Hæstiréttur íslands
Mál nr. 469/2005
Lykilorð
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Sekt
- Lagaskil
|
|
Fimmtudaginn 30. mars 2006. |
|
Nr. 469/2005. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn Ólafi Jóni Guðjónssyni (Örn Höskuldsson hrl. Marteinn Másson hdl.) |
Staðgreiðsla opinberra gjalda. Sekt. Lagaskil.
Ó, sem var skráður framkvæmdastjóri M hf., var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslu gjalda af launum starfsmanna félagsins frá janúar til nóvember 2002, sem námu samtals 35.767.994 krónum. Greitt hafði verið inn á skuldina með skuldajöfnuði á endurgreiðslu virðisaukaskatts. Lagt var til grundvallar í málinu að fjárhæð, sem ráðstafað hafði verið til greiðslu álags á vanskilafé, ætti að koma til lækkunar á höfuðstól skuldarinnar. Þá var talið að ekki hefðu komið fram viðhlítandi skýringar á því hvernig ákveðnum hluta af endurgreiddum virðisaukaskatti hefði verið ráðstafað af innheimtumanni. Því hefði ekki verið sýnt fram á að nokkuð hefði staðið eftir ógreitt af skilaskyldri fjárhæð við útgáfu ákæru. Skilyrðum 2. málsl. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sem bætt hafði verið við greinina með lögum nr. 134/2005, til að víkja frá sektarlágmarki 1. málsl. sömu greinar, var talið fullnægt. Með hliðsjón af þeim ástæðum, sem lágu til grundvallar þessari lagabreytingu, þótti brotið ekki meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga og var Ó því ekki ákveðin fangelsisrefsing. Hann var dæmdur til greiðslu sektar í ríkissjóð, sem ákveðin var 3.500.000 krónur, en sæta ella fangelsi í 7 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. október 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig að hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða og fangelsisrefsingu, en að sektarrefsing hans verði milduð.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður og til þrautavara að refsing verði milduð.
I.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2005 var því hafnað að rannsókn málsins hjá lögreglu hafi ekki verið nægileg til þess að unnt hafi verið að henni lokinni að taka ákvörðun um að sækja ákærða til sakar í málinu, sbr. 67. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Verður á það fallist. Ekki þarf, eins og máli þessu er háttað, að taka afstöðu til þess hvort um augljósa mismunun hafi verið að ræða við útgáfu ákæru vegna þess að ákærði var einn ákærður, en ekki ásamt stjórnarformanni Móa hf., svo sem ákærði heldur fram.
II.
Ákærði var skráður framkvæmdastjóri Móa hf., sem stóð fyrir umfangsmikilli alifuglarækt, slátrun og sölu afurða, þar til bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2003. Frá mars 2002 hafði félagið marga starfsmenn í vinnu og bar því að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda þeirra. Á sama tímabili greiddi félagið mun hærri fjárhæð í virðisaukaskatt af aðföngum en nam því, sem félaginu bar að standa skil á vegna sölu afurða sinna. Átti það því rétt á verulegum endurgreiðslum virðisaukaskatts úr ríkissjóði. Samkvæmt gögnum málsins voru gerðar fullnægjandi skilagreinar fyrir staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins frá janúar til nóvember 2002 og var þeim skilað að mestu leyti á réttum tíma, en vegna erfiðrar stöðu félagsins drógust greiðslur fram yfir gjalddaga. Í málinu er ákærði sakaður um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, með því að hafa ekki staðið réttilega skil á samtals 35.767.994 krónum, sem haldið var eftir af launum starfsmanna, annarra en ákærða, á fyrrgreindu tímabili.
Ákæruvaldið miðar við það að samtals 39.964.389 krónur hafi verið greiddar tollstjóranum í Reykjavík vegna þessarar skuldar á tímabilinu frá 1. október 2002 til 20. október 2003 með skuldajöfnuði á endurgreiðslu virðisaukaskatts. Með þeirri fjárhæð hafi greiðst 31.560.934 krónur upp í höfuðstól skuldarinnar, sem ákærði er borinn sökum um að hafa ekki staðið réttilega skil á, 2.202.537 krónur vegna staðgreiðslu opinnberra gjalda ákærða sjálfs á sama tímabili, en mismuninum, 6.200.918 krónum, hafi verið ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta og 10% álags á vanskilafé samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Standi þá eftir ógreidd fjárhæð, sem nemi staðgreiðslu opinberra gjalda annarra starfsmanna félagsins en ákærða vegna nóvember 2002, eða 4.207.060 krónur.
