðunar um saksókn gilda ákvæði 6. gr. laga nr. 88/2008 um sérstakt hæfi dómara, sbr. 26. gr. laganna. Ætlað vanhæfi undirmanna hans hefur ekki áhrif á sérstakt hæfi hans, sbr. meginreglu 5. töluliðar 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Engin haldbær rök hafa verið færð fyrir vanhæfi saksóknarans eða að hann hafi við störf sín í þágu rannsóknarinnar og ákvörðun um saksókn ekki jafnt litið til atriða, sem leiða til sýknu og sakfellingar, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008. Verður þegar af þessum ástæðum hafnað röksemdum ákærðu um ætlað vanhæfi hans.

Eins og greinir að framan telur ákærði Y að vísa beri málinu frá héraðsdómi vegna þess að ákæran sé ekki reist á þeirri rannsókn, sem fram fór í málinu. Ákærandi tekur samkvæmt 145. gr. laga nr. 88/2008 ákvörðun um hvort sakamál skuli höfðað. Þegar ákvörðun um saksókn hefur verið tekin er málið höfðað með útgáfu ákæru sem ákærandinn semur. Hann tekur samkvæmt 154. gr. laganna einnig ávörðun um hvaða gögn verði lögð fram af hálfu ákæruvaldsins og hvaða vitni verði leidd. Ákærða er heimilt að leggja fram gögn af sinni hálfu og tilgreina vitni sem hann vill að leidd verði í málinu. Ákærðu nýttu sér þennan rétt. Svo sem fyrr greinir verður dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við rekstur máls fyrir dómi, sbr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Það leiðir af þeirri meginreglu að þótt staðhæfingar ákærða Y um að ákæran væri ekki reist á öllum þeim gögnum sem fyrir lágu við rannsókn málsins og að eftir útgáfu hennar hafi bæði verið lögð fram mörg skjöl og vitni leidd fyrir dóm, sem ekki hafi gefið skýrslu við rannsóknina hjá lögreglu, væru að einhverju leyti réttar, þá gæti það eitt ekki leitt til frávísunar málsins.

Samkvæmt öllu framansögðu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms í úrskurði 17. september 2012 um að hafna kröfu ákærðu um frávísun málsins.

II

Í greinargerð ákæruvalds til Hæstaréttar kemur fram að það uni þeirri afmörkun á sakarefni málsins og þeim skilningi á ákæru sem fram kemur í héraðsdómi. Í því felst að hér fyrir dómi lúta sakargiftir á hendur ákærðu að því að þeir, sem báðir voru í áhættunefnd A banka hf., hafi gerst sekir um umboðssvik með því að misnota aðstöðu sína og stefna fé hans í stórfellda hættu með lánveitingu bankans til B ehf. í formi peningamarkaðsláns. Fjárhæð lánsins hafi verið 102.162.470,12 evrur, eða sem samsvaraði þá 10.019.073.445 krónum miðað við sölugengi evru, og hafi lánveitingin verið andstæð reglum A banka hf. um lánveitingar og markaðsáhættur um hámark lánveitinga til einstaks aðila og aðila honum tengdum. Lánið hafi verið veitt föstudaginn 8. febrúar 2008 og hafi átt að greiða það allt til baka mánudaginn 11. sama mánaðar. Ákærðu hafi samþykkt lánveitinguna utan funda áhættunefndar og ritað ,,undir lánssamninginn fyrir hönd A banka hf.“ Á þessum tíma hafi B ehf. verið í áhættumatsflokki fjögur samkvæmt áðurnefndum reglum sem fól í sér að ákærðu ,,sem meðlimir áhættunefndar gátu aðeins heimilað lánveitingar til félagasamstæðu B ehf., er rúmuðust, ásamt eldri lánum samstæðunnar, innan 17% af eigin fé ... A banka hf.“ sem á þessum tíma hafi verið 225.576.000.000 krónur. Með ákvörðuninni hafi verið farið út fyrir þessa heimild, eins og nánar er greint í ákærunni. Með láninu var tiltekin skuld C ehf. við D bankann greidd. Fyrir liggur að mánudaginn 11. febrúar tók E ehf. lán, samsvarandi fjárhæðar, og var henni samkvæmt bókum A banka hf. varið til að endurgreiða lán B ehf. E ehf. átti  upphaflega að taka lánið á föstudeginum 8. febrúar. Ákærðu hafi með lánveitingunni valdið A banka hf. stórfelldri fjártjónshættu, sem fólst í því að lánið til B ehf. yrði ekki greitt til baka. Sú fjártjónshætta hafi ekki gengið eftir þar sem lánið var samkvæmt framansögðu greitt til baka.

Eins og ákæra er úr garði gerð og í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms og yfirlýsingu ákæruvalds í greinargerð til Hæstaréttar er ekki til úrlausnar hvort A banki hf. hafi í raun orðið fyrir tjóni vegna lánveitingarinnar, sem ákært er fyrir. Verður því til samræmis að leggja til grundvallar við úrlausn málsins, að svo hafi ekki verið.

III

Ákærðu, sem báðir neita sök, reisa vörn sína á því að þeir hafi ekki tekið ákvörðun um að lána B ehf. peningamarkaðslánið á föstudeginum 8. febrúar 2008, heldur hafi þeir einungis framfylgt ákvörðun áhættunefndar um að veita E ehf. lán þennan dag og undirritað lánsskjöl í því skyni. Þá reisa þeir vörn sína á því að þótt talið verði sannað að þeir hafi heimilað umrædda lánveitingu til B ehf. séu ekki uppfyllt efnisskilyrði 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til þess að þeir verði sakfelldir fyrir umboðssvik. Auk þess byggja þeir á sjónarmiðum um neyðarrétt eða neyðarhjálp.

1

Fallist er á forsendur og niðurstöðu héraðsdóms um að sannað sé, þrátt fyrir neitun ákærðu, að þeir hafi samþykkt að veita peningamarkaðslán að fjárhæð 102.162.470,12 evrur til B ehf. framangreindan dag. Það breytir ekki þeirri niðurstöðu, þótt ákærðu hafi lagt fram aðra og fyrri útgáfu svonefnds ádráttarskjals, sem af má ráða að eftir undirritun þeirra á skjalið hafi það verið áritað um að greiða skuli lánið út ,,vegna E“  mánudaginn 11. febrúar og sú áritun hafi verið undirrituð af T fyrir hönd E ehf.

Þá verður einnig fallist á með héraðsdómi að ranglega sé staðhæft í ákæru að peningamarkaðslánið til B ehf. hafi verið veitt án trygginga eða ábyrgða. Liggur fyrir að sama dag og lánið var veitt var undirrituð handveðsyfirlýsing þar sem félagið setti A banka hf. að veði hlutabréf í eigu þess í G hf. að nafnverði 349.999.999 krónur. Veðið skyldi tryggja allar fjárskuldbindingar B ehf., Q hf. og R hf. sem stofnað hafi verið til við bankann eða yrði síðar stofnað til. Á hinn bóginn kemur fram í gögnum málsins að A banki hf. hafði 25. janúar 2008 fallið frá handveði sem bankanum var veitt 28. febrúar 2007 í öllum hlutabréfum N ehf. í Æ hf. að nafnverði 310.186.766 krónur og fleiri ótilgreindum hlutabréfum N ehf. Handveð þetta átti að tryggja allar fjárskuldbindingar B ehf. við bankann. Sú trygging var því ekki fyrir hendi 8. febrúar 2008 er peningamarkaðslánið til B ehf. var veitt.

2

Ákæra er reist á því að miðað við eigið fé A banka hf. 31. desember 2007 samkvæmt ársreikningi félagsins hafi heildarlánveitingar til svonefndrar B-samstæðu mátt vera 17% af 225.576.000.000 krónum eða um 38.300.000.000 krónur. Staða skulda samstæðunnar áður en lánið var veitt hafi verið um 32.400.000.000 krónur og með því að veita peningamarkaðslán að fjárhæð 10.019.073.445 krónur hafi heildarskuldin farið um 4.100.000.000 krónur umfram það sem heimilt var.

Ákærðu halda því annars vegar fram að reglur Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum hafi í p. lið 4. gr. heimilað að taka tillit til leyfilegra frádráttarliða og með hliðsjón af því hafi mátt draga frá að tilteknu marki lán til Q hf., R hf. og G hf. sem öll hafi tilheyrt samstæðunni. Þess vegna hafi heimildir til lánveitinga til hennar verið rýmri en gert sé ráð fyrir í ákæru. Hins vegar að almennar reglur um útlán og markaðsáhættur, sem A banki hf. hafi sett 2. október 2007 samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, hafi í 3. mgr. 4. gr. heimilað rýmri lánveitingar en ákæra geri ráð fyrir, þegar aðstæður hafi verið með þeim hætti, sem p. liður 4. gr. reglna nr. 216/2007 fjalli um.

Í 17. gr. laga nr. 161/2002, eins og efni hennar var í upphafi árs 2008, var mælt fyrir um að fjármálafyrirtæki skyldi á hverjum tíma ráða yfir tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við alla starfsemi sína. Hjá öllum fjármálafyrirtækjum skyldi vera til staðar fullnægjandi og skjalfestir innri ferlar til að meta nauðsynlega stærð, samsetningu og innri dreifingu eiginfjárgrunns með hliðsjón af þeim áhættum sem starfsemi feli í sér hverju sinni. Innri ferlarnir skyldu endurmetnir reglulega til að tryggja að þeir væru fullnægjandi með hliðsjón af eðli, umfangi og margbreytileika starfseminnar. Mælt var fyrir um að Fjármálaeftirlitið setti reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa. Á þessum tíma giltu einnig framangreindar reglur nr. 216/2007. A banki hf. setti sér í samræmi við fyrirmæli laganna almennar reglur um útlán og markaðsáhættur 2. október 2007 en gaf einnig út útlánahandbók auk annars efnis þar sem lýst var meðal annars reglum um aðferðir við útlán og áhættumat. Í 4. gr. almennra reglna um útlán og markaðsáhættur var að finna töflu um útlánamörk þar sem kom fram að áhættunefnd hefði einungis heimild til að lána viðskiptamanni í áhættuflokki fjögur fjárhæð sem svaraði til 17% af eigin fé A banka hf. Verður slegið föstu að eigið fé bankans í þessum skilningi sé réttilega tilgreint í ákæru og einnig sú heildarfjárhæð sem lána mátti til B ehf. samkvæmt framansögðu. Af gögnum málsins verður einnig lagt til grundvallar að það hafi verið ríkjandi skilningur innan bankans, meðal annars hjá þeim sem sátu í áhættunefnd, að ekki skyldi lána B-samstæðunni meira en sem svaraði til þessa hlutfalls af eigin fé bankans. Þá kemur fram í útlánahandbókinni að óheimilt sé við útlánamörkin að taka tillit til veða eða ábyrgða, sem veittar hafi verið og breytir því engu í þessu sambandi hvort settar voru ábyrgðir eða tryggingar samhliða því að peningamarkaðslánið var veitt. Þótt í framangreindum reglum A banka hf. 2. október 2007 kunni að hafa verið að finna rýmkaða heimild til útlána, sem við gat átt í tilviki B ehf. verður að gæta að því að á henni var ekkert byggt þegar ákvarðanir voru teknar um viðskiptin sem málið varðar.  

Á fundi áhættunefndar A banka hf. 6. febrúar 2008 var samþykkt að lána C ehf. eða óstofnuðu félagi, sem hlaut eftir stofnun heitið E ehf., lán að nettó fjárhæð 100.000.000 evrur. Var sá fyrirvari gerður að fjármögnun lánsins þyrfti að ganga eftir og er ljóst að sú varð raunin og féll því fyrirvarinn niður. Tilgangur lánveitingarinnar var að greiða skuld C ehf. við D bankann, sem B ehf. var í ábyrgð fyrir. Hlutabréf í A banka hf. höfðu verið sett að veði til tryggingar greiðslu lánsins. Af gögnum málsins er sannað að ekki hafi verið unnt að veita B ehf. lánið þar sem það myndi fara umfram þau útlánamörk, sem mælt var fyrir um í reglum bankans og áður hefur verið gerð grein fyrir. Ákvörðun um þessa lánveitingu var því ekki á færi áhættunefndar heldur einungis stjórnar A banka hf. samkvæmt reglum bankans. Þegar ákveðið var að veita B ehf. peningamarkaðslán að fjárhæð 102.162.470,12 evrur síðdegis föstudaginn 8. febrúar 2008 í stað þess að veita E ehf. lánið, svo sem áhættunefnd hafði samþykkt, lá engin samþykkt stjórnar fyrir um að víkja frá ákvörðun áhættunefndar. Engin gögn í málinu bera með sér að þá hafi verið lagt mat á hvað í raun mætti veita B ehf. hátt lán ef tekið yrði tillit til ætlaðrar rýmkunar á heimildum í reglunum. Með því að heimila veitingu peningamarkaðslánsins til B ehf. við þessar aðstæður og árita ádráttarskjal um að greiða mætti lánið út brutu ákærðu reglur A banka hf., sem gerð hefur verið grein fyrir að framan. Með því misnotuðu þeir aðstöðu sína sem forstjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans. Veiting lánsins var fyrst og fremst til hagsbóta fyrir skuldara lánsins við D, C ehf., og B ehf., sem ábyrgðarmanns að láninu, þótt ekki verði dregið í efa að A banki hf. gat einnig haft verulega hagsmuni af því að ekki yrðu vanskil á láninu. Enginn vafi er á því að ásetningur ákærðu stóð til þeirrar misnotkunar, sem lýst er að framan og til þess að vernda einkum hagsmuni C ehf. og B ehf. Er því skilyrðum 249. gr. almennra hegningarlaga um misnotkun á aðstöðu og auðgunarásetning fullnægt.

3

Loks er það skilyrði þess að sakfellt verði fyrir umboðssvik, þegar ekki liggur fyrir að tjón hafi í raun orðið vegna háttseminnar, að með henni hafi verið valdið verulegri fjártjónshættu. Verður við mat á henni að taka bæði tillit til þess hverjar líkur voru á því að fjártjón yrði svo og hve mikið tjón hlytist af, ef til þess kæmi. 

Við mat á fjártjónshættu verður lagt til grundvallar að hún hafi falist í því að lánið til B ehf. yrði ekki greitt 11. febrúar 2008, eins og skylda félagsins stóð til og hætta væri á því að A banki hf. fengi ekki fullnustu kröfu sinnar ef ganga þyrfti að félaginu.

Í málinu liggur fyrir að peningamarkaðslánið var veitt til þriggja daga, frá föstudegi til mánudags. Þegar lánið til B ehf. var veitt hafði A banki hf. öll helstu skjöl vegna veitingar lánsins til E ehf. undirrituð og í vörslum sínum. Enn vantaði þó umboð frá eigendum um 12% hluta í félaginu til þess að þeir hlutir yrðu settir bankanum að handveði eins og aðrir hlutir í því, en ekki lá annað fyrir en að þau umboð myndu berast strax eftir helgina, svo sem raun varð á. Verður að miða við að áhættan af því að þau myndu ekki berast hafi verið lítil og ástæða þess að þau lágu ekki fyrir þegar á föstudeginum hafi verið dvöl umbjóðanda í útlöndum þar sem erfitt var að ná til hans. Bankinn hafði einnig nauðsynlegar heimildir til þess að færa skuld B ehf. yfir á E ehf. strax og hann taldi það óhætt.

Í framangreindum reglum A banka hf. um útlán og áhættumat felst mat bankans á því hvaða útlánamörk séu viðunandi fyrir hann án þess að of mikil áhætta sé tekin. Í því sambandi ber að líta til þess að ekki hefur verið hnekkt skilningi ákærðu á því að í 3. mgr. 4. gr. almennra reglna bankans um útlán og markaðsáhættur hafi falist heimildir, sem voru í samræmi við heimildir í reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007, til rýmri lánveitinga þegar tekið hafði verið tillit til skuldbindinga, sem hefðu takmarkað vægi í áhættugrunni. Engar upplýsingar liggja fyrir af hálfu ákæruvaldsins um hvaða þýðingu þessar reglur gætu haft. Staðhæfingum ákærðu um að þær myndu hafa aukið útlánamörk B-samstæðunnar um 5.411.000.000 krónur hefur ekki verið andmælt með rökstuddum hætti. Sé miðað við að í reglunum um útlánamörk, að teknu tilliti til rýmkunar samkvæmt framangreindum heimildum, hafi falist almennt  mat bankans á því hvað hafi verið forsvaranleg áhætta í hverjum útlánaflokki, er ósannað að farið hafi verið umfram þá áhættu, sem bankinn hafi talið viðunandi. Taka verður tillit til þessa við mat á fjártjónshættu.

Þá hefur ákæruvaldið ekki upplýst hvaða tryggingar A banki hf. hafði vegna lána sem bankinn hafði veitt B ehf. og ekki lagt fram upplýsingar um hvert hafi verið verðmæti þeirrar tryggingar sem bankanum var afhent 8. febrúar 2008 og fólst í hlutabréfum í G hf. að nafnverði 349.999.999 krónur.

Að teknu tilliti til framangreindra atriða verður niðurstaðan sú að ákæruvaldið hafi ekki axlað sönnunarbyrði sína fyrir því að háttsemi ákærðu, sem hér um ræðir, hafi falið í sér verulega fjártjónshættu fyrir A banka hf. Samkvæmt því er ekki fullnægt öllum skilyrðum til þess að ákærðu verði gerð refsing samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga og verða þeir því sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Allur sakarkostnaður málsins í héraði verður lagður á ríkissjóð og staðfest ákvæði héraðsdóms um fjárhæð málsvarnarlauna verjenda ákærðu þar fyrir dómi.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærðu, X og Y, eru sýknir af kröfum ákæruvaldsins í málinu.

Allur sakarkostnaður málsins í héraði greiðist úr ríkissjóði með þeim fjárhæðum sem ákveðnar voru í hinum áfrýjaða dómi.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu, Óttars Pálssonar hæstaréttarlögmanns og Þórðar Bogasonar hæstaréttarlögmanns, 1.506.000 krónur til hvors um sig.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. desember 2012.

