Hæstiréttur íslands
Mál nr. 629/2006
Lykilorð
- Skuldamál
- Aðfinnslur
- Málshraði
|
|
Miðvikudaginn 16. maí 2007. |
|
Nr. 629/2006. |
Vignir G. Jónsson hf. (Garðar Briem hrl.) gegn Pétursey ehf. (Grétar Haraldsson hrl.) |
Skuldamál. Aðfinnsla. Málshraði.
V hf. keypti hrogn af S ehf. fyrir milligöngu H ehf. meðal annars á árinu 2001. P ehf. fékk greiðslukröfuna framselda frá S ehf. og krafði V hf. um andvirði hrognanna. Krafan byggði á viðskiptareikningi V hf. í bókhaldi S ehf. en á hann höfðu verið færðar breytingar á viðskiptunum sem V hf. hafði gert með svonefndum afreikningum í mars 2001 er V hf. flutti þá af H ehf á S ehf. Með því að gera þessa tilfærslu taldist V hf. hafa samþykkt skyldu sína til að gera viðskiptin beint upp við S ehf. og að ekki hefði verið sýnt fram á að þetta samþykki hefði verið bundið skilyrðum. Taldist V hf. því hafa skuldað S ehf. fjárhæðina sem viðskiptareikningurinn hljóðaði um, eftir að fyrrgreind breyting var gerð á skráningu viðskiptanna. Inn á viðskiptareikninginn hafði verið bókuð nánar tilgreind innborgun 1. mars 2001, sem studdist við kvittun um greiðslu inn á bankareikning S ehf., en þá greiðslu hafði S ehf. fært til baka síðar með leiðréttingarfærslu. Í málinu naut ekki gagna um að sú fjárhæð hefði verið greidd út við leiðréttingarfærsluna. Hafði P ehf., sem leiddi rétt sinn frá S ehf., ekki sýnt fram á réttmæti þeirrar færslu og var skuld sú sem P ehf. krafði V hf. um því lækkuð sem þeirri fjárhæð nam. Var varakrafa P ehf. í málinu tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. desember 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að sér verði ekki gert að greiða stefnda hærri fjárhæð en 701.119 krónur og málskostnaður látinn niður falla.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu krefur stefndi áfrýjanda um andvirði hrogna sem áfrýjandi keypti af Sæhamri ehf. á árinu 2001 fyrir milligöngu Hlíðardals ehf. Stefndi fékk kröfu Sæhamars ehf. framselda og er ekki ágreiningur um aðild hans að málinu.
Stefndi byggði kröfu sína í héraði á viðskiptareikningi áfrýjanda í bókhaldi Sæhamars ehf. á árunum 2001 og 2002. Á þann viðskiptareikning höfðu verið færðar þær breytingar á viðskiptunum sem áfrýjandi hafði gert með svonefndum afreikningum í mars 2001 er hann flutti þá af Hlíðardal ehf. á Sæhamar ehf. Með því að gera þessa tilfærslu telst áfrýjandi hafa samþykkt skyldu sína til að gera viðskiptin beint upp við Sæhamar ehf. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að þetta samþykki hafi verið bundið skilyrði, sem ekki hafi gengið eftir, og að honum hafi þess vegna verið heimilt án samþykkis Sæhamars ehf. að gera millifærslu af viðskiptareikningi Sæhamars ehf. í mars 2002 í því skyni að fella niður bókaða skuld sína við hann. Leiðir þetta til þess að áfrýjandi telst hafa skuldað Sæhamri ehf. fjárhæðina sem viðskiptareikningurinn hljóðaði um, eftir að fyrrgreind breyting var gerð á skráningu viðskiptanna.
Á viðskiptareikning áfrýjanda hjá Sæhamri ehf. er 1. mars 2001 bókuð innborgun 1.400.000 krónur. Í málinu liggur fyrir kvittun sem sýnir þessa greiðslu inn á bankareikning Sæhamars ehf. Hinn 30. apríl 2001 færði Sæhamar ehf. greiðsluna til baka með leiðréttingarfærslu. Studdist hún við fylgiskjal í bókhaldi hans, sem sérstaklega var útbúið í þessu skyni, og varð skuld áfrýjanda við færsluna hærri sem þessari fjárhæð nam. Í málinu nýtur ekki gagna um að stefndi hafi greitt fjárhæðina út þegar færslan var gerð og hann hefur ekki gefið sérstakar skýringar á tilefni hennar. Hefur hann því ekki sýnt fram á réttmæti færslunnar og verður skuld sú sem hann krefur áfrýjanda um í málinu lækkuð sem þessari fjárhæð nemur.
Samkvæmt framansögðu verður varakrafa áfrýjanda tekin til greina og dráttarvextir dæmdir frá 28. febrúar 2003 en þá var mánuður liðinn frá dagsetningu innheimtubréfs stefnda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda upp í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Mál þetta var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. mars 2005. Áfrýjandi fékk þá frest til 14. apríl 2005 til að leggja fram greinargerð sbr. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Síðan var málinu frestað á reglulegu dómþingi héraðsdómsins átta sinnum í sama skyni, þar til greinargerðin var loks lögð fram 15. desember 2005. Þessi málsmeðferð er í andstöðu við meginreglu réttarfars um hraða meðferð máls og er aðfinnsluverð.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Vignir G. Jónsson hf., greiði stefnda, Pétursey ehf., 701.119 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2003 til greiðsludags og samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. ágúst 2006, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Pétursey ehf., kt. 680593-2569, Flötum 31, Vestmannaeyjum, gegn Vigni G. Jónssyni ehf., kt. 681293-3299, Smiðjuvöllum 4, Akranesi, með því að sótt var þing af hálfu stefnda er málið var þingfest 3. mars 2005.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 2.101.119 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 16. maí 2002 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Stefnandi greinir frá málsatvikum og málsástæðum sínum á þann veg að umkrafin skuld sé samkvæmt reikningsyfirliti Sæhamars ehf. yfir viðskipti við stefnda, Vigni G. Jónsson ehf., á árunum 2001 og 2002. Sæhamar ehf. sé útgerðarfélag en verkun á fiski hafi Hlíðardalur ehf. séð um. Vignir G. Jónsson ehf. hafi keypt hrogn af Sæhamri ehf. en Hlíðardalur ehf. hafi séð um afhendinguna. Við móttöku hrognanna hafi Vignir G. Jónsson ehf. gert svokallaða afreikninga vegna viðskiptanna, en upphaflega hafi orðið þau mistök að þeir voru gerðir á Hlíðardal ehf. en hið rétta hafi verið að seljandi þeirra var Sæhamar ehf. Þetta hafi síðan verið leiðrétt.
Greint er frá því að viðskiptin hafi gengið vel fyrir sig árið 2001 en árið eftir hafi Vignir G. Jónsson ehf. farið að skulda Sæhamri ehf. Samkvæmt viðskiptamanna-bókhaldi Sæhamars ehf. hafi Vignir G. Jónsson ehf. í lok viðskiptanna 16. apríl 2002 skuldað Sæhamri ehf. stefnufjárhæðina, 2.101.119 kr. Dráttarvaxta sé krafist frá 16. maí 2002, en þá hafi mánuður verið liðinn frá því að síðasti afreikningurinn var gefinn út. Innheimtubréf hafi verið sent 28. janúar 2003. Félagið Sæhamar ehf. hafi verið selt 2003 og af því tilefni hafi krafan verð framseld stefnanda, Pétursey ehf., 1. júlí 2003, en Pétursey ehf. sé félag í eigu fyrri eigenda Sæhamars ehf.
