Hæstiréttur íslands
Mál nr. 317/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal sakamanns
|
|
Föstudaginn 10. maí 2013. |
|
Nr. 317/2013.
|
Ákæruvaldið (Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Framsal sakamanns.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til Póllands var staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2013 þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðherra 18. mars 2013 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og þóknun til réttargæslumanns verði hækkuð. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi með dómi áfrýjunardómstóls í Varsjá 31. mars 2011. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem segir í dómsorði.
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti sem ákveðin verður eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákvörðun innanríkisráðuneytisins 18. mars 2013 um framsal varnaraðila, X, til Póllands er staðfestur.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun réttargæslumanns varnaraðila er staðfest.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2013.
Ár 2013, fimmtudaginn 2. maí er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg, kveðinn upp úrskurður um kröfu X um það, hvort fyrir hendi séu skilyrði laga um framsal sakamanna o.fl. nr. 13, 1984 til þess að verða við þeirri beiðni dómsmálayfirvalda í Póllandi að hann verði framseldur þangað til lands.
Málið var tekið til úrskurðar 30. apríl sl. Það barst dóminum með bréfi sóknaraðila, ríkissaksóknara 18. sama mánaðar.
Málavextir eru þeir að innanríkisráðherra ákvað 18. mars sl. að fallast á beiðni dómsmálayfirvalda í Póllandi um að framselja X, pólskan ríkisborgara, sem sætir farbanni hér á landi, til Póllands. Varnaraðila var kynnt þessi ákvörðun 22. mars sl. og sama dag krafðist hann úrskurðar dómsins um hana. Í gögnum málsins kemur fram að beiðni pólskra yfirvalda er gerð í krafti ákvörðunar héraðsdóms í Varsjá/Motokow, 10. september sl., um það að varnaraðili verði látinn afplána fangelsisdóm sem hann hlaut 30. september 2010 fyrir líkamsárás. Meðal gagna málsins er endurrit dómsins en þar kemur fram að varnaraðili var dæmdur í 2 ½ árs fangelsisrefsingu en í framsalsbeiðninni segir að refsing varnaraðila hafi verið 2 ár. Þá liggur fyrir að framsalsbeiðnin barst íslenskum yfirvöldum eftir diplómatískum leiðum.
Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun innanríkisráðherra verði staðfest.
Varnaraðili krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Fram kemur í gögnum málsins að varnaraðili var sakfelldur fyrir fyrir meiri háttar líkamsárás í félagi við tvo aðra menn og að slíkt brot geti varðað allt að 10 ára fangelsi samkvæmt pólskum lögum. Sambærilegur verknaður getur varðað allt að 16 ára fangelsi að íslenskum lögum. Misræmi milli framsalsbeiðni og dómsendurrits um lengd refsivistar, sem varnaraðili var dæmdur til, þykir ekki skipta máli hér. Þá er ekkert komið fram um það í málinu að ákvæði 5. mgr. 3. gr., eða 6. og 7. gr. framsalslaga eigi við í málinu.
Dómurinn lítur svo á að skilyrði 1. og 3. mgr. 3. gr. laga framsal sakamanna séu þannig uppfyllt. Þá teljast skilyrði 2. mgr. 3. gr. og 12. gr. laganna um handtökuskipun í erlenda ríkinu og um diplómatíska málsmeðferð einnig vera uppfyllt. Enn er þess að geta að brot varnaraðila teldist ófyrnt að íslenskum lögum, sbr. 1. mgr. 9. gr. framsalslaga. Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að synja kröfu varnaraðila um það að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 18. mars sl. um að framselja hann til Póllands. Verður því tekin til greina krafa sóknaraðila um að staðfesta þá ákvörðun.
Með vísan til 2. mgr. 16. gr. framsalslaga greiðist þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., úr ríkissjóði og þykir hún hæfilega ákveðin 180.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu varnaraðila, X, er synjað.
Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 18. mars 2013, um að framselja varnaraðila til Póllands.
Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 180.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.