Hæstiréttur íslands
Mál nr. 353/2008
Lykilorð
- Útlendingur
- Stjórnsýsla
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 12. mars 2009. |
|
Nr. 353/2008. |
Íslenska ríkið og Útlendingastofnun (Sigurður Gísli Gíslason hrl.) gegn Amadou Shernu Daillo (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Útlendingar. Stjórnsýsla. Gjafsókn.
A óskaði hælis á Íslandi og tók Ú í framhaldi af því málið til meðferðar. Óskaði Ú meðal annars upplýsinga frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um aðstæður í heimalandi A, en tók ákvörðun um að synja umsókn A áður en svar barst. A kærði ákvörðunina til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem staðfesti hana. Talið var að bætt hafi verið að nokkru leyti úr annmarka á ákvörðun Ú við úrskurð ráðuneytisins, en þá hafði borist svar frá Flóttamannastofnuninni. Í svarinu komi þó fram að ekki væri útilokað að veita nákvæmari upplýsingar ef fyrirspurnin væri nákvæmari. Yrði að líta svo á að þessar upplýsingar hafi verið aðgengilegar og því hafi þess ekki verið gætt að afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga svo sem skylt sé að gera samkvæmt 3. mgr. 50. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Hafi því verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Voru ákvörðun Ú, um að synja umsókn A um hæli, og úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem staðfesti hana, felld úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 30. júní 2008. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
Stefndi, sem mun vera af ættbálkinum Haalpular, sem er hluti af svonefndu non-Moor þjóðarbroti í Máritaníu, fór þess á leit við yfirheyrslu hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli 23. október 2004 að honum yrði veitt hæli sem flóttamanni hér á landi. Með ákvörðun 19. júní 2006 hafnaði Útlendingastofnun þessari beiðni. Áður hafði stofnunin sent 18. maí 2006 Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fyrirspurn með tveimur tilteknum spurningum, sem nánar eru raktar í héraðsdómi. Útlendingastofnun beið ekki eftir svari við fyrirspurninni áður en hún tók ákvörðun sína og kærði stefndi hana til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Í júlí 2006 barst Útlendingastofnun svar Flóttamannastofnunarinnar. Þar kom meðal annars fram að ekki væri unnt að útiloka að íbúar Máritaníu, sem sendir yrðu til síns heimalands, gætu haft ríkar ástæður til að óttast að þeir yrðu hnepptir í einhvers konar þrælahald af þeirri ástæðu einni að þeir heyrðu til svonefndu non-Moor þjóðarbroti, en það væri þó mjög ólíklegt miðað við þróun mála. Hins vegar þyrfti einnig að hafa í huga aðstöðu og menntun viðkomandi manns. Með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 10. janúar 2007 var ákvörðun Útlendingastofnunar 19. júní 2006 staðfest og byggði hann meðal annars á þeim upplýsingum, sem fram komu frá Flóttamannastofnuninni í júlí 2006 og nánar eru raktar í hinum áfrýjaða dómi. Bættu þær að nokkru úr þeim annmarka, sem var á ákvörðun Útlendingastofnunar, að bíða ekki svara við áðurnefndri fyrirspurn áður en ákvörðun var tekin um beiðni stefnda. Var því ekki nauðsynlegt, eins og hér stóð á og efni upplýsinganna var háttað, að vísa málinu á ný til ákvörðunar Útlendingastofnunar, eins og stefndi byggir á að hafi borið að gera.
Samkvæmt 3. mgr. 50. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 skal Útlendingastofnun við meðferð máls af því tagi sem hér er fjallað um „af sjálfsdáðum afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.“ Í niðurlagi áðurnefnds svars Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til Útlendingastofnunar 15. júlí 2006, sem barst innan við tveimur mánuðum frá því að síðarnefnda stofnunin sendi fyrirspurnina, kemur fram að hún hafi verið mjög almenns eðlis og svarið væri það því einnig. Fyrirspurnin hefði þurft að taka mið af aðstæðum, sem við ættu í tilteknu máli svo að unnt hefði verið að svara henni af meiri nákvæmni. Er því ekki útilokað ef litið er til þessa svars að unnt hefði verið í kjölfar þess að afla nánari upplýsinga um aðstæður stefnda með því að beina nýrri fyrirspurn með ítarlegri upplýsingum um hann til Flóttamannastofnunar, sem svarað hafði þeirri fyrri án tafar. Er því fallist á með stefnda að þess hafi ekki verið gætt að afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga eins og skylt var að gera samkvæmt 3. mgr. 50. gr. laga nr. 96/2002 áður en ákvörðun Útlendingastofnunar 19. júní 2006, sem staðfest var með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 10. janúar 2007, var tekin. Með því að gæta þessa ekki var brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, Amadou Shernu Daillo, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. mars sl., var höfðað 28. júní 2007 af Amadou Shernu Daillo, Fithostel, Fitjabraut 6, Reykjanesbæ, gegn íslenska ríkinu og Útlendingastofnun, Skógarhlíð 6, Reykjavík.
Kröfur stefnanda eru þær að ógiltur verði með dómi úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 10. janúar 2007 í heild sinni, sem staðfesti úrskurð Útlendingastofnunar frá 19. júní 2006, og dæmt að úrskurður Útlendingastofnunar frá 19. júní 2006, þar sem umsókn stefnanda um hæli og veitingu dvalarleyfis var synjað og honum vísað frá landi svo fljótt sem verða má, verði felldur úr gildi. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að viðbættum virðisaukaskatti á málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnanda var veitt gjafsókn 5. september 2007.
Af hálfu stefndu er krafist sýknu og málskostnaðar að mati dómsins.
Í stefnu var þess krafist til vara að viðurkennd yrði réttarstaða stefnanda sem flóttamanns. Í greinargerð stefndu var þess krafist að varakröfu stefnanda yrði vísað frá dómi og var það gert með úrskurði dómsins 20. desember 2007.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi hefur upplýst að hann hafi fæðst 5. apríl 1979 í Máritaníu. Þar bjó hann þar til hann kom til Íslands með flugi frá Amsterdam 23. október 2004. Er lögreglan hafði afskipti af honum á flugvellinum í Keflavík framvísaði hann fölsuðu vegabréfi með nafni annars manns. Stefnandi upplýsti þá um nafn sitt og óskaði eftir hæli á Íslandi. Hann gaf skýrslu hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli daginn eftir og veitti hefðbundnar upplýsingar um uppruna sinn, persónulega hagi, fjölskyldu og ferðaleið frá heimalandi til Íslands.
Útlendingastofnun tók málið til meðferðar í framhaldi af þessu en tekin var ákvörðun í málinu 19. júní 2006. Með henni var umsókn stefnanda um hæli hér á landi sem flóttamanni synjað. Einnig var stefnanda synjað um dvalarleyfi hér af mannúðarástæðum og ákveðið að honum yrði vísað úr landi svo fljótt sem verða mætti.