Mál þetta, sem tekið var til dóms að lokinni aðalmeðferð 10. desember sl., er höfðað af Embætti sérstaks saksóknara með ákæru 14. desember 2011 og framhaldsákæru 28. febrúar 2012 á hendur X, kt. [...], búsettum í [...], og Y, kt. [...], [...], [...], fyrir umboðssvik, með því að hafa, 8. febrúar 2008, í störfum sínum, X sem forstjóri og Y sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs A banka hf., kt. [...], báðir meðlimir í áhættunefnd bankans, misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í stórfellda hættu með lánveitingu bankans til B ehf., kt. [...], í formi peningamarkaðsláns að fjárhæð 102.162.470,12 evra, sem samsvaraði 10.019.073.445 krónum á sölugengi evru á útborgunardegi, án trygginga eða ábyrgða og andstætt almennum reglum A banka hf. um lánveitingar og markaðsáhættu um hámark heildarlánveitinga til einstaks aðila og aðila honum tengdum. Lánið átti að endurgreiða í einu lagi 11. febrúar 2008 ásamt 7,55 % ársvöxtum. Ákærðu samþykktu lánveitinguna utan funda áhættunefndar og rituðu undir lánssamninginn fyrir hönd A banka hf. Á þessum tíma var B ehf. skilgreint í áhættumatsflokki 4 samkvæmt áðurnefndum reglum sem fól í sér að ákærðu, sem meðlimir áhættunefndar, gátu einungis heimilað lánveitingar til félagasamstæðu B ehf., er rúmuðust, ásamt eldri lánum samstæðunnar, innan 17% af eigin fé (CAD) A banka hf. sem var á þeim tíma  225,576 milljarðar króna. Með ákvörðun sinni um lánveitinguna fóru ákærðu út fyrir heimildir sínar þannig að heildarlánveitingar félagasamstæðu B ehf. fóru úr 32,4 í 42,4 milljarða króna eða úr 14,36% í 18,80% af eigin fé (CAD) bankans og þar með um 4,1 milljarð króna umfram heimildir.

Í samræmi við ákvörðun ákærðu var lánsfjárhæðinni ráðstafað 8. febrúar 2008 inn á evru reikning B ehf. númer [...] hjá A banka hf. B ehf. ráðstafaði sama dag andvirði lánsins til greiðslu á láni C ehf. hjá D bankanum, sem hafði verið gjaldfellt og þurfti að greiða fyrir klukkan 15:00 þennan sama dag, en C var einkahlutafélag innan félagasamstæðu B ehf.

Hinn 11. febrúar 2008 millifærði A banki hf. 102.162.470,12 evra inn á bankareikning B ehf. hjá bankanum og daginn eftir millifærði bankinn sömu fjárhæð til baka. Um var að ræða andvirði láns sem A banki hf. veitti E ehf., kt. [...], án trygginga, en lánið var 103.718.244 evrur að meðtöldum lántökukostnaði. Hinn 29. febrúar 2008 greiddi F ehf., kt. [...], til E ehf. 50 milljónir evra, sem voru fjármunir sem félagið fékk að láni frá A banka hf. og var fjárhæðin færð til lækkunar á láni bankans til E ehf. frá 11. febrúar 2008. Eftirstöðvar lánsins að nafnvirði 53.718.244 evra hafa ekki verið endurheimtar frá E ehf. Þeirri stórfelldu fjártjónshættu sem ákærðu sköpuðu A banka hf. með lánveitingunni 8. febrúar 2008 var því ekki afstýrt með þeirri ráðstöfun að færa skuldbindinguna yfir á E ehf. 11. febrúar 2008.

Er háttsemi ákærðu talin varða við ákvæði 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.  

Ákærðu krefjast sýknu og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Með kæru Fjármálaeftirlitsins 25. mars 2009 var ætluðum brotum stjórnenda G hf. og félögum því tengdu, vísað til Embættis sérstaks saksóknara til rannsóknar. Var vísað til þess að grunur beindist að brotum gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, lögum um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994 og lögum um hlutafélög nr. 2/1995. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2009 var Embætti sérstaks saksóknara heimiluð húsleit að [...] í Reykjavík, starfsstöð G hf. og fleiri fyrirtækja. Embætti sérstaks saksóknara framkvæmdi húsleit að [...] þann 7. júlí 2009. Var lagt hald á umtalsvert magn skjallegra gagna, auk þess sem rafræn gögn voru haldlögð. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu frá 15. október 2011 var á árinu 2011 tekin ákvörðun um að kljúfa mál tengd því sakarefni sem mál þetta varðar frá fyrirliggjandi rannsókn og gefa því sjálfstætt númer. Hafi það verið gert með það að markmiði að auðvelda rannsókn málsins og framsetningu þess.

Samkvæmt gögnum málsins var þriðjudaginn 5. febrúar 2008 haldinn fundur í áhættunefnd A banka hf. Samkvæmt fundargerð voru ákærðu báðir mættir á þann fund, ásamt öðrum nefndarmönnum og ritara nefndarinnar. Á dagskrá fundarins voru málefni tengd C ehf. Í fundargerð kemur meðal annars fram að C ehf. sé með lán vegna fjármögnunar á hlutum í A banka hf., hjá D og að H, eigandi I AB sé með brúarfjármögnun vegna kaupa á I AB. Bæði lánin séu í uppnámi um þessar mundir. Lán að fjárhæð 158 milljónir evra sé með veði í 7% hlut í A banka hf. Hafi D krafist þess að lánið verði greitt upp eigi síðar en 8. febrúar nk. Lánsfjárhæð til greiðslu sé 100 milljónir evra. B ehf. og tengdir aðilar hafi lagt fram innborgun að fjárhæð 58 milljónir evra. Í fundargerð kemur fram að þar sem um knappan tíma sé að ræða sé lagt til að byrjað sé á því að leysa hlut er varði lánið að fjárhæð 158 milljónir evra. Hugmyndin gangi út á að 58 milljónir evra frá B ehf. verði notað til að greiða niður lán D, sem þá standi í 100 milljónum evra. A banki hf. fjármagni það til 31. mars. Á móti þessu láni leggi J og K fram innborgun til A banka hf. að fjárhæð 100 milljónir evra. Þetta þýði að lánið sé ,,cash neutral“. Til óstofnaðs félags/C ehf. renni einungis um 50 milljónir evra af bréfunum þar sem D hafi krafist þess að þeir hafi áfram hluti í A banka hf. að verðmæti um 100 milljónir evra að veði þar til lán tengt H hafi verið greitt upp. Niðurstaða var að málinu skyldi frestað. Með fundargerð fundarins fylgdi skjal er ber yfirskriftina Lánamál Áhættunefnd og er það dagsett 5. febrúar 2008. Fram kemur að unnið hafi að málinu L og M. Í skjalinu er að finna umfjöllun af sambærilegum toga og færð er í fundargerð áhættunefndar. Að auki er þess getið að C ehf. sé ekki í samstæðuuppgjöri fyrir B ehf. árið 2007. Þá er gerð grein fyrir eignarhaldi á C ehf. Fram kemur að það sé þannig að N ehf. eigi 48.80%, en N ehf. sé að öllu leyti í eigu G hf., 39,10% sé í eigu O ehf. og 12,10% í eigu P ehf. Þá er fjallað um svonefnt brúarlán og svonefnt ,,lock up“ ákvæði, en félög sem muni eiga 7% hlutinn í A banka hf. muni þurfa að rita undir ,,lock up“ ákvæði þar sem fram komi að óheimilt sé að selja hluti í A banka hf. fram til október 2008. Þá er vikið að aukinni tryggingatöku vegna B ehf. samstæðunnar. Fram kemur að sértæku handveði í 66% hlut í G hf., sem bankinn sé með vegna láns til B ehf. verði breytt í allsherjarveð og muni það tryggja allar skuldbindingar félaganna B ehf., Q hf. og R hf. Þá kemur fram að B ehf. hafi leitað til erlendra banka um fjármögnun á láni til D en ekki sé hægt að gefa sér að það gangi eftir. Fyrirsvarsmenn B ehf. muni í vikunni hitta tilgreinda aðila til að ræða hvort þeir séu tilbúnir til að halda áfram með fjármögnun að fjárhæð 50 milljónir evra annað hvort gagnvart H eða fjármögnun gagnvart hlutum í A banka hf. Fram kemur að gagnvart ,,exposure“ á B ehf. samstæðuna þá geti þær ráðstafanir sem um sé rætt þýtt 17 milljarða króna hækkun sem sé hærra en rúmist innan reglna Fjármálaeftirlitsins. Því þurfi að nota næstu daga mjög vel til að finna hvernig hægt sé að lækka heildarmyndina svo sem með arðgreiðslu frá I AB. og sölu á turninum í [...]. Í skjalinu kemur fram yfirlit um samstæðumörk B ehf. félagasamstæðunnar miðað við móðurfélagið og dótturfélög. Í niðurstöðu kemur fram að samtals nemi lánveitingar til móðurfélagsins og dótturfélaga í heildina 32.372.000.000 króna.

Næsta dag, eða miðvikudaginn 6. febrúar 2008, var aftur haldinn fundur í áhættunefnd A banka hf. Samkvæmt fundargerð var ákærði, Y, mættur á þann fund, en ákærði, X, skráður fjarstaddur. Á meðal fundarefna voru aftur lán tengd C ehf. Er sama bókun færð í fundargerð og á fyrri fundi varðandi fundarefnið. Var niðurstaða fundarins að samþykkt var að afgreiða málið eins og það var fært til bókar á síðasta fundi. Var samþykki háð þeirri forsendu að fjármögnun gengi eftir og bókað að S fjármálastjóri A banka hf. væri enn að skoða það. Var áhættuflokkur 7 settur á hið óstofnaða félag eða C ehf. 

Á meðal rannsóknargagna málsins eru lánsskjöl dagsett 8. febrúar 2008 þar sem E ehf. er skráður lántaki og A banki hf. lánveitandi. Er lánsfjárhæð 103.718.244 evrur. Er samningurinn á 17 blaðsíðum og hann undirritaður af T framkvæmdastjóra fyrir hönd E ehf. og ákærðu fyrir hönd A banka hf. Þá fylgir þeim samningi skjal er ber yfirskriftina ,,Share Pledge Agreement“, sem er veðsamningur á milli N ehf, O ehf., U hf., V ehf. og W ehf. sem veðsala og A banka hf. sem banka. Samkvæmt samningi setja veðsalar hluti sína í E ehf. að veði fyrir greiðslu á láni A banka hf. til E ehf. Undir skjal þetta rita ákærðu fyrir hönd A banka hf., T fyrir hönd N ehf. og O ehf. en Z fyrir hönd U hf., W ehf., O ehf. og V ehf.

Þá er á meðal gagna málsins skjal er ber yfirskriftina ,,Notice of Drawing“ eða ádráttarbeiðni, eins og það hefur verið nefnt. Á skjal þetta er fært að skjalinu sé beint til A banka hf. Fram koma, í stöðluðum texta, upplýsingar um hvenær sé dregið á lánið, fjárhæð þess og gjaldmiðill, vaxtakjör og greiðslufyrirmæli. Á skjal þetta er ritað eigin hendi upplýsingar um þessi atriði. Er lánsfjárhæðin 103.118.244 evrur færð inn en strik dregið yfir fjárhæðina og yfir hana færð lánsfjárhæðin 102.162.470,12 evrur. Fært er að B ehf. sé skuldari og færslan: ,,Pm lán í EUR over night“. Greiðslufyrirmæli eru rituð eigin hendi á skjalið. Ádráttardagur lánsins er tilgreindur 8. febrúar 2008. Undir skjalið ritar T fyrir hönd B ehf. og ákærðu fyrir hönd A banka hf. 

Í gögnum málsins er staðfesting á lánveitingu A banka hf. til B ehf. frá 8. febrúar 2008 þar sem bankinn staðfestir að þann dag kl. 15.11 hafi bankinn veitt peningamarkaðslán til B ehf. að fjárhæð 102.162.470,12 evrur. Fram kemur að fjárhæðin hafi verið lögð inn á reikning nr. [...]. Þá er í gögnum málsins afrit af skuldfærsluskjali dagsettu 8. febrúar 2008 þar sem A banki hf. staðfestir gagnvart B ehf. að 102.162.470,12 evrur hafi þann dag verið færðar inn á reikning D í tilgreindum banka í [...] í [...]. Í útgreiðsluskjali frá A banka hf. 11. febrúar 2008 fram kemur að bankinn hafi greitt inn á reikning E ehf. 103.718.244,00 evrur. Tekið er fram að bankinn hafi handveð í öllum hlutum í E ehf. 

Á meðal rannsóknargagna málsins eru almennar reglur A banka hf. um útlán og markaðsáhættu. Í 1. kafla reglnanna segir að A banki hf. hafi að markmiði að auka arðsemi hluthafa og hlutafé, með skilvirkri áhættustjórnun og varfærinni útlánastefnu. Jafnframt segir að lánaákvarðanir skuli byggja á ítarlegu mati á eðlislægri útlánaáhættu, varfærnum ráðstöfunum til að draga úr lánaáhættu og áhættumiðuðum kjörum. Í kafla 2 kemur meðal annars fram að lánaáhætta gagnvart einstöku efnahagssviði skuli ekki fara fram yfir 35% af útlánasafni bankans á samstæðugrundvelli. Skuli bankinn leitast við að takmarka stórar útlánaáhættur, sem nemi meira en 10% af reglubundnu eiginfjárhlutfalli (CAD vegið eigið fé). Þannig megi engin einstök langtímaútlánaáhætta vera hærri en 20% af CAD vegnu eiginfjárhlutfalli A á samstæðugrundvelli. Langtímamörk fyrir einstaka stóra lánaáhættu skuli takmarkast við viðskiptavini sem séu í áhættuflokkum 1-5 miðað við áhættumatslíkan bankans. Síðar segir að allar ákvarðanir um útlánaáhættu og/eða markaðsáhættu skuli byggðar á formlegu áhættumati á viðskiptavininum og fjárhagsstöðu hans, útlánasögu og öðrum viðeigandi upplýsingum. Samkvæmt kafla 3 sjái stjórn um og fylgist með útlánastarfsemi bankans á samstæðugrundvelli og sé ábyrg gagnvart hluthöfum hvað varði útlánaáhættu, markaðsáhættu og aðrar mótaðilaáhættur. Gefi stjórn út almennar reglur um útlán og markaðsáhættu, sem og reglur um lánatapsskilmála og endanlegar afskriftir. Gefi stjórn út viðskiptamörk fyrir áhættunefndir og útlánanefndir byggt á tillögum áhættunefndar. Veiti stjórn heimildarmörk fyrir áhættunefnd og ákveði útlánaheimild fyrir viðskiptavini sem fari fram yfir mörk áhættunefndar. Áhættunefnd sé skipuð af framkvæmdastjóra. Beri áhættunefnd ábyrgð á stjórnun og eftirliti með allri útlánaáhættu og markaðsáhættu. Í kafla 4 um heimildamörk segir að áhættunefnd og útlánanefndir hafi heimild til að samþykkja lánveitingar og markaðsáhættumál samkvæmt töflu í kaflanum. Geti áhættunefnd þó ákveðið og/eða lækkað hámarksheimildarmörk fyrir nefndir sínar. Eftirfarandi séu hámarksheimildarmörk sem stjórn hafi samþykkt. Í reglunum er í framhaldi markatafla fyrir áhættustýringu og útlánanefndir þar sem lántökum er skipað í flokka frá 1 til 10. Fyrir lántaka í áhættuflokki 4 getur áhættunefnd heimilað lán sem er innan við 17% af eigin fé bankans, útlánanefnd fyrirtækja 10% af eigin fé, norræna útlánanefndin 5% og íslenska útlánanefndin 3%. Fram kemur að ákvörðunum varðandi tengda aðila sem séu umfram 15% af eiginfjárhlutfalli bankans skuli vísað til stjórnar. Mörk áhættunefndar skuli tvöfaldast fyrir skuldbindingar sem nemi 20% af vegnu eigin fé og þrefaldast fyrir skuldbindingar með 0% eiginfjárvægi. Í kafla 7 um viðurlög kemur fram að stjórn leggi ríka áherslu á að reglunum sé fylgt og líti á það sem algert forgangsatriði að allir starfsmenn hlíti þeim. Brot á reglum varði áminningu og geti leitt til brottreksturs. Séu reglurnar gefnar út samkvæmt lögum nr. 161/2000 um viðskiptabanka. Reglurnar eru þannig samþykktar í stjórn 2. október 2007. Undir þær rita þáverandi stjórnarmenn í bankanum.

Samkvæmt kafla 3.1 í útlánahandbók A banka hf. frá árinu 2007, sem fram kemur að sé í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, ber stjórn endanlega ábyrgð á umsjón og eftirliti með útlánastarfsemi A banka hf. á samstæðugrundvelli og er ábyrg gagnvart hluthöfum um alla efnislega áhættu innan A banka hf., þar á meðal útlánaáhættu. Í kafla 4.4 um heimildarmörk, kemur fram samsvarandi tafla og í almennum reglum A banka hf. um útlán og markaðsáhættu varðandi heimildarmörk miðað við áhættuflokk lántaka. Fram kemur að mörkin séu byggð á áhættuflokkum viðskiptamanna og séu mörkin tilgreind sem hlutfall af CAD eða eigin fé. Með samsvarandi hætti og í almennum reglum um útlán og markaðsáhættu sé áhættunefnd bankans heimilt að lána viðskiptavini í áhættumatsflokki 4 allt að 17% af eigin fé A banka hf. Önnur og lægri mörk eigi við um aðra þá sem hafi úthlutunarheimildir innan bankans. Í kafla 4.5 kemur fram að hver viðskiptavinur fái sín mörk á grundvelli samstæðuútlánaáhættu innan A banka hf. sem og fjárhagslega tengdra aðila viðskiptavinar. Sýni viðskiptamörk heildarmörk þau sem veitt séu viðskiptavini. Skuli viðskiptamörkin taka til heildarskuldbindinga viðskiptavinar ásamt fjárhagslegum tengdum aðilum, þó setja beri sérgreind viðskiptamörk fyrir hvern tengdan aðila. Samanlagðar skuldbindingar þeirra megi ekki fara umfram heildarviðskiptamörk. Í kafla 5.2 kemur fram að stjórn hafi endanlegt vald varðandi lánveitingar og mótaðilaáhættu. Hafi stjórn umsjón með og beri ábyrgð á að fylgst sé með útlánastarfsemi A banka hf. á samstæðugrundvelli og beri ábyrgð gagnvart hluthöfum og eftirlitsaðilum. Stjórn hafi endanlegt ákvörðunarvald í A banka hf. um lánveitingaákvarðanir sem séu umfram mörk áhættunefndar. Samkvæmt kafla 5.3 um áhættunefnd, setur áhættunefnd viðskiptamörk fyrir viðskiptavini A banka hf. í samræmi við samþykkt heimildarmörk. Allar ákvarðanir skuli færa í fundargerð. Þegar þess sé sérstök þörf geti nefndin tekið ákvarðanir um mál milli reglulegra funda.

