Hæstiréttur íslands

Mál nr. 611/2006


Lykilorð

  • Landamerki


         

Fimmtudaginn 13. september 2007.

Nr. 611/2006.

Gunnar Pétursson

(Benedikt Ólafsson hrl

Eva B. Helgadóttir hdl.)

gegn

Svavari Valtý Valtýssyni

(Jón Höskuldsson hrl.)

Arnóri Baldvinssyni

Helga Seljan Friðrikssyni

Fjarðabyggð

Sigurði Baldurssyni

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

Sléttubúinu ehf.

(enginn)

Garðari Lárusi Jónassyni

Sæbjörgu Jónasdóttur

Dórótheu Sigurfinnsdóttur

Önnu Elínu Óskarsdóttur

Guðlaugi T. Óskarssyni

Óskari Jósef Óskarssyni

Sigurlín Rósu Óskarsdóttur

Baldvin Páli Óskarssyni

Dýrleifu Jónínu Tryggvadóttur

Guðnýju S. Ásberg Björnsdóttur og

Sigurbirni Marinóssyni

(Logi Guðbrandsson hrl.

 Berglind Svavarsdóttir hdl.)

 

Landamerki.

GP krafðist viðurkenningar á því að landamerki milli jarðar sinnar Stuðla og jarðanna Áreyja, Grænuhlíðar, Seljateigs, Seljateigshjáleigu og Sléttu yrðu ákveðin með nánar tilgreindum hætti. Hvað varðar landamerki á milli jarðanna Stuðla og Áreyja var meðal annars deilt um staðsetningu Flóalækjaróss og hvort um tvo ósa væri að ræða. Ekki var fallist á með GP að miða bæri við upptök lækjarins eða að ósarnir væru tveir, en tekin var til greina gagnkrafa SV um að miða ætti við þann stað þar sem lækurinn rann í Fagradalsá. Hvað varðar landamerki á milli jarðanna Stuðla og Grænuhlíðar var fallist á með GP að miða bæri við punkt þar sem hann taldi vörðu, sem nefnd var nr. 1, hafa staðið, en að öðru leyti var ekki fallist á kröfur hans. Eigendur jarðanna Seljateigs, Seljateigshjáleigu og Sléttu voru sýknaðir af kröfum GP þar sem ekki þótti sannað að landamerki milli jarðanna og Stuðla væru með þeim hætti sem hann hélt fram.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. október 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 22. nóvember 2006, en áfrýjað var öðru sinni 1. desember sama ár. Áfrýjandi krefst þess að viðurkennt verði að landamerki milli jarðar sinnar Stuðla í Reyðarfirði og eftirtalinna jarða stefndu séu sem hér segir, allt með nánar tilgreindum hnitum: Merki við jörðina Grænuhlíð verði dregin frá punkti í hábungu Kollfells í punkt í Votabergshala, þaðan í tiltekna vörðu, sem nefnd er varða 2, þaðan í aðra vörðu, nefnd varða 1, og loks í punkt í efri Flóalækjarósi. Merki við jörðina Áreyjar verði dregin frá síðastnefndum punkti í annan, sem sé í neðri Flóalækjarósi við Puntbalaskarð. Merki við jarðirnar Seljateig og Seljateigshjáleigu verði dregin frá síðastnefndum punkti til austurs eftir gömlum farvegi Fagradalsár að enn öðrum punkti, sem ekki er auðkenndur með kennileiti. Loks verði merki við jörðina Sléttu dregin frá síðastnefndum punkti í annan við Hamarsenda, þaðan í punkt í Ysta Fossgili, frá þeim stað að punkti við Skollaflöt og loks þaðan í punkt í Skessugjá. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu.

Stefndu, öll að frátöldu Sléttubúinu ehf., krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hefur Grétar Heimir Helgason, sem var meðal stefndu í héraði, selt Sléttubúinu ehf. eignarhlut sinn í jörðinni Sléttu. Hefur aðild að málinu fyrir Hæstarétti verið breytt því til samræmis, en félagið hefur ekki látið málið til sín taka hér fyrir dómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða öðrum stefndu en Sléttubúinu ehf. málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Gunnar Pétursson, greiði stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals sem hér segir: Stefnda Svavari Valtý Valtýssyni 700.000 krónur, stefnda Arnóri Baldvinssyni 350.000 krónur, stefndu Helga Seljan Friðrikssyni og Fjarðabyggð 350.000 krónur, stefnda Sigurði Baldurssyni 350.000 krónur, og stefndu Garðari Lárusi Jónassyni, Sæbjörgu Jónasdóttur, Dórótheu Sigurfinnsdóttur, Önnu Elínu Óskarsdóttur, Guðlaugi T. Óskarssyni, Óskari Jósef Óskarssyni, Sigurlín Rósu Óskarsdóttur, Baldvin Páli Óskarssyni, Dýrleifu Jónínu Tryggvadóttur, Guðnýju S. Ásberg Björnsdóttur og Sigurbirni Marinóssyni 700.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 10. júlí 2006.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. júní sl., er höfðað af Gunnari Péturssyni, kt. 080760-3379, Annasholmsgade 57, stuen, 5000 Odense C, Danmörku með stefnu birtri 21., 22., 23. og 26. janúar 2004 og var málið þingfest 3. febrúar sama ár.

Gagnsakarmál Garðars Lárusar Jónassonar o.fl. gegn Gunnari Péturssyni var höfðað með gagnstefnu áritaðri um birtingu 1. mars 2004 og gagnsakarmál Svavars Valtýs Valtýssonar gegn Garðari Lárusi Jónassyni o.fl. var höfðað með áritun um birtingu 7. apríl 2004.

Stefndu í aðalsök eru Svavar Valtýr Valtýsson, kt. 120452-2749, Áreyjum, Reyðarfirði, Arnór Baldvinsson, kt. 081261-3779, 4915 Kenton Harbour, San Antonio, USA, Garðar Lárus Jónasson, kt. 091113-7679, Spítalastíg 4b, Reykjavík, Sæbjörg Jónasdóttir, kt. 290815-7469, Dalbraut 27, Reykjavík, Dóróthea Sigurfinnsdóttir, kt. 230624-2599, Lokastíg 3, Reykjavík, Anna Elín Óskarsdóttir, kt. 300863-4779, Laufengi 154, Reykjavík, Guðlaugur Tryggvi Óskarsson, Borgarholtsbraut 53, Kópavogi, Óskar Jósef Óskarsson, kt. 150860-3859, Gnoðarvogi 39, Reykjavík, Sigurlín Rósa Óskarsdóttir, kt. 250359-3659, Sæviðarsundi 43, Reykjavík, Baldvin Páll Óskarsson, kt. 180555-3589, Gnoðarvogi 34, Reykjavík, Dýrleif Jónína Tryggvadóttir, kt. 050429-2029, Gnoðavogi 34, Reykjavík, Guðný S. Ásberg Björnsdóttir, kt. 241242-4399, Starrahólum 5, Reykjavík, Sigurbjörn Marinósson, kt. 070656-2569, Hæðargerði 9, Reyðarfirði, Helgi Seljan Friðriksson, kt. 150134-2859, Kleppsvegi 14, Reykjavík, Sigurður Baldursson, kt. 250849-2659, Sléttu, Reyðarfjarðarhreppi.

Með sakaukastefnu birtri 7. september 2004 var réttargæslustefnda, Fjarðabyggð, kt. 470698-2099, Strandgötu 49, Eskifirði, stefnt inn í málið og með sakaukastefnu birtri 19. janúar 2005 var Grétari Heimi Helgasyni, kt. 110365-3819, Brávöllum 1, Egilsstöðum, stefnt inn í málið.

Dómkröfur aðalstefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að landamerki jarðanna Stuðla í Reyðarfirði annars vegar og aðliggjandi jarða, Áreyja, Grænuhlíðar, Seljateigs, Seljateigshjáleigu og Sléttu hins vegar séu svo sem hér segir:

Á milli Stuðla og Grænuhlíðar: Lína sem hugsast dregin af merkjapunkti A í hábungu Kollfells (hnit 719191.496 austur, 509797.840 norður) í merkjapunkt B í Votbergshala (hnit 719806.738 austur, 509902.741 norður), þaðan í merkjapunkt C í vörðu 2 (hnit 720008.5348 austur, 509820,554 norður) en þaðan í merkjapunkt D í vörðu 1 (hnit 720630 austur, 510795 norður) en þaðan í merkjapunkt E í Flóalækjarósi (hnit 720278.513 austur, 510884.991 norður).

Á milli Stuðla og Áreyja: Bein lína sem hugsast dregin úr punkti E í Flóalækjarósi í punkt F í Fagradalsá (hnit 720700 austur, 511511 norður). Á milli Stuðla og Seljateigs og Seljateigshjáleigu: Bein lína sem hugsast dregin frá merkjapunkti F í Fagradalsá eftir gömlum farvegi Fagradalsár í merkjapunkt G (hnit 722091 austur, 511486 norður).

Á milli Stuðla og Sléttu: Bein lína sem hugsast dregin úr merkjapunkti G í merkjapunkt H í Hamarsenda (hnit 722165 austur, 510485 norður), þaðan í merkjapunkt I, í Yzta-Fossgili (hnit 722120 austur, 510354 norður), þaðan í merkjapunkt J við Skollaflöt (hnit 722124 austur, 509850 norður) og þaðan í merkjapunkt K í Skessugjá (hnit 722535 austur, 509149 norður). Allt samkvæmt uppdrætti á dómskjali nr. 3. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndu í aðalsök gera þessar dómkröfur:

Aðalstefndi, Svavar Valtýr Valtýsson, krefst sýknu af kröfum aðalstefnanda og að aðalstefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til skyldu stefnda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Aðalstefndi, Arnór Baldvinsson, gerir þessar dómkröfur: Stefndi fellst á að punktarnir A, B og C, sem fram koma í kröfugerð aðalstefnanda og á dskj. nr. 3, séu landamerki á milli jarðanna Grænuhlíðar og Stuðla í Reyðarfirði, Fjarðabyggð. Hins vegar krefst stefndi þess að hafnað verði kröfu aðalstefnanda um að punktarnir D, E og F í stefnu og á dskj. 3 marki landamerki á milli jarðanna. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda að mati réttarins.

Aðalstefndu, Garðar Lárus Jónasson, Sæbjörg Jónasdóttir, Dóróthea Sigurfinnsdóttir, Anna Elín Óskarsdóttir, Guðlaugur Tryggvi Óskarsson, Óskar Jósef Óskarsson, Sigurlín Rósa Óskarsdóttir, Baldvin Páll Óskarsson, Dýrleif Jónína Tryggvadóttir, Guðný S. Ásberg Björnsdóttir og Sigurbjörn Marinósson, krefjast sýknu af dómkröfum aðalstefnanda og málskostnaðar óskipt að mati réttarins.

