Hæstiréttur íslands
Mál nr. 612/2006
Lykilorð
- Vátrygging
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 27. september 2007. |
|
Nr. 612/2006. |
Björn Ófeigsson(Heimir Örn Herbertsson hrl.) gegn DDF Vátryggingamiðlun ehf. og (Marteinn Másson hrl.) Markel London Limited til réttargæslu(Einar Baldvin Axelsson hrl.) |
Vátrygging. Skaðabætur.
Áfrýjandi starfaði sem sölumaður vátrygginga hjá stefnda frá því í ágúst 2002 til febrúar 2003 er hann hlaut alvarlegt hjartaáfall. Í desember 2002 sótti hann um líf- og sjúkdómatryggingu hjá AXA Sun Life International, sem stefndi miðlaði tryggingum fyrir. Tryggingin hafði ekki tekið gildi er stefnandi veiktist í febrúar 2003 og byggði áfrýjandi kröfu sína um skaðabætur á því að í háttsemi stefnda hefði falist saknæm vanræksla á stafsskyldum hans auk þess sem brotið hefði verið gegn góðum og gegnum venjum á starfssviðinu. Ekki þótti unnt að líta framhjá því að áfrýjandi var í senn sölumaður og kaupandi umræddrar tryggingar og að hann bjó yfir mikilli reynslu af sölu á slíkum tryggingum. Að þessu virtu þótti ekki sýnt að stefndi hefði sýnt af sér bótaskylda vanrækslu við meðferð umsóknar áfrýjanda eða brotið gegn góðum vátryggingarmiðlunarháttum og var hann því sýknaður af kröfum áfrýjanda.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 27. september 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. nóvember 2006 og var áfrýjað öðru sinni 1. desember sama ár. Áfrýjandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 66.415 sterlingspund með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. nóvember 2005 til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Eftir atvikum er rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. júní 2006
Mál þetta var þingfest 26. október 2005 og tekið til dóms 30. maí sl.
Stefnandi er Björn Ófeigsson, Veghúsum 21, Reykjavík en stefndi er DDF Vátryggingamiðlun ehf., Reykjavíkurvegi 60, Hafnarfirði og réttargæslustefndi er Markel (London) Limited, Englandi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda GBP 66.415 auk dráttarvaxta skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. nóvember 2005 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að stefnukröfur verði verulega lækkaðar. Málskostnaðar er krafist í báðum tilvikum.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir ekki aðrar kröfur en málskostnaðarkröfu á hendur stefnanda.
I.
Stefnandi starfaði sem sölumaður vátrygginga hjá stefnda frá því í ágúst 2002 til febrúar 2003 er hann hlaut alvarlegt hjartaáfall. Í desember 2002 sótti hann um líf- og sjúkdómatryggingu hjá AXA Sun Life International sem stefndi miðlaði tryggingum fyrir. Tryggingin hafði ekki tekið gildi er stefnandi veiktist 7. febrúar 2002 og telur stefnandi það sök stefnda. Mál þetta er höfðað sem skaðabótamál á þessum grunni.
Málavextir eru að öðru leyti þeir að stefndi hefur rekið vátryggingamiðlun hér á landi frá 2002 samkvæmt leyfi þar að lútandi í samræmi við 9. kafla laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, sbr. nú lög nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga. Starfsemi stefnda lýtur aðallega að því að miðla vátryggingum fyrir erlend tryggingafélög, svo sem AXA Sun Life International og French Providence.
Frá því um sumarið og haustið 2002 og fram eftir ári 2003 störfuðu allmargir ráðgjafar hjá stefnda auk þjónustustjóra og bókhaldara, samtals um 15-18 manns. Ráðgjafar eða vátryggingasölumenn störfuðu á grundvelli verksamnings við stefnda og voru laun þeirra eingöngu í formi sölulauna fyrir hverja selda tryggingu.