Í stefnu segir að í yfirliti sem Vignir G. Jónsson ehf. hafi útbúið og sent lögmanni stefnanda komi fram að hinn 25. mars 2002 hafi félagið fært í bókhaldi sínu fjárhæðina 2.509.085 kr. En með þessari færslu „virðist félagið vera að skuldajafna kröfu sem það átti á Hlíðardal ehf. á móti skuldinni við Sæhamar ehf.“ Þessari færslu sé mótmælt sem lögleysu. Því sé harðlega mótmælt sem fram komi í bréfi lögmanns stefnda að félögin tvö hafi verið rekin samhliða og rekstur þeirra blandist saman. Um aðskilin fyrirtæki sé að ræða. Umrædd færsla hafi verið færð í bókhaldi stefnda þegar halla tók undan fæti fyrir Hlíðardal ehf. „og virðist vera um að ræða tilraun félagsins til að yfirfæra tapaða viðskiptakröfu yfir á Sæhamar ehf.“ Þá er í stefnu skorað á stefnda að leggja fram þau gögn er liggi að baki umræddri færslu.
Ályktað er af hálfu stefnanda að mismunur á skuld stefnda og færslu stefnda í bókhaldi sínu að fjárhæð 2.509.085 kr., sem áður var getið, eigi sér skýringu í ákveðnu misræmi í bókhaldi fyrirtækjanna. Líti út fyrir að stefndi hafi ekki bókfært greiðslu til Sæhamars ehf. 19. janúar 2001 að fjárhæð 206.506 kr. Þá líti út fyrir að Sæhamar ehf. hafi ekki bókfært 2. maí 2001 afreikning að fjárhæð 201.541 kr. Loks hafi greiðsla að fjárhæð 222.367 kr. verið bókuð 15. júní 2001 hjá stefnda sem 222.437 kr. og sé því mismunurinn 80 kr. Líti þannig út að færslu stefnda að fjárhæð 5.509.085 kr. megi skýra þannig: 2.101.119 + 206.506 + 201.541 80 = 2.509.086. Stefndi hafi tekið nákvæma stöðu skuldarinnar við Sæhamar ehf. í bókhaldi sínu og þurrkað hana út með kröfu á Hlíðardal ehf.
Málavexti telur stefndi, Vignir Jónsson ehf., vera helstu þá að bræðurnir Hörður og Guðjón Rögnvaldssynir hafi rekið útgerð og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum. Fyrirtækið Sæhamar ehf., í eigu Guðjóns, hafi gert út nokkra báta en fyrirtækið Hlíðardalur ehf., í eigu Harðar, hafi séð um verkun og sölu afla. Hlíðardalur ehf. hafi selt stefnda þorskhrogn frá upphafi árs 2000, en stefndi hefði um langt árabil framleitt ýmsar vörur úr hrognum til útflutnings og aflað til þess hráefnis víðsvegar af landinu, aðallega frá fiskverkendum. Hlíðardalur ehf. hefði keypt afla, þ.m.t. hrogn úr bátum bæði í eigu Sæhamars ehf. og annarra, og selt þorskhrogn af þeim afla til stefnda. Hlíðardalur ehf. hafi síðan séð um að gera upp viðskipti við þá aðila sem selt höfðu félaginu þorskhrognin.
Greint er frá því að Hörður Rögnvaldsson hafi eingöngu átt samskipti við Vigni Jónsson ehf. þar til á fyrrihluta aprílmánaðar 2001. Félagið hafi engin samskipti átt við Guðjón Rögnvaldsson. Hafi sá háttur verið hafður á, er tíðkist nær einvörðungu í viðskiptum með fiskafurðir, að móttakandi afurðanna gaf út reikning, svokallaðan afreikning, í stað þess að seljandi gæfi út reikning fyrir fiskafurðina. Nánast undan-tekningarlaust hafi verið, að peningagreiðsla hefði komið frá stefnda á móti hverjum afreikningi, í þeim viðskiptum sem hér um ræðir, en töluverð viðskipti hefðu átt sér stað milli Hlíðardals ehf. og stefnda allt árið 2000 og þar til í byrjun apríl 2001.
Í greinargerð segir að í lok mars [2001], þegar vertíð var að ljúka, hafi Hörður Rögnvaldsson óskað eftir því að tilteknir afreikningar vegna hrogna úr afla úr þremur bátum Sæhamars ehf. yrðu bakfærðir á Hlíðardal ehf. og endurútgefnir á Sæhamar ehf. Þá hafi Hörður einnig óskað eftir því að greiðslur yrðu bakfærðar af Hlíðardal ehf. yfir á Sæhamar ehf. Þá segir að forsvarsmenn stefnda hafi orðið þess áskynja síðar að greitt hefði verið í nokkur skipti inn á bankareikning Sæhamars ehf. vegna afreiknings á hendur Hlíðardals ehf. að beiðni Harðar án þess að þeir hefðu gert sér grein fyrir því að um reikning Sæhamars ehf. var að ræða. Á þessum tíma hafi verið búið að greiða fyrir nánast öll hrogn sem stefndi keypti á vertíðinni. Síðan segir orðrétt:
Hörður staðhæfði við forsvarsm. stefndu að Hlíðardalur ehf. hefði greitt greiðslur vegna afla í viðskiptum félaganna sem síðastnefndu greiðslur ná ekki til, yfir til Sæhamars ehf. Var bakfærslan síðan gerð á þeirri forsendu.
Var þá stofnaður viðskiptamaðurinn Sæhamar ehf. og þessar breytingar gerðar og þar með búin til skuld á stefnda á upphæð sem búið var að greiða til Hlíðardals ehf.
Í byrjun apríl 2001 hefur Guðjón samband við forsvarsmann stefnda og segist ekki hafa fengið greitt fyrir öll hrogn frá Herði bróður sínum í Hlíðardal ehf. og biður stefnda að tala við hann fyrir sig, sem hann og gerði.
Guðjón fór jafnframt fram á að viðskiptin þaðan í frá yrðu við Sæhamar ehf. beint.
Eftir þetta minnkuðu viðskipti við Hlíðardal ehf. verulega en urðu talsverð við Sæhamar ehf., reyndar næstu vertíðar.
Harðlega er mótmælt staðhæfingum í stefnu þess efnis að viðskipti hafi átt sér stað milli Sæhamars ehf. og stefnda fyrstu þrjá mánuði ársins 2001. Staðreyndin er sú að þau voru engin.
Staðhæft er að Guðjón Rögnvaldsson hafi tjáð stefnda síðar að honum gengi illa að fá uppgjör frá Hlíðardal ehf. og hafi hann kvartað yfir því án þess þó að gera nokkru sinni kröfu um greiðslu frá stefnda, enda hafi hann vitað að Hlíðardalur ehf. hafði fengið greiðslu fyrir öll hrognin.
