Hæstiréttur íslands
Mál nr. 577/2014
Lykilorð
- Lánssamningur
- Gengistrygging
|
|
Miðvikudaginn 22. apríl 2015. |
|
Nr. 577/2014.
|
Brim hf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn Haf Funding 2008 1 Ltd. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Lánssamningur. Gengistrygging.
B hf. og fjármálafyrirtækið G hf. gerðu með sér lánssamning 22. júní 2007, sem H Ltd. gerðist samningsaðili að fyrir kröfuhafaskipti gagnvart G hf. H Ltd. höfðaði mál á hendur B hf. til viðurkenningar á því að lánssamningurinn fæli í sér lögmætt erlent lán. Talið var að orðalag lánssamningsins benti ekki til annars en að um væri að ræða skuldbindingu í erlendri mynt en ekki íslenskum krónum. Að auki lægi fyrir að lánið hefði verið greitt með millifærslu á erlendum myntum af gjaldeyrisreikningum G hf. inn á gjaldeyrisreikninga B hf. og vextir greiddir reglulega í hinum erlendu myntum. Um framkvæmd samningsins og efndir eftir efni hans var talið að atvik væru í öllum atriðum sem máli skipti sambærileg atvikum i dómi Hæstaréttar 27. mars 2014 í máli nr. 750/2013 og gæti orðalag í kvittunum fyrir vaxtagreiðslum ekki leitt til þess að talið yrði að skuldbinding B hf. samkvæmt samningnum hefði verið í íslenskum krónum. Var krafa H Ltd. því tekin til greina um viðurkenningu þess að lánssamningur aðilanna væri lögmætt erlent lán.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. september 2014. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að viðurkennt verði að sér hafi verið heimilt samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu að víkja frá ákvæðum IV. kafla laganna, þar sem lánssamningur aðila 22. júní 2007 hafi sannarlega verið áfrýjanda til hagsbóta. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvikum er skilmerkilega lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram gerðu áfrýjandi og Glitnir banki hf. með sér lánssamning 22. júní 2007. Á forsíðu hans sagði: „Lánssamningur (Lán í erlendum gjaldmiðlum).“ Þá kom fram í upphafsorðum hans að Glitnir banki hf. og áfrýjandi gerðu með sér „svofelldan lánssamning til 5 ára að fjárhæð að jafnvirði allt að, ISK 2.000.000.000 ... í erlendum myntum með þeim skilmálum sem greinir í samningi þessum.“ Jafnframt var þar kveðið á um að lánið bæri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af og að lánveitandi hefði heimilt til þess að skuldfæra innlenda gjaldeyrisreikninga lántaka hjá lánveitanda fyrir greiðslum samkvæmt samningnum. Lánið, sem greiða skyldi í einu lagi 10. júlí 2012, skyldi bera svonefnda LIBOR vexti (London Inter Bank Offered Rate), en með þeim vöxtum væri átt við „vexti á millibankamarkaði í London á BBA-síðu Reuters.“ Lánið var greitt með millifærslu á japönskum jenum, norskum krónum, sænskum krónum, svissneskum frönkum og kanadískum dollurum af gjaldeyrisreikningum Glitnis banka hf. inn á gjaldeyrisreikninga áfrýjanda hjá bankanum. Að lokum voru vextir af láninu greiddir reglulega í hinum erlendu myntum frá 10. október 2007 til 10. júlí 2011. Glitnir banki hf. framseldi lánssamninginn 31. júlí 2008 til stefnda.
Í fyrri dómum Hæstaréttar, þar sem fjallað hefur verið um hvort samningur sé um lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar, hefur fyrst og fremst verið byggt á skýringu á texta viðkomandi lánssamnings, þar sem lýst er skuldbindingu þeirri sem lántaki gengst undir. Í þeim tilvikum þegar textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis lánssamningurinn er hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti.