Fram hefur komið í málinu af hálfu stefnda að verklagið hafi verið þannig á skrifstofu stefnda að viðskiptavinir hafi verið látnir fylla út umsóknareyðublöð með margvíslegum upplýsingum um hagi þeirra vegna væntanlegrar sölu á trygginum. Umsóknin hafi því næst verið skráð á skrifstofu stefnda og síðan send með pósti til hlutaðeigandi tryggingafélags. Í sumum tilvikum hafi hin erlendu tryggingafélög leitað eftir viðbótarupplýsingum frá umsækjendum. Gögn, svo sem fyrirspurnir, svör, læknaskýrslur og fleira, sem tengst hafi umsóknum eða beiðnum um frekari upplýsingar, hafi verið settar í sérstakan bakka þess ráðgjafa sem annast hafi söluna. Hlutverk hans og starfsskylda hafi verið að sinna fyrirspurnunum og koma þeim til viðskiptavina, kalla eftir svörum og upplýsingum og sjá um að umbeðin gögn og upplýsingar bærust til hlutaðeigandi tryggingafélags. Misjafnt hafi verið hversu langan tíma hafi tekið að afla þessara upplýsinga en það hafi allt farið eftir hversu greitt viðskiptavinir eða læknar þeirra hafi veitt upplýsingar. Hlutverk ráðgjafa hafi verið að vaka yfir málinu og sjá til þess að ekki yrði óhæfilegur dráttur á flæði upplýsinga.
Stefndi heldur því fram að samkvæmt verklagsreglum hafi verið fylgst með því að ráðgjafar sinntu verkefnum sínum, meðal annars með því að senda þeim ítrekanir í tölvupósti innanhúss. Samkvæmt verklagsreglum hafi átt að bregðast þannig við drætti hjá ráðgjafa að öðrum ráðgjafa væri falið verkið. Fyrri ráðgjafinn hafi þannig misst sölulaun sín en hinn nýi ráðgjafi fengið þau.
Sem áður sagði starfaði stefnandi sem sölumaður vátrygginga eða ráðgjafi hjá stefnda á tímabilinu frá 15. ágúst 2002 til febrúar 2003 er hann hlaut alvarlegt hjartaáfall. Stefnandi hafði áður starfað sem ráðgjafi hjá vátryggingamiðluninni Ísvá ehf. um nokkurra ára skeið. Hann hafði því allmikla reynslu á sviði vátryggingamiðlunar þegar hann hóf störf hjá stefnda og sagði hann fyrir dómi að hann hafi haft mikla reynslu af sölu á tryggingum fyrir AXA Sun Life og þekkt sölu og umsóknarferli þess tryggingafélags.
Þann 10. desember 2002 útbjó stefnandi eigin umsókn um líf-, sjúkra- og sparnaðartryggingu til breska tryggingafélagsins AXA Sun Life International. Umsóknin var send með pósti til tryggingafélagsins og barst þangað þann 18. desember 2002. Tryggingafélagið taldi ástæðu til að óska eftir tilteknum upplýsingum um hagi stefnda og skyldi þeim svarað á stöðluðu eyðublaði þar sem spurt var um lífstíl hans. Tilmæli tryggingafélagsins bárust til starfsstöðvar stefnda þann 20. desember 2002.
Stefnandi kvaðst ekki hafa séð ástæðu til er hann útbjó umsókn sína í upphafi að fylla út svokallaðan lífstílspurningalista. Ástæðan hafi verið sú að þessi spurningalisti væri ætlaður ógiftum karlmönnum, 25 ára og eldri og væri einkum spurt um kynhegðun umsækjanda og hvort umsækjandi væri með alnæmi. Þar sem hann hafi verið fráskilinn hafi hann talið að þetta gagn þyrfti ekki að fylgja með umsókn hans. Forsvarsmaður stefnda, Sigþór Hákonarson, sagði aftur á móti að þessi spurningalisti ætti skilyrðislaust að fylgja með umsóknum allra einhleypra karlmanna 25 ára og eldri og það hafi stefnandi átt að vita sem reyndur sölumaður. Enda hafi strax komið um hæl athugasemd frá hinu breska tryggingafélagi.