Samkvæmt handbók Þ hf. um lánamál, frá árinu 2004, eru peningamarkaðslán ein tegund útlána. Veita slík lán miðlara heimild til þess að lána viðkomandi viðskiptamanni skammtímalán, til allt að 6 mánaða, á kjörum sem ráðist af markaðsaðstæðum hverju sinni, þó þannig að heildarupphæð slíkra lána fari aldrei hærra en skráð peningamarkaðslánamörk. Standi peningamarkaðslán aðeins viðskiptavinum í áhættuflokkum 1 til 4 til boða. Þó sé heimilt að lána viðskiptavinum í hærri áhættuflokki með samþykki áhættu- eða lánanefndar.

B ehf. gaf út handveðsyfirlýsingu, allsherjarveð, 28. febrúar 2007, til A banka hf. Var yfirlýsingin gefin út til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og öðrum fjárskuldbindingum B ehf., þá eða síðar við A banka hf., og voru bankanum sett að handveði hlutabréf N ehf. í Æ hf., að nafnverði 310.186.766 krónur, sem varðveitt voru á tilgreindum vörslureikningi N ehf. hjá A banka hf. Þá gaf B ehf. út handveðsyfirlýsingu, allsherjarveð, 8. febrúar 2008, til A banka hf. Var yfirlýsingin gefin út til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og öðrum fjárskuldbindingum B ehf., Q hf. og R hf. þá eða síðar við A banka hf. og voru bankanum sett að handveði hlutabréf í G hf. að nafnverði 349.999.999 krónur. Væru hlutabréfin eign B ehf. og varðveitt á tilgreindum [...]-reikningi í umsjón A banka hf.

Ákærði, X, gaf skýrslu við rannsókn málsins hjá lögreglu og við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Kvaðst hann hafa tekið við starfi í A banka hf. sem forstjóri 1. maí 2007. Sú lánveiting er væri ákæruefni málsins hafi komið til vegna endurfjármögnunar á láni C ehf. hjá D fjárfestingarbankanum. Nefnd lánveiting D til C ehf. hafi verið veitt í febrúar 2007, eða 3 mánuðum fyrir komu ákærða að A banka hf. Samkvæmt gögnum málsins hafi þessi fjármögnun upphaflega verið hugsuð af D til 3ja ára eða til febrúar 2010. Þegar ákærði hafi hafið störf í A banka hf. hafi lánveitingar til B samstæðunnar staðið í um 32.5 milljörðum króna. Frá maí 2007 til 5. febrúar 2008 hafi málefni B einungis komið þrisvar sinnum til umræðu hjá áhættunefnd A banka hf., þar sem ákærði hafi átt sæti. Hafi það verið tvisvar sinnum í júlí 2007 vegna framlenginga og tilfærslu á viðskiptamörkum og síðan í október 2007, þegar mörk hafi verið hækkuð vegna ábyrgðar í tengslum við frágang á kaupum B á I AB í [...] en þau kaup hafi D fjármagnað að stórum hluta. Afskipti ákærða og persónuleg samskipti við fyrirsvarsmenn B ehf. hafi á stuttum tíma ákærða hjá A banka hf. verið mjög takmörkuð.

Aðkoma ákærða að lánveitingu þeirri er sé ákæruefni málsins hafi fyrst orðið í kjölfar samtals ákærða við tengiliði A banka hf. hjá D í lok janúar 2008, en D hafi verið sá fjárfestingabanki sem A banki hf. hafi einna mest unnið með í tengslum við fjármögnun og á þeim tíma verið einn af ráðgjöfum bankans í stóru verkefni vegna fyrirhugaðrar skráningar A banka hf. á hlutabréfamarkað í [...]. Í samtali við nefndan einstakling hafi komið í ljós að innan D hefðu verið gefin þau fyrirmæli að draga almennt úr áhættu en flestir [...] fjárfestingabankar hafi á þeim tíma verið undir þrýstingi sökum svonefndrar ,,undirmálslánakrísu“ í [...] og fljótlega eftir þennan tíma eða í mars 2008 hafi fjárfestingabankinn Ö verið tekinn yfir af Á bankanum. Starfsmenn D hafi lýst yfir áhyggjum af því að hægt gengi hjá C ehf. að endurfjármagna lán sitt og fulltrúum bankans verið fyrirskipað að nýta ýtrustu gjaldfellingarheimild lánsins í samræmi við breytta stefnu bankans. Tölvupóstsamskipti sem fram hafi farið 31. janúar og 3. febrúar 2008 er fram komi í gögnum málsins séu send þegar mál þetta hafi farið af stað.

Rætt hafi verið opinskátt hversu gríðarlega neikvæð áhrif gjaldfall B ehf. samstæðunnar myndi hafa á fjármögnunarmöguleika A banka hf. og þau verkefni sem verið væri að vinna að með D. Fjármögnun A banka hf. og allra íslensku bankanna hafi á þeim tíma verið háð erlendum fjárfestum eða skammtíma lánveitendum og það verið ljóst að allar neikvæðar fréttir varðandi Ísland, íslensk fjármálafyrirtæki eða fjárfestingarfélög, hefðu mikil áhrif á möguleika A banka hf. til endurfjármögnunar. Það hefðu ákærði, S fjármálastjóri A banka hf. og allt fjármögnunarteymi A banka hf. fengið að reyna fyrr eða í janúar mánuði 2008 þegar neikvæðar fréttir af nauðasamningum Ð fjárfestingarfélags hefðu átt stóran þátt í því að A banki hf. hafi þurft að hætta við skuldabréfaútboð í samstarfi við Á sem hafi verið miðað að fjárfestum í [...], [...] og [...]. Þó hafi Ð fjárfestingarfélag verið lítið fjárfestingarfélag og bundið við Ísland í samanburði við B ehf. samstæðuna sem hafi verið margfalt stærra og í raun eitt stærsta íslenska fjárfestingarfélagið. Gjaldfelling á B ehf. samstæðuna, sem haft hafi um 70 milljarða króna í eigið fé og tæpa 400 milljarða af eignum, sem numið hafi þá um 30% af vergri landsframleiðslu Íslands, hefði haft gríðarlega neikvæð áhrif á A banka hf. og allt íslenska fjármálakerfið. Fjármögnunarskipan B ehf. samstæðunnar hafi í raun verið líkt banka, þannig að eitt gjaldfellt lán hefði sett stærstan hluta af  fjármögnun samstæðunnar í uppnám og skapað mikið vandamál varðandi lausafé. Undirliggjandi eignir B ehf. samstæðunnar hafi að mestum hluta verið í eftirlitsskyldum fjármálafyrirtækjum en virði þeirra sé sérstaklega viðkvæmt fyrir snöggum breytingum á skilgreindum fjárhagslegum styrk eigenda sinna. Því hafi verið ljóst á þessum tíma að skyndileg sala B ehf. samstæðunnar á eignum sínum hefði haft mjög neikvæð áhrif á endurgreiðslugetu þeirra. Þetta hafi skilanefnd A banka hf. fengið að reyna um áramótin 2008 til 2009 en þá hafi hún neyðst til að selja öll hlutabréf í É eignastýringafyrirtækinu í [...], dótturfélagi A banka hf., að kröfu [...] fjármálaeftirlitsins fyrir minna en eina milljón evra, en það fyrirtæki hafi A banki hf. keypt fyrir 300 milljónir evra í upphafi árs 2007. Það hafi verið fyrir tíð ákærða í bankanum. Það hafi verið ljóst að ákvörðun áhættunefndar bankans í febrúar 2008 hafi miðað að því að forða fyrrgreindu gjaldfalli gegn fullkomlega ásættanlegum tryggingum. Að auki hafi lánveitingin klofið á viss áhættutengsl. Hafi það verið niðurstaðan að heildartryggingarstaða A banka hf. hafi styrkst í þessum viðskiptum og þeim viðskiptum sem lokið hafi í enda febrúar 2008. Ákærði hafi aldrei átt nokkurra persónulegra hagsmuna að gæta í þessari lánveitingu eða viðskiptum A banka hf. við B ehf. samstæðuna. Hafi ákærði einungis þjónað hagsmunum A banka hf. í afgreiðslu málsins, eins og í öllum verkefnum ákærða sem forstjóri A banka hf. Hafi ákærði engin hlutabréf átt í A banka hf. á tíma sem forstjóri og frá hausti 2007 hafi kaupréttir ákærða verið verðlausir.

Ákærði kvaðst hafa tekið þátt í fundi áhættunefndar 5. febrúar 2008 þar sem málefni C ehf. hafi verið til meðferðar. Hafi átt að stofna nýtt félag til að setja lán inn í sem greiða skyldi lán C ehf. hjá D. Inn í  þetta nýja félag hafi eignir átt að renna sem trygging, en um hafi verið að ræða eignina [...], sem hafi verið bygging í [...] og [...] sjóðinn. Ákærði hafi ekki verið á fundi áhættunefndar næsta dag eða 6. febrúar 2008 þar sem sama mál hafi verið tekið til meðferðar. Á þessum tíma hafi lausafjárstaða bankans í erlendum gjaldeyri verið þægileg, þó svo reynt hafi verið að takmarka nýjar lánveitingar, sérstaklega í erlendri mynt. Bankinn hafi verið í sterkri stöðu sumarið 2008.  Áramótin 2007 til 2008 hafi staða bankans verið nokkuð góð, en fjármagn þó í eðli sínu fljótandi. Frá lokum ársins 2007 til 8. febrúar 2008 hafi A banki hf. fengið lán frá Í sem gert hafi stöðu bankans sterka. Ákærði kvaðst kannast við að S fjármálastjóri bankans hafi 24. janúar 2008 sent út póst til yfirmanna um að takmarka útlán í erlendri mynt. Lánveiting til E ehf. hafi ekki verið ákjósanleg fyrir bankann, en miðað við þá hagsmuni sem hefðu verið í húfi hafi þótt rétt að fara út í þessa lánveitingu. 

Að því er varðar atburði 8. febrúar 2008 bendi ákærði á að næstum 5 ár séu liðin frá þeim degi og því gefi að skilja að ómögulegt sé að muna nákvæmlega hvað gerst hafi þennan dag. Hafi ákærði verið á [...] alla vikuna í viðskiptaerindum á vegum A banka hf. en verið kallaður heim nokkrum dögum fyrr vegna fundar með bankastjórn Seðlabankans seinni part föstudagsins 8. febrúar 2008. Í rafrænni dagbók hafi ákærði séð að ásamt því að vera að undirbúa mikilvægan fund með Seðlabankanum, hafi ákærði átt óformlegan fund með stjórnarformanni A banka hf. í hádeginu þennan dag. Hið svokallaða lánamál, mál tengt lánveitingu til E ehf., hafi verið undirbúið af starfsmönnum bankans. Að þessu máli þann 8. febrúar 2008 hafi auk ákærða komið að meðákærði og L viðskiptastjóri fyrirtækjasviðs. Ákærði kvaðst kannast við undirritun sína á lánssamningi A banka hf. og E ehf. frá 8. febrúar 2008. Ákærði kvaðst gera ráð fyrir að þeir er undirritað hafi samninginn hafi allir gert það á sama tíma. Ákærði kvaðst staðfesta undirritun sína á svonefnda ádráttarbeiðni tengt lánamálinu. Það skjal hafi sennilega verið undirritað á sama tíma og lánsskjölin varðandi E ehf. Hann myndi ekki eftir að hafa ritað á þetta skjal á sínum tíma og ekki áttað sig á því fyrr en honum hafi verið sýnt þetta blað við lögregluyfirheyrslu í málinu. Ákærði kvaðst því ekki vita af hverju B ehf. hafi verið veitt peningamarkaðslán þennan dag í stað þess að E ehf. fengi greitt það lán sem ritað hafi verið undir. Slíka ákvörðun hafi ákærði ekki tekið. Ákærði kvað L viðskiptastjóra eða Ó forstöðumann gjaldeyrismiðlunar ekki hafa getað tekið ákvörðun um að veita B ehf. umrætt peningamarkaðslán. Óhugsandi væri að á skjalinu hafi staðið, er ákærði ritaði undir það, að veita skyldi B ehf. peningamarkaðslán að greindri fjárhæð. Nokkuð stór hluti af starfi forstjóra væri að undirrita skjöl sem starfsmenn bankans legðu fyrir forstjóra, eins og aðra A-prókúruhafa bankans. Rangt væri að ákærði hafi samþykkt lánveitingu til B ehf. þennan dag. Ef gögn málsins væru lesin væri ljóst að ákærði, ásamt þeim starfsmönnum bankans sem að málinu hafi komið, hafi af fullum heilindum unnið að því að framkvæma ákvörðun áhættunefndarinnar um lánveitingu til E ehf. og vernda þar með hagsmuni bankans í hvívetna undir töluverðri tímapressu.

Ákærði, Y, kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs A banka hf. í febrúar 2008. Á þeim tíma hafi ákærði átt sæti í áhættunefnd bankans. Ákærði kvaðst ekki hafa ritað undir lán til B ehf. 8. febrúar 2008, fyrir hönd A banka hf., svo sem honum væri gefið að sök í ákæru eða á nokkurn hátta hafa brotið lánareglur A banka hf. umrætt sinn. Aðdragandi málsins væri sá að í lok janúar 2008 hafi forráðamenn B ehf. komið í A banka hf. og greint frá því að D hafi gjaldfellt lán á C ehf. Lánið hafi þá staðið í  rúmlega 100 milljónum evra. D hafi lánað C ehf., en það félag hafi ekki verið í samstæðu B ehf. Félagið H AB, hafi hins vegar verið í samstæðu B ehf. B ehf. hafi borið ábyrgð á láni til C ehf. og ef það lán hafi lent í vanskilum hefðu öll lán A banka hf., D, Ú og Ø lent í vanskilum. B ehf. samstæðan hafi verið fjármálasamsteypa og sem slík verið undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins hér á landi og sambærilegra stofnana m.a. í Svíþjóð og í Lúxemborg. Vanskil hefðu haft þau áhrif að fjármálaeftirlit þessara landa hefðu efast um hæfi B ehf. og jafnvel kallað til baka starfsleyfi þeirra. Vanskil B ehf. hefðu haft verulegar afleiðingar í för með sér fyrir eignir félagsins og möguleiki á því að eignir félagsins myndu lækka verulega í verði við þvingaða sölu og þannig haft áhrif á útlán og veð A banka hf. B ehf. og um 30 tengd félög hafi skuldað A banka hf. um 32 milljarða króna á þessum tíma. Lánin hafi hækkað meðal annars vegna gengissigs, en mörg þeirra verið í erlendri mynt. Starfsmenn A banka hf. hafi því staðið frammi fyrir erfiðri ákvörðun um hvort lána ætti á þessum tíma til E ehf. eða hvort hafna ætti lánveitingu. Slíkt hafi getað haft verulegar afleiðingar í för með sér fyrir A banka hf. Þegar fulltrúar B ehf. hafi óskað eftir fyrirgreiðslu fyrir C ehf., hafi þeir lagt fram hugmynd að lausn málsins. Hugmyndin hafi falist í því að G hf., sem hafi verið hluthafi í C ehf., legði fram eignir til tryggingar á láni frá A banka hf. Hugmyndin hafi gengið út á að selja eignirnar sem fyrst og nota andvirði þeirra til endurgreiðslu láns A banka hf. til C ehf. og/eða annars félags sem tæki lánið. Veðstaðan hafi verið mjög góð, en eignir fyrir 132,5 milljarða evra hafi verið settar að veði fyrir láni að fjárhæð 103 milljónir evra. Tölvupóstar í gögnum málsins frá 31. janúar og 3. febrúar 2008 hafi verið sendir er málið hafi farið af stað. Fulltrúar D hafi haft miklar áhyggjur af stöðu málsins og ákærði meðal annars frétt það í gegnum Å framkvæmdastjóra hjá D. Fram hafi komið í máli Å að D myndi gjaldfella lán á C ehf. ef lánið yrði ekki greitt föstudaginn 8. febrúar 2008. Á þessum tíma hafi A banki hf. lánað B ehf. samstæðunni í heildina ríflega 32 milljarða króna. Lausafjárstaða A banka hf. í erlendum gjaldeyri hafi ekki verið þröng í febrúar 2008. Hafi það haft áhrif á lánastefnu bankans, sem hafi miðast við að nýta alla fjármuni sem best. Lán til E ehf. hafi ekki verið ákjósanleg staða fyrir A banka hf., en miðað við þá hagsmuni sem hafi verið í húfi hafi verið ákveðið að lána félaginu.