Stefnandi kærði ákvörðunina til dómsmálaráðuneytisins sem staðfesti hana með úrskurði 10. janúar 2007. Stefnandi hefur höfðað málið til ógildingar á úrskurðinum. Einnig krefst hann þess að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar. Engar athugsemdir eru gerðar af hálfu stefndu varðandi málsaðild þeirra eða framsetningu á kröfu stefnanda um að úrskurður ráðuneytisins og ákvörðun Útlendingastofnunar verð felld úr gildi.
Kröfur stefnanda eru byggðar á því að Útlendingastofnun hafi látið hjá líða að kanna þær aðstæður sem stefnandi hafi borið fyrir sig við hælisumsókn hér á landi áður en ákvörðun var tekin. Þar með hafi rannsóknarregla samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga verið brotin. Ráðherra hafi brotið gegn sömu reglu með því að byggja synjun á því að þrælahald væri bannað samkvæmt lögum í Máritaníu þótt þrælahald væri þar enn við lýði og þar með hafi upplýsingar um raunverulegt ástand í landinu verið sniðgengnar. Enn fremur hafi skortur á upplýsingum leitt til þess að stefnanda hafi ekki verið veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um útlendinga. Röng túlkun stefndu á hugtakinu þrælahald eða þrældómur hafi leitt til rangrar niðurstöðu í málinu. Stefndu hafi, með því að túlka skilyrði framangreinds lagaákvæðis of þröngt, komið í veg fyrir að stefnanda yrði veitt hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum og því sé niðurstaða stefndu um það efnislega röng. Þá hafi rangt mat verið lagt á sönnunargögn í málinu og sönnunarreglum misbeitt. Krafa stefndu um beinar sannanir í máli stefnanda sé of ströng og ómálefnaleg.
Þessum málsástæðum stefnanda er öllum mótmælt af hálfu stefndu. Stefndu mótmæla því að málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar og að stefndu hafi komist að efnislega rangri niðurstöðu.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi vísar til þess að hann hafi komið til landsins sem flóttamaður. Hann hafi gefið skýrslu hjá lögreglu en þar komi fram að hann hafi flúið frá heimalandi sínu í október 2004 og farið með skipi til Evrópu. Hann þekki ekki borgina sem hann hafi komið til. Eftir um það bil viku dvöl þar hafi honum verið ekið á flugvöll en þar hafi hann fengið í hendur vegabréf og farseðil. Hann hafi talið sig vera á leið til Bretlands. Hann hafi slegist í hóp ferðamanna, sem hafi farið í sama flug, en lent hafi verið á Íslandi.
Stefnandi lýsir ástæðum flóttans þannig að hann hefði verið hnepptur í ánauð og þrældóm að ástæðulausu. Hann telji víst að hans bíði sömu örlög verði honum gert að snúa heim aftur. Hann tilheyri stærsta þjóðflokknum í Máritaníu en þeir sem honum tilheyri nefnist non-Moors (Haal Pulaar eða Fulani). Móðurmál hans sé Haal Pulaar. Hann hafi fæðst í þorpinu Kondel, annar tveggja systkina. Þegar ráðist hafi verið á heimilið og systur hans rænt hafi móðir hans misst heilsuna. Eftir dauða móðurinnar hafi hann flutt með föður sínum til Gorel Koubi þar sem hann hafi búið er hann var hnepptur í fangelsi. Á árinu 2001 hafi verið ráðist inn í þorpið og sex hermenn komið á heimili þeirra. Ástæða heimsóknarinnar hafi verið að leggja hald á nautgripi feðganna og hafi faðir hans reynt að afstýra gripdeildinni með því að koma í veg fyrir að nautgripirnir yrðu teknir, en þá hafi hann verið laminn til dauða af hermönnunum. Stefnandi hafi verið tekinn með valdi frá föður sínum, sem legið hafi örendur á jörðinni, og honum hafi verið haldið meðan sparkað var í síðu hans. Stefnanda hafi verið komið fyrir í San Metra fangelsinu þar sem honum hafi verið haldið næstu tvö ár. Hann hafi fundið fyrir andnauð eftir spörkin í síðuna og tveimur dögum eftir að honum var komið fyrir í fangelsinu hafi hann ekki lengur náð andanum og misst meðvitund. Hann hafi ekki vitað af sér fyrr en hann vaknaði á herspítalanum nokkrum klukkustundum síðar með slöngu í síðunni. Honum hafi verið haldið í þrældómi þau tvö ár sem hann hafi verið innilokaður í San Metra fangelsinu í grennd við höfuðborg Máritaníu. Honum hafi tekist að flýja þaðan í september 2003 en hann hafi komist í burtu á fæðingardegi Múhameðs spámanns er hann var við vinnu utan veggja fangelsisins fyrir utan borgina. Fáir fangaverðir hafi verið til staðar þennan dag vegna hátíðahaldanna. Hann hafi hlaupið yfir gróðurlaust land og sanda klukkustundum saman og komist upp á þjóðveginn en þar hafi hann fengið far með flutningabifreið til þorpsins Noadebou. Þar hafi hann hitt Yerno Kan sem hafi skotið yfir hann skjólshúsi og hjá honum hafi stefnandi unnið.
Stefnandi byggi kröfu sína á því að ákvörðun Útlendingastofnunar, sem ráðherra hafi staðfest 10. janúar 2007, brjóti gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og útlendingalögum nr. 96/2002.
Útlendingastofnun hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga með því að láta hjá líða að kanna þær aðstæður sem stefnandi hafi borið fyrir sig við hælisumsókn hér á landi. Þegar stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að non-Moor uppruni stefnanda yrði lagður til grundvallar og að framburður hans væri í heild trúverðugur hafi henni borið að kanna aðstæður stefnanda með vandaðri hætti en gert var. Þar sem opinber gögn sýni að fólk úr hópi stefnanda búi við þá hættu að verða hneppt í þrældóm hafi stofnuninni borið að kanna frekar staðreyndir í frásögn hans, svo sem hvort nöfn og staðhættir ættu við rök að styðjast og hvort fangelsun hans án sakar og dvöl hans í San Metra fangelsinu yrði jafnað við dvöl í þrælabúðum. Þetta eigi sérstaklega við þar sem viðurkennt sé í úrskurði Útlendingastofnunar að frásögn stefnanda um handtöku og fangelsisvist þyki ekki ótrúverðug með hliðsjón af mannréttindaskýrslum, sem greini frá tíðum geðþóttahandtökum lögreglu, og því að fyrir liggi að barsmíðar og pyndingar eigi sér sannarlega stað í fangelsum víðs vegar um landið. Þar sem stefnandi byggi kröfu sína á því að hann hafi verið hnepptur í fangelsi án nokkurrar sakar, í ótiltiltekinn tíma, þar sem hann hafi þurft að vinna undir eftirliti fangavarða án þess að njóta góðs af arði vinnu sinnar, hafi stofnuninni borið að skoða önnur form þrælkunar en hið sígilda gamla form þrælkunar sem samanstandi af hvítum húsbónda og þeldökkum þræl við landbúnaðarstörf. Niðurstaða stofnunarinnar, um að engar heimildir sé að finna um þrælavinnu fanga, beri vott um að ein helsta málsástæða stefnanda, meintur þrældómur, hafi ekki sætt rannsókn.