Óumdeilt er að sú venja tíðkaðist hjá stefnda að sölumenn útbjuggu umsóknir fyrir sjálfan sig ef þeir hugðust kaupa tryggingar sem stefndi miðlaði. Fengu þeir jafnframt sölulaun af þeirri tryggingu og önnuðust sölu tryggingarinnar á sama hátt og sölutryggingar til annarra viðskiptamanna.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að spurningaeyðublaðið hafi verið látið í bakka stefnanda eins og venja sé auk þess sem honum hafi verið send ábending í tölvupósti. Á þessum tíma hafi hins vegar starfsmenn verið komnir í jólafrí og þeir ekki mætt í vinnu fyrr en eftir 3. janúar 2003. Það séð tíðkanlegt í þessari starfsgrein að fara í langt jólafrí því sala trygginga sé mjög erfið á þessum tíma vegna þess að fólk hafi annað að hugsa um.
Fyrir liggur að ítrekanir bárust tvívegis frá AXA Sun Life til stefnda, þann 3. og 17. janúar 2003 og var óskað eftir svörum við lífstílsspurningum. Stefndi heldur því fram að þessar ítrekanir hafi verið lagðar í bakka stefnanda eins og athugasemdin sem barst 18. desember 2002. Þá er því jafnframt haldið fram af hálfu stefnda að skrifstofustjóri stefnda hafi sent stefnanda ábendingu í tölvupósti um að svara tryggingafélaginu. Þessi tölvupóstur hefur ekki verið lagður fram í málinu og sagði forsvarsmaður stefnda ástæðuna þá að þessi innanhússtölvupóstur hafi glatast er tölva hafi bilað.
Stefnandi kannast ekki við þessa lýsingu á ferli málsins. Engar athugasemdir hafi borist honum frá hinu breska tryggingafélagi eins og stefndi haldi fram auk þess sem hann hafi verið við vinnu milli jóla og nýárs þó að hann hafi ekki verið í fullu starfi. Hann kvaðst engar upplýsingar hafa fengið um lífstílsspurningalistann fyrr en 17. janúar 2003. Hann sagðist nokkuð viss um að hann hafi fyllt eyðublaðið út þann dag og ekki sett dagsetningu á skjalið. Eyðublaðið hefur verið lagt fram í málinu og er það undirritað af stefnanda með dagsetningunni 3. febrúar 2003. Stefnandi kvaðst fyrir dómi ekki treysta sér til að fullyrða að þessi dagsetning væri ekki rituð af honum. Hann sagðist þó 90% viss um að hann hafi fyllt eyðublaðið út 17. janúar og farið með það til skrifstofustjórans, Fannýjar Sigurþórsdóttur, eins og venja hafi verið. Hann hafi síðan beðið hana um að senda eyðublaðið til AXA Sun Life í símbréfi. Algengt sé að svo sé gert.
Forsvarsmaður stefnda, Sigþór Hákonarson, sagði aftur á móti að hann væri þess fullviss að stefnandi hafi ekki fyllt eyðublaðið út fyrr en 3. febrúar 2003 því hann hafi staðið yfir stefnanda á meðan hann hafi gert það. Þannig hafi verið að forsvarsmaður stefnda hafi verið að fara til London þennan dag á fund með starfsmönnum tveggja tryggingafélaga þar í borg. Áður hafi hann verið búinn að senda út fyrirspurn til þeirra og óska eftir lista yfir öll ólokin mál hjá stefnda. Hafi hann síðan gengið á milli sölumanna og hvatt þá til að klára allt það sem unnt væri að ganga frá fyrir þessa ferð. Þar á meðal hafi verið umsókn stefnanda. Brýnt hafi verið að ljúka við óloknar umsóknir því sölulaun hafi ekki fengist greidd til stefnda fyrr en hið erlenda tryggingafélag hafði samþykkt umsókn viðkomandi tryggingataka. Að sögn Sigþórs fór hann fyrst á fund tryggingafélagsins French Providence en þann 7. febrúar á fund AXA Sun Life þar sem hann afhenti meðal annars umsókn stefnanda. Umsóknin var samþykkt af hálfu tryggingafélagsins þann 11. febrúar 2003 en eins og áður sagði veiktist stefnandi 9. febrúar 2003. Sjúkdómstrygging stefnanda hafði því ekki tekið gildi þegar hann veiktist þar sem tryggingaskírteini hafði ekki verið gefið út.
