Hæstiréttur íslands

Mál nr. 97/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögreglurannsókn
  • Gagnaöflun
  • Sératkvæði


Föstudaginn 3

 

Föstudaginn 3. mars 2006.

Nr. 97/2006.

Ríkislögreglustjóri

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

A og

B

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Kærumál. Lögreglurannsókn. Gagnaöflun. Sératkvæði.

Fjármálaeftirlitið krafðist þess að LÍ yrði gert skylt að afhenda gögn varðandi hreyfingar á bankareikningum lögmannsstofunnar B yfir tiltekinni fjárhæð og var fallist á þá beiðni í úrskurði 28. nóvember 2005. Sá úrskurður var ekki kærður og voru umrædd gögn afhent fjármálaeftirlitinu, sem í kjölfarið afhenti þau R. Í málinu kröfðust B og A þess að dæmt yrði að R væri óheimil notkun umræddra gagna í þágu tiltekinnar rannsóknar opinbers máls. Talið var að umræddra gagna hafi verið aflað með dómsúrskurði, sem ekki hefði verið hnekkt og væri niðurstaða hans ekki til endurskoðunar í máli þessu. Yrði því ekki fallist á að gagnanna hefði verið aflað með ólögmætum hætti og var kröfu B og A því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 13. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2006, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að mælt yrði fyrir um að sóknaraðila væri óheimilt að nota gögn um hreyfingar á bankareikningum varnaraðilans B við rannsókn á ætluðum brotum vegna viðskipta með stofnfjárhluti í Sparisjóði D. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðilar krefjast þess að framangreind krafa þeirra nái fram að ganga. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Sóknaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur frávísunarkrafa hans því ekki til álita fyrir Hæstarétti nema að því leyti sem um er að ræða atriði sem Hæstiréttur gætir að sjálfsdáðum.

Málsatvik eru rakin í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir var Landsbanka Íslands hf. gert skylt með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2005 að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og ljósrit af öllum gögnum í vörslum bankans varðandi hreyfingar á bankareikningum varnaraðilans B að fjárhæð 5.000.000 króna „eða hærra” á nánar tilgreindu tímabili. Úrskurður þessi var ekki kærður til Hæstaréttar og lauk málinu með því að Landsbanki Íslands hf. afhenti Fjármálaeftirlitinu þau gögn sem úrskurðurinn laut að.

Á grundvelli framangreinds úrskurðar aflaði Fjármálaeftirlitið upplýsinga varðandi bankareikninga varnaraðila og lét þær sóknaraðila í té í þágu rannsóknar hans meðal annars á ætluðum brotum varnaraðila. Krafa varnaraðila í málinu lýtur að því að sóknaraðila verði talið óheimilt að nota framangreind gögn við rannsókn málsins.

Umræddra gagna var aflað á grundvelli dómsúrskurðar, sem ekki hefur verið hnekkt og er niðurstaða hans ekki til endurskoðunar hér. Verður því ekki fallist á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði bönnuð notkun gagnanna í þágu þeirrar lögreglurannsóknar sem nú stendur yfir. Er þá jafnframt haft í huga að ekki er fyrir að fara í íslenskum lögum reglu sem útilokar að lögregla styðjist við gögn, sem hún hefur undir höndum, þó þeirra kunni að hafa verið aflað án þess að fylgt hafi verið ákvæðum laga um öflun sönnunargagna í opinberum málum.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 


Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Varnaraðilar vísa til 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til stuðnings heimild sinni til að bera undir dómstóla kröfu sína í þessu máli um að sóknaraðila sé óheimilt að nota upplýsingar um hreyfingar á bankareikningum B við rannsókn á ætluðum brotum vegna viðskipta með stofnfjárhluti í Sparisjóði D. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og kröfunni synjað.