Fullyrt er að Guðjón hefði fyrst í mars 2002 gefið til kynna að hann teldi stefnda skulda Sæhamri ehf. Forsvarsmenn stefndu hafi þá talið forsendur brostnar fyrir bakfærslum þar sem sú fullyrðing hefði reynst röng að uppgjör hefði farið fram milli félaganna. Hafi þeir þá bakfært fjárhæð sem samsvarar mismun þeirrar færslna, sem gerðar höfðu verið 30. mars 2001, og hafi það verið gert með millifærslu í bókhaldi hinn 25. mars 2002, að fjárhæð 2.509.085 kr. Afrit af viðskiptayfirliti sem sýndi bakfærslu þessa hafi umsvifalaust verið sent til beggja fyrirtækjanna í Vestmannaeyjum. Reyndar hafi þau mistök verið gerð að hin millifærða upphæðin var ekki rétt. Fjárhæðin hefði átt að reiknast þannig:
Færðir afreikningar samtals vegna 6 vörusendinga samtals 9.382.817,88 kr.
Færðar þrjár innborganir 6.400.000,00 kr.
Mismunur 2.982.817,88 kr.
Þá hefði átt að taka tillit til innborgunar í febr. sem bókfærð
hafði verið á Sæhamar ehf. skv. beðni Harðar 172.835,00 kr.
Bakfærslan hefði því með réttu átt að vera 2.809.982,88 kr.
en ekki 2.509.085,00 kr.
Greint er frá því að forsvarsmenn Sæhamars ehf. hafi ekki viðurkennt framangreinda bakfærslu. Þá hafi þeir heldur ekki skýrt hvers vegna bakfærð er úr bókum Sæhamars ehf. hinn 30. apríl 2001 færsla milli fyrirtækjanna 1. mars 2001 vegna greiðsla fyrir hrogn að fjárhæð 1.400.000 kr., sbr. dskj. 3. En staðhæft er að á fundi á skrifstofu Lögheimtunnar sl. haust hafi Guðjón Rögnvaldsson staðfest að greiðslan hefði verið vegna hrogna sem stefndi fékk. Samkvæmt bókhaldi stefnda sé stefndi skuldlaus við Sæhamar ehf., en viðskiptareikningur stefnda í bókhaldi Hlíðardals ehf. hafi ekki verið lagður fram í málinu.
Stefndi vísar til þess að 21. desember 2001 hafi stefndi og Sæhamar ehf. komist að samkomulagi um að stefndi greiddi Sæhamri ehf. 1.000.000 kr. fyrir fram fyrir þorskhrogn. Í 6. gr. samkomulagsins sé þess sérstaklega getið að óheimilt sé að blanda viðskiptum skv. samkomulaginu við önnur viðskipti þ.á m. mál sem sprottið sé af kaupum stefnda á hrognum af Hlíðardal ehf. sem eigi uppruna sinn úr afla Sæhamars ehf.
Þar sem forsvarsmenn stefnda hefðu ekki heyrt frá Guðjóni Rögnvaldssyni síðan í lok vertíðar árið 2002, hefði það komið þeim verulega á óvart að fá innheimtubréf, dags. 28. janúar 2003, frá Lögheimtunni vegna Sæhamars ehf. þar sem krafist er greiðslu að fjárhæð 3.090.961 kr. vegna tiltekinna vörusendinga.
Stefndi byggir á því að um hafi verið að ræða samfelld óslitin viðskipti við tvö fyrirtæki í rekstri tveggja bræðra þar sem annað fyrirtækið tekur við af hinu. Nær undan-tekningarlaust hafi vörukaup verið gerð upp strax í tengslum við afhendingu vörusendingar. Mál þetta sé sprottið af millifærslum (bakfærslum) sem stefndi hafi sjálfur gert í bókhaldi sínu að ósk Harðar Rögnvaldssonar eftir orðum hans „til að þær færslur verði í bókhaldi Sæhamars ehf. og að hann sé búinn að gera upp við það félag til fulls“.
Byggt er á því að óumdeilt sé að stefndi hafi greitt fyrir alla þá vöru sem hann hafi keypt.
Þá er byggt á því að stefndi hafi framkvæmt nefndar bakfærslur 30. mars 2001 á þeirri forsendu að tilteknar færslur og greiðslur hefðu átt sér stað milli fyrirtækja bræðranna svo sem staðhæft hefði verið. Guðjón Rögnvaldsson hafi átt frumkvæðið að því að færslan var gerð. Að minnsta kosti hafi hann verið með í ráðum og vitað um ástæðuna fyrir færslunni. Hér sé um brostna forsendu að ræða og geti færslan ekki verið skuldbindandi fyrir stefnda. Í ljósi þess hvers eðlis viðskiptanna voru hafi stefnda verið fullkomlega heimilt að endurfæra bakfærslurnar í fyrra horf.
Byggt er á því að forsvarsmenn stefnda hafi fyllst reiði og látið óspart í ljós óánægju sína með að hafa verið fengnir til að bakfæra greiðslur og mynda þannig sjálfir skuld fyrirtækis síns við annað fyrirtæki vegna hrogna sem stefndi var löngu búinn að greiða, svo sem Guðjóni hafi verið kunnugt um. Hafi þetta verið ósanngjarnt og reyndar ósvífni af honum að ætlast til þess að stefndi tvígreiddi sömu hrognin. Bakfærsla aftur til Hlíðardals ehf. hafi því verið hið rétta úrræði við þessar aðstæður.
Vísað er til þess að í byrjun apríl 2001 hafi Guðjón Rögnvaldsson komið að máli við forsvarsmann stefnda og beðið hann að aðstoða sig við að ýta á það að Hörður greiddi skuld Hlíðardals ehf. vegna hrogna. Hafi þetta vakið furðu forsvarsmanns stefnda og lokist upp fyrir honum að greiðslur hefðu ekki gengið milli fyrirtækjanna með þeim hætti sem fullyrt hafði verið. En um leið hafi honum einnig orðið ljóst að Guðjón taldi Hlíðardal ehf. réttan skuldara Sæhamars ehf.
Bent er á að í mars 2002, er hagur Hlíðardals ehf. fór versnandi, hafi kröfum skyndilega verið snúið á hendur stefnda. Félagið hafi síðan verið úrskurðað gjaldþrota 17. mars 2004.
Tekið er fram að fyrir liggi í gögnum málsins að Hlíðardalur ehf. hafi hinn 1. mars 2002 þegar verið búiinn að greiða Sæhamri ehf. 1.400.000 kr. vegna hrogna á vertíð sem þá var að ljúka. Ekki hafi staðið til að Hlíðardalur ehf. yrði lengur seljandi hrogna frá útgerð Sæhamars ehf. til stefnda eftir að umræddar bakfærslur höfðu átt sér stað.
Byggt er á því að viðskipti hafi ekki hafist milli Sæhamars ehf. og stefnda fyrr en eftir bakfærslurnar. Engu breyti hvernig Sæhamar ehf. færir bókhald sitt hvað þetta varðar. Fyrir liggi að greitt hafi verið beint til Sæhamars ehf. snemma árs 2001 að beiðni Hlíðardals ehf.
Byggt er á því að bókhald Sæhamars ehf. geti ekki talist réttur grunnur í máli þessu því að þar séu bókfærð viðskipti félaganna áður en viðskipti hófust milli þeirra og stefndi keypti enn hrogn af Hlíðardal ehf. Af hálfu stefnda er talið að ákvæði 6. gr. samkomulags Sæhamars ehf. og stefnda um sölu þorskhrogna til stefnda frá 21. desember 2001, sbr. dskj. nr. 13, sé viðurkenning Sæhamars ehf. á því að hrognaviðskipti stefnda hafi verið við Hlíðardal ehf. en ekki Sæhamar ehf. fram til 30. mars 2001. Á framlögðum reikningum flutningsaðila, vegna þeirra viðskipta sem hér um ræðir, komi nafn Sæhamars ehf. ekki fram. Hlíðardalur ehf. sé tilgreindur sem eigandi farmsins.