Eins og áður greinir var umræddur lánssamningur á forsíðu auðkenndur sem „Lán í erlendum gjaldmiðlum“. Þá var í samningnum vísað til þess að lánið væri í erlendum myntum „að jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum og að heimilt væri að skuldfæra innlenda gjaldeyrisreikninga lántaka hjá lánveitanda fyrir greiðslum samkvæmt samningnum. Getur þetta orðalag ekki bent til annars en að að hér sé um að ræða skuldbindingu í erlendri mynt en ekki íslenskum krónum. Að auki liggur fyrir samkvæmt framansögðu að lánið var greitt með millifærslu á japönskum jenum, norskum krónum, sænskum krónum, svissneskum frönkum og kanadískum dollurum af gjaldeyrisreikningum Glitnis banka hf. inn á gjaldeyrisreikninga áfrýjanda hjá bankanum og jafnframt að vextir af því voru greiddir reglulega í hinum erlendu myntum frá 10. október 2007 til 10. júlí 2011. Er fallist á með héraðsdómi að samkvæmt því sem rakið hefur verið séu atvik að þessu leyti í öllum atriðum sem máli skipta sambærileg atvikum í dómi Hæstaréttar 27. mars 2014 í máli nr. 750/2013. Fór samkvæmt þessu um framkvæmd samningsins og efndir eftir efni hans og getur orðalag í kvittunum fyrir vaxtagreiðslum því ekki leitt til þess að talið verði að skuldbinding áfrýjanda hafi verið í íslenskum krónum. Að framansögðu virtu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Brim hf., greiði stefnda, Haf Funding 2008 1 Ltd., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2014.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 9. október 2012 og dómtekið 22. maí sl. að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er HAF Funding 2008-1 Ltd., Harbourmaster Place, Dyflini, Írlandi. Stefndi er Brim hf., Bræðraborgarstíg 16, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði að lánssamningur 22. júní 2007 að fjárhæð að jafnvirði 2.000.000.000 króna í erlendum myntum, upphaflega milli Glitnis banka hf. og Brims hf. og auðkenndur með lánsnúmerunum 309980, 309981, 309982, 309983 og 309984 sé lögmætt erlent lán sem falli utan gildissviðs VI. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga. Til vara gerir stefnandi þá dómkröfu að viðurkennt verði að honum hafi verið heimilt skv. 2. gr. laga nr. 38/2001 að víkja frá ákvæðum VI. kafla þeirra þar sem lánssamningurinn hafi sannarlega verið stefnda til hagsbóta. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.
Við meðferð málsins hefur verið tekið tillit til fyrirmæla laga nr. 80/2013 um breytingu á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, á þá leið að hraða skuli meðferð dómsmála sem lúta að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða að uppgjöri slíkra skuldbindinga, en dómari fékk málið fyrst til meðferðar 12. maí sl.
Málsatvik
Atvik málsins eru að meginstefnu óumdeild, en ágreiningur aðila lýtur að meginstefnu að því hvort lán það sem greinir í kröfugerð stefnanda sé lögmætt erlent lán eða lán í íslenskum krónum bundið gengistryggingu.
Stefndi stundar útgerð og hefur að verulegu leyti tekjur sínar í erlendum gjaldmiðlum. Hinn 22. júní 2007 undirritaði stefndi lánssamning við Glitni banka hf. sem ágreiningslaust er að er kröfuhafi samkvæmt þeim lánssamningum sem greinir í kröfugerð. Samkvæmt forsíðu lánssamningsins var um að ræða „lán í erlendum gjaldmiðlum“. Í inngangsorðum samningsins kom fram að um lánssamning til 5 ára væri að ræða „að fjárhæð jafnvirði allt að, ISK 2.000.000.000,- tvöþúsundmilljónir 00/100 íslenskra króna - í erlendum myntum“. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lánssamningsins skyldi lánið laust til útborgunar frá undirritun samnings til 20. júlí 2007 og 2. mgr. samningsins sagði að „[l]ánið, að uppfylltum útborgunarskilmálum, lofar lánveitandi að greiða til lántaka með 1 greiðslu eigi síðar en þann 20. júlí 2007]. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skyldi lántaki senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara þar sem tiltekin væri reikningur sem leggja skyldi lánið eða lánshlutann inn á. Í henni skyldi lántaki tilkynna lánveitanda í hvaða erlendu gjaldmiðla hann myndi umbreyta lánsfjárhæðinni og í hvaða hlutföllum. Fjárhæð hvers gjaldmiðils skyldi ekki ákveðast fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins. Á því tímamarki áttu fjárhæðirnar að verða endanlegar og ekki breytast innbyrðis þaðan í frá. Lánið átti eftirleiðis að tilgreina með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða íslenskum krónum, samkvæmt heimildum í 3. og 4. gr. samningsins.