Í málinu liggur fyrir að Fjármálaeftirlitið óskaði eftir og fékk úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2005 um að Landsbanka Íslands hf. væri „skylt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og ljósrit af öllum gögnum í vörslu bankans varðandi hreyfingar á bankareikningum [B] ..., að fjárhæð 5 milljónum kr. eða hærra frá 1. apríl 2005 til og með dagsins í dag“, eins og það er orðað í úrskurðinum. Sendi eftirlitið á grundvelli 1. mgr. 12. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, tilkynningu til sóknaraðila 16. desember 2005, en í lagaákvæði þessu er svo mælt, að séu brot alvarleg og hinn eftirlitsskyldi aðili hefur að mati Fjármálaeftirlitsins með refsiverðum hætti gerst brotlegur við lög beri Fjármálaeftirlitinu að greina ríkislögreglustjóra frá þeim. Segjast varnaraðilar ekki hafa fengið vitneskju um úrskurðinn frá 28. nóvember 2005 fyrr en í byrjun janúar 2006.

Sóknaraðili hefur mótmælt því, að varnaraðilar geti borið kröfu sína undir dómstóla á grundvelli fyrrgreindrar lagaheimildar, þar sem gagnanna hafi verið aflað með dómsúrskurði sem ekki hafi verið hnekkt fyrir æðri dómi. Afleiðingar hans séu fram komnar og geti umrætt lagaákvæði ekki heimilað varnaraðilum að krefjast endurskoðunar dómstóla á forsendum hans.

Varnaraðilar áttu ekki aðild að því máli sem lauk með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2005 og áttu þess ekki kost að gæta hagsmuna við meðferð þess. Úrskurðurinn telst því ekki hafa bindandi réttaráhrif að lögum að því er þá varðar. Verður því fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms, að þeir geti á grundvelli 75. gr. laga nr. 19/1991 borið mál sitt undir dómstóla í þeim búningi sem að framan greinir.

Þá kemur til athugunar, hvort varnaraðilar hafi lögvarða hagsmuni af dómkröfu sinni, en þetta er atriði sem dómstólum ber að gæta af sjálfsdáðum. Meirihluti Hæstaréttar telur réttilega í atkvæði sínu að ekki sé fyrir að fara í íslenskum lögum reglu, sem útiloki að rannsóknaraðili styðjist við gögn, sem hann hefur undir höndum, þótt þeirra kunni að hafa verið aflað án þess að fylgt hafi verið ákvæðum laga um öflun sönnunargagna í opinberum málum. Allt að einu tel ég að ekki sé loku fyrir það skotið, að það kunni að hafa áhrif á sönnunarfærslu í opinberu máli ef sönnunargagna hefur verið aflað á ólöglegan hátt, enda er vandséð hvaða þýðingu heimild 75. gr. laga nr. 19/1991 hefði að lögum ef þetta yrði ekki talið geta skipt máli. Hér verður einnig að hafa í huga, að verði talið að upplýsingar af umræddum bankareikningum lögmannsstofunnar falli undir þagnarskyldu lögmanna, sem þar starfa, samkvæmt lögum um lögmenn, eins og varnaraðilar halda fram, þannig að óheimilt hafi verið að veita sóknaraðila aðgang að þeim, helst sú vernd áfram sem í þagnarskyldunni felst, eftir að upplýsingarnar eru komnar í hendur sóknaraðila. Er hún þá til þess fallin að hamla notkun sóknaraðila á upplýsingum þessum við áframhaldandi rannsókn á ætluðum brotum með viðskiptum með stofnfjárhluti í Sparisjóði D. Tel ég því að varnaraðilar hafi lögvarða hagsmuni af að fá úrlausn um dómkröfu sína.

Varnaraðilar hafa meðal annars byggt kröfu sína á því, að þeir teljist ekki til þeirra sem eftirlitsvald Fjármálaeftirlitsins taki til samkvæmt 2. gr. laga nr. 87/1998 um eftirlit með fjármálastarfsemi. Þess vegna hafi það verið andstætt lögum að heimila eftirlitinu aðgang að bankareikningum B. Benda þeir á að þeir hafi í bréfaskiptum sínum við eftirlitið verið búnir að neita upplýsingabeiðni þess á þessum grundvelli og einnig með vísan til þess að þeir væru samkvæmt 22. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 bundnir þagnarskyldu við viðskiptamenn sína. Fjármálaeftirlitið hafi ekki lagt þessi bréfaskipti fram í Héraðsdómi Reykjavíkur, þegar óskað var dómsúrskurðarins 28. nóvember 2005, né heldur upplýst dómstólinn um þessa afstöðu á annan hátt.