Útlendingastofnun hafi látið hjá líða að hagnýta þær upplýsingar sem fram hafi komið í eigin rannsóknum sem séu stefnanda í vil. Þannig hafi stofnunin ekki talið að læknisvottorð, sem staðfesti að stefnandi hafi verið með samfallið lunga, feli í sér sönnun, en stefnandi hafi borið um að lungað hafi fallið saman í fangelsinu. Í annan stað hafi frásögn stefnanda af ferðaleið verið borin undir Siglingamálastofnun Íslands, sem hafi staðfest að framburðurinn gæti staðist, án þess að Útlendingastofnun hafi talið að þar væri við beinar sannanir að styðjast. Í þriðja lagi hafi stofnunin lagt nokkrar spurningar fyrir Flóttamannanefnd Sameinuðu þjóðanna um aðstæður í heimalandi stefnanda sem hafi miðað að því að sannreyna framburð stefnanda. Útlendingastofnun hafi brotið gegn 10. gr. laga nr. 37/1993 með því að bíða ekki svara en taka ákvörðun í málinu enda þótt niðurstaða rannsóknarinnar hefði getað skipt miklu varðandi áreiðanleik framburðar stefnanda um meintan þrældóm sem sé ein helsta ástæða hans fyrir flóttanum. Ráðherra hafi brotið gegn sömu reglu með því að byggja synjun á því að þrælahald væri bannað samkvæmt lögum í Máritaníu þótt hann hefði undir höndum upplýsingar frá Flóttamannanefnd Sameinuðu þjóðanna um að þrælahald væri enn við lýði þrátt fyrir lög frá 1981 um afnám þrælahalds. Rannsóknareglan sé öryggisregla sem miði að því að mál sé vel upplýst áður en ákvörðun er tekin svo niðurstaðan verði efnislega rétt hverju sinni. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun sé þeim mun strangari kröfur verði almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar sem búi að baki ákvörðun séu sannar og réttar. Afgreiðsla íslenskra stjórnvalda á hælisumsókn stefnanda snúi að öryggi og lífi hans. Ráðherra hafi brotið gegn framangreindri lagareglu með því að sniðganga upplýsingar um raunverulegt ástand í Máritaníu.
Stefndu hafi brotið gegn 10. gr. laga nr. 37/1993 með því að láta hjá líða að kanna aðstæður stefnanda við mat á því hvort honum bæri dvalarleyfi af mannúðarástæðum samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/2002. Ekki hafi verið kannað hvort hinn langi tími, sem afgreiðsla málsins tók, hefði gert það að verkum að stefnandi tengdist landi og þjóð, en það sé annað skilyrði fyrir að ákvæðinu verði beitt. Þá hafi einnig verið látið hjá líða að kanna hvort áskilnaður lagaákvæðisins um mannúðarsjónarmið ættu við um aðstæður hans, t.d. hafi ekki verið horft til aðstæðna hans eftir að hann kom til landsins. Skortur á upplýsingum um þennan þátt hafi leitt til þess að honum hafi ekki verið veitt hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
Þröng túlkun stjórnvalda á hugtakinu þrældómur eða þrælahald sé í andstöðu við almenna málnotkun á Íslandi svo og alþjóðalög og samninga um flóttamenn. Túlkun og skilgreining hugtaksins geti ráðið úrslitum um réttarstöðu stefnanda og það hvort aðstæður hans eigi undir 44. gr. laga nr. 96/2002, en stefnandi hafi verið hnepptur í fangelsi án nokkurrar sakar þar sem honum hafi verið gert að vera í ótiltekinn tíma og vinna þar án þess að hann nyti ágóðans eða arðs af því. Þessu verði jafnað við að vera hnepptur í þrælkunarbúðir og skipti þjóðfélagsstaða stefnanda máli en hann tilheyri þeim hópi fólks í Máritáníu sem orðið hafi fyrir barðinu á þrælahaldi. Túlkun Útlendingastofnunar á hugtakinu, sem ráðherra hafi staðfest, hafi leitt til efnislega rangrar niðurstöðu í máli stefnanda og því beri að ógilda úrskurðinn.
Útlendingastofnun hafi, með því að túlka skilyrði 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/2002 ótæpilega þröngt, komið í veg fyrir að stefnanda yrði veitt hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum og því sé niðurstaða hennar efnislega röng. Af niðurstöðu Útlendingastofnunar megi ráða að eina ástæða þess að mannúðarsjónarmið samkvæmt lagaákvæðinu komi til álita sé þegar stjórnvald hafi komist að þeirri niðurstöðu að aðila stafi ekki hætta af því að verða sendur til heimalands. Sama gildi er ráðuneytið hafi beitt lagaákvæðinu, en lagt sé til grundvallar að bíði stefnanda hvorki ofsóknir af hálfu stjórnvalda né þrældómur við komu til Máritaníu verði ekki talið að mannréttindi verði á honum brotin við endursendingu þangað og því komi 11. gr. ekki til skoðunar. Þessi skilningur leiði til þess að undantekningarreglan í 11. gr. komi aldrei til skoðunar, enda njóti útlendingar, sem eigi á hættu ofsóknir við heimsendingu, þegar verndar samkvæmt 45. gr. sömu laga. Tilgangur 2. mgr. 11. gr. sé að ná til þeirra tilvika þegar aðstæður útlendings séu þannig að hann uppfylli ekki skilyrði 44. gr. laganna, en rík mannúðarsjónarmið standi til þess að honum verði veitt hér dvalarleyfi. Við mat á mannúðarsjónarmiðum verði að horfa til mannréttindasáttmála Evrópu, eins og hann hafi verið lögfestur með 1ögum nr. 62/1994, mannréttindaákvæða stjórnarskrár nr. 33/1944 og þeirra mannréttindasáttmála sem Ísland sé aðili að.
