Hæstiréttur íslands

Mál nr. 24/2016

K (Gísli Tryggvason hdl.)
gegn
M (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Einkarefsimál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Kærumál. Einkarefsimál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur. K kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hennar á hendur M var vísað frá dómi. Fyrir Hæstarétti krafðist K þess að einkarefsikröfur hennar á hendur M yrðu teknar til efnismeðferðar en þær voru hafðar uppi á þeim grunni að M hefði án vitundar og í óleyfi hennar gert upptöku á mynd með hljóði af kynlífsathöfnum þeirra og birt á internetinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að sú aðstaða að K hefði höfðað einkarefsimál á hendur M samhliða því að bera upp við lögreglu kæru vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi hans, sem gæti orðið efni til saksóknar af hálfu ákæruvaldsins, stangaðist ekki á við bann 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, við endurtekinni saksókn eða refsingu þannig að varðað gæti frávísun á einkarefsikröfum K. Á hinn bóginn hafði K hvorki lagt fram eintak af þeirri upptöku, sem hún kvað varnaraðila hafa gert, né gögn um hvað kynni að hafa komið fram á henni, en í greinargerð í héraði hefði M haldið því fram að sakir sem K hefði borið á sig væru með öllu tilhæfulausar. Án sönnungargagna um þetta meginatriði málsins var ófært að fella efnisdóm á það og var hinn kærði úrskurður því staðfestur um frávísun refsikrafnanna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fellt verði úr gildi ákvæði hins kærða úrskurðar um frávísun málsins að því er varðar kröfur hennar um refsingu á hendur varnaraðila og aðallega lagt fyrir héraðsdóm að taka þær til efnismeðferðar en til vara „að fresta málinu að því leyti með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 ... þar til efnismeðferð í sakamáli hefst fyrir dómi ellegar ... þar til fyrir liggur hvort kærði verði ákærður“. Þá krefst sóknaraðili aðallega málskostnaðar í héraði, til vara að hann verði felldur niður en að því frágengnu að hann verði lækkaður. Í öllum tilvikum krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta 24. júní 2015 og krafðist þess að varnaraðili yrði dæmdur til refsingar, svo og að honum yrði gert að sæta upptöku tiltekinna muna og ávinnings og greiða tilgreindar fjárhæðir í skaðabætur, auk þess sem viðurkennd yrði skaðabótaskylda hans vegna varanlegrar örorku og varanlegs miska sóknaraðila. Í héraðsdómsstefnu var því lýst að kröfur þessar væru hafðar uppi á þeim grunni að varnaraðili hafi aðfaranótt 1. janúar 2013 án vitundar sóknaraðila og í óleyfi hennar gert upptöku á mynd með hljóði „af kynlífsathöfnum“ þeirra. Þessa upptöku, sem hafi verið 59 sekúndur að lengd, hafi varnaraðili birt „opinberlega á netinu“ 13. sama mánaðar, en um það hafi sóknaraðila á hinn bóginn ekki orðið kunnugt fyrr en „um jólin 2014“. Hafi sóknaraðili borið upp við lögreglu 15. júní 2015 kæru á hendur varnaraðila fyrir þetta athæfi. Ekki lægi fyrir hvort ákæruvaldið myndi höfða sakamál gegn varnaraðila vegna þessa, en sökum sex mánaða frests, sem settur er í 1. mgr. 29. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til að höfða einkarefsimál, væri sóknaraðila nauðsynlegt að grípa þegar til málshöfðunar. Með hinum kærða úrskurði var orðið við kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað í heild frá héraðsdómi. Sóknaraðili unir við þá niðurstöðu um annað en kröfur sínar um að varnaraðila verði gert að sæta refsingu og greiða málskostnað.