Fallast verður á það með varnaraðilum, að ekki hafi verið heimilt að taka kröfu Fjármálaeftirlitsins til greina svo sem gert var með dómsúrskurðinum 28. nóvember 2005. Komi til þess að krafist sé vegna rannsóknarhagsmuna upplýsinga af bankareikningum aðila, sem ekki falla undir lögmælt eftirlit Fjármálaeftirlitsins, verður sóknaraðili að eiga aðild að slíku máli á grundvelli heimilda í almennum reglum laga nr. 19/1991. Ekki verður samt talið, að sóknaraðili þurfi að leita nýs úrskurðar til öflunar umræddra upplýsinga af bankareikningi varnaraðila, heldur teljist heimilt að taka afstöðu í þessu máli til þess hvort efnisleg skilyrði hafi verið til þess að veita sóknaraðila aðgang að upplýsingunum, þannig að synja beri kröfu varnaraðila ef talið verður að svo hafi verið.

Rannsókn sú sem nú stendur yfir á kaupum stofnfjárhluta í Sparisjóði D beinist meðal annars að því, hvort varnaraðilar kunni sjálfir að hafa átt refsiverða hlutdeild í brotum gegn 40. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 70 gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en samkvæmt 2. mgr. 107. gr. laganna er hlutdeild í brotum samkvæmt lögunum refsiverð. Er uppi í málinu rökstuddur grunur um að svo kunni að hafa verið. Starfandi lögmenn geta ekki borið fyrir sig þagnarskylduákvæði laga nr. 77/1998 til að verjast opinberri rannsókn sem beinist að þeim sjálfum. Verður hinum kærða úrskurði því ekki hnekkt á þessum grundvelli.

Varnaraðilar hafa loks byggt kröfu sína á því, að úrskurðurinn 28. nóvember 2005 hafi gengið lengra en nauðsynlegt hafi verið vegna þeirrar rannsóknar sem sögð er hafa verið tilefni hennar. Sé ljóst að með aðgangi að upplýsingum um allar hreyfingar á bankareikningi lögmannsstofunnar að fjárhæð 5 milljón krónur eða meira sé veittur aðgangur að trúnaðarupplýsingum um allt aðra skjólstæðinga lögmannsstofunnar en þá, sem tengjast umræddum viðskiptum með stofnfjárhluti í Sparisjóði D. Þó að út af fyrir sig megi fallast á þetta, getur það ekki leitt til þess að hnekkja beri hinum kærða úrskurði enda verður að telja að hann taki aðeins til afnota af gögnum sem varða ætluð brot vegna viðskipta með stofnfjárhluti í Sparisjóði D.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er ég sammála niðurstöðu meirihluta dómenda.   

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2006.

Beiðni Brynjars Níelssonar, hrl., f.h. A og B þess efnis að héraðsdómur úrskurði, á grundvelli 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, um lögmæti þess að Ríkislögreglustjóri noti bankareikninga lögmannsstofunnar B við rannsókn á ætluðum brotum skjólstæðinga A og annarra við kaup og sölu á stofnfjárhlut í Sparisjóði D.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 27. janúar sl.

Með bréfi dagsettu 10. janúar sl. beiddist Brynjar Níelsson, hrl. f.h. A, fyrir hans hönd og lögmannsstofunnar B, þess að úrskurðað verði að Ríkislögreglustjóra sé óheimilt að nota gögn um hreyfingar á bankareikningum B við rannsókn hans á ætluðum brotum vegna viðskipta með stofnfjárhluti í Sparisjóði D.

Fram kemur í beiðni lögmannsins að Fjármálaeftirlitið hafi ritað umbjóðanda hans bréf dagsett 26. júlí 2005 þar sem óskað var ákveðinna upplýsinga um viðskipti skjólstæðinga hans með stofnfé í Sparisjóði D. Í bréfi sínu vísi Fjármálaeftirlitið til 2. mgr. 107. gr. laga nr. 161/2002 um Fjármálafyrirtæki sem lúti að skyldu einstaklinga og lögaðila til upplýsingagjafar sem eigi eða hyggist eignast eða fara með hlut í fjármálafyrirtæki.

