Hæstiréttur íslands

Mál nr. 383/2004


Lykilorð

  • Framsal sakamanns
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Schengen-samningurinn
  • Kærumál


Föstudaginn 17

 

Föstudaginn 17. september 2004.

Nr. 383/2004.

Ríkislögreglustjóri

(Þórir Oddsson vararíkislögreglustjóri)

gegn

X

(Guðmundur Óli Björgvinsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Framsal sakamanns. Schengen-samningurinn.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. september 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. september 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Varnaraðili er erlendur maður, sem hefur ekki sinnt kvaðningu um að mæta fyrir dóm í Finnlandi, þar sem hann er grunaður um brot, sem eru sambærileg ákvæðum 155. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður í ljósi þessa talin hætta á að hann muni reyna að koma sér undan áður en meðferð á framsalsbeiðni finnskra yfirvalda er lokið. Þykir því ekki nægilegt að tryggja nærveru hans með því að hann sæti farbanni og eru lagaskilyrði til að beita gæsluvarðhaldi uppfyllt. Með þessum athugasemdum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2004.

          Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að X, verði, á grund­velli b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, gert að sæta gæslu­­varð­haldi allt til mánudagsins 27. september 2004 kl. 16.00.

          Í greinargerð ríkislögreglustjóra segir að við venjubundna samkeyrslu áhafna- og farþegalista m/s A hinn 11. september sl. við Schengen upplýsingakerfið hafi komið upp nafn X á skrá yfir eftirlýsta menn á Schengensvæðinu.  Sirene skrifstofa hjá ríkislögreglustjóra annist samkeyrslu þessara lista í Schengen upplýsingakerfinu samkvæmt lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi nr. 16/2000 og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003.

          Við nánari skoðun í Schengen-upplýsingarkerfinu hafi komið í ljós að X væri skráður í kerfið samkvæmt 95. grein Schengensamningsins, af finnskum yfirvöldum.  Samhliða Schengen-upplýsingakerfinu sé einnig keyrt Sirene-kerfi þar sem fari fram öll samskipti vegna Schengen-skráninga eftir fyrirfram uppsettum formum þar sem hvert svæði krefjist ákveðinna upplýsinga.  Þegar skráður sé einstaklingur í Schengen-upplýsingakerfið samkvæmt 95. gr. Schengensamningsins, þ.e. ” Upp­lýsingar um eftir­lýsta einstaklinga, sem óskað er eftir að verði hand­teknir í þeim tilgangi að verða fram­seldir, verða skráðar að beiðni dóms­mála­yfir­valda þess samnings­aðila sem leggur fram beiðni.”

þá sendi skráningarlandið A-form í Sirene kerfinu til allra hinna aðildarlandanna.  Í því formi eigi að koma fram neðangreindar upplýsingar:

 

hvaða yfirvald leggi fram beiðni um handtöku;

hvort fyrir liggi handtökuskipun eða ákvörðun með sama gildi eða aðfarahæfur dómur;

hvers konar refsiverðan verknað um sé að ræða og tilvísun til viðeigandi refsiákvæða;

við hvaða aðstæður hinn refsiverði verknaður hafi verið framinn, þar með talið hvenær og hvar hann var framinn og hver þáttur hins skráða sé í málinu:

eftir því sem unnt sé, hverjar séu afleiðingar hins refsiverða verknaðar.

          Viðtökuríkin lesi yfir A-formið og ákveði síðan hvort þau samþykki framsal með hliðsjón af innlendri löggjöf.

          Mál X sé skráð í Schengen-upplýsingakerfið af Finnum 22.01.2004 og A-form sent til hinna aðildarlandanna 27.01.2004.  Það form sé móttekið af Sirene skrifstofunni á Íslandi og þar sé málið yfirfarið og samþykkt að ef maðurinn finnist á Íslandi verði hann handtekinn og hann framseldur til Finnlands - auðvitað að því tilskyldu að skilyrði framsals séu fyrir hendi.