Aðalstefndu, Helgi Seljan og Fjarðabyggð, krefjast sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda. Þá krefjast þeir málskostnaðar.

Aðalstefndi, Sigurður Baldursson, krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að hafnað verði kröfu aðalstefnenda um að landamerki jarðanna Sléttu og Stuðla í Reyðarfirði, Fjarðabyggð, verði viðurkennd með dómi þau sem greinir í stefnu, heldur verði með dómi viðurkennt að landamerkin séu þessi: Frá punkti með hnitin 722 102 austur, 511 338 norður, sem er í farvegi Sléttuár (Fagradalsár) eins og hún rann á árinu 1884, þaðan bein lína að punkti með hnitin 721 768.3 austur, 510 459.1 norður, sem er í landamerkjavörðu, þaðan bein lína um Ystafossgil og Skollaflöt að punkti með hnitin 722 191 austur og 508 712 norður, sem er í Skessuskarði. Þá krefst hann málskostnaðar.

Sakaukastefndi í aðalsök, Grétar Heimir Helgason, gerir þær dómkröfur aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara tekur sakaukastefndi undir, styður og gerir að sínum allar kröfur stefnda Sigurðar Baldurssonar. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

Gagnstefnendur, Garðar Lárus Jónasson, Sæbjörg Jónasdóttir, Dóróthea Sigurfinnsdóttir, Anna Elín Óskarsdóttir, Guðlaugur Tryggvi Óskarsson, Óskar Jósef Óskarsson, Sigurlín Rósa Óskarsdóttir, Baldvin Páll Óskarsson, Dýrleif Jónína Tryggvadóttir, Guðný S. Ásberg Björnsdóttir og Sigurbjörn Marinósson, krefjast þess að landamerki jarðanna Stuðla og Seljalandshjáleigu verði viðurkennd með dómi eins og þau eru dregin á dskj. nr. 42 frá punktinum L-4 (722102 511338) við Péturstún á nyrsta hluta hinnar fornu Illueyrar í punktinn L-3 (720918 511338) Flóalækjarós. Þá krefjast gagnstefnendur málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda.

Gagnstefndi, Gunnar Pétursson, mótmælir kröfugerð og málavaxtalýsingu í gagnstefnu með vísan til kröfugerðar og málavaxtalýsingar í sinni stefnu og gerir þær kröfur að málið verð dæmt samkvæmt kröfugerð sinni í stefnu á dskj. nr. 1.

Gagnstefnandi Svavar Valtýr Valtýsson krefst þess að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Áreyja annars vegar og aðliggjandi jarða, Stuðla, Grænuhlíðar, Seljateigs og Seljateigshjáleigu, hins vegar séu svofelld:  Að sunnan úr punkti L3, hniti 720 918, 511 338, sem er í Flóalækjarósi, þaðan í Sandskarð, punkt L2 (hnit 720 117, 510 660), þaðan í Merkimel (Sveigbogamel), punkt L1 (hnit 719 693, 510 302), þaðan í mitt Kotfell, punkt A (hnit 719192.496, 509797.84). Að austan og utan ráði Fagradalsá landamerkjum milli Áreyja annars vegar og Seljateigs og Seljateigshjáleigu hins vegar út í Flóalækjarós punktur L3 (hnit 720 918, 511 338). Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda, en fellur frá kröfu um málskostnað úr hendi annarra aðalstefndu.

Gagnstefndi, Gunnar Pétursson, mótmælir kröfugerð og málavaxtalýsingu í gagnstefnu Svavars Valtýs Valtýssonar með vísan til kröfugerðar og málavaxtalýsingar í sinni stefnu og gerir þær kröfur að málið verði dæmt samkvæmt kröfugerð sinni í stefnu á dskj. nr. 1.

Hinn 24. maí 2005 var kveðinn upp úrskurður í málinu þar sem frávísunarkröfu aðalstefnda Sigurðar Baldurssonar og sakaukastefnda Grétars Heimis Helgasonar var hafnað. Stefndu var jafnframt gert að greiða aðalstefnanda 70.000 krónur í málskostnað.

Dómarar gengu á vettvang ásamt aðilunum, Svavari Valtý Valtýssyni og Sigurði Baldurssyni, lögmönnum þeirra og annarra aðila. Einnig var með í för Pétur Valdimarsson, faðir aðalstefnanda, og Kjartan Lárus Pétursson, faðir aðalstefnda, Svavars Valtýs.

II.

Málavextir

Aðalstefnandi er eigandi jarðarinnar Stuðla í Reyðarfirði. Landamerki jarðarinnar liggja að jörðunum Grænuhlíð, Áreyjum, Seljateigshjáleigu, Seljateig og Sléttu, auk merkja að sunnan við afrétt, sem aðalstefnandi kveður vera ljós. Stefnandi kveður vera ágreining um merki jarðarinnar gagnvart fyrrgreindum aðliggjandi jörðum.

Aðalstefndu og sakaukastefndu eru eigendur þeirra jarða sem kröfugerð aðalstefnanda lýtur að, þannig:

Áreyjar eru samkvæmt þinglýsingabók í eigu aðalstefnda, Svavars Valtýssonar.

Grænahlíð er samkvæmt þinglýsingabók í eigu aðalstefnda, Arnórs Baldvinssonar.

Seljateigshjáleiga er samkvæmt þinglýsingabók í eigu Garðars Jónassonar 620 2/7 al, Sæbjargar Jónasdóttur 127 1/5 al, Ragnars Jónassonar 127 1/5 al, Jónasar Guðlaugssonar og db. Óskars Guðlaugssonar/Dýrleifar Tryggvadóttur 112 ½ al, Guðnýjar Ásberg Björnsdóttur 381 al og Sigurbjörns Marinóssonar 127 1/5 al.

Stefnandi kveður Garðari, Sæbjörgu, Guðnýju Ásberg og Sigurbirni stefnt í máli þessu. Ragnar Jónasson sé látinn, en ekkja hans Dóróthea Sigurfinnsdóttir sitji í óskiptu búi eftir mann sinn. Hún hafi ekki þinglýst réttindum sínum, en sé stefnt í málinu sem eiganda. Stefnandi kveður bræðurna Jónas Guðlaugsson og Óskar Guðlaugsson látna og skiptum á búi þeirra lokið. Erfingjar þeirra beggja séu stefndu Anna Elín, Guðlaugur Tryggvi, Óskar Jósef, Sigurlín Rósa, Baldvin Páll og Dýrleif Jónína. Þau hafi ekki þinglýst réttindum sínum en þeim sé stefnt í málinu sem réttum eigendum.

Seljateigur er samkvæmt þinglýsingabók í eigu aðalstefnda Helga Seljan og sakaukastefnda Fjarðabyggðar.

Slétta er samkvæmt þinglýsingabók í eigu aðalstefnda Sigurðar Baldurssonar og sakaukastefnda Grétars Heimis Helgasonar. Þór Gíslason og Ragnheiður Kristjánsdóttir eiga afmarkaðar spildur úr landi jarðarinnar og samkvæmt úrskurði dómsins uppkveðnum 24. maí 2005 snertir ágreiningsefni máls þessa ekki hagsmuni þeirra.

Málavextir eru þeir að með bréfi lögmanns aðalstefnanda til sýslumannsins á Eskifirði dagsettu 5. september 2000 var tilkynnt að ágreiningur væri um landamerki jarðarinnar Stuðla í Reyðarfirði og aðliggjandi jarða. Var þess farið á leit með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl. að sýslumaður boðaði aðila, þ.e. aðalstefnanda og eigendur aðliggjandi jarða til sáttafundar. Sýslumaður boðaði til fundar 11. janúar 2001. Á fundinum var staðfest að ágreiningur væri uppi um landamerkin, en þar sem ekki voru allir landeigendur boðaðir til fundarins var boðað til nýs sáttafundar hjá sýslumanni, sem haldinn var 6. febrúar 2003. Á þeim fundi var staðfestur fyrri ágreiningur og að aðilar næðu ekki samkomulagi. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu segir stefnandi að sér hafi verið nauðsynlegt að fá úr því skorið með dómi hvar rétt merki Stuðla í Reyðarfirði og aðliggjandi jarða liggja.

Landamerkjum jarðarinnar Stuðla gagnvart Sléttu, Áreyjum, Seljateig og Seljateigshjáleigu er lýst svo í landamerkjabréfi jarðarinnar:

Landamerki jarðarinnar Stuðla innan Hólmasóknar í Suður-Múlasýslu byrja milli Sléttu og Stuðla við Fagradalsá er nú rennur til suðurs um svonefnda Illueyri hér um bil á hinum fornu landamærum. Frá ánni liggja landamærin í keldu, sem er á svokölluðum Bláarbakka, úr keldunni í landamerkjaósi, þaðan beina leið í vörðu, sem hlaðin er í urð þeirri, er liggur niður úr næstu gjótu, öðru nafni Ysta-Fossgil. Úr vörðunni liggja þau þvert upp í gjótuna og í gilið í Skollaflöt og í Skessugjá og þaðan á fjall upp........þaðan út milli Kollfjalls og niður í sveigboginn mel er nefnist Merkimelur, þaðan í Sauðaskarð, því næst beina leið í Flóalækjarós og að lokum í Fagradalsá.

Landamerkjabréfið, sem dagsett er 10. maí 1884, er áritað og samþykkt af hálfu Áreyja með þeim fyrirvara að fjallið sem nefnt sé Kolfell (Kollfjall) sé hið sama og nefnt sé Kotfell í landamerkjabréfi Áreyja.

Landamerkjum jarðarinnar Áreyja gagnvart Stuðlum og Seljateig er lýst svo í landamerkjabréfi jarðarinnar:

Að sunnan milli Áreyja og Stuðla liggur markið úr Flóalækjarós í sandskarð þaðan á Merkimel, þaðan í mitt Kotfell.

....... Að austan og utan skilur Fagradalsá alla leið Seljateigs og Áreyjalands út í Flóa lækjar ós.  .....

Landamerkjabréfið, sem er dagsett 5. september 1885 og þinglýst 31. maí 1886, er áritað og samþykkt af hálfu Stuðla.