A hafi ritað Fjármálaeftirlitinu bréf dags. 2. ágúst þar sem fram komi m.a. að viðskipti með stofnfé í Sparisjóði D hafi hvorki verið gerð í nafni lögmannsstofunnar né lögmannsins persónulega. Starf lögmanna stofunnar hafi verið unnin sem almenn lögmannsverk á grundvelli laga nr. 77/1998 um lögmenn. Jafnframt komi fram í svarbréfum að í lögum nr. 87/1998 um eftirlit með fjármálastarfsemi sé tæmandi upptalning á þeim aðilum sem séu eftirlitskyldir en þar séu lögmenn ekki á meðal. Bent er á að í lögum um lögmenn beri lögmönnum að rekja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Þá beri lögmönnum samkvæmt sömu lögum þagnarskyldu um hvaðeina sem þeim er trúað fyrir í starfi sínu. Með hliðsjón af þessu hafi A ekki talið unnt að upplýsa Fjármálaeftirlitið um viðskipti einstakra skjólstæðinga lögmannsstofunnar með umrætt stofnfé.

Fjármálaeftirlitið hafi ritað annað bréf dagsett 25. ágúst 2005 þar sem ítrekuð er ósk þess um upplýsingar sem vikið er að í fyrra bréfinu. Vísar Fjármálaeftirlitið til þess að umrædd ákvæði laganna um eftirlit með eigendum fjármálafyrirtækja nái vart tilgangi sínum ef aðilar geti skýlt sér á bak við lögmenn eða aðra til að komast hjá því að veita Fjármálaeftirlitinu þau gögn og upplýsingar sem það telji þörf á vegna tiltekinnar athugunar. Jafnframt bendi Fjármálaeftirlitið á að af 17. og 18. gr. siðareglna lögmanna leiði, að augljósir hagsmunir skjólstæðings lögmannsstofunnar krefjist þess, að Fjármálaeftirlitið hafi vitneskju um hverjir þeir séu svo þeir geti svarað fyrirspurnum eftirlitsins vegna rannsóknar þess sem kunni að hafa tilteknar lögfylgjur í för með sér. A hafi svarað Fjármálaeftirlitinu með bréfi dagsettu 31. ágúst 2005 þar sem ítrekuð er fyrri afstaða og rökstudd enn frekar. Jafnframt sé því sérstaklega mótmælt í bréfinu að eftirlitsskyldir skjólstæðingar lögmannsstofunnar séu að skýla sér bak við lögmann. Þá er  bent á að Fjármálaeftirlitinu sé ljóst hverjir séu stofnfjáreigendur og því í lófa lagið að krefja þá um upplýsingar og gögn.

Í desember 2005 hafi síðan komið fram í fjölmiðlum að Fjármálaeftirlitið hefði óskað eftir því við Ríkislögreglustjóra að fram færi lögreglurannsókn á viðskiptum með stofnfjárhluti í sparisjóðnum D. Þann 4. janúar 2006 hafi A borist upplýsingar um að Ríkislögreglustjóri hefði útskrift að hreyfingum á bankareikningum lögmannstofunnar hjá Landsbanka íslands sem kynntir væru einstökum sakborningum við rannsókn málsins. Jafnframt að þessi gögn hefðu borist Ríkislögreglustjóra frá Fjármálaeftirlitinu með beiðninni um lögreglurannsókn. Ritaði lögmaður A Fjármálaeftirlitinu bréf dags. 5. janúar, sem var móttekið sama dag og samrit sent til efnahagsbrotdeildar Ríkislögreglustjóra, þar sem óskað var upplýsinga hvernig þessi gögn hefðu komist í hendur Fjármálaeftirlitsins. Var í bréfinu óskað tilgreindra gagna ef bankanum hefði verið skylt að afhenda eftirlitinu hreyfingar á bankareikningunum á grundvelli dómsúrskurðar. Þessu bréfi hefur hvorki verið svarað formlega né önnur viðbrögð komið af hálfu Fjármálaeftirlitsins.