Stefnandi byggi kröfu sína, um ógildi úrskurðar Útlendingastofnunar sem ráðherra hafi staðfest, á því að stofnunin hafi farið út fyrir heimild sína við mat á sönnunargögnum og með kröfu sinni um beinar sannanir. Lög nr. 96/2002 geri ekki ráð fyrir að umsækjendur um hæli á Íslandi leggi fram beinar sannanir fyrir ástæðum flótta undan ofsóknum. Þvert á móti sé vísað til flóttamannasamnings við mat á skilgreiningu flóttamanns í 44. gr. laganna. Samkvæmt alþjóðalögum hafi verið talið að við mat á því hvort efnisástæður A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna eigi við séu bæði beinar og óbeinar sannanir tækar. Í 18. gr. reglugerðar Evrópusambandsins nr. 343/2003/EB sé gert ráð fyrir jafnt óbeinum sem beinum sönnunum og verði ekki gerðar ríkari kröfur til sönnunar í málsmeðferð hælisumsókna. Hin stranga krafa íslenskra stjórnvalda um beinar sannanir í máli stefnanda hafi verið ómálefnaleg og því beri að ógilda úrskurðinn.
Stefnandi uppfylli kröfur 1. tl. A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við hann frá 1967 eins og skilyrðið hafi verið lögfest með 44. gr. laga nr. 96/2002. Aðstæður, sem hann hafi lýst, sýni að hann sé utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar og/eða þjóðernis og hann geti ekki eða vilji ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands. Stefnandi hafi verið utan Máritaníu er hann sótti um hæli hér á landi í október 2004 en hann hafi dvalið hér síðan. Hann uppfylli huglæg og hlutlæg skilyrði laga um raunverulegan ástæðuríkan ótta við áreiti, ofsóknir og mismunun hers og lögreglu í Máritaníu. Stefnandi hafi verið stöðugur í framburði sínum og framburðurinn trúverðugur. Útlendingastofnun hafi í rannsókn sinni lagt áherslu á að sannreyna ferðasögu kæranda. Niðurstaða þeirrar rannsóknar styrki framburð kæranda. Stefnandi krefjist þess að allur vafi vegna skorts á sönnunargögnum verði metinn honum í hag. Stefnanda hafi tekist að færa sönnur fyrir því að hann hafi verið haldinn raunverulegum ástæðuríkum ótta við ofsóknir vegna uppruna síns og kynþáttar með trúverðugri frásögn af atburðunum sem leitt hafi til flótta hans. Þetta sé viðurkennt í niðurstöðu úrskurðar Útlendingastofnunar. Stefndu hafi borið að meta stöðu stefnanda í heimalandinu en það hafi ekki verið gert.
Þegar hættan eða yfirvofandi hætta á ofsóknum sé metin hlutlægt sjáist að kærandi hafi haft fulla ástæðu til að óttast um líf sitt eftir að hafa flúið úr fangelsinu. Máritanía hafi verið frönsk nýlenda til 1960 er landið fékk sjálfstæði. Frá þeim tíma til 1984 hafi mismundandi herstjórar verið við völd, en árið 1984 hafi Maaouya Taya náð völdum með valdaráni. Hann hafi haldið völdum allt til ársins 2005. Árið 1991 hafi ný stjórnarskrá verið samþykkt í landinu en Taya hafi náði kjöri í almennum kosningum árið 1992 og aftur árið 1999. Á árinu 1993 hafi Bandaríkjastjórn hætt fjárhagsstuðningi við landið og opinbera skýringin verið sú að meðferð stjórnvalda á svörum íbúum landsins, Haal Pulaar eða Fulani, bryti í bága við mannréttindasáttmála og alþjóðalög, þjóðarbrot sem stefnandi tilheyri. Allt frá upphafi sjálfstjórnar í Máritaníu hafi staða svarta meirihlutans verið óviðunandi en afkomendur Mára hafi farið með öll völd. Samkvæmt bréfi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til Útlendingastofnunar 17. júlí 2006 hafi þetta lítið breyst og því hafi svartir non-Moors í dag ekki raunverulega, formlega aðkomu að stjórnkerfi landsins. Á árinu 1989 hafi þeir kerfisbundið verið hraktir frá jörðum sínum í hinum fjósamari hlutum landsins og þeim vísað úr landi. Talið sé að meira en 120.000 manns hafi misst heimili sitt og búi enn í flóttamannabúðum. Ráða megi af viðbótargögnum frá 17. júlí 2006 að þrælahald sé ennþá við lýði, þrátt fyrir afnám þrælahalds með lögum 1981. Að mati Flóttamannastofnunarinnar sé talið að erfitt verði að uppræta þrælahaldið því það liggi í uppbyggingu samfélagsins sem byggi á reglum erfðastéttaþjóðfélags. Samkvæmt opinberum upplýsingum muni um það bil 30% þjóðarinnar vera haldið í einhvers konar þrældómi. Þegar reynsla stefnanda, sem tilheyri þeim samfélagshópi, sem sé í hættu á að vera hnepptur í þrældóm í Máritaníu, sé borin saman við það sem vitað sé um ástand mála í landinu, verði ekki dregið í efa að stefnandi sé haldinn ástæðuríkum ótta í merkingu flóttamannasamningsins við ofsóknir yfirvalda þar. Gögn málsins styðji að öllu leyti frásögn stefnanda.
Stefnandi hafi orðið fyrir ofsóknum af hálfu hers og lögreglu vegna uppruna síns, þjóðernis og kynþáttar. Hann tilheyri svörtum meirihluta þjóðarinnar en uppruni hans hafi ekki verið vefengdur í úrskurði Útlendingastofnunar og því verði að telja framburð hans um uppruna réttan. Viðurkennt sé að þrælahald viðgangist ennþá í Máritaníu. Einstaklingar úr neðsta lagi þjóðfélagsins, sem kærandi komi úr, verði gjarnan andlag ánauðar og þrældóms en í forsendum úrskurðar Útlendingastofnunar sé þetta viðurkennt. Hefði Útlendingastofnun ekki horft fram hjá því að ánauð og þrælahald geti falist í því þegar einstaklingar, sem haldið er í fangelsi án sakar, sé gert að inna af hendi launalaust starf, hefði hún komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi orðið fyrir skipulögðum ofsóknum í heimalandi vegna þjóðernis eða kynþáttar. Enginn munur sé á því hvort einstaklingum sé haldið í sérstökum þrælabúðum, á heimilum White Moors, vinnustöðum eða fangelsum án sakar ef skilyrðið um ólögmæta frelsissviptingu og endurgjaldslausa vinnu eru fyrir hendi.