Guðjón Ragnar Rögnvaldsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann kvaðst vera framkvæmdastjóri stefnanda. Dskj. nr. 3 og 4, sem eru útskrift úr viðskiptamannabókhaldi Sæhamars ehf. ásamt fylgiskjölum, voru lögð fyrir Guðjón. Guðjón kvaðst ekki vita betur en þar væri um réttar færslur að ræða samkvæmt viðskiptareikningum.
Guðjón sagði m.a. að félagið Sæhamar ehf. hafi verið stofnað 1988. Verkefni þess hafi verið útgerð og skyld starfsemi. Veitt hafi verið og afla landað í fiskverkanir í eyjum [Vestmannaeyjum]. Hann kvað starfsemi Sæhamars ehf. ekkert hafa breyst við stofnun félagsins Hlíðardals ehf. Guðjón kvaðst hafa stjórnað félaginu Sæhamri ehf. í gegnum árin. Hann kvað Hörð, bróður sinn, ekki hafa komið að stjórn Sæhamars ehf. Hann sagði að félagið hefði átt bátana Gjafar og Guðrúnu á árinu 2001.
Guðjón sagði að Hlíðardalur ehf. hefði verið fiskvinnslufyrirtæki. Hann kvaðst ekki hafa átt hlut í félaginu.
Aðspurður kvaðst Guðjón fyrst hafa átt samskipti við forsvarsmenn stefnda á árinu 2001, seinni hluta vertíðar, en þá hafi hann ekki fengið greiðslu fyrir hrognin.
Lagt var fyrir Guðjón dskj. nr. 3 og vísað til meðfylgjandi fylgiskjals, myndrits af reikningi/afreikningi, dags. 30.03.01, nr. 002590. Kvað Guðjón þetta vera hefðbundið form í viðskiptum með fisk, gefnir væru út afreikningar. Kaupandinn hefði gefið út reikninginn, ekki seljandinn. Hann sagði að afreikningurinn væri byggður á vigtun uppi á Akranesi, en umboðsmaður kaupanda hefði tekið við hrognunum og séð um þetta. Umboðsmaðurinn, Hörður, hafi verið staðsettur í eyjum.
Aðspurður kvaðst Guðjón ekki þora að fara með það, hvort hann hefði fengið tilkynningu um vigtunina áður en afreikningurinn var gefinn út. Hann kvaðst þó halda að hann hefði verið í sambandi við Sigríði [Sigríði Eiríksdóttur, starfsmanns stefnanda] og hafi hún gefið honum upp vigtina. Guðjón sagði að afreikningur hefði borist um leið og greitt var.
Lagt var fyrir Guðjón og vísað til myndrita af sex reikningum/afreikningum, sem fylgja dskj. nr. 3, að fjárhæð 105.815 kr., 3.436.365 kr., 319.189 kr., 114.804 kr., 4.901.202 kr. og 504.444 kr. Lögmaður stefnda benti á að þessir reikningar væru allir með sömu dagsetningu og spurði hann Guðjón, hvort hann vissi að þessir reikningar hefðu áður verði færðir á Hlíðardal ehf. Kvaðst Guðjón hafa vitað það þegar greiðsla barst ekki til hans. Hafi honum verið tjáð [af hálfu stefnda] að peningarnir hefðu verið sendir Hlíðardal ehf. og kvaðst hann halda að þá hafi bakfærsla farið fram.
Lögmaður stefnda spurði Guðjón hvaða skýringu hann gæti gefið á því að á dskj. nr. 3 komi fram [debet]færslur á sex reikningum af sömu fjárhæðum og áður greindi með dags. 5. mars 2001, 5. mars 2001, 12. mars 2001, 20. mars 2001, 20. mars 2001 og 26. mars 2001. Guðjón kvaðst halda að afreikningar hafi verið gefnir út á Hlíðardal ehf. [með þessum dagsetningum] og síðar verið bakfærið á Sæhamar ehf. með óbreyttum dagsetningum 30. mars 2001.
Lagt var fyrir Guðjón dskj. nr. 23, sem er myndrit fjögurra [óbókfærðra] reikninga/afreikninga á Hlíðardal hf., dags. 12.02.01, að fjárhæð 1.232.899 kr., dags. 19.02.01, að fjárhæð 40.442 kr., dags. 19.02.01, að fjárhæð 304.409 kr. og dags. 26.02.01, að fjárhæð 564.443. Aðspurður kvað Guðjón reikningana fjalla um afla úr skipum Sæhamars ehf. Með vísun til þess að hann sæi ekki þessa reikninga á dskj. nr. 3, spurði lögmaður stefnda Guðjón, hvort hann hefði fengið þessar greiðslur frá Hlíðardal ehf. Kvaðst Guðjón ekki geta svarað því og benti á að reikningarnir væru stílaðir á Hlíðardal ehf., en hann hafi átt skipin. Hann kvaðst og ekki geta svarað þeirri spurningu lögmannsins, hvort þessir reikningar hefðu komið fram á viðskiptareikningi Hlíðardals ehf. hjá Sæhamri ehf.
Lögmaður stefnda fór fram á að Guðjón skýrði [kredit]færslur á stefnda á dskj. nr. 3, að fjárhæð 1.400.000 kr. 1. mars 2001, 1.400.000 kr. 2. mars 2001, 1.500.000 kr. 9. mars 2001 og 3.500.00 kr. 15. mars 2001. Lögmaðurinn sagði að þessar þrjár síðastnefndu greiðslur hefðu verið færðar til Sæhamars ehf. en þær nái ekki að vera sömu fjárhæðar og þær sex færslur sem afreikningar hafi verið gerðir um 30. mars 2001. Lögmaðurinn sagði að þarna væri skekkja í bókhaldinu og þar sem Guðjón muni hafa kvartað við Sigríði þá væri spurt hverju hún hefði svarað.
Guðjón kvaðst ekki hafa haft samband við Sigríði út af [bókhalds]skekkju. Hann hefði haft samband við Sigríði vegna þess að honum hefði ekki borist tilskilin greiðsla frá stefnda. Sigríður hafi tjáð honum að hún hefði greitt Hlíðardal ehf. Hafi hann sagt henni að hann héldi að viðskiptin væru við Sæhamar ehf. Hafi hann viljað fá greiðslu. Aðspurður kvaðst hann hafa sagt Herði að skila sér peningum, væri hann búinn að fá þá frá stefnda. Hörður hefði tjáð honum að það væri ekki rétt og borið við að hann væri með viðskipti fyrir fleiri báta og væri hann ekki búinn að fá greitt frá stefnda. Kvaðst hann ekki hafa vitað hvað fram fór milli Harðar og Sigríðar. Guðjón kvaðst hafa fundið að því að reikningarnir voru stílaðir á Hlíðardal ehf. en ekki á Sæhamar ehf. Þess vegna hefðu þessar bakfærslur farið fram og verið útbúnir nýir reikningar. Hafi hann beðið Hörð um að tala við Sigríði út af þessu.