Sú aðstaða að sóknaraðili hafi höfðað einkarefsimál á hendur varnaraðila samhliða því að bera upp við lögreglu kæru vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi hans, sem gæti orðið efni til saksóknar af hálfu ákæruvaldsins, stangast ekki á við bann 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, við endurtekinni saksókn eða refsingu þannig að varðað gæti frávísun þessa máls að því er varðar kröfur sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að sæta refsingu. Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili á hinn bóginn gert mál þetta þannig úr garði að hvorki hefur hún lagt fram eintak af þeirri upptöku, sem hún kveður varnaraðila hafa gert, né gögn um hvað kunni að hafa komið fram á henni, en í greinargerð fyrir héraðsdómi hélt varnaraðili því fram að sakir, sem sóknaraðili hafi borið á sig, væru „með öllu tilhæfulausar“. Án sönnunargagna um þetta meginatriði málsins er ófært að fella efnisdóm á það og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur að því leyti sem honum hefur verið skotið til Hæstaréttar.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2015.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar þriðjudaginn 15. desember 2015, var höfðað 24. júní 2015 af K, [...], [...], á hendur M, [...], [...].

                Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

A. Refsitengdar kröfur

1. Refsikröfur

                Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til refsingar.

a. Aðallega er þess krafist að hann verði dæmdur til fangelsisrefsingar allt að einu ári.

b. Til vara er þess krafist að honum verði gert að sæta sekt sem nemi allt að lögbundnu hámarki samkvæmt almennum hegningarlögum nr. 19/1940 með síðari breytingum, eftir atvikum samhliða dæmdri fangelsisrefsingu, verði hún skilorðsbundin.

2. Krafa um upptöku muna

                Samhliða refsikröfum er gerð krafa um upptöku eigna samkvæmt 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.

a. Aðallega er þess krafist að gerður verði upptækur með dómi allur búnaður – vélbúnaður og hugbúnaður – í eigu eða vörslu stefnda sem tengist brotum hans gegn stefnanda, hvort sem hlutir þessir „hafa verið notaðir, ætlaðir eru til notkunar eða hætta þykir á að verði notaðir við framningu brots [...] hafa orðið til við brot [eða] með öðrum hætti tengjast framningu brots“.

b. Til vara er krafist upptöku fjárhæðar sem svarar til andvirðis framangreindra muna í heild eða að hluta, sbr. 2. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga.

3. Krafa um upptöku ávinnings

                Samhliða framangreindu er þess krafist samkvæmt 69. gr. almennra hegningarlaga að upptækur verði gerður með dómi ávinningur stefnda af brotum eða fjárhæð sem svarar til hans í heild eða að hluta allt að 5.000.000 króna aðallega, en til vara samkvæmt áætlun, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.

B. Skaðabótakröfur 

1. Miskabótakrafa

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, aðallega að fjárhæð 3.000.000 króna, en til vara að annarri og lægri fjárhæð að mati dómsins, í báðum tilvikum með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá og með 1. janúar 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga, aðallega frá og með 2. maí 2015, en til vara frá og með 24. júní 2015.

2. Krafa um bætur vegna fjártjóns

                Stefnandi krefst skaðabóta úr hendi stefnda vegna fjártjóns, aðallega að fjárhæð 11.097.000 krónur, en til vara 6.097.000 krónur, og til þrautavara lægri bótafjárhæðar að álitum, í öllum tilvikum ásamt dráttarvöxtum samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, aðallega frá og með 2. maí 2015, en til vara frá og með 24. júní 2015.

3. Viðurkenning á bótaábyrgð vegna varanlegrar örorku og varanlegs miska.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri bótaábyrgð vegna varanlegrar örorku og varanlegs miska sem hún hafi hlotið sökum brota hans.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar í öllum tilvikum, auk virðisaukaskatts.

                Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi að öllu leyti eða hluta, til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda og lögmanns hennar sameiginlega.

                Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfu verði hafnað og málið tekið til efnismeðferðar.