Landamerkjum Sléttu gagnvart Stuðlum og Seljateig er lýst svo í landamerkjabréfi jarðarinnar:

...2. Á milli Stuðla og Sléttu úr Skessugjá í Skollaflöt, úr Skollaflöt í Ystafossgil, þaðan í vöru þá, er hlaðin er niður úr þessu gili, úr vörðu þessari beina leið í Landamerkjaósi, er liggur í keldu, en þessi kelda er í svokölluðum Bláarbakka.

3. Á milli Sléttu og jarðanna Seljateigs og Kollaleiru aðskilr hinn gamli Sléttuárfarvegr, sem liggr út fyrir norðan Illueyri og þaðan til sjóar í miðjan Sléttuárós....

Landamerkjabréfið, sem dagsett er 9. apríl 1884 og þinglýst 18. maí 1885, er áritað og samþykkt af hálfu Stuðla.

Landamerkjum Seljateigs gagnvart Stuðlum, Áreyjum og Sléttu er lýst svo í framlögðu afriti af landamerkjabréfi jarðarinnar.

...svo upp á Fagradal þar sem vötnum hallar til Héraðs og Reyð.fjarðar. Þaðan fellur hin svonefnda Fagradalsá, út og suður í Stuðlaá, er aðskilur Áreyja- og Stuðla-lönd. Að sunnan aðskilur hinn gamli Sléttuárfarvegur, er liggur þétt við Illueyri.

Landamerkjabréfið, sem er dagsett 9. apríl 1884, er samþykkt af hálfu Stuðla, Áreyja og Sléttu.

Hinn 2. september 1937 var undirritaður kaupsamningur af þáverandi eiganda Stuðla um sölu á spildu úr landi jarðarinnar, sem nefnd var Grænahlíð og var spildan afmörkuð í samningnum svo sem hér segir:

Að norðan landamerki Áreyja, úr Flóalækjarós í Sementsvörðu Nr I þaðan beina linu í Sementsvörðu Nr. 2, úr Sementsvörðu Nr. 2, í svonefndan Kollumel, úr Kollumel í Ytrivotabergshala, þaðan í landamerki Áreyjalands á kolli Kollsfjalls, alt beinar linur á milli merkja sem nefnd eru...

Landamerkjalýsing sú sem fram kemur í kaupsamningnum er ekki staðfest með áritun eiganda Áreyja á samninginn.

Í máli þessu er um það deilt hvar staðsetja eigi kennileitin Flóalækjarós, Sandskarð (Sauðaskarð), Merkimel (sveigboginn mel) og Kotfell (Kolfell, Kollfjall), en kennileiti þessi ráða landamerkjum á milli Stuðla annars vegar og Áreyja, Grænuhlíðar, Seljateigs og Seljateigshjáleigu hins vegar. Eru aðalstefndu, eigendur Grænuhlíðar, Áreyja, Seljateigs og Seljateigshjáleigu, sammála um hvar staðsetja eigi framangreind kennileiti, öndvert við aðalstefnanda. Þá eru eigendur Seljateigshjáleigu, og Áreyja sammála um að landamerki milli þeirra jarða (að austan og utan) sé Fagradalsá að Flóalækjarósi. Loks er deilt um hvar staðsetja eigi kennileitin Illueyri, Ystafossgil, Skollaflöt og Skessugjá.

Málsástæður

Málsástæður aðalstefnanda, Gunnars Péturssonar, eiganda Stuðla:

Aðalstefnandi kveður ágreining vera um staðsetningu Flóalækjaróss. Í merkjalýsingu fyrir Stuðla séu merkin úr Sauðaskarði (Sandaskarði) beina leið í Flóalækjarós og að lokum í Fagradalsá. Samkvæmt þessu virðist ljóst að Flóalækjarós sé ekki í Fagradalsá, enda sé staðsetning merkja í Fagradalsá ekki lýst á annan hátt en þar sem bein lína úr Sauðaskarði um Flóalækjarós lendi í Fagradalsá. Í merkjalýsingu fyrir Áreyjar segi m.a.: Að austan og utan skilur Fagradalsá alla leið Seljateigs og Áreyjarlands út í Flóalækjarós. Samkvæmt þessari lýsingu virðist vera ljóst að Flóalækjarós hafi einnig á þessum tíma verið í Fagradalsá.

Aðalstefnandi heldur því fram að ósar Flóalækjar hafi verið tveir, annar við upptök lækjarins en hinn þar sem Flóalækur rann í Fagradalsá, enda virðist ekki hægt að skilja merkjalýsingar jarðanna á annan hátt, en þær séu gerðar nánast á sama tíma. Í merkjalýsingu Stuðla sé þannig átt við efri ósinn, þ.e. merkjapunt E á uppdrætti á dskj. nr. 3 og þannig fáist merkjapunktur í Fagradalsá, sem annar sé ekki tilgreindur með því að draga beina línu úr Sauðaskarði um Flóalækjarós í Fagradalsá. Þessi skilningur stemmi líka við lýsingu á merkjum jarðarinnar Grænuhlíðar í greindum kaupsamningi. Í merkjalýsingu Áreyja sé hins vegar miðað við neðri ós Flóalækjar þar sem lækurinn rann í Fagradalsá, enda stemmi það við merkjalýsinguna þar sem sagt sé að Fagradalsáin skilji milli Seljateigs- og Áreyjajarða.

Merkjapunktur F í Fagradalsá sé fundinn eins og að framan greini þannig að bein lína hugsist dregin frá Sandaskarði (Sauðaskarði) í Flóalækjarós og sé framlengd þaðan beint í Fagradalsá.

Stefnandi kveður Fagradalsá renna niður Fagradal og sveigja til austurs þegar komi niður í Reyðarfjörð. Hún renni saman við Stuðlaá, sem komi að sunnan og saman renni árnar svo til austurs og virðist ýmist kölluð Stuðlaá eða Fagradalsá allt þar til komi austur að Sléttu, en þar séu vötnin kölluð Sléttuá allt til sjávar. Stundum virðist þó Fagradalsá halda nafni sínu í merkjalýsingum allt austur til sjávar.

Fagradalsá skilji samkvæmt merkjalýsingum á milli jarða Stuðla, Seljateigs og Seljateigshjáleigu. Farvegur Fagradalsár hafi breyst mikið í áranna rás, en áin sem renni í tiltölulega grunnum malarfarvegi í litlum halla hafi sveiflast til um þessar malareyrar. Megi glögglega sjá breytingar þessar á loftmyndum af svæðinu, sem teknar séu með margra ára bili. Einnig megi lesa um sveiflur þessar í merkjalýsingum. Í merkjalýsingu fyrir Stuðla segi: ...Fagradalsá er nú rennur til suðurs um svonefnda Illueyri hér um bil á hinum fornu landamærum. Stefnandi kveður ána nú renna langt sunnan við Illueyri þannig að ljóst megi vera að merkin séu langt norðan árinnar eins og hún renni nú. Í merkjalýsingu fyrir Sléttu segi m.a.: Á milli Sléttu og jarðanna Seljateigs og Kollaleiru aðlskilr hinn gamli Sléttuárfarvegr, sem liggr út fyrir norðan Illueyri. Stefnandi heldur því fram að Fagradalsáin hafi, þegar merkjalýsingar jarðanna voru gerðar, runnið þar sem lína er dregin á milli merkjapunkta F og G í uppdrætti á dskj. nr. 3 og styður þá skoðun sína við eldri loftmyndir af svæðinu og þá staðreynd að áin, sem renni austur Reyðarfjörð, hafi á þeim tíma sem samið hafi verið um merki tekið sveig við Illueyri og runnið til suðurs norðan við Illueyri.

Stefnandi kveður merkjapunkt G staðsettan með hliðsjón af framangreindu í þessum gamla árfarvegi norðan Illueyrar og þar sem bein og framlengd lína á milli punkta F og G sé skorin af línu sem hugsist dregin frá Ystafossgili um Bláarbakka og Illueyri í þennan gamla farveg Fagradalsár.

Stefnandi vísar um kröfur sínar til ákvæða laga nr. 41/1991 um landamerki o.fl. með síðari breytingum. Þá kveður hann kröfu um málskostnað byggða á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður aðalstefnda, Svavars Valtýs Valtýssonar, eiganda Áreyja:

Aðalstefndi kveðst almennt gera þær athugasemdir við málatilbúnað aðalstefnanda að ekkert í fyrirliggjandi gögnum styðji það með einum eða öðrum hætti að aðalstefndi eða fyrri eigendur Áreyja hafi á 20. öld samið sig undir ný landamerki jarðarinnar og/eða afsalað landi frá þeim landamerkjum jarðarinnar sem hafi lögformlega verið staðfest með landamerkjabréfinu frá 5. september 1885.

Hvað varðar kennileitið Flóalækjarós bendir aðalstefndi á að allir aðilar máls þessa, aðrir en aðalstefnandi, séu sammála um hvar staðsetja eigi Flóalækjarós. Að mati aðalstefnda sé Flóalækjarós í Fagradalsá á þeim stað sem Flóalækurinn rann í ána. Aðalstefndi kveðst alfarið hafna staðhæfingum aðalstefnanda um að til hafi verið tveir Flóalækjarósar á þessu svæði, þ.e. annar við upptök Flóalækjar og hinn þar sem lækurinn rennur í ána. Það fái ekki staðist og sé um sama ósinn að ræða, sem vísað sé til í landamerkjalýsingu Stuðla og Áreyja og tilgreindur er sem kennileiti í kaupsamningi um spildu þá sem seld hafi verið úr Stuðlum á árinu 1937 (býlið Grænuhlíð).

Þá fáist ekki staðist sú staðhæfing aðalstefnanda að merkjapunktur F í núverandi farvegi Fagradalsár sé sá merkjapunktur sem miðað sé við í landamerkjalýsingum Áreyja og Stuðla. Landamerkjabréf Áreyja leyfi ekki slíka túlkun. Þá liggi fyrir að Fagradalsá hafi á 19. öld runnið á allt öðrum stað en hún geri nú og sjáist greinilega móta fyrir gömlum árfarvegi Fagradalsár mun sunnar en áin renni nú.

Aðalstefndi mótmælir sönnunargildi dskj. nr. 22, sem sé einhvers konar yfirlýsing frá Jórunni Ferdinandsdóttur í bréfi til lögmanns gagnstefnda dags. 12. júní 2001 og mótmælir staðhæfingum í skjalinu um nýtingu Hvítabala sem röngum. Jafnframt bendir aðalstefndi á að Hvítibali sé og hafi verið á landamerkjum jarðanna Áreyja og Stuðla og hafi enginn ágreiningur verið um það.