Samkvæmt 2. gr. lánssamningsins skuldbatt stefndi sig til þess að endurgreiða lánið með einni greiðslu 10. júlí 2012 en samkvæmt sömu grein skyldi lánið endurgreiðast í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af. Í 2. mgr. 2. gr. lánssamningsins sagði einnig að stefnda bæri að endurgreiða lánið í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af. Þá segir í 7. mgr. 2. gr. að lánveitandi hafi heimild, en ekki skyldu, til þess að skuldfæra „innlenda gjaldeyrisreikninga“ lántaka hjá lánveitanda fyrir greiðslum samkvæmt samningnum.
Um vexti og vaxtabreytingar voru ákvæði í 3. gr. samningsins en vextir áttu að taka mið af LIBOR- eða EURIBOR-vöxtum með nánar tilgreindu álagi eftir gjaldmiðli viðkomandi lánshluta. Samkvæmt d-lið greinarinnar var lánveitanda heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi við vanefnd lántaka. Í 4. gr. samningsins var kveðið á um heimildir til myntbreytingar. Segir þar meðal annars að stefnandi geti óskað eftir því á vaxtagjalddögum lánsins að „lánið miðist við aðra mynt eða reikningseiningu, eina eða fleiri frá og með upphafi næsta vaxtatímabils“. Um framkvæmd þessarar breytingar á viðmiðunarmynt eða reikningseiningu segir í sama ákvæði að miða skuli við „sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt síðustu gengisskráningu lánveitanda á íslensku krónunni“. Ekki er ástæða til að rekja önnur ákvæði samningsins sem eru í alls 14 greinum .
Í málinu liggur ekki fyrir formleg beiðni um útborgun lánsins af hálfu stefnda. Hins vegar er óumdeilt að á grundvelli lánssamningsins barst Glitni banka hf. frá stefnda skjal auðkennt „gjaldeyrispöntun“ 12. júlí 2007 og var lánið greitt út á grundvelli þess skjals. Samkvæmt þessu skjali er „grunnmynt láns“ íslenskar krónur, heildarfjárhæð tveir millljarðar króna og „heildarfjárhæð mynthluta“ sú sama. Fjöldi lánshluta er sagður fimm talsins. Í stefnu segir að í samræmi við þessa útgreiðslubeiðni stefnda hafi eftirfarandi fjárhæðir verið lagðar inn á nánar tilgreinda gjaldeyrisreikninga hans:
1) 1.214.358.142,36 japönsk jen (JPY). Lánshluti númer 309980;
2) 22.911.146,61 norskar krónur (NOK). Lánshluti númer 309981;
3) 55.046.276,38 sænskar krónur (SEK). Lánshluti númer 309982;
4) 5.979.628,52 svissneskir frankar (CHF). Lánshluti númer 309983;
5) 6.276.729,56 kanadískir dalir (CAD). Lánshluti númer 309984.
Stefndi gerir þá athugasemd við lýsingu málsatvika að þeir gjaldeyrisreikningar sem fjárhæðirnar hafi verið greiddar inn á (svonefndir IG-reikningar) séu innlendir gjaldeyrisreikningar og í raun gengistryggðir reikningar í íslenskum krónum.