Samkvæmt fordæmum við úrlausn refsimála vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda ber að leggja til grundvallar að innborgunum á slíka skuld verði þar ekki ráðstafað til greiðslu fyrrnefnds álags á vanskilafé eða gjalda þess, sem ákærður er, heldur komi til lækkunar á höfuðstól skuldarinnar og dráttarvaxta af henni. Auk þess hefur ákærði borið því við að ekki hafi verið gerð fullnægjandi grein fyrir 4.195.395 krónum, sem tollstjórinn í Reykjavík hafi ráðstafað af endurgreiðslu virðisaukaskatts til Móa hf. Á því hafa ekki komið fram viðhlítandi skýringar. Að öllu þessu athuguðu þykir ákæruvaldið ekki hafa sýnt fram á að við ákæru hafi staðið eftir ógreitt nokkuð af skilaskyldri fjárhæð, þótt greiðslur frá félaginu hafi allar farið fram löngu eftir gjalddaga samkvæmt 20. gr. laga nr. 45/1987.
III.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta niðurstöðu hans um sakfellingu ákærða. Brot ákærða er í ákæru réttilega heimfært til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995. Ákvæðið hljóðar svo: „Hver sá launagreiðandi sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um staðgreiðsluskil sín, hefur ekki haldið eftir fé af launagreiðslum eins og honum bar, hefur ekki afhent skilagreinar á lögmæltum tíma eða ekki innt af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum bar að halda eftir skal greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem hann vanrækti að halda eftir eða standa skil á og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni nema þyngri refsing liggi við brotinu eftir 247. gr. almennra hegningarlaga. Álag skv. 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.” Með lögum nr. 134/2005 var nýjum málslið bætt við þetta ákvæði. Málsliðurinn hljóðar svo: „Fésektarlágmark samkvæmt þessari málsgrein á ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu samkvæmt skilagrein staðgreiðslu, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar.” Af athugasemdum, er fylgdu upphaflegu lagafrumvarpi sem leiddi til þessarar breytingar á ákvæðinu, má ráða að hún hafi verið gerð sökum þess að rétt hafi þótt að gera greinarmun á viðurlögum vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem rakin verði til greiðsluerfiðleika, og öðrum brotum sem 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 tekur til.
Að framan er því lýst að réttar skilagreinar fyrir afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna Móa hf. bárust yfirvöldum á réttum tíma með óverulegum frávikum. Ósannað er að ákærði hafi auðgast sjálfur af vanskilum á gjöldunum. Þá hefur því verið lýst að ósannað sé annað en að fyrir útgáfu ákæru hafi verið staðin skil á þeim fjárhæðum, sem hún tekur til. Hinn nýi málsliður 2. mgr. 30 gr. laga nr. 45/1987 á því við um ákærða. Samkvæmt 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber, hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn og til þess er dómur gengur, að dæma eftir nýrri löggjöf bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Gildir því fésektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 ekki um mál þetta. Af þeim ástæðum, sem bjuggu að baki setningu laga nr. 134/2005, verður ekki annað ráðið en að löggjafinn líti svo á að brot, sem sé hagað á þann hátt sem hér er, séu ekki meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærða því ekki ákveðin fangelsisrefsing. Rétt er hins vegar að hann verði dæmdur til sektar samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sem er hæfilega ákveðin 3.500.000 krónur, og ber honum að greiða hana innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja, en sæta ella fangelsi í 7 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun á báðum dómstigum, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ólafur Jón Guðjónsson, greiði 3.500.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 7 mánuði.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, 426.421 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 399.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2005.
Mál þetta var höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, dagsettri 22. desember sl., á hendur, Ólafi Jón Guðjónssyni, Móum, Reykjavík, [...] ,,fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Móa hf. fuglabús, kt. 440788-1229, sem úrskurðað var gjaldþrota 5. nóvember 2003, eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna Móa hf. á árinu 2002 samtals að fjárhæð kr. 36.767.994 og sundurliðast sem hér segir:
Greiðslutímabil:
|
Árið 2002 |
|
|
Janúar |
kr. 640.610 |
|
Febrúar |
kr. 516.609 |
|
Mars |
kr. 4.014.325 |
|
Apríl |
kr. 4.126.664 |
|
Maí |
kr. 3.617.027 |
|
Júní |
kr. 3.787.587 |
|
Júlí |
kr. 3.714.292 |
|
Ágúst |
kr. 3.888.687 |
|
September |
kr. 3.768.326 |
|
Október |
kr. 3.486.807 |
|
Nóvember |
kr. 4.207.060 |
|
Samtals: |
kr. 35.767.994 |
Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.”