Málið hafi verið unnið með hefðbundnum hætti hjá A banka hf. og lagt fyrir áhættunefnd bankans 5. febrúar 2008. Ákærði hafi setið þann fund. Málið hafi ekki verið afgreitt á þeim fundi og afgreiðslu þess frestað til 6. febrúar 2008, þar sem afgreiðsla þess hafi verið samþykkt. Ákærði hafi einnig setið þann fund. Samþykktin hafi verið samt háð því skilyrði að fjármálastjóri bankans mæti það hvort bankinn ætti nægjanlegt handbært fé til að lána félagi. Hafi ákærði haft vitneskju um að til að tryggja lánveitinguna hafi átt að renna inn í E ehf. skýjakljúfur í byggingu í[...] í [...] og [...] sjóður. Þær eignir hafi átt að koma frá G hf. Unnt hafi verið að beina lánveitingunni beint til C ehf. en ákveðið hafi verið af hálfu bankans að gera kröfu um að ,,hreint“ félag tæki lánið. Með því hafi ætlunin verið að auka tryggingu bankans þar sem engar aðrar skuldbindingar væru í félaginu. Ákærði kvaðst mest hafa verið í sambandi við T framkvæmdastjóra B ehf. vegna málsins af hálfu E ehf. Unnið hafi verið að skjalagerð tengt lánveitingunni og skjöl gengið á milli aðila nokkra daga fyrir 8. febrúar 2008. Á umræddum degi hafi ákærði verið á fundi með viðskiptavini bankans kl. 9.00. Í framhaldi hafi ákærði farið á lánanefndarfund fyrirtækjalánanefndar kl. 10.00 og hitt einn starfsmann bankans í hádeginu. Að loknum fundi, eða upp úr kl. 13.00 hafi ákærði farið í fundarherbergið á 5. hæð í A banka hf. Þar hafi hann hitt fyrirsvarsmenn B ehf., þá T framkvæmdastjóra, Ä fjármálastjóra og AA aðstoðarforstjóra og starfsmenn bankans, BB lögfræðing á lögfræðisviði, M lánastjóra á fyrirtækjasviði og L viðskiptastjóra á fyrirtækjasviði. Fulltrúar A banka hf. hafi samið við fyrirsvarsmenn B ehf. um þóknun fyrir lán til E ehf., sem ætlunin hafi verið að ganga frá þennan dag. Fyrirsvarsmenn B ehf. hafi verið mjög óánægður með kjörin, en álag á vexti hafi verið mun hærra en almennt hafi verið á þeim tíma og þóknun bankans mjög há, eða 1,5 milljónir evra. Þá hafi öll ákvæði lánasamningsins verið mjög ströng gagnvart E ehf. Upp úr kl. 14.00 hafi allir samningar legið fyrir og myndi ákærði eftir að hafa kallað á meðákærða og beðið hann um að koma inn í fundarherbergið. Meðákærði hafi komið og lánasamningurinn, veðskjalið og útborgunarbeiðnin verið undirrituð. Kvaðst ákærði staðfesta undirritun sína á lánasamning á milli A banka hf. og E ehf. frá 8. febrúar 2008, sem og á ádráttarbeiðni er fylgdi lánasamningi. Á þessum sama tíma hafi T ritað undir lánasamninginn, veðskjalið og yfirlýsingar fyrir hönd E ehf. Hafi átt eftir að undirrita veðskjal fyrir hlutabréfum í E ehf., sem svarað hafi til um 12% hlutafjár í félaginu, en fulltrúar A banka hf. hafi haft vitneskju um að AA aðstoðarforstjóri hafi verið í sambandi við hluthafa og hann staðfest að skrifað yrði undir skjal þetta af umboðsmanni þeirra. Allir samningar um hið svonefnda [...]lán hafi þá legið fyrir undirritaðir og því verið heimilt að greiða út lánsfjárhæðina. Ákærðu og fulltrúar B ehf. hafi rætt saman í um 10 til 15 mínútur en þá hafi meðákærði horfið af fundinum. Ákærði hafi verið áfram í fundarherberginu í um 10 mínútur til viðbótar en í framhaldi yfirgefið fundinn. Klukkan 15.00 hafi ákærði verið mættur á fund með viðskiptavini úti í bæ. 

Að kvöldi þessa dags hafi ákærði verið að svara tölvupóstum og lesa lánamál. Hafi hann meðal annars svarað tveim tölvupóstum. Hafi annar verið frá BB lögfræðingi, en pósturinn hafi verið sendur fyrr um daginn. Hafi BB greint frá því að búið væri að skrifa undir það sem þyrfti að skrifa undir. Hafi ákærði svarað þessum pósti á þá leið að starfsmenn bankans þyrftu að tryggja að samningar er tengdust lánasamningnum kæmu í hús undirritaðir af öllum viðkomandi. Hafi ákærði augljóslega verið að vísa til veðsamnings vegna hlutabréfa í E ehf. Þá hafi ákærði svarað tölvupósti frá S fjármálastjóra bankans. S hafi verið að leita upplýsinga um hvort hægt væri að viðhafa tiltekin viðskipti við Q hf., eitt dótturfélaga B ehf., og auka þannig útlán A banka hf. til samstæðunnar. Hafi ákærði svarað þessum pósti á þann veg að ákærði hafi rætt við T framkvæmdastjóra B ehf. og CC, aðstoðarforstjóra Q hf. Fram hafi komið að þeir hefðu áhuga á að búa til gagnkvæm viðskipti. Hafi ákærði beðið L viðskiptastjóra að kanna hvort bankinn hefði svigrúm til að lána B samstæðunni meira fé og hvort ekki þyrfti að leggja slíka beiðni fyrir áhættunefnd bankans. Það næsta er ákærði hafi fregnað af lánveitingunni til E ehf. hafi verið er ákærði hafi verið kallaður fyrir sem vitni hjá lögreglu vegna málefna G hf. Það hafi verið í mars og maí 2010. Gögn málsins beri augljóslega með sér að einhver þau vandkvæði hafi komið upp við útborgun lánsins til E ehf. að reikningar B ehf. hafi verið notaðir til útborgunar á láni til E ehf. Ákærði kvaðst telja í dag að A banka hf. hafi verið heimilt að lána B ehf. lán að fjárhæð 102.162.470,12 evrur þannig að ekki færi gegn almennum reglum A banka hf. um lánveitingar og markaðsáhættu. Eftir að tekið hafi verið tillit til allra frádráttarliða hafi heildarlánveiting til félagasamstæðu B ehf. verið innan við 17% af eigin fé A banka hf. í febrúar 2008. Um sé að ræða eftiráskoðun af hálfu ákærða. Ákærði kvaðst ekki kunna skýringu á því að á ádráttarbeiðni er fylgt hafi lánasamningi við E ehf. hafi verið búið að setja B ehf. sem lántaka og færa inn að um skyldi vera að ræða peningamarkaðslán. Kvaðst ákærði telja að eitthvað hlyti að hafa komið upp á í bankanum eftir að ákærði hafi verið farinn og starfmenn bankans tekið þetta upp hjá sér og útbúið lán á B ehf. Ein skýring geti verið að E ehf. hafi ekki verið skráð félag í kerfum bankans og því ekki unnt að greiða lánið út á félagið fyrir kl. 15.00 þennan dag, sem hafi verið sá tími sem miðað hafi verið við að lánið þyrfti að vera búið að greiða fyrir. Peningamarkaðslánin hafi verið veitt á verðbréfasviði bankans, en ekki á fyrirtækjasviði. Ákærði kvaðst þeirrar skoðunar að L viðskiptastjóri eða Ó forstöðumaður hafi ekki haft heimild til að veita B ehf. peningamarkaðslán að fjárhæð 102.162.470,12 evrur. Ákærði kvað töflu í lánamálinu þar sem fram kæmu samstæðumörk B ehf. samstæðunnar hafa verið unna á fyrirtækjasviði A banka hf. Þegar slík yfirlit væru gerð fyrir Fjármálaeftirlitið kæmu þau ekki af því sviði bankans heldur einhverju öðru, sem ákærði vissi ekki hvert hafi verið.

DD kvaðst hafa verið starfsmaður á fyrirtækjasviði A banka hf. í febrúar 2008. Ákærði, Y, hafi verið næsti yfirmaður hennar. Hafi hún setið í áhættunefnd A banka hf. í febrúar 2008. Hlutverk áhættunefndar hafi verið að taka afstöðu til lánveitinga. Bankinn hafi látið búa til svokölluð áhættumatslíkön sem reikni vanefndalíkur á viðskiptavin samkvæmt forskrift. Það hafi síðan verið lagt fyrir áhættunefnd til staðfestingar, eða lánanefnd eftir atvikum. Kvaðst DD hafa, sem meðlimur í áhættunefnd, tekið afstöðu til lánveitingar til E ehf. þar sem viðmið fyrir lánveitingu hafi verið ákveðin. Hún hafi hins vegar ekkert komið að aðdraganda þess að lánveiting þessi hafi verið tekin fyrir í nefndinni. Hafi hún fengið málið í hendur sem nefndarmaður og tekið afstöðu til þess í framhaldi. Þekkti hún ekki til þess af hvaða ástæðum B ehf. hafi verið veitt lán 8. febrúar 2008 að fjárhæð 102.162.470,12 evrur. Lánveiting af þeirri gerð hafi væntanlega þurft að fara fyrir áhættunefnd eða stjórn bankans.

M kvaðst hafa verið lánastjóri á fyrirtækjasviði A banka hf. í febrúar 2008. Hafi hún lagt svokallað lánamál E ehf. fyrir áhættunefnd A banka hf. í febrúar 2008. Hafi hún að auki gengið frá þeim samningum er málinu hafi fylgt. Ákærði, Y, hafi verið næsti yfirmaður M. Tilgangur með hinu svonefnda lánamáli hafi verið að lána E ehf. lán og allur undirbúningur málsins miðast við það. Með því láni hafi átt að greiða upp lán C ehf. hjá D, sem hafi verið komið á gjalddaga. D hafi haft að veði í því láni hlutabréf í A banka hf. Að hinu svonefnda lánamáli hafi auk M af hálfu bankans unnið L viðskiptastjóri og BB lögfræðingur. Af hálfu bankans hafi verið lögð áhersla á að lánið yrði ,,cash neutral“, þ.e. að svokallað nettó útflæði fjármuna fylgdi lánveitingunni. Undirbúningur að lánamálinu hafi byrjað nokkrum dögum áður en veita hafi átt lánið. Ekki þekkti M hvaðan frumkvæði að málinu hafi komið. Starfsmenn bankans hafi átt fundi með fyrirsvarsmönnum B ehf. vegna málsins. Ekki hefði M yfirsýn yfir hver staða B ehf. gagnvart bankanum hafi verið á þessum tíma. Í minnisblaði er unnið hafi verið fyrir bankann vegna lánsins hafi verið lögð áhersla á að það félag sem skráð yrði fyrir láninu stæði fyrir utan B ehf. samstæðuna. Það hafi verið skilyrði af hálfu bankans. M kvaðst minnast þess að hafa setið fundi áhættunefndar dagana 5. og 6. febrúar 2008. Hún myndi þó ekki eftir umræðu á fundunum. Þó myndi hún eftir umræðu um það að innlán hafi átt að koma á móti þessu láni. Hafi það að einhverju leyti gengið eftir. M kvaðst ekki vita til þess að stjórn A banka hf. hafi komið að því að B ehf. hafi síðan verið veitt peningamarkaðslán 8. febrúar 2008 að fjárhæð 102.162.470,12 evrur. M kvaðst lítið muna eftir atburðum dagsins 8. febrúar 2008. Myndi hún þó eftir því að fundur hafi verið haldinn í bankanum þennan dag þar sem fyrirsvarsmenn B ehf. hafi komið til fundarins. Að því er varðaði undirritun lánssamnings milli A banka hf. og E ehf. gæti M einungis metið það svo að líklegt væri að þeir er ritað hafi undir lánssamninginn og skjöl með honum hafi gert það þennan dag. Ekki gæti hún staðfest að hafa sjálf verið viðstödd undirritunina. Að því er varðaði svonefnda ádráttarbeiðni kvaðst M ekki muna eftir undirritun þess en kvaðst telja að L viðskiptastjóri hafi fært inn á skjalið ofanvert handritaðar upplýsingar varðandi það atriði að B ehf. væri skuldari og að lánið væri peningamarkaðslán. Það mæti hún út frá því að hún þekkti skrift L. Ádráttarbeiðni fylgdi lánum á fyrirtækjasviði. Það form væri ekki notað þegar peningamarkaðslán væru veitt. M kvaðst ekki muna eftir því í dag hver hafi tekið ákvörðun um að senda greiðslu samkvæmt láninu af stað þennan dag. Kvaðst hún ekki vita af hverju B ehf. hafi verið lánað svonefnt peningamarkaðslán þennan dag en ekki E ehf. eins og samkvæmt þeim lánasamningi er hafi verið í undirbúningi. Þá kvaðst hún ekki muna hver hafi tekið ákvörðun um að haga þessu með þessum hætti. Kvaðst hún telja að áhættunefnd bankans hafi getað tekið ákvörðun um að lána B ehf. það peningamarkaðslán er veitt hafi verið þennan dag. Á þessum tíma hafi mikið verið unnið í bankanum og M haft mörg mál á sinni könnu. Myndi hún því ekki eftir málinu sem slíku en hún hafi oft tekið saman í starfi sínu lista yfir atriði er þyrfti að huga að, svonefnda minnislista. Væri einn slíkur í tölvupósti sem hún hafi sent 10. febrúar 2008 kl. 22.41 og væri ekki annað að sjá en að hann tengdist málinu.

L kvaðst hafa starfað sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði í A banka hf. í febrúar 2008.  Ákærði, Y, hafi verið næsti yfirmaður L í febrúar 2008. Í starfi L hafi falist að sinna tilteknum viðskiptavinum A banka hf. og hafi L verið viðskiptastjóri gagnvart B ehf. Kvaðst L muna eftir því að C ehf. hafi verið með lán hjá D sem þurft hafi að greiða upp ekki síðar en á föstudeginum 8. febrúar 2008. Uppnám hafi verið vegna þessa þar sem veð í því láni hafi verið hlutabréf í A banka hf. Hagsmunir A banka hf. af málinu hafi þannig tengst því. Tölvupóstar hafi gengið á milli þeirra sem komið hafi að málinu 31. janúar og 3. febrúar 2008. Margir fundir hafi verið haldnir vegna málsins, bæði í bankanum og í höfuðstöðvum B ehf. Hafi L setið einhverja þessara funda. Að málinu hafi komið af hálfu bankans L sjálfur, ákærði Y, M lánastjóri og af hálfu B ehf. T framkvæmdastjóri. Ekki myndi L eftir því hvort ákærði, X, hafi setið einhverja þessara funda. Á þessum tíma hafi A banki hf. búið við það að lítið hafi verið til af erlendum gjaldeyri í bankanum. Af þeirri ástæðu hafi lánveitingar verið miðaðar við það að viðskiptavinir kæmu með innlán á móti útlánum. L kvað hið svonefnda lánamál E ehf. hafa þróast yfir ákveðinn tíma. Ekki myndi L ástæðu þess að ákveðið hafi verið að veita lán til endurgreiðslu á láni D inn í óstofnað félag. Þá kvaðst L ekki þora að fullyrða hvort lána hafi mátt B ehf. samstæðunni meira fé á þessum tíma, eða í febrúar 2008. Hafi hann ekki þekkt vel lausafjárstöðu bankans á þessum tíma. L kvaðst hafa tekið þátt í fundum áhættunefndar bankans dagana 5. og 6. febrúar 2008. Ekki myndi hann þó í dag eftir einstökum atriðum tengt lánveitingunni.

Að því er varðaði atburði föstudagsins 8. febrúar 2008 kvaðst L muna óljóst eftir þeim degi. Kvaðst hann telja að af hálfu bankans hafi hann sjálfur, M lánastjóri, BB lögfræðingur, ákærði Y og ákærði X komið að málinu. L kvaðst ekki muna ástæðu þess að E ehf. hafi ekki fengið greitt út lán þennan dag, heldur að lán í formi peningamarkaðsláns hafi verið veitt B ehf. L kvaðst telja að starfsmenn bankans á fyrirtækjasviði hafi ekki getað tekið ákvörðun um að lána B ehf. peningamarkaðslán með þeim hætti er gert hafi verið. Til þess hafi þurft einstakling með svokallað A-umboð, eða að lán hafi verið afgreitt af áhættunefnd bankans. Að því er varði hina svonefndu ádráttarbeiðni kvaðst L kannast við rithönd sína á skjalinu. Hafi hann ritað efst á skjalið að skuldari væri B ehf. og að um væri að ræða peningamarkaðslán yfir nóttu. Þá hafi hann einnig handritað á skjalið á hægri hlið útborgun vegna E ehf. Einnig hafi hann ritað nýja fjárhæð lánsins ofan í þá sem fyrir var. Annað hafi hann ekki handritað á skjalið. L kvaðst ekki muna hvort hann hafi verið viðstaddur er ákærðu rituðu undir ádráttarbeiðnina. L kvaðst ekki hafa breytt umræddu skjali eftir undirritun ákærðu. Hafi hann ekki tekið upp hjá sjálfum sér að lána B ehf. peningamarkaðslánið. Til þess hafi hann ekki haft heimild eða stöðu. Telji hann líklegast að yfirmaður L og forstjóri bankans hafi tekið þá ákvörðun. Ádráttarbeiðnin væri ekki venjulegt skjal sem notað væri varðandi peningamarkaðslán. L kvaðst ekki muna eftir útgreiðslu lánsins þennan dag. Þá kvaðst L ekki muna eftir símtali er hann hafi átt við Ó forstöðumann gjaldeyrismiðlunar bankans kl. 14.50 þennan dag. Kvaðst L telja ólíklegt að einhver tæknileg atriði innan bankans hafi leitt til þess að lán hafi ekki verið greitt til E ehf. þennan dag. Skýring á því hljóti fremur að tengjast því að einhver skjöl hafi vantað.