Sigþór heimsótti stefnanda á spítalann og segir stefnandi að Sigþór hafi sagt honum að hafa ekki áhyggjur því tryggingin yrði greidd. Þetta staðfesti vitnið Ingólfur Vilhelmsson sem var staddur á spítalanum í heimsókn hjá stefnanda. Sigþór sagði fyrir dómi að hann hafi lofað stefnanda því að gera allt sem í hans valdi stæði til að fá trygginguna greidda frá AXA Sun Life.
Stefnanda og Sigþóri ber saman um að algengt að sé að athugasemdir komi frá hinum erlendu tryggingafélögum og að settar séu fram beiðnir um frekari upplýsingar. Mál dragist þá, sérstaklega ef beðið sé um vottorð frá læknum. Hins vegar taki umsóknarferlið aðeins 3-7 daga ef allar upplýsingar séu sendar í upphafi.
Stefnandi kvaðst ekki hafa haft áhyggjur af umsókn sinni í janúar og ekki talið að hann þyrfti að reka á eftir henni. Venjulegt væri að grennslast eftir umsókn ef ekkert væri komið eftir um það bil einn mánuð. Í hans tilfelli hafi jólin komið inn í og því hafi hann ekki haft áhyggjur.
Sigþór sagði að sú verklagsregla hafi tíðkast hjá stefnda að skrifstofustjórinn, Fanný Sigurþórsdóttir, hafi sent út tölvupóst eftir hálfan mánuð ef sölumenn hefðu ekki svarað fyrirspurnum frá erlendum tryggingafélögum. Hálfum mánuði þar á eftir hafi málið verið tekið af viðkomandi sölumanni ef fyrirspurn hafi enn verið ósvarað. Þá hafi viðkomandi sölumaður misst sölulaun sín og þau runnið til þess sölumanns er hafi tekið við málinu. Þetta hafi gerst nokkrum sinnum en í tilfelli stefnanda hafi þetta ekki komið til álita þar sem stefnandi hafi bæði verið sölumaður tryggingarinnar og jafnframt viðskiptavinurinn.
Þá taldi Sigþór að umsóknarferlið hafi ekki verið óvenju langt í tilviki stefnanda, sérstaklega þegar hálfsmánaðar frí yfir jólin væri tekið með í reikninginn en þann tíma hafi starfsemi stefnda legið niðri. Þá sagði Sigþór að ekki væri venja að senda skjöl í símbréfi til hinna erlendu tryggingafélaga því þau gerðu kröfu um frumrit.
Trygging sú, sem stefnandi sótti um, fól það í sér að ákveðin vátryggingafjárhæð yrði greidd til hans við andlát eða ef hann greindist með ákveðinn sjúkdóm eða þyrfti að gangast undir ákveðna aðgerð. Óumdeilt er að samkvæmt vátryggingaskilmálum átti að greiða út vátryggingafjárhæðina til stefnda ef hann fengi hjartaáfall með þeim hætti sem raun varð. Stefnandi hefur verið óvinnufær með öllu frá því hann veiktist og batalíkur eru hverfandi samkvæmt læknisvottorði.
Af hálfu stefnanda var send bótakrafa til stefnda 14. nóvember 2003 sem stefndi hafnaði 16. sama mánaðar.