Í málinu liggja fyrir nokkrar kvittanir fyrir greiðslu vaxta. Á kvittunum vegna greiðslu lánshluta í svissneksum frönkum sem stefndi fékk sendar allt þar til í júlí 2010 segir eftirfarandi: „Verðtrygging Svissneskur franki“; „Grunnverðtrygging 50.7.“; ,,Núgildandi verðtrygging 119,76“. Sambærilegt orðalag kemur fram í kvittunum vegna annarra hluta lánsins. Á kvittunum sem gefnar voru út 12. júlí 2010 og síðar er hins vegar að finna eftirfarandi orðalag: „Mynt Svissneskur franki“; „Grunngengi 50.7“ og „Gengi CHF“.
Hinn 30. september 2009 gaf Glitnir banki hf. út yfirlit um stöðu lánssamningsins. Í því yfirliti er láninu skipt upp í fimm ,,skuldabréf.“ Um ,,skuldabréf“ nr. 309980 segir að lánið hafi upphaflega verið 600.000.000 krónur „í mynt JPY 1.216.791.725,82“. Í línu auðkennd „grunnverðtrygging“ er vísað til japanskra jena og „grunngengi“ er tilgreint 0,4931. Undir liðunum „kjör“ er tilgreind vaxtaprósenta og gengi japansks jens. Undir liðnum uppreikningur skuldabréfs eru tilgreindar „uppfærðar eftirstöðvar“ og áfallnir vextir í krónum auk samtölu í sama gjaldmiðli. Þá eru tilgreindir áfallnir vextir í japönskum jenum. Sambærilega lýsingu, að breyttum breytanda, er að finna um aðra hluta lánsins.
Með samningi 31. júlí 2008 framseldi Glitnir banki hf. öll réttindi sín samkvæmt framangreindum lánssamningi til stefnanda með samþykki stefnda. Glitnir banki hf. fór þó áfram með umsýslu lánsins og tók við vaxtagreiðslum. Frá og með gjalddaga 10. október 2008 til og með gjalddaga 10. janúar 2010 greiddi stefndi hins vegar samningsvexti lánsins beint til stefnanda. Frá og með gjalddaga 10. apríl 2010 tók Glitnir banki hf. aftur tekið að sér umsýslu lánsins.
Framangreint lán var í skilum til og með gjalddaga 10. júlí 2011 en eftir þá greiðslu reis ágreiningur með aðilum um hvort lánið teldist lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu. Samkvæmt gögnum málsins er mál þetta höfðað með samkomulagi aðila í stað þess að stefnandi höfði mál til greiðslu þess sem hann telur vera vangreiddar eftirstöðvar lánsins.
Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Aðalkrafa stefnanda er á því byggð að krafa hans á hendur stefnda samkvæmt lánssamningnum sé skuldbinding í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga. Af hálfu stefnanda er á því byggt að lánssamningur aðila sem og framkvæmd lánveitingarinnar, þ.e. útgreiðsla lánsins og endurgreiðsla þess, beri það með sér að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða. Stefnandi vísar til dóma Hæstaréttar sjónarmiðum sínum til stuðnings.
Stefnandi vísar til þess að við mat á því hvort skuldbinding teljist vera í erlendri mynt eða ekki verði að horfa til grundvallarreglu samningaréttar um samningsfrelsi aðila. Hann vísar til þess að samningur aðila beri það skýrlega með sér að um sé að ræða erlent lán. Á forsíðu lánssamningsins komi fram að um sé að ræða „lán í erlendum gjaldmiðlum“ og á fyrstu blaðsíðu lánsins komi fram að um sé að ræða lán í „erlendum myntum“. Í 3. mgr. 1. gr. lánssamningsins segi sérstaklega að í útborgunarbeiðni skuli lántaki tilkynna lánveitanda í hvaða erlendu gjaldmiðlum hann vilji fá lánið greitt út í og í hvaða hlutföllum. Af ákvæði 3. mgr. 1. gr. lánssamningsins sem og forsíðu hans og upphafsorðum leiði að aldrei hafi ætlunin verið að lána stefnda íslenskar krónur.