Stefnandi hafi greint frá afleiðingum misþyrminga, sem hann hafi orðið fyrir, eins og fram komi í niðurstöðum Útlendingastofnunar. Hann sé með ör á vinstri síðu eftir rör sem hafi verið leitt inn í lunga hans vegna samfalls eftir að sparkað var ítrekað í síðu hans. Frásögnin sé staðfest með vottorði læknis 15. maí 2006, en Útlendingastofnun hafi talið að það væri í sjálfu sér ekki sönnun fyrir framburði stefnanda. Í vottorði Landspítala sé staðfest að stefnandi hafi í tvígang verið lagður inn til meðferðar, í ágúst og september 2006, vegna þess að lunga hans hafi fallið saman, en þá hafi verið gerð lungnaaðgerð á honum. Þótt það teljist ekki bein, ótvíræð sönnun fyrir frásögn stefnanda um misþyrmingar af hálfu lögreglu eða hermanna renni það hins vegar stoðum undir frásögn hans um að sparkað hafi verið í hann á heimili hans þegar hermennirnir komu þangað. Stefnandi mótmæli harðlega þeirri ályktun sem Útlendingastofnun dragi af frásögn stefnanda af læknishjálp í fangelsinu. Þótt læknishjálp sé veitt þar dragi það ekki úr trúverðugleika þess að föngum sé misþyrmt og þeir pyntaðir, til dæmis þegar verið er að hegna þeim eða berja þá til hlýðni.
Stefnandi hafi ekki notið verndar yfirvalda í heimalandi sínu heldur hafi hann þvert á móti verið beittur ofbeldi af þeirra hálfu. Þetta breytist ekki verði hann sendur heim. Stefnandi hafi sýnt fram á að hann og fjölskylda hans hafi í tvígang sætt ofsóknum af hálfu yfirvalda, en sú frásögn sé metin trúverðug í úrskurði Útlendingastofnunar. Í ljósi svara Flóttamannastofnunarinnar við fyrirspurn Útlendingastofnunar sé ekkert sem sýni að tryggt verði að stefnandi sæti ekki áfram ofsóknum yfirvalda verði hann sendur heim. Þar komi fram að litlar vonir séu um breytingar á kjörum hins svarta meirihluta þjóðarinnar í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú sitji og ekki sé unnt að benda á neinar aðgerðir eða árangur stjórnvalda, sem gætu tryggt öryggi stefnanda og annarra í hans stöðu, þrátt fyrir loforð nýrrar ríkisstjórnar um breytingar. Dómsmálaráðherra landsins hafi nýlega staðfest að þrælahald sé enn við lýði í Máritaníu og þrátt fyrir hugleiðingar hans um að ráðast verði gegn því sé ekki að vænta breytinga fyrr en ný lýðræðislega kjörin ríkisstjórn komi til valda. Þá bendi ummæli ríkisstjórnarinnar í garð þeirra sem voru hraktir frá heimilum sínum á árunum 1989 til 1991 ekki til þess að breytinga megi vænta á stöðu þeirra í tíð þessarar ríkisstjórnar, en stefnandi sé vissulega einn þeirra. Í ljósi þessa sé óvarlegt að gera ráð fyrir að staða þjóðarbrots stefnanda verði tryggð á næstunni og þar með öryggi hans.
Í svörum Flóttamannastofnunarinnar komi fram að ekki sé útilokað að einstaklingur eins og stefnandi geti átt von á því að vera hnepptur í þrældóm verði honum snúið aftur. Við mat á öryggi hans verði að horfa til þess að hann hafi strokið úr fangelsi en það veiki stöðu hans og öryggi. Fólk í hans stöðu verði auðveldlega hneppt í ánauð, en meta verði allan vafa við slíkar aðstæður honum í hag. Samkvæmt alþjóðalögum beri íslenska ríkið sem aðildarríki flóttamannasamningsins sönnunarbyrði varðandi það að hættulaust sé að senda stefnanda heim.
Byggt sé á röngum staðhæfingum í ákvörðun Útlendingastofnunar og mat á því hvort stefnandi hefði haft ástæðu til að óttast ofsóknir sé rangt. Þessar villur eigi þátt í því að úrskurður stofnunarinnar sé efnislega rangur og því beri að ógilda hann.
Stefnandi byggi kröfu sína á því að ráðherra hefði borið að ógilda úrskurð Útlendingastofnunar á grundvelli 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 96/2002 og vísa málinu heim til nýrrar málsmeðferðar. Málið hafi dregist úr hömlu án þess að stefnandi nyti góðs af þeim drætti málins eða hafi fengið að njóta þess óhagræðis sem drátturinn hafi haft á heilsu hans og velferð, en ljóst sé að óhæfilega löng málsmeðferð hafi haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir heilsu hans og líðan.
Útlendingastofnun sé stefnt til varnar í máli þessu, enda hafi stofnunin tekið þá ákvörðun sem um er deilt í máli þessu. Stofnunin sé aðildarhæf í merkingu l. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, enda hafi hún vald til að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Útlendingastofnun hafi lögvarða hagsmuni af því að taka til varna. Þeir hagsmunir snúi m.a. að því að fá tækifæri til að verja sig og koma jafnframt gagnlegum upplýsingum að í málinu. Nauðsynlegt hafi verið að stefna Útlendingastofnun til ógildingar á ákvörðun stofnunarinnar enda sé markmið málsóknarinnar að fá ákvörðun hennar hnekkt ekki síður en úrskurði ráðuneytisins.
Aðild ráðherra sem æðra stjórnvalds sé reist á því að hann eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins enda hafi ákvörðun hans réttaráhrif stjórnvaldsákvörðunar. Ráðherra hafi nær takmarkalausa heimild til endurskoðunar stjórnvaldsákvörðunar Útlendingastofnunar og geti í því sambandi borið fyrir sig nýjar málsástæður. Ráðherra sé æðra sett stjórnvald gagnvart Útlendingastofnun, en samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar hafi ráðherra sömu stjórnunarheimildir gagnvart lægra settu stjórnvaldi og innan ráðuneytisins, nema lög kveði á um annað. Því sé ríkari ástæða til að telja að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn dómsmáls sem snúist um ákvörðun hans á kærustigi. Byggt sé á dómaframkvæmd, svo sem dómum Hæstaréttar nr. 499/2005 og nr. 113/2001.
Stefnandi styðji kröfur sínar við lög nr. 96/2002 um útlendinga, stjórnsýslulög nr. 37/1993, lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, reglugerð nr. 53/2003, Alþjóðasamning um réttarstöðu flóttamanna frá 1951 og viðauka við hann frá 1967, mannréttindasáttmála Evrópu, samning Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966, Samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 1989, reglugerð Evrópuráðsins nr. 343/2003/EB frá 18. febrúar 2003 og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 1560/2003/EB frá 2. september 2003.
Málsástæður og lagarök stefndu
Af hálfu stefndu er því mótmælt að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi verið andstæð lögum eða brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. laga nr. 37/1993. Einnig mótmæli stefndu þeirri staðhæfingu að Útlendingastofnun hafi vanrækt að kanna þær aðstæður sem stefnandi hafi borið fyrir sig.
Mótmælt sé að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til læknisskoðunar sem stefnandi hafi undirgengist. Fullt tillit hafi verið tekið til þess sem þar hafi komið fram en það hafi ekki gefið tilefni til frekari könnunar og ekki getað leitt til þeirrar niðurstöðu að stefnanda yrði veitt hæli. Samfallið lunga verði ekki til þess að hælisveiting sé óhjákvæmileg. Það sanni ekki eða renni styrkum stoðum undir frásagnir stefnanda um misþyrmingar.