Stefnandi og forsvarsmaður stefnda gáfu skýrslu fyrir dómi ásamt Ingólfi Vilhelmssyni sem áður er getið. Vitnið Torfi Karl Karlsson var framkvæmdastjóri stefnda í nokkra mánuði seinnihluta árs 2002 og sagði hann að óreiða og skipulagsleysi hafi ríkt hjá stefnda. Skrifstofustjórinn Fanný Sigurþórsdóttir sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hafi byrjað að vinna hjá stefnda í september 2002 og starfað þar í um eitt ár. Hún sagðist hafa fengið umsóknir og samninga í hendur frá sölumönnum, yfirfarið þá og síðan skráð þá í tölvu. Að því búnu hafi hún sent samningana til viðkomandi tryggingafélags. Slík gögn hafi verið send út á föstudögum í viku hverri. Ef fyrirspurnir eða athugasemdir hafi komið til baka kvaðst hún ávallt hafa fundið út hver færi með málið og síðan sett athugasemdina í bakka viðkomandi sölumanns. Slíkt hafi verið algengt. Hún kvaðst stundum hafa rekið á eftir sölumönnum með tilskrifum í tölvupósti en ekki hafi verið föst regla á því. Þó hafi það oft komið fyrir að hún hafi þurft að reka á eftir sölumönnum. Helga Markúsdóttir, löggiltur vátryggingamiðlari, aðstoðaði stefnanda í samskiptum sínum við AXA Sun Life eftir að hann fékk hjartaáfallið. Hún sagði afgreiðslufrest á umsóknum um tryggingu mjög misjafnan. Það færi allt eftir gögnum og hverra gagna væri krafist. Hins vegar tæki það stuttan tíma ef allt væri frágengið er umsókn væri send. Stundum gæti umsókn tekið margar vikur ef eitthvað vantaði. Hún sagði að á þessum tíma er hér um ræðir hafi allir ógiftir karlar, 25 ára og eldri, undantekningarlaust þurft að svara svokölluðum lífstílsspurningalista.
II.
Stefnandi byggir kröfu sína um skaðabætur á því að í háttsemi stefnda hafi falist saknæm vanræksla á starfsskyldum hans auk þess sem brotið hafi verið gegn góðum og gegnum venjum á starfssviðinu eins og þær meðal annars birtast í lögum nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi og reglugerð nr. 853/1999 um miðlun vátrygginga. Telur stefnandi að sú töf sem hafi orðið á afgreiðslu tryggingabeiðni hans hjá stefnda hafi verið óforsvaranleg og hafi leitt til þess að hann hafi verið ótryggður er hann hafi orðið fyrir hjartaáfalli þann 9. febrúar 2003. Það hafi tekið stefnda tvo mánuði að afgreiða beiðnina en AXA Sun Life aðeins sjö daga fyrir sitt leyti. Eðlileg afgreiðsla á tryggingabeiðni sem þessari sé í mesta lagi 1-2 vikur í heild sinni. Tryggingabeiðnin hafi legið hjá stefnda í rúma viku áður en hún hafi verið send AXA Sun Life og síðan hafi liðið tæpur mánuður þar til stefnandi hafi fengið vitneskju um fyrirspurn tryggingafélagsins um lífstílsspurningalistann. Þetta hafi gerst þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir að utan. Stefnandi hafi fyllt listann út sama dag og hann hafi fengið hann en hann hafi ekki verið sendur AXA Sun Life fyrr en 20 dögum síðar.
Stefndi eigi að vita að slys gera ekki boð á undan sér. Það hljóti að vera grundvallarkrafa viðskiptavina að beiðni þeirra um vátryggingu sé afgreidd fljótt og vel. Slík hafi ekki verið raunin í tilfelli stefnanda og því hafi stefnandi orðið af háum bótafjárhæðum.
Stefnandi telur að stefndi hafi ekki leyst störf sína af hendi svo sem góðar venjur í vátryggingaviðskiptum bjóði og ekki gætt hagsmuna stefnanda í viðskiptunum, sbr. 3. mgr. 82. gr. laga nr. 60/1994. Ljóst sé að stefnandi hefði verið tryggður á þeim tíma er hann fékk hjartaáfallið ef stefndi hefði ekki dregið að afgreiða beiðnina.