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. lánssamningsins hafi lántaka borið að endurgreiða lánið „í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af“. Þá segi í 7. mgr. 2. gr. að lánveitandi hafi heimild til þess að skuldfæra „innlenda gjaldeyrisreikninga“ lántaka hjá lánveitanda fyrir greiðslum samkvæmt samningnum. Í 2. gr. lánssamningsins sé þannig skýrlega mælt fyrir um að endurgreiða skuli lánið í þeim erlendum gjaldmiðlum sem lánaðir voru og tilgreindir sérstaklega gjaldeyrisreikningar stefnda í því sambandi.
Samkvæmt 3. gr. lánssamningsins beri lánshlutar í öðrum myntum en evrum vexti sem séu þriggja mánaða LIBOR-vextir, en lánshluti í evrum beri þriggja mánaða EURIBOR-vexti. Stefndi hafi samkvæmt framangreindu ekki átt að greiða vexti á íslenskar krónur. Ef svo hefði verið hefði skuldbinding stefnda að grunni til byggst á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands og vextirnir orðið umtalsvert hærri en um var samið enda hvorki LIBOR né EURIBOR vextir ákvarðaðir á íslenskar krónur.
Framkvæmd útgreiðslu lánsins og endurgreiðsla vaxta af láninu beri einnig vitni um að lánið hafi verið í erlendum gjaldmiðlum. Aðalskylda lánveitanda hafi þannig verið efnd með þeim hætti að greiddur var út erlendur gjaldeyrir í samræmi við lánssamning.
Stefndi hafi greitt allar vaxtaafborganir sínar af hinu umþrætta láni í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af svo sem útskrift gjaldeyrisreikninga stefnda beri glögglega merki og hafi starfsmenn hans óskað sérstaklega eftir að þessi háttur yrði hafður á. Þannig hafi stefndi uppfyllt aðalskyldu sína samkvæmt samningnum einnig í erlendum myntum í samræmi við ákvæði lánssamningsins. Þá hafi stefndi greitt innágreiðslu sína á lánið 27. september 2011 í erlendum gjaldmiðlum.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að framangreind atriði varpi skýru ljósi á þá staðreynd að skuldbinding stefnda samkvæmt hinum umþrætta lánssamningi hafi sannarlega verið í erlendum myntum en ekki íslenskum krónum. Stefnandi vísar einnig til ársreikninga stefnda og telur að af þeim verði ráðið að stefndi sjálfur hafi litið á hina umþrættu skuld sem lán í erlendum gjaldmiðlum.
Varakrafa stefnanda er á því byggð að heimilt hafi verið samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001 að víkja frá ákvæðum VI. kafla laganna þar sem lánssamningurinn hafi sannarlega verið stefnda til hagsbóta. Vaxtakjör stefnda samkvæmt lánssamningnum hafi verið umtalsvert betri en honum hefði ella boðist. Þá sé um að ræða eitt stærsta útgerðarfélag landsins með stærstan hluta tekna sinna í erlendum gjaldeyri. Af hálfu stefnanda er þannig á því byggt að stefndi hafi ekki orðið fyrir tjóni af gengisfalli íslensku krónunnar. Óveruleg gengisáhætta hafi verið tengd láninu. Að lokum verði einnig að hafa í huga að stefnda hafi verið heimilt að gera myntbreytingu á lánssamningnum og aðlaga hann að rekstri sínum. Við framangreint bætist að stefndi hafi um árabil stundað gríðarlega mikil viðskipti með gjaldmiðla með það fyrir augum að verja tekjur sínar og hagnast á verðbreytingum þeirra, en tilteknir stjórnendur stefnda búi yfir sérþekkingu á gjaldeyrismálum.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir á því að samningur aðila og önnur atvik gefi til kynna að um sé að ræða gengistryggðan lánssamning í íslenskum krónum. Hann leggur áherslu á að tilgreining lánsfjárhæðar sé einungis í íslenskum krónum. Samkvæmt fordæmum Hæstaréttar eigi við þessar aðstæður að líta svo á að um sé að ræða lán í íslenskum krónum. Stefndi vísar einnig til þess orðlags í 1. gr. lánssamnings að lántaki skuli tilkynna lánveitanda í hvaða erlenda gjaldmiðil hann muni „umbreyta lánsfjárhæðinni og í hvaða hlutföllum“. Einnig segi að „[f]járhæð hvers gjaldmiðils fyrir sig ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins.“ Að mati stefnda gefur framangreint orðalag ótvírætt til kynna að verið sé að gengistryggja lánsfjárhæðina enda sé með „umbreytingu lánsfjárhæðar“ augljóslega átt við tengingu við erlenda gjaldmiðla.