BB kvaðst hafa starfað sem lögfræðingur á lögfræðisviði A banka hf. í febrúar 2008. Hafi hann unnið við lögfræðiráðgjöf fyrir bankann. Hafi EE lögfræðingur verið næsti yfirmaður BB í bankanum í febrúar 2008. BB kvaðst hafa unnið að undirbúningi lánveitingar til E ehf. í febrúar 2008 með þeim hætti að hann hafi unnið að skjalagerð í málinu. Hafi hann verið fulltrúi lögfræðideildar bankans í þeirri vinnu. Í vinnuhópi við undirbúning að láni til E ehf. hafi ásamt BB verið ákærðu, L viðskiptastjóri og M lánastjóri. Þau skjöl er BB hafi undirbúið hafi verið lánasamningur og veðsetningarskjöl. Þessi skjöl hafi verið búin til á grundvelli samþykktar áhættunefndar bankans og gerð 8. febrúar 2008. Ekki hafi BB verið í samskiptum við fyrirsvarsmenn B ehf. vegna undirbúnings málsins. BB hafi ekki þekkt skilyrði fyrir lánveitingunni önnur en fram komi í lánsskjölum, en áhættustýring bankans og áhættunefnd hafi unnið að málinu. Yfirlögfræðingur bankans hafi setið í áhættunefnd bankans en verið án atkvæðisréttar. Vinna lögfræðideildar bankans hafi tekið mið af því og ráðgjöf við skjalagerð. BB kvaðst telja að hann hafi setið stuttan fund í áhættunefnd. Hafi hann síðan fengið útprentaða niðurstöðu áhættunefndar sem unnið hafi verið eftir. Föstudaginn 8. febrúar 2008 hafi verið í fundarherbergi í A banka hf. að vinna að málinu, auk BB, þau M lánastjóri og L viðskiptastjóri aðallega, auk þess sem ákærði X hafi í tvígang komið inn. Af hálfu B ehf. hafi tekið þátt í fundinum T framkvæmdastjóri, AA aðstoðarforstjóri og Ä fjármálastjóri. Skjöl varðandi lánssamning hafi verið undirrituð seinni part þessa dags, en í fundarherberginu hafi aðilar verið frá um hádegi til seinni part dags. Hafi M prentað skjölin út fyrir undirritun. BB kvaðst fyrst hafa séð þá ádráttarbeiðni er málið snérist um við yfirheyrslu hjá Embætti sérstaks saksóknara. Hafi BB ekki þekkt þörf fyrir umrætt skjal eða hvort slík skjöl væru undirrituð af lánveitanda. BB kvaðst ekkert hafa komið að lánveitingu til B ehf. 8. febrúar 2008 og ekki vita hver hafi tekið ákvörðun um að veita það lán.

FF kvaðst hafa verið yfirmaður Evrópustarfsemi A banka hf. í febrúar 2008. Ákærði, X, hafi verið yfirmaður sinn í bankanum á þeim tíma. Kvaðst FF hafa setið í áhættunefnd A banka hf. í febrúar 2008. Hafi hann setið fund í nefndinni 5. febrúar 2008. Hafi nefndinni borist hið svokallaða lánamál E ehf. Hafi FF ekki þekkt forsögu þess. Þá myndi hann í dag ekki eftir því hvaða hagsmuni bankinn hafi haft af málinu. Áhættunefnd hafi lagt mat á einstök mál út frá því láni sem um ræddi og þeirri áhættu sem því láni fylgdi. Kvaðst FF ekki þekkja til þess er B ehf. hafi verið veitt peningamarkaðslán 8. febrúar 2008.

GG kvaðst hafa verið ráðinn hjá A banka hf. af framkvæmdastjóra sem hafi verið yfir áhættustýringu bankans, lánaeftirliti, fjármálum og lögfræðisviði. Hafi GG síðar orðið forstöðumaður á sviði áhættustýringar. Í febrúar 2008 hafi GG unnið að málefnum tengdum útlánaáhættu af hálfu bankans og meðal annars setið í áhættunefnd bankans sem fundarritari. GG kvað þá reglu hafa verið viðhafða í áhættunefnd að væru ákvarðanir teknar milli funda er tengdust áhættunefnd, þá væru þær ákvarðanir færðar í fundargerð næsta fundar á eftir. Ekki kvaðst GG kannast við að í fundargerð áhættunefndar hafi verið fært að A banki hf. hafi veitt B ehf. peningamarkaðslán 8. febrúar 2008. Kvaðst GG hafa ritað fundargerðir áhættunefndar vegna funda nefndanna dagana 5. og 6. febrúar 2008. Í gögnum nefndarinnar hafi komið fram að heildarútlán B ehf. samstæðunnar hafi numið ríflega 32 milljörðum króna og inni í því hafi verið ábyrgðir og ígildi. GG kvaðst þekkja almennar reglur A banka hf. um útlán og markaðsáhættur. Undir lið nr. 4 um heimildarmörk kæmi fram í töflu að mörk áhættunefnda skuli tvöfaldast fyrir skuldbindingar sem nemi 20% af vegnu eigin fé og þrefaldast fyrir skuldbindingar með 0% eiginfjárvægi. Með því að vísa í ,,CAD weight“ væri verið að vísa í reglur fjármálaeftirlitsins og almennar reglur um hvernig mismunandi mótaðilar vegi inn í eigin fjárreikninga bankans. Þannig vísi 20% ,,CAD weight“ í það að áhættuvog sléttist inn í áhættugrunn væri 20% skuldbindingarinnar Þetta afmarki þá tiltekna tegund lántaka og seinni hluti setningarinnar afmarki annan flokk lántaka. Þannig væri vísað til þess að heimildirnar væru ríkari fyrir þá sem falli undir þá flokka sem um væri getið. Þannig gætu sumar tegundir af útlánum, til dæmis skammtímalánveitingar til fjármálafyrirtækja, ekki fengið fullt vægi þegar kæmi að útreikningi á áhættu bankans vegna þeirra. Heimildir áhættunefndar væri því rýmri sem því næmi. Hið svonefnda lánamál hafi haft að geyma yfirlit um stöðu einstakra áhættuskuldbindinga A banka hf. á félög innan B ehf. samstæðunnar sem væru reiknuð. Þá hafi ekki verið tekið tillit til framangreindra reglna og hugsanlegra frádráttarliða. Taflan, fyrir utan ábyrgðir og svonefnd ígildi, lýsi höfuðstól lánastöðu, eða brúttóstöðu. Sem dæmi mætti nefna að á R hf. væri skráð 4.466 milljarðar í stöðu. Þær reglur er lýst hafi verið þýddu að R hf. gæti hafa fallið undir að vera fjármálafyrirtæki á þessum tíma og gæti þar með fallið undir 20%. Þannig hafi þurft að skoða ríkari heimildir nefndarinnar t.d. gagnvart R hf. Þau hafi getað verið tvöföld sem listuð væru eða deila mætti í brúttóstöðuna með tveimur. Af þessu leiddi að hugsanlega væri meira rými innan 17% marka B ehf. samstæðunnar heldur en miðað væri við. Þetta hafi þó ekki verið gert upp varðandi hvert einstakt mál fyrir áhættunefndinni. Eitt af viðfangsefnum GG í bankanum hafi verið samantekt á eiginfjárkröfunni. GG kvaðst einungis hafa þekkt lánveitingu til E ehf. út frá gögnum er lögð hafi verið fyrir áhættunefnd og út frá umræðu á fundum í nefndinni. Fyrir áhættunefnd hafi legið gögn sem starfsmenn hafi verið búnir að taka saman um hið svonefnda lánamál. Hafi hann ekki þekkt hver hafi átt frumkvæði að því að lána E ehf. það lán sem hafi verið til meðferðar. Hann hafi ekki þekkt neitt sérstaklega til þeirra hagsmuna er A banki hf. hafi haft af málinu, þó svo vitað hafi verið að lán til E ehf. hafi átt að nota til að greiða lán C ehf. hjá D en sá banki hafi átt veð í hlutabréfum í A banka hf. til tryggingar greiðslu lánsins. Í febrúar 2008 hafi staða A banka hf. verið þannig að útlán hafi verið dregin mikið saman. Hafi tilmæli þar að lútandi verið send út innan bankans. GG kvaðst ekki þekkja ástæðu þess að B ehf. hafi verið veitt peningamarkaðslán föstudaginn 8. febrúar 2008.

S, kvaðst hafa verið fjármálastjóri A banka hf. frá júní 2007 til maí 2008. Sem slíkur hafi hann borið ábyrgð á þremur einingum innan bankans, þ.e. uppgjöri bankans, fjármögnun og áhættustýringu. Ákærði, X, hafi verið næsti yfirmaður S. Hafi S átt sæti í áhættunefnd bankans og tekið þátt í afgreiðslu lánamálsins svonefnda 5. og 6. febrúar 2008. Ekki kvaðst S þekkja hvaðan frumkvæði að lánveitingu til E ehf. hafi komið. Ekki myndi hann í dag hverjir hafi komið að málinu af hálfu bankans á sínum tíma, en það hafi þó líklega verið L viðskiptastjóri og M lánastjóri. Í fundargerð áhættunefndar 6. febrúar 2008 hafi verið bókað að S myndi athuga hvort innlán hafi komið á móti þessari lánveitingu. S hafi ekki litist vel á að greiða út háa fjárhæð í lán á þessum erfiðu tímum og staða innlána óviss. Að því er varði lán C ehf. hjá D hafi uppgreiðsla á því láni verið skásti kosturinn í stöðunni. Málið hafi tengst B ehf. sem hafi verið stór viðskiptavinur og málið geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir A banka hf. Fundargerðir svonefndrar ALCO nefndar innan bankans hafi legið fyrir. Störf þeirrar nefndar hafi verið mikilvæg fyrir bankann og varðað fjármögnun bankans. Bankinn hafi þurft að hafa ákveðið hlutfall af lausu fé. Hafi S fylgst náið með því, en bankinn hafi jafnan þurft skammtímafjármögnun. Upplýsingar í fundargerðum ALCO nefndarinnar hafi lýst stöðu bankans varðandi laust fé. Hún hafi verið fremur veik. Sama hafi verið varðandi erlendan gjaldeyri. Hafi S sent yfirmönnum í bankanum tilmæli 24. janúar 2008 um að ráðast ekki í nýjar lánveitingar nema lántaki kæmi með innlán á móti. S kvaðst ekki þekkja til af hverju B ehf. hafi verið veitt peningamarkaðslán 8. febrúar 2008. Þá vissi hann ekki hver hafi tekið ákvörðun um það lán. Slíka ákvörðun hafi hann sjálfur ekki tekið. B kvaðst hafa verið varaformaður áhættunefndar bankans í febrúar 2008. Utan funda hafi tveir úr áhættunefnd, ákærði X eða S, orðið að samþykkja lánveitingu í formi peningamarkaðsláns til B ehf. S kvaðst muna eftir því að hafa um þetta leyti farið með ákærða X á nokkra fundi í tengslum við stöðu og fjármögnun íslensku bankanna. 

HH kvaðst hafa verið forstöðumaður í deild sem hafi verið kölluð millibankamarkaðir. Í því hafi falist að vera í samskiptum við starfsmenn erlendra banka og sinna markaðsviðskiptum á gjaldeyrismarkaði, peningamarkaði, auk þess að sjá um daglega lausafjárstýringu bankans. Næsti yfirmaður HH hafi verið S fjármálastjóri. Þróun á ytri mörkuðum hafi haft áhrif á rekstur banka á Íslandi, en almennt hafi þrengt að mörkuðum. Það hafi haft áhrif á laust fé bankanna, þó svo að langtímafjármögnun hafi gengið vel. Í starfi sínu hafi HH setið fundi svonefndrar ALCO nefndar bankans, sem hafi verið nokkurs konar efnahagsnefnd bankans. Skýrslur nefndarinnar frá 19. desember 2007 og 21. janúar 2008 hafi lýst markaðsaðstæðum og erfiðri stöðu. Skuldatryggingarálag hafi farið hækkandi og lítið gengið í skuldabréfaútgáfu á vegum bankans. Halda hafi átt þétt um lausafé bankans og nýjar lánveitingar því ekki verið ákjósanlegar. HH myndi ekki sérstaklega eftir lánveitingu til E ehf. 8. febrúar 2008, en sama hafi örugglega gilt um hana og útlán almennt. HH staðfesti að hafa átt símtal við S fjármalastjóra 8. febrúar 2008. Hafi HH lýst þeirri skoðun sinni að erfitt væri að lána fé úr bankanum nema fjármagn kæmi á móti. Nettóútflæði hafi átt að vera sem minnst. Svo sem gögn málsins bæru með sér hafi HH sennilega farið upp á 5. hæð föstudaginn 8. febrúar 2008 vegna svonefnds lánamáls. Ekki myndi HH sérstaklega eftir því í dag. Ekki myndi HH hverjir hafi verið þar á fundi. Þá hafi hann ekki þekkt ástæður þess að illa hafi gengið að greiða upp lán C ehf. hjá D. Þá þekkti HH ekki ástæðu þess að B ehf. hafi verið veitt peningamarkaðslán 8. febrúar 2008. Ekki hafi hann tekið þá ákvörðun. HH kvaðst almennt ekki hafa þurft að samþykkja greiðslu á peningamarkaðslánum. Því hafi þó jafnan verið þannig farið að bankinn hafi verið með lítið laust fé í lok dags, þar sem því hafi jafnan verið komið í umferð til ávöxtunar. Því hafi sennilega verið leitað til hans seinni part föstudagsins 8. febrúar 2008 til að athuga hvort nægjanlegt erlent fé væri til staðar í bankanum. Þannig hafi hann tengst málinu. Að öðru leyti hafi hann ekki komið að lánveitingunni eða útgreiðslu lánsins. Greiðslur á millibankamarkaði gengju almennt mjög hratt fyrir sig. Þekkti HH ekki hve lengi slík greiðsla væri afturkræf. 

Ó kvaðst hafa starfað sem forstöðumaður gjaldeyrismiðlunar A banka hf. í febrúar 2008. Í því starfi hafi falist að kaupa og selja gjaldeyri og afleiður og sjá um peningamarkaðslán. Ó kvaðst ekki hafa komið að undirbúningi lánveitingar til E ehf. Hann hafi hins vegar séð um útgreiðslu peningamarkaðslánsins til B ehf. á föstudeginum 8. febrúar 2008. Hafi Ó greitt út peningamarkaðslán til B ehf. eftir að hafa verið í samskiptum við L viðskiptastjóra A banka hf. Hafi Ó verið miðlari á þessum tíma og setið fyrir framan tölvu sem afgreitt hafi peningamarkaðslánið. Stærri lánveitingar hafi farið fyrir áhættunefnd bankans eða starfsmenn bankans með A-prókúru þurft að samþykkja lán. Þá hafi þurft samþykki fjárstýringar til að eitthvað væri til í sjóði til að senda út. Til að geta greitt peningamarkaðslánið út hafi HH þurft að koma fyrir greiðslumörkum í kerfunum og þurft samþykki þeirra sem hefðu prókúru til að samþykkja slíkt lán og staðfestingu frá fjárstýringu á því að unnt væri að greiða lánið út með skömmum fyrirvara. Ó kvaðst geta staðfest að hafa sent tölvupóst 8. febrúar 2008 kl. 15.05 ásamt viðhengi til bakvinnslu með greiðslufyrirmælum um hvert ætti að greiða umrætt lán. Á skjalinu hafi verið undirritanir ákærðu og T framkvæmdastjóra B ehf. Hafi Ó tekið skjalið sem staðfestingu á því að lánið mætti greiða út. Ekki væri um að ræða hefðbundið form fyrir peningamarkaðslán, þar sem í slíkum tilvikum hafi yfirleitt verið stuðst við tölvupósta eða símtöl. Greiðslumörk á B ehf. hafi sennilega ekki verið fyrir hendi í kerfinu og því þurft sérstaka heimild til útgreiðslu. Hafi Ó einfaldlega litið á ádráttarbeiðnina sem greiðslufyrirmæli og staðfestingu á greiðslumörkum. Ekki viti Ó hver hafi tekið ákvörðun um kjör og skilmála lánsins. Hafi hann sent skjalið í bakvinnslu og sennilega hringt í JJ í bakvinnslu vegna útgreiðslunnar. Eftir útgreiðslu lánsins hafi ekki verið unnt að afturkalla greiðsluna nema með samþykki viðtakanda hennar.     

JJ kvaðst hafa starfað í bakvinnslu A banka hf. í febrúar 2008. Hafi hún starfað við uppgjör peningamarkaðslána. Miðlari í bankanum, Ó, hafi haft samband um kl. 15.00 föstudaginn 8. febrúar 2008. Hafi það verið það fyrsta er hún hafi heyrt af málinu. Hafi Ó verið að grennslast fyrir um hvenær væri hægt í síðasta lagi að senda greiðslu út. Hún hafi fljótlega eftir það fengið greiðslufyrirmæli frá Ó og sent greiðslu út úr bankanum í samræmi við það. Þennan dag hafi JJ greitt háa fjárhæð inn á reikning Í, sem hafi verið greiðslubanki A banka hf. í evrum. Hafi hún fengið staðfestingu að utan um að greiðslan hafi borist og sent þá staðfestingu til Ó. 

KK kvaðst hafa verið fjármálastjóri fyrir I AB í febrúar 2008. Hafi B ehf. verið óbeinn eigandi að K og I AB og hafi hluti af stjórn félaganna komið frá Íslandi. Gerði KK grein fyrir innihaldi tölvupóstsamskipta á milli KK og Ä fjármálastjóra B ehf. í febrúar 2008.

Å kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri hjá D í febrúar 2008. Kvaðst Å hafa verið tengiliður bankans við viðskiptavini á Íslandi á þessum tíma. Hafi hann því þekkt til láns sem C ehf. hafi verið með hjá D. Í febrúar 2008 hafi fyrirsvarsmenn D haft áhyggjur af ýmsum lánveitingum bankans. Hafi það ekki verið bundið við Ísland. Hafi bankinn því unnið að því að loka lánum víða um heim. Staðan á Íslandi almennt hafi þó valdið bankanum áhyggjum. Bankinn hafi ekki haft neitt sérstakt fyrir sér í þessum efnum, en ýmsar upplýsingar er bankinn hafi haft undir höndum þótt benda til að illa gæti farið. Bankinn hafi verið með hlutabréf í A banka hf. sem tryggingu fyrir lánveitingunni til C ehf. Hafi sú trygging mestu máli skipt fyrir bankann og því ekki komið til þess að leggja sérstakt mat á hvort félög tengd B ehf. væru slæmir lántakendur eða ekki. Staðan hafi verið þannig að bankinn hafi gefið C ehf. frest til föstudagsins 8. febrúar 2008 til að greiða upp lán sitt. Að öðrum kosti hefði lánið verið gjaldfellt og hafist handa við að losa um trygginguna með sölu hlutabréfanna í A banka hf. Kvaðst Å viss um að bankinn hefði ekki umliðið neinn frest í þessu efni, hefði greiðsla ekki skilað sér inn á föstudeginum 8. febrúar. Kvaðst Å hafa verið í sambandi við ýmsa aðila á Íslandi vegna lánveitingarinnar og ákærðu þar á meðal án efa. Hafi hann eflaust tjáð ákærðu að bréfin í A banka hf. yrðu seld. Kvaðst Å muna eftir að hafa fengið staðfestingu þess efnis á föstudeginum að lán C ehf. hafi verið greitt upp. Mörg viðskiptasambönd hafi farið illa á þessum tíma. Kvaðst Å muna eftir að hafa tjáð samstarfsmönnum sínum að þessar málalyktir myndu örugglega leiða til þess að frekari samskipti yrðu ekki við A banka hf. Hafi D þótt þetta allt erfitt þar sem bankar hefðu það að markmiði að greiða fyrir viðskiptavinum sínum.