Lögmaður stefnda sagði að síðan hafi það gerst að Sigríður hefði bakfært 25. mars 2002 [millifært] 2.509.085 kr., sbr. dskj. nr. 11. Spurði hann Guðjón hvort hann hefði verið búinn að gera einhverjar innheimtutilraunir eða einhverjar aðgerðir áður en þessi færsla átti sér stað aðrar en þær sem hann hefði lýst. Guðjón kvaðst ekkert vita um þetta skjal. Lögmaður stefnanda vísaði þá til kreditfærslu 1. mars 2001 á dskj. nr. 3, 1.400.000 kr. og debetfærslu 30. apríl 2001, 1.400.000 kr. Spurði hann Guðjón, hver væri skýringin á þessu en enga skýringu væri að finna í fylgiskjölum. Guðjón kvaðst ekkert vita um þetta.
Sigríður Eiríksdóttir gaf skýrslu fyrir rétti. Hún sagði m.a. að félagið Vignir G. Jónsson ehf. hafi verið stofnað 1970 og hafi eingöngu verið með viðskipti í hrognum, verkun og fullvinnslu til útflutnings. Lagt var fyrir Sigríði dskj. nr. 3 og vísað til meðfylgjandi fylgiskjals, myndrits af reikningi/afreikningi, dags. 30.03.01, nr. 002590. Kvað hún þetta vera hefðbundið form á reikningum þegar verslað væri með fiskafurðir. Venja væri að geta þar skipsins, sem veitt hefði aflann, ef skipið bæri ekki sama nafn og fyrirtækið, sem ræki skipið. Reikningnum fylgdi innleggsnóta þar sem greint væri hvaða dag aflinn hefði borist og magn hans. Magn aflans kæmi fram á vigt hjá kaupandanum.
Sigríður sagði m.a. að viðskipti stefnda við Hörð/Hlíðardal ehf. hefðu hafist í ársbyrjun 2000. Hörður hefði haft samband við Eirík Vignisson og óskað eftir viðskiptum. Síðan hafi Hörður hringt í sig og gefið sér upp nafn og kennitölu Hlíðardals ehf. sem viðskiptavinar. Hafi hún skráð það í bókhaldi hjá sér og fyrstu afreikningarnir hefðu verið gerðir á Hlíðardal ehf. árið 2000. Í lok febrúar hafi Hörður hringt í hana og sagt að hann vildi breyta fyrirtækinu í Sæhamar. Hafi hún þá breytt þessum viðskiptavini sínum í Sæhamar og hafi viðskiptin haldið áfram. Í árslok 2000 hafi Hörður hringt aftur og sagt henni að hann vildi breyta fyrirtækinu aftur í Hlíðardal og hafi hún gert það. Þetta hafi gengið allt árið 2001 og hafi hún þá gert alla afreikninga á Hlíðardal, en Hörður í Hlíðardal hafi verið með sex báta á sínum snærum og hver og einn afreikningur hafi verið merktur hverjum bát fyrir sig til að auðvelda honum uppgjör. Hafi hún ekkert heyrt af Guðjóni nema það sem Hörður hefði tjáð henni. Hún hafi vitað að Guðjón átti líklega þrjá af þessum bátum. Hörður hefði sagt henni að Guðjón ætti Gjafar, Guðrúnu og Pétursey, en Guðjón hefði sagt að hann ætti einungis Gjafar og Guðrúnu.
Sigríður sagði, að eftir að umræddum bakfærslum hafi lokið, hafi Guðjón hringt og sagt henni að hann vildi hafa viðskipti beint. Þá fyrst hafi hún stofnað annað fyrirtæki sem heitir Sæhamar með annarri kennitölu og hafi viðskiptin af bátum hans upp frá því verið við Guðjón út árið 2002. Viðskiptum við Hörð hafi lokið nánast í vertíðarlok 2001.
Sigríður sagði að það sem eftir lifði vertíðar í apríl 2001 hafi allir afreikningar af Guðrúnu, Gjafari og Pétursey verið gerðir beint á Sæhamar, en aftur hafi afreikningar af Þorra, Svanborgu og einum öðrum bát verið gerðir á Hlíðardal.
Lagt var fyrir Sigríði dskj. nr. 25, sem er uppfletting hreyfinga viðskiptamannbókhalds Hlíðardals hf. hjá stefnda 25. janúar 2000 til 17. júlí 2002, dags. 14. febrúar 2005 með nokkrum handrituðum útstrikunum og breytingum. Sigríður sagði að skjal þetta sýndi viðskiptin við Hlíðardal. Við árslok 2000 hafi stefndi greitt Hlíðardal 484.000 kr. of mikið, sem hafi verið flutt yfir. Síðan hafi hún sleppt millifærslunum og bakfærslunum sem gerðar voru yfir á Sæhamar og þá sýni þetta án efa að öll hrogn voru greidd til Hlíðardals fyrir vertíðina 2001. Full skil hafi alltaf verið við Hlíðardal á öllum hrognum, frekar greitt fyrir fram heldur en ekki.
Lagt var fyrir Sigríði dskj. nr. 23, sem er myndrit fjögurra [óbókfærðra] reikninga/afreikninga stefnda á Hlíðardal hf., dags. 12.02.01, að fjárhæð 1.232.899 kr., dags. 19.02.01, að fjárhæð 40.442 kr., dags. 19.02.01, að fjárhæð 304.409 kr. og dags. 26.02.01, að fjárhæð 564.443. Sigríður sagði að þessir afreikningar hefðu verið greiddir til Hlíðardals. Raunar hafi allir reikningarnir verið greiddir til Hlíðardals nema þessar þrjár greiðslur er koma fram á bls. 2 á dskj. nr. 25, þ.e. 2. mars 2001 eru greiddar til Sæhamars 1.400.000 kr., 9. mars 2001 1.500.000 kr. og 15. mars 2001 3.500.000 kr. Þetta hafi gerst vegna þess að Hörður hafi hringt til hennar og spurt hana, hvort hún gæti ekki greitt beint inn á reikning Guðjóns í Reykjavík, þar sem Guðjón væri í Reykjavík að kaupa kvóta og væri hann í vandræðum og myndi missa af kvótanum, gæti hann ekki greitt fyrir hann eins og skot. Kvaðst Sigríður hafa orðið við þessari bón. Hafi henni ekki fundist neitt óeðlilegt við það. Siður sé í þessum viðskiptum að menn hringi og biðji um að borga olíufélaginu, borga vél, sem þeir voru að kaupa í bátinn, o.s.frv. Stefndi sé búinn að vera í þessum viðskiptum í þrjátíu og fimm ár. Aldrei hafi komið fyrir að vefengt hafi verið að greiðsla hefði farið fram.
Sigríður sagði að Guðjón hefði mæta vel vitað að stefndi var búinn að greiða Herði. Guðjón hefði beðið hana um að tala við Hörð til þess að biðja Hörð að borga honum. Hafi hún reynt það eins og hún gat.
Aðspurð kvaðst Sigríður hafa greitt áðurnefndar þrjár greiðslur til Sæhamars 2001 á grundvelli afreikninga sem hún gerði á Hlíðardal og færði inn á viðskiptareikning Hlíðardals vegna þess Hlíðardalur hafi verið í viðskiptum við stefnda en ekki Sæhamar á þessum tíma. Umræddar 1.400.000 kr., sem bókfærðar eru á Hlíðardal, en þetta hafi verið sinn hvern daginn. Hörður hefði hringt fyrri daginn og beðið um þessar 1.400.000 kr., sem hann hefði reyndar sagt að væru handa Guðjóni. Hafi Hörður tjáð henni að peningarnir hefðu farið í bankann og beint inn á reikninginn hjá Guðjóni. Reikni hún með að þar séu þær 1.400.000 kr. sem stendi að séu frá Hlíðardal í fylgiskjalinu.
