Hæstiréttur íslands

Mál nr. 570/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. nóvember 2006.

Nr. 570/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Gæsluvarðhaldsúrskurður staðfestur.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 14. nóvember 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Ráða má af gögnum málsins að rökstuddur grunur sé kominn fram um að varnaraðili hafi átt aðild að innflutningi fíkniefna, sem varði fangelsisrefsingu ef sök sannast, og að ætla megi að hann muni torvelda rannsókn málsins verði hann ekki sviptur frelsi sínu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur með vísan til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, [kt. og heimilisfang] sæti áfram gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 14. nóvember 2006, kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglunnar segir að ávana- og fíkniefnadeild embættisins rannsaki tilraun til innflutnings á miklu magni af fíkniefnum til landsins frá Danmörku.  Fíkniefnin hafi verið falin í tölvum sem afhentar hafi verið til sendingar í Danmörku og hafi verið merktar fyrirtæki í Reykjavík.  Lögregla í Danmörku hafi lagt hald á fíkniefnin og komið upplýsingum um málið áleiðis til lögreglu hér á landi.  Tölvurnar hafi síðan verið sendar áfram til Íslands með flugi og hafi komið til Keflavíkurflugvallar þann 20. þ.m.  Hafi grunur lögreglu beinst að því að starfs­maður eða starfsmenn hjá fyrirtæki á Íslandi kynnu að vera viðriðnir málið, mögulega félagi kærða, sem sé starfsmaður fyrirtækisins.  Upplýsingar hafi fengist um að félaginn mundi sækja sendinguna á flugvöllinn ásamt öðrum sendingum á vegum fyrirtækisins sunnudaginn 22. þ.m. 

Við eftirlit þann 23. þ.m. hafi orðið ljóst að félaginn hafi farið með tölvu­sendinguna ásamt öðrum sendingum í útkeyrslu til móttakenda.  Hafi honum verið fylgt eftir þar sem hann hafi farið að starfsstöð skráðs móttakanda en þar afhenti hann aðra sendingu, ótengda tölvusendingunni.  Félaginn hafi lokið starfsdegi sínum síðdegis sama dag og skilið tölvurnar eftir í bifreiðinni sem lagt hafi verið fyrir utan starfstöð fyrirtækisins.  Í tölvukerfi fyrirtækisins við lok starfsdags hafi hann skráð sérstaka athugasemd vegna tafa á afhendingu sendingarinnar.  Fyrir liggi upplýsingar frá skráðum móttakanda um að hann hafi ekki verið að kaupa tölvur frá Danmörku og sendingin þannig ekki á vegum hans. 

Við eftirlit að kvöldi sama dags hafi lögreglumenn orðið þess varir að félaginn kom ásamt kærða að starfsstöð fyrirtækisins.  Félaginn hafi verið handtekinn skömmu síðar við fyrirtækið þegar hann hafi verið kominn inn í umrædda bifreið fyrirtækisins þar sem tölvurnar hafi verið geymdar.  Kærði, sem beðið hafi álengdar í annarri bifreið, hafi einnig verið handtekinn. 

Fyrir liggi skýrsla af framkvæmdastjóra fyrirtækisins, sem félaginn vinni hjá, þar sem m.a. komi fram að ferðir hans í fyrirtækinu og meintur erindrekstur hans þar sé allur mjög óeðlilegur og einnig muni frágangur á tölvunum í bifreið fyrirtækisins að loknum starfsdegi hans hafa verið mjög óeðlilegur og brotið í bága við starfsreglur fyrirtækisins.

Hjá lögreglu liggi fyrir ljósmyndir og upplýsingar um sendendur fíkniefnanna í Danmörku.  Lögregla í Danmörku vinni að því að finna mennina í því skyni að handtaka þá og yfirheyra.  Fyrir liggi upplýsingar um tengsla annars mannanna við kærða.

Fyrir liggi að kærði hafi breytt fyrri framburði sínum við yfirheyrslu í dag og játað á sig tiltekna aðild að málinu og greint frá aðkomu kærða að því auk þess sem hann hefur greint frá tiltekinni aðild þriðja manns að því.  Kærði hefur þó greint frá því að hvorki hann né félaginn hafi vitað að fíkniefni hafi verið falin í tölvunum. 

Að mati lögreglu þykir kærði vera undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti en svo virðist sem kærði hafi ætlað að flytja tölvurnar frá starfsstöð fyrirtækisins og þykir líklegt að það hafi verið í því skyni að móttaka fíkniefnin eða koma þeim til annars móttakanda.  Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 24. þ.m.  Unnið verði áfram að rannsókn málsins en nauðsynlegt sé að upplýsa nánar um einstaka verknaðarþætti hinna grunuðu og meinta aðild kærða að brotinu og tengsl við aðra meinta vitorðsmenn sem tengjast málinu, hérlendis sem erlendis og taldir eru tengjast fjármögnun, kaupum, sendingu og ætlaðri móttöku fíkniefnanna hér á landi.  Framundan eru handtökur sakborninga sem ganga lausir og frekari yfirheyrslur af vitnum og sakborningum munu einnig fara fram á næstunni, þ.m.t. af kærða.  Nauðsynlegt sé að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi en ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem ganga lausir eða þeir geta sett sig í samband við hann eða kærði getur komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hefur verið lagt hald á.  Þykir þannig brýnt að vernda rannsóknar­hagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus. 

Lögreglan telur sakarefnið varða við 173. gr. a., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. lög nr. 64,1974 og nr. 32,2001.  Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991.

Kærði hefur neitað allri aðild að fíkniefnamisferli og krafist þess að gæsluvarð­haldskröfunni verði hafnað.

Samkvæmt því sem hér að framan var rakið úr greinargerð lögreglustjóra svo og rannsóknargögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn, verður fallist á það með lögreglu­stjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að eiga aðild að fíkniefnamisferli, sem geti varðað hann fangelsisrefsingu.  Gögnin benda og til þess að rannsókn málsins sé á því stigi að kærði geti torveldað hana, hafi hann fullt ferðafrelsi.  Það verður því fallist á að skilyrði séu til þess að úrskurða hann í áframhaldandi gæsluvarðhald sbr. a- lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991.  Krafa lögreglustjóra verður því tekin til greina eins og hún er sett fram.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, [kt.], sæti áfram gæsluvarðhaldi en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 14. nóvember 2006, kl. 16.00.