I

Atvik málsins eru umdeild. Í stefnu er því lýst að málið varði mynd- og hljóðupptöku af kynlífsathöfnum aðila sem stefndi hafi gert í óleyfi og án vitundar stefnanda aðfaranótt 1. janúar 2013 og birt á internetinu. Myndbandsupptaka sem lýst er í stefnu liggur ekki fyrir í málinu. Stefnandi kveðst hafa fengið vitneskju um upptökuna eftir að hafa fengið sendan tengil á hana frá fyrrverandi kærasta sínum um jól 2014. Í kjölfarið hafi hún leitað til lögmanns síns vegna málsins. Að ráði lögmannsins hafi stefnandi átt fund með stefnda 15. maí sl. þar sem honum hefði verið kynnt hugsanleg sáttaleið í málinu, en þær umleitanir hafi ekki borið árangur. Þann 15. júní 2015 kærði stefnandi stefnda til lögreglu vegna meints brots hans, en rannsókn málsins er ólokið. Við munnlegan málflutning kom fram að stefndi hafi nú verið boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu vegna framangreindrar kæru stefnanda á hendur honum. Stefndi kveður þær sakir sem á hann eru bornar í málinu vera með öllu tilhæfulausar.

II

                Stefndi reisir frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að sakarefni málsins eigi ekki undir dóminn. Í stefnu komi fram að stefnandi telji stefnda hafa brotið gegn henni með þeim hætti að varði við ákvæði 229. gr. og 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo að hún eigi sjálf sókn sakar, en jafnframt þannig að varði við 209. gr. sömu laga og fleiri refsiákvæða. Meint brot stefnda hafi verið kærð til lögreglu, en í því felist krafa um að lögregla rannsaki mál og að kærði verði sóttur til saka. Vísað er til ákvæða laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 þar sem fram komi að rannsókn sakamála sé í höndum lögreglu og að ákærendur taki ákvörðun um saksókn, sbr. 24. gr. og 52. gr. laganna. Mál sem handhafi ákæruvalds höfði til refsingar lögum samkvæmt skuli sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála, sbr. 1. og 2. gr. þeirra laga.

Stefndi bendir á að lög um meðferð einkamála taki til dómsmála sem hvorki sæta sérstakri meðferð eftir fyrirmælum annarra laga né heyri undir sérdómstóla lögum samkvæmt, sbr. 1. gr. laga nr. 91/1991. Sérstaklega hafi verið tekið fram í greinargerð með frumvarpi að lögunum að sakamál falli utan marka þeirra. Samkvæmt 24. gr. laganna beri dómara að vísa máli frá dómi eigi sakarefni ekki undir dómstóla. Stefnda sé borið á brýn brot gegn ýmsum ákvæðum hegningarlaga, sem sum séu sögð á forræði stefnanda sjálfs að sækja en ákæruvaldið eigi sókn sakar vegna annarra. Stefndi byggir annars vegar á því að sakarefni málsins, eins og því er lýst í stefnu, eigi undir 209. gr. almennra hegningarlaga og sé rannsókn og ákvörðun um saksókn því á forræði lögreglu og ákæruvalds. Hins vegar er á því byggt að sama brot, þótt talið sé varða við mismunandi refsilagaákvæði, geti ekki sætt tvöfaldri málsmeðferð, annars vegar í einkarefsimáli og hins vegar í sakamáli. Slíkt myndi jafnframt horfa til stórkostlegra réttarspjalla fyrir stefnanda við þá sakamálarannsókn sem stendur yfir.

                Í öðru lagi er frávísunarkrafa á því byggð að stefna í málinu uppfylli ekki lágmarksskilyrði samkvæmt 80. gr. laga um meðferð einkamála. Krafa stefnanda um upptöku, sbr. lið II.A.2 í stefnu, sé ódómtæk þar sem hún beinist ekki að neinu tilteknu andlagi. Þá sé vísun til 2. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga til stuðnings varakröfu óskiljanleg og ódómtæk. Krafa um upptöku ávinnings sé engum rökum studd og hafi stefnandi engar líkur leitt að því að stefndi hafi haft ávinning af þeirri háttsemi sem honum sé borin á brýn.

