Hæstiréttur íslands

Mál nr. 117/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Bráðabirgðaforsjá
  • Umgengni


Föstudaginn 8

 

Föstudaginn 8. apríl 2005.

Nr. 117/2005.

M

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

gegn

K

(Ólafur Garðarsson hrl.)

 

Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengnisréttur.

M og K deildu um forsjá sonar þeirra til bráðabirgða og umgengni við hann. Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms um að K færi með forsjá drengsins á meðan á rekstri málsins stæði, en M fór áður með forsjána. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um umgengnisrétt M við drenginn.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 15. mars 2005, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um forsjá sonar þeirra til bráðabirgða og umgengni við hann. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um bráðabirgðaforsjá barnsins. Þá krefst hann þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í málflutningi varnaraðila fyrir Hæstarétti er enn haldið fram ýmsum ávirðingum á hendur sóknaraðila og vísað til ábendinga sem borist hafi barnaverndarnefnd í því sambandi. Umræddar ávirðingar eru með öllu ósannaðar og geta engin áhrif haft á niðurstöðu málsins. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 15. mars 2005.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 3. þ.m.  Það barst embættinu 26. janúar sl. og fékk númerið B-1/2005 í málaskrá, en var sameinað þessu, sem stefnandi höfðar til að fá forsjá drengsins A við þingfestingu þess 2. febrúar sl.

Stefnandi, K, krefst þess í þessum þætti málsins að sér verði falin til bráðabirgða forsjá drengsins A, sonar síns og stefnda, M.  Þá krefst hún þess að dómurinn ákveði meðlag og inntak umgengnisréttar þess aðila sem ekki fær forsjá til bráðabirgða.  Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess að kröfu stefnanda um forsjá til bráðabirgða verði hrundið.  Þá krefst hann þess að dómurinn hafni því að kveða á um umgengni.  Einnig krefst hann málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

I.

Málsaðilar slitu sambúð 8. ágúst árið 2001.  Saman eiga þau drenginn A, f. [...] 1992.  Með úrskurði 25. febrúar 2002 ákvað dómsmálaráðuneytið að stefndi skyldi fara með forsjá hans.

Drengurinn dvaldi hjá móður sinni í síðasta jólaleyfi og fram yfir áramót, en þá átti hann að fara heim til Z-bæjar á ný.  Af því varð ekki og dvelur hann ennþá hjá móður sinni.  Þann 15. febrúar sl. úrskurðaði Héraðsdómur Vesturlands að stefnda væri heimilt að fá drenginn tekinn úr umráðum stefnanda og afhentan sér með beinni aðfarargerð.  Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar Íslands, en dómur hefur ekki gengið þar eftir því sem best er vitað.  Sýslumaðurinn í Y-bæ byrjaði aðför til að fullnægja úrskurðinum þann 23. febrúar sl., en ákvað að fresta gerðinni uns niðurstaða Hæstaréttar lægi fyrir.

Í þessum þætti málsins byggir stefnandi á því að drengnum hafi liðið illa frá því að stefndi fékk forsjá hans með úrskurði dómsmálaráðuneytisins.  Hafi hann orðið fyrir einelti í skóla og auk þess sinni stefndi, sem vinni mikið, foreldrishlutverki sínu ekki á fullnægjandi hátt.  Telji hún beinlínis hættulegt að drengurinn búi áfram við slíkar aðstæður einangrunar og vonleysis og geti hún ekki setið hjá aðgerðalaus, þegar málum sé svo komið.  Hann dvelji nú hjá sér í Y-bæ og stundi nám í grunnskólanum þar.  Hafi hann þegar eignast vini og líki námið vel.  Þá hafi hann byrjað nám í tónlistarskólanum þar og stundi gítarnám og hafi skráð sig í nánar greint íþróttafélag.  Stefnandi búi við góðar aðstæður og sé gift manni, sem sé í góðu sambandi við drenginn og styðji stefnanda eindregið í forsjármálinu.  Finni drengurinn hlýju og öryggi á heimilinu og líði þar vel.  Þótt hann beri engan kala til stefnda hafni hann því alfarið að búa hjá honum áfram.