Dómkrafa stefnanda hljóðar á um að honum verði greiddar sömu bætur og hann hefði fengið frá vátryggingafélagi sínu hefði sjúkdómatrygging hans verið tekin gild þegar hann fékk hjartaáfallið. Samkvæmt upplýsingablaði AXA Sun Life, sem gefið er út þann 10. desember 2002, hefðu tryggingabætur að fjárhæð GBP 66.415 greiðst út með eingreiðslu við andlát stefnanda eða við greiningu á hættulegum veikindum. Stefnandi heldur því fram að hann hafi fengið bráðakransæðastíflu og stórt drep í framvegg hjartans og því þurft að gangast undir hjáveituaðgerð á hjarta vegna þessa. Þessi veikindi falli beint undir skilgreiningar í e-hluta vátryggingaskilmála.
Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti þar sem formleg bótakrafa hafi einungis verið gerð 14. nóvember 2003 og henni hafnað 16. sama mánaðar. Engin krafa hafi síðan verið gerð á hendur stefnda fyrr en með málsókn þessari.
Á þeim tíma er stefnandi hafi sótt um kaup á tryggingu hjá AXA Sun Life hafi ákvæði í 9. kafla laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994 gilt um vátryggingamiðlun. Hlutverk vátryggingamiðlunar hafi samkvæmt þessum ákvæðum verið að veita einstaklingum og öðrum upplýsingar, faglega ráðgjöf og aðstoð við að koma á vátryggingasamningi í frumtryggingum eða við framkvæmd ákvæða slíks samnings gagnvart vátryggingafélagi. Lögbundið hlutverk vátryggingamiðlarans hafi því ekki verið að ábyrgjast að vátryggingasamningur kæmist á milli vátryggingataka og vátryggingafélags. Hlutverkið hafi einungis verið að veita ráðgjöf og aðstoð sem duga fyrir báða aðila til að taka ákvörðun um hvort að af samningi verður.
Stefndi heldur því fram að allt verklag hafi verið gott hjá stefnanda við sölu trygginga og eftirfylgni. Fylgt hafi verið ákveðnum reglum og fylgst með því að ráðgjafar sinntu þeim sölusamningum sem þeir hafi borið ábyrgð á. Samkvæmt verklagsreglum hafi verið unnt að grípa inn í ef ráðgjafi hafi ekki sinnt verkskyldum sínum.
Stefndi heldur því fram að það geti tekið mjög mislangan tíma að afgreiða umsókn um tryggingu, allt frá um það bil 2-3 vikum og upp í 4-6 vikur og í sumum tilvikum lengur. Það stafi aðallega af því að misauðvelt sé að fá umbeðnar upplýsingar frá viðskiptavinum eða læknum þeirra. Í tilviki stefnanda hafi viðskiptavinurinn jafnframt verið eigin ráðgjafi sem hafi fengið sölulaun af væntanlegum samningi. Viðbrögð viðskiptavinarins og ráðgjafans hafi því óhjákvæmilega verið samtvinnuð og óaðskiljanleg. Ráðgjafinn, stefnandi sjálfur, hafi þekkt manna best sölu á tryggingum frá AXA Sun Life. Hann hafi þekkt umsóknarferlið og hvað gera þyrfti til að félagið tæki umsókn til afgreiðslu og samþykktar.
Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki undirritað spurningalistann fyrr en 3. febrúar 2003 og þá eftir margítrekuð tilmæli af stefnda hálfu. Í raun hafi stefnandi ekki gert það fyrr en forsvarsmaður stefnda, Sigþór Hákonarson, hafi staðið yfir stefnanda og beðið eftir því að hann fyllti út eyðublaðið. Því sé ekki hægt að kenna vanrækslu stefnda um eða broti hans á góðum starfsháttum.
