Hæstiréttur íslands
Mál nr. 281/2004
Lykilorð
- Víxill
- Gjaldþrotaskipti
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 2. desember 2004. |
|
Nr. 281/2004. |
Sveinn Eyjólfsson og Eigna- og ráðgjafarstofan ehf. (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Sameinuðum ehf. (Halldór H. Backman hrl.) |
Víxill. Gjaldþrotaskipti. Fyrning.
S krafði SE og E um greiðslu víxils, með gjalddaga 20. ágúst 2003, en SE og E voru ábekingar á víxlinum. Bú samþykkjanda víxilsins hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta 2. júlí 2002 og var víxilkröfunni ekki lýst í búið. Af hálfu SE og E var því haldið fram að kröfur á hendur ábekingum væru fyrndar, þar sem víxillinn hefði fallið í gjalddaga við töku bús samþykkjandans til gjaldþrotaskipta, án tillits til umsamins gjalddaga. Talið var að tilvitnað ákvæði víxillaga fæli í sér heimild fyrir víxilhafa til þess að leita fullnustu hjá þrotamanni þó að gjalddagi væri ekki kominn, við þær aðstæður að bú greiðanda víxils hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Víxilhafa væri í sjálfsvald sett hvort hann neytti réttar ákvæðisins. Umstefndur víxill hafi því ekki gjaldfallið fyrr en á umsömdum gjalddaga og því hafi kröfur á hendur SE og E ekki verið fyrndar er málið var höfðað 1. október 2003.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 7. júlí 2004. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjendur greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Sveinn Eyjólfsson og Eigna- og ráðgjafarstofan ehf., greiði stefnda, Sameinuðum ehf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2004.
Mál þetta var höfðað 1. október 2003 og var dómtekið 13. maí sl.
Stefnandi er Sameinaðir ehf., Lyngbergi 16, Þorlákshöfn.
Stefndu eru Sveinn Eyjólfsson, Kvisthaga 12, Reykjavík og Eigna- og ráðgjafastofan ehf., Laugavegi 7, Reykjavík.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 4.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001 af 4.000.000 króna frá 20. ágúst 2003 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim hvorum um sig málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Til vara er krafist lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði í því tilviki látinn falla niður.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Dómkröfur sínar byggir stefnandi á víxli að fjárhæð 4.000.000 króna, útgefnum af Fréttablaðinu ehf., þann 2. nóvember 2001, samþykktum til greiðslu af Frjálsri fjölmiðlun ehf., á gjalddaga 20. ágúst 2003. Stefnandi kveður víxilinn hafa verið sýndan í Sparisjóði Hafnarfjarðar þann sama dag. Stefndu, Sveinn Eyjólfsson og Eigna- og ráðgjafastofan ehf., eru ábekingar á víxlinum. Á útgáfudegi víxilsins bar stefndi, Eigna- og ráðgjafastofan ehf., nafnið Eignir, ráðgjöf og rekstur ehf. en stefnandi kveður um sama lögaðila að ræða.
Stefnandi kveður bæði útgefanda og greiðanda víxilsins gjaldþrota. Stefnandi byggir kröfu sína á handhöfn víxilsins og samþykki stefndu um að greiða hann. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Vísað er til víxillaga nr. 93/1933, einkum 7. kafla laganna um fullnustu vegna greiðslufalls. Málið er rekið skv. 17. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála.
Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur vaxtalaga nr. 38/2001. með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísist til 32. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefnandi reki mál þetta sem víxilmál. Stefndu hafi efasemdir um að handhöfn stefnanda á víxli þeim, sem kröfur hans byggist á, sé lögmæt og kveðast munu óska eftir að lögreglurannsókn fari fram á tildrögum þess að víxillinn komst í hendur stjórnenda stefnanda. Varnir í málinu séu þó ekki reistar á þessu atriði vegna ákvæða 17. kafla laga nr. 91/1991.
Víxill sá sem mál þetta snúist um sé samþykktur af Frjálsri fjölmiðlun ehf. Bú þess félags hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2002 og hafi innköllun til skuldheimtumanna verið birt í Lögbirtingablaði sem út kom 9. ágúst 2002.
Við töku bús samþykkjanda víxilsins til gjaldþrotaskipta hafi fallið í gjalddaga allar kröfur á hendur félaginu án tillits til áður umsamins gjalddaga, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. Sama regla komi fram í 43., sbr. 44. gr. víxillaga nr. 93/1933, sbr. 182. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því hafi víxillinn fallið í gjalddaga 2. júlí 2002, og hafi fyrningartími hans byrjað að líða gagnvart ábekingum á víxlinum. Fyrningartíminn gagnvart útgefanda og öðrum ábyrgðarmönnum á víxli sé eitt ár frá gjalddaga samkvæmt 2. mgr. 70. gr. víxillaga. Fyrningu víxilsins hafi ekki verið slitið gagnvart stefndu og verði þeir því ekki krafðir um greiðslu hans nú.