Lagt var fyrir Sigríði dskj. nr. 23, svokallaðir óbakfærðir afreikningar, sem er myndrit af fjórum afreikningum stefnda á Hlíðardal hf. sem áður var getið. Lögmaður stefndu spurði, hvers vegna þessir reikningar hefðu ekki verið bakfærðir eins og þeir sex afreikningar sem áður var getið um. Sigríður kvaðst halda, er hún hugsi til baka, að það hafi verið í upphafi árs 2001 alveg fram til 19. mars eða miðjan mars sem Hlíðardalur hafi gert upp við Sæhamar. Þá hafi farið að harðna á dalnum hjá honum og hann hringt í hana og beðið hana um að bakfæra reikninga af þessum bátum Sæhamars á Sæhamar og líka þær greiðslur sem hún hafði borgað Sæhamri sannanlega í bókhaldinu. Vísaði Sigríður til dskj. nr. 21 og 22 í þessu sambandi. Hafi hún raunar tekið þessa reikninga aftur út úr bókhaldi Hlíðardals og fært þá yfir á Sæhamar og líka greiðslurnar. Mismunurinn á þessum bakfærðu reikningum og þeim peningum sem hún hafði sannanlega borgað Sæhamri séu þessar 2.500.000 kr. sem þarna séu færðar á milli vegna þess að hún hafi verið búin að borga þær til Hlíðardals.
Sigríður sagði að þegar Hörður hefði beðið sig um þetta þá hafi hann fullvissað hana um að hann væri fullkomlega búinn að gera upp við Guðjón. Henni hafi fundist þetta svolítið skrítið en gert það samt sökum þess að þau hefðu átt viðskipti við hann í tvö ár og allt hefði svo sem gengið vel.
Lagt var fyrir Sigríði dskj. nr. 11, sem tjáist vera uppfletting hreyfinga viðskiptamannabókhalds stefnda varðandi Sæhamar ehf. Skjalið ber með sér handritaðar tölur aukalega og jafnframt eru tölur strikaðar út. Sigríður benti á að á bls. 2 í skjalinu innan sviga komi leiðréttingin fram [25/03/02 Millifærsla 2.509.085,00] í debet. Á bls. 1 komi fram þrjár debet millifærslur 30. mars 2001, samtals að fjárhæð 6.400.000 kr., og þarna hafi hún í raun verið að búa til skuld á sjálfa sig upp á 2.800.000 kr. sem hún hefði greitt Hlíðardal. Hafi hún síðan leiðrétt þetta með 2.509.085 kr.
Sigríður sagði að Guðjón hefði hringt til sín eftir að þessar bakfærslur höfðu átt sér stað, rétt eftir mánaðamótin mars/apríl. Hafi hann sagt henni að Hörður væri ekki búinn að gera upp við sig. Hafi það komið henni mikið á óvart. Hafi hann beðið hana um að aðstoða sig við að tala við Hörð. Hafi hún hringt i Hörð og eins konu hans, Sigrúnu. Fyrst hafi þau fullvissað hana um að þau væru búin að þessu eins og þau hefðu sagt. Guðjón hefði hins vegar sagt annað. Hún hafi reynt eins og hún gat og tjáð þeim að þau yrðu að skila þessum peningum þangað, sem þeir ættu að fara. Guðjón hefði sagt henni að nú vildi hann að viðskiptin ættu sér stað milli hans og þeirra. Þá hafi hún stofnað viðskiptamann, Sæhamar nr. 344. Eftir það hefðu viðskiptin bara gengið milli Sæhamars og þeirra. Síðasti reikningurinn hafi verið gerður 2. maí og síðan hafi hann fengið 1.000.000 kr. fyrir fram 29. júní, en þá hafi ekkert verið rætt um þetta. Síðan hafi hann fengið 1.000.000 kr. fyrirframgreiðslu 21. desember 2001. Hafi þau keypt hrogn af honum allt árið 2002 og hafi allt gengið mjög vel fyrir sig. Hafi hann ekki minnst á þetta meir. Það hafi því komið eins og köld gusa þegar innheimtubréf kom frá lögmanni, sbr. dskj. nr. 6, dags. 28. janúar 2003.
Sigríður kvaðst aldrei hafa séð Guðjón fyrr en þau hittu hann á lögfræði-skrifstofunni. Hún hefði heldur aldrei talað við hann fyrr en hann hringdi til hennar eftir mánaðamótin mars/apríl [2001]. Ef hann hefði talið sig vera að selja þeim hrognin beint þá væri svolítið skrítið að hann skyldi hafa fengið Hörð til að hringi í þau til að fá greiðslu.
Eiríkur Vignisson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann væri framkvæmdastjóri stefnda. Hann sagði að aðdragandi þessa máls hafi verið, að 1999 hafi fyrirtæki, er Hörður var með, séð um að safna saman körum á vegum fiskmarkaðarins. Hafi hann safnað saman körum, sem voru eftirlegukindur hér og þar. Hafi hann á þeim tíma hitt Hörð og Hörður sagt honum að hann og bróðir hans væru með útgerð í Vestmannaeyjum og gerðu út bátinn Guðrúnu. Í framhaldi af því hafi verið farið að kaupa hrogn af þeim, en þeir hefðu boðið þeim það.
Eiríkur sagði að Hörður hefði upplýst þá um Hlíðardal, en Hlíðardalur væri fiskverkunarfyrirtæki, og hafi þeir ekki átt nein samskipti við annan en Hörð.
Eiríkur sagði að hann hefði vitað um umræddar millifærslur og þessa beiðni um að viðskipti væru bakfærð af Hlíðardal yfir á Sæhamar. Hörður hefði beðið um að þessi bakfærsla yrði gerð.
Eiríkur sagði að Hlíðardalur hefði verið með talsverða fiskverkun og hafi keypt fisk af hinum og þessum bátum og hafði Hlíðardalur selt þeim hrogn. Hann sagði að þeir keyptu hrogn af fiskverkendum á ýmsum stöðum á landinu.
Aðspurður af lögmanni stefnda, hvort hann vissi af hverju 1.400.000 kr. færsla færist út úr bókhaldi Sæhamars í aprílmánuði 2001, kvaðst hann ekki vita það. Þá spurði lögmaðurinn Eirík, hvort það hafi verið öruggt að Vignir hefði verið búinn að borga allar hrognasendingar sem að fyrirtæki þeirra hefði fengið. Játaði Eiríkur því og sagði að á þessu tímabili hafi stór hluti verið greiddur fyrir fram.
Eiríkur var spurður af lögmanni stefnda, hvort Guðjón í Sæhamri hefði gert einhverjar tilraunir til að innheimta hjá honum þessa peninga sem út af stóðu og Hörður átti að borga. Eiríkur sagðist engin samskipti hafa haft við Guðjón. Hann hafi bara talað við Hörð.
Lögmaður stefnda lagði fyrir Eirík dskj. nr. 3 og vísaði þar til fyrstu síðu. Spurði hann Eirík hvort tvær neðstu færslurnar væru ekki fyrirframgreiðslur vegna verðtíðarinnar 2002. Játaði Eiríkur því.
Lögmaður stefnda spurði Eirík, hvort einhverjar umræður hefðu orðið um þessa skuld Harðar við fyrirframgreiðsluna „af hverju var þetta ekki bara rukkað“. Kvaðst Eiríkur ekki vita það.