Stefndi telur enga þá breytingu hafa orðið á högum sínum að ástæða sé til að breyta þeirri skipan á forsjá drengsins sem dómsmálaráðuneytið ákvað, hvað þá að nauðsynlegt sé að kveða á um bráðabirgðaforsjá, sem aftur gæti breyst við endanlega niðurstöðu í þessu máli.  Slík málsmeðferð og hugsanleg ítrekuð breyting á forsjánni, fari augljóslega gegn hagsmunum drengsins, sem sé á þeim aldri sem nauðsynlegt sé að stöðugleiki sé í lífi einstaklinga.  Stefndi segir að drengurinn hafi gengið gegnum erfiðleika, en hann sé hættur að lenda í útistöðum við skólafélaga og markviss vinna við að bæta ástandið virðist vera að skila sér.  Hann hafi stundað nám við Tónlistarskólann í Z-bæ með góðum árangri. Þá hafi hann æft körfubolta af kappi og tekið miklum framförum.  Hafi þessi vinna stórbætt líðan hans og telur stefndi slæmt að stefnandi skuli hafa stöðvað þessa vinnu og í raun komið í veg fyrir enn meiri árangur þegar hún hafi ákveðið að senda hann ekki til stefnda í byrjun janúar sl.  Geti það ekki þjónað hagsmunum hans að koma á slíku uppnámi sem krafa um forsjá til bráðabirgða og höfðun forsjármáls feli í sér.  Mótmælir stefndi því alveg sérstaklega að drengurinn búi ekki við fullnægjandi aðstæður hjá sér.

II.

Snjólaug Birgisdóttir félagsfræðingur ritaði umsögn um hagi og aðstæður aðila þessa máls þann 29. nóvember 2001.  Þar kemur fram að það sé afstaða drengsins að hann vilji búa hjá móður sinni, en halda áfram að hitta föður sinn.  Spurður um ástæðu hafi hann sagt að það væri vegna þess að faðir sinn væri strangur og að hann þyrði ekki að óhlýðnast honum, en það væri honum mun auðveldara að suða eða komast upp með hluti hjá móður.  Spurður um fleiri ástæður hafi hann sagt þær engar vera.  Snjólaug tekur fram að er hún hafi farið á heimili aðila hafi drengurinn augljóslega borið meiri virðingu fyrir föður sínum en móður, eftir framkomu hans við þau að dæma.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                       

Í málinu liggur frammi skýrsla Jóhanns B. Loftssonar sálfræðings um viðtal við drenginn 8. janúar sl.  Segir þar að drengurinn beri greinilega góðar tilfinningar til beggja foreldra sinna og ekki sé að heyra að hann sé á nokkurn hátt að flýja heimili föður síns vegna þess að honum líði þar illa.  Það sem virðist vega þyngst í ákvörðun hans um að vilja flytjast til móður sinnar virðist vera að hann telji sig geta eignast eða eiga betri vini í Y-bæ  og virðist telja að skólinn þar verði skemmtilegri.  Segir í niðurstöðum Jóhanns að drengurinn virðist alveg ákveðinn í að vilja flytja lögheimili sitt til móðurinnar, en ákvörðun hans virðist byggjast á fremur léttvægum atriðum, það sé að segja mest á vonum um félagslega betri stöðu, en ekki á mismunandi tilfinningatengslum við foreldrana.  Hann búi í Z-bæ við agaðar þekktar aðstæður sem virðist góðar að því er best verði séð, en vilji flytja í aðstæður þar sem sé fremur óljóst hvernig hann muni skjóta rótum félagslega.

Í framangreindum úrskurði Héraðsdóms Vesturlands er rakið að dómari þar hafi átt fund með drengnum.  Hafi komið þar fram að hann vildi dvelja hjá stefnanda.  Um ástæðu þess hafi hann sagt að félagsleg staða sín væri betri í Y-bæ en í Z-bæ.  Auk þess hafi komið fram hjá honum að stefndi vinni mikið og hafi því ekki rúman tíma til að sinna honum.

Samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumannsins í Y-bæ 23. febrúar 2005 ræddi fulltrúi barnaverndarnefndar við drenginn í um hálfa klukkustund og síðan ræddi sýslumaður við drenginn í viðurvist fulltrúans, áður en ákvörðun var tekin um að drengurinn færi með lögreglu vestur á firði til móts við stefnda.  Segir síðan að er drengnum hafi verið kynnt þessi ákvörðun hafi orðið ljóst að hann myndi ekki fara sjálfviljugur og var ákvörðunin þá afturkölluð. 

III.

Í framangreindri umsögn Snjólaugar Birgisdóttur kemur fram að drengnum, sem þá var í 4. bekk grunnskóla, gengi vel nám, en hann stæði höllum fæti félagslega og hefði sætt einelti.  Samkvæmt vottorði aðstoðarskólastjóra Grunnskólans í Z-bæ, dags. 24. janúar sl., er félagsleg staða drengsins ekki eins og best verður á kosið, en hefur lagast mikið á síðustu árum.  Hann eigi að vísu ekki fastan vin í skólanum, en sé samt sem áður nokkuð virkur í nemendahópi og virðist ekki vera útundan á skólatíma og árekstrar við skólafélaga séu orðnir afar fátíðir.  Samskipti við stefnda hafi verið jákvæð að öllu leyti.  Mæti hann á fundi sem skólinn boði til og taki þátt í skólastarfi eins og ætlast sé til.

Samkvæmt vottorði skólastjóra Tónlistarskóla Z-bæjar hefur drengurinn lagt stund á gítarnám, verið virkur nemandi og stundað námið vel og notið mikils stuðnings stefnda.

Í málinu liggur frammi yfirlýsing aðstoðarþjálfara 7. flokks drengja hjá Körfuknattleiksfélagi Z-bæjar, þar sem fram kemur að drengurinn æfi íþróttina og keppi í henni.  Kveðst hann vita til þess að drengurinn hafi myndað vinatengsl við leikmenn og leikið við þá utan æfingatíma.  Vel sé fylgst með eineltismálum og ekki orðið vart við slíkt í þessum flokki.  Þá er tekið fram að stefndi hafi tekið afar virkan þátt í foreldrastarfi.

Lögð hefur verið fram yfirlýsing skólastjóra Grunnskólans í Y-bæ, dags 28. janúar sl.  Þar er rakið að drengurinn hafi komið í skólann 12. febrúar sl. (svo!).  Eðlilega sé ekki komin mikil reynsla á samskipti en þau hafi gengið vel.  Drengurinn sé kurteis, hlýðinn og ástundunarsamur.  Hinum börnunum þyki hann skemmtilegur og hann falli vel inn í hópinn.  Virðist honum líða vel í skólanum. 

Einnig hefur verið lögð fram yfirlýsing umsjónarkennara drengsins við nefndan skóla, dagsett 26. febrúar sl., þar sem kemur fram að drengurinn sé kurteis og prúður og sýni því áhuga að standa sig vel í skóla, bæði hvað varðar nám og félagslíf.  Hann sé glaðlyndur og gæddur miklum frásagnarhæfileikum.  Megi segja að hann hafi samlagast hópnum fljótlega og vel.  Hafi hann sjálfur lýst því að honum líði vel í þessu samfélagi, utan sem innan skóla.

IV.

Er framangreind umsögn Snjólaugar Birgisdóttur var rituð, bjó stefnandi ásamt drengnum í leiguhúsnæði, sem lýst er svo að hafi verið mjög fábrotið, en stílhreint og þrifalegt. Hún starfaði sem fiskvinnslumaður. Foreldrar hennar og þrjú systkini bjuggu í [...] og hafði hún gott samband við þau.

Stefndi bjó samkvæmt sömu umsögn í fyrri íbúð þeirra stefnanda.  Hann gegndi starfi innkaupastjóra, vann einstöku sinnum við kvikmyndasýningar og starfaði sem barþjónn.  Hann kvaðst hafa unnið afar mikið, en vera farinn að draga verulega úr því.

Samkvæmt því sem fyrir liggur býr stefnandi nú í Y-bæ hjá núverandi eiginmanni sínum og starfar þar í mjólkursamlaginu.  Liggja frammi jákvæðar umsagnir vinnuveitenda beggja hjónanna um þau og einnig umsögn sóknarprestsins í Y-bæ, sem þekkir þau að góðu einu.