Aðalstefndi kveðst styðja kröfur sínar í gagnstefnu um ákvörðun landamerkjanna við skýrar lýsingar í tilvitnuðum landamerkjabréfum, einkum þó í landamerkjabréfi Áreyja þar sem merkin séu sögð vera úr Flóalækjarósi í Sandskarð, þaðan á Merkimel og þaðan í mitt Kotfell. Enginn vafi leiki á að um sé að ræða beinar línur eða sjónhendingu milli framangreindra kennileita. Þá verði að telja útilokað að lesa megi út úr landamerkjalýsingunni þau mörk sem aðalstefnandi útlisti í sinni kröfugerð. Landamerkjalýsing Stuðla (Grænuhlíðar) sé að vísu mun ógreinilegri en lýsing Áreyja og sé að auki því marki brennd að vísa til kennileita sem ekki þekkist og geti því eðlilega verið umdeild. Eigi það t.d. við um Kolfell (Kollfjall) og svonefnt Sauðaskarð, sem aðalstefndi telji reyndar að sé hið sama kennileiti og nefnt sé Sandskarð eða Sandskörð í landamerkjabréfi Áreyja.

Kennileitið Flóalækjarós staðsetji aðalstefndi við Fagradalsá á þeim stað sem Flóalækur rann í ána. Á framlögðum myndum sjáist vel móta fyrir því hvar lækurinn hefur runnið og ósinn verið í Fagradalsá. Nú séu staðhættir þeir að Flóalækur renni ekki í Fagradalsá heldur Stuðlaá, sem hafi færst vestar en áður var. Upplýsingar og vitneskja um að aðeins sé til einn Flóalækjarós og um staðsetningu hans byggi aðalstefndi á upplýsingum frá fyrri eiganda Áreyja, Kjartani Péturssyni, sem búið hafi á jörðinni í yfir 20 ár og vel kunnugur landamerkjum og kennileitum á svæðinu. þá telji aðalstefndi að Sandskarð (-skörð) séu sama kennileiti og Sauðaskarð, sem nefnt sé í lýsingu Stuðla. Þá liggi fyrir að Merkimelur og sveigboginn melur sé eitt og sama kennileitið og staðfesti landamerkjalýsing Stuðla það. Í örnefnaskrá á dskj. nr. 35 sé Merkimelur sagður liggja þvert niður á merkjum úr Kotfelli.

Aðalstefndi vísar til landamerkjalaga nr. 5/1882 og laga nr. 41/1919 með síðari breytingum, svo og til almennra reglna íslensks réttar um gildi landamerkjabréfa og túlkun þeirra.

Málsástæður aðalstefndu, Garðars, Sæbjargar, Dórótheu, Önnu, Guðlaugs, Óskars, Sigurlínar, Baldvins, Dýrleifar, Guðnýjar og Sigurbjörns, eigenda Seljateigshjáleigu:

Eigendur Seljateigshjáleigu benda á að samkvæmt landamerkjabréfi Stuðla byrji landamerki milli Sléttu og Stuðla við Fagradalsá er nú rennur á hinum fornu landamærum. Landamerkjalýsingu Stuðla ljúki með þessu orðum, þ.e. hringnum sé lokað: ...því næst beina leið í Flóalækjarós og að lokum í Fagradalsá. af landamerkjalýsingunni megi ráða a.m.k. tvennt, annars vegar að Fagradalsá ráði merkjum milli Seljateigshjáleigu og Stuðla og hins vegar að áin hafi verið farin að breyta farvegi sínum þegar árið 1884 þar sem hún hafi áður runnið til norðausturs. Aðalstefndu benda á að eftir að Fagradalsá og Stuðlaá renni saman sé áin oft nefnd Sléttuá, en jöfnum höndum sé áin nefnd Fagradalsá allt frá upptökum til ósa. Þetta verði að hafa í huga þegar landamerkjalýsingar séu skoðaðar, sbr. landamerkjabréf Sléttu, sem dagsett sé 9. apríl 1884, en þar segi um landamerki Sléttu og jarðanna Seljateigs og Kollaleiru, að þær aðskilji ... hinn gamli Sléttuárfarvegr (Fagradalsárfarvegur) sem liggr út fyrir norðan Illueyri og þaðan til sjóar... Landamerki Sléttu og Seljateigs séu skýr og staðfest með samkomulagi eigenda fyrir sýslumanni, en þar sé miðað við hinn forna farveg árinnar. Ágreiningur sé í málinu um staðsetningu Illueyrar. Samkvæmt kröfugerð sinni virðist aðalstefnandi halda því fram að Illaeyri hafi legið á svipuðum slóðum og núverandi Fagradalsbraut. Þessu mótmæli aðalstefndu sem röngu og ósönnuðu. Nyrsti hluti Illueyrar sé hið svonefnda Péturstún, sem nefnt sé Illueyrartún á dskj. nr. 3, en syðsti hluti hennar liggi nokkru sunnar en þar sem Stuðlaá og Fagradalsá renni saman nú, sbr. dskj. nr. 49. Áin hafi runnið meðfram Illueyri að norðan og í norðaustur til sjávar einsog ráða megi af gömlum landakortum, sbr. dskj. nr. 45 og 46. Áin hafi brotist í gegnum eyrina við punkt L-4 og runnið til suðurs áður eða um svipað leyti og landamerkjabréf jarðanna voru gerð.

Einnig sé ágreiningur um staðsetningu Flóalækjaróss. Aðalstefndu mótmæla staðhæfingu aðalstefnanda um að ósarnir séu tveir sem rangri og ósannaðri og auk þess ekki í samhengi við lýsingu landamerkja Stuðla og Áreyja. Í lýsingunni sé einfaldlega sagt að úr Flóalækjarósi við Fagradalsá liggi merkin í ánni að upphafspunkti lýsingarinnar, þ.e. Fagradalsá lokar hringnum. Þessi skilningur aðalstefndu samræmist ágætlega landamerkjalýsingu Áreyja, sem dagsett sé 5. september 1885, en þar segi: Að sunnan milli Áreyja og Stuðla liggur markið úr Flóalækjarós í sandskarð.....Að austan og utan skilur Fagradalsá alla leið Seljateigs og Áreyjalands út í Flóalækjarós. Landamerkjalýsing Áreyja hefjist í Flóalækjarósi og þar ljúki hringnum, en það staðfesti svo ekki verði um villst að einungis sé um einn Flóalækjarós að ræða. Þessum skilningi til enn frekari staðfestingar hafi eigandi Áreyja gert fyrirvara við landamerkjalýsingu Stuðla um að það sem nefnt sé Kolfell í lýsingunni sé það sama og hann nefni Kotfell í landamerkjalýsingu Áreyja. Erfitt sé að ímynda sér að slíkur nákvæmnismaður hefði ekki gert fyrirvara ef um tvo Flóalækjarósa hefði verið að ræða.

Ljóst sé að Fagradalsáin hafi verið stöðug í farvegi sínum þangað til seint á 19. öld. Síðan þá hafi hún runnið víða um Sléttuna og raunar sé allt vatnasvæði hennar síbreytilegt. Sem dæmi megi nefna að Flóalækur renni nú í Stuðlaá en hafi runnið í Fagradalsá árið 2001 þegar loftmyndin á dskj. nr. 3 hafi verið tekin. Einnig sjáist glöggt á loftmyndum af Sléttunni að hún sé öll sundurskorin af ár- og lækjarfarvegum og erfitt sé að glöggva sig á því eftir hvaða vatnsföll hver farvegur sé, þótt oft fari það ekki á milli mála. Af þessu leiði að staðsetning landamerkjapunkta í eða við árnar sé miklum erfiðleikum bundin. Þó liggi fyrir að enginn ágreiningur sé á milli eigenda jarðanna Áreyja, Sléttu og Seljateigshjáleigu um staðsetningu landamerkjapunktanna L-3 og L-4 og séu aðilar sammála um það að ekki verði nær komist landamerkjum eins og þau hafi verið dregin á 19. öld. Ennfremur sýni samkomulag eigenda Sléttu annars vegar og eigenda Seljateigs hinsvegar hvar fyrrnefndir eigendur töldu farveg Fagradalsár hafa verið. Þá sé óumdeilt að áin hafi runnið norðan Illueyrar og alveg við hana, enda segi í landamerkjabréfi Seljateigs, sem dagsett sé 9. apríl 1884: ...að sunnan aðskilur hinn gamli Sléttuárfarvegur, er liggur þétt við Illueyri. Einungis aðalstefnandi dragi landamerkin í efa, en aðalstefndu mótmæli því með vísan til framanritaðs að eigendur jarðarinnar Stuðla hafi nokkurn tíma átt land norðan línu, sem dregin sé á milli punktanna L-3 og L-4, sbr. dskj. nr. 42.

Um lagarök er vísað til laga um landamerki nr. 41/1919 og vatnalaga nr. 15/1923. Um varnarþing er vísað til 34. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. sömu laga. Loks er um gagnkröfu vísað til 28. gr. sömu laga.

Málsástæður aðalstefndu, Sigurðar Baldurssonar og Grétars Heimis Helgasonar, eigenda Sléttu:

Aðalstefndi heldur því fram að með gerð landamerkjabréfs fyrir jörðina Sléttu, sem sé undirritað af hálfu eiganda Stuðla, hafi komist á bindandi samningur milli eigenda jarðanna tveggja um landamerki þeirra á milli. Óþarft sé því að leita eldri heimilda. Landamerkjabréf fyrir jörðina Stuðla sé hins vegar ekki undirritað af hálfu eigenda Sléttu og ekki sé að sjá að henni hafi verið þinglýst. Lýsing á landamerkjum í landamerkjabréfi Stuðla geti þó verið bindandi af hálfu aðalstefnanda.

Ekki virðist ágreiningur á milli málsaðila um að landamerkin eigi að liggja frá Skessugjá í Skollaflöt og þaðan í Ystafossgil. Ágreiningur virðist hins vegar vera um staðsetningu þessara örnefna. Aðalstefnandi hafi merkt þau inn á dskj. nr. 3 sem punkta K, J og I. Aðalstefndi hafi hins vegar staðsett Skessugjá í punkti með hnitin 722 191 austur og 508 712 norður.

Næsti punktur sem stefnandi byggi á í málatilbúnaði sínum sé Hamarsendi, sem hann merki sem punkt H á dskj. nr. 3. Af hálfu aðalstefnda sé því alfarið mótmælt að þetta kennileiti marki landamæri milli jarðanna. Sé það algerlega vanreifað af hálfu stefnanda á hverju hann byggi þá kröfu sína. Punktur þessi eigi sér enga stoð í landamerkjalýsingum í landamerkjabréfum jarðanna Stuðla og Sléttu.