LL kvaðst hafa verið formaður stjórnar B ehf. í febrúar 2008. Hafi hann átt ráðandi hlut í félaginu eða um 60%. Hafi LL þekkt til þess að D áformaði að gjaldfella lán C ehf. hjá bankanum í febrúar 2008. Hafi málið meðal annars verið rætt á stjórnarfundi hjá B ehf. og stjórninni verið falið að leysa málið. Málið hafi verið talið tilheyra samstæðu B ehf. og því verið talið rétt að eigendur B ehf. gæfu forstjóra og aðstoðarforstjóra umboð til að semja við A banka hf. um endurfjármögnun á lánum C ehf. hjá D. Ekki kvaðst LL muna hvort ætlunin hafi verið að hið nýja félag, E ehf. hafi átt að endurspegla eigendahóp C ehf. 

MM kvaðst hafa verið eigandi að 40% hlut í B ehf. í febrúar 2008. Hafi MM séð um hinn svonefnda ,,lyfjahluta“ B ehf. MM kvaðst ekki hafa þekkt til þess að D hafi gjaldfellt lán til C ehf. Hafi MM, sem minnihlutaeiganda, verið haldið utan við ákvarðanatöku í B ehf. á þessum tíma og hann lítið verið upplýstur um starfsemina.

T kvaðst hafa starfað sem framkvæmdastjóri B ehf. í febrúar 2008. Kvaðst T hafa á samstæðugrundvelli fylgst með uppgreiðslu á láni C ehf. hjá D. Lánið hafi veri gjaldfellt þar sem verð hluta í A banka hf. hafi fallið niður fyrir viðmiðunarmörk. Innan B ehf. samstæðunnar hafi verið ræddar ýmsar hugmyndir að endurfjármögnun þessa láns. Aðdragandi hafi hins vegar ekki verið langur og því ekki gefist mikill tími til aðgerða. Af þeim sökum hafi ekki haft þýðingu að leita til alþjóðlegra bankastofnana þar sem það hafi kallað á mikinn undirbúning í því að kynna stöðu samstæðunnar. Hafi raunhæfasti kosturinn verið að leita til viðskiptabanka B ehf. samstæðunnar á Íslandi, sem hafi verið A banki hf. Mjög margir starfsmenn B ehf. hafi komið að málinu. Þannig hafi stjórnarformaður, forstjóri, aðstoðarforstjóri og fjármálastjóri unnið að málinu, ásamt öðrum. A banki hf. hafi ekki verið beittur neinum sérstökum þrýstingi í málinu. Málið hafi verið samstarf á milli samstæðunnar og A banka hf. og lotið að því að varna því að hlutabréf í A banka hf. yrðu hugsanlega seld, þar sem þau hafi verið trygging D vegna lánsins. Af hálfu A banka hf. hafi nokkrir aðilar komið að málinu. Það hafi þó aðallega verið L viðskiptastjóri og ákærðu. T kvaðst muna eftir því að á þessum tíma hafi verið til umræðu að innlán frá sænskum banka samstæðunnar myndu renna inn í A banka hf. Ekki hafi það þó verið skilyrði fyrir lánveitingu til E ehf. að innlánin myndu ganga upp í á móti, þar sem um eðlisóskyld atriði hafi verið að ræða. Fremur hafi verið rætt um að beina innlánum til A banka hf. Þau hafi síðan komið í einhverjum pörtum. Örugglega hafi eitthvað verið rætt um bindiskyldu í sambandi við þessi innlán. Það hafi þó ekki verið gert í tengslum við lánveitinguna til E ehf. Ekki kvaðst T muna hvort eitthvað af innlánunum hafi verið komin inn í A banka hf. 8. febrúar 2008. Að því er varðaði lánveitinguna hafi fyrsti kostur í stöðunni verið að A banki hf. myndi lána C ehf. fyrir láninu hjá D. Margir fundir hafi verið haldnir vegna málsins og ýmsar leiðir ræddar. Af hálfu A banka hf. hafi ákveðnar kröfur verið gerðar varðandi tryggingar, aðrar en hlutabréf í A banka hf. Þá hafi komið upp hugmyndir um að setja eignir í sérstakt félag og einangra þannig lánaáhættuna. Þær eignir sem þá hafi verið til umræðu hafi verið turn í [...] í [...] og [...] sjóðurinn í [...]. Niðurstaða af fundahöldum hafi verið að gera þetta með þeim hætti að stofna E ehf. og setja inn í félagið þessar eignir sem tryggingu. Á þessum forsendum hafi verið unnið að málinu dagana fyrir 8. febrúar 2008. Greiða hafi þurft lánið til D fyrir kl. 15.00 föstudaginn 8. febrúar. Hafi T ásamt AA aðstoðarforstjóra og Ä fjármálastjóra B ehf. komið í B banka hf. þennan dag kl. 13.00 í þeim erindagjörðum að undirrita lánsskjöl vegna málsins. Hafi þeir setið í fundarherbergi á fimmtu hæð þar sem gengið hafi verið frá pappírum vegna lántöku E ehf. Starfsmenn bankans hafi komið og farið úr fundarherberginu eftir hádegið. Í fundarherberginu hafi fyrirsvarsmenn B ehf. verið til kl. 15.15 til 15.30 þennan dag, er þeir hafi yfirgefið bankann. Lánsskjöl þau sem hafi verið undirrituð hafi öll verið undirrituð í bankanum. Sennilega hafi allir þeir er hafi undirritað skjölin ritað undir þau á sama tíma. Hafi T því sennilega ritað undir skjölin á sama tíma og ákærðu. Á þessum tíma hafi auk ákærðu verið í fundarherberginu L viðskiptastjóri, M lánastjóri og BB lögfræðingur. Er T hafi yfirgefið bankann hafi verið búið að ganga frá málinu. T kvaðst ekki muna sérstaklega eftir einhverri atburðarás sem hafi verið í gangi um kl. 15.00 í  bankanum. T staðfesti að hafa ritað undir svonefnda ádráttarbeiðni vegna málsins. Hafi hann talið það skjal vera leiðbeinandi skjal fyrir bankann um hvert lánsfjárhæðina skyldi greiða. T kvaðst ekki þekkja ástæðu þess að A banki hf. hafi veitt B ehf. peningamarkaðslán þennan dag. Sé helst að telja að einhver vandkvæði hafi komið upp sem hafi gert það að verkum að nauðsynlegt hafi þótt að beina láninu í þennan farveg. Allir þeir er staddir hafi verið í fundarherberginu þennan dag hafi verið með nægjanleg umboð til að mál færi á þennan veg. Ekki hafi verið litið svo á að hverfa ætti frá þeim ráðagerðum að veita E ehf. lán. Þó svo að T myndi atvik ekki væri ekki ósennilegt að einhver vandkvæði hafi komið upp varðandi greiðslu lánsins til E ehf. og starfsmenn A banka hf. hafi komið og sagt að lánið þyrfti að setja á B ehf. þar til úr vandkvæðunum hefði verið bætt. Kvaðst T staðfesta að undirritun hans væri á ádráttarbeiðninni fyrir hönd lántaka. Þá hafi T einnig ritað undir hægri hlið skjalsins vegna innborgunar til E ehf. T kvaðst ekki telja að hann hafi óskað eftir peningamarkaðsláni til B ehf. þennan dag. E ehf. hafi verið félag tengt B ehf. samstæðunni. Hafi O ehf. og N ehf. átt sennilega um 88% í félaginu. Eignir sem G hf. hafi átt hafi verið færðar yfir í E ehf. sem tryggingu gagnvart lánveitingunni. G hf. hafi síðan verið dótturfélag B ehf. Það hafi verið búið að færa eignirnar fyrir föstudaginn 8. febrúar 2008. Einungis hafi átt eftir að ganga frá einhverjum pappírum það varðandi. Hafi B ehf. veitt E ehf. svokallaða móðurfélagslega blessun. 

AA kvaðst hafa verið aðstoðarforstjóri B ehf. í febrúar 2008 og yfirmaður lögfræðiskrifstofu B ehf. samstæðunnar. AA kvaðst hafa þekkt til láns C ehf. hjá D sem hafi verið komið á gjalddaga. Það félag hafi verið í eigu G hf. í febrúar 2008. D hafi átt veð í hlutabréfum í A banka hf. sem tryggingu fyrir lánveitingunni til C ehf. Hafi bankinn tilkynnt um gjaldfellingu lánsins. Unnið hafi verið að undirbúningi þess að E ehf. myndi taka lán hjá A banka hf. til að greiða lánið hjá D. Til tryggingar hafi G hf. átt að setja tvær eignir inn í félagið. Fyrirsvarsmenn B ehf. hafi komið í bankann föstudaginn 8. febrúar 2008 til að undirrita lánsskjöl sem búið hafi verið að vinna að. Þá hafi verið gengið frá málinu og skjöl undirrituð. Kvaðst AA muna eftir því að þá hafi verið útistandandi tiltekið umboð sem hafi þurft. E ehf. hafi að 75-80% verið í eigu G hf. en afgangurinn í eigu félaga tengdum NN. AA kvaðst ekki þekkja ástæðu þess að B ehf. hafi verið veitt peningamarkaðslán föstudaginn 8. febrúar 2008. Þó minnti hann að sennilega hafi lánið verið fært yfir á B ehf. á föstudeginum til að tryggja að umboð þau er átt hafi eftir að koma í hús tengt E ehf. myndu skila sér. Um hafi verið að ræða umboð er Z hafi verið með fyrir hönd NN, en setja hafi átt hlutabréf í E ehf. að veði fyrir láninu til A banka hf.

Ä kvaðst hafa verið fjármálastjóri B ehf. í febrúar 2008. Ä kvað forstjóra B ehf. hafa komið að máli við sig og beðið sig um að koma að endurfjármögnun á láni C ehf. hjá D. Vinna við það verkefni hafi byrjað í lok janúar 2008. Á þessum tíma hafi A banki hf. verið viðskiptabanki B ehf. Ä kvaðst ekki hafa verið í sambandi við ákærðu vegna málsins heldur tilgreinda starfsmenn A banka hf. Tekin hafi verið ákvörðun um að stofna nýtt félag sem myndi taka lán hjá A banka hf. Hafi það verið gert til að hafa skuldlaust eða ,,hreint“ félag. Til tryggingar láninu hafi átt að koma eignir inn í E ehf. sem hafi komið frá G hf. Hafi E ehf. átt að greiða fyrir þær eignir með víkjandi lánum frá seljanda. Þær eignir hafi átt að vera komnar inn í félagið áður en lánið yrði greitt út. Kvaðst Ä ekki hafa vitað annað en að það hafi tekist. Ä kvaðst hafa farið í A banka hf. föstudaginn 8. febrúar 2008 eftir hádegið þar sem undirrituð hafi verið lánsskjöl vegna lánveitingar til E ehf. Á þeim fundi hafi fyrirsvarsmenn B ehf. og fulltrúar A banka hf. setið fram eftir degi. Ákærði, Y, hafi verið á þeim fundi og ákærði, X, komið inn. Fundi hafi lokið á tímabilinu 15.00 til 15.30. Fundurinn hafi eitthvað dregist vegna frágangs skjala. Ä kvaðst ekki vita ástæðu þess að B ehf. hafi tekið peningamarkaðslán þennan dag. Sennilega hafi einhver vandkvæði komið upp við frágang málsins. Ekki vissi hann hver hafi tekið ákvarðanir um þessi atriði. B ehf. hafi greitt vexti af láni sínu frá föstudegi fram á mánudag. Kvaðst Ä ekki þekkja hvort E ehf. hafi greitt B ehf. þá vexti til baka, en eðlilegt hafi verið að félagið eignaðist kröfu á E ehf. vegna þess.

OO kvaðst hafa starfað sem lögfræðingur hjá B ehf. í febrúar 2008. Hafi hann komið að skjalagerð í tengslum við lánveitingu til E ehf. Skjölin hafi þó upprunalega væntanlega komið frá A banka hf. OO kvaðst kannast við að tvær eignir hafi átt að renna inn í E ehf., frá G hf., en um hafi verið að ræða turn í [...] í [...] og [...] sjóðinn. Hafi OO sennilega komið að skjalagerð í tengslum við turninn í [...]. OO kvaðst telja líklegt að umboð til veðsetningar hlutabréfa í E ehf. hafi orðið til hjá OO, miðað við gögn málsins, þó svo hann myndi ekki eftir því sérstaklega. Kvaðst OO geta staðfest að hafa sent umboðin áfram til fyrirsvarsmanna B ehf. 12. febrúar 2008 með þeim skilaboðum að þau færu áfram til A banka hf.

PP kvaðst hafa starfað hjá B ehf. í febrúar 2008 og hafi hann tekið að sér að sitja í stjórn félagsins QQ ehf. PP kvaðst ekki hafa þekkt til félagsins E ehf. í febrúar 2008. Þá kvaðst PP ekki þekkja skjöl um sölu N ehf. á [...] sjóðnum til E ehf. G hf. hafi átt RR ehf. PP kvað QQ ehf. hafa selt turn í [...] í [...] til E ehf. Greiðsla fyrir þá eign hafi komið síðar. Skuldbinding hafi falist í eignarhlutanum í turninum sem hafi reynst erfitt að fjármagna. Til að ljúka byggingu turnsins hafi þurft að reiða fram 70 milljarða bandaríkjadala.

SS kvaðst hafa starfað sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs G hf. í febrúar 2008. E ehf. hafi verið stofnað til að halda utan um tilteknar eignir G hf. sem hafi farið illa í bókhaldi félagsins. Um hafi verið að ræða turn í [...] í [...] og [...]-sjóð, en sá sjóður hafi tengst tauverslun í [...]. Komið hafi skilaboð frá Fjármálaeftirlitinu að færa þyrfti þessar eignir í sjálfstætt félag. N ehf. hafi verið í 100% eigu G hf. Hafi hún setið í stjórn félagsins. Sennilega hafi ásamt henni verið í stjórn T framkvæmdastjóri B ehf. og TT forstjóri G hf. QQ ehf. hafi verið dótturfélag G hf.

TT kvaðst hafa verið forstjóri G hf. í febrúar 2008. Hafi hann vitað af endurfjármögnun á láni C ehf. hjá D. Hafi hann ekki þekkt til þess hvernig það lán hafi átt að endurfjármagna. Hafi hann þó vitað að stofna hafi átt til E ehf. sem myndi verða lántaki að láni vegna endurfjármögnunarinnar. Hafi G hf. átt að eiga félagið að hluta og setja eignir inn í það. Eignir þær er hafi átt að fara inn í E ehf. hafi ekki passað vel inn í [...]félagið og því hentugt að setja þær í sérstakt félag. Hafi TT verið kynnt málið þannig að E ehf. yrði dótturfélag G hf. Hafi félagið getað endað sem hlutdeildarfélag eða dótturfélag.

NN kvaðst hafa verið hluthafi í C ehf. í gegnum félagið W ehf., sem ekki hafi þó verið beinn eigandi hluta í C ehf. heldur í gegnum félögin P ehf., þar sem NN hafi átt þriðjung, og O ehf., þar sem NN hafi átt um 17%. C ehf. hafi haldið utan um eignarhlut í hlutabréfum í A banka hf. B ehf. samstæðan hafi átt tæpan helmings hlut í C ehf., O ehf. um 39% og P ehf. um 12%. Eina eign C ehf. hafi verið hlutabréf í A banka hf. NN kvaðst hafa vitað til þess að fyrirsvarsmenn D hafi verið órólegir vegna láns C ehf. hjá bankanum þar sem gengi bréfa í A banka hf. hafi lækkað. Hafi Nn frétt af því um mánaðarmótin janúar til febrúar 2008. Ekki hafi NN tekið þátt í endurfjármögnun láns C ehf., en hann hafi verið í útlöndum frá því um mánaðarmótin janúar til febrúar 2008. Ekki kvaðst hann þekkja atvik að baki stofnun E ehf. Þá hafi hann ekki vitað hvernig eignarhaldi að því félagi hafi verið háttað. Ekki hafi hann komið að stofnun þess eða setið í stjórn félagsins. Kvaðst hann telja að hluthafar í E ehf. hafi átt að vera þeir sömu og í C ehf. Ekki hafi honum verið kunnugt um hvernig tryggingum A banka hf. hafi verið háttað gagnvart lánveitingu til E ehf. Lögfræðingur á vegum B ehf. hafi hringt í NN 8. febrúar 2008 og tjáð NN að það vantaði umboð frá NN til að veðsetja hlutabréf í E ehf. sem hluta af endurskipulagningu vegna lántöku E ehf. NN kvaðst hafa setið í stjórn G hf. Ekki hafi hann orðið var við umræðu um eignir félagsins sem hafi verið turn í [...] í [...] og sjóðurinn [...]. N kvaðst muna eftir því að hafa dagsett umboð til Z 8. febrúar 2008 til að veðsetja hlutabréfin í E ehf. Hafi hann í kjölfarið sent umboðið á faxi til OO hjá B ehf. Hljóti hann þar af leiðandi að hafa undirritað umboðin þennan sama dag. Kvaðst NN hafa litið svo á að það hafi fyrst og fremst verið á hendi B ehf. að leysa málefni C ehf. Hafi þeir bræður, UU og NN, átt um 20% af hlutafé í C ehf. en B ehf. um 80%.