Niðurstaða Siglingamálastofnunar hafi verið höfð til hliðsjónar, en hún veiti ekki sönnun um réttmæti frásagnar stefnanda, heldur aðeins vísbendingu um að frásögnin geti staðist um það atriði sem könnunin beindist að.
Þótt Útlendingastofnun hafi tekið ákvörðun áður en öll svör bárust valdi það ekki ógildi ákvörðunarinnar og verði ekki til þess að úrskurður ráðuneytis verði ógiltur. Þau gögn sem bárust eftir á hafi aðeins staðfest það sem byggt var á en hvorki breytt því né snúið því við. Þau hafi því fremur styrkt niðurstöðuna.
Leitað hafi verið eftir upplýsingum upp ástand mála í heimalandi stefnanda, bæði að því er varðar þrælahald og mismunandi stöðu fólks í samfélaginu eftir kynþætti og menningarhópum. Komið hafi fram að þrælahald sé bannað með lögum í Máritaníu og ný stjórnvöld þar í landi hafi fylgt því eftir af festu, en tæp þrjú ár séu síðan stefnandi fór þaðan. Því sé rangt að ekki hafi farið fram könnun á þessu og rannsóknarskyldu ekki sinnt. Stefnandi kunni að hafa þá skoðun að ekki hafi verið nóg að gert, en sú skoðun sé á hans ábyrgð. Ekki verði sú skylda lögð á stjórnvald að eltast við smæstu atriði um allt sem stefnandi beri á borð ef ekkert bendi til að slík könnun geti skipt máli, svo sem nákvæm könnun á staðháttum og staðanöfnum. Í þessu efni beri stjórnvaldi jafnframt að líta til sjónarmiða um skilvirkni stjórnsýslu og málshraða. Ekkert liggi fyrir um það frá hendi stefnanda hverju frekari könnun, svo sem á staðháttum í Máritaníu, hefði breytt fyrir afgreiðslu málsins. Málið hafi verið nægilega upplýst með þeirri rannsókn sem fram hafi farið, en stefndi geti ekki borið hallann af því að ekki hafi fengist upplýsingar um hvaðeina. Það sé stefnanda að sýna fram á réttmæti staðhæfinga sinna og rannsóknarreglan breyti því ekki, en stefndu hafi rannsakað málavexti eftir því sem unnt var og tilefni gafst til. Ráðuneytið hafi kannað sjálfstætt hvernig aðstæðum væri háttað í heimalandi stefnanda með tilliti til ofangreindra atriða, eins og lýst sé í úrskurðinum sjálfum, en jafnframt farið rækilega yfir öll gögn málsins, eins og fram komi í úrskurðinum.
Stefndu mótmæli þeirri staðhæfingu stefnanda að þeir hafi brotið gegn rannsóknarskyldu sinni með því að kanna ekki aðstæður stefnanda við mat á mannúðarástæðum, svo sem það hvort hinn langi tími, sem afgreiðsla á máli hans hafi tekið, hafi haft áhrif á aðstæður hans á Íslandi. Ekkert í aðstæðum stefnanda hér á landi hafi verið á þann veg að ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/2002 ættu við. Hann hafi ekki þau sérstöku tengsl við landið sem áskilin eru og engu hefði breytt í því efni að dregist hafi að afgreiða erindi hans. Stefnandi eigi hér hvorki fjölskyldu né ættingja. Þó svo að hann kunni að hafa eignast hér einhverja kunningja sé það ekki nóg til að skilyrði ákvæðisins eigi við. Sama gildi þótt stefnandi kunni eitthvert hrafl í íslensku. Ekki dugi stefnanda heldur að vísa til mannúðarsjónarmiða að öðru leyti, enda ljóst að aðstæður í heimaríki stefnanda séu ekki og hafi ekki verið á þann hátt að heimsending hans væri ómannúðleg. Stefndu vísi jafnframt til þess að 2. mgr. 11. gr. laganna sé undantekningarregla sem beri að skýra þröngri skýringu fremur en rúmri svo sem stefnandi haldi fram.
Vegna allra athugasemda og málsástæðna stefnanda sem lúti að rannsóknarreglu vísi stefndu til þess að á öllum stigum hafi stefnandi notið aðstoðar lögmanns. Megi því gera ráð fyrir að hann hafi gert grein fyrir sínu máli og sjónarmiðum og vísað þá til þess sem kanna þyrfti frekar. Öll sjónarmið stefnanda hafi legið fyrir við afreiðslu á máli hans.
Því sé mótmælt af hálfu stefndu að þau hafi skilið orðið þrælahald á rangan veg. Það verði ekki talið til þrælahalds eða jafnað til þess þó að stefnandi hafi fengið engar eða óverulegar greiðslur fyrir vinnu sína í fangelsi. Almennt sé vinnuskylda í fangelsum og beri fangar jafnan lítið úr býtum. Þá sé ekki um þrælkunarbúðir að ræða, enda liggi ekki fyrir að þar sem misbrestur kunni að vera á banni við þrælahaldi í heimalandi stefnanda sé það í slíkum vinnu- eða þrælkunarbúðum eða í fangelsum. Ekkert liggi heldur fyrir um að stefnanda hafi verið mismunað í fangelsi á grundvelli litarháttar, trúarbragða eða uppruna. Hann hafi heldur ekki byggt á því að almennt séu greidd laun í fangelsum í Máritaníu og þá enn síður hvernig þeim launagreiðslum sé háttað.
Stefnandi haldi því fram að hann sé sérstaklega útsettur fyrir að verða fórnarlamb þrælahaldara í Máritaníu, en þetta byggi á frásögn hans af þjóðfélagslegri stöðu sinni. Þessu sé mótmælt sem ósönnuðu. Ekkert liggi fyrir um þjóðfélagslega stöðu stefnanda í Máritaníu, en í því efni breyti almennar upplýsingar engu. Staða hans sjálfs í samfélagi Máritaníu, svo sem menntunarleg, félagsleg og fjárhagsleg, sé með öllu óupplýst.
Túlkun stefndu gangi ekki gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu.
Stefndu mótmæli þeirri staðhæfingu að Útlendingastofnun hafi farið út fyrir heimildir sínar við mat á sönnunargögnum og kröfu um beinar sannanir. Ekki sé lögbundið hvernig stjórnvald meti gögn í máli umfram það að matið sé málefnalegt og ekki í andstöðu við lög.