Stefndi vísar til 4. gr. samningsins um heimild til myntbreytingar. Að mati stefnda gefur þetta ákvæði bersýnilega til kynna að verið sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum enda komi beinlínis fram í ákvæðinu að hægt sé að greiða eftirstöðvar skuldarinnar þannig að þær „miðist“ við aðrar myntir. Að mati stefnda er vandséð af hverju erlent lán ætti að miðast við aðrar myntir ef það væri í raun í erlendri mynt. Með þessu ákvæði hafi lántaka verið veitt heimild til að óska þess að breyta „vísitölu“ lánsins á meðan lánstíma standi. Sýni þetta glöggt að lánið hafi aldrei verið í erlendri mynt heldur í íslenskum krónum með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla.
Þá sé einnig í 4. gr. samningsins nánar útfært með hvaða hætti skuli staðið að málum komi til breytingar á vísitölu lánsins. Segi þar að „[v]ið myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt síðustu gengisskráningu lánveitanda á íslensku krónunni, tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna nema um annað sé sérstaklega samið.“ Að mati stefnda staðfestir tilvitnaður texti enn betur, þar sem segir „miðist við“, að verið sé að miða við tiltekna erlenda gjaldmiðla.
Stefndi vísar einnig til þess að í 6. gr. lánssamnings þar sem segi að lántaki gefi út tryggingarbréf til lánveitanda til tryggingar greiðslu lánsins ,,uppreiknað nú ISK 5.573.700,00.-“. Lánsfjárhæðin sé því ákveðin í íslenskum krónum. Í samningnum sé hvergi minnst á ákveðna erlenda gjaldmiðla. Þá eru hlutföll erlendra gjaldmiðla ekki greind í lánssamningi. Hafa beri í huga að lánssamningur hafi verið saminn einhliða af lánveitanda og verði hann að bera hallan af vafa um efni samningsins.
Að því er varðar útgreiðslu lánsins telur stefndi að útborgunarbeiðni geti ekki breytt skýru efni lánssamningsins, þ.e. úr því að vera lán í íslenskum krónum yfir í lán í erlendum gjaldmiðlum. Þá liggi ekki fyrir í málinu útborgunarbeiðni, heldur aðeins gjaldeyrispöntun og kaupnóta lánssamnings. Ekki skipti heldur máli þótt lánið hafi verið greitt inn á svokallaða IG reikninga, þar sem í samningi aðila sé ekki fjallað um fjárhæð né hlutföll hinna erlendu gjaldmiðla. Stefndi bendir á að IG reikningar séu innlendir gjaldeyrisreikningar og í raun gengistryggðir reikningar í íslenskum krónum. Stefndi byggir á því að þegar lán sé lagt inn á innlánsreikning með höfuðbók 38 felist ekki í því afhending á erlendum gjaldeyri heldur greiðsla í íslenskum krónum sem bundnar eru gengi erlendra gjaldmiðla. Innlendir viðskiptabankar hafi til marga ára boðið upp á sparireikninga í erlendri mynt, svokallaða IG-reikninga og það sé útbreiddur misskilningur að með því að fá millifærslu inn á IG reikninga þá flytjist gjaldeyrir til Íslands og verði sérgreindur í eigu viðkomandi aðila á viðkomandi reikningi. Vísar stefndi til þess að gjaldeyrir þjóðarinnar sé aldrei geymdur á Íslandi heldur sé hann í því landi sem gefi út viðkomandi gjaldmiðil.