          Eins og að ofan segi hafi X fundist í samkeyrslu áhafnar- og farþegalista skipsins A, 11.09.2004.  A hafi síðan lagst við bryggju í Sundahöfn í Reykjavík 13.09.2004, klukkan 11:30.  Hafi tveir lögreglumenn frá ríkislögreglustjóranum farið um borð og handtekið X klukkan 11:45.

          Samkvæmt nánari gögnum sem liggi skráningu þessari til grundvallar sjáist að X sé eftirlýstur af héraðssaksóknara í Savonlinna í Finnlandi fyrir ætluð brot á finnskum hegningarlögum (nr. 39/1889 ásamt síðari breytingum til ársins 2003) en greinarnar séu nr. 25:2 og 33:1 og fjalli um sviptingu frelsis og skjalafals. Samsvarandi ákvæði íslenskra hegningarlaga væru 226. gr. og 155. gr.

          Skráning þessi frá 22. janúar 2004 í Schengen upplýsingakerfið skv. 95. gr. Schengen samningsins jafngildi beiðni um handtöku og gæslu í skilningi 16. gr. Evrópusamnings um framsal sakamanna frá 13. september 1957, sbr. 64. gr. Schengen samningsins. Í dag hafi svo borist á faxi evrópsk handtökuskipun nr. R 03/217 á finnsku þar sem nánari grein sé gerð fyrir sakarefni. Ensk þýðing sé væntanleg.

          X hafi í dag verið yfirheyrður og mótmæli hann því að verða framseldur til Finnlands. Lög nr. 7/1962 um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands Noregs og Svíþjóðar taki til þessa úrlausnarefnis og í samræmi við ákvæði 9. og 10. gr. laganna hafi dómsmálaráðuneyti verið kunngerð gögn málsins og embætti ríkissaksóknara gert viðvart.

          Í samræmi við 16. gr. laga nr. 7/1962 sé framangreind krafa áréttuð.

 

          Í gögnum málsins kemur fram að gefin hefur verið út handtökuskipun á Schengensvæðinu á hendur kærða af hálfu yfirvalda í Finnlandi.  Samkvæmt þeim gögnum er kærði grunaður um að hafa framið brot í Finnlandi er samsvara ákvæðum 226. gr. og 155. gr. alm. hegningarlaga nr. 19/1940.   Þá liggur fyrir í gögnum málsins að yfirvöld í Finnlandi áforma að leita eftir framsali á kærða til Finnlands vegna framangreindra brota kærða á finnskum hegningarlögum.  Um meðferð framsalsmála fer skv. lögum nr. 7/1962 um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar.  Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna má beita þvingunaraðgerðum laga um meðferð opinberra mála vegna kröfu um framsal með sama hætti og viðkomandi væri sakaður um samsvarandi brot hér á landi.  Samkvæmt. 1. mgr. 12. gr. laganna má við rannsókn út af framsalsbeiðnum beita þvingunaraðgerðum laga um meðferð opinberra mála. 

          Brot þau er kærði er grunaður um að hafa framið geta varðað hann fangelsisrefsingu.  Samkvæmt b lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála er unnt að úrskurða um gæsluvarðhald ef ætla má að kærði muni reyna að komast úr landi.  Við meðferð máls vegna beiðni um framsal er nærvera þess sem framsals er krafist yfir nauðsynleg vegna málsmeðferðarinnar, en vægari úrræði gætu reynst lögreglu haldlítil ef sá sem framsals er krafist yfir fer huldu höfði.  Verður því talið að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála sé fullnægt til að kærði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald á meðan krafa um framsal er til meðferðar á hendur honum hér á landi.   Verður því orðið við kröfu lögreglu um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett þannig að kærði sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. september 2004, kl. 16.00.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

          Kærði, X sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. september nk., kl. 16.00.