A hafi fengið ljósrit úrskurðarorðs Héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. nóvember 2005 frá Landsbanka Íslands þar sem bankanum sé skylt að láta Fjármáleftirlitinu í té upplýsingar og ljósrit af öllum gögnum í vörslum bankans varðandi hreyfingar á bankareikningum B, að fjárhæð 5 milljónum króna eða hærra frá 1. apríl 2005. Kröfu þessari var aðeins beint að bankanum en ekki að umbjóðanda lögmannsins. Á grundvelli úrskurðarins afhenti bankinn eftirlitinu gögnin sem síðan afhenti Ríkislögreglustjóra þau.

Krafa A sé byggð á því að ekki sé til þess heimild í lögum að láta Fjármálaeftirlitinu í té gögn um hreyfingar á bankareikningum lögmannsstofunnar hjá Landsbanka Íslands. Því hafi eftirlitinu verið óheimilt að afhenda Ríkislögreglustjóra þessi gögn.

Fyrir liggi að á milli Fjármálaeftirlitsins og A hafi verið ágreiningur um skyldu hans til þess að gefa upplýsingar um skjólstæðinga sína sem eftirlitið hafði óskað eftir. Hafi farið fram bréfaskiptir á milli aðila þar sem fram komi í hverju ágreiningurinn sé fólginn en aðalatriði þeirra bréfa séu rakin hér að framan.

Í stað þess að leita úrlausnar dómstóla um skyldu til að láta umrædd gögn af hendi eða veita umbeðnar upplýsingar hafi Fjármálaeftirlitið beint kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur um að viðskiptabanka A, Landsbanka Íslands, yrði með úrskurði gert skylt að láta eftirlitinu í té umbeðin gögn. Til stuðnings kröfunni er vísað til 2. og 4. mgr. 9. gr. sbr. 13. gr. laga nr. 87/1998 um eftirlit með fjármálastarfsemi, 58. gr., 2. og 8. mgr. 107. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki auk þess sem vísað er til 9. og 10. kafla laga um meðferð opinberra mála.

Hvorki A né Landsbanka Íslands hafi verið gefin kostur á að andmæla kröfunni eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri við meðferð málsins. Sú málsmeðferð hafi verið andstæð ákvæðum um réttláta málsmeðferð enda engin þau rök í málinu að A gæti spillt rannsókn eftirlitsins gæfist honum kostur á að verjast kröfunni. Með þessari aðferð hafi Fjármálaeftirlitið komið í veg fyrir að hann gæti tekið til varna fyrir héraðsdómi og látið reyna á lögmæti kröfunnar fyrir Hæstarétti. Þessi háttur á meðferð kröfunnar fyrir dómi sé rangur og óheiðarlegur. Þá hafi eftirlitið haldið mikilvægum gögnum frá dóminum sem hafi hugsanlega geta skipt máli um niðurstöðu dómsins á kröfu Fjármálaeftirlitsins.

Tilvitnuð lagaákvæði í dómskröfu Fjármálaeftirlitsins veiti því ekki heimild til fá umrædd gögn án samþykkis umbjóðenda lögmannsins. Í lögum nr. 87/1998 um eftirlit með fjármálastarfsemi sé í 2. gr. talin upp hvaða starfsemi er eftirlitsskyld. Ljóst sé að 2. og 4. mgr. 9. gr. laganna veiti Fjármálaeftirlitinu ekki heimild til að fá umrædd gögn í té. Skipti þá að sjálfsögðu engu máli þótt eftirlitsskylda sé með Landsbankanum. Tilvitnun Fjármálaeftirlitsins í ákvæði 13. gr. laga nr. 87/1998 og 58. gr. laga nr. 161/2002 um þagnarskyldu starfsmanna eftirlitsins skipti engu máli í dómkröfunni. Sama sé um 2. mgr. 107. gr. laganna nr. 161/2002. Enn síður sé hægt að átta sig á tilvitnun í 8. mgr. 107.gr. laganna sem fjalli um heimild til að beita dagsektum. Tilvitnum í 9. og 10 kafla laga um meðferð opinberra mála sé ónákvæm og óskiljanleg. Nær hefði verið að vísa til 11. kafla laganna um leit.