Stefndu mótmæli þeirri staðhæfingu stefnanda að stefndu hafi metið ranglega að stefnandi hefði ekki haft ástæðu til ótta eftir að hann var laus úr fangelsinu. Fram hafi komið að stefnandi dvaldi um langt skeið í landi sínu án vandræða og áreitni eftir að hann losnaði úr fangelsi. Hann hafi stundað vinnu hjá manni sem hann kynntist og ekki komi annað fram en að það hafi allt gengið vel og árekstralaust. Virtist stefnandi hafa farið burt vegna þess að það hentaði vinnuveitanda hans, Yero Kan. Sé það meðal annars haft eftir stefnanda sjálfum í viðtali hjá Útlendingastofnun að Yero Kan hafi sagst þurfa að senda hann burt svo að hann sjálfur lenti ekki í vandræðum með hermennina. Ekki komi hins vegar fram neitt um að stefnandi hafi haft áform um þetta sjálfur, hvorki á þeim tíma né fyrr. Brottför hans virtist því hafa verið að undirlagi Kan, en ekki vegna óska eða þarfa stefnanda sjálfs, enda hafi hann ekki átt frumkvæði að flóttanum sjálfur. Ekkert liggi heldur fyrir um að hermenn eða lögregla hafi leitað að stefnanda eftir að hann losnaði úr fangelsi og allt þar til hann yfirgaf land sitt. Ekki hafi verið ástæða til þess fyrir ráðuneytið að ógilda úrskurðinn vegna þessara sjónarmiða.
Stefndu mótmæli því að ráðuneytinu hafi borið að ógilda úrskurð Útlendingastofnunar vegna þess tíma sem afgreiðsla málsins tók. Tíminn sem málið tók leiði út af fyrir sig ekki til þess að efni séu til að vísa málinu aftur til Útlendingastofnunar. Auk þess hefði málið tekið enn lengri tíma hefði því verið vísað aftur þangað.
Í stefnu sé byggt á því að stefnandi og öll hans upplýsingagjöf og framburður hafi verið trúverðugur. Hann hafi þó í upphafi gefið rangar upplýsingar um sjálfan sig. Þá hafi hann sagt að hann hefði búið árum saman í Belgíu sem ekki hafi reynst rétt.
Stefndu mótmæli því að stefnandi eigi von á að sæta þrælahaldi eða ofsóknum í heimalandi sínu en hann hafi ekki sýnt fram á þetta. Þvert á móti hafi stjórnvöld þar unnið gegn því sem hann telji sér standa ógn af við heimkomuna. Ekkert liggi fyrir um að stefnandi eigi von á ofsóknum í heimalandi sínu vegna trúarbragða. Hann búi því ekki við ástæðuríkan ótta um að verða hnepptur í þrældóm eða ótta um ofsóknir eða að öryggi hans, lífi og frelsi verði ógnað.
Niðurstaða
Þegar lögreglumaður ræddi við stefnanda á Keflavíkurflugvelli við komu hans til landsins 23. október 2004 sagðist hann vera ferðamaður en hann hafði þá framvísað við lögreglumanninn fölsuðu vegabréfi frá Belgíu. Í framhaldi af því og að lokinni tollskoðun óskaði stefnandi eftir hæli á Íslandi. Lögreglumaðurinn skráði í lögregluskýrslu upplýsingar, sem hafðar voru eftir stefnanda, um nafn hans, uppruna og ástæður hans fyrir hælisumsókninni. Daginn eftir var tekin skýrsla af stefnanda hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli þar sem persónuupplýsingar um hann koma fram, hverjir fjölskylduhagir hans væru og aðrar upplýsingar.
Stefnandi veitti nánari upplýsingar í viðtali hjá Útlendingastofnun 22. mars 2005 í tilefni af umsókn sinni en þar lýsir hann meðal annars því að hann hefði flúið heimaland sitt skömmu áður en hann kom til Íslands og ástæðum fyrir því. Hann lýsti því að hermenn hefðu komið á heimili hans þar sem hann og faðir hans hafi verið. Hermennirnir hafi ætlað að taka búfé þeirra en þeir hafi reynt að koma í veg fyrir það. Hermennirnir hafi beitt þá ofbeldi, tekið búfénaðinn og stefnanda og farið með hann í fangelsi. Hann kvaðst ekki vita hvers vegna hann var settur í fangelsi en í skýrslutöku áður upplýsti hann að fangelsið hefði verið herstöð. Hann hafi verið í fangelsinu í tvö ár en þá hafi hann strokið þaðan. Stefnandi kvaðst hafa flúið frá Máritaníu af því að hann hafi verið þar í fangelsi, hann hefði engin réttindi í heimalandinu og svertingjar séu þrælar. Verði hann sendur heim bíði hans þar þrældómur og fangelsi. Hann kvaðst hafa verið pyntaður í fangelsinu. Samkvæmt þessu telur stefnandi sig hafa ríka ástæðu til að óttast að honum verði haldið í þrældómi verði hann sendur aftur til heimalands síns sem gæti verið brot á 8. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979.
Útlendingastofnun sendi fyrirspurn til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna 18. maí 2006 þar sem spurt var í fyrsta lagi um breytingar á stjórnmálaástandi í Máritaníu og hvort það hefði í raun breytt einhverju fyrir stöðu fólks sem tilheyrði non-Moor þjóðernishópum. Í öðru lagi var spurt hvort þrældómur viðgengist í landinu í þeim mæli að fólk, einkum af non-Moor uppruna, gæti haft ástæðuríkan ótta um að vera þvingað í þrældóm, væri það sent þangað, aðeins á grundvelli þess að það tilheyrði non-Moor þjóðernishópum. Enn fremur var óskað athugasemda stofnunarinnar er snertu hælisleitendur frá Máritaníu og upplýsinga um áreiðanlegar heimildir í því sambandi. Svar barst ekki fyrr en 17. júlí 2006, eftir að hin umdeilda ákvörðun Útlendingastofnunar frá 19. júní s.á. var tekin.