                Krafa um bætur vegna fjártjóns, sbr. lið II.B.2 í stefnu, sé jafnframt órökstudd og hafi engar líkur verið leiddar að því að tjón sem lýst er sé sennileg afleiðing hins meinta tjónsverknaðar. Engin gögn hafi verið lögð fram um andlegt eða fjárhagslegt tjón stefnanda. Þá hafi engar líkur verið leiddar að því í málatilbúnaði stefnanda að hún búi við varanlegan miska eða örorku, sbr. lið II.B.3 í stefnu. Því beri að vísa kröfum stefnanda að þessu leyti frá dómi.

                Málið byggi á því að stefndi hafi tekið kynlífsathafnir þeirra stefnanda upp á myndband. Myndband eða skjáskot úr slíkri upptöku hafi ekki verið lögð fram í málinu. Ekkert liggi fyrir um að myndbandið sé til eða að því hafi verið dreift á internetinu. Þá liggi ekkert fyrir um hvort aðilar málsins sjáist á myndbandinu, sé það til. Þannig hafi grundvallargögn málsins ekki verið lögð fram fyrir dóminum og beri að vísa því frá dómi af þeim sökum.

                Loks telur stefndi að stefna sé þannig úr garði gerð að í henni felist skriflegur málflutningur, sem enn fremur geti verið frávísunarástæða.

III

                Stefnandi telur stefnda hafa gert á hlut sinn með refsiverðum og ólögmætum hætti og með því unnið sér til refsingar og skaðabótaábyrgðar. Háttsemi stefnda geti varðað við 209. gr. almennra hegningarlaga, en einnig við 229. gr. og 234. gr. sömu laga og eigi stefnandi sókn sakar vegna síðargreindu brotanna, sbr. 3. tölul. 242. gr. almennra hegningarlaga. Þessi þáttur málsins lúti að því hvort, hvenær og hvernig stefnandi geti leitað réttar síns fyrir dómstólum samkvæmt því. Er til þess vísað að dómari geti frestað meðferð málsins uns rannsókn lögreglu vegna kæru á hendur stefnda um meint brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga verður ráðið til lykta, sbr. 3. mgr. 102. laga um meðferð einkamála. Verði stefndi ákærður í því máli myndi vera unnt að falla frá refsikröfu í einkarefsimálinu sem nú hefur verið höfðað. Þá vísar stefnandi til 25. og 29. gr. almennra hegningarlaga um rétt sinn til málshöfðunar og tímafrests í því sambandi.

                Um meðferð einkarefsimála fari eftir lögum um meðferð einkamála og fari aðilar með forræði málsins samkvæmt því. Málatilbúnaður í stefnu taki mið af því. Stefnandi hafi ekki haft ástæðu til að ætla að bornar yrðu brigður á að stefndi hafi framið þá háttsemi sem lýst er í stefnu eða að hún hafi hlotið tjón þar af. Vísar stefnandi í því sambandi til sáttaumleitana og samskipta aðila á facebook sem átt hafi sér stað áður en til málshöfðunar kom. Í stefnu sé á því byggt að verknaðurinn hafi verið viðurkenndur og telur stefnandi sig búa yfir sönnunargögnum um það. Hún hafi ekki talið nauðsynlegt að leggja fram gögn til að sýna fram á atvik sem þau stefndi væru sammála um. Er jafnframt vísað til g-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála þar sem fram komi að í stefnu skuli greina helstu gögn sem stefnandi hafi til sönnunar.

Loks er því andmælt af hálfu stefnanda að dómkröfur og málatilbúnaður í stefnu séu svo óskýr að stefndi geti ekki tekið til varna í málinu og dómur verði ekki á það lagður. Þannig séu fjárkröfur ítarlegar og sundurliðaðar. Þá megi styðja kröfurnar frekari gögnum við efnismeðferð málsins. 

IV.