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara sýknu af kröfum ákæruvalds. Til þrautavara krefst ákærði þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik.
Með kæru skattrannsóknarstjóra ríkisins frá 6. september 2004 var vísað til opinberrar rannsóknar máli vegna meintra brota kærðu, A og Ólafs Jóns Guðjónssonar, vegna skattaðilans Móa hf. fuglabús. Málið var sent á grundvelli fyrirliggjandi gagna um rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á staðgreiðsluskilum Móa hf., fuglabús, en bú Móa hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. nóvember 2003. Tilefni rannsóknar skattrannsóknarstjóra á skattskilum Móa hf. fuglabús var athugun skattrannsóknarstjóra ríkisins á skilum á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda. Formlega hófst rannsóknin 8. janúar 2004 með því að tilkynning var send skiptastjóra í þrotabúi skattaðilans þess efnis að rannsókn væri hafin á skilum skattaðilans á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna áranna 2002 og 2003. Við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sögðu fyrrum fyrirsvarsmenn skattaðilans að breyting hefði orðið á stjórn skattaðilans um vorið 2003, eða í júlí það sama ár. Hefðu breytingar ekki verið tilkynntar til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra. Samkvæmt þeim breytingum var A skráður stjórnarformaður skattaðilans með prókúruumboð, Ólafur Jón Guðjónsson skráður meðstjórnandi og framkvæmdastjóri með prókúruumboð, B skráður meðstjórnandi og C skráður prókúruhafi.
Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra kvaðst A ekki hafa séð um daglegan rekstur skattaðilans, heldur hafi ákærði, Ólafur Jón Guðjónsson, séð um daglegan rekstur. Ákærði kvaðst við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hafa séð um daglegan rekstur skattaðilans. Þá báru þeir B og [...] hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að ákærði og B hefðu stjórnað daglegum rekstri skattaðilans.
Í lögregluyfirheyrslu 21. október 2004 kvað ákærði að hann hefði verið framkvæmdastjóri félagsins á tímabilinu janúar til og með 16. desember 2002 og staðfesti ákærði þetta fyrir dómi.
Þá var haft eftir ákærða við sömu yfirheyrslu að hann hefði sjálfur sem framkvæmdastjóri borið ábyrgð á daglegri fjármálastjórn rekstrarins á tímabilinu janúar til og með 16. desember 2002. Ákærði var jafnframt spurður að því hvort og með hvaða hætti stjórn félagsins hefði sem slík komið að ákvörðunum varðandi skil afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda,vegna janúar til og með nóvember 2002, og kvað þá ákærði að stjórn félagsins hefði ekki komið að neinum ákvörðunum í þessu efni, hvorki stjórnin sem slík né einstakir stjórnarmenn.
Þá kvaðst ákærði ekki rengja tölulegar niðurstöður varðandi afdregna staðgreiðslu, að því gefnu að þær væru í samræmi við þau gögn sem lægju fyrir hjá lögreglu.
Fram hefur komið í málinu að skýrslum var skilað á réttum tíma um hina afdregnu staðgreiðslu og einnig að eftir eindaga viðkomandi tímabila var greidd staðgreiðsla opinberra gjalda ásamt álagi, dráttarvöxtum og kostnaði, samtals 39.964.389 krónur.