Flóttamannastofnunin aflaði upplýsinga í Máritaníu en í skýrslu frá Nouakchott 15. júlí s.á. er því lýst að jákvæðar breytingar hefðu orðið í landinu eftir að ný stjórn tók við völdum. Vonir stæðu til að unnt væri að koma að lýðræðislegri stjórnaháttum og er því nánar lýst í skýrslunni og hvernig það kæmi fram. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að staðfest hefði verið af núverandi stjórn að flóttamönnum væri velkomið að snúa aftur heim til Máritaníu. Ekki kemur fram að gerðar hefðu verið ráðstafanir af hálfu stjórnvalda til að tryggja öryggi þeirra. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að ekki sé unnt að útiloka þann möguleika að ríkisborgarar Máritaníu, sem sendir væru aftur til heimalandsins, hefðu gildar ástæður til að óttast að þeir yrðu neyddir til þrældóms af þeirri ástæðu einni að þeir tilheyrðu hópi af non-Moor uppruna. Það væri þó ólíklegt miðað við þróunina. Þeir gætu óttast að þurfa að búa við erfiðar félagslegar og efnahagslegar aðstæður, verði þeir sendir aftur heim, af þeirri ástæðu einni að þeir tilheyrðu non-Moor þjóðernishópum. Samt sem áður gætu aðrar aðstæður haft þar áhrif, svo sem fjárhagur og menntun viðkomandi, en um þetta þyrfti að afla sérstakra upplýsinga til að unnt væri að meta hvort hann hefði ástæðu til að óttast ofsóknir. Almennt sé það þannig að því fátækari og ómenntaðri sem viðkomandi væri og því lægri sem staða hans væri í þjóðfélaginu þeim mun meiri væri áhættan og óttinn líklegri. Við verstu aðstæður gæti viðkomandi orðið fyrir mannréttindabrotum. Í lok skýrslunnar er tekið fram að svar við þeirri spurningu, hvort þrældómur viðgengist í landinu í þeim mæli að fólk, sem sent væri þangað, gæti haft ástæðuríkan ótta við að vera þvingað í þrældóm, væri eingöngu almennt svar enda væri spurningin almenn. Til að fá nákvæmari og gagnlegri upplýsingar þyrfti fyrirspurn að miðast við aðstæður sem ættu við í tilteknu máli.
Í niðurstöðukafla hinnar umdeildu ákvörðunar Útlendingastofnunar kemur fram að frásögn stefnanda af handtöku og fangelsisvist þyki ekki ótrúverðug þegar litið væri til mannréttindaskýrslna þar sem greint sé frá tíðum geðþóttahandtökum lögreglu. Einnig liggi fyrir að barsmíðar og pyntingar eigi sér sannarlega stað í fangelsum víðs vegar um landið. Þá er vísað til læknisvottorðs frá 19. maí 2006 en þar komi fram að stefnandi hafi gengist undir aðgerð sem teljist fremur lítið inngrip. Fram kemur að Útlendingastofnun telji að með þessu hafi ekki komið fram sönnun fyrir frásögn stefnanda af misþyrmingum lögreglu í fangelsinu. Af rökstuðningi fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að engar frekari upplýsingar hafi legið fyrir um það hvort stefnandi sætti geðþóttahandtöku og misþyrmingu af hálfu herlögreglu við handtökuna, svo og fangelsun án sakar, þar sem honum hafi verið haldið í þrælkun, að öðru leyti en því sem stefnandi skýrði sjálfur frá. Í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar kemur fram að mat Útlendingastofnunar sé að stefnanda bíði hvorki dauði né ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð verði hann endursendur til heimalands síns. Varð niðurstaðan sú að aðstæður stefnanda væru ekki þannig sem kveðið er á um í 44. og 45. gr. laga um útlendinga, sbr. A lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, sbr. viðauka frá 1967. Stefnanda stafaði ekki hætta af því að verða sendur til heimalands síns.
Við skilgreiningar á því hvort stefnandi teljist flóttamaður samkvæmt framangreindum ákvæðum ber að taka mið af því hvort hann hafi næga og réttmæta ástæðu til að óttast ofsóknir í heimalandinu vegna uppruna síns eða kynþáttar. Til þess að komast að raun um það var nauðsynlegt að afla viðeigandi upplýsinga um aðstæður stefnanda sjálfs, eftir því sem unnt var, en meta þurfti hvort hann hefði réttmæta ástæðu til að óttast að honum verði gert að sæta þrælkun í heimalandinu fari hann aftur þangað. Samkvæmt 3. mgr. 50. gr. laga um útlendinga ber Útlendingastofnun að afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga af sjálfsdáðum þegar teknar eru ákvarðanir samkvæmt 1. og 2. mgr. sömu lagagreinar, m.a. í málum um vernd gegn sendingu úr landi, réttarstöðu flóttamanns og hæli. Þau atriði sem vísað er til í ákvörðun Útlendingastofnunar veita ekki viðhlítandi upplýsingar um aðstæður stefnanda, sem gátu haft þýðingu við mat á því hvort hann teldist í hættu vegna ofsókna í Máritaníu, eins og hann hefur lýst. Í svari Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna kemur fram ábending um að unnt hefði verið að veita gagnlegri upplýsingar ef fyrirspurn Útlendingastofnunar hefði miðast við ákveðið mál. Breytir engu í þessu sambandi þótt svarið hafi ekki borist fyrr en eftir að ákvörðunin var tekin, enda bar Útlendingastofnun að sjá til þess að málið væri nægilega upplýst áður en tekin var ákvörðun í því. Ber með vísan til þessa og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að fella ákvörðunina úr gildi eins og krafist er.
Í niðurstöðukafla úrskurðar dómsmálaráðuneytisins kemur fram að ráða megi af frásögn stefnanda að handtaka hans í Máritaníu hafi verið geðþóttaákvörðun. Ekkert í frásögninni gefi tilefni til að ætla að þarlend stjórnvöld hafi í hyggju að handtaka stefnanda á ný. Talið er ljóst að verði stefnandi sendur til heimalands síns komi hvorki til þess að hann verði fangelsaður né hnepptur í þrældóm, en þrælahald hafi verið bannað með lögum frá 1981 og hafi ný stjórnvöld hug á því að fylgja banninu eftir af festu. Stefnandi hefur lýst ofsóknum, sem hann sætti í Máritaníu, en þessar lýsingar hljóta að teljast trúverðugar í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja í málinu um aðstæður í landinu. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að stefnandi hefði hvorki sýnt fram á að hans biði þrældómur við endurkomu til landsins né að yfirvöld í Máritaníu hefðu ofsótt hann vegna kynþáttar hans. Í úrskurðinum segir að stefnandi uppfyllti þar með ekki skilyrði flóttamannasamningsins og ættu ákvæði 44. og 46. gr. laga um útlendinga því ekki við um hann. Þegar litið er til rökstuðningsins, sem fram kemur í úrskurðinum fyrir þessari niðurstöðu, verður hún ekki talin byggð á fullnægjandi upplýsingum um aðstæður stefnanda sjálfs í heimalandinu þannig að unnt hafi verið að meta hvort stefnandi hefði lögmæta ástæðu til að óttast að honum yrði haldið í þrælkun í heimalandinu, fari hann aftur þangað. Ber þegar af þeirri ástæðu og með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga að taka kröfu stefnanda til greina og fella úrskurðinn úr gildi.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Katrínar Theodórsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 500.000 krónur án virðisaukaskatts.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Felld er úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar frá 19. júní 2006 um að synja umsókn stefnanda, Amadou Shernu Daillo, um hæli og neita honum um dvalarleyfi og að honum skyldi vísað frá landi svo fljótt sem verða mætti. Úrskurður dómsmálaráðuneytisins frá 10. janúar 2007, þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest, er einnig felldur úr gildi.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Katrínar Theodórsdóttur hdl., 500.000 krónur.