Z kvaðst hafa fengið umboð frá eigendum W ehf., V ehf. og U hf. til að veðsetja hlutabréf í E ehf. samkvæmt sérstökum samningi þar um. Stjórnarmenn í þessum félögum hafi verið í útlöndum á þessum tíma og þeir farið þess á leit við Z að hann myndi undirrita veðsamninginn í umboði þessara félaga. Kvaðst Z hafa farið í A banka hf. annað hvort mánudaginn 11. febrúar eða þriðjudag 12. febrúar 2008 og undirritað veðsamninginn.

VV kvaðst vera forstöðumaður í A hf. Undir umsýslu þeirra eigna er VV hefði umsjón með heyrðu málefni E ehf., sem nú bæri heitið WW ehf. Væri hann skráður stjórnarmaður í WW ehf. Í ársreikningi WW ehf. fyrir árið 2011 kæmi fram í skýrslu stjórnar að ZZ ehf., dótturfélag A hf., væri eini hluthafinn. Væri ZZ ehf. í 100% eigu A hf. Á árinu 2009 hafi skilanefnd A hf. tekið yfir alla eignarhluti í félaginu. Yfirtaka A hf. á E ehf., síðar ZZ ehf., hafi farið fram á grundvelli veðsamnings frá 8. febrúar 2008 um veðsetningu hlutabréfa í E ehf. Gerði VV grein fyrir einstökum atriðum í ársreikningi fyrir ZZ ehf. fyrir árið 2011 og líklegum endurheimtum félagsins miða við eignir þess og skuldir.

ÞÞ endurskoðandi staðfesti minnisblað sitt frá 16. nóvember 2012 um mat á áhættu samfara því fyrir A banka hf. að hafa lánað B ehf. peningamarkaðslán 8. febrúar 2008 að fjárhæð 102.162.470,12 evrur. Kvað hann niðurstöðu höfunda minnisblaðsins byggja á viðurkenndum reglum um reikningsskil.

ÆÆ bar að ákærði, Y, hafi hitt ÆÆ á fundi í höfuðstöðvum ÖÖ hf. föstudaginn 8. febrúar 2008 kl. 15.00. Auk þeirra tveggja hafi verið á þeim fundi ÁÁ frá A banka hf. Á þessum fundi hafi verið til umræðu sú staða að A banki hf. hafi farið fram á auknar tryggingar frá ÖÖ hf. og hafi verið um átakafund að ræða. Væri ÆÆ því fundurinn minnistæður og væri hann því viss um tímasetningar. ÁÁ, fyrrverandi starfsmaður A banka hf., kvaðst staðfesta að upplýsingar á dskj. nr. 83., 84 og 87 væru réttar.

Fyrir dóminn komu Jón Óttar Ólafsson og Guðmundur Haukur Gunnarsson fyrrverandi lögreglufulltrúar við Embætti sérstaks saksóknara. Gerðu þeir grein fyrir framvindu lögreglurannsóknar málsins og einstökum atriðum tengdum henni. Þá kom fyrir dóminn Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hjá Embætti sérstaks saksóknara og gerði grein fyrir rannsókn málsins. Einnig komu fyrir dóminn Ragnar Svanur Þórðarson lögreglufulltrúi og Sveinn Ingiberg Magnússon aðstoðaryfirlögregluþjónn, báðir við Embætti sérstaks saksóknara. Gerðu þeir grein fyrir greinargerð um skoðun og greiningu tiltekinna atriða í tilefni af máli þessu, sem frammi liggur á dskj. nr. 41. Björn L. Bergsson hæstaréttarlögmaður gerði einnig grein fyrir sínum þætti í sömu greinargerð, sem og Andrés Þorleifsson saksóknarfulltrúi við Embætti sérstaks saksóknara.

Niðurstaða:

Ákærðu er gefið að sök að hafa föstudaginn 8. febrúar 2008 samþykkt lánveitingu til B ehf. í formi peningamarkaðsláns að fjárhæð 102.162.470,12 evrur, án trygginga eða ábyrgða og andstætt almennum reglum A banka hf. um lánveitingar og markaðsáhættu og að hafa með því misnotað aðstöðu sína og stefnt fé A banka hf. stórfellda hættu. Samkvæmt ákæru er miðað við að lánið hafi átt að endurgreiða mánudaginn 11. febrúar 2008. B ehf. hafi á þessum tíma verið skilgreint í áhættumatsflokki 4, sem falið hafi í sér að ákærðu hafi, sem meðlimir áhættunefndar, einungis getað heimilað lánveitingar til félagasamstæðunnar B ehf. er, ásamt eldri lánum samstæðunnar, hafi rúmast innan 17% af eigin fé A banka hf. sem hafi á þeim tíma verið 225,576 milljarðar króna. Með ákvörðun sinni hafi ákærðu farið út fyrir heimildir sínar þannig að heildarlánveitingar félagasamstæðu B hafi farið 4,1 milljarð umfram heimildir. Er brot ákærðu talið varða við 249. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærðu neita báðir sök. Byggja þeir varnir sínar annars vegar á því að þeir hafi ekki tekið ákvörðun um að lána B ehf. umrætt lán föstudaginn 8. febrúar 2008, heldur hafi þeir tekið ákvörðun um að veita E ehf. lán þennan dag og eingöngu ritað undir lánsskjöl því tengt. Hins vegar byggja þeir varnir sínar á því, verði talið að sannað sé að þeir hafi heimilað umrædda lánveitingu, að ekki séu uppfyllt efnisskilyrði ákvæðis 249. gr. laga nr. 19/1940 til að ákærðu verði sakfelldir fyrir umboðssvik. Að auki er byggt á neyðarrétti og neyðarhjálp. 

A

Að því er fyrri varnarástæðu ákærðu varðar liggur fyrir í málinu áðurlýst skjal, „Notice of Drawing“, sem kallað hefur verið ádráttarbeiðni, en skjal þetta er meðal fylgigagna lánasamnings E ehf. og A hf. Er óumdeilt að upprunalegur tilgangur skjalsins var sá að gera lántakanum kleift að virkja lánasamninginn og gefa A hf. nánari fyrirmæli um greiðslu lánsfjárhæðar. Í samræmi við þetta gerir prentað letur skjalsins ráð fyrir því að það sé undirritað fyrir hönd E ehf. sem lántakanda. Hins vegar er fram komið í málinu að engin þörf var á undirritun starfsmanna A hf. við venjulega útfyllingu og beitingu skjalsins.  

Svo sem áður greinir er handritað efst á skjal þetta „Skuldari, B, kt. [...]“ við hlið þeirrar áritunar kemur fram textinn ,,Pm lán í EUR over night“. Hefur L, fyrrum viðskiptastjóri í A banka hf., kannast við það fyrir dómi að hafa fært þann texta inn á skjalið. Undir skjalið ritar T fyrir hönd B ehf. Er einnig ljóst að nefndur T undirritaði síðar áritun sem bætt hafði verið við skjalið um að greiðslan væri vegna láns E ehf. mánudaginn 11. febrúar 2008 að heildarfjárhæð 103.718.244 evrur. Neðst á skjalinu, við hlið textans „Samþykkt“, er að finna undirritun beggja ákærðu. Samkvæmt framangreindu verður skjalið, eins og því var breytt, ekki skilið á annan veg en þann að það feli í sér veitingu peningamarkaðsláns til B ehf. að fjárhæð 102.162.470,12 evrur. Svarar sú fjárhæð til þess láns sem ákveðið hafði verið að veita E ehf. að frádregnum lántökukostnaði. Liggur og fyrir að peningamarkaðslán að þessari fjárhæð var afgreitt til B ehf. síðdegis föstudaginn 8. febrúar 2008 og lánið greitt upp, að viðbættum vöxtum, 11. sama mánaðar.

Ákærðu hafa fyrir dómi kannast við undirritun sína á umrætt skjal. Ákærðu kannast hins vegar ekki við að hafa undirritað áðurgreind fyrirmæli um greiðslu peningamarkaðsláns til B ehf. og staðhæfa að þau hafi verið rituð inn á skjalið, án þeirra samþykkis, eftir að þeir undirrituðu skjalið. Svo sem áður er rakið hefur L, viðskiptastjóri A banka hf., staðfest að upplýsingar um skuldara og lánategund hafi hann ritað inn á skjalið. Hann hefur hins vegar staðfastlega neitað því að hafa sjálfur tekið ákvörðun um að veita B ehf. peningamarkaðslán umræddan föstudag og vísað til þess að hann hafi hvorki haft stöðu né heimild til að taka ákvörðun um slíka lánveitingu.

Sem fyrr greinir var undirritun ákærðu á umrædda ádráttarbeiðni óþörf við venjulega beitingu skjalsins. Hafa ákærðu engar trúverðugar skýringar gefið á því hvers vegna undirritun þeirra er að finna á umræddu skjali. Vitnum sem komið hafa fyrir dóm í málinu ber hins vegar saman um að öll lánsskjöl vegna [...]lánsins svokallaða hafi verið undirrituð eftir hádegi föstudaginn 8. febrúar 2008 í fundarherbergi bankans á 5. hæð og allir hlutaðeigandi ritað undir skjölin á svipuðum tíma. Þar á meðal er framburður vitnisins T, fyrrverandi framkvæmdastjóra B ehf., sem kannaðist við undirritun sína fyrir hönd þess fyrirtækis. Þá liggur fyrir að skjalið var notað við útgreiðslu peningamarkaðsláns til B ehf. seinni part þessa dags í bakvinnslu bankans. Að síðustu liggur fyrir fyrrgreindur framburður vitnisins L svo og framburður annarra starfsmanna A hf. sem komu að afgreiðslu peningamarkaðslánsins. Að öllu virtu telur dómurinn fráleitt að umræddur L eða aðrir starfsmenn A banka hf. hafi ákveðið, upp á sitt eindæmi, að veita B ehf. umrætt peningamarkaðslán og breytt skjalinu í þeim tilgangi.

Samkvæmt öllu framangreindu telur dómurinn, gegn neitun ákærðu, sannað að þeir hafi samþykkt lánveitingu til B ehf., í formi peningamarkaðsláns, að fjárhæð 102.162.470,12 evrur.

B

Samkvæmt 249. gr. laga nr. 19/1940 varðar það fangelsi allt að 2 árum, ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað sem annar maður verður bundinn við eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína. Þyngja má refsingu í allt að 6 ára fangelsi, ef mjög miklar sakir eru. Helsta einkenni umboðssvika er misnotkun á þeim trúnaði sem felst í ákveðinni aðstöðu með fjárhagslegri ráðstöfun í skjóli aðstöðunnar í því skyni að afla sér eða öðrum fjárvinnings á kostnað annarra. Ásetningur þarf að taka til allra þátta verknaðarlýsingar ákvæðisins og auk þess er auðgunarásetningur skilyrði refsinæmis, sbr. 243. gr. laga nr. 19/1940. Umboðssvik eru fullframin við ólögmæta ráðstöfun fjárverðmæta, svo sem við ólögmæta samþykkt skuldbindingar fyrir hönd lögaðila. Til að brot sé fullframið nægir að sýna fram á fjártjónshættu án tillits til raunverulegs fjártjóns.

Fyrir liggur að unnið hafði verið að því um nokkurt skeið að veita E ehf. lán af hálfu A banka hf. til endurfjármögnunar á láni C ehf. hjá fjármálasamsteypunni D. Samkvæmt ákæru var lán þetta veitt E ehf. mánudaginn 11. febrúar 2008 og andvirði lánsins notað til að greiða upp peningamarkaðslán B ehf. hjá A banka hf. Samkvæmt mati áhættunefndar A banka hf., sem hafði það hlutverk með höndum að leggja mat á áhættu tengda mótaðila í viðskiptum, var B ehf. í áhættumatsflokki 4 hjá bankanum. Þá liggur fyrir í gögnum sem lágu fyrir áhættunefnd 5. og 6. febrúar 2008 að heildarskuldbindingar félagasamstæðu B ehf. námu á þeim tíma 32,4 milljörðum króna. Er það í samræmi við framburð beggja ákærðu hér fyrir dómi. Á sölugengi evru 8. febrúar 2008 nam peningamarkaðslán A banka hf. til B ehf. 10.019.073.445 krónum. Með því að veita B ehf. áðurgreint peningamarkaðslán fór heildarskuldbinding félagasamstæðu B ehf., því úr 32,4 milljörðum króna í 42,4 milljarða króna. Samkvæmt ákæru fól þetta í sér að heildarlánveitingar félagasamstæðu B ehf. urðu 4,1 milljarður króna umfram heimildir samkvæmt almennum útlánareglum A banka hf. 

Verjendur ákærðu hafa haldið því fram að svigrúm til lánveitinga til félagasamstæðu B ehf. hafi verið meira að teknu tillit til leyfilegra frádráttarliða vegna lána til Q hf., R hf. og G hf., svo sem heimilt hafi verið að gera samkvæmt p-lið 4 gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007. Hvað sem þessum staðhæfingum líður verður ekki fram hjá því horft að við meðferð lánamáls E ehf. hjá A banka hf., meðal annars hjá áhættunefnd bankans 5. og 6. febrúar 2008, var litið svo á að hámark lánveitinga til félagasamstæðu B ehf. næmi 17% af vegnu eigin fé bankans, eða um 38 milljörðum króna. Eru ekki efni til að skýra útlánareglur bankans með öðrum og rýmri hætti en lagður var til grundvallar við þessa meðferð lánamálsins. 

Samkvæmt ákæru verður fjártjónshætta A banka hf., vegna háttsemi ákærðu, rakin til þess að skuldbinding B ehf. hafi verið færð yfir á E ehf. 11. febrúar 2008 og nemi eftirstöðvar þess láns 53.718.244 evrum, sem ekki hafi verið endurheimtar frá E ehf. Eins og málið liggur fyrir verður ekki á þetta fallist. Því er þannig ekki haldið fram af ákæruvaldinu að E ehf. hafi fallið undir félagasamstæðu B ehf. eða að lánveitingin 11. febrúar 2008 til E ehf. hafi verið refsiverð. Eru þannig engin efni til að líta til annarrar háttsemi ákærðu en þeirrar að veita B ehf. peningamarkaðslán frá föstudeginum 8. febrúar 2008 til mánudagsins 11. sama mánaðar.

Við mat á fjártjónshættu vegna háttsemi ákærðu verður að líta til þess að veitingu láns hlýtur, eðli málsins samkvæmt, að fylgja hætta á greiðslufalli. Verður það því ekki metið ákærðu til refsileysis þótt hættan á greiðslufalli B ehf. væri metin lítil að teknu tilliti hins skamma lánstíma og áhættumatsflokkunar B ehf. í gögnum A banka hf.

C

Í ákæru er miðað við að hin ólögmæta lánveiting til B ehf. föstudaginn 8. febrúar 2008 hafi verið án trygginga eða ábyrgðar. Á þetta verður ekki fallist. Þann dag hafði bankinn allsherjarveð í hlutabréfum í G hf. að nafnverði 349.999.999 krónur, samkvæmt handveðsyfirlýsingu B ehf. frá 8. febrúar 2008, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og öðrum fjárskuldbindingum B ehf. þá eða síðar við A banka hf. Þá lá fyrir að 28. febrúar 2007 hafði B ehf. gefið út samskonar handveðsyfirlýsingu þar sem hlutabréf N ehf. í Æ hf. að nafnvirði 310.186.766 krónur, höfðu verið sett að veði til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á fjárskuldbindingum B ehf. þá eða síðar við A banka hf. Þó svo að vafi leiki á um hvort allsherjarveð þessi hafi verið nægjanleg fyrir þeirri viðbótarskuldbindingu sem fólst í lánveitingunni til B ehf. umræddan föstudag liggur engu að síður fyrir að bæði tryggingar og ábyrgðir voru til staðar. Verður vafi um atvik málsins að þessu leyti skýrður ákærðu í hag og því ekki fallist á þennan hluta í verknaðarlýsingu ákæru.  

Samkvæmt framansögðu er sannað að ákærðu hafi 8. febrúar 2008 samþykkt að veita B ehf. peningamarkaðslán með ólögmætum hætti að fjárhæð 102.162.470,12 evrur og þannig bakað A banka hf. fjártjónshættu. Með lánveitingunni fóru ákærði, X, sem bankastjóri, og ákærði, Y, sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs A banka hf., út fyrir heimildir sínar í störfum sínum og skuldbundu með þeim A banka hf. með ólögmætum hætti. Misnotuðu ákærðu með þessu aðstöðu sína og gerðust þar með sekir um þá háttsemi sem lýst er refsiverð í 249. gr. laga nr. 19/1940. Sú fjárhæð sem ákærðu samþykktu var veruleg, hvort sem litið er til reksturs A banka hf. eða almenns mælikvarða. Eins og málið liggur fyrir verður hins vegar lagt til grundvallar að hinu ólögmæta ástandi og fjártjónshættu bankans af völdum ákærðu hafi lokið mánudaginn 11. febrúar 2008 þegar peningamarkaðslánið var greitt upp. Að virtum atvikum málsins og aðstæðum ákærðu fellst dómurinn ekki á að gerðir ákærðu geti réttlæst af neyðarrétti eða neyðarhjálp. Verða ákærðu því sakfelldir fyrir umboðssvik og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Með hliðsjón af þeim skamma tíma sem hið ólögmæta ástand stóð yfir og takmarkaðri fjártjónshættu, geta sakir ákærðu þó ekki talist miklar, sbr. síðari málslið 249. gr. laga nr. 19/1940. 

Ákærði, X, er fæddur í [...] 1976. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot, svo kunnugt sé. Ákærði, Y, er fæddur í [...] 1963. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot, svo kunnugt sé. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærðu leituðust ekki við að afla sjálfum sér beins persónulegs ávinnings með brotum sínum og töldu háttsemina þjóna hagsmunum A banka hf. og íslenska fjármálakerfinu. Svo sem áður greinir hafa ekki verið færð fyrir því viðhlítandi rök að þessi háttsemi ákærðu hafi út af fyrir sig leitt til fjártjóns fyrir A banka hf. Hins vegar er óhjákvæmilegt að líta til þess að um verulega fjárhagsskuldbindingu var að ræða. Með hliðsjón af þessu er refsing ákærðu beggja ákveðin fangelsi í 9 mánuði, sem að hluta verður bundið skilorði með þeim hætti er í dómsorði nánar greinir.  