Ákærði krafðist frávísunar málsins frá dómi, en með úrskurði dómsins frá 16. júní 2005 var frávísunarkröfu hans hafnað.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi
Ákærði kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í Móum hf., á þeim tíma er ákæra tekur til. Spurður um afskipti sín af skattskilum fyrir félagið á þessum tíma, kvað ákærði þau hafa verið nánast engin. Ákærði kvað fjármálastjóra hafa annast skýrslugerð og að greiðslur til skattyfirvalda hefðu verið í höndum fjármálastjóra í samráði við skrifstofumann. Ákærði kvaðst hafa verið yfirmaður fjármálastjórans. Ákærði kvaðst telja að skýrslur þær sem liggja frammi í málinu um skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda væru rétt unnar. Ákærði kvaðst ekki hafa haft eftirlit með vinnu við skilagreinarnar. Ákærði kvaðst ekki hafa fylgst með stöðu skattskila á þessum tíma, en honum hafi verið kunnugt um að vanskil væru fyrir hendi. Ákærði kvaðst ekki hafa talið í sínum verkahring, sem framkvæmdastjóri, að hafa umsjón með skattskilunum. Ákærði kvað skýringu á því að greiðslum væri skilað of seint, vera fjárskort. Ákærði kvað að sér hafi verið kunnugt um það töluvert fyrir það tímabil sem getið er í ákæru, að staðgreiðsla var ekki greidd á réttum tíma. Hann kvað þá venju hafa myndast að tollstjóri millifærði virðisaukaskattsinneign á móti staðgreiðslu skatta og kvaðst hafa talið að það hefði verið gert. Ákærði kvað að stjórninni hefði verið kunnugt um að vanskil væru á staðgreiðslu opinberra gjalda. Ákærði kvað að stjórn félagsins hafi tekið ákvörðun um hvað væri greitt og hvað ekki, þar með talið opinber gjöld. Á þessum tíma hafi einnig verið rætt um að fá nýtt fé inn í félagið og það hafi átt að vera forgangsverkefni að koma skattgreiðslum í skil. Í tilefni þessa framburðar ákærða var borin undir hann skýrsla sem ákærði gaf hjá lögreglu, þar sem ákærði kvaðst sjálfur hafa borið ábyrgð á daglegri fjármálastjórn á tímabilinu janúar til og með 16. desember 2002 og að stjórn félagsins hefði ekki komið að neinum ákvörðunum varðandi skil afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launum launþega vegna þeirra tímabila sem hér eru til umfjöllunar. Ákærði kvað skýringu á þessum framburði vera þá að hann hafi litið svo á að hann bæri fulla ábyrgð á fyrirtækinu, og það hafi líklega verið það sem hann hefði haft í huga. Ákærði kvað að stjórninni hefði verið kunnugt um að vanskil væru til staðar, en hún hefði ekki tekið ákvörðun um að vanskilin skyldu ekki greidd. Ákærði kvað stjórnarfundi hafa verið haldna a.m.k vikulega. Ákærði kvaðst hafa haft starfsaðstöðu á sama stað og fjármálastjóri félagsins á þeim tíma er ákæra tekur til. Ákærði kvað verksvið sitt sem framkvæmdastjóri hafa verið umsjón með búunum. Ákærði kvaðst aldrei hafa gefið fyrirmæli um að ekki skyldi greiða staðgreiðslu. Stjórnarformaður hefði haft afskipti af daglegum rekstri fyrirtækisins.
Vitnið, C, kvaðst hafa verið fjármálastjóri Móa hf. og hafið störf hjá fyrirtækinu í febrúar 2002. Hann hafi séð um bókhald og greiðslu reikninga. Vitnið kvað ákærða ekki hafa séð um fjármál félagsins. Vitnið hafi litið á ákærða sem verkstjóra á búunum í Móastöðinni. Ákærði hafi ekki haft mikil afskipti af fjármálum félagsins. Stjórnarformaður hafi haft afskipti af fjármálum félagsins, en þó ekki afskipti af daglegum rekstri þess. Þó hafi hann haft meiri afskipti af rekstri félagsins en ákærði. Vitnið kvaðst hafa ritað fundargerðir félagsins. Vitnið kvaðst ekki muna hvort það hefði fengið fyrirmæli frá ákærða um að greiða ekki staðgreiðslu, en vitnið kvað ákærða ekki hafa verið mikið að skipta sér af fjármálum félagsins. Vitnið kvað að stjórnarformaður hefði á þessum tíma rætt um að nýtt hlutafé væri væntanlegt í félagið. Vitnið kvað rétt að innskattur félagsins hefði verið notaður til að greiða staðgreiðsluna. Vitnið kvað framkvæmdastjóra félagsins hafa verið yfirmann vitnisins. Vitnið kvað allar skýrslur hafa verið sendar á réttum tíma til skattyfirvalda og hafi vitnið gert athugasemdir við ákærða og stjórnarformann og vakið athygli á að ekki væru til peningar fyrir staðgreiðslu skatta. Hafi stjórnarformaður upplýst vitnið um að peningar væru á leiðinni. Vitnið kvað staðgreiðsluskýrslur réttar samkvæmt bókhaldi félagsins.
Niðurstaða.