Stefndi mun enn vera einhleypur. Hann starfar nú sem lager- og vörustjóri hjá byggingaverktakafyrirtæki í Z-bæ.  Liggur fyrir umsögn vinnuveitanda hans þess efnis að hann sé stundvís og áreiðanlegur í alla staði.  Tekið er fram að rekin sé fjölskylduvæn stefna innan fyrirtækisins og hafi stefndi fengið að sinna erindum vegna fjölskyldu sinnar.  Hafi það helst komið til ef sonur hans hafi veikst, eða stefndi þurft að fylgja honum í keppnisferðir til Reykjavíkur.

V.

Samkvæmt gögnum sem stefnandi aflaði frá barnaverndarnefnd á norðanverðum Vestfjörðum bárust þrjár barnaverndartilkynningar vegna drengsins árið 2003.  Könnun starfsmanns nefndarinnar leiddi ekki til neinna aðgerða.  Starfsmaður nefndarinnar ræddi einslega við drenginn 3. mars 2004.  Lýsti hann góðri líðan í skóla og góðu sambandi við föður sinn. Þá tók hann fram að hann ætti þrjá góða vini.  Þó nefndi hann að hann yrði fyrir einhverri stríðni í skóla.  Hann kvaðst ekki vera mikið einn heima á kvöldin og guðfaðir sinn væri hjá sér ef faðir hans væri að vinna.

VI.

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 76/2003 ber að úrskurða um forsjá til bráðabirgða eftir því sem barni er fyrir bestu.  Af sjálfu leiðir að mat á því byggist á ófullkomnari gögnum en væntanlega munu liggja fyrir er efnisdómur verður kveðinn upp.  Dómari er óbundinn af bráðabirgðaákvörðun sinni við endanlega úrlausn málsins.

Hér að framan er rakið það sem fyrir liggur um afstöðu drengsins.  Ljóst er að hann vill eindregið búa hjá móður sinni og eiginmanni hennar.  Ástæða þess hefur ekki verið könnuð til hlítar og dómari hefur enn sem komið er ekki rætt við hann sjálfur.  Af því sem fyrir liggur verður ekki ályktað að eindreginn vilji hans sé til kominn vegna þess að það valdi honum vanlíðan að búa hjá föður sínum eða að félagsleg staða hans í Z-bæ sé slæm.

Eins og málið liggur fyrir verður ekki öðru slegið föstu en að drengurinn eigi gott samband við báða foreldra sína og búi við gott atlæti hjá báðum.  Fyrir liggur að hann átti áður við félagslega erfiðleika að stríða í Z-bæ, en af framkomnum gögnum verður að álykta að það hafi breyst mjög til batnaðar.

Ekki er komin mikil reynsla á það hvernig félagsleg staða drengsins þróast í Y-bæ, en líta verður til þess að umsögn umsjónarkennara hans þar um er afar jákvæð. Fyrir liggur að hann hefur byrjað nám í tónlistarskólanum þar og byrjað æfingar með [...], en verður á móti væntanlega að hætta að æfa körfuknattleik.

Drengurinn hefur nú dvalið hjá móður sinni í rúma tvo mánuði framyfir jólaleyfi.  Til þessarar dvalar eftir jólaleyfið var stofnað með hætti sem ekki verður talinn heppilegur.  Dómari telur sér þó ekki heimilt að líta sérstaklega til þess atriðis við þessa úrlausn, heldur verður að miða við aðstæður drengsins eins og þær eru nú eftir því sem upplýst er um þær.

Eftir því sem fyrir liggur virðist skólaganga drengsins og félagsleg aðlögun í Y-bæ hafa farið vel af stað.  Ekki er unnt að leggja raunhæft mat á það á þessu stigi hvort á það kunni að skorta að stefnandi veiti honum nægilegt aðhald og festu.