Næst byggi aðalstefndi á punkti með hnitin 721 768.3 austur 510 459.1 norður. Þessi punktur sé í landamerkjavörðu þeirri sem greint sé frá í landamerkjabréfum jarðanna Stuðla og Sléttu og sé þessi varða til staðar í landinu enn í dag. Samkvæmt landamerkjalýsingum sé ljóst að landamerki jarðanna liggi um þessa vörðu.

Aðalstefndi kveðst byggja á því að allt frá því fyrir 1884 hafi gilt sú ólögfesta meginregla að landamerki skyldi draga í sem fæstum línum og beinum línum, en þessi meginregla hafi t.a.m. verið lögfest með 10. gr. landskiptalaga nr. 46/1941. Löglíkur séu fyrir því að landamerki milli punktanna 722 191 austur og 508 712 norður og hins vegar 721 768.3 austur og 510 459.1 norður séu ein bein lína, enda liggi sú lína um Ystafossgil og Skollaflöt.

Aðalstefndi, Sigurður Baldursson, kveður girðingu hafa legið eftir stórum hluta landamerkjanna á milli punktanna 722 102 austur, 511 338 norður og 721 768.3 austur, 510 459.1 norður. Þessi girðing hafi síðar verið leyst af hólmi með landamerkjaskurði, sem faðir aðalstefnda og Hjalti Gunnarsson, þá umsjónarmaður með Stuðlum, hafi grafið á árunum 1955-67. Óslitið allan þennan tíma hafi umrædd girðing og síðar skurður skipt afnotum lands á þessu svæði. Eigendur Sléttu hafi þennan tíma nýtt landið alveg að þessum landamerkjum.

Aðalstefndi kveðst telja að frá punktinum í landamerkjavörðunni eigi merkin að liggja í beinni línu að Sléttuá, samanber framangreindan rökstuðning um fáar og beinar landamerkjalínur. Vegna þessa komi ekki til skoðunar kennileitin kelda í Blárbakka og landamerkjaós, sem lýst sé í landamerkjabréfum jarðanna Stuðla og Sléttu, enda telji aðalstefndi ekki unnt að henda reiður á þessum kennileitum í dag. Um langa hríð hafi verið ágreiningslaus landamerki í þessari línu, fyrst aðgreind með girðingu og síðan með skurði. Hafi eigendur beggja jarða staðið að þessu og í framkvæmd virt þetta sem landamerki. Aðalstefndi og fyrirrennarar hans hafi nýtt landið alveg að þessum mörkum með þeim hætti að ekki hafi átt að fara framhjá neinum. Af þessu leiði að líkur séu til þess að þetta sé landamerkjalína í samræmi við landamerkjalýsinguna í landamerkjabréfi Sléttu.

Þá byggi aðalstefndi á því að afnot af þessu landi hafi verið með þeim hætti að hann hafi eignast landið að þessum mörkum fyrir hefð, sbr. 6. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Þá kveðst aðalstefndi vísa til þess að í ágripi af landlýsingu Stuðla á dskj. nr. 21 lýsi Hjalti Gunnarsson, fulltrúi eigenda Stuðla, fyrrgreindum skurði sem landamerkjum.

Punkt 722 102 austur, 511 338 norður hafi stefndi látið setja niður á kort þar sem Sléttuá, eins og aðalstefndi telji að hún hafi runnið árið 1884, skeri hina beinu línu frá landamerkjavörðunni og um landamerkjaskurðinn. Sé í þessu efni stuðst við landamerkjalýsinguna á dskj. nr. 4.

Um málskostnaðarkröfu vísar aðalstefndi til 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður aðalstefnda, Arnórs Baldvinssonar, eiganda Grænuhlíðar:

Aðalstefndi, Arnór Baldvinsson, kveður að sementsvörður, sem minnst sé á í kaupsamningi um spildu þá úr landi Stuðla árið 1937, sem síðar hafi verið nefnd Grænahlíð, hafi aldrei verið steyptar upp. Þegar fósturfaðir hans, Jóhann Björgvinsson, hafi keypt Grænuhlíð árið 1947 hafi vörðubrot, sem hlaðin hafi verið upp við sölu á spildunni árið 1937, verið hrunin og litlar menjar um þau að sjá. Önnur varðan hafi að sögn Jóhanns verið rétt suðvestan við þar sem brúin yfir Stuðlaána sé núna. Vörðubrotið sem þar hafi verið hafi hins vegar horfið við byggingu brúarinnar og gerð vegarins. Punkturinn ætti því að vera u.þ.b. miðja vegu á milli puntkar D (varða 1) á dskj. nr. 3 og suðvestur-brúarsporðs Stuðlabrúar.

Aðalstefndi kveðst mótmæla því sem haft sé eftir Jórunni Ferdinandsdóttur á dskj. nr. 22 sem röngu. Hvítubalar hafi alltaf verið nytjaðir af eigendum Grænuhlíðar án afskipta, íhlutunar eða greiðslu, enda landið augljóslega innan landamerkja Grænuhlíðar samkvæmt landamerkjalýsingu Stuðla og Áreyja frá 1884 og 1885. Afnot Grænuhlíðar af þessu túni hafi byrjað þegar eftir að Indriði Jóhannsson keypti jörðina árið 1937. Aðalstefnda kveðst ráma í að fósturfaðir hans hafi tjáð honum að fólk af Reyðarfirði hafi slegið þarna áður en hann flutti á jörðina. Hafa beri í huga að Grænahlíð hafi ekki verið seld út úr Stuðlum fyrr en haustið 1937 og væntanlega ekki nýtt til sláttar af Indriða fyrr en sumarið 1938. Eins sé hugsanlegt að Gunnar Bóasson hafi verið búinn að ganga frá leigusamningi við foreldra Jórunnar áður en hann seldi Indriða spilduna og að munnlegt samkomulag hafi verið á milli Gunnars og Indriða um að sá samningur yrði haldinn af Indriða. Aðalstefndi kveður að um 1970 hafi eigendur Grænuhlíðar stækkað túnin við Hvítubala um einn hektara.

Aðalstefndi kveðst fallast á staðsetningu punktanna A, B og C á dskj. nr. 3 og kveðst ekki gera ágreining um staðsetningu þeirra. Tvö þeirra kennileita sem getið sé um í kaupsamningnum á dskj. nr. 8 virðist hins vegar í meðförum stefnanda hafa fallið saman í eitt. Hér sé átt við sementsvörðu nr. 2 og Kollumel. Samkvæmt dskj. nr. 3 sé punkturinn C merktur sem varða 2 en staðsettur þar sem aðalstefndi geti fallist á að heiti Kollumelur. Kveðst aðalstefndi telja líklegt að varða nr. 2 hafi verið í beinni línu frá punktunum B og C á dskj. nr. 3, en nær Stuðlaánni. Aðalstefnandi hafi ekki sannað eða fært fram líkur fyrir því hvar varða nr. 1 hafi verið staðsett. Að því leyti sé málatilbúnaður aðalstefnanda algerlega vanreifaður. Kveðst aðalstefndi telja líklegt að hún hafi verð staðsett nærri þeim stað þar sem brúin yfir Stuðlaá sé nú.

Varðandi Flóalækjarós kveðst aðalstefndi telja ljóst að hann sé staðsettur þar sem Flóalækurinn renni í Fagradalsá en ekki við upptök Flóalækjar. Auk þess vilji stefndi benda á að punkturinn E á dskj. nr. 3 sé ekki við upptök Flóalækjar, heldur séu þau nokkru ofar. Þá sé því mótmælt sem fram komi í stefnu að báðir endar lækjarins geti kallast ósar. Kveðst aðalstefndi telja það ranga málnotkun að kalla upptök lækjar ós og afar ólíklegt sé að það hafi verið gert við ákvörðun landamerkja. Þá bendir aðalstefndi á að þótt átt hafi verið við upptök lækjarins í landamerkjalýsingunum frá 1884 sé alls ekki víst að sama merking hafi verið lögð í orðið ós við gerð kaupsamningsins á dskj. nr. 8. Jafnframt bendir aðalstefndi á að ósinn við Fagradalsá þurfi ekki að hafa legið á sama stað 1937 og 1884.

Aðalstefndi kveðst telja að merkjalínur á milli Stuðla og Grænuhlíðar að austanverðu hafi verið nokkuð beinar línur milli varðanna og Flóalækjaróss þar sem hann renni í Fagradalsá. Sé það í samræmi við hefðir og venjur um að landamerki séu sem mest í beinum línum. Þetta fái auk þess stoð í ummælum Hjalta Gunnarssonar á dskj. nr. 21, en þar lýsi hann landamerkjunum svo: ...í Kollumelshyl, en þaðan út eyrar eftir ætluðum steinvörðum... Svo virðist sem lýsing á landamerkjum Grænuhlíðar á dskj. nr. 8 sé ekki heildstæð, þ.e. nái ekki allan hringinn, ef skilningur aðalstefnanda á staðsetningu Flóalækjaróss er réttur.

Aðalstefndi bendir á að landamerkjum við Áreyjar sé lýst ranglega í stefnu og að sú lýsing stemmi ekki við lýsingu í landamerkjabréfum jarðanna. Aðalstefnandi lýsi merkjunum svo að landamerkjalínan sé beina leið í Flóalækjarós og að lokum í Fagardalsá, í stað þess að segja að um sé að ræða beina línu í Fagradalsá um Flóalækjarós. Í landamerkjabréfi fyrir jörðina Áreyjar segi: Að austan og utan skilur Fagradalsá alla leið Seljateigs og Áreyjalands út í Flóalækjarós. Þetta sé ekki unnt að skilja öðru vísi en svo að Flóalækjarós liggi í Fagradalsá.

Varðandi Hvítubalasvæðið kveðst aðalstefndi byggja á því að hann og fósturfaðir hans hafi með athugasemdalausri notkun um áratugi unnið hefð á þessum hluta landsins, sbr. ákvæði hefðarlaga nr. 46/1905.

Um málskostnaðarkröfu sína vísar aðalstefndi til 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður aðalstefndu, Helga Seljan og Fjarðabyggðar:

Aðalstefndu benda á að greint sé frá landamerkjum á milli Seljateigs og Stuðla í landamerkjabréfum jarðanna, sem séu bæði frá 1884. Ágreiningur sé hins vegar um staðsetningu þeirra kennileita sem þar greini. Aðalstefndu segjast vísa á bug sem röngum, vanreifuðum og ósönnuðum fullyrðingum aðalstefnanda um að Fagradalsáin hafi árið 1884 runnið þar sem punktarnir F og G á dskj. nr. 3 séu merktir. Sama gildi um vangaveltur aðalstefnanda um Illueyri og staðsetningu hennar. Ekkert hafi komið fram í máli þessu sem geti sýnt með óyggjandi hætti hvar Fagradalsá hafi runnið nákvæmlega árið 1884.