Ekki hefur annan sakarkostnað leitt af máli þessu en við vörn ákærðu. Við ákvörðun málsvarnarlauna er til þess að líta að mál þetta er mikið að vöxtum í skjallegum gögnum, þó svo ákæra miðist einungis við að ein tiltekin lánveiting til B ehf. hafi verið refsiverð. Þá er jafnframt til þess að líta að ákæra tengir tjón samkvæmt hinni refsiverðu háttsemi ranglega við lánveitingu til E ehf., sem leitt hefur til þess að vörn ákærðu hefur orðið mun umfangsmeiri en efni stóðu til. Loks er til þess að líta að tveir starfsmenn Embættis sérstaks saksóknara hafa sætt kæru í tengslum við störf sín fyrir skiptastjóra þrotabús B ehf., en verjendum var nauðsynlegt að huga að réttarstöðu ákærðu með hliðsjón af upplýsingum um það efni. Þegar til þessa er litið verður lagt á ákærðu að greiða helming málsvarnarlauna verjenda sinna, en þau greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði. Nema málsvarnarlaun verjanda ákærða, X, í heildina 10.178.050 krónum en málsvarnarlaun verjanda ákærða, Y, í heildina 9.274.450 krónum. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Símon Sigvaldason og Skúli Magnússon héraðsdómarar og Ólafur Ásgeirsson kváðu upp þennan dóm.

D ó m s o r ð :

Ákærðu, X og Y, sæti hvor um sig fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi ákærðu hvor um sig almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. 

Ákærði, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Óttars Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 5.089.025 krónur, en 5.089.025 krónur af málsvarnarlaunum verjandans greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði, Y, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þórðar Bogasonar hæstaréttarlögmanns, 4.637.225 krónur, en 4.637.225 krónur af málsvarnarlaunum verjandans greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2012.

Með ákæru embættis sérstaks saksóknara 14. desember 2011 og framhaldsákæru 28. febrúar 2012 er ákærðu, X og Y, gefið að sök umboðssvik, í störfum sínum fyrir A banka hf. með tilgreindri lánveitingu til einkahlutafélagsins B, sem talin eru varða við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. 

Með bókunum verjenda ákærðu á dskj. nr. 24 og nr. 28 höfðu verjendur ákærðu uppi kröfu um að máli þessu yrði vísað frá dómi. Var málið flutt um frávísunarkröfu ákærðu 31. ágúst sl. og tekið til úrskurðar að málflutningi loknum.

Af hálfu varnaraðila, X og Y, er þess krafist, að málinu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ. m. t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að kröfum varnaraðila um frávísun málsins verði hafnað.

Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að tveir nafngreindir starfsmenn sóknaraðila, sem unnið hafi að rannsókn málsins, hafi verið vanhæfir til að starfa að rannsókn þess vegna verks, sem unnið var af félagi í þeirra eigu, í þágu þrotabús B ehf. er snerti sakarefni málsins. Nefndir starfsmenn hafi nú verið kærðir til embættis ríkissaksóknara fyrir ætluð brot gegn þagnarskyldu í tengslum við framkvæmd starfa þeirra hjá embætti sérstaks saksóknara við rannsókn og framvindu þessa sakamáls. Ekki sé vitað um efni kærunnar þar sem embætti ríkissaksóknara hafi hafnað því að hún verði lögð fram. Umræddir starfsmenn hafi haft beinna og verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta af því að gefin yrði út ákæra á hendur varnaraðilum. Því sé ástæða til að ætla að við rannsóknina hafi ekki verið gætt jafnt að þeim atriðum sem horfi til sýknu og sektar, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, heldur hafi fyrirfram verið byggt á sekt varnaraðila. Rannsókn málsins geti því ekki verið lögmætur grundvöllur saksóknar. Hinir nafngreindu starfsmenn hjá sóknaraðila hafi verið aðalrannsakendur þessa máls. Þeir hafi, í skjóli ÐÐ sf., samið um sérfræðiþjónustu við þb. B ehf. um ráðgjöf er viðkomi uppgjöri búsins. Sá samningur sé frá 27. september 2011. Í skjóli þessa samnings hafi þeir m.a. samið skýrslu um gjaldþol B ehf. Samkvæmt yfirliti um tímaskráningu í þeirri vinnu hafi sú vinna hafist eftir miðjan september 2011. Fyrir þá vinnu hafi félagið fengið greidda þóknun sem numið hafi um 30.000.000 króna. Í ýmsum riftunarmálum þb. B ehf. hafi skýrslan um gjaldþol B ehf. verið lögð fram. Í maí 2012 hafi skiptastjóri þb. B ehf. lagt fram í héraðsdómi beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Í þeirri matsbeiðni komi fram að það skilyrði hugtaksins ógjaldfærni að skuldari standi ekki í skilum við lánadrottna sína í skilningi gjaldþrotalaga sé uppfyllt ef leitt sé í ljós að skuldir hafi verið greiddar með fjármunum sem fengnir hafi verið með ólögmætum hætti. Vinna starfsmannanna liggi til grundvallar í riftunarmálum þb. B ehf. Eigi þrotabúið verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta í þeim málum. Tilgangur með vinnu starfsmannanna hafi verið að sýna fram á ógjaldfærni B ehf. á ákveðnum tímapunkti og leiða í ljós að lánveitingar hafi verið ólögmætar. Skýrsla þrotabúsins og ákæra í máli þessu hafi verið lögð fram sem sönnunargögn í riftunarmálum þrotabúsins. Í ljósi þeirrar þóknunar sem starfsmennirnir hafi fengið í skjóli félags síns hafi þeir haft persónulega og verulega fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðum rannsóknar sakamálsins og því að ákæra yrði gefin út.

Um vanhæfi lögreglumannanna fari eftir reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 7. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 1. mgr. 4. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara. Hinar sérstöku hæfisreglur snúist um tengsl starfsmanna við mál og ásýnd þeirra tengsla á ytra borði, en ekki því hvort starfsmaður hafi í reynd lagt ómálaefnaleg sjónarmið til grundvallar. Um það megi m.a. vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 479/2012. Ekki leiki vafi á því að starfsmaður teljist vanhæfur til meðferðar máls við þær aðstæður að niðurstaða stjórnsýslumáls geti ráðið útslitum um hvort þau skilyrði verði fyrir hendi í mjög nálægri framtíð að hann geti gert samning, sem færi honum fjárhagslegan ágóða. Ákvörðun um útgáfu ákæru sé stjórnvaldsákvörðun. Meginreglan í íslenskum og norrænum rétti sé sú að vanhæfi starfsmanns í stjórnsýslu leiði til þess að ákvörðun, sem hann hafi tekið, teljist ógildanleg. Sú regla hafi að nokkru leyti verið lögfest í 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008.

Frávísunargrundvöllurinn í málinu sé reistur á 1. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008. Þar komi fram að máli beri að vísa frá dómi ef á því sé bersýnilegur annmarki og ekki verði úr honum bætt fyrir dómi. Vanhæfi hinna tveggja starfsmanna teljist vera bersýnilegur annmarki á málinu með tilliti til hagsmuna málsins. Hið opinbera fari með rannsókn máls. Við þær aðstæður sé almennt lagt til grundvallar að vanhæfi starfsmanns við undirbúning og töku ákvarðana um viðurlög kunni að ónýta ákvörðunina. Þá verði ekki úr annmarkanum bætt fyrir dómi. Starfsmennirnir hafi verið aðalrannsakendur málsins og komið nánast að öllum þáttum rannsóknarinnar. Öll rannsóknin sé því smituð af vanhæfi þeirra. Verði því ekki úr þessum annmarka bætt nema mögulega með nýrri rannsókn. Ef málið haldi áfram til efnismeðferðar hafi það slík réttarspjöll í för með sér fyrir möguleika ákærðu að undirbúa vörn sína að það stæðist ekki 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Rannsókn málsins beri þess ótvíræð merki að í raun hafi farist fyrir að vinna að því að hið sanna og rétta kæmi í ljós og gæta jafnt að atriðum er horfi til sýknu og sektar. Þannig hafi t.d. farist fyrir að beina sjónum rannsóknarinnar að mögulegum afleiðingum þess fyrir A banka hf. hefði lánveiting sú sem ákært sé fyrir ekki farið fram eða varpa ljósi á raunverulegar hvatir ákærðu.

Greinargerð á dskj. nr. 41 hafi enga þýðingu í málinu. Hún fjalli á engan hátt um þá spurningu hvort um bersýnilegan annmarka sé að ræða á rannsókn málsins og hvort úr honum verði bætt fyrir dómi. Hún fjalli einungis um hvort augljóst vanhæfi hafi haft áhrif á framgang rannsóknarinnar. Um það sé ekki spurt í málinu. Í annan stað sé tilurð greinargerðarinnar með þeim hætti að hún hafi ekkert sönnunargildi. Til að svo væri hefði mátt fylgja ákvæðum XIX. kafla laga nr. 88/2008 og krefjast þess að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta þau atriði sem ákærandi hafi óskað. Í þriðja lagi leiði það beinlínis af efni greinargerðarinnar að hún sé þýðingarlaus. Einungis séu teknar stikkprufur úr rannsókninni en ekki farið yfir hana alla. Þá sé að finna þar ályktanir og staðhæfingar sem beri þess merki að höfundar hennar hafi annað hvort misskilið hlutverk sitt eða ekki unnið hana í góðri trú. Greinargerðin hafi því ekkert gildi í málinu. 

Sóknaraðili mótmælir málflutningi varnaraðila í þessum þætti málsins. Eftir athugun á málinu hafi ekkert komið í ljós sem bendi til þess að rannsóknin hafi verið ófullnægjandi og bendi ekkert til þess að annarleg sjónarmið eða óhlutlægni hafi átt sér stað í störfum við rannsókn málsins. Þeir tveir starfsmenn er embætti sérstaks saksóknara hafi kært til embættis ríkissaksóknara hafi ekki hallað réttu máli við rannsókn sakamálsins. Til þess hafi þeir ekki heldur haft stöðu. Þeir hafi ekki skilgreint eða borið ábyrgð á ákvörðunum um skilgreiningu sakarefnisins eða ákvörðunum um markmið rannsóknarinnar. Ætluð brot þeirra séu einungis hugsanleg trúnaðarbrot gagnvart embætti sérstaks saksóknara. Rannsókn málsins hafi lotið að ætluðum auðgunarbrotum starfsmanna A banka hf., ákærðu í máli þessu, vegna lánveitingar til B ehf., ákvarðanatöku, aðdraganda lánveitingarinnar og millifærslu fjármuna til greiðslu á láni C hjá D. Þau atvik séu með engu móti skyld því viðfangsefni sem starfsmennirnir tveir hafi unnið að fyrir skiptastjóra þb. B ehf. Ákæruefni sakamálsins snúist hins vegar um A banka hf., viðmið við lánveitingar og gildandi reglur þar að lútandi. Gjaldþol B ehf. sé ekki hluti af því.

Auk þeirra tveggja starfsmanna sem unnið hafi fyrir skiptastjóra þb. B ehf., hafi aðrir starfsmenn embættisins einnig komið að rannsókn málsins. Starfsmennirnir tveir hafi því ekki verið einráðir um vinnu sína á embættinu. Þá sé til þess að líta að samkvæmt lögum nr. 88/2008 sé skýr aðskilnaður á milli rannsóknar máls og ákvörðunar um saksókn og saksóknarmeðferð. Hafi málið verið til meðferðar til ákvörðunar um saksókn í 40 daga, fyrir útgáfu ákæru. Að þeirri ákvörðun hafi starfsmennirnir ekki komið. Þá hafi einungis lítill hluti rannsóknartímabilsins fallið innan þess tíma þegar starfsmennirnir hafi unnið fyrir þb. B ehf. Rannsókn málsins hafi verið ítarleg og umfangsmikil. Hafi mat á hvort tilefni væri til rannsóknar farið fram löngu áður en starfsmennirnir hafi hafið störf fyrir þb. B ehf. Vafi um hæfi þeirra tveggja geti ekki orðið sjálfstæður grundvöllur að frávísun málsins. Það sé í verkahring ákæranda að taka ákvörðun um saksókn í málinu. Hafi engar brigður verið bornar á hæfi ákærandans í málinu. Þá hafi embætti sérstaks saksóknara ráðist í að greina rannsókn málsins er í ljós hafi komið hin ætluðu brot á þagnarskyldu. Niðurstaða úr þeirri skoðun komi fram á dskj. nr. 41. Þar komi fram að ekki verði séð að slíkir ágallar séu á rannsókn málsins að ástæða sé til að draga ákæru í málinu til baka. Þá hafi verjendur ákærðu ekki getað bent á tiltekin gögn sem séu þess eðlis að leiða eigi til frávísunar málsins. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 skuli dómur reistur á sönnunargögnum sem færð séu fram við meðferð máls fyrir dómi. Annmarkar sem vera kunni á rannsókn máls og leiða til þess að sakir verða ekki taldar sannaðar hafi þýðingu við efnisúrlausn máls en leiði almennt ekki til frávísunar þess.  

Niðurstaða:

Samkvæmt 1. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008 athugar dómari við þingfestingu máls, hvort gallar séu á máli sem geta varðað frávísun þess frá dómi án kröfu. Þá þegar eða hvenær sem er eftir það getur dómari vísað máli frá dómi með úrskurði þótt engin krafa hafi komið fram um það ef hann telur svo bersýnilega annmarka á því sem ekki verði bætt úr undir rekstri þess að dómur verði ekki kveðinn upp um efni þess. Er frávísunarkrafa varnaraðila reist á ofangreindu ákvæði.

Samkvæmt því sem fram er komið í máli þessu hefur embætti sérstaks saksóknara tilkynnt um ætluð brot tveggja starfsmanna sinna gegn þagnarskyldu í tengslum við framkvæmd starfa þeirra hjá embætti sérstaks saksóknara við rannsókn þessa máls til ríkissaksóknara. Starfsmennirnir störfuðu sem lögreglufulltrúar hjá embættinu frá sumri 2009 en hættu störfum við embættið í byrjun árs 2012. Nefndir starfsmenn gerðu samning um sérfræðiþjónustu, í skjóli ÐÐ sf., við þrotabú B ehf., en samningurinn er dagsettur 27. september 2011. Samkvæmt yfirliti um tímaskráningu hófst eiginleg vinna starfsmanna ÐÐ sf. við greiningu verkefnis 24. september 2011.

Samkvæmt gögnum málsins á það rót að rekja til kæru Fjármálaeftirlitsins 25. mars 2009 í tengslum við málefni G hf. Húsleit fór fram í kjölfarið eða 7. júlí 2009, þar sem lagt var hald á umtalsvert magn gagna. Þá hafði embætti sérstaks saksóknara til rannsóknar gögn sem Þ hf. afhenti vegna reksturs fyrrum A banka hf. Bera rannsóknargögn málsins með sér að greiningarvinna hafi farið af stað í kjölfar þess að framangreindra gagna var aflað til að marka málinu farveg. Þá kemur fram að í lok ágúst 2011 hafi verið ákveðið að kljúfa það sakarefni sem hér er til meðferðar út úr öðrum málum er voru til rannsóknar og vörðuðu starfsemi G hf. og B ehf. Gögn málsins leiða í ljós að skýrslutökur af vitnum hafi farið af stað á árinu 2009 en að mestu leyti átt sér stað á árin 2010. Einungis sex skýrslur voru teknar af vitnum á árinu 2011, og þar af einungis ein eftir að samningur um sérfræðivinnu var undirritaður. Skýrsla af ákærða, X, var tekin 7. apríl 2010. Þá hafði hann réttarstöðu vitnis. Að öðru leyti voru skýrslur teknar af ákærða 2. september 2011 og 18. október sama ár. Skýrslur voru teknar af ákærða, Y, 2. september 2011 og 19. október 2011. Greinargerð um skoðun og greiningu atriða á dskj. nr. 41, sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar í máli nr. 470/2012, hefur að mati Hæstaréttar þjónað þeim tilgangi að varpa ljósi á rannsóknina og tiltekna þætti hennar. Í greindri skýrslu er komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að sjá að skýrsla ÐÐ sf., um ógjaldfærni B ehf., tengist því sakarefni sem til meðferðar sé í sakamálinu nr. 1906/2011. Þá bendi ekkert til að ekki hafi verið gætt fyllstu hlutlægni við rannsókn sakamálsins í samræmi við 53. gr. laga nr. 88/2008. Þá er komist að þeirri niðurstöðu að skýrsla rannsakara virðist vera hlutlæg og endurspegli hún með réttum hætti framgang rannsóknarinnar. 

Svo sem hér er rakið hefur rannsókn þessa sakamáls einkum beinst að því að afla gagna í þágu rannsóknar málsins og yfirheyra ákærðu og vitni. Gagnaöflunin átti sér að mestu leyti stað í upphafi rannsóknarinnar á árinu 2009 og voru vitni flest yfirheyrð á árinu 2010. Þá voru skýrslur teknar af ákærðu í september og október 2011. Ákæruvald tók til skoðunar, eftir að ljóst varð um samning starfsmannanna tveggja um sérfræðiþjónustu, hvort efni væru til að afturkalla ákæru í málinu. Ákæruvald hefur ákveðið að halda við ákæruna en í því felst að ákæruvald hefur talið framlögð rannsóknargögn nægileg til að meta skilyrði málshöfðunar og reisa ákæru á sakarefnum málsins.

Í samræmi við meginregluna um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð málsins fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008, en ekki á lögreglurannsókn umfram það sem heimilað er í 3. mgr. 111. gr. sömu laga. Kemur í hlut héraðsdómara að meta sönnunargildi þeirra gagna er ákæruvald teflir fram, sbr. 109. gr. og 126. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu eru að mati dómsins á þessu stigi málsins ekki þeir augljósu annmarkar á rannsókn og meðferð þess að leiða eigi til frávísunar þess frá dómi. Á grundvelli þessara forsendna verður kröfum varnaraðila um frávísun málsins frá dómi hafnað.    

Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu varnaraðila, X og Y, um að málinu verði vísað frá dómi, er hafnað.