Stefndi vísar til þess að í umræddri gjaldeyrispöntuninni segi að grunnmynt láns sé ISK og að heildarfjárhæð láns séu tveir milljarðar íslenskra króna án þess að minnst sé erlendar fjárhæðir í því sambandi. Þá er einnig vísað til þess að í kaupnótu sé að finna eftirfarandi orðalag: ,,Samtals ráðstöfun í ISK. Ráðstöfun á láni ISK 1.996.000.000,00. Lántökugjald ISK 4.000.000,00. Samtals ISK. 2.000.000.000,00“. Skjal þetta staðfesti að lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum og þeim ráðstafað til kaupa á erlendum gjaldmiðlum eða eftir atvikum verið lagt inn á IG reikninga. Engin þörf hafi verið fyrir stefnda að kaupa erlenda gjaldmiðla ef verið var að lána stefnda erlenda gjaldmiðla og greiða honum þá beint.
Þá er byggt á því af hálfu stefnda að stefnandi hafi, eftir undirritun samnings aðila, ítrekað viðurkennt í verki að samningurinn sé um lán í íslenskum krónum og fjárhæð þess láns sé bundin við gengið erlendra gjaldmiðla. Stefndi vísar þessu til stuðnings til kvittana fyrir greiðslu vaxta sem sýni, svo ekki verður um villst, að um gengistryggt lán sé að ræða og stefnandi hafi sjálfur litið svo á. Stefndi vísar einnig til þess að stefnandi hafi breytt texta kvittana í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010. Augljóst sé að stefnandi hafi viljað freista þess að breiða yfir að lánið væri gengistryggt og jafnframt þá staðreynd að hann væri sjálfur þeirrar skoðunar.
Stefndi vísar einnig til yfirlits 30. september 2009 um stöðu lánssamnings aðila sem áður greinir. Framangreind yfirlit Glitnis hf. séu skýr um að lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum og bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Einnig vísar stefndi til yfirlits 6. apríl 2010. Stefndi byggir á því að með framangreindum gögnum og yfirlýsingum hafi upprunalegur lánveitandi og stefnandi viðurkennt að lánið sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla og því ólögmætt. Þá viðurkenningu beri að meta í því ljósi að upprunalegur lánveitandi sé stórt fjármálafyrirtæki, sem bjó og býr yfir sérfræðiþekkingu á sviði fjármála og lögfræði. Stefnandi beri ábyrgð á yfirlýsingum sínum gagnvart stefnda og geti ekki nú haldið hinu gagnstæða fram, enda þótt hann telji það þjóna hagsmunum sínum.
Verði ekki fallist á að í fyrrgreindum yfirlýsingum stefnanda felist viðurkenning á því að um gengistryggt lán sé að ræða byggir stefndi á því að líta beri til þeirra við heildarmat á því hvort um sé að ræða íslenskt lán sem bundið er gengi erlenda gjaldmiðla eða lán í erlendum gjaldmiðlum. Stefndi leggur á það áherslu að yfirlýsingar Glitnis banka hf. bindi stefnanda enda hafi bankinn framselt lánssamninginn til stefnanda 31. júlí 2008 með öllum þeim réttindum og skyldum sem honum fylgdu. Stefndi bendir á að í samningi um framsals lánssamningsins segi að lánssamningurinn sé um lán í íslenskum krónum (sbr. ,,for the original loan amount ISK 2.000.000.000“).
Stefndi telur að með skjölum sem gefin voru út eftir undirritun lánssamnings hafi sérfræðingar Glitnis banka hf. staðfest að um var að ræða lán í íslenskum krónum.