Varðandi málskostnaðarkröfu vísa aðalstefndu til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Niðurstaða

1. Landamerki á milli Stuðla og Áreyja:

Af hálfu aðalstefnanda er þess krafist að landamerki á milli Stuðla og Áreyja verði ákveðin bein lína sem hugsast dregin úr punkti E í Flóalækjarósi í punkt F í Fagradalsá, allt samkvæmt uppdrætti á dskj. nr. 3.

Í gagnstefnu krefst aðalstefndi, Svavar Valtýr Valtýsson, þess hins vegar að viðurkennt verði að landamerki á milli Áreyja annars vegar og aðliggjandi jarða, Stuðla, Grænuhlíðar, Seljateigs og Seljateigshjáleigu, hins vegar séu að sunnan úr punkti L3 í Flóalækjarósi, þaðan í punkt L2 í Sandskarði, þaðan í punkt L1 í Merkimel (Sveigbogamel), allt samkvæmt uppdrætti á dskj. nr. 31, og þaðan í punkt A á miðju Kotfelli, sem er sami punktur og aðalstefnandi miðar kröfugerð sína við, sbr. dskj. nr. 3.

Í landamerkjabréfi Stuðla, sem dagsett er 10. maí 1884 og samþykkt af hálfu eiganda Áreyja, byrjar lýsingin á landamerkjum jarðarinnar á milli Sléttu og Stuðla við Fagradalsá er nú rennur til suðurs um svonefnda Illueyri. Frá þessum stað við ána er landamerkjunum lýst til suðurs og á fjall upp þar til komið er að Kolfelli (Kollfjalli). Þaðan eru landamerkin sögð liggja í sveigboginn mel er nefnist Merkimelur, þaðan í Sauðaskarð, því næst beina leið í Flóalækjarós og að lokum í Fagradalsá.

Þessi lýsing er í samræmi við lýsingu á landamerkjum jarðanna í landamerkjabréfi Áreyja, en þar segir að merkin á milli Áreyja og Stuðla séu úr Flóalækjarósi í Sandskarð, þaðan á Merkimel og þaðan í mitt Kotfell.

Af lýsingunni verður ráðið að kennileiti það sem nefnt er Sauðaskarð í landamerkjabréfi Stuðla sé sama kennileitið og nefnt er Sandskarð í landamerkjabréfi Áreyja. Þá eru málsaðilar sammála um að Kolfell (Kollfjall) í landamerkjabréfi Stuðla sé sama fjallið og nefnt er Kotfell í landamerkjabréfi Áreyja og að miða beri landamerki á milli jarðanna við miðja hábungu þess, þ.e. punkt A á dskj. nr. 3.

Landamerkjabréf Stuðla verður ekki skilið með öðrum hætti en þeim að þar sé landamerkjunum lýst frá tilteknum upphafspunkti í Fagradalsá við landamerki Sléttu og Stuðla, þeim síðan lýst réttsælis hringinn í kringum jörðina Stuðla og að hringnum sé loks lokað með því lýsa merkjum í Fagradalsá, þ.e. að Fagradalsá ráði merkjum frá Flóalækjarósi að mörkunum við Sléttu. Í landamerkjabréfi Stuðla er t.d. ekki lýst stefnulínu úr Flóalækjarósi í Fagradalsá, heldur er eingöngu tekið fram að bein lína sé úr Sauðaskarði í Flóalækjarós.

Í landamerkjabréfi Seljateigs, sem dagsett er 9. apríl 1884 og er gert áður en landi Seljateigshjáleigu var skipt út úr landi Seljateigs og áður en landi Grænuhlíðar var skipt úr landi Stuðla, kemur fram að mörk jarðarinnar séu í Fagradalsá, er fellur út og suður í Stuðlaá, er aðskilur Áreyja og Stuðlalönd. Að sunnan aðskilur hinn gamli Sléttuárfarvegur, er liggur þétt við Illueyri. Af gögnum málsins verður ráðið að Fagradalsá er stundum nefnd Sléttuá eftir að Fagradalsá og Stuðlaá renna saman. Þessi lýsing í landamerkjabréfi Seljateigs samræmist ágætlega lýsingunni í landamerkjabréfi Áreyja, þ.e. að Fagradalsá ráði mörkum á milli jarðanna út í Flóalækjarós, þ.e. þar sem Flóalækur rann út í Fagradalsá, en það er skammt frá þeim stað þar sem Stuðlaá og Fagradalsá renna saman. Samkvæmt þessu lágu suðurmörk Seljateigs, sem nú er Seljateigur og Seljateigshjáleiga, að Fagradalsá allt austur að landamerkjum Sléttu.

Þegar landamerkjabréf Stuðla, Áreyja og Seljateigs eru virt heildstætt bendir allt til þess að Flóalækjarós sé þar sem Flóalækurinn rann út í Fagradalsá, en ekki við upptök lækjarins eins og aðalstefnandi heldur fram. Sé hins vegar miðað við að Flóalækjarósinn sé á þeim stað sem aðalstefnandi heldur fram og merktur er E á dskj. nr. 3, stangast það á við landamerkjalýsingar í landamerkjabréfum Áreyja og Seljateigs. Þá þykir afmörkun á spildu þeirri sem seld var úr landi Stuðla með kaupsamningi árið 1937, nú Grænahlíð, benda eindregið til þess að Flóalækjarós sé á þeim stað þar sem Flóalækurinn rann út í Fagradalsá, en þar byrjar lýsingin að norðan við landamerki Áreyja, úr Flóalækjarósi. Ef Flóalækjarós væri á þeim stað sem aðalstefnandi heldur fram, hefði lýsingin á landmerkjunum hins vegar byrjað að norðan í tilteknum punkti í Fagradalsá.

Framangreind túlkun á staðsetningu Flóalækjaróss í landamerkjabréfum Stuðla, Áreyja og Seljateigs fær og stuðning í skýrslu Magnúsar Bl. Jónssonar um kirkjujörðina Áreyjar í Reyðarfirði, sem er dagsett 15. október 1910 og gerð er að ósk sýslumannsins í Suður-Múlasýslu samkvæmt nánar tilgreindum lögum, sbr. dskj. nr. 34. Þar er landamerkjum Áreyja lýst að sunnan, milli þeirra og Stuðla, úr Flóalækjarósi í Sandaskörð, þaðan í Merkimel, þaðan í mitt Kotfell......að norðan bein stefna af Hjálpleysuvarpi, þangað sem vötnum hallar í Fagradal í Fagradalsá, að austan og utan Fagradalsá út í Flóalækjarós. Þá fær þessi túlkun einnig stuðning í örnefnalýsingu Stuðla eftir Pál Jóhannesson frá 1957, sbr. dskj. nr. 20, en þar er tekið fram að Flóinn tilheyri Áreyjum, þ.e. á sama stað og örnefnin Flóabrekkur, Sandaskörð og Merkimelur eru tilgreind. Í skrá um örnefni í landi Áreyja eftir Björn G. Eiríksson, sbr. dskj. nr. 39, segir og að Flóalækur sé á mörkum Áreyja og Stuðla.

Þá verður ekki fram hjá því litið að upptök Flóalækjar eru í mýri eða flóa þar sem nokkrar lænur eða mýrardrög mynda umræddan læk. Við skoðun á vettvangi var erfitt að henda reiður á því hvar lækurinn átti nákvæmlega upptök sín. Þykir ólíklegt að landamerki á milli jarðanna hafi verið miðuð við svo ógreinilegt kennileiti. Á hinn bóginn má auðveldlega greina á dskj. nr. 3 hvar Flóalækurinn rann áður út í Fagradalsá á þeim stað sem merktur er L3 á dskj. nr. 31. Lækurinn rennur nú nokkru austar og út í Stuðlaá, en sá staður var einnig mjög greinilegur við skoðun á vettvangi. Þá þykja gögn málsins ekki benda til þess að ósar Flóalækjar hafi verið tveir, þ.e. einn við upptökin og annar þar sem lækurinn rann út í Fagradalsá.

Þá verður ekki séð að punktur merktur F á dskj. nr. 3 eigi nokkra stoð í framlögðum landamerkjabréfum jarðanna Stuðla, Áreyja og Seljateigs. Loks kannaðist ekkert þeirra vitna sem kom fyrir dóminn við þá málnotkun á þessu svæði að kalla upptök ár eða lækja ósa.

Með vísan til alls ofangreinds þykir ljóst að Flóalækjarós, sem miðað er við í landamerkjabréfi Stuðla, var þar sem Flóalækur rann út í Fagradalsá í punkti L3 (hnit 720 918, 511 338) á dskj. nr. 31.

Með hliðsjón af ofangreindu verður að sýkna aðalstefnda, Svavar Valtý, af kröfum aðalstefnanda.

Fram kemur í gögnum málsins að enginn ágreiningur er með eigendum Áreyja, Grænuhlíðar og Seljateigs um staðsetningu Flóalækjaróss, þ.e. í punkti L3 á dskj. nr. 31. Hafa gagnstefndu, eigendur Grænuhlíðar og Seljateigshjáleigu, ekki haldið uppi vörnum í gagnsakarmáli aðalstefnda, Svavars Valtýs. Verður því að líta svo á að þeir samþykki kröfur aðalstefnda, Svavars Valtýs, og eru kröfur hans í gagnsök því teknar til greina að fullu.

Samkvæmt framangreindu skulu landamerki Stuðla og Áreyja því vera eftir línu sem dregin er frá miðri hábungu Kotfells, punktur A á dskj. nr. 3, þaðan í Merkimel (miðjan sveigboginn mel), punktur L1, þaðan í Sandaskörð, punktur L2 og þaðan í Flóalækjarós, punktur L3, allt á dskj. nr. 31.

2. Landamerki á milli Stuðla og Grænuhlíðar:

Af hálfu aðalstefnda, Arnórs Baldvinssonar, er fallist á að punktarnir A, B og C á dskj. nr. 3 séu landamerki á milli jarðanna Stuðla og Grænuhlíðar. Hann krefst hins vegar sýknu af þeirri kröfu aðalstefnanda að punktarnir D, E og F á dskj. nr. 3 séu á landamerkjum jarðanna.

Áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að Flóalækjarós sé í punkti L3 á dskj. nr. 3 og ber því með vísan til rökstuðnings í 1. lið niðurstöðukafla að hafna kröfum aðalstefnanda um að landamerki á milli jarðanna Stuðla og Grænuhlíðar miðist við punkta E og F á dskj. nr. 3. Aðalstefnandi hefur staðsett punkt D á dskj. nr. 3 á stað þar sem hann álítur að sementsvarða nr. 1 hafi staðið, sem frá er greint í kaupsamningi um land Grænuhlíðar frá 1937. Viðurkennt er af hálfu beggja aðila að varða þessi hafi eyðilagst þegar Stuðlaá var brúuð og að hún finnist ekki lengur. Aðalstefndi kveðst telja að varðan hafi verið u.þ.b. miðja vegu á milli punktar D á dskj. nr. 3 og brúarsporðs Stuðlaárbrúar að suðvestan. Er sá staður skammt frá fyrrnefndum punkti D á dskj. nr. 3. Í áðurnefndum kaupsamningi er tekið fram að um beinar línur á milli merkja sé að ræða, þ.e. úr Flóalækjarósi í sementsvörðu nr. 1, þaðan í sementsvörðu nr. 2 o.s.frv. Þá þykir ljóst að landamerkin voru dregin skammt vestan Stuðlaár, en að ekki skyldi miðað við að Stuðlaá skipti löndum. Sjá má á korti að þegar lína er dregin úr Flóalækjarósi í punkt D og þaðan í punkt C á dskj. nr. 3, liggur línan skammt vestan Stuðlaár og að um nánast beina línu er að ræða á milli Flóalækjaróss og punkts C. Þykir staðsetning punkts D því samræmast ágætlega lýsingu á landamerkjum í fyrrgreindum kaupsamningi. Eins og mál þetta liggur fyrir þykir því rétt að fallast á kröfu aðalstefnanda um að miða landamerki á milli jarðanna við punkt D á dskj. nr. 3.

Samkvæmt framangreindu skulu landamerki á milli Stuðla og Grænuhlíðar því dregin á milli punkta A, B, C og D á dskj. nr. 3 og frá punkti D í punkt L3 á dskj. nr. 31, Flóalækjarós.

3. Landamerki á milli Stuðla annars vegar og Seljateigs og Seljateigshjáleigu hins vegar:

Af hálfu aðalstefnanda er þess krafist að viðurkennt verði að landamerki á milli Stuðla annars vegar og Seljateigs og Seljateigshjáleigu hins vegar sé bein lína sem hugsast dregin frá merkjapunkti F í Fagradalsá eftir gömlum farvegi Fagradalsár í merkjapunkt G, sbr. dskj. nr. 3. Af hálfu eigenda Seljateigs og Seljateigshjáleigu er krafist sýknu af kröfum aðalstefnanda.

Ekki er ágreiningur með aðilum um að árfarvegur Fagradalsár, eins og hún rann við gerð landamerkjabréfanna, skipti löndum, en deilt er um það hvar áin rann á þessum tíma, svo og um staðsetningu svokallaðrar Illueyrar.

Í landamerkjabréfi Stuðla byrjar lýsing landamerkjanna á milli Sléttu og Stuðla við Fagradalsá er rennur til suðurs um svonefnda Illueyri hér um bil á hinum fornu landamærum. Í landamerkjabréfi Sléttu segir um farveg árinnar: Á milli Sléttu og jarðanna Seljateigs og Kollaleiru aðskilr hinn gamli Sléttuárfarvegr, sem liggur út fyrir norðan Illueyri og þaðan til sjóar... Í landamerkjabréfi Seljateigs segir: Að sunnan aðskilur hinn gamli Sléttuárfarvegur, er liggur þétt við Illueyri.

Eins og fram hefur komið er Fagradalsá í sumum heimildum nefnd Sléttuá eftir að hún og Stuðlaá renna saman. Í öðrum heimildum er áin nefnd Fagradalsá allt til sjávar. Um sömu ána er því að ræða.

Fram kom hjá vitninu Sigríði Gunnarsdóttur, fæddri 1924, að faðir hennar, Gunnar Bóasson, hefði keypt Stuðla þegar hún var 10 ára gömul og að fjölskyldan hefði dvalið þar á sumrin við heyskap. Þá sagðist hún hafa heyjað á jörðinni eftir að hún hóf sjálf búskap á Reyðarfirði. Hún sagði að Illaeyri hefði verið staðsett utarlega í Blánni og tengst bakkanum sitt hvoru megin við ána. Hún hefði náð norður fyrir á og sá hluti af henni sem hefði verið fyrir norðan ána hefði verið girtur af á tímabili, þ.e. við mörkin á svokölluðu Péturstúni. Hún sagði að Péturstún hefði hins vegar ávallt tilheyrt Seljateigi og verið afgirt. Illaeyri hefði tekið við beint í vestur af Péturstúni, þ.e. frá punkti L4 á dskj. nr. 31. Túnið hefði náð eitthvað lengra í vestur, en þó aðallega til suðurs. Hún sagði að einu sinni í vatnavöxtum hefði áin flæmst um eyrina og tekið mikið af túninu. Þá sagði hún að áin væri búin að éta mikið úr bökkunum að sunnanverðu. Hún sagðist muna eftir að einu sinni hefði áin flæmst norður eftir, en það hefði aðeins verið í stuttan tíma.

Framburður Sigríðar um staðsetningu Illueyrar samræmist ágætlega framburði aðalstefnda Garðars Jónssonar sem fæddur er 1913 í Seljateigshjáleigu og bjó þar til fimmtugs, sbr. skýrslu hans og uppdrátt á dskj. nr. 51, sem hann staðfesti hér fyrir dómi.

Þá hefur fram komið að farvegi Puntbalalækjar var breytt þegar Vegagerðin hóf malarnám úr Melunum og að læknum, sem rennur um Puntbalaskarð, var þá veitt beint út í Fagradalsá.

Sigríður Gunnarsdóttir bar um það að Puntbalalækur hefði runnið um Puntbalaskarð og niður að brekkunni og út með, eins og vitnið orðaði það, en fram hefur komið í málinu að orðið út er notað í merkingunni austur á þessu svæði. Aðalstefndu, Helgi Seljan, sem fæddur er 1934 í Seljateigi og Garðar Jónasson, hafa borið á sama veg um eldri farveg Puntbalalækjar, þ.e. að hann hafi runnið um Puntbalaskarð og út með, þ.e. austur með Melunum. Kom fram hjá Helga Seljan að sem strákur hefði hann verið látinn sækja kýrnar á svæði suður af Melunum. Þá hefði Fagradalsáin runnið langt suður af Melunum eða á svipuðum stað og hún gerði nú.

Vitnin Rúnar Olsen og Gunnar Hjaltason sögðu að Fagradalsá hefði runnið meðfram Melshorninu. Rúnar sagðist ekki kannast við Puntbalalæk, en sagði að lítil læna, sem hann hefði ávallt ímyndað sér að væri úr Fagradalsá, hefði runnið við Melshornið. Rúnar sagðist hafa flutt frá Stuðlum um þriggja ára aldur en hafa vitneskju sína um landamerki Stuðla frá foreldrum sínum. Gunnar sagðist þekkja til Puntbalalækjar en svaraði ekki spurningum um hvar hann hefði runnið. Sagði hann að umræddur lækur hefði bara verið spræna, sem oftast hefði verið þurr. Gunnar sagðist alltaf hafa búið á Reyðarfirði, en verið í sveit á Stuðlum hjá frændfólki sínu. Hann sagði að Gunnar Bóasson, sem búið hefði á Stuðlum, væri afi sinn og aðalstefnanda.

Fram hafa verið lagðar loftmyndir af þessu svæði; ein frá 1945 á dskj. nr. 62 og önnur, sem tekin er mun síðar, á dskj. nr. 3. Ekki er fallist á með aðalstefnanda að þar megi glöggt greina gamlan farveg Fagradalsár á milli punktanna F og G á dskj. nr. 3, þ.e. upp við Melana og við Melshornið. Þar þykir hins vegar unnt að greina farveg eftir mun minna vatnsfall og með vísan til framburðar Sigríðar Gunnarsdóttur þykir langlíklegast að þar sé um að ræða gamlan farveg Puntbalalækjar, samanber og framburð aðalstefndu, Garðars Jónassonar og Helga Seljan. Af framlögðum ljósmyndum þykir sýnt að meginfarvegur Fagradalsár er og hefur verið allnokkru fyrir sunnan Melana og Melshornið. Þá má glöggt sjá gamlan farveg árinnar skammt vestan og sunnan við punkt L4 á dskj. nr. 31, þ.e. þétt upp við suðurvesturhorn Péturstúns.

Með vísan til alls framangreinds, sérstaklega framburðar vitnisins Sigríðar Gunnarsdóttur um staðsetningu Illueyrar, svo og með hliðsjón af landamerkjabréfi Sléttu þar sem segir að hinn gamli Sléttuárfarvegur liggi út fyrir norðan Illueyri, þykir aðalstefnandi ekki hafa sýnt fram á það í máli þessu að Fagradalsáin hafi við gerð landamerkjabréfanna runnið á milli punktanna F og G á dskj. nr. 3. Landamerkjabréf Stuðla og Seljateigs, þar sem segir annars vegar að áin renni til suðurs um Illueyri og hins vegar að hún renni þétt við Illueyri, þykja og styðja þessa niðurstöðu.

Með hliðsjón af framangreindu verður að sýkna aðalstefndu, eigendur Seljateigs og Seljateigshjáhjáleigu, af kröfum aðalstefnanda.

Í gagnsakarmáli eigenda Seljateigshjáleigu á hendur aðalstefnanda er þess krafist að viðurkennt verði að landamerki á milli jarðanna sé lína sem hugsast dregin frá punkti L-4 við Péturstún á nyrsta hluta hinnar fornu Illueyrar í punkt L-3, Flóalækjarós, sbr. dskj. nr. 31.

Ljóst er að eigendur Sléttu eru samþykkir því að landamerki jarðarinnar miðist við punkt L4 á dskj. nr. 31. Í málinu hefur ekki verið upplýst um landamerki á milli Seljateigs og Seljateigshjáleigu með nægilega skýrum hætti. Ljóst þykir hins vegar að land Seljateigs liggur að þeirri línu sem eigendur Seljateigshjáleigu hafa dregið á milli punkta L4 og L3 á dskj. nr. 31. Gagnkröfur eigenda Seljateigshjáleigu snerta því með beinum hætti hagsmuni eigenda Seljateigs. Þeim hefur hins vegar ekki verið stefnt til að þola dóm í gagnsakarmáli eigenda Seljateigshjáleigu. Þá hafa þeir ekki lýst því yfir í málinu að þeir samþykki að landamerki á milli jarðanna verði dregin á milli fyrrgreindra punkta. Verður því ekki komist hjá því að vísa gagnkröfum eigenda Seljateigshjáleigu, Garðars Jónassonar og fleiri, frá dómi.