Stefndi heldur því fram að sú hryggilega staða, sem kom upp er stefnandi fékk hjartaáfall tveimur dögum áður en umsókn hans var samþykkt hjá hinu erlenda tryggingafélagi, megi fyrst og fremst flokka sem hreint óhappatilvik sem enginn hafi getað séð fyrir. Því sé ekki um neina bótaskyldu að ræða. Stefndi bendir á að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að tjón hans megi rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda og telur að stefnanda hafi ekki tekist sú sönnun.
Varakröfu sína um lækkun á stefnukröfum styður stefndi þeim rökum að stefnandi eigi sjálfur verulega eða jafnvel alla sök á því að umsókn hans um tryggingu hjá AXA Sun Life hafi ekki verið samþykkt fyrr en 11. febrúar 2003. Vegna eigin sakar beri hann ábyrgð á því tjóni sem af hlaust.
III.
Stefnandi starfaði sem vátryggingasölumaður hjá stefnda sem rak vátryggingamiðlun í samræmi við 9. kafla laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, sbr. nú lög nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga. Samkvæmt 20. grein reglugerðar nr. 583/1999 um miðlun vátrygginga starfaði stefnandi á ábyrgð og undir stjórn og eftirliti stefnda, sbr. og starfsamning þeirra í milli.
Stefnandi hafði starfað sem sölumaður vátrygginga til nokkurra ára er hann réði sig til stefnda í ágúst 2002. Hann var því reyndur ráðgjafi og vátryggingasölumaður og hafði meðal annars annast sölu líf-, sjúkra- og sparnaðartrygginga hins breska tryggingafélags AXA Sun Life International áður en hann hóf störf hjá stefnda. Fyrir dómi kvaðst hann hafa þekkt vel til umsóknaferlisins hjá AXA Sun Life og hvernig staðið skyldi að málum gagnvart tryggingafélaginu. Stefnandi ákvað að fá sér sjálfur slíka tryggingu og er óumdeilt að venjan var að sölumenn önnuðust slík kaup sjálfir og þáðu sölulaun fyrir. Þann 10. desember 2002 útbjó stefnandi eigin umsókn um líf-, sjúkra- og sparnaðartryggingu til AXA Sun Life. Umsóknin barst tryggingafélaginu 18. desember 2002. Tryggingafélagið taldi ástæðu til að óska eftir frekari upplýsingum um hagi stefnanda og sendi beiðni um að svokallaður lífstílsspurningalisti yrði fylltur út af hálfu stefnanda og barst þessi beiðni til starfsstöðvar stefnda 20. desember 2002.
Því er haldið fram af hálfu stefnda að stefnandi hafi mátt vita sem reyndur sölumaður að lífstílsspurningalistinn hefði átt að fylgja með umsókn hans strax í upphafi þar sem stefnandi væri ógiftur. Undir þetta tók vitnið Helga Markúsdóttir sem er sjálfstætt starfandi vátryggingamiðlari með löggildingu. Sagði hún að á þessum tíma hafi það verið ófrávíkjanleg regla að ógiftir karlar, 25 ára og eldri hafi þurft að fylla út þetta eyðublað. Stefnandi kvaðst ekki hafa fengið athugasemdir tryggingafélagsins sem bárust stefnda 20. desember 2002 og heldur ekki ítrekun félagsins 3. janúar 2003. Fram hefur komið að verklagið hjá stefnda var þannig að fyrirspurnir og athugasemdir erlendra tryggingafélaga voru lagðar í bakka viðkomandi vátryggingasölumanns og var ætlast til þess að hann svaraði sem fyrst og legði svarið til skrifstofustjórans Fannýjar Sigurþórsdóttur. Ætlast var einnig til að hún ræki á eftir slíkum erindum með skjápósti þegar vika væri liðin en hún sagði að ekki hafi verið föst regla á því þó hún hafi oft gert það.