Með hliðsjón af framangreindu sé úrskurður héraðsdóms frá 28. nóvember rangur og hafi enga þýðingu við úrlausn kröfu þessarar sem nú sé lögð fyrir dóminn. Því sé ekkert til fyrirstöðu að dómurinn taki afstöðu til kröfu umbjóðenda lögmannsins og meti hvort Fjármálaeftirlitið hafi haft heimild til að afla þessara gagna með þessum hætti og að það geti framsent þau til Ríkislögreglustjóra. Telji dómurinn nú, að lagaheimild hafi ekki verið fyrir hendi, er eðlilegt að verða við kröfu um að Ríkislögreglustjóra sé óheimilt að nota umrædd gögn við rannsókn málsins.

Ríkislögreglustjórinn krefst þess aðallega að beiðni úrskurðarbeiðenda verði vísað frá dómi, en til vara að henni verði hafnað.

Þann 16. desember s.l. hafi Ríkislögreglustjóranum borist tilkynning frá Fjármálaeftirlitinu, skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Eigi tilkynningin rætur sínar að rekja til athugunar Fjármálaeftirlitsins á málefnum Sparisjóðs D sem hafi staðið um nokkurra mánaða skeið og sé enn ólokið. Hafi eftirlitið haft til skoðunar hvort virkur eignarhlutur hafi myndast í sjóðnum í andstöðu við 40. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 70. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Þá sé til skoðunar hvort tilteknir aðilar hafi veitt eftirlitinu rangar upplýsingar, sem sé refsivert skv. 2. mgr. 111. gr. sömu laga.

Meðal þess sem Fjármálaeftirlitið hafi tekið til skoðunar hafi verið aðkoma B að viðskiptum með stofnbréf. Hafi verið uppi grunsemdir um að umræddir lögmenn tækju þátt í, með beinum eða óbeinum hætti, að mynda virkan eignarhlut með kaupum á mörgum stofnbréfum. Hafi þessar grunsemdir m.a. leitt til þess að eftirlitið hafi sent A, f.h. B, bréf þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um aðkomu þeirra að viðskiptum með stofnbréf. Bréfinu hafi verið svarað þann 2. ágúst 2005 og vísaði lögmaðurinn þar til trúnaðarskyldu lögmanna. Var sú vísun ítrekuð í bréfi lögmannsins til eftirlitsins þann 31. ágúst 2005.

Við áframhaldandi rannsókn Fjármálaeftirlitsins hafi hins vegar komið í ljós að tiltekinn sparisjóður hafi, eftir fyrirspurn eftirlitsins, upplýst eftirlitið um að A hefði í september 2005 boðið umræddum sparisjóði til kaups 2/3 hluta stofnfjár sjóðsins. Sé því ljóst að umræddur lögmaður hafi þá talið sig geta boðið til sölu, ekki einungis hluta stofnfjár sem félli undir      vera   virkur   eignarhlutur   í   skilningi   40.   gr.   laga   um   fjármálafyrirtæki, heldur meirihluta stofnfjár. Með hliðsjón af því hafi vaknað grunsemdir um að umræddur lögmaður kynni að hafa gerst brotlegur við 40. gr. laga um fjármálafyrirtæki, annaðhvort sem aðalmaður eða hlutdeildarmaður, en skv. 112. gr. laganna sé hlutdeild í brotum gegn þeim refsiverð.

Þar sem lögmaðurinn hafi komið sér hjá því að svara spurningum eftirlitsins með vísan til trúnaðarskyldu lögmanna hafi eftirlitið talið þörf á að afla þess úrskurðar hjá Héraðsdóm Reykjavíkur sem hér er deilt um. Hafi hann verið veittur og í kjölfarið fengist yfirlit um færslur á og af reikningi B. Hafi þær upplýsingar styrkt fyrri grunsemdir Fjármálaeftirlitsins. Komi þar fram að greiðslur hefðu runnið af reikningum lögmannsstofunnar til fjölmargra stofnfjáreigenda. M. a. að 4 stjórnarmenn í Sparisjóði D sem hefðu fullyrt við Fjármálaeftirlitið að þeir hefðu hvorki fengið tilboð í né selt hluti sína hefðu fengið greiddar 50 milljónir hver um sig af reikningi lögmannanna.