Neitun á sakargiftum hefur ákærði byggt á því að hann hafi ekki borið ábyrgð á fjármálum félagsins og engin afskipti haft af þeim. Starf hans sem framkvæmdastjóri félagsins hafi að mestu verið fólgið í umsjón með búum fyrirtækisins. Þá hefur ákærði haldið því fram að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað, áður en ákæra var gefin út, þar sem hvorki hafi verið tekin skýrsla af fjármálastjóra félagsins né stjórnarformanni.
Af gögnum málsins og framburði ákærða sjálfs fyrir dómi verður ráðið að ákærði var framkvæmdastjóri Móa hf. fuglabús á þeim tíma er ákæra tekur til. Við yfirheyrslur hjá lögreglu 21. október 2004, bar hann að hann hefði sjálfur sem framkvæmdastjóri borið ábyrgð á daglegri fjármálastjórn rekstrarins á tímabilinu janúar til og með 16. desember 2002. Þá kvað ákærði jafnframt að stjórn félagsins hefði ekki komið að neinum ákvörðunum í þessu efni, hvorki stjórnin sem slík né einstakir stjórnarmenn. Þessum framburði fyrir lögreglu breytti ákærði að hluta til fyrir dómi en kvað jafnframt að hann hefði talið að hann hefði borið fulla ábyrgð á fyrirtækinu.
Hann hafði og starfsaðstöðu á sama stað og fjármálastjóri félagsins og var yfirmaður hans. Þá bar ákærði fyrir dómi að skýrslur þær sem liggja frammi í málinu um skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda væru rétt unnar og kvað að sér hefði verið kunnugt um það töluvert fyrir þann tíma er ákæra tekur til, að afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda væri ekki greidd á réttum tíma. Það kom einnig fram í skýrslugjöf fjármálastjóra félagsins, C, fyrir dómi, að ákærða hefði verið tilkynnt um að ekki væri til nægjanlegt fé til skila á afdreginni staðgreiðslu.
Þegar allt framangreint er virt er ekki fallist á að rannsókn málsins hafi verið ábótavant, þótt ekki hafi verið tekin skýrsla hjá lögreglu af fjármálastjóra félagsins eða stjórnarformanni.
Ekki verður fram hjá því horft að ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og stjórnarmaður í félaginu, á þeim tíma er ákæra tekur til, vissi af því að staðgreiðsla opinberra gjalda var ekki greidd á réttum tíma og að undir hann heyrði fjármálastjóri félagsins, sem hafði tjáð ákærða að ekki væri handbært nægjanlegt fé til skila á afdreginni staðgreiðslu. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á meðferð fjármuna félagsins og að skattskil þess séu með löglegum hætti og verður ákærði að bera á því refsiábyrgð ef ekki eru staðin lögmælt skil á gjöldum, hvort sem fyrirmæli um að gjöldin skyldi ekki greiða komu frá ákærða eða einhverjum öðrum í stjórn félagsins. Ákærði hefur því, með þeirri háttsemi sem í ákæru er lýst, gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir og með því brotið gegn þeim lagaákvæðum sem tilgreind eru í ákæru.
Refsiákvörðun.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki sætt refsingu svo vitað sé. Brot ákærða teljast meiriháttar og hefur hann því unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998. Fyrir liggur í málinu að af hálfu Móa hf. fuglabús, voru greiddar eftir eindaga samtals 39.964.389 krónur inn á staðgreiðsluskuld félagsins. Hefur það veruleg áhrif á ákvörðun refsingar ákærða, sem að þessu virtu er ákveðin fangelsi í 2 mánuði. Rétt er að fresta fullnustu refsingar ákærða skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Fjárhæðin sem ákærði er sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á, nemur 35.767.994 krónum, en við munnlegan málflutning málsins taldi ákæruvaldið að við ákvörðun refsingar væri rétt að draga frá sektarfjárhæð 10% álag á höfuðstól, samkvæmt 28. gr. laga nr. 45/1987, sem næmi um 3.600.000 króna. Með vísan til þessa er fallist á að draga beri álagið frá sektinni. Í málinu þykja ekki vera fyrir hendi þær aðstæður að unnt sé að fara niður fyrir refsilágmark, sbr. 8. tl. 74. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði verður því með vísan til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, samhliða skilorðsbundinni refsivist, dæmdur til greiðslu sektar sem þykir hæfilega ákveðin 68 milljónir króna, sem ákærði skal greiða innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæta ella fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til vinnu verjanda á rannsóknarstigi.
Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Ólafur Jón Guðjónsson, sæti fangelsi í 2 mánuði, en frestað er fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 68.000.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.