                Stefnandi hefur höfðað einkarefsimál á hendur stefnda vegna meintra brota hans gegn 229. gr. og 234. gr., sbr. 3. tölulið 242. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur hún lagt fram kæru hjá lögreglu á hendur stefnda vegna þeirrar háttsemi sem hún sakar hann um og telur jafnframt varða við 209. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 29. gr. almennra hegningarlaga fellur heimild til þess að höfða einkamál til refsingar niður sé mál ekki höfðað áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að sá, sem heimildina hefur, fékk vitneskju um hinn seka. Verður málatilbúnaður stefnanda skilinn svo að málið hafi verið höfðað áður en málshöfðunarfrestur var liðinn, með það fyrir augum að farið verði fram á það við dóminn að því verði frestað samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga um meðferð einkamála, þar til meðferð kærumáls hennar verði ráðið til lykta hjá lögreglu og ákæruvaldi. Verði það mál fellt niður af hálfu ákæruvalds muni reyna á refsikröfu í einkarefsimáli þessu. Gengi sú ráðagerð eftir myndi stefnda gert að sæta málsmeðferð að nýju vegna háttsemi sem ákærandi hefði látið niður falla í öðru máli. Er það niðurstaða dómsins að slík málsmeðferð yrði andstæð meginreglunni „ne bis in idem“, sbr. 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þegar af þeirri ástæðu ber að vísa frá dómi kröfum stefnanda um refsingu og refsikennd viðurlög í máli þessu, sbr. liði II.A.1 og II.A.2 í stefnu.

                Jafnframt er til þess að líta að málsatvik eru mjög umdeild, eins og að framan greinir, og verður að virða málatilbúnað stefnanda í því ljósi. Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að stefndi hafi tekið upp myndband af kynlífsathöfnum þeirra og dreift því opinberlega með því að birta það á internetinu, en stefndi hefur hafnað því. Slíkt myndband hefur ekki verið lagt fram í málinu né heldur önnur gögn sem af verði ráðið hvað komi fram á umræddri upptöku. Þá hafa engin gögn verið lögð fram sem sýna fram á að slíku myndbandi hafi verið dreift á internetinu. Samkvæmt framangreindu hafa hvorki verið lögð fram gögn sem sýna fram á tilvist myndbandsins né dreifingu þess. Þannig hefur stefnandi ekki lagt fram í málinu þau grundvallargögn sem málsókn hennar byggir á. Er það mat dómsins að eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað hafi stefnda verið gert erfitt um vik að halda uppi viðhlítandi vörnum í málinu. Áskilnaður í stefnu um að leggja umrædd gögn fram á síðari stigum málsmeðferðarinnar breytir ekki þeirri niðurstöðu, enda hefur stefndi þegar lagt fram greinargerð sína þar sem varnir hans koma fram.

                Þá skortir talsvert á að dómkröfur stefnanda og málatilbúnaður séu svo skýr sem skyldi. Þannig er óljóst að hvaða munum upptökukrafa, sem í stefnu greinir samkvæmt 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga, beinist og þar með hvaða fjárhæð eigi að leggja til grundvallar varakröfu samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar. Krafa um upptöku ávinnings samkvæmt 69. gr. almennra hegningarlaga er með öllu órökstudd enda verður því ekki fundinn staður í málatilbúnaði stefnanda að stefndi hafi haft ávinning af meintum brotum. Loks eru skaðabótakröfur í málinu vanreifaðar. Stefnandi hefur ekki lagt fram vottorð sálfræðings sem vísað er til í stefnu til stuðnings miskabótakröfu. Þá hafa ekki verið lögð fram gögn til rökstuðnings kröfu um bætur vegna fjártjóns. Krafa um viðurkenningu bótaábyrgðar vegna varanlegrar örorku og varanlegs miska er jafnframt með öllu órökstudd.

                Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að dómkröfur stefnanda um refsingu og refsikennd viðurlög samrýmist ekki grundvallarreglu réttarfars um bann við endurtekinni málsmeðferð vegna refsiverðrar háttsemi. Enn fremur þykja dómkröfur stefnanda í málinu vanreifaðar og málatilbúnaður hennar svo óglöggur og óljós að óhjákvæmilegt er að vísa málinu frá dómi. 

                Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda 150.000 krónur í málskostnað.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, K, greiði stefnda, M, 150.000 krónur í málskostnað.