Í ljósi þessa hafi Fjármálaeftirlitið ákveðið að tilkynna Ríkislögreglustjóra um málið svo sem að framan greini.

Fjármálaeftirlitið hafi leitað til Héraðsdóms Reykjavíkur til að fá umræddan úrskurð um að því yrðu látnar í té upplýsingar og ljósrit af öllum gögnum varðandi hreyfingar á bankareikningum B á tilteknu tímabili.

Í beiðni úrskurðarbeiðenda sé fullyrt að umræddur úrskurður hafi verið rangur og því beint til dómsins nú að taka afstöðu til þess. Ríkislögreglustjórinn telji útilokað að héraðsdómari geti með þessum hætti úrskurðað að fyrri úrskurður hliðsetts héraðsdómara sé rangur og gögn fengin á grundvelli hans séu ekki löglega fengin. Telji Ríkislögreglustjóri því augljóst að vísa beri beiðninni frá þegar af þeirri ástæðu.

Þá bendir Ríkislögreglustjóri á að skv. 75. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sé hægt að bera undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda, svo og ágreining um réttindi sakbornings eða málsvara hans, þar á meðal ósk þeirra um tilteknar rannsóknaraðgerðir. Um ekkert slíkt sé hér að ræða. Hér sé, eins og fyrr segi, deilt um lögmæti úrskurðar dómara, sem ekki sé hægt að endurskoða með vísan til þessa ákvæðis. Umræddra upplýsinga hafi verið aflað á grundvelli dómsúrskurðar og sé vandséð hvernig þær geti fallið undir þetta ákvæði.

Þá er bent á að þau gögn sem aflað hafi verið á grundvelli úrskurðarins hafi verið lögð til grundvallar við rannsókn málsins og ljóst að lögregla hefði getað aflað þeirra með dómsúrskurði hefðu þau ekki borist henni sem hluti gagna þess máls sem Fjármálaeftirlitið hafi tilkynnt til lögreglunnar.

Loks er bent á að þar sem gagna á grundvelli úrskurðarins hafði verið aflað áður en úrskurðarbeiðendur kröfðust úrlausnar um lögmæti hans, og afleiðingar hans þannig fram komnar, geti þeir ekki nú, með vísan til 75. gr. laga um meðferð opinberra mála, borið undir dómstóla lögmæti hans.

Telur Ríkislögreglustjórinn með vísan til alls þessa ljóst að vísa beri frá dómi þeirri beiðni sem hér er til umfjöllunar.

Til vara krefjist ríkislögreglustjóri þess að kröfu úrskurðarbeiðanda verði hafnað, komist dómari að þeirri niðurstöðu að hún sé tæk til úrskurðar.

Í 40. gr. laga um fjármálafyrirtæki komi fram að aðilar sem hyggist eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki skuli leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram. Samþykkis Fjármálaeftirlitsins skuli enn fremur aflað þegar einstaklingur eða lögaðili auki svo við eignarhlut sinn að bein eða óbein hlutdeild hans í eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti fari yfir 20, 33 eða 50% eða nemi svo stórum hluta að fjármálafyrirtæki verði talið dótturfyrirtæki hans. Þá komi fram í 2. mgr. að með virkum eignarhlut sé átt við beina eða óbeina hlutdeild í fyrirtæki sem nemi 10% eða meira af eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti, eða aðra hlutdeild sem geri kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi fyrirtækis.