Sem áður sagði kvaðst stefnandi hvorki hafa fengið fyrirspurnina 20. desember 2002 né ítrekun 3. janúar 2003. Hann hafi hins vegar séð ítrekunina frá 17. janúar 2003 í bakka sínum stuttu eftir þann dag. Hafi hann þá fyllt út spurningalistann og afhent skrifstofustjóra og beðið hann um að senda skjalið í símbréfi til tryggingafélagsins. Hér ber aðilum ekki saman því forsvarsmaður stefnda, Sigþór Hákonarson, heldur því fram að stefnandi hafi ekki undirritað skjalið fyrr en 3. febrúar 2003 og þá hafi hann staðið yfir stefnanda á meðan hann hafi undirritað. Ástæðan hafi verið sú að þann dag hafi Sigþór verið á leiðinni til London á fund tryggingafélaga, þar á meðal á fund AXA Sun Life, og viljað ljúka sem flestum málum áður til þess að fá sölulaun greidd. Fyrir liggur að lífstílsspurningaeyðublaðið er undirritað af stefnanda 3. febrúar 2003. Stefnandi hefur gefið þá skýringu að líklegast hafi hann gert mistök er hann dagsetti skjalið því hann sé þess næstum fullviss að hann hafi fyllt skjalið út stuttu eftir 17. janúar 2003. Sigþór fór til London 3. febrúar 2003 á fund tryggingafélaga. Hann átti pantaðan tíma hjá AXA Sun Life 7. febrúar og afhenti þá umræddan spurningalista. Þann 11. febrúar var vátryggingabeiðni stefnanda samþykkt en tveimur dögum áður fékk stefnandi bráðakransæðastíflu.
Skaðabótakrafa stefnanda byggist á því að stefndi hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu í meðferð umsóknar hans. Umsóknarferlið hefði aðeins átt að taka eina til tvær vikur en ekki svo langan tíma sem raun varð.
Í málinu hefur komið fram að það geti verið mjög mismunandi hvað tekur langan tíma að afgreiða beiðni um vátryggingu. Tekur það tiltölulega stuttan tíma, þrjá til sjö daga, ef engar athugasemdir eru gerðar af hálfu tryggingafélags en mun lengri tíma ef afla þarf vottorða, sérstaklega læknisvottorða.
Í málinu verður ekki litið framhjá því að stefnandi var í senn sölumaður og kaupandi umræddrar tryggingar. Hann bjó yfir mikilli reynslu varðandi sölu vátrygginga frá AXA Sun Life og mátti vita að lífstílsspurningalistinn yrði að fylgja með umsókn hans í upphafi. Þá mátti hann einnig gera sér grein fyrir að umsóknarferlið væri stutt, aðeins nokkrir dagar, ef öll tilskilin gögn fylgdu með. Óeðlilegur dráttur var því kominn á umsókn hans í janúar sem honum bar að kanna sem reyndum sölumanni.
Þá verður heldur ekki framhjá því gengið við úrlausn málsins að hið umdeilda skjal er dagsett 3. febrúar 2003. Verður að byggja á því að þann dag hafi stefnandi undirritað skjalið enda ekki komin fram sönnun fyrir hinu gagnstæða. Stefnanda var aftur á móti kunnugt um kröfu tryggingafélagsins um útfyllingu spurningalistans upp úr 17. janúar 2003.
Þegar allt framangreint er virt þykir stefndi ekki hafa sýnt af sér bótaskylda vanrækslu við meðferð umsóknar stefnanda eða brotið gegn góðum vátryggingamiðlunarháttum, sbr. 3. mgr. 82. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi sem þá gilti um starfsemi stefnda, sbr. nú 28. gr. laga nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga. Stefndi verður því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.
Stefnandi hefur gjafsókn í málinu. Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu. Gjafsóknarkostnaður stefnanda sem að mati dómsins þykir hæfilega ákveðinn 650.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Gunnar Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, DDF vátryggingamiðlun ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Björns Ófeigssonar, í málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda 650.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.