Lögmaður stefnda spurði Eirík hvaða bátar hefðu tilheyrt Sæhamri þarna. Eiríkur kvaðst halda að það hafi verið Guðrún, Gjafar og Pétursey.
Lögmaður stefnda sýndi Eiríki dskj. nr. 18, sem er myndrit af bréfi Fiskistofu til Hlíðardals ehf., dags. 24. ágúst 2006, með fylgiskjölum. Í framhaldi af því spurði lögmaðurinn Eirík, hvernig skráningu væri háttað hjá Fiskistofu á hrognum og hvað þetta skjal sýndi um viðskipti þeirra. Eiríkur sagði að bæði „Lóðsinn“ og VOR-kerfið væru byggð á því að halda utan um kvótastöðu báta þannig að menn færu ekki umfram í kvóta, en þetta segði svo sem ekkert til um það, hvað yrði um innyflin, hvað yrði um hrognin af óslægðum fiski sem landað væri, hausana o.s.frv. Stundum kæmi þó fyrir að fiskur væri slægður út á sjó. Þá kæmu einhver kör af hrognum í land og væri þá greint frá því.
Hörður Þór Rögnvaldsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. Hlíðardalur ehf. hefði rekið fiskvinnslu, saltfiskvinnslu. Hann sagði að Sæhamar og Hlíðardalur væru óskyld fyrirtæki. Hann hafi ekki komið að rekstri Sæhamars. Fyrir árið 1999 kvaðst hann hafa unnið við karasmölun sem verktaki. Hafi hann unnið á vörubíl, sem Sæhamar átti. Hafi hann unnið fyrir útgerðarmenn og fiskvinnslur um allt land við að smala fiskikörum. Hafi hann farið um landið í allar vinnslur.
Hörður lýsti því að á sínum tíma, þegar ákveðið var að fara í þessa karasmölun, hafi útgerðarmenn í Vestmannaeyjum fengið hann til að fara um landið í þessum erindum. Kvaðst hann hafa gert þetta í tíu ár.
Hörður kvaðst m.a. hafa náð í fiskikör frá Vestmannaeyjum hjá stefnda, sem stefndi hefði ekki skilað, en útgerðarmenn hefðu á sínum tíma verið óánægðir með að fiskikörin, sem eru mjög dýr, skiluðu sér ekki til baka. Þannig hafi hann kynnst Eiríki. Hafi Eiríkur sagt sér að erfiðlega gengi að fá hrogn úr Vestmannaeyjum. Hörður kvaðst hafa sagt Eiríki að hann væri að hætta í karasmölun og ætlaði að fara til eyja því að hann væri búinn að kaupa fiskvinnsluhús með öðrum í fiskvinnslu.
Hörður sagði að þeir hefðu opnað fiskvinnsluna og hafi hann þá gengið á milli manna fyrir Eirík til að reyna að fá keypt, upp á það að fylgjast með þegar hrognin kæmu frá bátunum, þau yrðu vigtuð, losuð í önnur kör og ísuð, jafnframt að fylgjast með að þetta stemmdi. Hörður kvað samkomulag hafa orðið við stefnda að hann aðstoðaði hann við þessa vinnu, að afla hrogna fyrir stefnda utan fiskmarkaðar. Hafi hann farið niður á bryggju á nóttunni, þegar bátarnir voru að koma og náð í hrognin, farið með þau á hafnarvog og svo upp í hús til að vigta þau, sturtað þeim saman og ísað þau þannig að þau yrðu ekki fyrir skemmdum.
Hörður kvaðst hafa keypt af mörgum bátum. Raunar hafi hann ekki [alltaf] verið að kaupa hrognin. Hann hefði séð um að koma þessu upp eftir, upp á Akranes, þannig að þetta væri í lagi.
Hörður kvaðst hafa keypt hrogn af þrem bátum sem hann fékk árið 2001. Það hafi verið útgerðir, sem hann hjálpaði um veiðarfæri, sem sagt kvóta, það hafi verið kvótalausir bátar, yfirleitt hafi það verið fiskvinnslan sem hjálpaði mönnum við að útvega kvóta.
Eftir að Hlíðardalur ehf. hafi orðið gjaldþrota, kvaðst Hörður hafa reynt að fá bókhald félagsins, en skiptastjórinn hefði þá verið búinn að henda öllu bókhaldinu af því að fiskifýla var af því. Ekki sé búið að ljúka búskiptum. Öll gögn ættu að liggja frammi hjá Fiskistofu um sölu þegar menn kaupa og selja úr bátum. Kvaðst Hörður hafa farið þangað og fengið þar gögn og látið lögmann stefnda og lögmann stefnanda fá afrit af þeim.
Lögmaður stefnda lagði fyrir Hörð dskj. nr. 23, sem er myndrit fjögurra [óbókfærðra] reikninga/afreikninga stefnda á Hlíðardal hf., að fjárhæð 1.232.899 kr., dags. 12.02.01, að fjárhæð 40.442 kr., dags. 19.02.01, að fjárhæð 304.409 kr., dags. 19.02.01 og að fjárhæð 564.443 kr., dags. 26.02.01, eins og áður hefur verið getið.
Lögmaður stefnda bendir á að um sé að ræða afla úr bátunum, Guðrúnu og Gjafari. Kvaðst Hörður hafa séð þetta sl. föstudagskvöld hjá lögmanni stefnanda en aldrei áður. Kvaðst Hörður ekki kannast við reikninga stefnda á Hlíðardal hf. Hann hafi enga afreikninga fengið inn í Hlíðardal stílaða á Vigni G. Jónsson ehf. á árinu 2000 og 2001.
Lögmaður stefnda lagði fyrir Hörð dskj. nr. 25, sem er uppfletting hreyfinga viðskiptamannabókhalds Hlíðardals hf. hjá stefnda 25. janúar 2000 til 17. júlí 2002, dags. 14. febrúar 2005, með nokkrum handrituðum útstrikunum og breytingum, er áður var getið um. Lögmaðurinn spurði Hörð, hvort hann kannaðist ekki við að hafa fengið svona yfirlit og þessar færslur inn á Hlíðardal, sem þarna komi fram.
Hörður sagði að færslurnar sem komu hafi mest komið inn á reikning Hlíðardals í Landsbankanum, sem stefndi lagði inn á, og millifærðar voru strax inn á reikninga viðkomandi útgerðar þegar búið var að stemma þær.
Lögmaður stefnda lagði fyrir Hörð dskj. nr. 21, sem er myndrit af sex reikningum/afreikningum stefnda á Hlíðardal hf. að fjárhæð 319.189 kr., dags. 12. mars 2001, að fjárhæð 3.436.365 kr., dags 19. mars 2001, að fjárhæð 105.815 kr., dags. 19. mars 2001, að fjárhæð 114. 804, dags.19. mars 2001, að fjárhæð 4.901.201, dags. 19. mars 2001 og að fjárhæð 505.444 kr. dags. 23. mars 2001. Þá leggur lögmaður stefnda fyrir Hörð dskj. nr. 22, sem er myndrit af sex reikningum/bakfærðum afreikningum stefnda á Hlíðardal hf. að fjárhæð 319.189 kr., dags. 12. mars 2001, að fjárhæð 3.436.365 kr., dags 30. mars 2001, að fjárhæð 105.815 kr., dags. 30. mars 2001, að fjárhæð 114. 804, dags. 30. mars 2001, að fjárhæð 4.901.201, dags. 30. mars 2001 og að fjárhæð 505.444 kr. dags. 30. mars 2001. Lögmaður stefnda sagði að nú væri haldið fram að Hörður hefði gefið fyrirmæli um að láta færa þessar sex hrognasendingar á Sæhamar. Spurði hann Hörð hvort hann kannaðist við það.