Í tilkynningu Fjármálaeftirlitsins komi fram að við könnun þess hafi sterkur og rökstuddur grunur vaknað um að í viðskiptum með stofnfé Sparisjóðs D hafi verið brotið gegn umræddu ákvæði. Hafi sá grunur styrkst við frekari rannsókn og grunur vaknað um að B hafi þar átt hlut að máli með beinum eða óbeinum hætti. Vegna þessa gruns um brot sem beindist gegn umræddum lögmönnum hafi úrskurðurinn verð veittur. Hafi verið byggt á 4. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastefsemi, en þar komi fram að Fjármálaeftirlitið geti gert athuganir á starfsstað þegar ástæða er til að ætla að athuganir eða aðgerðir Fjármálaeftirlitsins nái að öðrum kosti ekki tilætluðum árangri. Hafi enda verið uppi sterkar grunsemdir um að þeir sem beiðnin um úrskurðinn beindist að hefðu vanrækt skyldur sínar um að leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins, skv. 40. gr. laga um fjármálafyrirtæki, og skilyrði umræddrar 4. mgr. 9. gr. uppfyllt.

Með vísan til þessa telur Ríkislögreglustjórinn ljóst að úrskurðurinn hafi verið réttur.

Loks bendir Ríkislögreglustjórinn á að ákvæði um trúnaðarskyldu lögmanna eiga ekki við í þessu tilviki enda um það að ræða að grunur um brot beinist ekki aðeins að umbjóðendum umræddra lögmanna heldur einnig lögmönnunum sjálfum. Þeir hafa ekki enn verið yfirheyrðir hjá lögreglu vegna þeirra grunsemda, en rannsókn málsins sé í fullum gangi.

NIÐURSTAÐA

Fyrir liggur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. nóvember sl. um að Landsbanka Íslands hafi verið skylt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og ljósrit af öllum gögnum í vörslu bankans varðandi hreyfingar á bankareikningum B að fjárhæð 5 milljónum króna eða hærra frá 1. apríl til 28. nóvember síðasta árs. Úrskurður þessi er ekki til endurskoðunar hér en hins vegar þykir beiðandi geta fengið úrlausn um það hvort ríkislögreglustjóra séu heimil not gagna þeirra sem Fjármálaeftirlitið aflaði í kjölfar úrskurðarins.

Með bréfi dagsettu 16. desember 2005 tilkynnti Fjármálaeftirlitið ríkislögreglustjóra samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 87/1998 að athugun þess hefði leitt í ljós að óbeinn virkur eignarhlutur virtist vera, eða hafa verið, til staðar í Sparisjóði D í andstöðu við 40. gr. laga nr. 161/2002,  sbr. 2. og 3. mgr. 70. gr. laganna. Jafnframt verði ekki annað séð en að tilteknir aðilar hafi veitt Fjármálaeftirlitinu rangar eða villandi upplýsingar um sem kunni að fela í sér brot á 111. gr. laga nr. 161/2002 og 146. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að rökstuddur grunur leiki á því að í viðskiptum með stofnfé Sparisjóðs D hafi verið brotið gegn 40. gr. laga nr. 161/2001 um fjármálafyrirtæki og að B hafi átt þar hlut að máli með beinum eða óbeinum hætti.

Samkvæmt framansögðu beinist rannsókn ríkislögreglustjóra auk annars að ætluðum þætti þeirra er standa að skrifstofu B í viðskiptum með stofnfé Sparisjóðs D sem kann að fela í sér brot á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Við þær aðstæður verður ekki fallist á það að af ákvæðum 22. gr. laga nr. 77/1998  um þagnarskyldu lögmanna leiði að lögreglu verði ekki heimiluð not gagna þeirra er hér um ræðir né heldur, sé litið til 2. mgr. 107. gr. laga nr. 161/2002, að lög standi til þess að taka framangreinda kröfu til greina.

Með vísan til framanritaðs er þeirri kröfu hafnað, að Ríkislögreglustjóra sé óheimilt að nota gögn um hreyfingar á bankareikningum B við rannsókn hans á ætluðum brotum vegna viðskipta með stofnfjárhluti í Sparisjóði D.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Þeirri kröfu að Ríkislögreglustjóra sé óheimilt að nota gögn um hreyfingar á bankareikningum B við rannsókn hans á ætluðum brotum vegna viðskipta með stofnfjárhluti í Sparisjóði D er hafnað.