Þrátt fyrir það með hvaða hætti stofnaðist til núverandi ástands verður að horfa til þess að það hefur nú þegar varað það lengi að ekki verður talið að öllu leyti heppilegt að raska því á þessu stigi, þegar horft er til skólagöngu drengsins, en hann hefur þegar skipt um skóla og yrði að gera það á ný áður en skólaárið er úti ef því verður aflétt.  Þá kann að vera hætta á að nú þegar séu félagsleg tengsl hans í Z-bæ búin að veikjast að einhverju marki, jafnvel svo að ekki breyti mjög miklu um styrkingu þeirra á ný hvort hann verður fjarverandi eitthvað áfram, en ný tengsl sem hann kann að vera farinn að mynda í Y-bæ eru hugsanlega á viðkvæmu stigi.  Standa þannig viss rök til þess að minni áhætta sé í því fólgin fyrir hann að framlengja það bráðabirgðaástand sem þegar er komið á, en að afnema það eins og er, hvers efnis sem endanleg niðurstaða um forsjá hans verður.  Þegar þetta er virt saman við eindreginn vilja drengsins til að dvelja áfram hjá stefnanda verður sá kostur tekinn að ákveða að hún fái forsjá hans til bráðabirgða meðan þetta mál er rekið.

Eftir þessari niðurstöðu verður að fallast á kröfu stefnanda um að stefndi greiði henni meðlag með drengnum meðan bráðabirgðaforsjáin varir.

Rétt þykir að fallast á kröfu stefnanda um að kveða á um umgengni stefnda við drenginn á sama tíma, þótt stefndi hafi mótmælt því að svo yrði gert.  Æskilegt er að drengurinn njóti sem mestrar umgengni við stefnda á þessum tíma og rétt er að taka fram að aðilar geta ávallt hagrætt umgengninni með samkomulagi sín á milli, enda hafi þau hagsmuni drengsins þar að leiðarljósi.  Við ákvörðun um umgengni verður að taka tillit til þess að óhjákvæmilega fer nokkur tími í ferðalög.

Drengurinn skal dvelja hjá stefnda í komandi páskaleyfi, þannig að hann fari til hans á mánudaginn kemur, en til baka til stefnanda á 2. í páskum.  Eftir það skal hann dvelja hjá stefnda þriðju hverja helgi þaðan í frá, þannig að hann fari til hans að loknum skóla á föstudögum en komi aftur til stefnanda síðdegis á sunnudögum.  Þó skal í stað helgarinnar 6.-8. maí nk. koma hvítasunnuhelgin og fari drengurinn þá til stefnanda á 2. í hvítasunnu.  Í sumarleyfinu skal drengurinn dvelja hjá stefnda frá byrjun þess til 22. júlí, en þó hjá stefnanda síðustu helgina í júní.  Þá skal hann dvelja hjá stefnda næstsíðustu helgi fyrir byrjun skólagöngu næsta haust, standi bráða­birgða­niður­staðan þá enn, og þriðju hverja helgi upp frá því.  Ekki verður kveðið á um umgengni um næstu jól og áramót þar sem ólíklegt er að málið dragist svo á langinn.

Málskostnaður verður ákveðinn í einu lagi í endanlegri niðurstöðu og þessi þáttur málsins þá hafður í huga.

Úrskurð þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Úrskurðarorð:

Stefnandi, K, skal fara með forsjá drengsins A, frá uppkvaðningu þessa úrskurðar uns dómur gengur í máli þessu.

Stefndi, M, greiði stefnanda á sama tíma einfalt meðlag með drengnum.

Drengurinn skal dvelja hjá stefnda í komandi páskaleyfi, þannig að hann fari til hans á mánudaginn kemur, en til baka til stefnanda á 2. í páskum.  Eftir það skal hann dvelja hjá stefnda þriðju hverja helgi þaðan í frá, þannig að hann fari til hans að loknum skóla á föstudögum en komi aftur til stefnanda síðdegis á sunnudögum.  Þó skal í stað helgarinnar 6.-8. maí n.k. koma hvítasunnuhelgin og fari drengurinn þá til stefnanda á 2. í hvítasunnu.  Í sumarleyfi skal drengurinn dvelja hjá stefnda frá byrjun þess til 22. júlí, en þó hjá stefnanda síðustu helgina í júní.  Þá skal hann dvelja hjá stefnda næstsíðustu helgi fyrir byrjun skólagöngu næsta haust og þriðju hverja helgi upp frá því. 

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.