Stefndi hafnar því að greiðsla inn á svokallað IG reikninga og skuldfærsla þeirra leiði til þess að lánssamningurinn verði talinn vera í erlendum gjaldmiðlum. Telur hann að slík atvik við framkvæmd samningsins hafi ekki þýðingu þar sem efni samningsins sé skýrt. Hann bendir einnig á að gjaldeyrispöntun og kaupnóta lánssamnings séu gögn einhliða samin af Glitni banka hf. án samþykkis stefnda. Ef líta ætti svo á að þessi gögn hefðu vægi fælist í reynd breyting á efni lánssamnings, en til slíkrar breytingar þyrfti samþykki stjórnar stefnda.
Að því er varðar varakröfu stefnanda leggur stefndi áherslu á að gengistrygging lánssamningsins hafi ekki verið stefnda til hagsbóta heldur til mikils tjóns. Um það tali veruleg hækkun lánsins skýru máli svo og auknar skuldir stefnda samkvæmt ársreikningum. Stefndi mótmælir sjónarmiðum stefnanda um að hann hafi í reynd notið hagsbóta af ólögmætri gengistryggingu lánsins og telur auk þess að þeim hafi þegar verið hafnað með fordæmum Hæstaréttar. Stefndi mótmælir því sérststaklega sem röngu að hann hafi sjálfur óskað eftir erlendu láni.
Stefndi vekur athygli á því að stefnandi hafi ekki brugðist við áskorun hans um að leggja fram fundargerðir lánanefndar Glitnis banka hf. um téða lánveitingu og telur að það eigi að meta stefnanda í óhag.
Niðurstaða
Að mati dómsins eru áðurlýst atvik í öllum atriðum, sem máli skipta, sambærileg atvikum þess máls sem skorið var úr með dómi Hæstaréttar 27. mars 2013 í máli nr. 750/2013. Líkt og í áðurnefndu hæstaréttarmáli ber heiti heiti og meginmál áðurlýsts lánssamnings þannig skýrlega með sér að um er að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum að jafnvirði ákveðinnar fjárhæðar, en ekki lán í íslenskum krónum, svo sem haldið er fram af hálfu stefnda. Jafnvel þótt litið yrði svo á að orðalag samningsins væri að einhverju leyti óskýrt um þetta atriði þannig að dómur Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 ætti við, er á það að líta að lánið var greitt út í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikninga stefnda í samræmi við óskir hans sjálfs þar að lútandi. Telur dómurinn fjarstæðukennt að líta beri svo á að lánið hafi í reynd verið greitt út í íslenskum krónum inn á reikninga sem séu í raun gengistryggðir reikningar í íslenskum krónum en ekki gjaldeyrisreikningar. Að lokum er til þess að líta að fyrir liggur að stefndi greiddi vexti af láninu í hlutaðeigandi erlendum gjaldmiðlum.
Samkvæmt framangreindu er ekki komið fram að á nokkru stigi viðskipta málsaðila hafi íslenskar krónur skipt um hendur. Eins og efni samnings aðila var háttað og meginskyldur samningsaðila efndar getur óljóst orðalag í einstökum gögnum sem stafa frá stefnanda, svo sem kvittunum, ekki ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins. Þá verður ekki á það fallist að Glitnir banki hf. eða stefnandi hafi á einhverju stigi viðurkennt með beinum eða óbeinum hætti að um væri að ræða gengistryggt lán. Samkvæmt framangreindu verður fallist á aðalkröfu stefnanda.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Aðalsteinn Jónasson hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Þorsteinn Einarsson hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Viðurkennt er að lánssamningur að lánssamningur 22. júní 2007 að fjárhæð að jafnvirði 2.000.000.000 króna í erlendum myntum, upphaflega milli Glitnis banka hf. og stefnda, Brims hf., auðkenndur með lánsnúmerunum 309980, 309981, 309982, 309983 og 309984 sé lögmætt erlent lán.
Stefndi greiði stefnanda, HAF Funding 2008-1 Ltd., 750.000 krónur í málskostnað.