Hörður sagði að Sigríður Eiríksdóttir hefði lána peninga vegna kvótaviðskipta. Kvaðst hann muna fjárhæð 1.400.000 kr. þegar Sæhamar var í vandræðum vegna kvótaleyfa. Þá hafi hann sagt við þau að fyrst menn væru farnir að lána peninga til kvótakaupa þá kæmi hann ekki nálægt því. Þá hafi verið ákveðnir reikningar út frá þeirri upphæð varðandi þjónustugjöld við stefnda. Um hafi verið að ræða 2.000.000 til 3.000.000 kr. Kvaðst hann ekki muna tölurnar en þannig hafi samskiptin verið.
Lögmaður stefnda spurði Hörð, hvort þetta hafi ekki einfaldlega verið greiðslur fyrir afla. Hörður neitaði því og sagði að þetta hafi einungis verið beinharðir peningar til að kaupa leigu á kvóta.
Lögmaður stefnda lagði fyrir Hörð dskj. nr. 3, sem tjáist vera viðskiptabókhald Sæhamars ehf. varðandi viðskipti við stefnda 2001 ásamt fylgiskjölum. Lögmaðurinn benti Herði á að þar væru greindar tvær 1.000.000 kr. færslur og spurði Hörð, hvort þetta væru lánin sem hann var að tala um. Kvaðst Hörður ekkert vita um þetta. Hörður kvaðst um „þetta leyti“ hætt að skipta sér af peningamálunum. Hann hafi ekki viljað koma nálægt því vegna þess að hann hefði átt að vera einhver milliliður í sambandi við einhverjar greiðslur sem var verið að lána. Kvaðst hann strax hafa sagt við Eirík að hann kæmi ekki nálægt því. Kvaðst hann muna eftir því að „Sigga“ millfærði þessa 1.400.000 kr. inn á, en þá hafi hún verið búin að tala við hann út af þessum kvótakaupum.
Lögmaður stefnda spurði þá Hörð um „einhverja þóknun“ honum til handa og spurði í framhaldi hvort það væri ekki seljandans að borga þóknunina.
Hörður sagði að hann og Eiríkur hafi tekist í hendur. Hann hafi beðið sig um að útvega hrognaviðskipti í Vestmannaeyjum sem höfðu gengið mjög illa hjá honum þar. Hörður kvaðst hafa þekkt þessa karla alla persónulega en allt í útgerðinni sé svo persónulegt. Þannig hafi hann fengið þessa karla til að selja hrogn undir eftirliti sínu. Á milli hans og Eiríks hafi verið á hreinu að hann ætlaði að greiða honum sama og markaðirnir greiddu. Hlíðardalur hafi veitt stefnda umbeðna þjónustu. Hafi reikningar verið sendir upp á Akranes til þeirra og gengið út frá ákveðinni tölu og ákveðinni upphæð.
Hörður sagði aðspurður að starfsemi Hlíðardals hafi lagst af í febrúar 2004.
Lögmaður stefnanda benti á að á árinu 2000 hafi allir reikningar verið stílaðir á Sæhamar, árið 2001 hafi verið byrjað að stíla reikninga á Hlíðardal, en komið hafi fram við skýrslutöku að það hafi verið að beiðni Harðar sem farið var að stíla reikningana á Hlíðardal í staðinn fyrir Sæhamar.
Hörður sagði að hann hefði ekki beðið um að reikningar stefnda yrðu stílaðir á Hlíðardal í staðinn fyrir Sæhamar. Hann neitaði að hafa látið stefnda breyta reikningum sínum í þessa veru.
Lögmaður stefnanda spurði Hörð, hvort hann teldi sig hafa tekið einhverja peninga, sem greiddir voru vegna hrogna til Sæhamars, upp í þjónustugjöld fyrir Hlíðardal.
Hörður sagði að spurning væri hvort túlka ætti það þannig. Það hafi bara verið ákveðin upphæð þegar var búið að stemma af reikninginn og Sigga og þau hafi vel vitað af því. Peningar, sem voru lagðir inn, voru teknir upp í kostnað við þjónustugjöld og reikningurinn sem hann kvaðst ekki skilja hvers vegna komi ekki fram hérna í bókhaldi frá þeim var bara upphæðin sem tekin var. Hann kvaðst hafa samið við Eirík og Siggu um þann reikning.
Ályktunarorð: Stefnandi byggir kröfu sína á því að útgerðarfélagið Sæhamar ehf. hafi selt stefnda hrogn úr afla sínum á vetrarvertíðunum 2001 og 2002. Í lok vertíðar 2002, eða 16. apríl 2002, hafi stefndi skuldað Sæhamri ehf. 2.101.119 kr. Ekki er deilt um að krafan hafi verið framseld stefnanda málsins, Pétursey ehf., 1. júlí 2003.
Stefndi byggi kröfu sína um sýknu á þeirri staðhæfingu að hafa greitt að fullu fyrir öll hrogn sem hann hafi fengið. Málið sé sprottið af millifærslum, sem stefndi hafi sjálfur framkvæmt í bókhaldi sínu, annars vegar að ósk Harðar Þórs Rögnvaldssonar, forsvarsmanns Hlíðardals ehf., og hins vegar að ósk Guðjóns Ragnars Rögnvaldssonar, framkvæmdastjóra stefnanda. Af hálfu stefnda hafi tilteknar bakfærslur í bókhaldi stefnda verið skráðar á þeirri forsendu að ákveðnar færslur og greiðslur hefðu átt sér stað milli félaganna Hlíðardals ehf. og Sæhamars ehf. varðandi hrogn sem stefndi hefði að fullu greitt.
Fyrir liggur í málinu myndrit af viðskiptamannabókhaldi Sæhamars ehf. við stefnda árin 2001 og 2002, ásamt myndritum af grunngögnum fyrir færslunum. Myndritin virðast kalla fram með réttum hætti stöðu viðskiptareiknings Sæhamars ehf. við stefnda umrædd ár, sbr. II. kafla laga um bókhald nr. 145/1994.
Gegn andmælum stefnanda hefur stefndi ekki sannað að Guðjón Ragnar hafi ráðið með afgerandi og ótvíræðum hætti ákveðnum bakfærslum stefnda í bókhaldi stefnda né gefið stefnda réttmæta ástæðu til að ætla að stefnandi myndi falla frá kröfu á hendur stefnda sökum ætlaðrar greiðslu stefnda til Hlíðardals ehf. fyrir milligöngu Hlíðardals ehf. á hrognum frá Sæhamri ehf. til stefnda.
Ekki verður talið að krafa stefnanda á hendur stefnda hafi fallið niður fyrir tómlæti stefnanda, enda barst stefnda innheimtubréf varðandi kröfuna frá Lögheimtunni fyrir Sæhamar ehf., sem dagsett er 28. janúar 2003, út af viðskiptum Sæhamars ehf. og stefnda sem lauk 16. apríl 2002.
Samkvæmt framangreindur verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð ásamt málskostnaði, allt eins og í dómsorði segir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Vignir G. Jónsson ehf., greiði stefnanda, Pétursey ehf., 2.101.119 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. maí 2002 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 373.500 krónur í málskostnað.