4. Landamerki á milli Stuðla og Sléttu:

Af hálfu aðalstefnanda er þess krafist að landamerki á milli Stuðla og Sléttu verði ákveðin bein lína sem hugsast dregin úr merkjapunkti G í merkjapunkt H í Hamarsenda, þaðan í merkjapunkt I í Ysta-Fossgili, þaðan í merkjapunkt J við Skollaflöt og þaðan í merkjapunkt K í Skessugjá, allt samkvæmt uppdrætti á dskj. nr. 3.

Af hálfu eigenda Sléttu er krafist sýknu af kröfum aðalstefnanda.

Í landamerkjabréfi Sléttu segir um landamerkin við Stuðla að þau séu úr Skessugjá í Skollaflöt, úr Skollaflöt í Ystafossgil, þaðan í vörðu þá, er hlaðin er niður úr þessu gili, úr vörðu þessari beina leið í Landamerkjaósi, er liggur í keldu, en þessi kelda er í svokölluðum Bláarbakka.  Í landamerkjabréfi Stuðla segir um þessi sömu landamerki: Frá ánni liggja landamærin í keldu, sem er í svokölluðum Bláarbakka, úr keldunni í landamerkjaósi, þaðan beina leið í vörðu, sem hlaðin er í urð þeirri, er liggur niður úr næstu gjótu, öðru nafni Ystafossgil. Úr vörðunni liggja þau þvert upp í gjótuna og í gilið í Skollaflöt og í Skessugjá og þaðan á fjall upp...

Landamerkjabréfum jarðanna ber því ágætlega saman um við hvaða kennileiti eigi að miða merki á milli jarðanna. Ágreiningur er hins vegar um það hvar kennileitin Skessugjá, Skollaflöt og Ystafossgil eru. Þá hefur komið fram í málinu að kennileitin kelda í Bláarbakka og Landamerkjaós séu horfin.

Eins og áður hefur komið fram þykir ósannað að miða beri landamerki jarðanna við punktinn G á dskj. nr. 3. Þá þykir punkturinn H á dskj. nr. 3, Hamarsendi, ekki eiga nokkra stoð í landamerkjabréfum jarðanna. Við skoðun á vettvangi mátti hins vegar sjá hlaðna vörðu á þeim stað sem merktur hefur verið L5 á dskj. nr. 31, beint upp af skurði sem þarna hefur verið grafinn. Þá bar vitnið Þórir Gíslason um að Ystafossgil væri inn og upp af Hamarsenda. Hann sagði jafnframt að gilið væri upp af skurði sem þar væri grafinn, en þó aðeins vestan við hann. Loks sagði hann að þrjú nokkuð glögg gil væru hlið við hlið í fjallinu og að ysta gilið, þ.e. Ystafossgil, væri upp af skurðinum. Fram kom að vitni þetta dvaldist á Stuðlum sem barn, auk þess sem hann hafði sjálfur grasnytjar á jörðinni í mörg ár og faðir hans upprekstur.

Þá er fram komið að um 1970 var grafinn svokallaður landamerkjaskurður á milli Sléttu og Stuðla, sem liggur í beinni sjónhendingarlínu frá norðurhornstaur á Illueyrartúni, punkti L4 og að landamerkjavörðu, sem merkt er L5, hvorutveggja á dskj. nr. 31. Fram hefur komið að á þessum stað lá áður girðing, en að skurðurinn var grafinn til að þurrka upp land til túnræktar. Sjá má á framlögðum ljósmyndum að austanmegin við skurðinn hafa verið ræktuð tún og er ómótmælt af hálfu aðalstefnanda að eigendur Sléttu hafi nytjað þessi tún til margra ára án athugasemda af hálfu eigenda Stuðla. Allt þykir þetta benda til þess að miðað hafi verið við að skurðurinn markaði landamerki á milli jarðanna.

Hvað varðar kennileitið Skessugjá mátti við skoðun á vettvangi glöggt greina gjá eða skarð í fjallinu á stað sem merktur er L6 á dskj. nr. 31. Á ljósmynd á dskj. nr. 61 er þetta skarð einnig greinilegt. Ekki þykir vera um að ræða gjá eða skarð á stað sem merktur er K á dskj. nr. 3. Á dskj. nr. 3 má einnig greina slétta flöt eða bala fyrir neðan skarðið, sem merkt er L6 á dskj. nr. 31. Slíka flöt er hins vegar ekki unnt að greina við stað merktan J á dskj. nr. 3.

Með vísan til alls framangreinds þykir ósannað að landamerki á milli jarðanna Stuðla og Sléttu liggi um punktanna G, H, I, J og K á dskj. nr. 3. Verður því að sýkna aðalstefndu, Sigurð Baldursson og Grétar Heimi Helgason, af kröfum aðalstefnanda í máli þessu.

Aðalstefndi, Sigurður Baldursson, setur fram gagnkröfur í greinargerð í aðalsök og krefst þess að viðurkennt verði að landamerki á milli Sléttu og Stuðla séu frá punkti L4 í farvegi Sléttuár (Fagradalsár), þaðan bein lína að punkti L5 í landamerkjavörðu, þaðan bein lína um Ystafossgil og Skollaflöt að punkti L6 í Skessuskarði, allt samkvæmt uppdrætti á dskj. nr. 31. Aðalstefndi, Grétar Heimir Helgason, kveðst í greinargerð sinni taka undir, styðja og gera að sínum allar kröfur aðalstefnda, Sigurðar Baldurssonar.

Með vísan til 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála komast kröfur þessar ekki að í máli þessu án gagnstefnu og ber því að vísa þeim frá dómi ex officio.

Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða málsins því eftirfarandi:

Landamerki á milli jarðanna Stuðla og Áreyja í Reyðarfirði skulu vera eftir línu sem dregin er frá miðri hábungu Kotfells, punkti A á dskj. nr. 3, þaðan í Merkimel (miðjan sveigboginn mel), punktur L1, þaðan í Sandaskörð, punktur L2, og þaðan í Flóalækjarós, punktur L3, allt á dskj. nr. 31.

Landamerki á milli Stuðla og Grænuhlíðar skulu vera eftir línu sem dregin er frá miðri hábungu Kotfells, punkti A á dskj. nr. 3, þaðan í punkt B og þaðan í punkt D, allt á dskj. nr. 3 og frá punkti D í punkt L3 á dskj. nr. 31, Flóalækjarós.

Aðalstefndu, Garðar Lárus Jónasson og fleiri, eigendur Seljateigshjáleigu, Helgi Seljan Friðriksson og Fjarðabyggð, eigendur Seljateigs, og Sigurður Baldursson og Grétar Heimir Helgason, eigendur Sléttu, eru sýknir af kröfum aðalstefnanda.

Gagnkröfum aðalstefndu, Garðars Lárusar Jónassonar og fleiri, eigenda Seljateigshjáleigu, er vísað frá dómi.

Gagnkröfum aðalstefndu, Sigurðar Baldurssonar og Grétars Heimis Helgasonar, eigenda Sléttu, er vísað frá dómi.

Í samræmi við niðurstöðu málsins ber að dæma aðalstefnanda til að greiða aðalstefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn þannig:

Aðalstefnandi greiði aðalstefnda, Svavari Valtý Valtýssyni, 700.000 krónur í málskostnað og er þar með talinn virðisaukaskattur.

Aðalstefnandi greiði aðalstefnda, Arnóri Baldvinssyni, 200.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Aðalstefnandi greiði aðalstefndu, Garðari Lárusi Jónassyni og fleiri, eigendum Seljateigshjáleigu, óskipt 700.000 krónur í málskostnað og er þar með talinn virðisaukaskattur.

Aðalstefnandi greiði aðalstefndu, Helga Seljan Friðrikssyni og Fjarðabyggð, óskipt 150.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Aðalstefnandi greiði aðalstefndu, Sigurði Baldurssyni og Grétari Heimi Helgasyni óskipt 250.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri ásamt héraðsdómurunum Arnfríði Einarsdóttur og Gretu Baldursdóttur. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómsformanns.

Dómsorð:

Landamerki á milli jarðanna Stuðla og Áreyja í Reyðarfirði skulu vera eftir línu sem ákveðin er á eftirfarandi hátt: Frá hnitapunkti á hábungu Kotfells 719 192.496 austur og 509 797.840 norður, þaðan í hnitapunkt á Merkimel 719 693 og 510 302, þaðan í hnitapunkt í Sandaskörðum 720 117 og 510 660 og þaðan í hnitapunkt í Flóalækjarósi 720 918 og 511 338.

Landamerki á milli Stuðla og Grænuhlíðar skulu vera eftir línu sem ákveðin er á eftirfarandi hátt: Frá fyrrgreindum hnitapunkti á hábungu Kotfells, þaðan í hnitapunkt í Votabergshala 719 806.738 austur og 509 902.741 norður, þaðan í hnitapunkt 720 008.5348 austur og 509 820.554 norður, þaðan í hnitapunkt 720 630 austur og 510 795 norður og þaðan í fyrrgreindan hnitapunkt í Flóalækjarósi.

Aðalstefndu, Garðar Lárus Jónasson og fleiri, eigendur Seljateigshjáleigu, Helgi Seljan Friðriksson og Fjarðabyggð, eigendur Seljateigs, og Sigurður Baldursson og Grétar Heimir Helgason, eigendur Sléttu, eru sýknir af kröfum aðalstefnanda.

Gagnkröfum aðalstefndu, Garðars Lárusar Jónassonar og fleiri, eigenda Seljateigshjáleigu, er vísað frá dómi.

Gagnkröfum aðalstefndu, Sigurðar Baldurssonar og Grétars Heimis Helgasonar, eigenda Sléttu, er vísað frá dómi.

Aðalstefnandi greiði aðalstefnda, Svavari Valtý Valtýssyni, 700.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur, aðalstefnda, Arnóri Baldvinssyni, 200.000 krónur í málskostnað, aðalstefndu, Garðari Lárusi Jónassyni og fleiri, eigendum Seljateigshjáleigu, óskipt 700.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur, aðalstefndu, Helga Seljan Friðrikssyni og Fjarðabyggð, eigendum Seljateigs, óskipt 150.000 krónur í málskostnað og Sigurði Baldurssyni og Grétari Heimi Helgasyni, eigendum Sléttu, óskipt 250.000 krónur í málskostnað.