Varakrafa stefndu sé á því reist að kröfu stefnanda hafi ekki verið lýst í þrotabú greiðandans. Verði niðurstaða málsins sú að stefndu beri að greiða víxilinn sé ljóst að vanlýsing kröfunnar í búið hafi valdið þeim réttarspjöllum vegna þess að verulegar eignir séu í þrotabúi samþykkjandans og hafi verulegar upphæðir verið greiddar upp í almennar kröfur nú þegar og ljóst megi vera að enn eigi kröfuhafar eftir að fá umtalsverðar fjárhæðir upp í kröfur sínar. Þannig hafi nú verið greiddir 7 hundraðshlutar upp í almennar kröfur og gera megi ráð fyrir að heildarúthlutun upp í almennar kröfur verði nálægt 20 af hundraði. Vísa stefndu um þetta til framlagðs endurrits úr skiptabók.
Um málskostnaðarkröfur sínar vísa stefndu til 130. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi, Sveinn Eyjólfsson, krefjist þess að við ákvörðun málskostnaðar honum til handa verði tekið tillit til þess að hann hafi ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti sem hann þurfi að greiða til viðbótar þóknun lögmanns.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 segir að allar kröfur á hendur þrotabúi falli sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem kann áður að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti.
Í 1. mgr. 43. gr. víxillaga nr. 93/1933 segir að þegar gjalddagi sé kominn og víxill hafi eigi verið greiddur, geti víxilhafi leitað fullnustu hjá framseljendum, útgefanda og öðrum víxilskuldurum.
Í 2. mgr. sömu greinar segir m.a. að sama rétt eigi víxilhafi, þó gjalddagi sé eigi kominn, ef bú greiðanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta eða honum hafi verið veitt heimild til nauðasamnings.
Fram er komið að bú samþykkjanda víxilsins, Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta 2. júlí 2002 og var víxilkröfu þessari ekki lýst í búið. Af hálfu stefndu er því haldið fram að við töku búsins til gjaldþrotaskipta hafi umræddur víxill fallið í gjalddaga og kröfur á hendur stefndu, sem eru ábekingar á víxlinum, séu því fyrndar, en samkvæmt 2. mgr. 70. gr. víxillaga fyrnist kröfur á hendur útgefanda og ábekingum á einu ári frá gjalddaga.
Um víxla gilda sérstök lög, víxillög nr. 93/1933. Þegar litið er til orðalags 2. mgr. 43. gr. víxillaga, þar sem talað er um rétt víxilhafa, verður að telja, að umrætt ákvæði feli í sér heimild víxilhafa til handa til þess að leita fullnustu hjá þrotamanni þó gjalddagi sé ekki kominn við þær aðstæður að bú greiðanda víxils hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Telja verður, samkvæmt ákvæðinu, að honum sé í sjálfsvald sett hvort hann neyti þess réttar sem ákvæðið býður upp á, en ekki þykir verða litið svo á að víxilhafi glati víxilrétti sínum láti hann þessa heimild ónotaða.
Samkvæmt framansögðu er litið svo á að umstefndur víxill hafi ekki gjaldfallið fyrr en á gjalddaga hans, 20. ágúst 2003 og að kröfur stefnanda á hendur stefndu hafi því ekki verið fyrndar er mál þetta var höfðað með stefnu birtri 1. október 2003.
Varakrafa stefnda byggist á því að kröfu stefnanda hafi ekki verið lýst í þrotabú greiðanda víxilsins og hafi það valdið stefndu réttarspjöllum þar sem verulegar eignir séu í þrotabúi samþykkjandans og verulegar fjárhæðir hafi verið greiddar upp í almennar kröfur, sbr. það sem áður er rakið.
Stefnandi höfðar mál þetta sem víxilmál samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991. Í 118. gr. laganna eru taldar upp þær varnir sem stefndi í víxilmáli getur haft uppi. Verður ekki séð að þær varnir sem stefndu byggja á varðandi varakröfu sína falli þar undir og komast þær því ekki að í víxilmáli þessu.
Ber samkvæmt framansögðu að taka kröfur stefnanda til greina.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 400.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Sveinn Eyjólfsson og Eigna- og ráðgjafastofan ehf., greiði stefnanda, Sameinuðum ehf. 4.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001 frá 20. ágúst 2003 til greiðsludags og 400.000 krónur í málskostnað.